Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2006


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Fæðingarorlof


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2006.

Nr. 199/2006.

Guðný Laxdal Helgadóttir

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Ingvari Helgasyni ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn. Fæðingarorlof.

G, sem gegndi starfi bókara hjá I, var í fæðingarorlofi í 13 mánuði. Átti hún að hefja störf að nýju 1. febrúar 2005. Á þeim tíma sem G var í leyfi urðu eigendaskipti að fyrirtækinu og voru gerðar almennar breytingar á því starfssviði sem G vann áður við. G taldi sökum þessa að starf hennar væri ekki lengur til og ætti hún því rétt á launum í uppsagnarfresti í þrjá mánuði án þess að þurfa að mæta til vinnu þann tíma. Í málinu lá fyrir að I hafði boðið G að byrja í nýju starfi hjá fyrirtækinu sem gjaldkeri en hún hafnað því. Þá fullyrti I að henni hafi síðan verið boðið svipað starf við bókhald og hún sinnti áður. G mætti ekki til vinnu 1. febrúar 2005. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að þar sem G hafi ekki mætt til vinnu, sé ósannað að vinna sú við bókhald, sem I fullyrðir að hafi beðið hennar, hafi verið svo verulega frábrugðin þeirri vinnu sem hún sinnti áður að um vanefnd I samkvæmt starfssamningi hafi verið að ræða. Var I því sýknaður af kröfu G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjanda 741.874 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 247.291 krónu frá 28. febrúar 2005 til 31. mars sama ár, af 494.582 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár og af 741.874 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Áfrýjandi hafði verið í fæðingarorlofi. Í september 2004 hafði hún samband við framkvæmdastjóra stefnda vegna framlengingar á fæðingarorlofinu og var þá ákveðið að hún skyldi hefja störf að nýju 1. febrúar 2005. Hafði hún þá verið í leyfi í þrettán mánuði. Áfrýjandi og framkvæmdastjóri stefnda áttu fund 11. janúar 2005 þar sem rædd var endurkoma hennar til starfa. Hinn 14. sama mánaðar tilkynnti hún símleiðis að hún gæti ekki hafið störf og var henni þá sagt að ætlast væri til þess að hún mætti til vinnu. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof átti áfrýjandi rétt á því að hverfa aftur að sama starfi, en ella að fá sambærilegt starf hjá vinnuveitandanum. Eigendaskipti höfðu átt sér stað á fyrirtækinu, og almennar breytingar verið gerðar á því starfssviði sem áfrýjandi áður vann við. Henni var boðið að byrja í nýju starfi við fyrirtækið sem gjaldkeri en hafnaði því. Í því sambandi er ósannað að stefndi hafi ekki verið reiðubúinn að semja um vinnutíma. Þá fullyrðir stefndi að henni hafi síðan verið boðið svipað starf við bókhald og hún áður sinnti. Áfrýjandi mætti ekki til vinnu 1. febrúar 2005. Er því ósannað að vinna sú við bókhald, sem stefndi fullyrðir að hafi beðið hennar, hafi verið svo verulega frábrugðin þeirri sem hún áður sinnti, að um vanefnd stefnda samkvæmt starfssamningi væri að ræða. Hinn áfrýjaði dómur er þannig staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Guðný Laxdal Helgadóttir, greiði stefnda, Ingvari Helgasyni ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2006.

Mál þetta var höfðað 12. ágúst 2005 og dómtekið 10. þ.m.

Stefnandi er Guðný Laxdal Helgadóttir, Suðursölum 2, Kópavogi.

Stefndi er Ingvar Helgason ehf., Sævarhöfða 2, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 741.874 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 247.291 krónu frá 28. febrúar 2005 til 31. mars s.á., af 494.582 krónum frá þeim degi til 30. apríl s.á. og af 741.874 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar en til vara að kröfur hennar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

- - - -

             Stefnandi var ráðin til starfa hjá stefnda sem bókari og starfaði að bókahaldi, en næsti yfirmaður hennar var yfirbókari stefnda, til 1. janúar 2004 er hún fór í fæðingar­orlof sem ætlað var að stæði til 1. janúar 2005. Í febrúar 2004 urðu eigendaskipti að fyrirtækinu.  Liður í endurskipulagningu og ráðstöfunum til að rétta við fjárhag fyrirtækisins var að bókhald var “útvistað” til Fjárstoðar ehf. og öllum, sem að því höfðu starfað, var sagt upp að stefnanda undanskilinni.  Bókhalds­störfunum var engu að síður sinnt áfram í aðalstöðvum stefnda og þeir starfsmenn, sem sagt hafði verið upp, unnu við það á uppsagnarfrestinum undir stjórn Fjárstoðar ehf. 

             Hinir nýju eigendur höfðu ráðið Hauk Guðjónsson sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs.  Stefnandi, sem hafði fengið fæðingarorlofið framlengt um einn mánuð, hitti Hauk 14. september 2004 til að fá undirritun hans á tilkynningu til Fæðingar­orlofssjóðs.  Um það samdist með þeim að þau skyldu hittast og ræða saman þegar nær drægi endurkomu stefnanda 1. febrúar 2005.  Eins og nánar verður greint varð sá fundur 11. febrúar og í framhaldinu átti stefnandi símtal við Hauk þremur dögum síðar en hún mætti ekki framar til starfa hjá stefnda.

          Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 31. janúar 2005.  Þar segir að starf stefnanda hjá stefnda hafi verið lagt niður á fæðingarorlofstímabilinu og hafi fjármála- og/eða starfsmannastjóri stefnda, Haukur, boðið henni gjaldkerastarf í stað bókhalds­starfsins.  Stefnandi geti ekki sætt sig við breytt ráðningar- og vinnufyrirkomulag, m.a. þar sem slíkt starf mundi kalla á breyttan vinnutíma, 9.00-18.00 í stað 9.00-17.00 eða eftir atvikum 8.00-16.00.  Því teljist ráðningu stefnanda hjá fyrirtækinu slitið frá og með 1. febrúar 2005 og sé þess krafist að stefndi greiði stefnanda laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Framangreindu bréfi var svarað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 11. febrúar 2005.  Þar segir að þ. 11. febrúar hafi framkvæmdastjóri stefnda boðað stefnanda til fundar þar sem farið hafi verið yfir væntanleg verkefni hennar, nýja starfsmannastefnu og annað sem tengdist endurkomu hennar til vinnu.  Rætt hafi verið um að hún kynni að taka við starfi gjaldkera eða þjónustufulltrúa í söludeild notaðra bíla ef hún hefði áhuga á því.  Stefnandi hafi lýst yfir að hún gæti ekki unnið til kl. 18 þar sem hún fengi örugglega ekki dagmömmu fyrir barn sitt svo lengi dags.  Framkvæmdastjórinn hafi þá sagt að vel væri hægt að skoða það mál enda væri félagið vant að leysa slík mál.  Í símtali aðila þ. 14 janúar hafi stefnandi sagt að hún gæti ekki mætt til vinnu þar sem hún fengi ekki dagmömmu.  Aðspurð hafi hún engu getað svarað um það hvort hún hefði ekki verið farin að huga að því að gera einhverjar ráðstafanir varðandi barnapössun svo hún gæti mætt til vinnu.  Hvorki þá né á fundinum þ. 11. janúar hafi hún minnst á það að sér litist ekki á væntanleg verkefni sín.  Hins vegar hafi hún talið sig eiga inni þriggja mánaða laun þar sem starf sitt væri ekki lengur til.  Framkvæmda­stjóri stefnda hafi þá sagt henni að mörg þau verkefni, sem hún hefði haft með höndum, væru enn unnin hjá fyrirtækinu og til þess að eiga rétt á launum þyrfti hún að mæta til vinnu.  Stefnanda hafi hvorki verið sagt upp né hafi starf hennar verið lagt niður heldur hafi hún þvert á móti verið boðin velkomin til starfa aftur á sinn gamla vinnustað.  Stefndi muni því ekki greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti nema fyrir þann tíma sem hún mæti til vinnu í uppsagnarfrestinum.

Í bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 23. febrúar 2005, segir m.a. að stefnandi hefði mætt til vinnu 1. febrúar hefði starf hennar enn verið til staðar og þá verið búin að útvega dagmömmu.   Vísað er til þess, sem segir í framangreindu bréfi frá 11. febrúar 2005:  “Umbjóðandi þinn lýsti því yfir að hún gæti ekki unnið til kl. 18 þar sem hún fengi örugglega ekki dagmömmu fyrir barnið sitt svo lengi dags.  Umbjóðandi okkar sagði þá að vel væri hægt að skoða það mál enda væri félagið vant að leysa slík mál.”  Þessu er mótmælt með eftirfarandi orðum:  “Umbjóðandi minn kveður framkvæmdastjóra Ingvars Helgasonar hf. fara með rangt mál með vísan til bréfs þins; að hann hafi sagt á umræddum fundi, 11. janúar 2005, að vel væri hægt að skoða það mál enda væri félagið vant að leysa slík mál, sem svar við höfnun umbj. míns á nýju starfi í þágu félagsins á grundvelli breytts vinnutíma.  Orðrétt hafi hann sagt:  “Kannski er hægt að skoða það.””  Umrætt gjaldkerastarf sé í fyrsta lagi ekki sambærilegt við það bókhaldsstarf, sem stefnandi hafi haft með höndum, og í öðru lagi sé það stefnanda að meta hvort hún vilji taka hinu sambærilega starfi að afloknu fæðingarorlofi eða ekki.  Vilji hún það ekki beri henni laun í uppsagnarfesti eða eftir atvikum bætur vegna fyrirvaralausra ráðningaslita en starf hennar sé ekki lengur fyrir hendi og ógerlegt af hálfu stefnda að uppfylla ráðningarsamning sinn við stefnanda.   

Í svarbréfi lögmanns stefnda frá 27. apríl 2005 segir m.a.:  “Það verður að telja eðlilegt að starf hvers þess, sem er frá vinnu í yfir eitt ár, breytist lítillega í tengslum við breytt skipulag starfsemi vinnuveitanda.  Eins og umbjóðandi þinn kynnti hins vegar afstöðu sína fyrir framkvæmdastjóra Ingvars Helgasonar þá var meginástæða þess að hún kaus að snúa ekki aftur sú staðreynd að hún hafði ekki fengið barna­pössun.  Umbjóðanda þinum var þannig hvorki sagt upp né var starf hennar lagt niður.  Í ljósi þessa er Ingvari Helgasyni hf. óhjákvæmilegt annað en að hafna kröfu umbjóðanda þíns.”

- - - - -

Stefnandi byggir á því að ráðningu hennar hjá stefnda hafi fyrirvaralaust verið slitið 1. febrúar 2005.  Hún hafi átt að mæta til starfa þann dag að afloknu fæðingar­orlofi en á fæðingarorlofstímanum hafi starf hennar verið lagt niður og þurfi hún ekki að sæta tilfærslu úr starfi bókara í starf gjaldkera í bílahúsi.  Bókhaldsstarfið hjá stefnda hafi verið forsenda fyrir ráðningu hennar hjá stefnda og starf hennar bundið við það svið í samræmi við nám hennar á skrifstofubraut Menntaskólans í Kópavogi og í framhaldi af því einni önn í bókhaldsnámi hjá Tölvuskóla Reykjavíkur.  Verði talið að fyrirsvarsmönnum stefnda hafi verið unnt að breyta einhliða starfssviði stefnanda beri að líta til þess að vinnutími stefnanda hafi jafnframt átt að lengjast úr því að vera eftir atvikum 9.00-17.00 eða 8.00-16.00 í 9.00-18.00.  Slík breyting á ráðningarsamningi stefnanda sé svo íþyngjandi fyrir stefnanda að hún jafngildi riftun á samningnum.

Stefnandi telur að jafna verði stórfelldum breytingum stefnda á starfssviði, starfsstöð og ráðningarkjörum stefnanda til fyrirvaralausrar brottvikningar úr starfi sem stefnanda beri bætur fyrir úr hendi stefnda,  Krafist er meðallauna í hinum þriggja mánaða uppsagnarfresti, tímabilið frá 1. febrúar 2005 til 30. apríl s.á.  Við útreikning meðallauna sé haft mið af 40 klukkustunda vinnuviku og meðalyfirvinnustundir stefnanda tímabilið 1. janúar 2003 til 31. desember s.á., 3,7 klst. á mánuði.  Þá sé krafist orlofs (10,17%), hlutdeildar í orlofs- og desemberuppbót á uppsagnarfresti og greiðslu vegna tapaðra lífeyrisgreiðslna (6%).  Þriggja mánaða dagvinnulaun nemi 598.662 krónum, ellefu klukkustundir í næturvinnu nemi 22.792 krónum, orlof nemi 63.202 krónum, desemberuppbót nemi 3.975 krónum og töpuð lífeyrisréttindi 41.993 krónum.  Samtals 741.874 krónur.  Dráttarvaxtakrafa miðast við að þriðjungur umkrafinnar fjárhæðar hafi gjaldfallið um hver mánaðamót frá og með 28. febrúar 2005.

- - - - -

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefnandi hafi einhliða og fyrirvaralaust rift ráðningarsamning sinn við stefnda með því að hringja nokkrum dögum áður en hún átti að hefja störf á ný eftir árs orlof og tilkynna að hún muni ekki mæta.   Engu hafi verið framvísað af hálfu stefnanda um slíka vanefnd af hálfu stefnda að réttlæti fyrirvaralausa riftun ráðningarsamningsins.  Því er mótmælt sem röngu að um slíkar breytingar hafi verið að ræða á starfi stefnanda þann tíma sem hún var í orlofi að jafngildi fyrirvaralausri brottvikningu úr starfi enda hafi það starf, sem stefnandi hafi aðallega haft með höndum áður en hún fór í orlofið, enn verið unnið hjá stefnda og staðið henni til boða þegar hún kæmi til baka.  Hafi stefnandi talið að um slíkar breytingar hafi verið að ræða á starfi sínu á meðan hún var í fæðingarorlofi að jafngilt geti riftun ráðningarsamningsins af hálfu stefnda hafi henni borið að mæta til starfa á umsömdum tíma til að ganga úr skugga um að svo væri. Þá jafngildi það ekki breytingum á starfi að bjóða stefnanda nýtt starf þegar hún kæmi til baka.  Stefnanda hafi verið kunnugt um að á þeim tíma sem hún var í orlofi hefðu orðið breytingar á rekstri stefnda og þar með á störfum sem hún hafi áður gegnt.  Engu að síður hafi ekki komið fram í aðdraganda starfslokanna að hún teldi starf sitt svo mikið breytt að það varðaði uppsögn.  Þá er sýknukrafa stefnda byggð á því að stefnandi eigi ekki rétt til launa í uppsagnarfresti, verði litið svo á að um uppsögn hafi verið að ræða, enda sé réttur til launa í uppsagnarfresti bundinn við það að unnið sé á þeim fresti nema vinnuveitandi samþykki annað.

Varakrafa stefnda er reist á þeirri meginreglu vinnuréttar að yfirvinna sé ekki greidd í uppsagnarfresti nema að því leyti sem föst yfirvinna sé hluti af almennum launakjörum, óháð raunverulegu vinnuframlagi, en um það hafi  ekki verið að ræða í tilviki stefnanda.  Því beri að lækka kröfu stefnanda sem þessu nemi auk þess sem orlofshluta beri að lækka til samræmis.  Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

- - - - -

             Af hálfu stefnda var ekki brotið gegn rétti stefnanda á grundvelli 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof á þann hátt að henni væri sagt upp störfum meðan hún var í fæðingarorlofi.  Í 29. gr. 2. mgr. tilvitnaðra laga segir að starfsmaður skuli eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi.  Sé þess ekki kostur skuli hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.  Eigi síðar en 11. febrúar 2005, svo sannanlegt sé, var stefn­anda tilkynnt af hálfu stefnda að henni byðist áframhaldandi starf bókara, sem hún hafði verið ráðin til, hún væri boðin velkomin til starfa á sinn gamla vinnustað og að mörg þau verkefni, sem hún hefði haft með höndum, væru enn unnin hjá fyrirtækinu.  Engu hefði skipt þótt starfssviðið hefði ekki orðið nákvæmlega hið sama og hún sinnti fyrir töku fæðingarorlofs.  Auk þess hafði stefnanda verið boðið nýtt starf sem gjald­keri eða þjónustufulltrúi. 

             Framganga stefnanda verður ekki skilin á annan hátt en þann að hún hafi afráðið að rifta starfssamning sinn við stefnda þar sem hún hafi gefið sér að starf hennar væri ekki lengur fyrir hendi, sambærilegt starf byðist ekki hjá fyrirtækinu og þar með væri um að ræða verulega vanefnd af hálfu stefnda.  Í orðalagi 29. gr. 2. mgr. laga nr. 95/2000 felst eðli málsins samkvæmt skylda til nokkurs frumkvæðis af hálfu starfsmannsins.  Stefnanda bar að mæta á vinnustaðinn 1. febrúar 2005 og ganga úr skugga um hvernig málum væri háttað að því leyti sem hér um ræðir.  Það gerði hún hins vegar ekki, hvorki þann dag né síðar, og brestur sönnun fyrir því að um nokkra þá vanefnd sé að ræða af hálfu stefnda sem geti orðið grundvöllur kröfugerðar stefnanda.

             Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 225.000 krónur.

          Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ingvar  Helgason ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðnýjar Laxdal Helgadóttur.

Stefnandi greiði stefnda 225.000 krónur í málskostnað.