Hæstiréttur íslands
Mál nr. 109/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Þriðjudaginn 14. mars 2006. |
|
Nr. 109/2006. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
Ekki var talið að neitt væri því til fyrirstöðu að R gæti á grundvelli heimildar í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 fengið að afla álits dómkvaddra matsmanna á rannsóknarstigi opinbers máls.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmenn í samræmi við beiðni hans þar um.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram krafðist sóknaraðili þess að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að gefa skriflegt og rökstutt álit um nánar tilgreind atriði er lúta að bókhaldi og endurskoðun A vegna tiltekins tímabils. Með hinum kærða úrskurði komst héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að lög nr. 19/1991 heimili ekki að lögregla geti fengið dómkvadda menn til að leggja mat á einstök atriði við rannsókn opinberra mála og af ákvæðum laganna verði ekki annað ráðið en að það úrræði sé eingöngu fyrir hendi eftir útgáfu ákæru.
Samkvæmt 67. gr. laga nr. 19/1991 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Skal rannsókn miða að því að hið sanna og rétta komi í ljós og að gætt sé jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, sbr. 31. gr. laganna. Nauðsynlegt er að rannsókn lögreglu sé nægilega vönduð áður en tekin er ákvörðun um útgáfu ákæru og fer eftir eðli máls hverra gagna er aflað í því skyni. Í 74. gr. laganna segir að ef þörf þyki á aðgerðum sem að lögum þarf til atbeina dómara meðan á rannsókn stendur geti sá sem stýrir rannsókn (lögreglustjóri, forstöðumaður rannsóknardeildar), svo og ríkissaksóknari snúið sér til dómara með beiðni um slíkar aðgerðir. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. er heimilt að afla mats dómkvaddra manna í opinberu máli. Orðalag ákvæðisins styður ekki að heimild til að neyta slíks úrræðis sé bundin því að ákæra hafi verið gefin út. Önnur ákvæði laganna styðja það ekki heldur og er í 3. mgr. 65. gr. tekið fram að um matsgerðir skuli farið eftir fyrirmælum laga um meðferð einkamála, eftir því sem við geti átt, en samkvæmt þeim lögum er ótvírætt heimilt að óska mats áður en mál hefur verið höfðað. Þá metur dómari samkvæmt 46. gr. laganna gildi matsgerðar. Verður ekki séð að réttindi sakbornings séu fyrir borð borin með slíkri sönnunarfærslu, sem fram fer á ábyrgð rannsóknara, fyrir útgáfu ákæru. Samkvæmt framanrituðu er ekkert því til fyrirstöðu að slíkrar matsgerðar sé aflað á þessu stigi máls, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins 2002, bls. 358 í máli nr. 330/2001. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka til meðferðar beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka til meðferðar beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2006.
I
Málið barst dóminum 10. nóvember sl. Það var þingfest 27. janúar sl. og tekið til úrskurðar 13. febrúar sl.
Matsbeiðandi er ríkislögreglustjóri.
Matsþoli er X, [heimilisfang].
Málavextir eru þeir að vorið 2002 hófst lögreglurannsókn á meintu fjármálamisferli framkvæmdastjóra A. Matsþoli var endurskoðandi sjóðsins og leiddi framangreind rannsókn til þess að störf hans hjá sjóðnum voru tekin til rannsóknar af matsbeiðanda. Sú rannsókn leiddi til útgáfu ákæru á hendur matsþola 16. apríl 2004. Voru honum gefin að sök “brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ársreikninga, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um endurskoðendur, með því að hafa á árunum 1993 til 2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga A, með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000, áritað ársreikningana án fyrirvara, og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa við endurskoðunarvinnuna aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og ekki kannað á fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir lágu, og þannig ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju” eins og nánar var rakið í ákærunni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2004 var matsþoli sýknaður af öllum ákæruatriðum. Ríkissaksóknari áfrýjaði og með dómi Hæstaréttar 12. maí 2005 var málinu vísað frá héraðsdómi.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar hófst matsbeiðandi handa að nýju við rannsókn málsins á hendur matsþola, sem bar þá ákvörðun undir dómstóla og með dómi Hæstaréttar 22. nóvember sl. var fallist á að það væri heimilt. Það er í þágu þeirrar rannsóknar sem matsbeiðandi hefur krafist að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að gefa skriflegt og rökstutt álit um eftirgreind álitaefni.
“1. Hvað bar endurskoðanda að lágmarki að gera til að fullnægja skyldu sinni til að gæta góðrar endurskoðunarvenju við endurskoðun á ársreikningum [A] vegna áranna 1992 til 2000? Er þess farið á leit að sundurliðað verði eftir árum og einstökum liðum ársreikninga hvað endurskoðandanum bar að kanna, til að geta áritað ársreikning fyrirvaralausri áritun. Þá verði gerð grein fyrir hvaða aðferðum hann gat beitt til endurskoðunar í hverju tilviki fyrir sig til að fullnægja þessum skyldum sínum.
2. Hvað benda meðfylgjandi gögn til að endurskoðandinn hafi gert til að endurskoða hvern ársreikning og hvern lið fyrir sig? Voru endurskoðunaraðferðir og gagnaöflun endurskoðandans fullnægjandi í hverju tilviki fyrir sig?
3. Ef niðurstaða matsmanna verður að góðri endurskoðunarvenju hafi ekki verið fylgt, hvað skorti á við endurskoðun ársreikninganna, sundurliðað eftir ársreikningum og einstökum liðum þeirra?
4. Samkvæmt ársreikningi [A] fyrir árið 2000 var hrein eign sjóðfélaga í lok árs 2000 alls kr. 84.170.348,62. Er þess farið á leit að matsmenn taki saman hver eign sjóðsins var í raun í lok árs 2000.
5. Fyrir liggur að framkvæmdastjóri sjóðsins lagði fyrir endurskoðandann fölsuð skjöl. Var þar í fyrsta lagi um að ræða skuldabréfalista sem eru meðal vinnuskjala endurskoðandans, en einnig liggur fyrir að framkvæmdastjórinn lagði fyrir endurskoðandann falsað ljósrit af spariskírteini. Er þess farið á leit að matsmenn gefi álit sitt á því hvort endurskoðandanum verði metið til lasts að hafa ekki kannað nánar þann þátt ársreikningsins sem umrædd fölsuð gögn vörðuðu og hvort honum bar að skoða þennan þátt hans nánar til að uppfylla lögboðnar skyldur sínar.
6. Loks er þess farið á leit að matsmenn gefi álit sitt á hvað felist í áritun endurskoðanda á ársreikningi. Er í því skyni bent á áritun á ársreikning [A] fyrir árið 1997. Í áritun endurskoðanda [A], á þann ársreikning segir:
a) “Ég hef endurskoðað ársreikning [A] fyrir árið 1997”. Síðan segir: “Endurskoðað var í samræmi við góða endurskoðunarvenju” Hvað þarf endurskoðandi að lágmarki að gera til að geta gefið áritun sem þessa?
b) Í sömu áritun segir: “Samkvæmt því ber mér að skipuleggja og haga endurskoðun þannig að leitt sé í ljós að ársreikningur sé í meginatriðum án annmarka” Síðar segir: Það er mitt álit að ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu sjóðsins á árinu 1997, efnahag hans 31. des. 1997 .... í samræmi við lög, samþykktir sjóðsins og góða endurskoðunarvenju” Hvað þýðir í þessu samhengi að endurskoðanda beri að skipuleggja endurskoðunina? Hvaða gögn væri að lágmarki venja að útbúa í því sambandi? Hvað er átt við með því að ársreikningur sé að meginatriðum án annmarka? Felst einhver fyrirvari á áritun endurskoðandans um að efnahagur í árslok 1997 gefi ekki glögga mynd af stöðu eigna og skulda?
c) Í sömu áritun segir: “Endurskoðun felur m.a. í sér greinargerðir, úrtakskannanir og athuganir á gögnum til að sannreyna fjárhæðir og aðrar upplýsingar sem fram koma í ársreikningnum”. Hvaða endurskoðunaraðgerðir þarf að lágmarki að framkvæma og hvaða gögn þarf að lágmarki, í því tilviki sem hér greinir, að safna og varðveita til að getað áritað eins og endurskoðandinn gerði?”
Matsþoli hefur krafist þess að beiðni um dómkvaðningu matsmanna verði synjað. Hann byggir kröfu sína aðallega á því að samkvæmt IX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé rannsókn þeirra mála í höndum lögreglu og markmið rannsóknar sé að afla gagna til að ákærandi geti metið hvort sækja skuli mann til sakar. Í 70. gr. laganna sé heimild handa lögreglu til að leita aðstoðar kunnáttumanna þegar þörf er á sérkunnáttu, en ekki er gert ráð fyrir að þeir séu dómkvaddir. Í 63. gr. sé ákvæði um dómkvadda matsmenn og af því megi ráða að þeir verði ekki dómkvaddir fyrr en eftir að mál hafi verið höfðað. Matsþoli telur að með beiðni um dómkvaðningu sé matsbeiðandi að koma rannsókn málsins í hendur hinna dómkvöddu manna og sé það í andstöðu við ákvæði laganna um meðferð opinberra mála. Þá telur matsþoli það enn fremur vera í andstöðu við ákvæði laganna að matsmönnum sé ætlað að taka afstöðu til sektar eða sakleysis síns, en það sé hlutverk dómstóla sem, eftir atvikum, eru skipaðir sérfróðum meðdómsmönnum að meta sekt eða sakleysi ákærðra manna.
II
Í IX. kafla laga um meðferð opinberra mála eru ákvæði um rannsókn þeirra mála. Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. er rannsókn í höndum lögreglu nema lög mæli fyrir á annan veg. Í kaflanum eru ákvæði um hvaða mál skuli rannsaka og hvert markmiðið með rannsókn þeirra sé. Þá eru þar og fyrirmæli um hvernig skuli að rannsókn staðið og segir í 1. mgr. 70. gr. að leitað skuli til kunnáttumanna þegar þörf sé á sérfræðilegri rannsókn, svo sem blóðrannsókn og annarri læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, letur- og skriftarrannsókn, bókhaldsrannsókn o.s.frv. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að kunnáttumenn þessir séu dómkvaddir, en í 74. gr. er fjallað um þau tilvik þegar lögum samkvæmt þarf atbeina dómara meðan á rannsókn stendur, t.d. við leit í húsum eða annað þess háttar.
Í VIII. kafla laganna um meðferð opinberra mála er fjallað um sönnun og sönnunargögn. Þar segir í 1. mgr. 63. gr. að dómari geti eftir ósk aðila eða af sjálfsdáðum dómkvatt kunnáttumenn, einn eða fleiri, til að framkvæma mats- eða skoðunargerðir í opinberu máli. Í 1. mgr. 64. gr. er kveðið á um að dómari gefi ákæranda og sakborningi eða verjanda kost á að vera viðstaddir þegar dómkvaðning skal fara fram. Þá eru í greininni og 65. gr. nánari ákvæði um dómkvaðninguna.
Eins og nú hefur verið rakið gera lögin um meðferð opinberra mála ekki ráð fyrir að lögreglan geti fengið dómkvadda matsmenn til að leggja mat á tiltekin atriði við rannsókn sakamála. Af framangreindum ákvæðum laganna verður ekki annað ráðið en það úrræði sé eingöngu fyrir hendi eftir að ákæra hefur verið gefin út. Lögreglan getur kvatt til kunnáttumenn eftir þörfum og þarf ekki atbeina dómara til slíks. Samkvæmt þessu eru lagaskilyrði ekki fyrir því að verða við kröfu matsbeiðanda og er henni því hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Beiðni ríkislögreglustjóra um dómkvaðningu matsmanna er hafnað.