Hæstiréttur íslands
Mál nr. 411/2016
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Neytendakaup
- Pöntunarkaup
- Reiðukaup
- Áhættuskipti
- Galli
- Skoðunarskylda
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og að honum verði gert að greiða sér 37.525.081 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Thorice ehf., greiði stefnda, B Cool Consult A/S, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2016.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 23. febrúar sl., er höfðað 7. janúar 2013 af B Cool Consult A/S, Nordhavnsvej 24, DK-9500, Grenå í Danmörku, á hendur Thorice ehf., Búlandi 4 í Reykjavík. Málið var þingfest 8. sama mánaðar. Stefndi, Thorice ehf., höfðaði gagnsök á hendur stefnanda, B Cool Consult A/S, 7. febrúar 2013.
Dómkröfur aðalstefnanda, B Cool Consult A/S, í aðalsök eru þær að gagnstefnanda verði gert að greiða aðalstefnanda 463.244,04 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 344.550,04 dönskum krónum frá 6. júlí 2012 til 21. júlí 2012, en af 463.244 dönskum krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir aðalstefnandi þá kröfu að gagnstefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gagnstefnandi krefst sýknu af öllum dómkröfum aðalstefnanda í aðalsök auk málskostnaðar.
Í gagnsök gerir gagnstefnandi þá kröfu að aðalstefnandi greiði honum 37.525.081 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2013 til greiðsludags.
Aðalstefnandi krefst sýknu af öllum dómkröfum gagnstefnanda í gagnsök auk málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.
II
Málsatvik eru þau að gagnstefnandi gerði haustið 2011 samning við fiskeldisfyrirtækið Marine Harvest um sölu á vélasamstæðu til framleiðslu á ískrapa sem nota átti til matvælaframleiðslu í fiskeldisstöð í eigu Marine Harvest í Fort William í Skotlandi. Að sögn gagnstefnanda var kveðið á um það í kaupsamningnum að gagnstefnandi myndi afhenda Marin Harvest ískrapakerfi með 12 ískrapastrokkum ásamt kælikerfi sem skyldi sett upp í 40 feta færanlegum gámi.
Gagnstefnandi kveðst framleiða og selja ískrapastrokka sem er ætlað að búa til ískrapa fyrir matvælaframleiðslu. Hann framleiði hins vegar hvorki né hanni kælikerfi og því hafi hann þurft að leita á önnur mið með þann þátt við gerð framangreindrar vélasamstæðu.
Gagnstefnandi er danskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á kælikerfum. Samkvæmt gögnum málsins leitaði gagnstefnandi eftir þjónustu aðalstefnanda í nóvember 2011 í tengslum við samsetningu og gerð þeirrar vélasamstæðu sem að framan greinir. Ekki var gerður skriflegur samningur milli aðila um vinnu aðalstefnanda. Í málinu liggur þó fyrir tölvuskeyti frá starfsmanni aðalstefnanda, Svend Christensen, þar sem gagnstefnanda er gert verðtilboð annars vegar í smíði á svonefndum forkæli (Pree-Cooler) og hins vegar í smíði á tveimur einingum af búnaði sem nefndur er „S24 NH3-units“. Tilboðið var að fjárhæð 193.000 danskar krónur í forkælinn og 358.500 danskar krónur í „S24 NH3“ einingarnar. Í tölvuskeytinu eru talin upp ýmis atriði sem ekki féllu undir tilboðið.
Nokkuð ber á milli aðila um umfang þeirrar vinnu sem aðalstefnanda var ætlað að inna af hendi samkvæmt samkomulagi þeirra á milli. Gögn málsins bera þó með sér að fyrrgreindur starfsmaður aðalstefnanda, Svend Christensen, hafi gert hönnunarteikningar af vélasamstæðunni, þ. á m. af þeim hluta hennar er sýnir flæði saltvatns um kerfið, en teikningin ber yfirskriftina Sea Water System. Að sögn starfsmannsins fylgdi hann forskrift frá fyrirsvarsmanni gagnstefnanda, Þorsteini Inga Víglundssyni, við gerð þeirrar teikningar. Liggja meðal annars fyrir gögn um samskipti þeirra frá 31. janúar 2012 um þörfina á því að koma fyrir síu við vatnsinntak inn í gáminn, en fyrirliggjandi hönnunarteikningar gera ráð fyrir því að sía sé þar til staðar. Þá liggur fyrir að báðir aðilar hafi lagt til ýmsa íhluti í samstæðuna. Jafnframt er ágreiningslaust að samsetning hennar, þar sem einstökum hlutum var komið fyrir í gámnum og lagnir tengdar saman, fór fram á verkstæði aðalstefnanda í Grenå í Danmörku undir stjórn starfsmanna aðalstefnanda. Stýrisbúnaður samstæðunnar var hannaður og framleiddur af undirverktaka á vegum aðalstefnanda, danska fyrirtækinu Innotek.
Upplýst er að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda vann að einhverju leyti við samsetningu samstæðunnar, eins og nánar verður vikið að síðar. Lagði hann meðal annars til síuhús fyrir síu, sem koma átti fyrir við vatnsinntak inni í gáminn, og kom með síuhúsið á verkstæði aðalstefnanda ásamt kassa af sérstökum síupokum sem nota átti í síuhúsið. Starfsmenn aðalstefnanda munu hafa unnið við það að koma síuhúsinu varanlega fyrir í gámnum. Að lokinni samsetningu á öllum búnaði inni í gámnum var hann fluttur landleiðis til Fort William í Skotlandi í apríl 2012.
Í greinargerð aðalstefnanda í gagnsök er á því byggt að aðalstefnandi hafi afhent gáminn við verksmiðjudyr í Grenå 20. apríl 2012 og að gagnstefnandi hafi annast flutning hans til Skotlands. Hafi gámurinn verið kominn á áfangastað í Fort William 23. apríl 2012. Af hálfu gagnstefnanda er því ekki mótmælt að hann hafi greitt fyrir flutning á gámnum. Hann heldur því þó fram að aðalstefnandi hafi átt að afhenda gáminn í Skotlandi.
Í júní 2012 sendi aðalstefnandi tvo starfsmenn til Skotlands, rafvirkja frá undirverktakanum Innotek, og tæknimann frá aðalstefnanda. Aðalstefnandi kveður þá hafa átt að kenna starfsmönnum Marine Harvest á kælibúnaðinn og stjórnkerfið. Þá liggur fyrir að fyrrgreindur Svend Christensen, starfsmaður aðalstefnanda, var viðstaddur gangsetningu ískrapakerfisins, sem mun hafa átt sér stað 22. júní 2012. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að þessir starfsmenn hafi átt að annast uppsetningu kerfisins í Skotlandi og gangsetningu vélasamstæðunnar. Upplýst var fyrir dómi að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda, Þorsteinn Ingi Víglundsson, var einnig á vettvangi á sama tíma.
Þó nokkur ágreiningur er milli aðila um það sem gerðist í kjölfarið. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að fyrrgreindir starfsmenn aðalstefnanda hafi átt í miklum erfiðleikum með að gangsetja ískrapakerfið og fá það til að starfa eðlilega. Heldur hann því fram að starfsmenn aðalstefnanda hafi haldið til síns heima 23. júní 2012 án þess að hafa fundið út úr því hver væri orsök bilunar í rafmagni og stýringu kerfisins eða hvers vegna það skilaði ekki fullum afköstum. Af hálfu aðalstefnanda er því aftur á móti haldið fram að þegar starfsmenn aðalstefnanda hafi yfirgefið Skotland 23. júní 2012 hafi ekki legið fyrir önnur vandkvæði en að rafmótorar, sem gagnstefnandi hafði lagt til, hefðu ekki verið af réttri gerð þar sem veituspenna í Skotlandi væri hærri en gagnstefnandi hafði reiknað með.
Í málinu liggur fyrir reikningur aðalstefnanda að fjárhæð 1.044.550,04 danskar krónur á hendur gagnstefnanda, dags. 28. júní 2012. Samkvæmt íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda ber hann yfirskriftina: „Reikningur vegna íhluta, efnis og tæknilegrar aðstoðar við uppbyggingu 40 feta gáms með ísbúnaði fyrir Marine Harvest“. Samkvæmt reikningnum er gagnstefnanda í fyrsta lagi ætlað að greiða annars vegar 193.000 danskar krónur og hins vegar 358.500 danskar krónur í samræmi við fyrrgreind tilboð í forkæli (Pree Cooler), og „NH-3 S24“, en á reikningnum er þessi hluti samstæðunnar einnig nefndur „S-24 slurry units“, eða „grugglausnaeiningar“ í íslenskri þýðingu. Á reikningnum er gagnstefnandi einnig krafinn um 95.200 danskar krónur fyrir 119 klst. í ráðgjafavinnu og 185.640 danskar krónur fyrir vinnu á verkstæði í 357 klst. Enn fremur var gagnstefnandi krafinn um greiðslu á 483.863,21 danskri krónu vegna vinnu undirverktaka. Inni í þeirri fjárhæð var meðal annars endurgjald fyrir vinnu við suðu, sem framkvæmd hafði verið af Dansk Certifikatsvejsning, að fjárhæð 229.883 danskar krónur, fyrir vinnu við gerð stýrikerfis, sem unnin hafði verið af Innotek að fjárhæð 156.200,27 danskar krónur, fyrir vinnu við úttekt vegna CE-merkingar, sem unnin var af Jebru Inspektion að fjárhæð 14.460,75 danskar krónur, og fyrir vinnu við úttekt á suðuvinnu að fjárhæð 3.665 danskar krónur, en fram kemur á reikningnum að fyrirtækið Nordisk Svejse Kontrol hafi annast þá úttekt. Að lokum samanstóð reikningsfjárhæðin af endurgjaldi fyrir viðbótarefni að fjárhæð 573.978,58 danskar krónur. Við útreikning á reikningsfjárhæðinni er tekið tillit til tveggja innborgana inn á kröfuna, annars vegar að fjárhæð 275.750 danskar krónur og hins vegar að fjárhæð 569.881,75 danskar krónur. Hins vegar er þar ekki tekið tillit til innborgunar að fjárhæð 700.000 danskar krónur sem ágreiningslaust er að gagnstefnandi hafi innt af hendi 3. apríl 2012.
Annar reikningur, dags. 28. júní 2012, á hendur gagnstefnanda liggur fyrir í málinu. Þar krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um endurgjald fyrir aðstoð við uppsetningu „við gangsetningu á kælibúnaði“ sem veitt var í „Fort William í Skotlandi á tímabilinu 18.-23. júní 2012 að ferðadögum meðtöldum“ (d. Faktura vedr. montørassistance for opstart af kølanlæg). Reikningurinn er sundurliðaður en heildarfjárhæð hans nemur 118.694 dönskum krónum.
Með tölvuskeyti 15. ágúst 2012 til framkvæmdastjóra aðalstefnanda, Palle Bendix, tilkynnti fyrirsvarsmaður gagnstefnanda, Þorsteinn Ingi Víglundsson, að gallar væru á vélasamstæðunni sem aðalstefnandi hefði afhent Marine Harvest. Í fyrsta lagi hélt hann því fram að vélin gengi ekki þar sem stýrisbúnaður (PLC program) virkaði ekki sem skyldi. Þá virkaði ískrapastrokkur nr. 5 á vél nr. 1 ekki þar sem hann fengi ekki ammoníak. Að lokum hélt Þorsteinn því fram í tölvuskeytinu að strokkarnir væru allir ónýtir þar sem „síupokinn var ekki settur á við prófun í Danmörku og gangsetningu í Skotlandi“. Kemur þar fram að þeir séu rispaðir og telur hann það vera orsök margra þeirra vandamála sem upp hafi komið. Í tölvuskeytinu kemur fram að síðasta atriðið sé alvarlegast og boðað að matsmaður yrði fenginn í næstu viku til þess að meta gallann. Þá kemur þar fram að gagnstefnandi fái ekki greitt fyrir vélasamstæðuna meðan hún virki ekki og af sömu ástæðu myndi hann ekki greiða aðalstefnanda. Þá spyr Þorsteinn hvort aðalstefnandi muni taka þátt í vinnu við að koma búnaðinum í samt lag.
Framkvæmdastjóri aðalstefnanda svaraði tölvuskeytinu samdægurs. Þar er tekið fram að aðalstefnandi hafi ekki afhent neinn búnað til Marine Harvest, heldur hafi aðalstefnandi afhent gagnstefnanda búnaðinn sem gagnstefnandi hafi afhent Marine Harvest. Þá gerir aðalstefnandi athugasemdir við þá ágalla sem gagnstefnandi hafi lýst og mótmælir því meðal annars að einhverjir gallar hafi verið á kælikerfinu eða að gleymst hafi að setja síur við prófun í Grenå.
Með bréfi 21. ágúst 2012 krafði lögmaður aðalstefnanda gagnstefnanda um greiðslu á eftirstöðvum reikninganna sem nam 463.244,04 dönskum krónum. Þar er staðhæft að vélasamstæðan hafi verið afhent gallalaus, en upplýst var að galli sem gagnstefnandi hefði borið við varðandi „rofa/nema“ veitti honum ekki rétt til þess að halda eftir lokagreiðslu. Þó stæði honum til boða að senda „rofann/nemann“ til aðalstefnanda sem myndi láta framleiðandann, HB Products, skoða hann. Ef sú skoðun leiddi í ljós að það væri aðalstefnanda að kenna að neminn virkaði ekki myndi gagnstefnandi fá nýjan nema.
Með bréfi lögmanns gagnstefnanda 2. nóvember 2012 var greiðsluskyldu hafnað sökum þeirra galla sem komið hefðu í ljós sem aðalstefnandi hafi borið ábyrgð á. Þá áskildi gagnstefnandi sér allan rétt til þess að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur aðalstefnanda.
III
1. Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök
Aðalstefnandi kveðst vera danskt félag sem sérhæfi sig í þjónustu á sviði uppsetningar og viðhalds á kælikerfum, rafkerfum o.fl. Hafi gagnstefnandi leitað til aðalstefnanda um aðstoð við uppbyggingu á 40 feta gámi með ísbúnaði sem stefndi hefði selt Marine Harvest í Skotlandi. Svend Christensen, starfsmaður aðalstefnanda, hafi staðfest með tölvubréfi 2. desember 2011 til gagnstefnanda, verðtilboð vegna íhluta og efnis í forkælieiningu (pre-cooler unit) og tvö sett af „slurry unit“ (S24 NH3 unit) vegna uppsetningar kælikerfisins í gáminn. Í tilboðinu séu talin upp atriði sem ekki voru hluti af verðtilboðunum, auk þess sem tekið hafi verið fram að 15% þjónustugjald legðist á viðbótarefni og vinnu.
Aðalstefnandi kveður að samið hafi verið um að gagnstefnandi greiddi aðalstefnanda 50% við pöntun á íhlutum og efni, 40% þegar gámurinn færi frá Danmörku til Skotlands og eftirstöðvarnar 30 dögum síðar. Hafi gámurinn verið sendur frá Danmörku til Skotlands 20. apríl 2012.
Hinn 28. júní 2012 hafi aðalstefnandi gefið út tvo reikninga vegna íhluta, efnis og tæknilegrar aðstoðar við uppsetningu á gámnum, auk aðstoðar við uppsetningu á kælibúnaði. Annar reikningurinn hafi verið að fjárhæð 1.044.550,04 danskar krónur og með gjalddaga 6. júlí 2012, en þar sé tekið tillit til tveggja innborgana gagnstefnanda að fjárhæð 275.750 danskar krónur og 569.881,75 danskar krónur. Hinn reikningurinn hafi verið að fjárhæð 118.694 danskar krónur með gjalddaga 21. júlí 2012. Gagnstefnandi hafi greitt stefnanda 700.000 danskar krónur 3. apríl 2012 og hafi verið tekið tillit til þess við útreikning vaxta. Aðalstefnandi sundurliðar kröfu sína með svohljóðandi hætti:
|
Reikningur 111222 |
DKK |
1.044.550,04 |
|
|
|||
|
Reikningur 1111221 |
DKK |
118.694,00 |
|
|
|
||
|
Greitt 03.04.2012 |
DKK |
-700.000,00 |
|
|
|
||
|
Samtals |
|
DKK |
463.244,04 |
|
|
|
|
Aðalstefnandi kveður gagnstefnanda ekki hafa fengist til þess að greiða skuld sína. Hafi hann borið fyrir sig mótbárur sem aðalstefnandi telur tilhæfulausar og órökstuddar. Engir gallar hafi verið á vélasamstæðunni við afhendingu hennar, eins og aðalstefnandi rökstyður í greinargerð sinni í gagnsök sem síðar verður vikið að. Hvíli sönnunarbyrði um hið gagnstæða á gagnstefnanda. Byggir aðalstefnandi á því að gagnstefnanda sé skylt að greiða fyrir þá vöru og þjónustu sem aðalstefnandi hafi sannanlega lagt gagnstefnanda í té að hans beiðni.
Um lagarök fyrir kröfu aðalstefnanda í aðalsök vísar hann til meginreglu kröfuréttar og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða. Jafnframt vísar hann til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkum VI. kafla og laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, einkum VII. kafla laganna. Þá vísar aðalstefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 varðandi kröfu um dráttarvexti. Um varnarþing kveðst aðalstefnandi vísa til 33 gr. laga nr. 91/1991 og krafan um málskostnað styðjist við 130. gr., sbr. 129. gr. sömu laga. Að því er varðar kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar aðalstefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
2. Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í aðalsök og gagnsök
Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að framlag gagnstefnanda til ískrapakerfisins sem um ræðir hafi verið tólf ískrapastrokkar sem hann hafi hannað og framleitt. Auk þess hafi gagnstefnandi lagt til 40 feta gám. Hins vegar hafi hönnun kælikerfisins alfarið verið í höndum aðalstefnanda eins og teikningar beri með sér. Þá hafi aðalstefnandi valið efni og nauðsynlega íhluti sem hafi þurft til þess að búa til kælikerfið. Aðalstefnandi hafi valið allar stærðir á rörum og ventlum, ákveðið samsetningu og valið spíssa og lokur. Heldur gagnstefnandi því fram að Torben Juul Jensen hafi verið fenginn til að teikna kerfið upp eftir forskrift frá aðalstefnanda.
Gagnstefnandi tekur fram að hann telji að gallar á kerfinu eigi ekki rót sína að rekja til teikninganna, heldur til þess hvernig suðu hafi verið háttað sem og ófullnægjandi og óvandaðra vinnubragða aðalstefnanda og undirverktaka á hans ábyrgð. Hann áréttar að hönnun, smíði og samsetning ískrapakerfisins hafi farið að öllu leyti fram á verkstæði aðalstefnanda í Grenå. Þá hafi aðalstefnandi látið framkvæma prófanir á kerfinu og skoðun á því til að afla CE vottunar í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins nr. 97/23/EB. Á sama tíma hafi aðalstefnandi gengið frá handbók (e. technical manual) með tæknilegum upplýsingum um kerfið, leiðbeiningum um notkun þess, rekstur og viðhald. Handbókin sé kyrfilega merkt stefnanda og sé stefnda þar hvergi getið.
Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að aðalstefnandi hafi átt að ljúka við uppsetningu kerfisins í Skotlandi og því sent tvo starfsmenn sína og einn rafverktaka á sínum vegum til þess að setja kælikerfið upp hjá Marine Harvest. Hafi þeir m.a. átt að setja vatnssíur í vatnsdælur, klára uppsetningu og stillingar og sjá um prófanir og gangsetningu og áfyllingu ammoníaks. Jafnframt hafi þeir séð um að kenna starfsmönnum Marine Harvest á kælikerfið, rekstur þess og viðhald. Þessi vinna hafi farið fram frá 18. til 23. júní 2012 í Fort Williams í Skotlandi. Þar hafi starfsmenn aðalstefnanda átt í miklum erfiðleikum með að ræsa ískrapakerfið og fá það til að starfa eðlilega. Í málflutningsskjölum er ítarlega rakið í hverju þessir erfiðleikar fólust. Þá er þar lýst viðgerðum sem gagnstefnandi hafi þurft að framkvæma á kerfinu og þeim kostnaði sem hann hafi orðið fyrir af þeim sökum.
Gagnstefnandi kveðst reisa kröfur sínar, bæði í aðal- og gagnsök, á ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og meginreglum kröfu- og samningaréttar um réttar efndir. Hann byggir á því að ákvæði þeirra laga hafi gilt um viðskipti aðila enda um pöntunarkaup að ræða í skilningi 1. mgr. 2. gr. laganna. Gagnstefnandi hafi aðeins látið aðalstefnanda í té ískrapastrokkana og 40 feta gám, en það geti ekki talist verulegur hluti efnis til framleiðslunnar eins og það sé orðað í tilvitnuðu ákvæði. Skylda aðalstefnanda hafi verið að hanna og setja saman ískrapakerfi. Aðalstefnandi hafi hannað kælikerfið, smíðað það og sett upp eftir eigin teikningum.
Gagnstefnandi byggir á því að söluhluturinn, þ.e. ískrapakerfið, sem aðalstefnandi hafi tekið að sér að smíða sé gallað í skilningi 17. gr. lausafjárkaupalaga. Því hafi aðalstefnandi vanefnt samningsskuldbindingar sínar gagnvart gagnstefnanda. Gagnstefnandi telur að vélin sé ekki í samræmi við samning aðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laukafjárkaupalaga, hvað varðar gæði og aðra eiginleika. Þá telur hann að vélin sé einnig gölluð í skilningi a- og b-liða 1. mgr. 17. gr. laganna.
Gagnstefnandi byggir á því að eftirfarandi gallar hafi verið á vélinni:
Útleiðsla í rafmagnskerfi
Útleiðsla í rafmagnskerfi hafi valdið því að ískrapakerfið hafi slökkt hvað eftir annað á sér skömmu eftir gangsetningu þess. Vegna þessa hafi uppsetning vélarinnar í Skotlandi ekki heppnast. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir undirverktaka, Innotek, á vegum gagnstefnda hafi hvorki tekist að greina hver orsök útleiðslunnar væri né finna lausn á vandanum. Því hafi gagnstefnandi sjálfur þurft að fara á staðinn, greina bilun og ráða bót á henni.
Gagnstefnandi byggir á því að rafkerfið hafi því verið gallað og beri aðalstefnandi ábyrgð á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir vegna mistaka aðalstefnanda við uppsetningu rafkerfisins. Kostnaður gagnstefnanda vegna þessa nemi samtals 848.049 kr. Annars vegar sé um að ræða hótelkostnað vegna viðbótardaga sem starfsmenn aðalstefnanda hafi verið í Skotlandi, 358.449 kr., og hins vegar 30 vinnustundir af hálfu fyrirsvarsmanns gagnstefnanda við greiningu og viðgerð á útleiðslu (30 x 16.320) = 489.600 kr.
Kolþétti skemmd á ískrapastrokkum
Gagnstefnandi kveður starfsmenn aðalstefnanda hafa séð um að tengja ískrapastrokkana við kælikerfið. Hafi þeir snúið kolþéttum öfugt og sett þau þannig á sex strokka. Vegna þessa hafi kolþéttin eyðilagst og hafi þurft að skipta þeim út. Gagnstefnandi byggir á því að aðalstefnandi beri ábyrgð á mistökum og tjóni sem leiði af þessu. Vegna mistaka aðalstefnanda hafi uppsetning tafist um tvo daga meðan beðið hafi verið eftir varahlutum í ískrapakerfið. Fjárhagslegt tjón gagnstefnanda vegna þessa nemi 88.740 kr.
Gjall og suðuspónn í kælilögnum
Gagnstefnandi byggir á því að vegna mistaka aðalstefnanda, eða undirverktaka á hans vegum, við suðu á lögnum hafi suðugjall og suðuspónn komst í lagnakerfið. Ástæða þessa hafi verið að ekki hafi verið notað argon við suðuna, en argon komi í veg fyrir suðugjall og suðuspón, og/eða gætt að því að hreinsa lagnirnar af gjalli og suðuspóni áður en kerfið var sett saman. Suðan hafi verið unnin af undirverktaka gagnstefnda, Dansk Certifikatsvejsning. Vegna þessa hafi, við suðuna, orðið eftir gjall sem hafi sest inn í lagnirnar og borist um allt kerfið þegar það hafi verið gangsett og valdið miklum skemmdum á kælikerfinu.
Vegna þessara mistaka aðalstefnanda hafi þurft að hreinsa allt lagnakerfið og skipta út spíssum sem óhreinindi höfðu stíflað og skemmt. Kostnaður gagnstefnanda vegna þessa nemi 768.128 krónum og sé sá kostnaður tilkominn vegna vinnu Automatic Cooling Engineers Glasgow, auk vinnustunda fyrirsvarsmanns gagnstefnanda, sbr. framlagða vinnuskýrslu.
Síupokar voru ekki settir upp í síuhúsið
Gagnstefnandi byggir á því að aðalstefnandi hafi ekki sett síupoka í síuhús sem aðalstefnandi hafi hannað og og sett upp í kerfið með þeim afleiðingum að gjall hafi borist inn í ískrapastrokkana og rispað þá og skemmt. Auk þess hafi öxlar skemmst við þetta. Því þurfi að skipta um bæði strokka og öxla. Ástæðuna telur gagnstefnandi vera að ekki hafi verið settur síupoki í síuhús við prófanir í Danmörku og við ræsingu kerfisins í Skotlandi. Einnig séu mistök við suðu og samsetningu, sem aðalstefnandi beri ábyrgð á, orsakavaldur. Gagnstefnandi byggir jafnframt á því að þetta hafi orðið til þess að ískrapasköfurnar innan í ískrapastrokkunum slitni og eyðist mun hraðar en í óskemmdum ískrapastrokkum, og krapinn sem kerfið skili af sér hafi ekki þá eiginleika sem hann eigi að hafa.
Gagnstefnandi byggir á því að það hafi verið á ábyrgð gagnstefnda að setja síupoka í síuhúsið enda beinlínis gert ráð fyrir síupokum í síuhúsið. Hefði aðalstefnandi komið síupoka fyrir í síuhúsi í samræmi við hans eigin hönnun og fyrirmæli gagnstefnanda hefði gjall ekki borist í strokkana og öxlana.
Gagnstefnandi telur að afleiðingar framangreindra mistaka aðalstefnanda á ískrapakerfið hafi ekki komið fram fyrr en nokkru eftir að aðalstefnandi afhenti vélina. Byggir gagnstefnandi á 2. mgr. 21. gr. lausafjárkaupalaga, en þar komi fram að seljandi beri ábyrgð á galla sem komi fram síðar ef ástæða gallans megi rekja til vanefnda af hans hálfu. Gagnstefnandi telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa galla sem nemur 26.573.880 krónum.
Stýriforritið fyrir ískrapakerfið
Gagnstefnandi byggir á því að hugbúnaður, sem aðalstefnandi hafi lagt til og stýri kerfinu, sé gallaður í skilningi kaupalaga. Hugbúnaðurinn slökkvi á öllum þremur vélum í ískrapakerfinu við bilun í einni vél, og komi ítrekað í veg fyrir að ískrapakerfið haldi þeim afköstum sem kerfið eigi að skila. Vélarnar eigi að geta starfað sjálfstætt, þrátt fyrir að ein slökkvi á sér.
Hluti af hönnun aðalstefnanda hafi verið að leggja til hugbúnað sem stýri ískrapakerfinu (svokallað PLC kerfi). Við gangsetningu og keyrslu ískrapakerfisins hafa komið upp villur og bilanir í hugbúnaði kerfisins. Þær hafi valdið því að ískrapakerfið hafi stöðvast ítrekað. Gagnstefnandi hafi ítrekað beðið aðalstefnanda að gera lagfæringar á hugbúnaðinum en hann hafi neitað að laga gallana, einkum eftir að ágreiningur aðila hófst. Hefur gagnstefnandi, vegna kröfu Marine Harvest, neyðst til þess að láta smíða nýjan hugbúnað fyrir ískrapakerfið hjá verkfræðistofu til að tryggja full afköst og stýringu á ískrapakerfinu. Hefur gagnstefnandi þegar lagt í kostnað vegna forritunar á nýjum hugbúnaði sem nemi 4.373.000 krónum.
Gagnstefnandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 40 gr. kaupalaga og almennum reglum kauparéttar geti kaupandi krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíði vegna galla á söluhlut. Gagnstefnandi byggir á því að tjón hans verði rakið til mistaka aðalstefnanda og að hann beri ábyrgð á galla sem rekja megi til handbragðs og vals á efni við gerð hlutarins hjá aðalstefnanda, hvort heldur sem um hreinan framleiðslugalla sé að ræða, hönnunargalla eða galla sem rekja megi til lélegrar áætlunargerðar eða skorts á framleiðslueftirliti. Þeir gallar sem séu á ískrapakerfinu og kælikerfinu séu allt í seinn framleiðslugalli, hönnunargalli og galli sem rekja megi til mistaka í framleiðslu og skorts á framleiðslueftirliti.
Þá byggir gagnstefnandi á því að samkvæmt a-lið 3. mgr. 40. gr. lausafjárkaupalaga geti kaupandi ávallt krafist skaðabóta ef gallann eða tjónið megi rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda. Gagnstefnandi telur ljóst að aðalstefnandi hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu við smíði vélarinnar sem að framan eru rakin.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnstefnandi eigi ekki rétt til skaðabóta á grundvelli lausafjárkaupalaga vegna galla á kerfinu, krefst hann afsláttar á grundvelli 38. gr. sömu laga. Að baki því ákvæði liggi það meginsjónarmið að kaupandi eigi ekki að greiða meira en hann hefur fengið. Gagnstefnandi telur að kerfið, í því ástandi sem gagnstefndi hafi afhent það, hafi verið verðminna en kaupverð hafi sagt til um sem nemi þeim kostnaði sem hann hafi haft af því að koma kerfinu í viðunandi ástand.
Telji dómurinn að ákvæði lausafjárkaupalaga nr. 50/2000 eigi ekki við um ágreining aðila byggir gagnstefnandi kröfur sínar um skaðabætur, og eða afslátt, á því að með honum og gagnstefnda hafi komist á verksamningur. Kröfur stefnanda um skaðabætur og eða afslátt eru þá reistar á almennum reglum verktakaréttar og meginreglum samningaréttar og kauparéttar.
Þessu til stuðnings vísar gagnstefnandi til þess að meginskylda verktaka sé að skila af sér verki í réttu ásigkomulagi, m.ö.o. verði gæði verksins að vera í samræmi við verksamninginn eða þær hugmyndir og réttmætar væntingar sem hafi legið til grundvallar samningnum. Gagnstefnandi telur að aðalstefnandi hafi ekki uppfyllt þessa meginskyldu sína og því sé verkið gallað. Þessir gallar, sbr. fyrri umfjöllun, verði raktir til atvika sem aðalstefnandi beri ábyrgð á gagnvart gagnstefnanda, hvort sem þeir eru til komnir vegna handvamma eða mistaka starfsmanna aðalstefnanda eða starfsmanna undirverktaka sem hann hafi fengið til að sinna afmörkuðum hluta verksins.
Gagnstefnandi telur að þar sem aðalstefnandi hafi hafnað að verða við beiðni hans um úrbætur, sbr. tölvupóstsamskipti aðila 15. ágúst 2012, eigi gagnstefnandi ekki annarra úrkosta en að krefjast skaðabóta og/eða afsláttar af umsaminni upphæð verkkaupsins.
Gagnstefnandi sundurliðar stefnukröfu sína með eftirfarandi hætti:
Skaðabótakrafa og eða afsláttarkrafa gagnstefnanda sundurliðast þannig:
1. Tjón vegna útleiðsla í rafmagnskerfi – uppsetning í Skotlandi heppnaðist ekki
1. Hótel fyrir starfsmenn gagnstefnda í Fort William kr. 317.070,-
2. Hótel fyrir starfsmenn gagnstefnda í Glasgow kr. 41.379,-
3. Vinna vegna bilagreiningar (30 x 16320) kr. 489.600,-
Samtals kr. 848.049,-
2. Tjón vegna skemmda á kolþéttum sem settar voru vitlaust í
1. Kostnaður vegna kaupa á nýjum kolþéttum kr. 88.740,-
3. Kostnaður vegna stíflaðra dísa (spíssa)
1. Kostnaður vegna vinnu starfsmanna
Automatic Cooling Engineers Glasgow, v. hreinsun
á lagnakerfinu, skipti á spíssum og áfyllingu ammoniaks kr. 768.128,-
4. Ferðakostnaður gagnstefnanda vegna galla á kerfinu
1. Ferð 24.7.2012 – 29.7.2012
Flug (KEF-GLA, GLA-KEF) kr. 54.480,-
Dagpeningar (5 dagar x kr. 41.500) kr. 207.500,-
Bílaleigubíll kr. 52.078,-
2. Ferð 18.9.2012 – 26.9.2012
Flug (KEF-GLA, GLA-CPH, CPH-KEF) kr. 123.550,-
Dagpeningar (8 dagar x kr. 41.500) kr. 332.000,-
Bílaleigubíll kr. 66.709,-
3. Ferð 2.10.2012 – 5.10.2012
Flug (KEF-GLA, GLA-CPH, CPH-KEF) kr. 135.530,
Dagpeningar (3 dagar x kr. 41.500) kr. 124.500,-
Bílaleigubíll kr. 88.617,-
Samtals kr. 1.184.964
5. Vinna fyrirsvarsmanns gagnstefnanda Þorsteins Ingvars
Víglundssonar, vegna gallanna (226 klst. x kr. 16.320) kr. 3.688.320,-
6. Tjón vegna þess að síupoki var ekki settur upp í síuhús
1. Varahlutakostnaður – íhlutir
i. Ískrapasköfur sem hafa verið afhentar kaupanda
(192 stk. x kr. 4760) kr. 913.920,-
ii. Botnlegur (36 stk. x kr. 5950) kr. 214.100,-
iii. Sköfur og varahlutir næstu 5 ár (áætlun)
(576 stk. x kr. 4760) kr. 2.741.760,-
2. Kaup á nýjum öxlum (12 stk. x kr. 530.000) kr. 6.360.000,-
3. Kaup á nýjum strokkum (12 stk. x 932.000) kr. 11.184.000,-
4. Vinna við að skipta út öxlum og strokkum
(áætlun) (12 stk. x 430.000,-) kr. 5.160.000,-
Samtals kr. 26.573.880,-
7. Tjón vegna stýriforrits fyrir ískrapakerfi
Kaup á nýju stýriforriti kr. 4.373.000,-
Kröfu sína um dráttarvexti styður gagnstefnandi við 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Upphafstíma dráttarvaxta miðar gagnstefnandi við þingfestingu gagnsakar 14. febrúar 2013. Gagnstefnandi kveður málskostnaðarkröfu sína eiga stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþingsreglur vísar gagnstefnandi til 2. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. einnig 3. tölul. 6. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum nr. 68/1995. Þá sé krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988. Um heimild til að hafa uppi kröfu í gagnsök vísar gagnstefnandi til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í gagnsök
Aðalstefnandi gerir verulegar athugasemdir við lýsingu gagnstefnanda á málavöxtum. Leggur aðalstefnandi áherslu á að gagnstefnandi hafi selt Marine Harvest í Skotlandi ískrapaframleiðslubúnaðinn sem hafi verið afhent kaupanda í 40 feta gámi. Aðalstefnandi mótmælir staðhæfingu gagnstefnanda um að aðalstefnandi hafi hannað og smíðað ískrapaframleiðslukerfið í heild sinni fyrir gagnstefnanda. Þá mótmælir hann einnig staðhæfingum gagnstefnanda þess efnis að hann hafi einungis afhent gagnstefnda 40 feta gám og ískrapastrokka. Hið rétta sé að gagnstefnandi hafi sjálfur keypt og afhent:
1. Safnker/tanka sem hann hafði sjálfur hannað með Cool Partners.
2. Síuhús og pokasíur í það.
3. Uppdrætti þar sem lýst var hvernig setja ætti búnaðinn saman.
4. Gagnstefnandi valdi stúta og spíssa í samvinnu með Cool Partners auk annars búnaðar tengdum krapaísvélunum og virkni þeirra.
5. Gagnstefnandi hafi sjálfur afhent Glykol yfirfallstank.
6. Gagnstefnandi hafi sjálfur afhent búnað til að stjórna saltskömmtun.
7. Gagnstefnandi hafi sjálfur afhent og framkvæmt alla einangrunarvinnu.
8. Gagnstefnandi hafi sjálfur afhent rafmótora frá Hoyer Motors í gegnum Dynamic Energy.
Aðalstefnandi kveður þetta ekki vera tæmandi talningu á því sem gagnstefnandi hafi lagt til í ískrapakerfið. Þá vísar hann til þess að gagnstefnandi segist sjálfur vera framleiðandi þess á heimasíðu sinni.
Aðalstefnandi, sem hafi ISO 9001 gæðavottun, kveður málavexti nánar tiltekið vera þá að gagnstefnandi hafi hannað kerfið eða búnaðinn í félagi við aðalstefnanda og fleiri aðila sem gagnstefnandi hafi valið sjálfur. Aðalstefnandi hafi að litlu leyti unnið sjálfstætt við hönnun búnaðarins en hafi þó borið ábyrgð á að velja eftirfarandi íhluti: Þjöppu, olíukerfi, eimsvala og rafmótor fyrir þjöppu í kælibúnaðinn (ammoníakskerfið). Aðalstefnandi kveður PLC tölvu og stjórnbúnað hafa orðið til í samvinnu aðila á vegum aðalstefnanda, en gagnstefnandi hafi þar tekið virkan þátt í hönnuninni, enda hafi honum einum verið kunnugt um hvernig ætti að stýra ískrapavélunum sem hann hafi hannað og framleitt sjálfur.
Aðalstefnandi telur að í sinni einföldustu mynd hafi atvik verið með þeim hætti að aðalstefnandi hafi hannað háþrýstihluta kælibúnaðarins, gagnstefnandi og Cool Partners hafi unnið saman að hönnun lágþrýstihluta búnaðarins og gagnstefnandi hafi einn hannað ískrapavélarnar. Heldur aðalstefnandi því fram að hönnun kælikerfisins hafi verið á ábyrgð gagnstefnanda sem hafi byggt á samvinnu hans og Cool Partners, en unnið hafi verið eftir teikningu upphaflega frá Cool Partners frá 15. september 2009, merkt Per Skærbæk.
Af hálfu aðalstefnanda er lögð áhersla á að önnur vinna og vinnuferli við verkið hafi verið í samræmi við reglugerðir og farið fram undir eftirliti, sem nánar er lýst í greinargerð. Hafi fyrirsvarsmaður gagnstefnanda jafnframt komið margsinnis á verkstæði aðalstefnanda og tekið þátt í vinnunni. Á það er bent að hann hafi komið með síuhús sem hafi verið sett í kæligáminn eftir ábendingum hans. Farið hafi verið að hans óskum þegar krapavélarnar voru þrýstiprófaðar í Grenå, en hann hafi tekið fram að hann vildi ekki að síum yrði komið fyrir í síuhúsunum, enda væri það óþarfi að hans mati þar sem notað væri hreint vatn við prófunina. Áréttar aðalstefnandi að síuhúsið hafi verið afhent í heilu lagi af gagnstefnanda og verið algerlega á hans eigin ábyrgð.
Aðalstefnandi kveðst hafa tekið saman handbók fyrir kælibúnaðinn sem hafi verið ætluð gagnstefnanda til eigin nota og eignar. Hafi honum verið í sjálfsvald sett hvort hann merkti sér handbókina þegar hann seldi tækið áfram sem hluta af ískrapaframleiðslubúnaði.
Aðalstefnandi byggir á því að kælibúnaðurinn ásamt stýribúnaði hafi verið afhentur gagnstefnanda við verksmiðjudyr EXW (e. Ex Works) á verkstæði aðalstefnanda í Grenå 20. apríl 2012. Samkvæmt alþjóðlegum viðskiptaskilmálum Incoterms 2010 merki Ex Works (EXW) afhendingu sem eigi sér stað á athafnasvæði seljanda, án útflutningsheimilda. Það sé staðfest í tölvupósti gagnstefnanda til flutningsfyrirtækisins Blue Water Shipping A/S. Gagnstefnandi hafi síðan flutt gáminn til Fort William í Skotlandi. Ekkert samningssamband hafi verið á milli aðalstefnanda og Marine Harvest og afhending gagnstefnanda á gámnum til þess aðila í raun aðalstefnanda óviðkomandi.
Eftir afhendingu gagnstefnda á kælibúnaðinum telur aðalstefndi að samningsskyldum aðalstefnanda og gagnstefnanda hafi verið lokið. Viðurkenndir úttektaraðilar höfðu þá tekið út verk aðalstefnanda og hafi kælikerfin þrjú fengið CE/PED vottun. Þannig hafi aðalstefnandi afhent gagnstefnanda viðurkennda og vottaða, gallalausa vöru. Aðalstefnanda sé hins vegar ókunnugt um með hvaða hætti gagnstefnandi hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni á hinu selda eftir afhendingu, en gagnstefnanda hafi í síðasta lagi borið að rannsaka gaumgæfilega ástand hins selda við komu þess á ákvörðunarstað í Skotlandi.
Aðalstefnandi kveðst hafa, að beiðni gagnstefnanda, sent tvo starfsmenn 18. júní 2012 til Skotlands til að kenna starfsmönnum Marine Harvest á kælibúnaðinn og stjórnkerfið, annars vegar rafvirkja frá Innotek og hins vegar tæknimann frá aðalstefnanda. Hafi verið samið um að þetta væri aukaverk. Þá hafi Svend Christensen, starfsmaður gagnstefnda, farið til Fort William 19. júní 2012, en samið hafi verið um að ekki yrði gerður reikningur vegna veru hans þar, enda hafi hann ekki farið sem sérfræðingur, heldur einungis til að upplifa og sjá kerfið gangsett.
Aðalstefnandi bendir á að þegar starfsmenn á hans vegum hafi komið til Fort William hafi gagnstefnandi og viðsemjandi gagnstefnanda haft gáminn ásamt öllu sem í honum var í sinni umsjá í tvo mánuði. Það hafi verið gagnstefnandi sem hafi á eigin ábyrgð séð um að tengja gáminn við vatnslagnir á staðnum og setja hann upp svo hægt væri að gangsetja ískrapakerfið. Óhjákvæmilega sé það á ábyrgð þess sem annast frumtengingu gámsins við vatnsinntak að ganga úr skugga um að nauðsynlegar síur séu til staðar.
Aðalstefnandi staðhæfir að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda hafi verið á staðnum og annast þetta verk auk þess sem hann hafi stýrt verki starfsmanna endanlegs kaupanda að svo miklu leyti sem þeir hafi komið að uppsetningunni. Þegar starfsmenn aðalstefnanda hafi komið til Fort Williams hafi gagnstefnandi þegar verið búinn að tengja allt vatnskerfið með pípulögnum við gáminn, þ.m.t. svokallað „White box“ sem virtist hafa því hlutverki að gegna að blanda saltvatni saman við hreint vatn.
Aðalstefnandi mótmælir því að starfsmenn hans hafi snúið pakkdósum eða kolþéttum í ískrapastrokkum öfugt. Þessi búnaður hafi verið hannaður og afhentur af gagnstefnanda og verði hann sjálfur að bera ábyrgð á því, hafi pakkdósum verið snúið öfugt.
Aðalstefnandi tekur fram að þegar starfsmenn hans hafi yfirgefið Skotland 23. júní 2012 hafi þeim ekki verið kunnugt um að neinu væri ábótavant við kælibúnaðinn. Við gangsetningu hafi þó komið í ljós útleiðsla sem hafi verið rakin til liða sem skipt hafi verið út á staðnum fyrir liði sem Marine Harvest útvegaði. Eftir það hafi ekki orðið vart við útleiðslu fyrir brottför starfsmanna aðalstefnanda. Hafi ískrapakerfið virkað svo sem til hafi verið ætlast. Rangt val gagnstefnanda á rafmótorum við ískrapavélarnar hafi þó orsakað gangtruflanir sem hafi valdið því að yfirstraumvörn hafi slegið út þegar ísvélarnar byrjuðu að framleiða ís. Starfsmenn aðalstefnanda hafi leitað og mælt hvort orsökin lægi í galla sem þeir bæru ábyrgð á. Engir gallar hafi fundist en í ljós hafi komið að veituspennan í verksmiðjunni hjá Marine Harvest var hærri en gagnstefnandi átti von á.
Aðalstefnandi tekur fram að þessum rafmótorum hafi síðar verið skipt út. Telur hann líklegast að sá sem það gerði hafi valdið skemmdum á rafbúnaði, en síðari útleiðsla hafi komið fram á sömu grein og hinir útskiptu rafmótorar hafi verið á. Þá heldur aðalstefnandi því fram að vandamál í tengslum við rafmótarana hafi leitt til þess að ekki var mögulegt að kanna framleiðslu hverrar einstakrar vélar þar sem hún sé metin á grundvelli mótorspennunnar. Einnig hafi getað komið upp truflanir í rekstri búnaðarins við álag á kerfið þar sem líkur væru á því að yfirstraumvörn mótoranna yrði virk áður en búnaðurinn næði fullri virkni.
Aðalstefnandi áréttar að tenging krapaframleiðslugámsins við vatnskerfið hafi verið í gegnum svokallað „White box“ sem gagnstefnandi hafi hannað og smíðað og flutt til Skotlands. Aðalstefnanda sé ókunnugt um hvers konar efni sé í honum. Allar vatnsleiðslur sem settar hafi verið saman í Grenå hafi verið úr plasti og límdar. Útilokað sé að suðuóhreinindi hafi komist inn í kerfið fyrir afhendingu til gagnstefnanda. Hafi gámurinn þegar verið tengdur við vatn þegar starfsmenn aðalstefnanda hafi komið til Skotlands 18. júní 2012.
Aðalstefnandi kveður sér ekki hafa verið kunnugt um að gagnstefnandi teldi að orsök lakra afkasta í kerfinu væri suðuóhreinindi í spíss í kælikerfi. Hafi gagnstefnanda ekki verið tilkynnt um það og hann ekki átt þess kost að staðreyna sannindi þessarar staðhæfingar gagnstefnanda.
Hafi suðuagnir og suðuspænir borist inn í ískrapakerfið eftir afhendingu vélasamstæðunnar til gagnstefnanda telur aðalstefnandi hafið yfir allan vafa að það sé honum óviðkomandi. Um það vísar aðalstefnandi m.a. til yfirlýsingar Kaj Lind Kristensen, úttektaraðila á vegum Nordisk Svejs Kontrol. Þar komi fram að notuð hafi verið suðuaðferðin WPS 30335-02, eða TIG suða 141, sem sé ein af fáum suðuaðferðum sem séu gjallfríar. Í yfirlýsingunni komi fram að hafi fundist gjall í rörum eða í ískrapavélinni, þá sé 100% öruggt að gjallið sé ekki til komið vegna vinnu á vegum gagnstefnanda. Beri gagnstefnandi sönnunarbyrði um hið gagnstæða en hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á slíkt. Í þessu sambandi bendir aðalstefnandi á að ekkert sé vitað hvaða kröfur séu gerðar til suðu þeirra íláta og íhluta sem gagnstefnandi hafi útvegað. Eins sé ekkert vitað hvernig staðið hafi verið að því að rjúfa kælirörin og hvernig ný rör hafi verið soðin í kerfið. Þá hafi kælibúnaðurinn verið hannaður af gagnstefnanda í samvinnu við Cool Partners, en ekki sé unnt að ráða af þeirri hönnun að sía eigi að vera fyrir framan hvern einstakan spíss.
Aðalstefnandi tekur jafnframt fram að gagnstefnandi hafi fengið síupoka afhenta með gámnum. Það hafi verið hann sem tengdi gáminn við hið svokallaða hvítbox og vatnslögn í Fort William. Byggir aðalstefnandi á því að það hafi staðið gagnstefnanda næst að setja síur í síuhúsið áður en hann hleypti vatni á kerfið. Mótmælir aðalstefnanda því sérstaklega að starfsmaður gagnstefnanda hafi tjáð sig um vatnskerfið.
Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að gagnstefnandi hafi aldrei haft samband við aðalstefnanda um frekari úrbætur og hafi haldið honum frá verkefninu. Þannig hafi hann ekki haft samband við aðalstefnanda áður en hann fór til Skotlands í október 2012. Þar eigi gagnstefnandi að hafa verið að vinna einhliða að úrbótum án samráðs við aðalstefnanda, sem hafi ekki getað gætt hagsmuna sinna. Þá sé ekki skjalfest á nokkurn hátt hvað fyrirsvarsmaður gagnstefnanda eigi að hafa verið að aðhafast á ferðum sínum. Aðalstefnandi telur þennan kostnað vera sér óviðkomandi, enda hafi gagnstefnandi þar verið að þjónusta sinn eigin viðskiptavin og rót þess vanda sem verið var að eltast við hafi ekki verið á ábyrgð aðalstefnanda. Þá telur aðalstefnandi að það sé honum óviðkomandi að gagnstefnandi lofi viðsemjanda sínum lengri ábyrgðartíma umfram lagaskyldu. Jafnframt mótmælir aðalstefnandi því að hann hafi ekki viljað aðstoða gagnstefnanda í erfiðleikum sínum. Aðalstefnandi hafi þó eðlilega viljað takmarka aðstoð sína við þau atriði sem hann bæri ábyrgð á.
Aðalstefnandi mótmælir því að hugbúnaður, sem þróaður hafi verið í samvinnu við gagnstefnanda og Innotek, hafi verið haldinn galla. Gagnstefnandi hafi með virkum hætti komið að þróun hugbúnaðarins enda hönnuður krapastrokkana sem búnaðurinn hafi átt að stýra og hann einn hafi vitað hvernig hann vildi að þeim yrði stýrt. Einnig hafi kerfið verið hannað þannig að með fjartengingu hafi mátt gera uppfærslur á því. Gagnstefnandi hafi nýtt sér þann möguleika að uppfæra stýrikerfið í gegnum fjartengingu mörgum sinnum eftir afhendingu og sé gagnstefnda ókunnugt um þær breytingar sem þannig hafi verið gerðar enda án samráðs við hann. Breytingar á stjórnkerfi kunni að hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir einstaka hluta kælikerfisins og var gagnstefnanda gert viðvart um þessa hættu. Þá sé mikilvægt að hafa í huga að þegar starfsmenn aðalstefnanda hafi yfirgefið Skotland í júní 2012 hafi PLC búnaðurinn virkað með eðlilegum hætti og munu starfsmenn Innotek geta staðfest það. Telur aðalstefnandi sér það óviðkomandi að gagnstefnandi ákveði að kaupa nýtt stýrikerfi.
Eins og áður segir krefst aðalstefnandi sýknu af kröfum í gagnsök. Hann reisir sýknukröfu sína á því að hann hafi, eins og fram hefur komið, tekið að sér að smíða og selja gagnstefnanda kælibúnað eftir hönnun gagnstefnanda og Cool Partners til nota í 40 feta gámaeiningu sem ætluð var til ískrapaframleiðslu með ískrapabúnaði sem gagnstefnandi hafi hannað og hafi átt að vera í sömu gámeiningu. PLC stýribúnaður fyrir kerfið hafi verið unninn í samvinnu aðila, enda hafi gagnstefnandi einn haft þekkingu á virkni ískrapaframleiðslu búnaðarins.
Kælibúnaðurinn ásamt stýribúnaði hafi verið afhentur gagnstefnanda við verksmiðjudyr á verkstað gagnstefnda í Grenå. Á því er byggt að hið selda hafi, hvað varðar tegund, magn, gæði og aðra eiginleika, fullnægt þeim kröfum sem af samningi aðila hafi leitt, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000, enda hafi það staðist verksmiðjuprófanir og verið vottað af óháðum aðila. Tjón sem komi fram á hinu selda eftir afhendingu sé á ábyrgð gagnstefnanda, sbr. 21. gr. laga nr. 50/2000. Um þetta vísar aðalstefnandi 2. mgr. 6. gr. sbr. 13. gr. l. nr.50/2000.
Á því er byggt að allt handverk aðalstefnanda hafi verið gallalaust og sérstaklega á því byggt að öll suðuvinna hafi verið vottuð og tekin út af óháðum aðila. Á því er einnig byggt að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda hafi verið á staðnum og fylgst með vinnu við verkið og tekið þátt í framkvæmd þess.
Aðalstefnandi byggir á því að gagnstefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hið selda, sem afhent hafi verið inn í gám í eigu gagnstefnanda, hafi verið haldið göllum. Aðalstefnandi byggir á því að gagnstefnanda hafi ekki tekist slík sönnun, heldur séu þvert á móti vísbendingar um að orsök hins meinta tjóns sé að rekja til atvika er varði gagnstefnanda sjálfan.
Af hálfu aðalstefnanda er jafnframt á því byggt að gagnstefnanda hafi borið að rannsaka hið selda við móttöku í Grenå og í síðasta lagi við komu hins selda til Skotlands, sbr. 1. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2000. Hið selda hafi verið afhent í Grenå 20 apríl 2012 og verið komið til Skotlands 23. apríl eða þremur dögum síðar. Á því er byggt að hið selda hafi við afhendingu verið í umsömdu ástandi enda hafði það staðist prófanir fyrir afhendingu og verið móttekið af gagnstefnanda án athugasemda, sbr. 1. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2000.
Á því er byggt af hálfu aðalstefnanda að hann geti ekki borið ábyrgð á ætluðum tjónsorsökum sem rekja megi til íhluta eða verks sem gagnstefnandi hafi sjálfur unnið eins og til dæmis við ískrapabúnaðinn sjálfan. Enn fremur er á því byggt að breytingar og aðgerðir gagnstefnanda, sem hafi verið unnar einhliða og án aðkomu aðalstefnanda, og afleiðingar þeirra, séu alfarið á ábyrgð gagnstefnanda sjálfs.
Aðalstefnandi áréttar sérstaklega að eftir að gagnstefnandi tók við gáminum með uppsettum kælibúnaði við verksmiðjudyr hafi gagnstefnandi borið áhættu af öllu eftirfarandi tjóni á búnaðinum og því sem í gámnum var. Gagnstefnandi hafi ekki sýnt fram á að hið ætlaða tjón sé með sannanlegum hætti að rekja til atvika er gagnstefndi geti borið ábyrgð á. Bent er á að gagnstefnandi og viðsemjandi hans hafi haft hið selda í sínum vörslum í yfir tvo mánuði áður en hinir ætluðu gallar komu fram. Allan þann tíma hafi hið selda verið á ábyrgð og áhættu gagnstefnanda.
Á því er byggt að gagnstefnandi hafi borið ábyrgð á því, eftir að hann veitti gámnum viðtöku, að tryggja að ekki yrði sett vatn inn í kerfið nema sía væri í síuhúsi, hafi slíkt verið nauðsynlegt að mati gagnstefnanda.Vatni hafi verið hleypt á gáminn löngu áður en starfsmenn aðalstefnanda hafi komið til Skotlands eftir miðjan júní 2012. Þá mótmælir aðalstefnandi því að starfsmenn hans hafi átt að sjá um tengingu vatns við kerfið, enda hafi sá þáttur alfarið verið á vegum gagnstefnanda sjálfs og viðsemjanda hans.
Aðalstefnandi bendir í þessu sambandi á að gagnstefnandi hafi sjálfur afhent síuhús sem hann hafi keypt beint af birgja og hafi fyrirsvarsmanni gagnstefnanda verið manna best kunnugt um það hvort það hafi verið afhent með eða án ísettrar síu. Það hafi því staðið honum næst að tryggja að sía væri í síuhúsinu áður en ískrapavélin væri tekin í notkun.
Á því er byggt af hálfu aðalstefnanda að vinna hans við hið selda hafi í einu og öllu verið unnin undir eftirliti gagnstefnanda og í samræmi við óskir hans. Að auki hafi fyrirsvarsmaður gagnstefnanda unnið stóran hluta alls kerfisins sjálfur auk undirverktaka á hans vegum. Vinna aðalstefnanda við hið selda sé vottuð af óvilhöllum aðilum um verkgæði og vinnuaðferðir. Ekkert sé hins vegar vitað um vinnuaðferðir gagnstefnanda og hreinleika á þeim búnaði sem hann hafi sjálfur afhent.
Bent er á að í afhendingu gagnstefnanda til viðsemjanda síns, Marine Harvest, hafi falist m.a. að tengja krapaframleiðslukerfið við raflagnir og vatnslagnir á staðnum. Sú afhending til viðsemjanda gagnstefnanda hafi verið aðalstefnanda í raun óviðkomandi.
Þá er á því byggt að allar eftirfarandi og einhliða aðgerðir gagnstefnanda við hið selda eftir afhendingu aðalstefnanda hafi alfarið verið á ábyrgð gagnstefnanda og verði gagnstefnandi sjálfur að bera áhættu af þeim aðgerðum sínum. Á því er einnig byggt að gagnstefnanda hafi ekki tekist að sanna að skemmdir á hinu selda, eða öðrum munum, eftir afhendingu til gagnstefnanda, megi rekja til atvika sem aðalstefnandi geti borið ábyrgð á.
Aðalstefnandi byggir á því að hann hafi umfram skyldu aðstoðað gagnstefnanda við að finna lausn á þeim vandamálum sem upp hafi komið þegar viðsemjandi gagnstefnanda hóf að keyra ískrapakerfið sem gagnstefnandi hafði selt honum.
Aðalstefnandi mótmælir sérstaklega afsláttarkröfu gagnstefnanda, enda sé ekki sýnt fram á af hálfu gagnstefnanda að hið selda hafi með neinum hætti verið haldið ágalla sem veitt geti gagnstefnanda rétt til afsláttar úr hendi gagnstefnda.
Verði talið að um verksamning sé að ræða byggir aðalstefnandi á því að aðalstefnandi hafi unnið umsamið verk í fullu samræmi við samning aðila og að verkið hafi ekki verið haldið neinum galla þegar gagnstefnandi hafi tekið við því við verksmiðjudyr gagnstefnda í Grenå 20. apríl 2012. Að öðru leyti eigi sömu málsástæður við og reifaðar séu hér að framan, þar með talið um áhættuskipti á hinu unna verki við afhendingu.
Fari svo að dómurinn telji aðalstefnanda bótaskyldan mótmælir hann öllum fjárkröfum gagnstefnanda, hverjum einstökum kröfulið, sem órökstuddum og tilhæfulausum. Gagnstefnandi hafi ekki lagt neinn þann grundvöll að skaðabótakröfu sinni sem talist geti fullnægjandi sönnun tjóns fyrir dómi. Fjárkrafan sé ekki studd neinum þar til bærum eða gildum sönnunargögnum og byggist á eigin útreikningum og einhliða samantekt gagnstefnanda.
Um lagarök vísar aðalstefnandi til ákvæða laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, aðallega 6., 12., 13., 17., 21. og 31. gr. laganna. Auk þess vísar aðalstefnandi til reglna kröfuréttar um áhættuskipti í lausafjárkaupum, réttar efndir samninga, skuldbindingagildi loforða og efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar aðalstefnandi til meginreglna verktakaréttar um réttar efndir verksamninga og um yfirfærslu áhættu á verki frá verktaka til verkkaupa við afhendingu verks. Aðalstefnandi vill einnig vísa til reglna kröfuréttar um eigin sök og útilokunaráhrif eigin sakar á bótarétt bæði innan og utan samninga. Þá vísar aðalstefnandi til reglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði.
IV
Við aðalmeðferð málsins gaf framkvæmdastjóri aðalstefnanda, Palle Bendix, aðilaskýrslu, sem og framkvæmdastjóri gagnstefnanda, Þorsteinn Ingi Víglundsson. Jafnframt gaf starfsmaður aðalstefnanda, Svend Christensen, vitnaskýrslu við aðalmeðferðina.
Eins og rakið hefur verið samdi gagnstefnandi við Marine Harvest um sölu á vélasamstæðu til framleiðslu á ískrapa. Skýrt kemur fram í málflutningsskjölum gagnstefnanda að hann hafi skuldbundið sig til þess að afhenda kaupandanum umrædda vélasamstæðu, sem koma átti fyrir í 40 feta gámi, í Fort Williams í Skotlandi. Eins og málið liggur fyrir verður að ganga út frá því að aðalstefnandi hafi ekki tekið á sig neinar skuldbindingar gagnvart Marine Harvest í þessum lögskiptum. Aftur á móti tók aðalstefnandi að sér gagnvart gagnstefnanda ákveðna þætti við framleiðslu vélasamstæðunnar og uppsetningu hennar í Skotlandi.
Í aðilaskýrslu Palle Bendix fyrir dómi kom fram að í kælikerfinu, sem notað væri til að framleiða ískrapann, væri háþrýstihluti annars vegar og lágþrýstihluti hins vegar. Þriðji þátturinn í ískrapakerfinu væri vatnshlutinn. Kemur þetta heim og saman við lýsingu á ískrapakerfinu í leiðbeiningarbæklingi sem aðalstefnandi tók saman. Má af honum ráða að kælikerfið virkaði þannig að eftir að þrýstingsfall yrði á kælimiðli færi hann að sjóða við -20 gráður. Kælimiðlinum væri síðan dælt inn í ískrapastrokka og vatni veitt í gegnum þá sem kólnaði við það niður í -1,8 gráður. Við það yrði til ís sem skafinn væri úr strokkunum. Þorsteinn Ingi Víglundsson staðfesti jafnframt fyrir dómi að ískrapakerfið byggðist á þessum þremur þáttum, háþrýstikerfi, lágþrýstikerfi og vatnskerfi, auk stýrikerfis.
Ágreiningslaust er að aðalstefnandi bar ábyrgð á hönnun og framleiðslu háþrýstihluta kælikerfisins. Þá er enginn ágreiningur um að aðalstefnandi tók að sér að setja saman bæði háþrýsti- og lágþrýstihluta kælikerfisins, auk þess sem hann vann að því að tengja vatnslagnir saman með nauðsynlegum íhlutum við aðra hluta kerfisins samkvæmt teikningu sem ber yfirskriftina „Sea Water System“. Með vætti Svend Christensen er upplýst að hann gerði framangreinda hönnunarteikningu, en hann kveðst hafa teiknað hana eftir fyrirmælum frá Þorsteini Inga Víglundssyni. Fær það nokkra stoð í gögnum málsins. Öllum þessum búnaði var komið fyrir í 40 feta gámi í verksmiðju aðalstefnanda í Grenå sem síðar var fluttur til Fort Williams í Skotlandi. Að auki ber annar tveggja reikninga frá 28. júní 2012 með sér að aðalstefnandi hafi tekið að sér að aðstoða við uppsetningu (d. montørassistance) á kælikerfinu í Fort Williams áður en það var tekið í notkun.
Í málatilbúnaði beggja aðila er aðallega gengið út frá því að lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup gildi um lögskipti þeirra á milli. Gagnstefnandi vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 2. gr. laganna þar sem fram kemur að lögin gildi um pöntun hlutar sem búa skal til þegar sá sem pantar lætur ekki í té verulegan hluta efnis til framleiðslunnar. Þó að nokkur ágreiningur sé milli aðila um hversu stóran hluta efnis gagnstefnandi lagði til við smíði vélasamstæðunnar virðast aðilar þó sammála um að sá hluti hafi ekki verið verulegur. Þegar jafnframt er litið til framlagðra gagna þykir rétt að leggja þá forsendu til grundvallar úrlausn málsins.
Aðalstefnandi er með atvinnustöð sína í Danmörku. Með vísan til 2. mgr. 5. gr. laganna verður að leggja til grundvallar að almenn ákvæði laga nr. 50/2000 gildi um lögskipti aðila en ekki sérreglur um alþjóðleg kaup.
Eins og rakið hefur verið var ekki gerður skriflegur samningur milli aðila. Engin gögn liggja heldur fyrir um samskipti aðila er lúta að því hvernig afhenda ætti gáminn með vélasamstæðunni. Fyrir liggur að gagnstefnandi greiddi fyrir að flytja gáminn frá verkstæði aðalstefnanda í Grenå til Skotlands. Hefur gagnstefnandi ekki fært sönnur á að samið hafi verið sérstaklega um það að aðalstefnandi ætti að afhenda söluhlutinn í Skotlandi, hvað þá að hann hafi gengist inn á sömu skilmála um afhendingu og gagnstefnandi kveðst hafa samið um við Marine Harvest. Með vísan til þeirrar almennu meginreglu sem fram kemur í 6. gr. laga nr. 50/2000 verður að leggja til grundvallar að söluhluturinn hafi verið afhentur við verksmiðjudyr í Grenå og að þar hafi gagnstefnandi veitt honum viðtöku. Áhætta af söluhlutnum fluttist við það yfir til gagnstefnanda sem kaupanda, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/2000.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort framangreindur söluhlutur, sem gagnstefnandi seldi aftur til Marine Harvest í Skotlandi, hafi verið haldinn galla sem veiti gagnstefnanda tilkall til skaðabóta eða afsláttar af kaupverði hans. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2000 skal við mat á því hvort söluhlutur er gallaður miða við það tímamark þegar áhættan af söluhlutnum flyst yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar, eins og þar segir. Seljandi getur þó einnig borið ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu hans má rekja til vanefnda af hans hálfu, sbr. 2. mgr. 21. gr. laganna. Á þetta meðal annars við þegar samið hefur verið um að seljandi beri tilteknar skyldur eftir afhendingu söluhlutar en hann vanrækir að sinna þeim og það leiðir til þess að söluhlut verður svo áfátt að hann telst gallaður.
Eins og atvik horfa við í því máli sem hér er til úrlausnar verður samkvæmt framansögðu í fyrsta lagi að leggja mat á hvort vélasamstæðan hafi verið haldin þeim göllum sem gagnstefnandi vísar til við afhendingu hennar 20. apríl 2012 í Grenå í Danmörku. Í öðru lagi þarf að skoða hvort söluhluturinn hafi orðið gallaðar vegna vanrækslu aðalstefnanda á skyldum sínum samkvæmt samningi aðila eftir afhendingu vélasamstæðunnar. Gagnstefnandi ber í öllum aðalatriðum sönnunarbyrðina um þessi atriði. Verður hann því að afla þeirra gagna sem eru fallin til þess að staðreyna gallann og ábyrgð aðalstefnanda á honum, eftir atvikum með mats- eða skoðunargerð samkvæmt IX. eða XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Gagnstefnandi ber í fyrsta lagi fyrir sig að útleiðsla í rafmagnskerfi hafi valdið því að ískrapakerfið slökkti hvað eftir annað á sér skömmu eftir gangsetningu. Af málatilbúnaði gagnstefnanda virðist mega ráða að þessi galli hafi komið fram við gangsetningu meðan starfsmenn aðalstefnanda og rafvirki frá Innotek voru í Skotlandi. Þeir hafi hins vegar ekki getað greint ástæðu útleiðslunnar. Hafi orsök hennar ekki komið í ljós fyrr en við skoðun framkvæmdastjóra gagnstefnanda 24. júlí 2012. Hafi þá uppgötvast að skrúfa, sem festi upp ammoníaksskynjara, hafi legið utan í rafmagnsvír sem olli útleiðslu. Af hálfu aðalstefnanda er þessu mótmælt og staðhæft að þegar starfsmenn hans hafi yfirgefið staðinn 23. júní 2012 hafi ískrapakerfið starfað eðlilega að öðru leyti en því að rafmótorar, sem gagnstefnandi lagði til, hafi ekki hentað til framleiðslunnar. Gögn málsins bera með sér að í lok júlí 2012 hafi þessum mótorum verið skipt út fyrir nýja mótora sem hentuðu betur.
Ekki liggja fyrir önnur gögn um útleiðslu þessa en staðhæfingar gagnstefnanda og þrjár ljósmyndir, sem eiga að sýna brennt tengi við ammoníaksnema. Auk þess hefur gagnstefnandi lagt fram íslenska þýðingu á tölvuskeyti frá 3. ágúst 2012 þar sem framkvæmdastjóri gagnstefnanda spyr hvenær „sá hluti sem brann verði bættur“. Í svari framkvæmdastjóra aðalstefnanda við þessu tölvuskeyti er vikið að rofa sem „er búið að panta“. Gegn mótmælum aðalstefnanda er ekki unnt að slá því föstu, út frá þessum óljósu gögnum, að vélasamstæðan hafi verið haldin þeim galla sem hér um ræðir við afhendingu hennar eða að hann komi til af vanrækslu sem aðalstefnandi ber ábyrgð á.
Gagnstefnandi byggir gagnkröfu sína jafnframt á því að aðalstefnandi hafi snúið kolþéttum á sex af tólf ískrapastrokkum öfugt með þeim afleiðingum að þeir eyðilögðust. Gagnstefnandi er framleiðandi ískrapastrokkanna, en kolþéttin munu liggja þar sem þeir tengjast kælikerfinu. Framkvæmdastjóri gagnstefnanda, Þorsteinn Ingi Víglundsson, bar fyrir dómi að hann hafi sjálfur komið kolþéttum fyrir á „aðra vélina“ á verkstæði aðalstefnanda í Grenå, og um leið kennt starfsmönnum aðalstefnanda að vinna þetta verk. Starfsmenn aðalstefnanda hafi síðan komið kolþéttum fyrir á „hina vélina“.
Ekki liggja fyrir önnur gögn um þennan ætlaða galla á vinnu við samsetningu vélasamstæðunnar en staðhæfingar gagnstefnanda og ljósmyndir af ónýtum kolþéttum sem munu vera teknar í Skotlandi. Af þeim verður ekki dregin sú ályktun að starfsmaður aðalstefnanda hafi snúið þessum kolþéttum öfugt. Því verður ekki talið sannað að aðalstefnandi beri ábyrgð á þessum ætlaða galla á vélasamstæðunni sem gagnstefnandi afhenti Marine Harvest.
Af hálfu gagnstefnanda er jafnframt á því byggt að gjall og suðuspónn hafi orðið eftir í kælilögnum sem hafi leitt til þess að gagnstefnandi hafi þurft, með aðstoð Automatic Cooling Engineers í Glasgow, að hreinsa allt lagnakerfið og skipta um spíssa. Af hálfu aðalstefnanda er því mótmælt að suðuóhreinindi hafi getað hlotist af suðuvinnu á hans vegum. Um það er meðal annars vísað til þess að öll suða við kælikerfið hafi verið yfirfarin af Nordisk Svejse Kontrol og fullyrt að notuð hafi verið TIG-suða með argoni eða bakgasi þar sem ekki myndist suðugjall. Því til stuðnings hefur aðalstefnandi lagt fram tölvuskeyti frá Kaj Lind Kristensen sem er suðusérfræðingur og eftirlitsfulltrúi hjá Nordisk Svejse Kontrol.
Gagnstefnandi hefur ekki lagt fram önnur gögn um ætluð suðuóhreinindi í kælilögnum en eigin staðhæfingar í þá veru og sex ljósmyndir, þar af þrjár sem eiga að sýna málmspón eða gjall sem verið hafi í spíssum og rörum í kælikerfinu þegar það á að hafa verið hreinsað í september og október 2012. Engin gögn liggja t.d. fyrir um kostnað vegna vinnu Automatic Cooling Engineers við hreinsunina. Þá liggur ekki fyrir skoðunar- eða matsgerð óháðs aðila um þá suðuvinnu sem beitt var við samsetningu kælikerfisins eða aðrar mögulegar ástæður þeirra óhreininda sem gagnstefnandi fullyrðir að þar hafi verið. Gagnstefnandi hefur ekki hrakið staðhæfingu aðalstefnanda, sem studd er yfirlýsingu starfsmanns Nordisk Svejse Kontrol, þess efnis að útilokað sé að suðuóhreinindi geti hafa myndast við suðuvinnu á vegum aðalstefnanda. Að þessu gættu verður gagnstefnandi ekki talinn hafa sýnt nægilega fram á að vélasamstæðan hafi verið haldinn þeim galla sem hér um ræðir við afhendingu hennar eða að hann sé síðar til kominn sökum vanrækslu aðalstefnanda á skyldum sínum.
Gagnstefnandi ber því einnig við að galli sé í hugbúnaði sem stýrir ískrapakerfinu en verktaki á vegum aðalstefnanda hafi annast hönnun og gerð stýrikerfisins. Lýsi gallinn sér í því að hugbúnaðurinn slökkvi á öllum þremur vélum ískrapakerfsins við bilun á einni vél, en það komi niður á afköstum kerfisins. Engin gögn liggja fyrir um þennan ætlaða galla á hugbúnaði kerfisins önnur en staðhæfing gagnstefnanda í þá veru. Hefur hann ekki sýnt fram á að hugbúnaðurinn hafi verið haldinn galla við afhendingu vélasamstæðunnar eða að hann sé til staðar sökum vanrækslu aðila á vegum aðalstefnanda eftir það. Þá liggur ekkert fyrir um tjón gagnstefnanda vegna þessa ætlaða galla.
Að lokum heldur gagnstefnandi því fram að málmagnir eða gjall hafi borist inn í ískrapastrokkana og rispað þá og skemmt sökum þess að aðalstefnandi hafi ekki sett síu í síuhús við prófanir í Danmörku og fyrir gangsetningu kerfisins í Skotlandi. Eins og rakið hefur verið eru lagnir í vatnshluta ískrapakerfsins úr plastefni og þær límdar saman. Ganga verður út frá því að vatnskerfið sé að öllu leyti aðskilið kælikerfinu eins og fram kom í skýrslu framkvæmdastjóra aðalstefnanda fyrir dómi. Hafi málmagnir verið í kælikerfinu ættu þær því ekki að hafa getað borist inn í ískrapastrokkana þar sem ískrapinn myndast.
Upplýst er með framburði Svend Christensen, starfsmanns aðalstefnanda, og Þorsteins Inga Víglundssonar, framkvæmdastjóra gagnstefnanda, að gagnstefnandi hafi átt frumkvæði að því að koma fyrir síuhúsi við vatnsinntakið inn í kerfið. Hönnunarteikning af vatnskerfinu, sem Svend Christensen gerði, tekur mið af því og hefur hann að því leyti fylgt tilmælum Þorsteins. Þá liggur fyrir að Þorsteinn hafi sjálfur komið með síuhúsið á verkstæði aðalstefnanda en starfsmenn aðalstefnanda komið því fyrir á réttum stað miðað við hönnunarteikningu. Kveðst Þorsteinn hafa gefið fyrirmæli um að setja síur, sem hann hafi skilið eftir í kassa, í síuhúsið áður en vatni yrði hleypt á kerfið. Engin gögn liggja hins vegar fyrir í málinu því til stuðnings. Gegn andmælum stefnanda er því ekki unnt að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins.
Eins og ítrekað hefur komið fram seldi gagnstefnandi Marine Harvest ískrapakerfið sem komið hafði verið fyrir í gámnum. Ekkert samningssamband var því á milli Marine Harvest og aðalstefnanda. Aðalstefnandi skuldbatt sig þó gagnvart gagnstefnanda til að aðstoða við uppsetningu kerfisins í Fort Williams eins og annar reikninganna frá 28. júní 2012 ber með sér. Ekki er ljóst af gögnum málsins í hverju sú aðstoð átti að felast nema að því leyti að starfsmönnum aðalstefnanda og Innoteks var falið að kenna á stýrikerfið og hvernig kælikerfið virkaði. Liggur ekkert fyrir um að þeir hafi borið sérstakar skyldur til að tryggja að síur í vatnskerfinu væru á sínum stað áður en vatni væri hleypt á kerfið. Þá var framkvæmdastjóri gagnstefnanda einnig á staðnum þegar unnið var að uppsetningu kerfisins í Fort Williams. Gagnstefnandi bar sem seljandi ábyrgð á því að afhenda kaupanda söluhlutinn í umsömdu ástandi. Það stóð honum því nær að ganga úr skugga um að fyllsta öryggis væri gætt við tengingu milli saltvatnslagna á staðnum og ískrapakerfisins. Breytir engu í þessu sambandi þó að starfsmaður aðalstefnanda kunni að hafa gefið það í skyn við starfsmenn Marine Harvest að ekki væri sérstök þörf á að nota síur þegar hreint vatn væri notað við framleiðsluna.
Til stuðnings fullyrðingum gagnstefnanda, um að skemmdir hafi orðið á ískrapastrokkunum og öxlum við að suðugjall hafi borist inn í þá, hefur hann einungis lagt fram nokkrar ljósmyndir sem gagnstefnandi kveðst hafa tekið í Skotlandi. Á myndunum má sjá rispur á yfirborði þess strokks sem myndin er af, slitna sköfu og rispaðan öxulenda auk málmagna sem safnast hafa við segul í flæðiglasi. Gagnstefnandi hefur með þessum gögnum ekki fært viðhlítandi sönnur á að strokkarnir séu ónýtir sökum mistaka aðalstefnanda. Þá hefur gagnstefnandi ekki fært neinar sönnur á umfang ætlaðs tjóns sem leiddi af þessum skemmdum. Raunar er einungis við staðhæfingu gagnstefnanda að styðjast um að sía hafi ekki verið í síuhúsinu við gangsetningu kerfisins í Fort Williams, en enginn frá Marine Harvest gaf skýrslu fyrir dómi.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn ekki í ljós leitt að vélasamstæðan hafi verið haldin galla við afhendingu hennar sökum þess að síu hafi ekki verið komið fyrir í síuhúsinu og að það hafi valdið þeim skemmdum sem gagnstefnandi heldur fram. Í því sambandi verður að hafa í huga að kassinn með síum, sem koma átti fyrir í síuhúsinu, fylgdi með þegar gámurinn var afhentur. Þá varð að tengja kerfið við saltvatnslagnir á staðnum, en ekki liggur fyrir að sú tenging hafi verið á ábyrgð aðalstefnanda. Því er einnig ósannað að skemmdir hafi orðið á búnaðnum vegna vanrækslu aðalstefnanda eftir afhendingu vélasamstæðunnar til gagnstefnanda.
Samkvæmt öllu framansögðu verður að hafna öllum gagnkröfum gagnstefnanda um skaðabætur eða afslátt af söluverði vélasamstæðunnar. Ber því jafnframt að fallast á að aðalstefnandi eigi kröfu um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs söluhlutarins, sem nemur 463.244,04 dönskum krónum.
Aðalstefnandi krefst dráttarvaxta á kröfu samkvæmt reikningi, dags. 28. júní 2012, að fjárhæð 1.044.550 danskar krónur, að frádreginni innborgun að fjárhæð 700.000 danskar krónur, allt frá 7. júlí 2012. Þá er krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð, ásamt kröfu samkvæmt reikningi að fjárhæð 118.694 danskar krónur, frá 21. júlí 2012. Á reikningunum kemur fram að gjalddagi sé annars vegar 7. júlí og hins vegar 21. júlí 2012. Ekkert liggur þó fyrir um að þessir gjalddagar hafi verið fyrir fram ákveðnir. Ekki verður séð að skuldari hafi verið krafinn um greiðslu fyrr en með útgáfu téðra reikninga. Verða dráttarvextir því ákveðnir á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og í dómsorði greinir.
Gagnstefnandi hefur tapað málinu í öllum aðalatriðum og verður því gert að greiða aðalstefnanda málskostnað. Ætla verður að aðalstefnandi hafi haft nokkurn kostnað af rekstri málsins þar á meðal ferðakostnað til landsins og þýðingarkostnað, eins og fram kemur í framlögðum málskostnaðarreikningi. Þá verður við ákvörðun á málflutningsþóknun lögmanns aðalstefnanda að taka tillit til umfangs málsins. Að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða þykir rétt að gagnstefnanda verði gert að greiða aðalstefnanda 4.000.000 króna í málskostnað.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Gagnstefnandi, Thorice ehf., greiði aðalstefnanda, B Cool Consult A/S, 463.244,04 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kröfufjárhæðinni frá 28. júlí 2012 til greiðsludags.
Aðalstefnandi er sýkn af kröfu gagnstefnanda í gagnsök.
Gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 4.000.000 króna í málskostnað.