Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2006


Lykilorð

  • Læknir
  • Sjúkrahús
  • Sjúkraskrá
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði


                                                        

Fimmtudaginn 19. febrúar 2009.

Nr. 50/2006.

Sara Rafaelsdóttir

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

Jónas Þór Jónasson hdl.)

Hauki Hjaltasyni

(Hákon Árnason hrl.

Heiðar Ásberg Atlason hdl.)

 

Læknar. Sjúkrahús. Sjúkraskrá. Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn. Sératkvæði.

 

S greindist með heilaæxli þegar hún var á ferðalagi í Bandaríkjunum og gekkst þar undir bráðaaðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Hlaut S varanlegt heilsutjón vegna þessa. Áður en hún lagði upp í ferðalagið hafði hún leitað til lækna hér á landi. Taldi hún að mistök hefðu verið gerð þar sem enginn læknanna greindi meinið og krafðist skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins, vegna lækna á kvennadeild Landspítala og heimilislæknis, og sérfræðilæknis sem hún leitaði til. Talið var að læknum á kvennadeild Landspítala hafi ekki verið gefin nein mistök að sök, en ekki hafi á þeim tíma komið fram neinar sérstakar kvartanir sem ekki hafi mátt rekja til meðgöngu S. Heimilislæknirinn og sérfræðilæknirinn hafi ekki haft skráningar lækna á kvennadeild undir höndum. Í ítarlegum sjúkraskrárfærslum heimilislæknisins hafi ekkert komið fram um að S hafi kvartað undan höfuðverk eða öðrum einkennum sem gætu stafað frá höfði. Þá hafi það heldur ekki komið fram í sjúkraskrárfærslum sérfræðilæknisins. Var því talið að S bæri sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi greint frá höfuðverk en þá sönnunarbyrði hafi hún ekki axlað. Var ekki talið að læknarnir hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi við skoðun og meðferð á S og var því sýknað af kröfu hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2006. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér 48.102.376 krónur með 4,5% ársvöxtum af 13.332.030 krónum frá 4. febrúar 2000 til 1. ágúst 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 48.102.376 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi íslenska ríkið krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.

Stefndi Haukur Hjaltason krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.

Samkvæmt áfrýjunarstefnu öðlaðist áfrýjandi íslenskt ríkisfang meðan málið var rekið fyrir héraðsdómi og tók þá upp nafnið Sara Rafaelsdóttir.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var áfrýjandi á ferðalagi í Bandaríkjunum þegar hún var lögð 4. febrúar 2000 inn á sjúkrahús vegna meðvitundarleysis. Rannsókn leiddi í ljós æxli í höfði hennar og gekkst hún rakleitt undir bráðaaðgerð, þar sem það var fjarlægt. Af þessu hefur áfrýjandi hlotið varanlegt heilsutjón, en samkvæmt álitsgerð örorkunefndar 14. desember 2004, sem ekki er ágreiningur um í málinu, telst varanlegur miski hennar 55% og varanleg örorka 100%. Áður en áfrýjandi lagði upp í þetta ferðalag hafði hún leitað til lækna hér á landi vegna einkenna, sem hún telur að rekja hafi mátt til æxlisins í höfði hennar, fyrst á kvennadeild Landspítalans á meðan hún var barnshafandi, en þar gaf hún sig fram á bráðaþjónustu 5. febrúar 1999 til skoðunar vegna höfuðverkja. Því næst leitaði hún á heilsugæslustöð á Seltjarnarnesi, þar sem hún átti viðtöl við nafngreindan heimilislækni 12. október og 23. desember 1999, og loks á læknastofu stefnda Hauks, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, 16. desember sama ár, en til hans fór hún eftir ábendingu heimilislæknisins. Enginn þessara lækna greindi mein áfrýjanda og telur hún að þar verði mistökum um kennt. Stefndi Haukur, sem hafi keypt starfsábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, sé skaðabótaskyldur gagnvart henni af þeim sökum ásamt stefnda íslenska ríkinu, sem beri ábyrgð á verkum starfsmanna sinna á kvennadeild Landspítalans og heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 30. apríl 2003, þar sem hún krafðist skaðabóta að fjárhæð 31.450.549 krónur óskipt úr hendi stefndu. Undir rekstri málsins öfluðu stefndi íslenska ríkið og réttargæslustefndi fyrrnefndrar álitsgerðar örorkunefndar um tjón áfrýjanda, sem þar var talið meira en komist hafði verið að niðurstöðu um í örorkumati, sem stefnukrafa tók mið af. Til samræmis við þetta hækkaði áfrýjandi dómkröfu sína í það horf, sem greint var að framan varðandi kröfugerð fyrir Hæstarétti.

Eftir að stefndi Haukur hafði tekið til varna fyrir héraðsdómi fékk hann dómkvadda tvo sérfræðinga á sviði heila- og taugalækninga til að meta í sex liðum nánar tiltekin atriði varðandi heilsubrest áfrýjanda og þá meðferð, sem hún hafi fengið hjá stefnda. Frá niðurstöðum matsgerðar þessara sérfræðinga 30. desember 2004 er greint í hinum áfrýjaða dómi. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, sýknaði báða stefndu af kröfu áfrýjanda. Eftir áfrýjun héraðsdóms og að liðnum fresti til gagnaöflunar fyrir Hæstarétti gaf dómurinn áfrýjanda kost á því samkvæmt 1. mgr. 160. gr., sbr. 2. mgr. 46. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að fá dómkvadda yfirmatsmenn til að leggja mat á sömu atriði og um ræddi í fyrirliggjandi matsgerð. Því til samræmis leitaði áfrýjandi dómkvaðningar yfirmatsmanna 7. nóvember 2006. Yfirmatsgerð 6. október 2008 hefur verið lögð fyrir Hæstarétt ásamt endurriti af skýrslum, sem yfirmatsmenn gáfu fyrir héraðsdómi 26. nóvember sama ár. Í meginatriðum urðu niðurstöður yfirmatsmanna á sama veg og í undirmatsgerð og gerist þess því ekki þörf að rekja þær hér.

II

Svo sem áður var getið leitaði áfrýjandi á heilsugæslustöð 12. október 1999 og fékk þar viðtal við heimilislækni. Í svokölluðum samskiptaseðli, sem gerður var sama dag, sagði að tilefni fyrir komu áfrýjanda hafi verið verkur í hægri mjöðm. Í lýsingu heimilislæknisins á sjúkrasögu áfrýjanda, sem þar kom fram, sagði að hún hafi fjórum mánuðum áður eignast barn, sem tekið hafi verið með keisaraskurði í mænudeyfingu. Seint á meðgöngu eða í kring um fæðingu hafi áfrýjandi fengið óþægindi í hægri mjöðm og gengið af því tilefni til sjúkraþjálfara. Hún hafi fundið til þessara óþæginda af og til, stundum verið hölt og „fundið í tvígang stutt dofaköst, sem bæði hafa byrjað í fætinum og færst ýmist upp eða niður eftir fætinum, hálfgerður vöðvakrampi með þessu og í annað skiptið fengið dofatilfinningu alveg upp í eyra hæ. megin yst á eyranu og þetta varað eingöngu í nokkrar sekúndur. Hún er greinilega sjálf hrædd um að þetta geti verið eitthvað slæmt, s.s. fyrirboði heilablóðfalls eða því um líkt. Einnig minnist hún á MS.“ Í framhaldi af þessu var greint frá skoðun, sem heimilislæknirinn hafi gert á áfrýjanda, og þess getið að hann hafi bent henni á stefnda Hauk „ef hún vill láta athuga þetta eitthvað nánar.“ Í reit á seðlinum fyrir greiningu læknisins voru færð orðin „pain in limb“. Næsta dag ritaði heimilislæknirinn læknabréf, sem beint var til stefnda Hauks með þeirri skýringu að sá fyrrnefndi hefði bent áfrýjanda á að panta tíma hjá honum, en þar voru áðurgreind atriði jafnframt tekin upp á sama hátt og þau komu fram á samskiptaseðlinum.

Leggja verður til grundvallar í málinu að stefndi Haukur hafi haft þetta læknabréf undir höndum þegar áfrýjandi leitaði til hans á læknastofu 16. desember 1999. Við það tækifæri skráði stefndi meðal annars í sjúkraskrá að áfrýjandi hafi fætt barn sex mánuðum fyrr, en „síðan krampar í hæ. fæti og á í erfiðleikum m. að hreyfa tær fótar í nokkrar klst. á eftir. Fundið f. verk hæ. í mjóbaki frá sama tíma. Er hjá sjúkraþj. Sj.þj. hefur rétt pelvis og við það hurfu verkir. Fær krampa á 11/2 vikna fresti. Vara í < 1 mín. Beygir sig þá niður og þá líður krampinn hjá. Getur svo ekki hreyft tær – hefur ekki stjórn á þeim.“ Um skoðun á áfrýjanda var eftirfarandi fært: „Palpaum móts við ant. spinu. Minnkaður kraftur í dorsiflexion um hæ. ökla og eins í tám. Refl. eðlil. og skyn eðlil. Minnkaður kraftur þ. gengur á hæl + hliðum fótar.“ Loks sagði um ályktun stefnda: „Brjósklos þar til annað sannast.“ Fyrir liggur að áfrýjandi fór í framhaldi af þessu að tilhlutan stefnda í segulómun af hrygg 30. desember 1999. Með ómuninni fannst ekki brjósklos, en slitbreytingar í baki munu hafa greinst. Óumdeilt er að áfrýjandi og stefndi áttu símtal 7. janúar 2000 um þessa niðurstöðu rannsóknarinnar og ákveðið hafi verið að hún kæmi aftur til viðtals hjá honum 8. febrúar sama ár eftir ferðalag hennar til Bandaríkjanna, sem mun hafa byrjað 14. janúar 2000.

Í málatilbúnaði áfrýjanda er haldið fram að hún hafi greint bæði heimilislækninum og stefnda Hauki frá því að hún hafi allar götur frá því að hún gekk með barn sitt fundið fyrir miklum höfuðverkjum, sem stundum hafi staðið dögum saman, ásamt því að segja þeim frá vandamálum varðandi hægri fótlegg. Svo sem ráðið verður af framansögðu var í sjúkraskrárfærslum beggja læknanna greint í nokkru máli frá atriðum, sem tengdust einkennum í fótlegg áfrýjanda, svo og mjöðm og baki, en á hinn bóginn gat hvorugur þeirra um að áfrýjandi hafi sagt frá höfuðverkjum. Héraðsdómur, sem eins og fyrr greinir var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu að sjúkraskrárfærslur heimilislæknisins hafi verið ítarlegar og fullnægt í öllu kröfum, sem gerðar séu í þeim efnum með 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál. Þá taldi héraðsdómur að sjúkraskrárfærslur stefnda Hauks hafi fullnægt sömu kröfum, þótt skráning þar hafi verið knappt orðuð. Þessu mati hefur áfrýjandi ekki hnekkt. Þegar litið er til þess að í hvorugum þessum færslum var getið um að áfrýjandi hafi greint frá höfuðverkjum verður ekki komist hjá því að fella á hana sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi hún gert. Þá sönnunarbyrði hefur áfrýjandi ekki axlað. Líta verður svo á að héraðsdómur hafi ekki talið að frásögn í sjúkraskrárfærslum heimilislæknisins um að áfrýjandi hafi lýst fyrir honum ótta við að heilsubrestur hennar gæti verið fyrirboði heilablóðfalls eða svokallaðs MS sjúkdóms hafi falið í sér slíkar vísbendingar um einkenni í höfði að honum eða stefnda Hauki hefði verið rétt að haga gerðum sínum eins og áfrýjandi hefði getið slíkra einkenna berum orðum. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Söru Rafaelsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.500.000 krónur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar

            Við erum sammála meirihluta dómenda um staðfestingu á ákvæði hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda íslenska ríkisins af kröfu áfrýjanda með vísan til forsendna dómsins.

Í atkvæði meirihluta Hæstaréttar er vísað til þess að héraðsdómur, sem hafi verið skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, hafi komist að þeirri niðurstöðu að sjúkraskrárfærslur heimilislæknisins, sem áfrýjandi leitaði til, hafi verið ítarlegar og fullnægt í öllu kröfum, sem gerðar séu í þeim efnum með 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál. Þá hafi héraðsdómur talið að sjúkraskrárfærslur stefnda Hauks Hjaltasonar hafi fullnægt sömu kröfum, þótt skráning þar hafi verið knappt orðuð. Þessu mati hafi áfrýjandi ekki hnekkt. Þegar litið væri til þess að í hvorugum þessum færslum væri getið um að áfrýjandi hafi greint frá höfuðverkjum verði ekki komist hjá því að fella á hana sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi hún gert. Henni hafi ekki tekist sú sönnun.

            Á þessa úrlausn getum við ekki fallist. Afstaða sérfróðra meðdómsmanna til þess, hvort sjúkraskrá sé færð í samræmi við reglugerð, hefur að okkar áliti ekki þýðingu fyrir úrlausn um það atriði, þar sem ekki er þörf læknisfræðilegar sérþekkingar við mat á þessu. Í sjúkraskrá stefnda Hauks eru alls ekki færðar upplýsingar um ýmis þau atriði sem talin eru upp í nefndri 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991. Þessi frávik eru með þeim hætti að verulega dregur úr sönnunargildi sjúkraskrárinnar almennt. Allmargir læknar sem komu fyrir dóm í málinu lýstu því að þeir hefðu sjálfir fært ítarlegri sjúkraskrá en Haukur gerði. Stefndi Haukur var spurður um „nótur“ sínar er hann kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Svar hans var svohljóðandi: „En ég skráði ekki alltaf hjá mér á þessum tíma ég viðurkenni það. Ég hef reynt að skrá ítarlega hjá mér eftir að þetta atvik kom upp. En ég skráði ekki alltaf alla þá skoðun sem ég gerði, alla neikvæða skoðun, eins og við köllum, þ.e.a.s. þegar hlutirnir voru eðlilegir.“ Spurningu um hvort áfrýjandi hafi kvartað um höfuðverk eða einkenni frá höfði við skoðunina 16. desember 1999 svaraði hann svo: „Ja, ekki svo ég hafi skráð hjá mér í þessum nótum og mig rekur ekki minni til þess.“

            Áfrýjandi hefur haldið því fram að hún hafi greint bæði heimilislækninum og stefnda Hauki frá því að hún hafi fundið fyrir miklum höfuðverkjum. Slíkra kvartana er ekki getið berum orðum í samskiptaseðli heimilislæknisins 12. október 1999 og læknabréfinu sem hann ritaði til stefnda Hauks daginn eftir. Þar er hins vegar nefnt að áfrýjandi hafi sjálf talið að um gæti verið að ræða „eitthvað slæmt, s.s. fyrirboði heilablóðfalls eða því um líkt. Einnig minnist hún á MS.“ Í þessum orðum fólust beinar ábendingar um að áfrýjandi hefði sjálf nefnt við heimilislækninn einkenni frá höfði, því tæpast verður séð á hverju öðru hún hefði getað byggt nefndar grunsemdir sínar. Þeir læknar sem komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins sem voru spurðir um þýðingu kvartana sjúklinga lögðu allir áherslu á að þær skiptu miklu máli við sjúkdómsgreiningar. Stefndi Haukur hafði læknabréfið í höndum þegar hann skoðaði áfrýjanda.

            Miðað við þann sjúkdóm sem áfrýjandi var haldin á þessum tíma, og leiddi til bráðaaðgerðar á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum 4. febrúar 2000, hljóta að teljast verulegar líkur fyrir því að fullyrðingar hennar um að hún hafi þjáðst af höfuðverk þegar hún leitaði til stefnda Hauks séu réttar. Í samtímaskrá frá hinum bandaríska spítala, þegar komið var með áfrýjanda þangað, er ritað að áfrýjandi hafi langvarandi sögu um höfuðverk („long-term history of headaches“).  

            Þegar allt framangreint er metið saman verður að okkar dómi að leggja á stefnda Hauk sönnunarbyrði um að áfrýjandi hafi ekki kvartað um einkenni frá höfði við hann er hún leitaði til hans 16. desember 1999. Sú sönnun hefur ekki tekist honum með hinni ófullkomnu sjúkraskrá sem hann færði þann dag. Fyrirliggjandi matsgerðir í málinu eru byggðar á því að ekki hafi verið um slíkar kvartanir að ræða. Þær hafa því ekki þýðingu við úrlausn málsins. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lýsti stefndi Haukur því fyrir dóminum að öllu hefði breytt hefði hann fundið einkenni frá höfði eða handlegg.

            Stefndi Haukur er sérfræðingur í heila- og taugalækningum. Strangar kröfur verða gerðar til slíkra sérfræðinga við sakarmat. Eins og sönnunarstöðu er háttað í málinu og með vísan til alls þess sem að framan greinir verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki notið þeirrar læknisþjónustu af hálfu stefnda Hauks sem hún átti rétt til og að hann beri á grundvelli saknæmisreglunnar fébótaábyrgð á því tjóni sem af þessu leiddi fyrir hana. Með því að meirihluti dómenda telur að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda Hauks eru ekki efni til að við leysum úr ágreiningsefnum málsaðila um orsakatengsl saknæms gáleysis hans og þeirra afleiðinga sem áfrýjandi krefst bóta fyrir í málinu.

            Við erum sammála meirihlutanum um gjafsóknarkostnað áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti en teljum að dæma hefði átt stefnda Hauk til að greiða í ríkissjóð málskostnað á báðum dómstigum en fella málskostnað niður að öðru leyti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2005.

I

                Mál þetta sem dómtekið var 23. september sl. höfðaði Sara D. Carmen Medina De Mcleod, kt. 020260-2119, Laufásvegi 65, Reykjavík gegn íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, Hauki Hjaltasyni, kt. 250558-3259, Hvassaleiti 81, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu birtri 9. og 13. maí 2003.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu, íslenska ríkið og Haukur Hjaltason, verði dæmdir in solidum til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 48.102.376 með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, af kr. 13.332.030 frá 4. febrúar 2000 til 1. ágúst 2003, en þá af kr. 48.102.376 frá þeim degi til 15. maí 2003, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og málskostnaður felldur niður. Til vara að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

                Dómkröfur stefnda Hauks eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

                Réttargæslustefndi gerir ekki dómkröfur.

II

                Stefnandi gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum hinn 4. febrúar 2000 og var fjarlægt æxli úr höfði hennar. Samkvæmt álitsgerð Örorkunefndar frá 14. desember 2004 er varanleg örorka stefnanda 100% og varanlegur miski 55%. Stefnandi heldur því fram að sjúkdóm hennar hefði átt að greina á bráðamóttöku kvennadeildar Landspítalans, sem ekki hafi verið gert, sjúkdómsgreining læknanna Hauks Hjaltasonar og Guðmundar Olgeirssonar hafi verið röng, en með réttri sjúkdómsgreiningu hefði mátt koma algerlega í veg fyrir örorkuna. Læknar á bráðamóttöku kvennadeildar Landspítalans og læknarnir Haukur og Guðmundur hafi því gert mistök sem leiði af sér bótaskyldu og byggir stefnandi bótakröfu sína á álitsgerð Örorkunefndar og skaðabótalögunum.

III

                Stefnandi er fædd og alin upp í Venesúela en 17 ára að aldri flutti  hún til Bandaríkjanna. Hún lauk þar fyrri hluta náms í sálarfræði og kennslufræði og mastersnámi í námskrárgerð. Hún kynntist eiginmanni sínum, Aðalsteini Júlíusi Magnússyni, vestanhafs og flutti hingað til lands um mitt ár 1998. Stefnandi á eina dóttur sem fædd er árið 1989 og saman eiga hjónin dóttur sem fæddist 7. júní 1999. Stefnandi fæddi báðar dætur sínar með keisaraskurði og hinn síðari gerði Guðmundur Steinsson, sérfræðingur á Kvennadeild Landspítalans. Vegna vanheilsu sinnar hefur stefnandi ekki gefið skýrslu fyrir dómi. Í málinu hefur verið lagt fram bréf Guðmundar Steinssonar til landlæknisembættisins dags. 21. september 2000, en landlæknir hafði farið fram á að fá upplýsingar um ástand stefnanda á meðgöngutíma og við fæðingu með bréfi dags. 4. júlí 2000. Lögmaður stefnanda hafði með bréfi til landlæknis dags. 3. maí 2000 óskað eftir því að hann safnaði öllum gögnum er mál stefnanda varðaði og léti einnig í ljós skoðun sína á því hvort réttilega hefði verið staðið að greiningu á sjúkdómi stefnanda og meðhöndlun hans. Bréf Guðmundar Steinssonar læknis er greinilega samið á grundvelli upplýsinga sem koma fram í ýmiss konar skýrslum frá kvennadeild Landspítalans sem lagðar hafa verið fram í málinu með bréfinu. Þykir rétt að taka meginefni bréfsins upp í dóminn og er það svohljóðandi:

„Sara var í mæðraskoðun hér á Göngudeild Kvennadeildar frá 16.11.98 og fram að fæðingu þann 07.06.99. Á þessu tímabili leitaði hún einu sinni á bráðamóttöku Kvennadeildar, þann 05.02.99, þá 22-23 vikur gengin. Helstu kvartanir þá voru höfuðverkur („sláttur“ í höfði), sem hafði verið að koma síðastliðna þrjá daga. Kvartaði einnig um sjóntruflanir og væga ógleði.

Í sögu kom fram að hún hafði migrene sjúkdóm og hafði fengið svipuð einkenni, sem stóðu í 2½ klukkustund, fyrr á meðgöngunni. Neurologisk skoðun, sem var gerð, sýndi eðlilegt skyn; kraftar og reflexar voru eðlilegir. Konan fékk verkjalyf og var ráðlagt að panta tíma hjá taugalækni. Ekki kemur fram í mæðraskrá, hvort hún hafi fengið svipuð einkenni aftur.

Þann 19.04.99, er konan var í 33. meðgönguviku, komu fram einkenni frá grind, sem fóru versnandi eftir því sem leið á meðgönguna. Við skoðun og mat hjá sjúkraþjálfara sem fengið var þann 04.05.99 segir:

„nú gengin 34 vikur, á 10 ára barn fyrir. Fékk óþægindi frá stoðkerfi í lok meðgöngu. Kvartar um þrýstingsverk í mjóbaki, sem leiðir út í rass og niður í fætur, sérstaklega hæ. fót. Er einnig með þrýstingsverk niður í lífbein og grindarbotn. Á erfitt með að snúa sér í rúmi vegna verkja. Við skoðun eru hreyfingar hennar hægar og stirðar, á erfitt með að setjast niður og standa upp. Haltrar á hæ. fæti, styður sig við göngu þar sem hægt er. Próf fyrir S1 liði jákvæð, getur ekki staðið á hæ. fæti vegna verkja og á erfitt með að standa á vinstra fæti, en getur það þó. Við þreifingu eru vöðvar sárir og S1 liðir og lífbein hvellaumt.“

Sara fæddi síðan með keisaraskurði þann 07.06.99 og útskrifaðist af deildinni þann 12.06.99. Líðan hennar var þá talin góð. Í sængurlegu komu engar sérstakar kvartanir fram, sem ekki var hægt að tengja við fæðinguna.

Helstu kvartanir Söru á meðgöngu voru bak- og grindarverkir, sem virtust tengjast meðgöngunni beint. Ekki kemur fram í mæðraskrá að Sara hafi kvartað um höfuðverk og sjóntruflanir, eftir að hún leitaði hingað á bráðamóttökuna þann 05.02.99 eða að hún hafi haft önnur einkenni tengd taugakerfi, sem hefðu átt að leiða til frekari rannsókna.“

Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi leitað til bráðaþjónustu kvennadeildar Landspítalans 5. febrúar 1999, þá á 22-23 viku meðgöngunnar, vegna viðvarandi höfuðverkja og ýmissa annarra einkenna sem staðið hafi í sumum tilfellum í nokkra daga. Á bráðamóttökunni hafi hún einnig kvartað undan sjóntruflunum og ógleði höfuðverknum samfara. Engin lausn hafi fundist á meini hennar en hún fengið verkjalyf. Þá hafi henni verið vísað til sjúkraþjálfara vegna verkjar í mjöðm og verkjar og einkennilegrar tilfinningar í hægri fæti. Ekkert hafi komið út úr þeirri skoðun nema ráðleggingar um áframhaldandi sjúkraþjálfun. Eftir fæðingu hafi stefnanda verið ávísað giktarlyfinu Voltaren og hún send í sjúkraþjálfun sem engan bata hafi gefið og því verið sjálfhætt.

IV

                Eftir fæðingu dótturinnar fór stefnandi með hana í reglubundið eftirlit til hjúkrunarfræðinga og Guðmundar Olgeirssonar, læknis á Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi. Segir í stefnu að stefnandi hafi jafnframt rætt verkjavandamál sín við lækninn og tjáð honum að hún svæfi lítið sem ekkert og hefði fundið fyrir undarlegri tilfinningu hægra megin í höfðinu og dofatilfinningu alveg upp í hægra eyra. Guðmundur hafi ætlað að hafa samband við stefnda Hauk Hjaltason taugasérfræðing en þar sem engin boð hafi komið til stefnanda hafi eiginmaður hennar í tvígang ítrekað við læknaritara mikilvægi þess að stefnandi fengi einhverja úrlausn vegna vanheilsu sinnar.

                Hinn 7. júlí 2000 ritar Guðmundur Olgeirsson læknir landlækni bréf vegna sjúkdómsgreiningar á stefnanda. Í bréfinu segir eftirfarandi:

„Undirritaður sendir með þessu bréfi afrit af samskiptaseðlum, röntgensvari og bréfi til Hauks Hjaltasonar taugasérfræðings varðandi Söru.

Hef ekki fengið skriflegt svar frá Hauki Hjaltasyni taugasérfræðingi varðandi skoðunina í framhaldi af bréfinu eða símtalinu.

Þessi fjölskylda hefur ekki skráðan heimilislækni á Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi.

Hefur yngsta barnið verið í ungbarnaeftirliti hjá undirrituðum og Ragnheiði Backmann, hjfr. Samskiptaseðill frá 12/10 1999 tilgreinir nákvæmlega kvörtun og einkenni ásamt skoðun. Á þessum tíma var spurning um hvort einkenni gætu stafað af afleiðingu epidural deyfingar og benti ég Söru á Hauk Hjaltason, taugasérfræðing, og sendi honum bréf eins og fram kemur á meðfylgjandi gögnum.

23/12 1999 eru einkennin orðin nokkuð önnur eins og fram kemur við skoðun. Það er strax hringt í þann taugasérfræðing sem með hana hafði að gera, en til öryggis en þó mest til að uppfylla óskir hennar um myndatöku var hún send í mynd af ökklaliðnum hæ. megin til að útiloka sjáanlegan sjúkdóm í beinum þar.

Sú röntgenmynd leiddi hins vegar ekkert óeðlilegt í ljós eins og meðfylgjandi rtg. lýsing staðfestir.“

                Í samskiptaseðlinum frá 12. október 1999, þar sem tilefni komu stefnanda er skráð vera verkur í mjöðm hægra megin, skráir Guðmundur Olgeirsson svohljóðandi sjúkrasögu stefnanda:

„Átti barn fyrir 4 mán. síðan. Tekið með keisaraskurði í epidural deyfingu. Fékk annað hvort seint á meðgöngunni eða í kringum fæðingu óþægindi í hæ. mjöðm og sjúkraþjálfun upp úr því, talað um að mjöðmin væri ekki alveg í liðnum skv. lýsingunum. Frá því hún kom heim hefur hún fundið til óþæginda í hæ. mjöðminni af og til, stundum hölt, fundið í tvígang dofaköst, sem bæði hafa byrjað í fætinum og færst upp eða niður eftir fætinum, hálfgerður vöðvakrampi með þessu og í annað skiptið fengið dofatilfinningu alveg upp í eyra hæ. megin yst á eyranu og þetta varað eingöngu í nokkrar sekúndur. Hún er greinilega sjálf hrædd um að þetta geti verið eitthvað slæmt, s.s. fyrirboði heilablóðfalls eða því um líkt. Einnig minnist hún á MS.

Við skoðun er neurologisk skoðun á neðri útlimum algerlega eðlil. Reflexar symmetriskir, kraftar symmetriskir, babinski neg., sársaukaskyn eðlil., víbrationsskyn eðlil. Laseque neg. Hæl-tá-gangur eðlil. Gangur á jörkum eðlil. Mjaðmahreyfingar alveg eðlil. og symmetriskar beggja vegna.

? afleiðing eftir epidural deyfinguna.

Bendi á Hauk Hjaltason neurolog ef hún vill láta athuga þetta nánar.“

Á samskiptaseðlinum kemur greining læknisins fram með svohljóðandi hætti: Heiti: Pain in limb. Kóði: M79.6.

Guðmundur Olgeirsson sendi stefnda Hauki lýsingu þá sem fram kemur á samskiptaseðlinum í bréfi daginn eftir, eða 13. október, ásamt sjúkdómsgreiningu sinni. Þar segir og að úrlausn sé tilvísun til læknis til mats eða meðferðar, 93, og að hann hafi bent stefnanda á að panta tíma hjá stefnda Hauki. 

                Hinn 23. desember 1999 ritar Guðmundur Olgeirsson annan samskiptaseðil um komu stefnanda á heilsugæslustöðina og er tilefni komunnar skráð vera verkur í ökkla hægra megin. Sjúkrasagan er þannig skráð:

„Kemur vegna óþæginda frá ökkla hægra megin. Samkvæmt lýsingum er hún alltaf að snúa sig, þó aldrei tognað það mikið að  hún hafi bólgnað og orðið marin. Hún er enn með óþægindi frá baki og niður í gangliminn, á að fara í MRI eftir skoðunina hjá Hauki Hjalta. Við skoðun er hún ekki laus í ökklalið. Hún er hins vegar greinilega með minnkaðan mátt í extensor vöðvum í kringum ökklann, getur ekki extenderað nærri jafn mikið og í vinstri fæti. Hún á erfitt með að lyfta sér upp á tær hægra megin miðað við vinstra megin. Slettir þó ekki fæti og virðist göngulag vera nokkuð eðlilegt. Segist vera misgóð hvað þetta varðar. Hún er mjög óhress með hvað hún er búin að bíða lengi eftir að komast til sérfræðings og nú taki við bið eftir MRI rannsókninni. Ég hringi í Hauk Hjalta sem getur ekki alveg útilokað að um sé að ræða discus-prolaps og því hefur hann ákveðið að senda hana í MRI, sem hann mun reyna að þrýsta á að verði gerð svo fljótt sem auðið er.              

Til að friða hana dálítið á meðan sendi ég hana í röntgenmynd af ökklanum til að útiloka einhverja beinlesio þar.“

Á samskiptaseðlinn er rituð sama greining læknisins og 12. október. Discus prol. obs er lýsing sem á seðilinn er skráð og úrlausn er Rtg ökkli, kóði 646.00. 

                Bréfi Guðmundar Olgeirssonar til landlæknis fylgir greining á röntgenmynd og er niðurstaðan þessi: „Eðlileg rtg. rannsókn af hægri ökkla.“

                Í sjúkraskrá sem stefndi Haukur Hjaltason ritar kemur fram að stefnandi hafi komið til hans 16. desember 1999. Segir svo í sjúkraskránni:

                „Sjúkrasaga

Dvalið á Ísl. 1 ½ ár. Áður í USA í 20 ár. Upprunalega frá Venesúela. Fæddi barn f. 6 mán. Síðan krampar í hæ. fæti og á í erfiðleikum m. að hreyfa tær fótar í nokkrar klst. á eftir. Fundið f. verk hæ. í mjóbaki frá sama tíma. Er hjá sjúkraþj. Sj.þj.  hefur rétt pelvis og við það hurfu verkir. Fær krampa á 1 ½ vikna fresti. Vara í < 1 mín. Beygir sig þá niður og þá líður krampinn hjá. Getur svo ekki hreyft tær – hefur ekki stjórn á þeim.

Heilsufarssaga

Fæddi barn f. 3 vikum.

Félagssaga

Gift 2 börn.

Lyf

Ofnæmi

Skoðun  P.   BÞ.   Reykir

Palpaum móts við ant. spinu. Minnkaður kraftur í dorsiflexion um hæ. ökkla og eins í tám. Refl. eðlil. og skyn eðlil. Minnkaður kraftur þ. gengur á hæl + hliðum fótar.

Ályktun/frh

Brjósklos þar til annað sannast. Bið um MR af l-s hrygg sem fyrst (fer til útl. 14. jan.) Svo samb.“

Þá kemur næst í sjúkraskránni eftirfarandi:

„frh. Sara Medina 020260

Sími 7.1.2000

Eink. svipuð. MR sýndi einungis degen breytingar í neðstu tveimur bilum. Fær áfram krampatilf. í nárann og inn e. lífbeini. Á í erfiðleikum með að hreyfa fót fyrst á eftir.

                Tvennt kemur til greina:

1)       Skaði e. keisaraskurð fyrir 6. mán.

2)       Brjósklos sem sést ekki lengur á MR-horfið

 

1)       er líkl. Fær Amilín 10 mg 1 vesp --> vesp No 100

Ek. 8.2.´99. Ekki enn svarað beiðni.

15.2. Nóta

Tala við Guðm. Olgeirss. lækni – segir mér að Sara sé enn í Bandar. og hafi þar greinst með heilatúmor.“

Lögð hafa verið fram ýmis sjúkragögn frá Westside Regional Medical Center í Flórída, en þar gekkst stefnandi undir aðgerð. Þau gögn hafa ekki verið þýdd á íslensku. Í umsögn Arons Björnssonar læknis til landlæknis, dags. 19. september 2000, koma fram nokkur atriði sem sýna að hann hefur haft aðgang að einhverjum þessara gagna og þykir nægilegt að rekja umsögn Arons til þess að fram komi stutt lýsing á aðgerðinni sem stefnandi gekkst undir. Umsögn Arons er svohljóðandi:

„Undirritaður hafði með Söru að gera nokkru eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum sl. vor vegna þess að mikill vökvi safnaðist undir húð yfir aðgerðarstaðnum. Gerði ég á henni cranoiplasty og þétti duru þ. 17.05. sl. Aðgerðin gekk vel og síðan hafa þessi vandræði lagast.

Eftir því sem mér skilst veiktist Sara skyndilega eftir komu sína frá Florida þar sem hún var í heimsókn hjá ættingjum. Þykir mér líklegast að hún hafi fengið krampakast og í framhaldi af því var hún lögð inn bráðainnlögn. Tölvusneiðmynd var framkvæmd af höfði sem sýndi æxli. Æxlið var staðsett parietalt vinstra megin, útgengið frá heilahimnu og gekk djúpt niður í heilann. Hún fór strax í aðgerð þar sem talin var hætta á yfirvofandi hernieringu og neurologiskri versnun þess vegna. Talsverður bjúgur var í kringum æxlið. Æxlið var radicalt fjarlægt og PAD svar sýndi meningioma, þ.e.a.s. góðkynja æxli. Duraplasty var gerð og cranioplasty sem ég seinna lagfærði vegna mænuvökvaleka og vökvasöfnunar, sjá ofan. Einkenni Söru áður en hún heldur til Bandaríkjanna voru einhverjar kenningar í fæti og höfuðverkur. Hún leitaði m.a. til neurologs, og hún átti endurkomutíma eftir Ameríkuferðina. Versnunin sem verður eftir komuna til Bandaríkjanna getur ólíklega stafað af því að æxlið hafi orðið skyndilega mikið stærra. Eins og áður segir eru mestar líkur á því að hún hafi hreinlega fengið krampakast (vel þekkt). Eftir aðgerðina var Sara með verulega hægri hemiparesu, einkum var hún slæm í hægri ganglim. Stöðugar framfarir hafa hins vegar verið síðan.

Það er vel þekkt þegar meningioma, æxli af sömu gerð og Sara hafði, er djúpt sokkið ofan í heilann, að það geti verið erfitt að fjarlægja radicalt án þess að sár og mar verði á yfirborði heilans. Það má þannig velta því fyrir sér hvort þau viðvarandi einkenni Söru í formi helftarlömunar geti verið komin til af því að yfirborðið hefur særst við brottnám æxlisins (oft óumflýjanlegt). Ég get ekki séð að það sé hægt að fullyrða að sein greining æxlisins sé þess valdandi að einkennin eru eins og raun ber vitni.

Eðli meningioma er hægur vöxtur og hægt vaxandi einkenni þannig að þessi æxli geta oft náð gríðarlegri stærð. Meðferðin er aðgerð undir öllum venjulegum kringumstæðum eins og í þessu tilfelli Söru. Hvort að aðgerð fyrr hefði breytt einhverju um þau einkenni sem Sara á nú við að glíma get ég auðvitað ekki fullyrt, en mér finnst það ekki endilega líklegt, af ástæðum sem áður eru raktar.

Reikna má með að Sara þurfi talsverða endurhæfingu áfram og 1-2 ár líði þar til hægt er að sjá hversu mikið varanlegt mein hún ber.“

Í álitsgerð landlæknis um stefnanda segir m.a. svo í kafla sem ber yfirskriftina umsögn:

„Meginatriði máls þessa snýst um það hvort efni hefði verið til að greina æxlið fyrr en gert var ... Sjúkdómsgangur Söru var greinilega orðinn langur og erfiður og fram kemur í sjúkraskrám að hún hafi minnst á höfuðverk þó svo að hann hefði verið túlkaður sem migrene að minnsta kosti einu sinni. Einkennin voru á margan hátt sérstök, ekki hvað síst vegna þess að SI liður, lífbein og vöðvar voru oft aumir. Hún lýsir hins vegar krampaverkjum og því að hún hafi  átt erfitt með að hreyfa fót fyrst á eftir. Líklega hafa hér verið um flog að ræða með hreyfitruflun eftir þau. Ennfremur er líklegast að Sara hafi fengið allsherjarflog í Flórída sem leiddi til innlagnar og greiningar en meðvitundarskerðingin þá var hins vegar ljóslega af völdum mikils og hugsanlega hratt vaxandi heilabjúgs. Með því að reyna að vera ekki vitur eftirá verður að fallast á að efni voru til að gera tölvusneiðmynd eða segulómun af höfði fyrr í ljósi einkenna hennar, ekki hvað síst eftir að segulómun af hrygg var eðlileg. Tilefni var því til þess að greina æxlið fyrr en gert var. Erfiðara er að fallast á að ástæða hefði verið til að gera þessar rannsóknir á meðgöngu, en nægur tími var til þess eftir fæðinguna. ... Sara reyndist hafa góðkynja æxli útgengið frá heilahimnum, meningioma. Þau vaxa mjög hægt en sú skyndiversnun sem varð eftir komuna til Flórída stafar ljóslega af tilurð heilabjúgs sem getur vaxið all hratt. ... Ljóst er að aðgerð fyrr hefði forðað Söru frá þeirri lífshættu sem hún lenti í þann 04.02.2000. Einnig er mögulegt og jafnvel líklegt að endanlegar afleiðingar og skaði eftir aðgerðina hefði orðið minni ef hún hefði verið gerð fyrr. Líklegt er að heilabjúgur hefði verið mun minni jafnvel lítill sem enginn sem hefði auðveldað aðgerðina þó að ekki verði fullyrt um hvort unnt hefði verið að komast að æxlinu án þess að fjarlægja hinn litla hluta heilabarkar sem gert var. Sá taugaskaði sem Sara býr við (sem sagður er minnkandi, sem betur fer) er mun líklegri að stafa af aðgerðinni, aðgerðasvæðinu sjálfu og æxlinu fremur en að vera afleiðing bjúgsins. ... Miðað við þau einkenni sem Sara hafði voru efni til að greina æxli hennar fyrr eða fyrir áramótin 1999. Forða hefði mátt Söru frá því alvarlega ástandi sem hún lenti í þann 04.02.2000 en þá fékk hún mikinn heilabjúg af völdum æxlisins sem gat leitt til þess að heili þrýstist niður (herniation syndrome) og valdið dauða. Helftarlömun sem Sara hefur nú má að öllum líkindum rekja til æxlisstaðarins og aðgerðarinnar með mar eða sár á heila sem oft er óumflýjanleg eftir aðgerð af þessu tagi. Hins vegar er mögulegt og jafnvel líklegt að afleiðingarnar hefðu orðið mun minni hefði aðgerðin verið gerð fyrr.“ 

                Að beiðni stefnda Hauks Hjaltasonar voru hinn 23. febrúar 2004 dómkvaddir tveir matsmenn, Guðrún Rósa Sigurðardóttir læknir, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum, og Elvar Úlfarsson, heila,- og taugaskurðlæknir.

                Rétt þykir að taka upp í dóminn spurningar matsbeiðanda og svör matsmanna við þeim spurningum. Fer hvort tveggja hér á eftir:

„1. Hver sé líklegasta skýringin fyrir versnun á heilsu matsþola eftir komuna til

    Bandaríkjanna sem leiddi til þess að hún er lögð inn bráðainnlögn þann 4.

    febrúar 2000.

Líklegasta skýringin er alflog. Þetta byggist á því að sjúklingurinn var meðvitundarlaus með kippi eða óeðlilegar hreyfingar útlima þegar komið var að henni um morguninn 4. febrúar 2000. Einnig lýsir sjúklingurinn meðvitundarleysiskasti nokkrum dögum áður. Þar að auki, ef litið er á hennar sjúkdómsferil, þá hefur hún líklega þjáðst af staðbundnum krömpum í hægra fótlegg í marga mánuði. Langvinnt alflog leiðir oftast til verri öndunar. Það hefur í för með sér aukinn heilabjúg sem getur leitt til þess bráðaástands sem sjúklingurinn lenti í.

2. Hvort hægt sé að fullyrða út frá fyrirliggjandi gögnum að herniation hafi þegar

    átt sér stað þegar aðgerð var framkvæmd á matsþola þann 4. febrúar 2000.

Það er ekki hægt að fullyrða út frá fyrirliggjandi gögnum. Ljóst er að læknar í USA hafa metið ástand sjúklings svo að herniation væri til staðar og bráða aðgerðar væri þörf til að bjarga lífi sjúklings. Til þess að geta svarað þessari spurningu sjálfstætt er nauðsynlegt að fá frekari gögn um ástand sjúklings eftir komu á Westside Regional Medical Center. Þetta eru upplýsingar um blóðþrýsting, púls, hjartslátt og öndunarmynstur fyrir svæfingu (intubation), fram að aðgerð. Þessar upplýsingar þurfa að vera tímasettar þar sem einnig komi fram nákvæm tímasetning ljósops.

3. Hvort hætta sé á að, þegar meningioma er djúpt sokkið ofan í heilann, að sár    

    eða mar verði á yfirborði heilans þegar verið er að fjarlægja það, sem leitt geti       

   til þeirra einkenna, svo sem þeirra sem hrjá matsþola.

Já.  Sú hætta er alltaf til staðar en hún eykst í hlutfalli við aukin heilabjúg. Hættan er því verulega aukin ef mikill heilabjúgur er til staðar. Mikilvægt er talið við slíkar aðstæður að opnun á höfuðkúpu skuli vera stórt til að draga úr hættunni á heilamari. Í tilfelli matsþola hefði átt að gera stærri höfuðkúpuopnun en gerð var, 4 x 4,7 cm, þar sem augljóst var að heilabjúgur var mikill og æxlið hlutfallslega lítið miðað við heilabjúginn (3 x 3 cm). Ljóst er að orsök þeirrar fötlunar sem matsþoli býr við er að völdum þess að hluti af heilaberki var numin á brott til að komast að æxlinu.

4. Hvort fullyrða megi að komast hefði mátt hjá þeim afleiðingum sem matsþoli

    býr við í dag ef aðgerð hefði verið framkvæmd á henni sex til átta vikum fyrr.

Nei. Ekki er hægt að fullyrða um slíkt. Jafnvel þó svo að matsbeiðandi hefði greint matsþola með heilaæxli í janúar hefði matsþoli geta fengið alflog meðan hún beið eftir aðgerð og lenti í bráðaaðgerð. Hins vegar er líklegt að hægt hefði verið að draga úr hættunni á heilamari við brottnám æxlis ef aðgerðin hefði verið framkvæmd eftir að bjúgur hefði verið minnkaður með lyfjum fyrir aðgerð. Einnig hefði verið hægt að draga verulega úr hættu á heilamari með að gera stærri höfuðkúpuopnun en gerð var eins og getið er í lið 3.

5. Hvort sjúkdómsgreining matsbeiðanda eftir skoðun á matsþola þann 16.

    desember 1999 hafi verið forsvaranleg á grundvelli þeirra upplýsinga sem

    matsbeiðandi hafði um matsþola, þ.e. læknabréf heimilislæknis hennar.

Já, einkenni sjúklings hefðu vel getað stafað af brjósklosi í mjóbaki með þrýsting á taugarætur L5 hægra megin. Sökum skorts á nákvæmum upplýsingum um læknisskoðun matsbeiðanda 16. desember 1999, er ekki hægt að draga sjálfstæða ályktun um hvort einkenni truflunar í úttaugakerfi (þ.e. heila og mænu) hafi verið um að ræða. En ljóst er að viss atriði í sjúkrasögu og skoðun geta bent til úttaugakerfistruflunar, t.t. verkir í mjóbaki og niður í hægri fótlegg ásamt kraftminnkun við dorsiflection og erfiðleikar við að ganga á jarka. Það að hún var með „eðlilega reflexa“ bendir til þess að það hafi ekki verið um miðtaugakerfistruflun að ræða. Meðferð með amiltyptilin sem verkjameðferð við taugarótarskaða er því forsvaranleg á þessum tímapunkti. Telja matsmenn að brjósklos í mjóbaki hafi verið líklegasta skýringin á sjúkdómseinkennum matsþola á þessum tímapunkti ef miðað er við þær upplýsingar sem matsbeiðandi hafði um matsþola, þ.e. læknabréf heimilislæknis hennar og þær upplýsingar sem liggja fyrir frá matsbeiðanda um skoðun hans á matsþola.

6. Hvort verklag (mögulegar sjúkdómsgreiningar, meðferð og áætluð endurkoma) matsbeiðanda á matsþola hafi verið forsvaranleg eftir að niðurstaða úr segulómun á hrygg lá fyrir.

Matsbeiðandi setti upp eftirfarandi vinnusjúkdómsgreiningar þegar niðurstaða segulómunarmynda af mjóbaki leiddi í ljós að ekki væri um brjósklos að ræða:

1.                    Taugaskaði eftir keisaraskurð og/eða deyfingu.

2.                    Taugaskaði orsakaður að brjósklosi sem gengið hefði til baka og sæist ekki lengur á segulómunarmyndum.

Spurt er hvort þessi vinnubrögð matsbeiðanda hafi verið forsvaranleg.

Sjúkdómsgreiningar:

1. Varðandi vinnusjúkdómsgreininguna taugaskaði eftir keisaraskurð og/eða deyfingu teljum við hana langsótta. Taugaskaði eftir keisaraskurð og/eða deyfingu er óalgengur en vel þekktur. Í þessum tilvikum koma einkenni taugaskaðans nánast undantekningalaust fram strax eða fljótlega eftir að skaðinn er skeður. Einkennin fara svo dvínandi og ganga til baka í flestum tilvikum. Ljóst er að ekki var svo um að ræða í tilfelli matsþola. Samkv. þeim gögnum sem fyrir liggja um sjúkdómssögu matsþola, þá þjáðist hún af krampa og verk í hægri ganglim bæði fyrir og eftir keisaraskurð með nýtilkominni kraftminnkun í  hægri fæti. Matsbeiðandi lýsir þessu í bréfi til landlæknis, dagsett 30. september 2000, þar sem matsbeiðandi lýsir komu matsþola til sín þann 16. desember 1999. Kraftminnkun þessi var hinsvegar ekki til staðar við komu matsþola til heimilislæknis 12. október 1999. Vegna þess hversu mjög langsótt þessi vinnusjúkdómsgreining er teljum við að ef hún sé notuð beri að útiloka aðrar líklegri sjúkdómsgreiningar sem skýrt gætu sjúkdómseinkenni matsþola.

2. Varðandi vinnusjúkdómsgreininguna taugaskaði orsakaður af brjósklosi sem gengið hefði til baka og sæist ekki lengur á segulómunarmyndum, þá er hún möguleg. Sjúkdómsgreining þessi er þekkt en er óalgeng. Þekkt er að laus brjósklosbiti í epidural rými geti horfið algerlega á skömmum tíma. Í tilvikum sem þessum er algengast að taugaeinkenni dvína á tímabilinu fram að því að brjósklosbitinn hverfur og á þetta sérstaklega við um verkinn. Í tilviki matsþola reyndist ekki svo vera. Einkenni og verkir matsþola voru þau sömu við komu til matsbeiðanda þann 16. des 1999 og þegar hann tilkynnti henni um neikvæðar niðurstöður segulómunar þremur vikum seinna samkvæmt bréfi matsbeiðanda til landlæknis, dagsett 30. september 2000, þar sem skráð er eftirfarandi: “Ég og Sara töluðum svo saman í síma 7.10.2000. Þá sagði hún einkenni svipuð.” Hinsvegar má einnig benda á að bati á einkennum frá taugarótum mjóbaks eins og kraftminnkun getur tekið langan tíma þó að þrýstingi á taug hafi létt ef taugarótin hefur verið undir miklum þrýstingi jafnvel í stuttan tíma.

Ljóst er að matsþoli þjáðist í raun af heilaæxli, staðsett við heilabörk sem stjórnar meðal annars hreyfingum hægri ganglims. Einnig er líklegt að þeir krampar með tímabundinni lömun sem matsþoli lýsti í hæri ganglim voru líklega staðbundin flog af völdum æxlisins. Vitandi þetta velta matsmenn því fyrir sér  hvort matsbeiðandi hefði átt að gera greint æxlið, með þær upplýsingar sem hann hafði, áður en hún lenti í bráðaheilaaðgerð eftir hugsanleg alflog.

Ef litið er til sjúkdómseinkenna matsþola virðist ekkert hafa bent til að um miðtaugakerfistruflun hafi verið að ræða þ.e.a.s. reflexar voru skráðir eðlilegir við skoðun matsþola og ekki skráð nokkur einkenni frá höfði. Þannig er ekki sjálfgefið að lækni eigi að detta í hug umsvifalaust að um heilaæxli gæti verið að ræða, þó svo að segulómskoðun af mjóbaki leiddi ekki í ljós brjósklos. Hins vegar voru viðvarandi kraftminnkunareinkenni ekki fyllilega skýrð á þessum tímapunkti og því hefði matsbeiðandi átt að hugleiða fleiri sjúkdómsgreiningar. Matsþoli gæti til dæmis hafa haft truflun í taug lengra niður í hægri ganglim sem skýrði  kraftminnkun í hægri fæti. Einnig getur skyndileg máttminnkun í ganglim komið í kjölfar verks, í þeim tilvikum getur máttminnkunin stafað af sjálfum verknum við hreyfingu þó svo fullur vöðvastyrkur sé til staðar.

Matsmenn telja að þó svo matsbeiðandi hefði á þessum tímapunkti hugleitt aðrar sjúkdómsgreiningar þá hefði líklega verið of skammur tími til stefnu að hefja frekari uppvinnslu á öðrum mögulegum sjúkdómsgreiningum sem endanlega hefði leitt til réttrar greiningar (sjá neðar lið “Áætluð endurkoma”).

Meðferð:

Matsþoli fékk meðferð með lyfinu Amiltryptilin (Amilín) sem gefið var við taugaverkjum. Teljum við því lyfjameðferð matsbeiðanda forsvaranleg með tilliti til þeirra sjúkdómsgreininga sem hann vann eftir og klínískra einkenna matsþola.

Áætluð endurkoma:

Mikilvægt er að hafa í huga að matsbeiðandi fyrirhugaði að fylgja vinnusjúkdómsgreiningum sínum eftir með endurkomutíma.

Það er almennt viðurkennt vinnuferli lækna að lögð sé upp vinnusjúkdómsgreining í upphafi greiningaferlis út frá þeim niðurstöðum rannsókna og skoðana sem gerðar eru í byrjun. Sú sjúkdómsgreining þarf þó ekki endilega að vera sú rétta svo fremi sem hún sé læknisfræðilega möguleg og að henni sé fylgt eftir með endurkomu. Í endurkomunni felst endurmat á vinnusjúkdómsgreiningunni, þ.e.a.s. að sannreyna hvort um rétta sjúkdómsgreiningu hafi verið að ræða í ljósi nýrra upplýsinga um árangur meðferðar og hvort sjúkdómseinkenni hafi eitthvað breyst.

Einnig telja matsmenn mikilvægt að taka tillit til þess að matsbeiðandi hafði mjög takmarkaðan tíma til að vinna með matsþola. Hann kemur inn í sjúkdómsferli hennar mjög seint, liðið var tæpt ár frá því að matsþola var ráðlagt að leita til taugalæknis vegna einkenna sinna. Það líða svo einungis fjórar vikur frá því að matsþoli hitti matsbeiðanda í fyrsta sinn þar til að hún fer til Bandaríkjanna. Þann 7. janúar 2000 þegar matsbeiðandi tilkynnir matsþola neikvæðar niðurstöður úr segulómun á baki er því einungis vika fram að utanlandsferð hennar.

Hvort fyrirhugaður endurkomutími hefði átt að eiga sér stað fyrir eða eftir utanlandsferð matsþola er geysilega erfitt að dæma um eftir á.

Það sem gerir mat á því erfitt, eru mjög svo takmarkaðar upplýsingar frá matsbeiðanda um sjúkdómssögu og skoðun á matsþola.

Ljóst er að matsbeiðandi telur endurkomu þola bið fram yfir utanlandsferð matsþola þar sem einkenni hennar hafa ekki versnað.

Á meðan á ferðalagi matsþola stendur versna einkenni hennar, hún þjáist af höfuðverkjaköstum og missir alla vega einu sinni meðvitund nokkrum dögum fyrir bráðainnlögn. Samkvæmt matsþola leitaði hún til læknis á stofu í Bandaríkjunum eftir að hafa misst meðvitund. Sá læknir ræddi þann möguleika að gera tölvusneiðmynd af höfði en vildi bíða frekari gagna frá eiginmanni matsþola um heilsufarssögu hennar frá Íslandi (samkv. matsþola á matsfundi 27. mars 2004). Sá læknir taldi þ.a.l. ekki vera ástæðu til að gera bráða tölvusneiðmynd af höfði þrátt fyrir skoðun á sjúklingi og frásögn hennar um heilsufarssögu sína. Þetta er þó einungis nokkrum dögum fyrir bráðainnlögn matsþola. Það er því ljóst að einkenni matsþola eru ekki auðveld í greiningu. Það er hægt að leiða líkur að því að ef að matsþoli hefði ekki lagt upp í ferðina til Bandaríkjanna hefðu þessu auknu einkenni komið fram á Íslandi. Líklegt má telja að matsbeiðandi hefði þá fengið vísbendingar sem bentu til þess að um einkenni frá heila væri að ræða og svigrúm til að bregðast við því. Það er vel þekkt að æxli, eins og matsþolandi leið af, geta vaxið mjög hægt og ein af fyrstu alvarlegu einkennunum eru alflog. Matsþoli fékk fyrst alflog er hún var komin af landinu og var það fyrsta skipti sem fram komu örugg einkenni frá miðtaugakerfi.

Niðurstöður úr lið 6 eru því eftirfarandi:

Vinnusjúkdómsgreining matsbeiðanda varðandi taugaskaða eftir keisaraskurð er mjög langsótt.

Vinnusjúkdómsgreining taugaskaði orsakaður af brjósklosi sem gengið hefði til baka er möguleg.

Matsbeiðandi hefði átt að hugleiða fleiri sjúkdómsgreiningar þegar niðurstöður segulómskoðunar af baki lá fyrir.

Lyfjameðferð matsbeiðanda var eðlileg og forsvaranleg miðað við þær vinnusjúkdómsgreiningar sem unnið var eftir.

Endurkomutími matsþola var eðlilegur og forsvaranlegur með tilliti til þess hvaða vinnusjúkdómsgreiningum matsbeiðandi vann eftir.“

Sem fyrr er greint er ekki ágreiningur um niðurstöður í álitsgerð Örorkunefndar frá 14. desember 2004 en samkvæmt þeim er varanleg örorka stefnanda 100% og varanlegur miski 55%.

Stefnandi byggir bótakröfur sínar á skaðabótalögum nr. 50/1993 og reiknar þær út með eftirfarandi hætti:

1. Óvinnufærni til heimilisstarfa skv. 2. gr. skbl. ............. kr.   8.942.160

1272x7.030 = 4.632.770

                2. Þjáningatímabil skf. 3. gr. skbl. .................................... kr.   1.389.620

                    221x1770 = 391.170

    1051x950 = 998.450

                                  1.389.620

                3. Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. ................................. kr.   3.000.250

                4. Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. skbl. .............................. kr. 34. 770.346

                    kr. 2.566.070x1.06x239,6/182 = 3.580.880

                    3.580.880x9,71x100%       

5. Samtals krafa                                                                        48.102.376

                Af hálfu stefnda Hauks Hjaltasonar hefur útreikningum og fjárhæð bótakrafna stefnanda verið mótmælt í sérstöku dómskjali með eftirfarandi hætti:

„Kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns er hafnað með vísan til þeirra röksemda er fram koma í greinargerð stefnda. Verði fallist á bætur skv. þessum lið þá er þess krafist að þær verði lækkaðar verulega og allar greiðslur sem hún hefur fengið frá þriðja aðila verði dregnar frá þeim bótum, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999 (skbl.).

Viðmiðunartekjum stefnanda vegna bóta fyrir varanlega örorku er hafnað með vísan til röksemda í greinargerð stefnda. Þar sem stefnandi hefur ekki orðið við áskorunum stefnda í greinargerð að leggja fram skattframtöl eða önnur gögn um tekjur hennar síðustu árin fyrir slysið ber að leggja til grundvallar lágmarkslaun skaðabótalaga, eins og þau voru á stöðugleikatímapunkti, þann 1. ágúst 2003, eða kr. 1.635.000. Þá ber að draga frá greiðslur sem stefnandi fékk frá þriðja aðila, þ.á m. almannatryggingum, sbr. 4. mgr. 5. gr. sbl., en skv. útreikningum Bjarna Guðmundssonar, tryggingastærðfræðings á dskj. nr. 46 nemur eingreiðsluverðmætti þessara greiðslna samtals kr. 13.630.362 ... .“

Mótmæli stefnda Hauks, sem fram koma að framan, við bætur vegna ófærni til heimilisstarfa byggjast á því að ófærni stefnanda að þessu leyti hafi ekki verið metin og því sé óupplýst hver hún sé.  Þá mótmælir stefndi því að leggja eigi til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku meðaltekjur framhaldsskólakennara við mat á ófærni til heimilisstarfa. Við mat á bótum vegna varanlegrar örorku, sem sé mótmælt, eigi að leggja til grundvallar launatekjur stefnanda árin 1997-1999. Það hafi ekki verið gert heldur miðað við tekjur hennar árin 2000-2002. Þannig liggi ekki fyrir hvort réttlætanlegt sé að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna.

V

Stefndi Haukur Hjaltason kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa lokið sérfræðinámi í taugasjúkdómum árið 1994 frá Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Hann hefði starfað þar sem sérfræðingur í fjögur ár en á Íslandi frá árinu 1998. Stefndi kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um stefnanda áður en hann fékk bréfið frá Guðmundi Olgeirssyni sem dagsett er 13. október 1999 og kvaðst ekki muna til þess að hann hefði hitt stefnanda áður en hún hafi komið á stofuna til sín 16. desember 1999. Hann kvaðst gera ráð fyrir að hún hefði pantað tíma. Stefnandi kvaðst hafa unnið á stofu sinni tvisvar í viku og oft hafi verið heilmikil bið eftir tíma. Um skoðun á stefnanda kvaðst stefndi geta vísað til þess sem hann hefði skráð í sjúkraskrá hennar. Hefðbundin taugaskoðun hjá sér við fyrstu komu sjúklings væri sú að skoða svokallaðar heilataugar, þ.e. höfuðskoðun, skoða útlimi  með tilliti til skyns, krafta, hreyfingar og gangs og annars þess háttar. Þetta hafi hann ekki skrifað allt í sjúkraskrána en svona sé starfsvenja sín og gera verði ráð fyrir að stefnanda hafi hann skoðað með þessum hætti. Augnbotnaskoðun væri ekki hefðbundin skoðun allra sjúklinga sem til sín kæmu og hann vildi ekki fullyrða að hann hefði skoðað augnbotna stefnanda. Stefndi kvað sig ekki reka minni til þess að stefnandi hefði kvartað um höfuðverk í þessari skoðun eða að hún hafi haft einhver einkenni frá handlegg eða útlimum eða máltruflanir. Ekki myndi hann eftir því að stefnandi hafi kvartað undan minnisleysi, breytingum á vitrænni getu, þreytu, ógleði eða uppköstum. Stefndi kvaðst myndu hafa skráð þessi einkenni í sjúkraskrá hefði stefnandi lýst þeim. Hefði hann fundið einkenni frá handlegg eða einkenni frá höfði hefði það breytt öllu. Þá hefði hann ekki hugsað um brjósklos lengur heldur flutt tilgátu sína til í taugakerfinu. Kraftleysi stefnanda í fæti og bakverkir hefðu bent til brjóskloss og það hafi verið býsna nærtæk tilgáta eins og stefnandi hafi lýst sjúkdómseinkennum sínum. Vegna þessa hafi hann beðið um segulómskoðun. Stefndi kvaðst ekki vita hvenær svarið úr segulómskoðun á stefnanda dags. 30.12. hefði komið til sín og kvaðst ekki vera viss um að það hefði verið fyrr en hann hefði hringt í stefnanda 7. janúar. Hefði stefnandi þá lýst einhverjum nýjum einkennum hefði hann skráð þau í sjúkraskrána. Stefndi kvaðst hafa hinn 7. janúar dregið þær ályktanir sem skráðar séu í sjúkraskrána af allri þeirri heildarmynd af því sem á undan hafði gengið en samkvæmt henni hefði hann hugsað um úttaugaskaða. Hann hefði ekki túlkað hana í neina aðra átt og því sett upp möguleikana tvo á sjúkdómsgreiningu. Þannig vinni taugalæknar að þeir reyni að finna staðsetningu orsakar án þess að geta tiltekið hver hún sé. Stefndi kvaðst hafa ávísað lyfinu amilín sem oft sé notað við úttaugaskaða með ágætisárangri. Stefndi kvaðst á þessum tíma hafa verið aldeilis grunlaus um að nokkuð væri að í miðtaugakerfinu hjá stefnanda. Endurkoman hafi verið ákveðin 8. febrúar í samtalinu við stefnanda 7. janúar. Stefnandi hafi ekki, né neinn á hennar vegum, haft samband við sig eftir 7. janúar eftir því sem hann myndi best.

Stefnandi kvaðst gera ráð fyrir því að eftir endurkomu stefnanda hefði hann útvegað sér frekari gögn um sjúkrasögu stefnanda. Hann hafi haft 6 mánaða sjúkrasögu stefnanda frá Guðmundi Olgeirssyni og engin vá hafi virst á ferðum og svigrúm til þess að setja fram tilgátur um brjósklos og síðan taugaskaða eftir keisaraskurð, þegar niðurstaða úr segulómskoðun hafi legið fyrir, og halda áfram að vinna með þær tilgátur. Þá hafi stefnandi fengið amilín og hann hafi unnið að öðrum möguleikum. Stefndi kvað hugsanlegt að skoðun á augnbotnum hefði veitt vísbendingu um þrýsting á heila en litlar líkur séu á því miðað við að stefnandi hafi ekki lýst einkennum á auknum þrýstingi innan höfuðkúpu. Þau einkenni séu s.s. ógleði, höfuðverkur, morgunhöfuðverkur, jafnvel sjóntruflanir. Ekkert hafi í sínum huga bent til þess að stefnandi væri með lífshættulegan sjúkdóm. Babinski-rannsókn hefði getað veitt vísbendingu en stefndi kvað allar líkur á því að hann hafi gert þá rannsókn þar sem við skoðun hafi hann komist að því að stefnandi hafi haft kraftminnkun í fæti. Babinski-rannsókn skipti miklu máli um það hvernig sú kraftminnkun sé túlkuð. Stefndi kvaðst halda að eiginmaður stefnanda hafi komið með henni til sín 16. desember en var ekki viss hvort hann var viðstaddur skoðunina. Stefndi kvaðst ekki muna hvort eiginmaðurinn hefði rætt við sig um svefnleysi hjá stefnanda. Hefðu þeir rætt mikið um svefnleysi og höfuðverk hjá stefnanda myndi hann hafa skráð það niður og það hefði haft áhrif á túlkun sína á því hvað var að stefnanda. Dofatilfinning í eyra, sem lýst sé í læknabréfi Guðmundar Olgeirssonar, sé eitthvað sem gerist í örstuttan tíma og hafi hann greinilega ekki túlkað það á þann hátt að hún stafaði frá miðtaugakerfi. Útilokað sé að dofatilfinning í andliti geti tengst brjósklosi í mjóhrygg. Stefndi kvaðst hafa upplifað lýsingu stefnanda á krömpum sem verkjahviður niður í fótinn. Hann kvaðst ekki hafa upplifað þetta sem staðbundin flog, en það væri ekki ólíkleg skýring eftir á að hyggja. Ekki sé alltaf svo að einkenni gangi til baka þótt brjósklosið sjálft gangi til baka. Stefndi kvaðst aldrei hafa íhugað að leggja stefnanda inn á bráðamóttöku. Stefndi sagði að segulómskoðun af höfði stefnanda hefði að sínu viti greint sjúkdóm stefnanda en beðið hefði verið um segulómskoðun í samræmi við tilgátur sínar og alltaf væri hægt að gera meira en tilgáturnar gæfu tilefni til. Þessi skoðun kostaði hins vegar bæði fé og tíma og væri fyrirhöfn fyrir sjúkling. Stefndi sagði að biðtími eftir segulómun á þessum tíma hefði verið nokkur. Stefndi kvaðst hafa unnið á Landspítalanum og getað haft þar áhrif á það að stefnandi fengi segulómunina mjög fljótt miðað við það sem stefnda minnti að verið hefði á þessum tíma.

                Eiginmaður stefnanda, Aðalsteinn Júlíus Magnússon, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvað stefnanda hafa hugsað sér að verða kennari á Íslandi, en ekki farið út á vinnumarkaðinn þar sem hún hefði fljótlega orðið barnshafandi eftir að hún fluttist til landsins í júlí 1998. Fljótlega hefði farið að bera á verkjum hjá stefnanda og hefði hún kvartað um höfuðverk. Eitt sinn hefði höfuðverkurinn varað í marga daga en hún hafi verið hrædd við að taka verkjalyf vegna meðgöngunnar. Þetta hafi verið í kringum jólin 1998. Vitnið kvaðst hafa farið með stefnanda á bráðamóttöku kvennadeildar Landspítalans 5. febrúar 1999. Þá hafi stefnandi verið búin að hafa höfuðverk samfleytt í átta daga og eitthvað hafi hann orðið að gera. Höfuðverkurinn hafi komið og farið en yfirleitt varað nokkra daga í einu. Á bráðamóttökunni hafi læknar sagt að þeir fyndu ekkert að stefnanda, en vera megi að henni hafi verið ráðlagt að panta tíma hjá taugalækni. Vitnið taldi að stefnanda hefði ekki verið ávísað lyfjum á þessum tíma heldur seinna hjá Guðmundi Steinssyni lækni og þá Parkodin Forte. Eftir fæðingu dótturinnar hafi stefnandi mest átt í örðugleikum með gang og fengið einhverja undarlega tilfinningu í fæturna. Vitnið kannaðist ekki við að stefnandi hefði nokkru sinni haft migrenesjúkdóm, hún segði sjálf að hún hefði allt öðruvís höfuðverki. Vitnið kvaðst skilja það svo að stefnandi hefði sagt sjálf að einhvern tíma fyrr hefði hún hafi migrene.

                Tildrög þess að stefnandi hafi leitað til Guðmundar Olgeirssonar læknis 12. október 1999 hafi tengst veikindum hennar og ungbarnaeftirlitinu. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hún hitti lækni eftir fæðinguna. Tilefni þessarar heimsóknar hélt vitnið að hefi verið ungbarnaeftirlitið en ekki það að pantaður hefði verið tími sérstaklega fyrir stefnanda. Vitnið kvaðst hafa hitt Guðmund í nokkur skipti frá 12. október vegna ungbarnaeftirlitsins síðast, 7. janúar 1999, og í öll skiptin  rætt við hann um ástand stefnanda. Stefnandi hafi kvartað við Guðmund um höfuðverk og að eitthvað væri að henni í heilanum, einnig að hún væri slæm í fæti. Vitnið sagðist þó ekki hafa hlustað nákvæmlega á samræður þeirra, en stefnandi segðist sjálf hafa nefnt höfuðverk við Guðmund. Vitnið kvaðst í þau skipti sem hann hafi hitti Guðmund talað um svefnleysi stefnanda við hann. Þeim hjónum hafi verið sagt að Haukur Hjaltason myndi hafa samband við þau og eftir því hefðu þau alltaf beðið. Vitnið kvaðst hafa hringt á stofu hans og þá hafi ritarinn kannast við stefnanda. Í þriðja skiptið hafi hann sagt við ritarann að hann gæti ekki sagt stefnanda að ekki væri kominn tími fyrir hana og þá hafi hún fengið tíma 16. desember. Vitnið kvaðst hafa farið með stefnanda til stefnda Hauks 16. desember og beðið fyrir utan á meðan skoðunin fór fram. Eftir skoðunina hefði hann talað við stefnda Hauk og beðið hann um að gefa stefnanda eitthvað til þess að hún svæfi betur, en hún hefði haldið því fram að vitnið héldi sér stöðugt vakandi. Vitnið taldi að þá hefði stefndi Haukur ávísað amilíni vegna svefnleysisins. Stefnanda hafi fundist að henni væri ekki sinnt og hafi lýst því að sér fyndist að höfuð sitt væri að rotna og hafi viljað fá eitthvað gert. Eitthvað hafi hann þurft að gera og getað fengið tíma hjá Guðmundi Olgeirssyni og þangað hafi þau farið 23. desember. Vitnið kvaðst hafa setið fyrir utan með barnið og þegar stefnandi hafi komið út frá skoðuninni hafi hún verið grátandi. Stefnandi hafi sagt að læknirinn vildi ekki gefa sér sneiðmynd sem hún hefði beðið um af höfði og helst öllum líkamanum vegna þess að það væri of dýrt. Stefnandi hafi verið orðin hölt og skökk og þetta hafi verið mjög erfitt ástand. Stefnandi hafi á þessum tíma verið að reyna að sækja nám uppi í háskóla en ekki treyst sér til þess að halda því áfram.

Ferð stefnanda til Bandaríkjanna hafi verið ákveðin með nokkrum fyrirvara, hún hefði viljað sýna ættingjum sínum barnið og hafi hún ætlað að koma til landsins 5. febrúar. Stefnandi hafi verið orðin mjög aðþrengd á þessum tíma, liðið mjög illa og viljað komast til fjölskyldu sinnar. Vitnið sagði að sér vitanlega hefði læknir í Bandaríkjunum sem skoðað hefði Söru ekki talið ástæðu til þess að senda hana í tölvusneiðmyndatöku.

Stefnandi væri nú mjög hrædd því að hún vissi ekki hvernig heilsu sinni reiddi af. Æxlið sé nú komið í þriðja skipti.

                Guðmundur Olgeirsson, sérfræðingur í heimilislækningum, kom fyrir dóminn sem vitni. Vitnið sagði að hjúkrunarfræðingur hefði farið í ungbarnavitjun til stefnanda 6. júlí 1999. Næst hafi verið komið með barnið í ungbarnaeftirlit 27. júlí, þ.e. sex vikna skoðun. Þá hafi stefnandi komið með barnið til hjúkrunarfræðings og læknis, Önnu Ólafsdóttur að nafni. Í samskiptaseðli komi fram að móðirin telji barnið með mjólkurofnæmi en faðirinn hafi ekki verið því sammála og hafi verið mikið rætt um það. Næst hafi verið komið með barnið 2. nóvember 1999, þá hafi verið um að ræða svokallaða þriggja mánaða skoðun og því tæplega tveim mánuðum of seint einhverra hluta vegna. Þá hafi barnið verið skoðað og fengið fyrstu bólusetninguna. Í ungbarnaeftirlitið komi barnið næst 10. desember í svokallaða fjögurra mánaða skoðun og fái þá næstu bólusetningu. Vitnið kvaðst þá hafa verið viðstatt og einnig hjúkrunarfræðingur. Barnið  hafi næst komið í skoðun 11. janúar 2000. Vitnið kvaðst hafa verið með í þeirri skoðun. Með þessum hætti hafi samskiptin verið að því er ungbarnaverndina varðaði. Vitnið sagði að sér þætti ekki ólíklegt að heilsu stefnanda hafi borið á góma í þessi skipti en myndi þó ekki eftir því. Í skráningu um eftirlit með dóttur stefnanda sé ekki að sjá að skráð hafi verið neitt um heilsu annarra í fjölskyldu barnsins. Komi eitthvað fram um heilsu annarra sé þeim bent á að panta sér tíma sérstaklega en það sé ekki skráð.

                Hann hafi hitt stefnanda og eiginmann hennar í fyrsta skipti 12. október. Þá hafi hann skrifað tvo samskiptaseðla, annan um eftirskoðun eftir fæðingu, sem venjan sé að mæður komi í eftir sex vikur, og hinn um heilsu stefnanda sjálfrar. Tilefnið hafi verið verkur hjá stefnanda hægra megin. Í samskiptaseðilinn hafi hann skrifað að annaðhvort seint á meðgöngu eða við fæðinguna hafi stefnandi fengið óþægindi í hægri mjöðm. Óljóst hafi verið hvað hafi verið að á þeim tíma. Vitnið sagði það sem hann hefði skráð í samskiptaseðilinn vera samkvæmt lýsingu stefnanda. Vitnið kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvaða einkenni þetta hefðu verið í sjálfu sér. Þau hafi rætt þessi einkenni en sjálf hafi stefnandi greinilega verið hrædd um að þetta gæti verið eitthvað alvarlegt. Að sínu mati hafi einkennin ekki bent til þess, ekki síst eftir að hann hefði verið búinn að skoða stefnanda. Hann hafi gert taugaskoðun af neðri útlimum og hafi það verið algerlega eðlilegt. Vitnið kvaðst reyna að skrá sjúkdómseinkenni eins nákvæmlega og mögulegt væri, en vel geti verið að eitthvað annað hafi verið sagt sem hann hafi ekki skráð sem hann muni þó ekki eftir. Skráningin fari þannig fram að annaðhvort sé skráð beint inn jafnhliða skoðun eða teknar nótur á pappír og skráð eftir skoðun. Eiginmaður stefnanda hafi verið viðstaddur skoðunina allan tímann. Vitnið kvaðst ekki muna eftir neinum kvörtunum, sem hægt hefði verið að tengja heila eða miðtaugakerfi nema ef vera kynni dofaköstin sem hún hafi lýst. Það væri það eina sem gæti verið af því tagi. Þau einkenni gætu allt eins verið frá úttaugakefi eins og miðtaugakerfi. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að stefnandi hafi kvartað um höfuðverk og sér þætti líklegt að það hefði hann skráð ef svo hefði verið. Sér hafi fundist eðlilegt, en stefnandi hafi gengist undir aðgerð á sjúkrahúsi, að hún gengist undir skoðun annars staðar. Annars vegar vegna þess að um fylgikvilla aðgerðarinnar gæti hafa verið að ræða og eins vegna þess að stefnandi hafi verið hrædd um að þetta gæti verið eitthvað alvarlegt sem hann sjálfur hafi ekki komið auga á. Þess vegna hafi sér fundist eðlilegt að einhver sem betur væri fallinn til þess að skoða stefnanda væri fenginn til þess að gera það, þ.e.a.s. einhver sérfræðingur. Vitnið kvaðst hafa bent stefnanda á að panta tíma hjá stefnda Hauki og sagt þeim hjónum að gera það sjálf. Það sé í þeim undantekningartilvikum að um sé að ræða bráðveikt fólk sem læknar panti tíma fyrir sjúklinga.

                Í næsta skipti hafi hann hitt og skráð samskipti við stefnanda 23. desember og kvaðst vitnið í sjálfu sér ekki hafa neinu að bæta við þá skráningu. Allt sem komið hafi fram eigi að vera skráð þar. Líklega hefði eiginmaður stefnanda verið viðstaddur skoðunina. Vitnið kvaðst hafa hringt í Hauk meðan á skoðuninni stóð, sem hafi skýrt sér frá því hverjar áætlanir hann hefði gert varðandi stefnanda og hafi sagt að hann ætlaði að reyna að flýta segulómskoðun. Ekki hefði verið venjulegur framgangsmáti að hann færi að grípa inn í fyrirhugaða meðferð Hauks. Vitnið kvaðst hafa sent stefnanda í röntgenmyndatöku af ökkla vegna þess að hún hefði endurtekið verið að snúa sig. Hann hafi ekki séð að nokkra þýðingu hefði haft eða ástæða hefði verið til að senda stefnanda í tölvusneiðmyndatöku af fætinum eins og óskað hefði verið eftir 12. október. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig sú ósk hefði verið sett fram. Hann hefði ákveðið að láta taka röntgenmynd af ökklanum til að sjá hvort þar hefði orðið nokkur beinskaði. Vitnið kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir því að röntgenmyndin sýndi neinn skaða. Eftir þetta kvaðst vitnið ekki hafa hitt stefnanda, en hann hefði gert ráð fyrir að hringt yrði í sig þegar röntgenmyndir lægju fyrir. Minnkaður máttur í extensor vöðvum kringum ökkla og að geta ekki extenderað jafn mikið og á fæti með fullan mátt geti bent til einkenna í miðtaugakerfi. Þetta gæti bent til lömunar í fæti. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að rætt hafi verið að stefnandi ætti erfitt með svefn.

                Vitnið Guðmundur Þór Guðmundsson kom fyrir dóminn og staðfesti að hann hefði samið skjal um ferð sína til Flórída með eiginmanni stefnanda rétt eftir að stefnandi gekkst þar undir uppskurð. Þeir Aðalsteinn væru vinir og hefði hann ritað skjalið að hans beiðni 30. desember 2002 í tilefni málsóknar stefnanda.

                Vitnið Aron Björnsson heilaskurðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti að hafa ritað bréfið til landlæknis 19. september 2000 sem fyrr er rakið í dóminum. Hann kvað stefnanda hafa verið sjúkling sinn eftir uppskurðinn í Bandaríkjunum. Hann kvaðst hafa gert aðgerð á stefnanda, líklega í ársbyrjun 2003, þar sem hann hafi fjarlægt æxli sem hafi verið á svipuðum slóðum og það sem fjarlægt var í Bandaríkjunum. Hann sagði að reikna yrði með að þarna hafi verið eitthvert æxli eða leifar frá upphaflegu aðgerðinni. Erfitt sé að ná slíku æxli öllu, sérstaklega á þeim stað þar sem æxlið í höfði stefnanda hafi verið. Þó sé það ekki útilokað í vissum tilvikum. Um mjög sambærilega aðgerð hafi verið að ræða þeirri sem gerð hafi verið í Bandaríkjunum. Vitnið sagði að hann hefði fyrst hitt stefnanda eftir að hún kom frá Bandaríkjunum.   

                Matsmaðurinn Elvar Úlfarsson kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína og Guðrúnar Rósu Sigurðardóttur.

                Matsmaðurinn lýsti því að af tölvusneiðmynd mætti sjá að stefnandi hafi verið með geysilega heilabólgu rétt fyrir aðgerðina í Bandaríkjunum og verið gæti að um byrjandi „herniation“ hafi verið að ræða sem hann gæti þó ekki fullyrt þar sem hann hefði ekki gögn um það. Algengustu einkenni æxlis af því tagi sem stefnandi hafi verið með séu flog. Því fyrr sem sjúkdómurinn greindist og aðgerð væri gerð þeim mun meiri líkur væri á að hún heppnaðist vel. Matsmaðurinn lýsti þeirri skoðun sinni að mjög erfitt væri að greina þennan sjúkdóm ekki síst á meðgöngutíma stefnanda.

Mjög eðlilegt hefði verið að heilsugæslulæknirinn vísaði á taugalækni og lýsing Guðmundar Olgeirssonar á skoðun á stefnanda hefðu verið til fyrirmyndar og nægjanleg fyrir sérfræðinginn til þess að geta gert fyrsta mat á sjúklingnum. Þegar stefnandi hafi komið til stefnda Hauks 16. desember taldi matsmaðurinn að líklegasta sjúkdómsgreiningin hefði verið brjósklos í mjóbaki. Hann sæi því ekkert athugavert við þá tilgátu stefnda Hauks, en matsmennirnir hefðu ekki fengið í hendurnar það sem stefndi hafi skráð um skoðun á stefnanda. Eftir að niðurstaða úr segulómskoðun hafi legið fyrir taldi matsmaðurinn eðlilegt að hugleiddar hefðu verið fleiri sjúkdómsgreiningar sem mögulegar skýringar á ástandi stefnanda. Varðandi það sem Guðmundur Olgeirsson skráði um hræðslu stefnanda við heilablóðfall og MS-sjúkdóm sagði matsmaðurinn að læknar ættu ætíð að taka sjúkling alvarlega en hlutverk læknis væri líka að róa sjúkling. Mjög erfitt væri að meta dofa í hægra eyra, það geti verið einkenni frá miðtaugakerfinu, en erfitt sé að flokka það á ákveðinn, fastan hátt. Þegar fyrir hafi legið að um brjósklos hafi ekki verið að ræða þá hefði átt að hugleiða fleiri skýringar. Segulómskoðun af höfði hefði leitt æxlið í ljós að dómi matsmannsins.

Matsmaðurinn Guðrún Rósa Sigurðardóttir kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína og Elvars Úlfarssonar.

Matsmaðurinn taldi að rétt hefði verið hjá Guðmundi Olgeirssyni að ráðleggja stefnanda að leita til stefnda Hauks og senda honum samskiptaseðilinn, sem hafi verið mjög góð læknisfræði. Matsmaðurinn sagði að vöðvakrampar og verkur gætu verið einkenni frá úttaugakerfi en einnig frá miðtaugakerfinu. Babinski sé reflex sem komi fram sé um miðtaugakerfisskaða að ræða og bendi til þess að eitthvað sé að í miðtaugakerfinu. Yfirleitt sé getið sérstaklega um Babinski. Hjá stefnda Hauki komi ekki fram neitt um það, aðeins að reflexar séu eðlilegir. Matsmaðurinn kvaðst hafa á tilfinningunni, þegar stefndi Haukur talaði um að reflexar væru eðlilegir, þá hafi hann ekki fundið nein einkenni frá miðtaugakerfinu. Matsmaðurinn taldi það eðlilegan framgang læknismeðferðarinnar að stefnanda hafi verið ætluð endurkoma til stefnda Hauks þegar hún kæmi frá Bandaríkjunum. Matsmaðurinn taldi ekkert óeðlilegt við það hvernig stefndi Haukur hefði byrjað sjúkdómsgreiningu  sína í upphafi. Matsmaðurinn sagði að sér fyndist að skráning stefnda Hauks við komu stefnanda þann 16. desember hefði verið nægjanleg.

VI

                Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki fengið eðlilega þjónustu hjá þremur aðilum í heilbrigðisþjónustunni sem hún hafi leitað til. Þeim hafi orðið á mistök við greiningu sjúkdóms þess sem hún hafi verið haldin. Hefðu þeir greint sjúkdóminn réttilega þegar stefnandi leitaði til þeirra hefði hún hvorki orðið fyrir líkamstjóni né miska vegna hans. Um sé að ræða lækna á bráðaþjónustu kvennadeildar Landspítalans, Guðmund Olgeirsson heilsugæslulækni og stefnda Hauk Hjaltason, sérfræðilækni í heila- og taugasjúkdómum.

                Vegna sérfræðiábyrgðar lækna, sbr. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988, nægi til saknæmis í tilviki sem þessu að um einfalt gáleysi og einfalda yfirsjón viðkomandi sé að ræða. Það sé ljóst að orsakasamband sé á milli síðbúinnar greiningar og heilsu stefnanda eins og hún nú sé.

                Landlæknir hafi gefið það álit að miðað við þau einkenni sem stefnandi hafi verið haldin hafi verið efni til að greina sjúkdóminn, þ.e.a.s. æxlið, fyrr eða fyrir áramótin 1999. Málsókn stefnanda sé að miklu leyti grundvölluð á álitsgerð landlæknis og sé hún aðalsönnunargagn stefnanda.

                Stefnandi hafi leitað til bráðaþjónustu kvennadeildar Landspítalans 5. febrúar 1999 og kvartað um viðvarandi höfuðverk og jafnframt um sjóntruflanir og ógleði sem honum væri samfara. Þar hafi hún enga úrlausn fengið nema ávísun á verkjalyf, en sjúkdómslýsing stefnanda hefði átt að gefa lækni tilefni til aðgerða. Á síðustu mánuðum fyrir fæðingu hafi hún auk þess fengið verk í mjöðm og orðið völt og óstöðug, fengið krampa og einkennilega tilfinningu í hægri fót auk verkja í mjóbaki. Höfuðverkurinn hafi verið orðinn stöðugur og stefnandi óvinnufær. Á kvennadeildinni hafi hún fengið ávísað gigtarlyfi og jafnframt verið ráðlagt að fara í sjúkraþjálfun, sem engan árangur hafi borið og verið sjálfhætt.

                Eftir fæðingu dótturinnar 7. júní hafi stefnandi farið með barnið í reglubundið eftirlit til Guðmundar Olgeirssonar læknis á heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi. Auk þess að greina frá þeim sjúkdómseinkennum sem lýst sé í samskiptaseðli læknisins þá hafi hún einnig sagst vera með höfuðverk. Þau einkenni sem stefnandi hafi lýst hafi átt að kalla á frekari rannsókn læknisins og markvissari meðferð og auk þess hefði hann átt að tryggja að stefnandi kæmist til sérfræðilæknis án dráttar. Lækninum hafi borið eftir að stefnandi hafi lýst sjúkdómseinkennum sínum í heimsókninni 12. október að senda stefnanda á bráðamóttöku eða í greiningu hjá sérfræðilækni og hlutast til um að stefnandi færi í ómskoðun eða sneiðmyndatöku, en það hefði dugað til þess að greina sjúkdóminn. Einföld rannsókn, svo sem skoðun á augnbotnum, hefði átt að nægja til greiningar á sjúkdóminum. Læknirinn hafi aftur á móti hafnað ósk stefnanda um að vera send í sneiðmyndatöku. Sjúkdómseinkenni stefnanda hafi öll borið vott um truflanir frá miðtaugakerfi. Stefnandi hafi ekki neina úrlausn fengið hjá Guðmundi í heimsókninni til hans 23. desember. Læknirinn hafi ætlað að fá tíma fyrir stefnanda hjá sérfræðilækni sem seint hafi gengið og hafi eiginmaður hennar orðið að beita sér fyrir því.

Þegar stefnandi hafi komið til stefnda Hauks Hjaltasonar 16. desember virðist hann hafa vanrækt að halda sjúkraskrá um stefnanda eins og skylt sé samkvæmt reglugerð nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál. Líta verði svo á að það sem ekki sé skráð í sjúkraskrá hafi ekki verið framkvæmt og leiði þessi skortur á upplýsingum til þess að sönnunarbyrði sjúklings minnki. Á því verði að byggja að stefnandi hafi lýst fyrir Hauki sömu sjúkdómseinkennum og hún hafi gert hjá Guðmundi Olgeirssyni. Stefndi Haukur hafi unnið samkvæmt tveim vinnukenningum, sem hafi verið langsóttar og hvorug staðist. Stefndi Haukur hefði þegar í stað eftir segulómskoðun á stefnanda átt að vinna eftir nýrri sjúkdómsgreiningu og ákveða endurkomutíma stefnanda. Hvorugt hafi hann gert og hafi það leitt til þess að stefnandi hafi verið langt leidd þegar aðgerðin var framkvæmd í Bandaríkjunum 4. febrúar. Hefði sjúkdómurinn greinst fyrr hefði verið hægt að framkvæma aðgerðina án þess að stefnandi biði nokkurt heilsutjón.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um greiðslu skaðabóta á almennum reglum íslensks skaðabótaréttar, þ.á m. sakarreglunni og reglum um húsbóndaábyrgð auk dómafordæma. Auk þess byggi hann bótakröfu sína á skaðabótalögum nr. 50/1993.

Stefnandi hafi verið ófær til þess að sinna heimilisstörfum vegna afleiðinga sjúkdómsins og hafi þurft að fá hjálp til þess. Krafa um bætur vegna þessa sé byggð á 3. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Beita eigi ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku enda gefi tekjur stefnanda á síðustu árum fyrir tjónsatburðinn ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hennar.

Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er því haldið fram að stefnandi hafi ekki getað sýnt fram á mistök og saknæmi hjá þeim starfsmönnum ríkisins sem stefnandi hafi leitað til. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á að máli hafi skipt hvenær sjúkdómur hennar hafi verið greindur, en hún hafi orðið fyrir líkamstjóni við uppskurðinn í Bandaríkjunum þar sem of lítið gat hafi verið gert á höfuðkúpuna og engri „herniation“ hafi verið til að dreifa. Stefnandi eigi sjálf sök á því hvernig fór, hún hafi ekki borið sig eftir læknismeðferð og sjálf bundið endi á meðferðina með utanferð sinni til Bandaríkjanna.

Stefnandi hafi aðeins einu sinni leitað til bráðamóttöku kvennadeildar Landspítalans, þ.e. 5. febrúar 1999. Þar hafi verið framkvæmdar þær athuganir sem eðlilegar voru miðað við aðstæður, stefnandi fengið lyfi ávísað og ráðlagt að leita til taugasjúkdómalæknis, sem hún hafi ekki gert. Stefnandi hafi aldrei kvartað um höfuðverk eða sjóntruflanir þegar hún hafi komið í mæðraskoðun og ekki heldur þegar hún hafi legið á sæng. Þannig hafi engin efni verið til að sjúkdómurinn greindist meðan á meðgöngunni stóð. Það sé og skoðun landlæknis.

Stefnandi hafi farið með dóttur sína í ungbarnaskoðun á heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi og hafi hjúkrunarfræðingar og Guðmundur Olgeirsson annast þá skoðun. Ekkert hafi þá verið minnst á heilsufar stefnanda sjálfs, en hefði það verið gert þá hefði verið ritaður um það svokallaður samskiptaseðill.

Stefnandi hafi komið til Guðmundar Olgeirssonar tvívegis vegna sjúkleika síns. Fyrra skiptið hafi verið 12. október 1999 og þá hafi stefnandi lýst sjúkleika sínum en ekkert minnst á höfuðverk. Nákvæmur samskiptaseðill hafi verið ritaður og ekkert hafi komið fram við skoðunina sem tengst hafi miðtaugakerfinu sérstaklega. Guðmundur hafi gert það sem rétt var að vísa stefnanda til taugalæknis. Engin efni séu til þess að ætla Guðmundi að greina æxli við heila á þessum tíma.

Síðara skiptið hafi verið 23. desember en þá hafi stefnandi verið komin í meðferð hjá stefnda Hauki. Guðmundur hafi í þetta skipti haft samband við Hauk og þá hafi hann verið búinn að ákveða að senda stefnanda í segulómskoðun. Í þetta skipti hafi Guðmundur látið taka röntgenmynd af ökkla stefnanda til þess að ganga úr skugga um hvort þar væri eitthvað að.

Greining Guðmundar Olgeirssonar og meðferð hafi í öllu verið eðlileg á sínum tíma og verði engin sök hjá honum fundin. Þetta sé og skoðun landlæknis.

Af hálfu stefnda Hauks er því haldið fram að hann hafi fært sjúkraskrá fyrir stefnanda í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991 og hafi hún verið lögð fram í málinu. Í reglugerðinni sé ekki gerð krafa um nákvæmar færslur og ekki sé hægt að fullyrða neitt um það sem ekki standi í sjúkraskránni. Á slíkum fullyrðingum verði ekki byggt.

Sönnunarbyrði um sök og orsakatengsl hvíli alfarið á stefnanda og engin efni séu til þess að draga úr sönnunarbyrðinni. Við mat á gáleysi verði að miða við það sem góðum og gegnum lækni hafi borið að gera miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir og þann tíma sem til ráðstöfunar hafi verið. Það eigi hvorki að miða við alfullkominn lækni né fúskara í þeirri stétt.

Svið taugalækninga sé erfitt og vandasamt og við það verði að miða að lækni hafi yfirsést nokkuð greinileg einkenni til þess að sök sé fyrir hendi. Einkenni stefnanda hafi verið þess eðlis að þau hafi getað bent til ýmissa sjúkdóma og fyrir liggi það álit dómkvaddra matsmanna að einkenni stefnanda hafi ekki verið auðveld í greiningu. Hjá matsmönnum komi einnig fram að aukin einkenni hefðu gert vart við sig hjá stefnanda og hefði hún verið áfram á Íslandi hefði stefndi Haukur fengið vísbendingar um að sjúkdómseinkenni stefnanda stöfuðu frá heila.

Stefndi Haukur hafi við skoðun stefnanda haft í höndunum samskiptaseðla frá Guðmundi Olgeirssyni og síðan skoðað stefnanda sjálfur og hvorttveggja hafi bent til þess að eitthvað væri að í úttaugakerfi. Stefndi Haukur hafi lýst því fyrir dómi að stefnandi hafi engu lýst sem bent hafi til einkenna frá miðtaugakerfi. Þetta sé og skoðun dómkvaddra matsmanna. Vinnukenningar stefnda Hauks hafi verið eðlilegar og hann hafi fengið segulómskoðun fyrir stefnanda og ávísað verkjalyfjum. Þannig hafi stefndi Haukur ekkert haft í höndunum sem benti til einkenna frá miðtaugakerfi eða heila. Endurkoma stefnanda hafi verið áætluð miðað við ferð hennar til Bandaríkjanna.

Það sem dómkvaddir matsmenn segi í matsgerð sinni standi óhnekkt. Niðurstaða landlæknis sé órökstudd og ekki hægt að byggja á henni.

Þá sé ósannað að hefði sjúkdómur stefnanda verið greindur fyrr en varð hefði það leitt til þess að hún væri nú við fulla heilsu. Fram komi hjá lækninum Aroni Björnssyni að ætíð sé erfitt að fjarlægja æxli eins og stefnandi hafi verið með án þess að valda skemmdum.

VII

A

                Eins og fyrr greinir í dóminum telur stefnandi mistök þrívegis hafa verið gerð við greiningu á sjúkdómi hennar, þ.e. sjúkdómurinn hafi ekki verið greindur á bráðamóttöku kvennadeildar Landspítalans og læknarnir Guðmundur Olgeirsson og Haukur Hjaltason hafi ekki greint sjúkdóminn réttilega. Áður en fjallað verður sérstaklega um þessar málsástæður verður farið nokkrum orðum um bótaskilyrði á því sviði skaðabótaréttarins sem kröfur stefnanda falla undir.

                Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu skaðabóta á almennum reglum íslensks skaðabótaréttar, þ.á m. sakarreglunni og reglum um húsbóndaábyrgð, dómafordæmum og skaðabótalögum nr. 50/1993. Það ber allt að sama brunni, þ.e. að grundvöllur skaðabótakröfunnar er sakarreglan sem er þess efnis að sá sem bakað hefur öðrum tjón með saknæmri og ólögmætri athöfn sinni eða athafnaleysi skal bæta hinum það tjón sem telja má sennilega afleiðingu af athöfninni eða athafnaleysinu. Saknæmi athafnar er fólgið í ásetningi eða gáleysi gerandans og í þessu máli er eingöngu byggt á því að þau mistök sem haldið er fram að orðið hafi séu gáleysi að kenna. Við mat á því hvort svo hafi verið eða ekki verður í því tilviki sem hér er til meðferðar að styðjast við það hvað „góðum og gegnum“ lækni hefði borið að gera miðað við þær aðstæður og upplýsingar sem fyrir hendi voru þegar hin meintu mistök áttu að hafa orðið. Inntak sakarreglunnar gerir ráð fyrir slíkri viðmiðun. Varðandi ólögmætið verður miðað við að nægilegt sé að leitt hafi verið í ljós að meintur tjónvaldur hafi viðhaft aðra háttsemi en honum bar og af þeim sökum valdið tjóni. 

                Tjón það sem krafist er bóta fyrir verður samkvæmt sakarreglunni að vera sennileg afleiðing verknaðar sem talinn er saknæmur og ólögmætur. Að því er sönnunarbyrði varðar fyrir gáleysi, orsakatengslum og tjóni af verknaði, sem beri að bæta, þá er meginreglan sú að hún hvílir á þeim sem bóta krefst, þ.e. stefnanda í því tilviki sem hér um ræðir. Hins vegar verður jafnframt að hafa í huga að bótakröfum í máli þessu er beint að þeim sem veita sérfræðiþjónustu og til þeirra verður sú krafa gerð að þeir stundi fagleg og vönduð vinnubrögð og getur þessi krafa haft áhrif á mat á sök og sennilegu tjóni. Hér þykir rétt að taka fram að sjúkdómsgreining, sem reynist röng, hefur ekki ein og sér og sjálfkrafa í för með sér skaðabótaskyldu læknis sem hana gerði, það verður að meta út frá þeim aðstæðum sem fyrir hendi voru.

 

B

                 Þegar stefnandi leitaði til bráðamóttöku kvennadeildar Landspítalans 5.2. 1999 var hún komin 22-23 vikur á leið. Þar kvartaði hún um höfuðverk, sem lýst er í sjúkraskrá sem „slætti í höfði“, og hafi hann verið að koma þrjá síðastliðna daga. Einnig kvartaði stefnandi um sjóntruflanir og væga ógleði. Þá er skráð að stefnandi hafi haft migrenesjúkdóm og fengið svipuð einkenni fyrr á meðgöngunni sem staðið hafi 2½ klukkustund. Því er ekki haldið fram af stefnanda að hún hafi lýst fleiri sjúkdómseinkennum en skráð voru og að framan er lýst, en einkennin hafi átt að vekja grun um æxli í heila og viðbrögð læknis að vera í samræmi við það.

Á stefnanda var gerð „neurologisk“ skoðun sem sýndi ekkert óeðlilegt. Stefnandi fékk ávísað verkjalyfjum og var ráðlagt að panta tíma hjá taugalækni.

Hér er um að ræða skoðun sem fram fór ári áður en stefnandi gekkst undir aðgerðina í Bandaríkjunum. Útilokað er að slá því föstu að þau sjúkdómseinkenni sem stefnandi lýsti á þessum tíma hafi stafað af heilaæxli og framhjá því verður ekki horft að stefnandi lýsti einnig migrenehöfuðverk. Ekki verður litið svo á að hægt sé að gera þá kröfu til læknis á bráðamóttökunni að hann greindi sjúkdóm stefnanda á þessu stigi og hafa ber í huga að hann ráðlagði stefnanda að leita taugalæknis. Ekki verður annað séð en skoðunin sem á stefnanda var gerð, skráning hennar og þær ráðleggingar sem hún fékk hafi verið í fullu samræmi við þær faglegu kröfur sem hægt er að gera til læknis undir þessum kringumstæðum. Verður því ekki fallist á að hér sé um saknæmi að ræða.

                Læknum á kvennadeild Landspítalans eru ekki gefin nein mistök að sök af hálfu stefnanda. Í sjúkraskýrslu kvennadeildar kemur fram að helstu kvartanir stefnanda á meðgöngutímanum hafi verið bak og grindarverkir sem hafi virst tengjast meðgöngunni. Í sængurlegunni hafi engar sérstakar kvartanir komið fram sem ekki hafi verið hægt að tengja meðgöngunni. Þeir Guðmundur Olgeirsson og stefndi Haukur munu ekki hafa haft skráningu lækna á kvennadeildinni undir höndum þegar stefnandi leitaði til þeirra eða fengið hana síðar á þeim tíma er stefnandi var til meðferðar hjá þeim. 

C

                Stefnandi kom tvívegis til Guðmundar Olgeirssonar læknis á Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi, sérfræðings í heimilislækningum, í tilefni af sjúkdómseinkennum sínum, í fyrra skiptið 12. október og í síðara skiptið 23. desember 1999. Guðmundur segist auk þessa hafa hitt stefnanda tvívegis þegar hún hafi komið með dóttur sína í eftirlit, þ.e. 10. desember 1999 og 11. janúar 2000. Guðmundur kvað ekki ólíklegt að í tvö síðarnefndu skiptin hafi heilsu stefnanda sjálfrar borið á góma þótt hann myndi ekki eftir því. Ekkert er í raun upplýst um það.

                Fyrr í dóminum er lýst því sem Guðmundur skráði í sjúkraskrá, eða svokallaðan samskiptaseðil, um heimsókn stefnanda 12. október og 23. desember. Það er mat dómsins að sú skráning sé ítarleg og fullnægi í öllu þeim kröfum sem hægt er að gera til skráningar af þessu tagi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál með áorðnum breytingum skv. reglugerð nr. 545/1995. Það sem í sjúkraskránni kemur fram hefur í sjálfu sér ekki verið vefengt og ekki verður séð af skráningunni  að nein sérstök merki hafi verið um bráða hættu. Þau dofaköst sem stefnandi lýsti geta hafa átt rót sína að rekja til æxlis á milli heilahvela en útbreiðsla dofans í eyra, eins og honum var lýst, þykir þó ekki dæmigerð fyrir æxlisvöxt á þessum stað þar sem þess hefði mátt vænta að dofi, sem byrjar í fæti og leiðir upp í eyra, hefði jafnframt komið fram hægra megin í búk og andliti og hægri hendi. Það er niðurstaða dómsins að miðað við þau sjúkdómseinkenni sem stefnandi lýsti og skráð voru sé ekki hægt að gagnrýna tilgátu læknisins um hvað amaði að stefnanda. Hræðsla stefnanda sjálfrar við að eitthvað alvarlegt kynni að vera á ferðum verður ekki talin hafa átt að leiða til þess að heimilislæknirinn gripi til annarra ráða en hann gerði. Þau viðbrögð læknisins að ráðleggja stefnanda að leita taugalæknis og benda á ákveðinn taugalækni voru eðlileg og sjálfsögð auk þess sem hann sendi taugalækninum læknabréf daginn eftir. Ekki þykir hægt að gera þá kröfu til læknisins að hann sjálfur tryggði stefnanda tíma hjá taugalækni eða hlutaðist sérstaklega til um að stefnandi færi á þessu stigi í sneiðmyndatöku eða segulómskoðun.  

                Því er haldið fram af stefnanda að við komuna til Guðmundar hafi hún einnig kvartað um höfuðverk án þess að læknirinn hafi neitt skráð um það og öll sjúkdómseinkenni hennar hefðu átt að kalla á frekari rannsókn og markvissari meðferð hans. Það hefði leitt til þess að sjúkdómurinn hefði greinst á þessu stigi. Læknirinn sagði fyrir dómi að hann myndi ekki eftir neinum kvörtunum stefnanda sem hægt hefði verið að tengja heila eða miðtaugakerfi nema ef vera kynni dofaköstin sem stefnandi hefði lýst. Læknirinn sagði jafnframt að vel gæti verið að eitthvað hefði verið sagt sem hann hefði ekki skráð sem hann myndi þó ekki eftir að hefði verið. Því er haldið fram af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, að við skoðun Guðmundar hafi ekkert komið fram sem tengst hafi miðtaugakerfinu sérstaklega.

                Sem fyrr greinir er skráning Guðmundar við komu stefnanda 12. október ítarleg og almennt er ekki hægt að gera ráð fyrir að skráð sé það sem ekki er kvartað um. Það er með nokkrum ólíkindum, ekki síst miðað við hve sjúkraskráin er ítarleg, að læknirinn hefði ekki skráð kvörtun um höfuðverk hafi hún komið fram. Það er ljóst að verulegar líkur eru á að sjúkdómsgreining hefði orðið önnur hefði kvörtun um höfuðverk legið fyrir sem kynni að hafa leitt til þess að stefnandi hefði gengist undir heilaaðgerð. Samkvæmt því sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um það að hún hafi kvartað undan höfuðverk við lækninn við komuna 12. október og gegn mótmælum stefnda, íslenska ríkisins, verður ekki talið að sú sönnun hafi tekist.

Læknirinn Guðmundur Olgeirsson verður því ekki talinn hafa sýnt af sér gáleysi við skoðun stefnanda hinn 12. október 1999 og ekki er heldur hægt að gefa honum að sök að hafa ekki á þessum tíma greint sjúkdóm stefnanda réttilega. 

Stefnandi leitaði einnig til Guðmundar Olgeirssonar 23. desember 1999. Skráning Guðmundar í þetta sinn er tiltölulega ítarleg og verður talin fullnægja í öllu þeim kröfum sem hægt er að gera til skráningar af þessu tagi. Stefnandi hafði þá verið skoðuð af stefnda Hauki Hjaltasyni og til stóð að hún færi í segulómskoðun. Þegar litið er til þess að stefnandi kvartaði í þetta sinn um óþægindi frá ökkla og að „hún væri alltaf að snúa sig“ var eðlilegt að læknirinn léti taka röntgenmynd af ökklanum, en hefði ekki frumkvæði að frekari rannsóknum sem þegar voru hafnar af taugalækni.

Greining Guðmundar var hin sama og fyrr, en ekkert kemur fram um það að stefnandi hafi kvartað um höfuðverk eða önnur einkenni sem gátu stafað frá höfði. Með sama hætti og hér á undan er óhjákvæmilegt að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um það að hún hafi kvartað undan höfuðverk við lækninn við komuna 23. desember og gegn mótmælum stefnda, íslenska ríkisins, verður ekki talið að sú sönnun hafi tekist. Verður því læknirinn, Guðmundur Olgeirsson, ekki talinn hafa sýnt af sér gáleysi við skoðun stefnanda og greiningu á sjúkdómi hennar hinn 23. desember 1999.

Niðurstaða dómsins er því sú að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á saknæmt gáleysi af hálfu læknisins Guðmundar Olgeirssonar og því ber að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda.

D

Það er ljóst af tímasetningum sem fyrir liggja í málinu að nokkurn tíma hefur tekið fyrir stefnanda að fá skoðun hjá stefnda Hauki, þ.e. rúmir tveir mánuðir líða frá því að Guðmundur Olgeirsson skoðaði stefnanda þar til stefndi Haukur skoðaði hana 16. desember 1999. Enda þótt stefnandi hafi ekki komist fyrr að hjá stefnda Hauki, þótt hún hafi reynt, hefur það engar réttarverkanir í för með sér fyrir stefnda Hauk.

Við aðalmeðferð málsins var lögð fram skráning stefnda Hauks á skoðun hans á stefnanda 16. desember og eins á símtali hans við stefnanda 7. janúar 2000. Þessa skráningu fengu matsmennirnir Elvar Úlfarsson og Guðrún Rósa Sigurðardóttir ekki í hendur við matsstörfin. Fyrr í dóminum er sjúkraskráin tekin upp orðrétt. Þótt skráningin kunni að vera knappt orðuð verður ekki annað séð en hún fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til slíkrar skráningar í 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og fleira. Ekki kemur fram í skráningunni að stefnandi hafi kvartað um höfuðverk eða annað sem gat sérstaklega tengst höfði og miðtaugakerfi. Stefndi Haukur skýrði frá því fyrir dóminum að hann myndi ekki eftir því að stefnandi hefði kvartað um höfuðverk og þótti líklegt að það hefði hann skráð ef svo hefði verið. Stefndi lýsti því líka að öllu hefði breytt hefði hann fundið einkenni frá höfði eða handlegg. Með sama hætti og hér var á undan gert, að því er varðar skoðun Guðmundar Olgeirssonar læknis, er óhjákvæmilegt að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um það að hún hafi kvartað undan höfuðverk við stefnda Hauk, eða einhverju sem gat tengst miðtaugakerfinu, við komuna til hans 16. desember eða í samtali þeirra 7. janúar. Gegn mótmælum stefnda verður ekki talið að sú sönnun hafi tekist. Verður því stefndi Haukur ekki talinn hafa sýnt af sér gáleysi í því fólgið að hafa ekki skráð meinta kvörtun stefnanda um höfuðverk og tekið mið af henni við greiningu á sjúkdómi stefnanda.

Stefndi Haukur hafði undir höndum sjúkraskrá stefnanda frá Guðmundi Olgeirssyni þar sem ekki er getið um höfuðverk eins og fyrr segir. Í sjúkraskýrslu Guðmundar Olgeirssonar kemur fram að stefnandi hafði fengið óþægindi í hægri mjöðm seint á meðgöngu eða kringum fæðinguna.

Stefndi Haukur er sérfræðingur í taugasjúkdómum. Til sérfræðinga á þessu sviði verða gerðar strangari kröfur um sjúkdómsgreiningar en þegar sérfræðingur í heimilislækningum á í hlut. Kemur því sérstaklega til skoðunar hvort hann hefði átt að framkvæma eða láta framkvæma ítarlegri skoðun á stefnanda á þessum tíma eða hann hefði engu að síður átt á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hafði undir höndum að greina sjúkdóm stefnanda rétt.           

Þegar litið er til þess sem fram kemur í sjúkraskrá Guðmundar Olgeirssonar, m.a. þess að stefnandi hafði einkenni frá baki á meðgöngutímanum, og þess sem stefndi Haukur skráir um skoðun sína verður ekki annað sagt en að sú tilgáta stefnda að um brjósklos gæti verið að ræða átti vissulega rétt á sér. Ekki er hægt að telja að nein sérstök merki hafi verið um að sjúkleiki stefnanda hefði í för með sér bráða hættu, enda þótt nú megi telja líklegt að stefnandi hafi á þessum tíma haft bæði einkenni frá baki og mjaðmargrind og eins frá höfði. Til þess verður að líta að líkur á að þau einkenni sem stefnandi lýsti sé að rekja til stoðkerfis fremur en heila eru tölfræðilega mun meiri. Við þær aðstæður sem fyrir hendi voru verður að telja eðlilegt að ganga fyrst úr skugga um hvort tilgátan um brjósklos væri rétt. Það gerði stefndi Haukur með því að senda stefnanda í segulómskoðun af baki sem gerð var hálfum mánuði seinna eða 30. desember. Verður ekki annað talið en þetta meðferðarúrræði stefnda hafi gengið hratt fram  miðað við tíma og aðstæður.

 Hinn 7. janúar talaði stefndi við stefnanda í síma en þá lá fyrir niðurstaða úr segulómskoðun. Ekki er upplýst hvenær stefndi Haukur fékk niðurstöðuna í hendur, en líklegt er, miðað við að áramót fóru í hönd rétt eftir að skoðunin fór fram, að hann hafi ekki fengið niðurstöðuna miklu fyrr en 7. janúar. Niðurstaðan sýndi slitbreytingar í neðstu tveimur liðbilum hryggjar samkvæmt því sem stefndi skráir í sjúkraskrána. Áfram skráir stefndi: „Fær áfram krampatilfinningar í nárann og inn e. lífbeini. Á í erfiðleikum að hreyfa fót fyrst á eftir.“ Lýsing á frekari sjúkdómseinkennum eru ekki í sjúkraskránni og ekkert kemur fram um höfuðverk hjá stefnanda. Eftir þetta setur stefndi fram tilgátu til viðbótar tilgátunni um brjósklos, þ.e. að um geti verið að ræða skaða eftir keisaraskurðinn sem stefnandi gekkst undir 7. júní.

Niðurstaða segulómskoðunar benti eindregið til þess að tilgátan um brjósklos væri ekki rétt. Stefndi setti á þessum tíma fram nýja tilgátu án frekari skoðunar á stefnanda, en hún hafði ráðgert með nokkrum fyrirvara að fara til ættingja sinna í Bandaríkjunum  með dætur sínar tvær 14. janúar og áformaði að koma þaðan í byrjun febrúar. Ljóst var því að tíminn til frekari skoðunar var mjög knappur. Stefndi Haukur sagði að endurkoma stefnanda hefði verið ákveðin 8. febrúar í samtali þeirra stefnanda hinn 7. janúar og þá með tilliti til ferðalags stefnanda.

Það er ekki hægt að líta svo á að stefnandi hafi haft einkenni um að bráð hætta væri í vændum, eins og síðar kom í ljós. Þannig verður ekki talið til saknæms gáleysis af hálfu stefnda að hafa ekki stöðvað ferð stefnanda til Bandaríkjanna, en stefnandi sýnist sjálf hafa treyst sér til að fara í þá ferð. Það verður heldur ekki talið til saknæms gáleysis stefnda að framkvæma ekki frekari rannsókn  á þeirri viku sem var til stefnu. Eðlilegt hefði verið að ákveða endurkomu stefnanda fyrr en 8. febrúar en ljóst verður að telja að sá tími hafi verið valinn miðað við heimkomu stefnanda. Samkvæmt því sem að framan er skráð er niðurstaða dómsins sú að stefndi Haukur hafi ekki sýnt af sér saknæmt gáleysi við skoðun og meðferð á stefnanda.

Niðurstaða dómsins er þannig sú að því er báða stefndu varðar að þeir skuli vera sýknir af kröfum stefnanda.

Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kváðu upp Friðgeir Björnsson héraðsdómari, Bjarni Hannesson taugaskurðlæknir og Torfi Magnússon taugasjúkdómalæknir.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Helga Birgissonar hrl., kr. 1.800.000 að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómsorð

                Stefndu, íslenska ríkið og Haukur Hjaltason, skulu sýknir af kröfum stefnanda, Söru D. Carmen Medina De Mcleod.

                Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Helga Birgissonar hrl., kr. 1.800.000 auk virðisaukaskatts.