Hæstiréttur íslands
Mál nr. 623/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 1. október 2015. |
|
Nr. 623/2015. |
A (Brynjólfur Eyvindsson hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár. Málinu var vísað frá Hæstarétti, enda hafði kæra borist héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var liðinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2015, sem barst héraðsdómi 16. sama mánaðar og Hæstarétti 18. þess mánaðar en kærumálsgögn bárust 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í 16. gr. lögræðislaga er að finna ákvæði um málskot úrskurða, sem kveðnir eru upp samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. greinarinnar segir að um málskotið fari samkvæmt almennum reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greini í lögunum.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur var sótt þing af hálfu beggja aðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 31. ágúst 2015. Eins og að framan er rakið barst kæra sóknaraðila héraðsdómi 16. september 2015. Var þá liðinn sá tveggja vikna frestur til að kæra úrskurðinn sem áskilinn er í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991. Verður aðalkrafa varnaraðila því tekin til greina og málinu vísað frá Hæstarétti.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 148.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2015.
Með kröfu, dagsettri 26. ágúst sl. sem barst réttinum sama dag, hefur sóknaraðili, Reykjavíkurborg, fyrir hönd velferðasviðs Reykjavíkurborgar, krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, verði sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár, sbr. a-lið 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Málið var þingfest 28. ágúst og tekið samdægurs til úrskurðar.
Samkvæmt fram lögðum gögnum er varnaraðili [...] ára öryrki, einstæður og barnlaus. Hann býr í félagslegu húsnæði en bjó á vernduðu heimili á árunum 1999-2005. Varnaraðili er mjög félagslega einangraður en á foreldra á lífi og fimm systkini. Af þeim hafa þrjú verð greind með geðrof. Varnaraðili var í sambandi og bjó með konu um skeið. Hún veiktist af krabbameini og flutti af heimili þeirra í janúarmánuði síðastliðnum og lést í júní sl.
Varnaraðili var til meðferðar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans sem barn og unglingur. Á þeim tíma lá hann ítrekað inni á geðdeildum á árunum 1998-2006 og lá síðast á bráðadeild Landspítalans 2006. Sjúkdómsgreining varnaraðila á þessum árum var talin vera geðklofalík persónuröskun og aðsóknargeðklofi.
Í eldri gögnum kemur fram að varnaraðili hafi lítið viljað þiggja hjálp, neitað lyfjagjöf og erfitt hafi verið að ná til hans í samtölum. Hann útskrifaðist af geðdeild Landspítalans árið 2006 og afþakkaði sálfræðiviðtöl. Eftir útskrift átti varnaraðili að vera í eftirliti hjá geðlækni en mun lítið sem ekkert hafa þegið meðferð. Varnaraðili óskaði eftir heimaþjónustu við þrif frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar með umsókn, dags. [...] 2014, en hann hafði þá ekki þegið neina þjónustu frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar í 10 ár. Fulltrúum félagsþjónustunnar var strax ljóst að varnaraðili stríddi við mjög mikla vanheilsu. Framkoma hans við þá var ógnandi og var honum því komið í samband við félagsráðgjafa. Sá vitjaði varnaraðila vikulega og náði góðu sambandi við hann og reyndi að sannfæra hann um að leita sér læknishjálpar en án árangurs. Samfélagsteymi geðsviðs Landspítala bauð varnaraðila meðal annars þjónustu sem hann afþakkaði.
Varnaraðili hringdi í neyðarlínuna 20. júlí sl. og var í kjölfarið fluttur með sjúkrabíl á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann hafði þá kveikt í kolagrilli inni í íbúð sinni í þeim tilgangi að taka eigið líf. Ástæðu þess kvað hann vera þá að hans hlutverk væri að „viðhalda ljósinu“ sem hann gerði á einhvern hátt með aðstoð tölvu sinnar. Þar sem ekki væri lengur neitt ljós í honum skyldi hann deyja. Varnaraðila varð ekki meint af en sóknaraðili telur ljóst að veruleg hætta hafi skapast fyrir hann og aðra íbúa fjölbýlishússins. Ástand varnaraðila var ekki gott og var hann illa hirtur og vannærður. Í ljósi þess hversu alvarlegt ástand varnaraðila var, var ákveðið að nauðungarvista hann í 48 klst. skv. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Í kjölfarið stóð velferðarsvið Reykjavíkurborgar að nauðungarvistun í 21 dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, með beiðni, dags. 6. ágúst 2015, sem var samþykkt samdægurs með bréfi innanríkisráðuneytisins.
Á meðan varnaraðili hefur legið inni hefur hann, að sögn sóknaraðila, verið reiður og nánast verið ógnandi þótt hann hafi ekki beitt ofbeldi eða valdið neinum tjóni. Í viðtölum kemur hann sérkennilega fyrir, hann er nokkuð fastur fyrir og stutt í reiði eða tortryggni.
Að sögn sóknaraðila hefur varnaraðili þegið viðtöl og ýmsan stuðning á þessum tíma, en hefur staðfastlega neitað að taka nokkur lyf. Hann telur lyfin breyta orku sinni og tengir það lögmálum Einsteins. Varnaraðila eru gefin geðrofslyf í forðaformi.
Reykjavíkurborg, fyrir hönd velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, er eins og áður segir sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðila þykja aðstæður allar vera þannig að rétt sé að hann standi að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila.
Sú krafa sóknaraðila að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í tvö ár grundvallast á heimild í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. a-lið 4. gr. sömu laga og byggist á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð.
Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði [...], sérfræðilæknis á deild 33C á Landspítalanum, dags. 12. ágúst 2015, sé varnaraðili haldinn alvarlegum geðsjúkdómi sem hafi veruleg áhrif á almenna heilsu hans og lífsgæði. Hann eigi margra ára sögu um að neita viðeigandi meðferð en sem standi sé hann reiðubúinn að þiggja aðra meðferð en lyf. Nauðsynlegt sé að hann fái lyfjameðferð með geðrofslyfi í von um að hann losni við hættulegar ranghugmyndir og aðsóknarkennd og hljóti endurhæfingu og langtímaeftirlit.
Í vottorði læknisins segi orðrétt:
Eigi almennilegur bati að nást þarf mun lengra ferli. Það er af þessum sökum sem sótt er um sjálfræðissviptingu og mælt með að hún verði ekki styttri en 2 ár.
Það er ánægjulegt að sjá að nú þegar eru komnar ákveðnar vísbendingar um að lyfið geti haft jákvæð áhrif til lengri tíma, A virðist minna var um sig í samskiptum og glaðlegri. Það er mat mitt og annarra lækna sem hafa komið að hans máli að það sé A í hag að fá þetta tækifæri til að ná sem bestri geðheilsu og að það verði ekki fengið öðruvísi en með fullri meðferð, þ.m.t. endurhæfingu, lyfjameðferð og eftirfylgd og að því verði ekki komið við nema með sjálfræðissviptingu.
Samkvæmt framansögðu og með tilliti til lélegrar meðferðarheldni varnaraðila og skerts sjúkdómsinnsæis telji sóknaraðili tveggja ára sjálfræðissviptingu nauðsynlega til þess að vernda líf og heilsu A. Nauðsynlegri læknishjálp og meðferðarúrræðum verði ekki komið við á annan hátt. Krafan byggist á því að hann sé án vafa haldinn geðsjúkdómi og sé því að öllu óbreyttu í hættulegu ástandi. Í læknisvottorðum komi fram að hann hafi litla meðferðarheldni og því sé nauðsynlegt að beita sjálfræðissviptingu í því skyni að beita lyfjameðferð í veikindum hans.
Því sé nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði, í hans eigin þágu, til að tryggja nauðsynlega læknismeðferð. Með vísan til alls þessa verði að telja að skilyrði a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 sé fullnægt.
[...] sérfræðilæknir sem hefur haft varnaraðila til meðferðar á meðan hann hefur verið nauðungarvistaður og ritaði annað þeirra vottorða sem fylgja beiðni sóknaraðila gaf ítarlega símaskýrslu fyrir dómi.
Hún bar að varnaraðili væri nú greindur með geðklofa. Hún bar jafnframt að þegar varnaraðili hafi komið á deildina hafi hann verið reiðubúinn að þiggja aðra meðferð en lyf. Frá því að hann hafi verið nauðungarvistaður hefði hann fengið lyf með forðasprautum. Því miður hefði varnaraðili ekki verið viljugur til þess að taka lyf í töflu en hefði hann gert það hefði lyfið strax náð fullnægjandi þéttni í líkamanum. Þegar lyf væri hins vegar gefið með forðasprautu tæki það um þrjá mánuði að ná nægilegri þéttni í vefjum líkamans. Fyrst eftir þann tíma færi það að hrífa að einhverju gagni og það væri ekki fyrr en lyfið hefði fengið að virka í einn til tvo mánuði sem hægt væri að leggja mat á áhrif þess á geðsjúkdóm hvers sjúklings um sig og hvort það veitti honum næga lækningu og jafnframt væri ekki fyrr en þá unnt að meta hvort önnur lyf gætu veitt honum betri lækningu.
Hún féllst á það að tvö ár væru langur tími og hún hefði hugleitt hvort skemmri tími gæti gert varnaraðila gagn. Varnaraðili hefði ekki þegið neina meðferð frá árinu 2006 og það sýndi afstöðu hans til veikinda sinna og hversu lítið innsæi hann hefði í sjúkdóm sinn. Nauðsynlegt væri að ná geðheilsu varnaraðila fyllilega á réttan kjöl þannig að hann næði fullu sjúkdómsinnsæi. Með því að gefa lyfjameðferðinni og endurhæfingu góðan tíma mætti vonandi fá hann til að breyta sínum lífskúrs þannig að hann gæti orðið fyllilega sjálfbjarga.
Læknirinn bar að varnaraðili hefði verið verulega illa á sig kominn þegar hann hefði lagst inn í sumar og borið merki langvarandi alvarlegs geðsjúkdóms. Hann hefði verið mjög tortrygginn og stutt í reiðiköst. Áður en hann kom sjálfviljugur hefði velferðarsvið reynt mánuðum saman að fá hann til að þiggja meðferð. Hann hefði ekki getað séð um almenna umhirðu og engan veginn getað hugsað um sína líkamlegu heilsu, hvað þá hina andlegu.
Varnaraðili hefði þegar stigið nokkur góð skref með því að hafa aftur samband við fjölskyldu sína sem ekkert hefði verið árum saman. Hann þæði einnig sjálfviljugur aðra meðferð en lyf og væri honum því treyst til þess að vera um helgar og á nóttunni heima hjá sér. Ekki stæði til að hagga því. Krafan um sjálfræðissviptinguna byggðist einungis að mótþróa hans gagnvart lyfjunum. Sá mótþrói grundvallaðist hins vegar á þeim ranghugmyndum sem væru hluti af sjúkdómi hans en hann gæfi flóknar eðlisfræðilegar skýringar á því hvers vegna hann væri ekki reiðubúinn að taka lyf við sjúkdómi sínum.
Til framtíðar sá læknirinn fyrir sér að varnaraðili fengi endurhæfingu sem hefði þegar verið pöntuð fyrir hann. Vonandi yrði hann síðar meir tengdur við búsetukjarna. Jafnframt þyrfti hann reglubundið eftirlit og best væri að hann tengdist samfélagsteymi sem sérhæfði sig í að liðsinna fólki með geðrofssjúkdóma.
Þar sem veikindi varnaraðila væru langvarandi muni taka langan tíma að ná eins miklum árangri og hægt sé að ná. Mikil hætta væri á því, væri sviptingin skemmri, að varnaraðili hætti að taka lyf og félli þá mjög fljótlega í sama farið og næði því aldrei þeim bata sem hann gæti náð væri meðferðinni gefinn nægur tími. Það að hann hefði ekki þegið meðferð af nokkru tagi frá árinu 2006 sýndi afstöðu hans til sjúkdómsins og meðferðar við honum svo og nauðsyn þess að taka nú þétt á hans málum.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kvað það mannréttindi sín að fá að velja milli sjúkdómsmeðferða. Hann tæki nú þegar D-vítamín sem hefði mikil og góð áhrif á geðheilsu hans. Hann vildi fá tækifæri til að reyna þá meðferð í eitt ár. Ef hún skilaði ekki árangri væri hann reiðubúinn að athuga hvort lyfjameðferð læknanna gæti veitt honum bata.
Niðurstaða
Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili glímt við mjög alvarlegan geðsjúkdóm frá því að hann var barn. Hann naut einhverrar meðferðar á meðan hann var barn og unglingur og einnig á fullorðinsárum fram til ársins 2006. Hann bar að á því ári hefði orðið afdrifaríkur atburður í lífi hans sem hefði haft þau áhrif að hann hefði slitið sambandi sínu við fjölskylduna. Næstu ár hafi verið verulega slæm en líðan hans hafi þó farið skánandi einkum eftir að hann eignaðist sambýliskonu. Hún hafi hins vegar látist á þessu ári og hafi það orðið honum gríðarlegt áfall. Hafi það leitt til þess að hann hafi farið inn á deild sjálfviljugur.
Dómurinn telur sannað að svo alvarlegur geðsjúkdómur sem geðklofi verði ekki læknaður með D-vítamíni einu saman. Til þess að ná tökum á honum þurfi að taka lyf sem sé sérstaklega ætlað til að taka á þeim sjúkdómi. Vítamín eru almenn bætiefni og því einungis almennt heilsueflandi en ráða ekki við svo alvarlegan geðsjúkdóm sem varnaraðili er haldinn.
Í máli varnaraðila fyrir dóminum kom fram að hann hefði náð nokkru sjúkdómsinnsæi þar sem hann gerði sér grein fyrir því hversu hættulegt það væri að fara aldrei út úr húsi og hversu brýn félagsleg virkni væri. Hins vegar kom einnig fram að hann gerði sér ekki fyllilega grein fyrir þeim ranghugmyndum sem hann hefur enn. Hann kvaðst hafa verið að reyna að dreifa ljósi og skilningi og fleiru en hann hafi tekið á sig of mikla ábyrgð og þannig hafi gríðarlegt álag á honum, eins og á forstjóra í stórfyrirtæki, valdið því að hann hefði bugast og ekki séð sér ekki annað fært en leggjast inn á deild.
Dómurinn telur af því sem kom fram að varnaraðili verði að taka sértæk geðlyf til þess að honum auðnist að ná tökum á geðsjúkdóminum. Þar sem hann hefur ekki verið viljugur til þess að taka þau er tímabundin sjálfræðissvipting óumflýjanleg til þess að tryggja þessa nauðsynlegu lyfjagjöf. Sjúkrasaga varnaraðila bendir til þess að hann hafi ekki nægilegt innsæi í veikindi sín og ekki skilning á nauðsyn lyfjameðferðarinnar.
Með hliðsjón af þessu telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á svo óyggjandi sé að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 um að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og ófær um að ráða persónulegum högum sínum eins og ástand hans er nú. Til þess að tryggja honum viðeigandi meðferð og nauðsynlega endurhæfingu og eftirfylgd þannig að batalíkur hans verði sem mestar er eins og áður segir nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði.
Einnig þykir í ljós leitt að vægari úrræði komi ekki að gagni og að nauðsynlegri lyfjameðferð verði ekki komið við nema með sjálfræðissviptingu.
Í ljósi sjúkrasögu varnaraðila verður fallist á að hann verði sviptur sjálfræði í tvö ár eins og krafist er enda voru færð rök fyrir því fyrir dóminum að til þess að ná fullum bata af sjúkdómi sínum og fullu innsæi í hann þyrfti varnaraðili að taka lyf að minnsta kosti svo lengi.
Þar sem fallist er á svo langa sjálfræðissviptingu þykir rétt að taka fram að samkvæmt 15. gr. lögræðislaga getur varnaraðili krafist niðurfellingar sjálfræðissviptingarinnar að liðnum sex mánuðum telji hann ástæður hennar ekki lengur fyrir hendi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.