Hæstiréttur íslands

Mál nr. 242/2005


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Aflaheimild
  • Skilorð


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. nóvember 2005.

Nr. 242/2005.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Gísla Hallgrímssyni

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Aflaheimildir. Skilorð.

G var ákærður fyrir fiskveiðibrot með því að hafa, sem skipstjóri á tilteknu skipi, haldið því til botnvörpu- og netaveiða í 19 veiðiferðir frá 3. september 2001 til 27. mars 2002 án lögboðinna aflaheimilda. Talið var að G hefði ekki getað dulist að ekki væru fyrir hendi aflaheimildir, sem líklegt væri að myndu duga fyrir aflanum í umræddum veiðiferðum. Á því bæri hann refsiábyrgð samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 23. gr. sömu laga. Með þessari háttsemi var einnig talið að hann hefði gerst brotlegur við tiltekin ákvæði laga nr.  38/1990 um stjórn fiskveiða og laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Refsing hans var ákveðin skilorðsbundið fangelsi í einn mánuð og 800.000 kr. sekt í ríkissjóð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. maí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Hann krefst þess jafnframt að allur sakarkostnaður og til vara hluti hans verði felldur á ríkissjóð.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Brotin voru stórfelld og verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði skuli sæta fangelsi í einn mánuð og að sú refsing skuli vera skilorðsbundin. Verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð, sem er hæfilega ákveðin 800.000 krónur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

 

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um fangelsisrefsingu ákærða, Gísla Hallgrímssonar.

Ákærði greiði 800.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi fangelsi í 80 daga í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 550.987 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Jónasar Þórs Jónassonar héraðsdómslögmanns, 186.750 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. þ.m., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans, útgefinni 22. desember 2004, á hendur A, [...], B, [...], og Gísla Hallgrímssyni, [...], Túngötu 13, Keflavík „fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að hafa ákærðu A sem stjórnarformaður og B sem framkvæmdastjóri X ehf., [...], sem úrskurðað var gjaldþrota 16. maí 2002 og gerði út m/b Y, [...], og ákærði Gísli sem skipstjóri á skipinu, haldið því til botnvörpu- og netaveiða í atvinnuskyni í 19 veiðiferðir frá Ólafsvík á tímabilinu frá 3. september 2001 til 27. mars 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en í veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 116.437 kg af slægðum þorski, 1.907 kg af slægðum ufsa, 786 kg af slægðri löngu, 241 kg af slægðum skarkola, 137 kg af slægðri þykkvalúru, 118 kg af slægðri keilu og 25 kg af slægðum steinbít umfram aflaheimildir skipsins.

Brot ákærðu teljast varða við 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 225. gr. laga nr. 82/1998, 2. og 4. mgr. 7. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 6. gr. laga nr. 36/1992, 195. gr. laga nr. 82/1998 og 2. og 12. gr. laga nr. 85/2002, og 3. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 17. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. 239. gr. laga nr. 82/1998.“

Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Af hálfu ákærða A er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, en til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing. Að þessu frágengnu gerir ákærði þá dómkröfu að honum verði gerð sektarrefsing án sérstakrar vararefsingar. Í öllum tilvikum er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Dómkröfur ákærða B eru þær sömu. Ákærði Gísla krefst aðallega sýknu, en til vara að honum verði ekki gerð refsing. Að þessu frágengnu krefst ákærði þess að honum verði einungis gerð sektarrefsing.

I.

Svo sem í ákæru greinir taka sakargiftir til þess að m/b Y hafi á tímabilinu 3. september 2001 til 27. mars 2002 verið haldið til veiða í atvinnuskyni án lögboðinna aflaheimilda. Ákærði Gísli var skipstjóri á skipinu á þessu tímabili. Útgerðaraðili þess var X ehf. Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá sem liggja frammi í málinu tók ákærði A við stjórnarformennsku í félaginu á hluthafafundi 17. desember 2001, en hann hafði fram að því átt sæti í stjórninni. Samkvæmt sömu gögnum tók ákærði B við starfi framkvæmdastjóra á þessum sama fundi. Bú X ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 16. maí 2002.

Upphaf máls þessa má rekja til þess að 23. maí 2002 barst ríkislögreglustjóranum kæra Fiskistofu á hendur ákærðu A og Gísla um brot gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Í greinargerð með kærunni er því haldið fram að ákærða Gísla, sem skipstjóra Y, og ákærða A, sem stjórnarformanni útgerðar skipsins, hafi með símskeyti 21. mars 2002 verið tilkynnt að afli skipsins væri kominn umfram aflaheimildir og að skipið yrði svipt veiðileyfi frá og með klukkan 10:00 miðvikudaginn 27. mars 2002 yrðu fullnægjandi aflaheimildir ekki fluttar til skipsins innan þess tíma eða athugasemdir gerðar við aflaupplýsingar Fiskistofu. Þar sem engar athugasemdir hafi verið gerðar og aflaheimildir ekki færðar á skipið hafi svipting veiðileyfis komið til framkvæmda á boðuðum tíma. Frá útsendingu tilkynningar um sviptingu veiðileyfis og þar til sviptingin tók gildi hafi tvívegis verið landað afla úr skipinu, það er 22. og 27. mars, í fyrra skiptið 27.760 kg af þorski, 335 kg af löngu, 25 kg af keilu, 28 kg af skötusel og 214 kg af gullkarfa, og í seinna skiptið 34.743 kg af þorski, 403 kg af löngu, 4 kg af löngu og 178 kg af gullkarfa. Þá kemur fram í greinargerðinni og meðfylgjandi stöðubréfi frá 22. apríl 2002 að 27. mars 2002 hafi skipið verið búið að veiða 116.437 kg af þorski umfram aflaheimildir, 1.894 kg af ufsa, 769 kg af löngu, 118 kg af keilu, 25 kg af steinbít, 240 kg af skarkola og 136 kg af þykkvalúru. Með stöðubréfi Fiskistofu 26. júní 2002 tóku þessar tölur smávægilegum breytingum og til samræmis við það sem nú greinir í ákæru málsins.

Í upphafi beindist rannsókn lögreglu að því að skipinu hafi verið haldið til veiða án aflaheimilda 22. og 27. mars 2002. Var tekin skýrsla af ákærða A 30. september 2002 og af ákærða B 3. október sama árs. Í skýrslu sinni viðurkenndi ákærði A að hafa haldið m/b Y til veiða með neikvæða aflamarksstöðu hina tilgreindu daga. Til hafi staðið að kaupa til skipsins veiðiheimildir fyrir 27. mars 2002, en þá hafi svipting veiðileyfis átt að taka gildi. Kvótaverð á þessum tíma hafi hins vegar verið mjög hátt og vegna slæmrar fjárhagsstöðu félagsins hafi ekki verið til fjármagn til að kaupa kvóta. Að sögn ákærða tóku hann og meðákærði B ákvörðun um að halda skipinu til veiða þrátt fyrir að aflaheimildir hafi ekki verið fyrir hendi. Í skýrslu sinni viðurkenndi ákærði B að skipinu hafi verið haldið til veiða 22. og 27. mars 2002 án þess að hafa til þess aflaheimildir. Meiningin hafi verið sú að leigja til skipsins aflaheimildir „eins og alltaf hafi verið gert“. Hafi vinnureglan verið sú hjá kvótalitlum skipum að leigja til þeirra aflaheimildir daginn fyrir sviptingu veiðileyfis og að það hafi verið ætlunin í þessu tilfelli. Fjárhagsstaða félagsins hafi þegar hér var komið sögu verið orðin það slæm að þetta hafi ekki gengið eftir.

Ekki hafði verið tekin skýrsla af ákærða Gísla þegar lögregla ákvað að taka til rannsóknar hvort skipinu hefði oftar en að framan greinir verið haldið til veiða án aflaheimilda á fiskveiðiárinu 2001/2002. Hafði Hálfdán Daðason lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóranum þá rannsókn með höndum og mun henni hafa lokið í nóvember 2002. Var það niðurstaða rannsóknarinnar að skipinu hafi verið haldið til veiða í að minnsta kosti 19 veiðiferðir á tímabilinu 3. september 2001 til 27. mars 2002 án aflaheimilda. Ekki reyndist unnt að sannreyna þetta með stöðubréfum frá Fiskistofu þar sem stofunin gat ekki á þessum tíma gefið stöðubréf aftur í tímann. Aflaði lögreglufulltrúinn gagna um löndun úr skipinu og færslu aflaheimilda til þess á tímabilinu og reiknaði aflamarksstöðu þess á hverjum tíma  út frá þessum upplýsingum og aftur í tímann út frá stöðubréfi Fiskistofu eftir síðustu veiðiferð skipsins 27. mars 2002. Samkvæmt samantekt lögreglufulltrúans voru veiðiferðir skipsins á tímabilinu alls 26 talsins. Voru samkvæmt þessu fyrir hendi nægar aflaheimildir þegar lagt var upp í 7 veiðiferðir.

Ákærði Gísli gaf skýrslu hjá lögreglu 11. ágúst 2004. Þar gekkst hann við því að hafa verið skipstjóri á skipinu í þeim veiðiferðum sem ákæra tekur til. Þá kvaðst hann ekki rengja þær tölulegu upplýsingar um aflamarksstöðu á hverjum tíma sem þá lágu fyrir og vikið er að hér að framan. Honum hafi ekki verið kunnugt um annað en að skipið hefði haft nægar aflaheimildir haustið 2001. Þá hafi hann ekki haft aðstöðu til að fylgjast með afmarksstöðu skipsins frá degi til dags. Hafi hann í blindi treyst því að skipið hefði nægar aflaheimildir og treyst orðum meðákærða A þar um, en meðákærði hefði aðallega haft með rekstur og útgerð skipsins að gera á þessum tíma. Meðákærði B hefði hins vegar sinnt sölu- og markaðsmálum.

Ákærði B gaf skýrslu hjá lögreglu að nýju 3. september 2004. Þar hélt hann því fram að hann hefði ekkert haft með rekstur X ehf. að gera. Hann hafi í reynd aldrei starfað sem framkvæmdastjóri hjá félaginu enda þótt upplýsingar úr hlutafélagaskrá bentu til annars. Þá hafi hann ekkert komið nálægt fjármálum félagsins og prókúruumboð hans samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá hafi ekki náð til bankareikninga þess. Hann hafi eingöngu sinnt sölu- og markaðsmálum fyrir félagið. Kvótamál hafi þannig aldrei verið á hans könnu og hann hafi ekki hugmynd um hvernig þeim hafi verið háttað.

Í skýrslu sem ákærði A mun hafa gefið 1. október 2004 staðhæfði hann að öll ákvarðanataka varðandi rekstur X ehf. hafi verið í höndum hans og meðákærða B. Samskipti við kvótasala hafi þó að mestum hluta verið í höndum ákærða. Þegar borin var undir hann sú niðurstaða lögreglurannsóknar að skipinu hafi verið haldið til veiða í alls 19 veiðiferðir á tímabilinu 3. september 2001 til 27. mars 2002 án aflaheimilda og hann beðinn um að tjá sig um hana er svohljóðandi svar bókað eftir honum: „Vinnureglan var á þann veg að menn fóru inn í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, „Lóðsinn“, til að kanna með heimildarstöðu skipsins. Ef staðan var í lagi, þá var skipinu haldið til veiða. Til dæmis að þó að landað hafi verið þann 3. september þá hafi sú löndun ekki endilega komið inn í aflaskráningarkerfið fyrr en nokkrum dögum síðar. Við reyndum alltaf að laga aflamarksstöðu skipsins þegar hægt var með því að leigja til skipsins aflaheimildir.“

Ákæra í málinu var svo sem fram er komið gefin út 22. desember 2004 og styðst hún við þau rannsóknargögn sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.              

II.

Í skýrslu sinni fyrir dómi gekkst ákærði A við því að hafa verið starfandi stjórnarformaður í X ehf. á þeim tíma sem ákæra málsins tekur til, það er frá 3. september 2001 til 27. mars 2002. Meðákærði B hafi verið framkvæmdastjóri félagsins á sama tíma. Verður af framburði ákærða ráðið að skráning stjórnarformanns og framkvæmdastjóra samkvæmt hlutafélagaskrá fram til 17. desember 2001 hafi verið til málamynda, en samkvæmt henni áttu eiginkonur ákærðu sæti í stjórn félagsins fram að þessum tíma. Þá kom fram hjá ákærða að ekki hafi verið hrein verkaskipting á milli hans og meðákærða, þeir hafi unnið þetta í sameiningu. Þá kvaðst ákærði aldrei hafa rætt um aflamarksstöðu m/b Y við skipstjóra skipsins, ákærða Gísla. Þeir hefðu hins vegar rætt mikið saman um önnur atriði sem vörðuðu útgerð skipsins, en skipstjórinn hafi ekkert komið nálægt ákvarðanatöku þar um. Aðspurður kvaðst ákærði ekki mótmæla þeim útreikningum ákæruvalds sem það leggur til grundvallar í ákæru um fjölda veiðiferða án aflaheimilda. Hann hafi hins vegar ekki haft forsendur til að reikna þetta út með þeim hætti sem ákæruvaldið geri, enda hafi endanlegar vigtartölur ekki legið fyrir fyrr en nokkrum dögum eftir að afla var landað hverju sinni, en þær geti af tilteknum ástæðum verið allt að 25% lægri en upphaflegar vigtartölur. Nánar lýsti ákærði þessu svo:  „Þegar ég vann við þetta þessi ár, að þá var þetta þannig að þegar maður hélt í veiðiferð, þá gastu farið inn á svokallaðan „Lóðs“ hjá Fiskistofu og athugað aflamarkstöðu skipsins og þar gat hún verið jákvæð. Og þá voru ekki komnar inn kannski síðustu landanir og endanlegar úrtökuvigtanir sem bárust frá fiskmarkaði og svo út úr húsinu og þar af leiðandi gat hann verið jákvæður samkvæmt „Lóðsinum“ en svo gat hann verið neikvæður þegar það var búið að endurvigta, ef þú hefðir beðið í þrjá daga, þá gat hann verið neikvæður eftir þá daga í einhverjum tegundum, ekki þar af leiðandi öllum, sumpart var hann jákvæður og sumpart var hann neikvæður. Þetta gekk alltaf svona fyrir sig.  Menn keyptu kvótann eftir á. Það fór á rautt í tölvukerfinu hjá Fiskistofu „Lóðsinum“ þá fór á rautt eins og við köllum það, þá fór kannski einhver tegund á rautt og þá var keyptur kvóti, leigður kvóti. [...] [Það] gátu verið misjafnar endanlegu vigtatölurnar, eftir því hvað ísprósentan var mikil og eftir því hvernig aflaskiptingin var því að þetta var heildarvigtað.“ Þá kom fram hjá ákærða að ekki hafi verið haldið utan um aflamarksstöðu skipsins með öðrum hætti en að framan greinir.

Í skýrslu sinni fyrir dómi hélt ákærði B því fram að hann hafi ekki verið starfandi framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tíma sem ákæra málsins tekur til. Skráning í hlutafélagaskrá sem gefi annað til kynna hafi eingöngu verið til málamynda. Kvaðst ákærði hafi komið að rekstri félagsins með þeim hætti að hann hafi séð um fisksölu fyrir það. Þeim starfa hafi hann alfarið sinnt frá heimili sínu í Njarðvík. Þá kvaðst ákærði ekkert hafa skipt sér af aflamarksstöðu Y. Þau mál hafi alfarið verið í höndum meðákærða A og ákærði hafi þar hvergi komið nærri. 

Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði ákærði Gísli svo frá að hann hafi aldrei leitað eftir upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum útgerðarfélags m/b Y, meðákærðu A og B, um aflamarksstöðu skipsins. Hann hafi ekki heldur leitað eftir upplýsingum um þetta með öðrum hætti. Hann hafi verið meðvitaður um að skipið væri gert út á leigukvóta en ávallt treyst því að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi þá er lagt var upp í veiðiferð hverju sinni. Kvaðst ákærði ekki hafi vitað betur en að aflamarksstaða skipsins væri í lagi og ekki haft ástæðu til að ætla annað. Að sögn ákærða vissi hann ekki betur en að meðákærðu stæðu í þessum rekstri saman. Ákærði B hafi þó aðallega séð um sölu- og markaðsmál, en ákærði A um daglegan rekstur. Kvaðst ákærði aðallega haft samskipti við ákærða A vegna atriði sem vörðuðu útgerð skipsins, svo sem viðhald þess og olíukaup. Aðspurður neitaði ákærði að hafa móttekið símskeyti frá Fiskistofu í mars 2002 um að til stæði að svipta skipið veiðileyfi sökum þess að það hefði veitt umfram aflaheimildir.

Hálfdán Daðason lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir útreikningi á aflamarksstöðu m/b Y við upphaf einstakra veiðiferða á tímabilinu 3. september 2001 til 27. mars 2002 og gögnum sem hann styðst við.

III.

Varnir ákærðu í málinu lúta í engu að þeirri verknaðarlýsingu í ákæru að heildarafli m/b Y á tímabilinu 3. september 2001 til 27. mars 2002 hafi verið umfram aflaheimildir skipsins í þeim mæli sem nánar greinir þar. Hafa varnir þeirra aðallega snúið að fjölda þeirra veiðiferða sem ákæruvaldið leggur til grundvallar að hafi verið lagt upp í á tímabilinu án þess að aflaheimildir væru fyrir hendi. Þá byggir ákærði B ennfremur á því að refsiábyrgð verði ekki á hann felld þar sem hann hafi ekkert haft með útgerð skipsins að gera. Loks heldur ákærði Gísli því fram að verði hann á annað borð fundinn sekur um refsiverða háttsemi sé sök hans fyrnd.

Fyrir liggur að m/b Y var ekki úthlutað aflamarki í þorski fyrir fiskveiðiárið 2001/2002, sem hófst 1. september 2001, og einungis óverulegu aflamarki í löngu, keilu og skötusel. Ómótmælt er að skipinu hafi þrátt fyrir þetta og án þess að frekari aflaheimildir hefðu þá verið færðar til þess verið haldið til veiða 3. september 2001. Samkvæmt gögnum málsins skilaði þessi veiðiferð rúmlega 16.000 kg af slægðum þorski. Þessi sömu gögn leiða meðal annars eftirfarandi í ljós: Hinn 11. september 2001 voru fyrst færðar á skipið aflaheimildir í þorski. Hinn 2. október sama árs var aflamarksstaða skipsins í þessari tegund aftur orðin neikvæð og þá um 16.595 kg. Hafði ekki orðið breyting þar á þegar skipinu var haldið til veiða 9. sama mánaðar. Eftir þetta var aflamarksstaða skipsins í þorski neikvæð við upphaf veiðiferða 29. október og 29. desember 2001 og 12., 15., 17., 18., 22., 24., 26., 29. og 31. janúar, 5. febrúar og 10., 22. og 27. mars 2002, minnst um 5.129 kg. Þá var sú staða uppi við upphaf veiðiferðar 9. nóvember 2001 að þegar tillit er tekið til aflaheimilda sem þann dag voru færðar á skipið var aflamarksstaða þess í þorski jákvæð um 35 kg og með sama hætti um 431 kg við upphaf veiðiferðar 21. sama mánaðar, en þessar veiðiferðir eru ásamt framangreindum 17 veiðiferðum innifaldar í þeim 19 veiðiferðum sem ákæra málsins tekur til.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar er óheimilt að hefja veiðiferð á skipi sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. Ákærðu hafa ekki gert athugasemdir við framangreindar niðurstöður og þau gögn sem liggja þeim til grundvallar, en telja sig ekki hafa haft forsendur til að geta gert sér grein fyrir því að aflamarksstaða skipsins í þorski og öðrum tegundum væri ekki með þeim hætti, sem tilvitnað ákvæði áskilur, þá er lagt var upp í veiðiferðir á skipinu hina tilgreindu daga. Þegar niðurstöður þessar eru virtar eru að mati dómsins engin efni til að fallast á þessa málsvörn. Telur dómurinn þannig ekki varhugavert að leggja niðurstöðurnar til grundvallar við sakarmat og þar með að þeir einstaklingar, sem báru ábyrgð á því að skipið hefði nægar aflaheimildir hverju sinni, hefðu með þeirri aðgæslu, sem gera verður kröfu til að þeir viðhefðu, átt að gera sér grein fyrir því að skipið hefði ekki yfir að ráða aflaheimildum sem líklega myndu duga fyrir afla í þeim veiðiferðum sem ákæra tekur til. Með því að halda skipinu allt að einu til veiða við þessar aðstæður var brotið gegn fortakslausu banni hins tilvitnaða lagaákvæðis. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 23. september 2004 í máli nr. 8/2004 getur ákvæði 14. gr. laga nr. 57/1996 engu breytt um þessa niðurstöðu.

Ákærði A bar sem stjórnarformaður útgerðarfélags skipsins ótvírætt ábyrgð á því að veiðiferð yrði ekki hafin nema skipið hefði aflaheimildir sem telja mætti líklegt að dygðu fyrir afla í ferðinni. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem rakið er hér að framan er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Eru brot hans réttilega heimfærð þar til refsiákvæða.

Samkvæmt gögnum málsins tók ákærði B við starfi framkvæmdastjóra hjá X ehf. 17. desember 2001. Hann fór samkvæmt þessum sömu gögnum jafnframt með prókúruumboð fyrir félagið frá sama tíma. Ákærði A hefur borið að rekstur félagsins hafi verið í höndum þeirra beggja þann tíma sem ákæra málsins tekur til. Þá skýrði hann svo frá í skýrslu sinni hjá lögreglu 30. september 2002, aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um að halda m/b X til veiða án þess að skipið hefði til þess aflaheimildir, að hann og ákærði B hefðu gert það sameiginlega. Ákærði B skýrði svo frá hjá lögreglu 3. október 2002 að hann og ákærði A hefðu tekið allar fjárhagslegar ákvarðanir varðandi X ehf. og séð sameiginlega um daglegan rekstur þess. Þá gaf ákærði það á engan hátt til kynna í þessari skýrslu sinni að hann hefði ekki komið að útgerð framangreinds skips félagsins og bæri þar af leiðandi ekki ábyrgð á að því hefði verið haldið til veiða án aflaheimilda. Kvað fyrst við annan tón hvað þetta varðar í skýrslu ákærða hjá lögreglu 3. september 2004. Að framangreindu virtu er að mati dómsins ekki varhugavert að líta svo á að ákærði hafi með sama hætti og ákærði A borið ábyrgð á því að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi vegna þess fiskafla sem veiddur var í þeim veiðiferðum skipsins sem ákæra tekur til. Er ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði Gísli hefur borið að honum hafi frá upphafi verið það ljóst að það skipið sem um ræðir í málinu væri gert út á leigukvóta. Þá kvaðst hann hafa treyst því að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi og ekkert aðhafst til að ganga sérstaklega úr skugga um það að sú væri reyndin. Með þessu brást hann þeim skyldum sem ótvírætt eru lagðar á skipstjórnarmenn samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996. Bar honum þannig sem skipstjóra m/b Y að fylgjast með því að skipið hefði fullnægjandi veiðiheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð í þeim veiðiferðum sem ákært er fyrir. Hefði honum að réttu lagi og með vísan til þeirra almennu atriða sem rakin eru hér að framan ekki getað dulist að ekki væru fyrir hendi aflaheimildir sem líklegt væri að myndu duga fyrir afla í þeim. Samkvæmt þessu er fallist á það með ákæruvaldinu að ákærði beri á því refsiábyrgð samkvæmt tilvitnuðu ákvæði laga nr. 57/1996, sbr. 23. gr. þeirra, að halda skipinu til veiða í þær 19 veiðiferðir sem ákæra tekur til án þess að ganga úr skugga um að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi, sbr. til hliðsjónar framangreindan dóm Hæstaréttar og dóm réttarins í máli nr. 12/2000, sem birtur er í dómsafni réttarins það ár á bls. 1534. Með þessari háttsemi sinni braut ákærði einnig gegn þeim ákvæðum laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem vísað er til í ákæru.

Fram er komið að lagt var upp í þrjár síðustu veiðiferðir skipsins frá Þorlákshöfn, en ákæra í málinu tekur til tveggja þessara veiðiferða. Svo sem áður greinir er í ákæru miðað við að skipinu hafi alfarið verið haldið til veiða frá Ólafsvík á því tímabili sem um ræðir í málinu. Þessi smávægilegi annmarki kemur hins vegar ekki í veg fyrir að áfall verði dæmt, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

IV.

Ákærðu A og B voru með dómi Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2003 sakfelldir fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996, lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997, öllum með áorðnum breytingu. Nánar tiltekið voru ákærðu í fyrsta lagi sakfelldir fyrir að hafa, ákærði B sem framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Z ehf., sem gerði út fiskiskipið C, og ákærði A sem stjórnarformaður félagsins, haldið skipinu án lögboðinna aflaheimilda til draganótaveiða í atvinnuskyni í nánar tilgreindar veiðiferðir á tímabilinu 10. mars til 5. apríl 2001. Í öðru lagi voru ákærðu sakfelldir fyrir að hafa haldið m/b D, sem sama útgerðarfélag gerði út, án lögboðinna aflaheimilda til netaveiða í atvinnuskyni í 89 veiðiferðir á tímabilinu 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002. Ákærði A, sem eins og fram er komið var stjórnarformaður útgerðarfélags skipsins, var skipstjóri þess í þessum veiðiferðum. Þá var ákærði A í þriðja lagi sakfelldur fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður í útgerðarfélaginu Z ehf., sem átti og gerði út m/b E, haldið skipinu til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 7 veiðiferðir án lögboðinna aflaheimilda á tímabilinu 1. desember 2001 til 3. janúar 2002. Í fjórða lagi var ákærði A sakfelldur fyrir að hafa sem skipstjóri á m/b F haldið skipinu til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 3 veiðiferðir án lögboðinna aflaheimilda dagana 5., 6. og 7. nóvember 2002. Í fimmta lagi voru ákærðu báðir sakfelldir fyrir umboðssvik. Þá voru þeir í sjötta lagi sakfelldir fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Nam samanlagt undanskot gjalda rúmlega 17.000.000 króna. Fyrir þessi brot var ákærði A dæmdur til að sæta óskilorðsbundnu fangelsi í 6 mánuði og til að greiða 20.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Hann undi dómi. Ákærði B hlaut þriggja mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm og var að auki dæmdur til að greiða 18.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð. Hann áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, sem með dómi sínum 23. september 2004 staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða. Ákærðu hafa ekki sætt öðrum refsingum.

Refsingu ákærðu A og B fyrir þau brot sem þeir hafa nú verið sakfelldir fyrir bera að ákveða sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð. Þykja ekki vera efni til að gera þeim sektarrefsingu að auki.

Ákæra í málinu var svo sem fram er komið gefin út 22. desember 2004, það er tveimur árum og sjö mánuðum eftir að kæra Fiskistofu barst ríkislögreglustjóra. Miðað við umfang rannsóknar málsins varð alls óviðunandi dráttur á framkvæmd hennar, sem hefur með engu verið réttlættur. Átti þannig að mati dómsins ekkert að vera því til fyrirstöðu að hin fyrri saksókn á hendur ákærðu A og B tæki einnig til þeirra sakargifta á hendur þeim sem hér eru til úrlausnar, en ákæra í því máli sem framangreindur héraðsdómur gekk í var gefin út 26. júní 2003. Gat í því sambandi engu skipt þótt ekki hafi verið búið að taka skýrslu af ákærða Gísla þegar hér var komið sögu sökum dvalar hans í útlöndum, enda gat það eitt ekki staðið því í vegi að gætt yrði réttarreglna um málshraða gagnvart meðákærðu, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Að þessu virtu verður refsivist ákærðu bundin skilorði og svo sem nánar greinir í dómsorði.

Ákærði Gísli gekkst 2. ágúst 2001 undir greiðslu sektar fyrir brot gegn 4. gr. og g. lið 5. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Öðrum refsingum hefur hann ekki sætt. Ákærði telst nú hafa unnið sér til fangelsisrefsingar, sbr. seinni málsl. 23. gr. laga nr. 57/1996, seinni málsl. 25. gr. laga nr. 38/1990 og seinni málsl. 15. gr. gr. laga nr. 79/1997. Kemur því ekki til álita að sök hans sé fyrnd, sbr. 81. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð, en rétt er að fulllnustu þeirrar refsingar verði frestað og hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Auk þess verður ákærða gert að greiða 600.000 krónur í sekt og komi 60 daga fangelsi í sektar stað verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.  

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða A, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða B, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur til hvors þeirra um sig. Þegar litið er til þess hvernig staðið var að saksókn á hendur þessum ákærðu samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af 167. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður þeim einvörðungu gert að greiða helming málsvarnarlauna skipaðra verjanda sinna, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.

Dæma ber ákærða Gísla til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Þórs Jónassonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt. 

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

Ákærði, A, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, B,  sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Gísli Hallgrímsson, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal ákærði ennfremur greiða 600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 60 daga.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða A, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða B, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, greiðist að hálfu af ákærðu og að hálfu úr ríkissjóði.

Ákærði Gísli greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Þórs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.