Hæstiréttur íslands
Mál nr. 565/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 10. janúar 2003. |
|
Nr. 565/2002. |
Guðmundur Ingi Kristinsson(sjálfur) gegn íslenska ríkinu dómsmálaráðuneytinu og örorkunefnd (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Málatilbúnaður G í stefnu þótti brjóta svo alvarlega í bága við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað að ekki þótti annað fært en að vísa málinu frá dómi í heild.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Til vara krefst sóknaraðili þess að „sá hluti er stefndu og lögmaður þeirra fullyrða í frávísunarkröfunni um sök stefnda gagnvart örorkunefnd fari fyrir héraðsdóm“, svo og að ómerkt verði nánar tilgreind ummæli í greinargerð varnaraðila í héraði. Til þrautavara krefst hann viðurkenningar „á rétti stefnanda um að sá hluti dómskröfu stefnanda, um að upplýst verði fyrir dómi ef hægt er, hver/hverjir og hvernig var staðið að ólöglegri töku og afritun örorkunefndar (eða aðrir gerðu það fyrir þá) á sjúkraskrám um stefnanda frá 1981 og 1993. Einnig viðurkenningu á þeim réttindum að stefnandi átti sama rétt (samkvæmt stjórnarskránni um bann við mismunun) og aðrir til að strika yfir ólöglega klausu örorkunefndarinnar um óheftan aðgang þeirra að sjúkragögnum hans.“
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilanum íslenska ríkinu kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðmundur Ingi Kristinsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2002.
Mál þetta var höfðað 10. maí 2002, þingfest 14. sama mánaðar og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu 7. nóvember 2002.
Stefnandi er Guðmundur Ingi Kristinsson, kt. 140755-7299, Hringbraut 41, Hafnarfirði.
Stefndu eru íslenska ríkið, dómsmálaráðuneytið og örorkunefnd. Fyrir hönd íslenska ríkisins er fjármálaráðherra stefnt til fyrirsvars en dómsmálaráðherra er stefnt til fyrirsvars fyrir dómsmálaráðuneytið. Til fyrirsvars fyrir örorkunefnd er stefnt þeim Ragnari H. Hall lögmanni, formanni nefndarinnar, nefndarmönnunum Magnúsi Ólafssyni lækni og Brynjólfi Mogensen lækni og Kristjáni Sigurjónssyni lækni vegna starfa fyrir nefndina.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir til þess að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 9.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, frá 28. júlí 1998 til 14. maí 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr., sbr. 10 gr., laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá eru þær dómkröfur einnig gerðar að fram komi fyrir dómi hver/hverjir og þá hvernig örorkunefndin komst yfir afrit sjúkraskrár og röntgenrannsókn stefnanda frá 1981 og bráða/slysaskrár frá 1993. Einnig hver/hverjir hafa strikað yfir ólöglega klausu örorkunefndar um óheftan aðgang að sjúkraskrám tjónþola hjá nefndinni og hvers vegna þeir fá aðra meðferð en stefnandi. Þess er krafist að stefndu verði dæmdur til að greiða stefnanda hæfilegan málskostnað.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar. Til þrautavara er þess krafist að stefnukrafa verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Í frávísunarþætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað en ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Málatilbúnaður stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum á þá leið að hann hafi lent í umferðaslysi 4. nóvember 1993 og orðið fyrir alvarlegu líkamstjóni vegna þess. Hann hafi eftir það farið í tvær stórar spengingar á fjórum hálshryggjarliðum og þremur mjóbakshryggjarliðum.
Tryggingafélagið VÍS hafi hafnað mati Atla Þórs Ólasonar bæklunarlæknis frá 17. september 1996 en hann hafi metið miska stefnanda 50% og fjárhagslega örorku hans 60%. VÍS hafi óskað eftir áliti örorkunefndar 19. nóvember 1996 og ekki notað eyðublað er örorkunefndin gefur sjálf út. Niðurstaða örorkunefndar 12. maí 1997 hafi verið að miski stefnanda vegna slyssins væri 30% en örorka 30% og að afleiðingar slyssins hefðu í för með sér verulega skerðingu á getu tjónþola til öflunar vinnutekna í framtíðinni. Nefndin hafi hins vegar talið að stefnandi ætti að geta unnið ýmis léttari störf í framtíðinni, enda fylgdi þeim ekki líkamleg áreynsla eða álag. Gengið hafi verið til uppgjörs við VÍS með fyrirvara um hærri miska og fjárhagslega örorku.
Stefnandi heldur því fram að í bókun örorkunefndar frá 12. maí 1997 vitni örorkunefndarmenn í röntgenrannsóknir sem þeir hafi ekki haft hjá sér. Í upptalningu á gögnum sem nefndin hafi lagt til grundvallar sé hins vegar ekki getið um röntgenrannsóknir.
Stefnandi kveðst hafa gert kröfu um endurupptöku fyrir örorkunefnd 30. júní 1997 meðal annars vegna þess að nefndin hafi vitnað til röntgenrannsóknar án þess að hafa nokkra röntgenrannsókn hjá sér. Með endurupptökukröfunni hafi fylgt vottorð Kristjáns Sigurjónssonar röntgenlækni frá 29. nóvember 1993 en þar hafi verið sagt að sjúklegar breytingar greindust ekki í hálsliðum. Örorkunefndin hafi óskað eftir áliti hjá Ólafi Eyjólfssyni röntgenlækni 3. júlí 1997 og í niðurstöðu hans frá 27. júlí 1997 segi að engar slitbreytingar hafi verið greinanlegar í hálsliðum í nóvember 1993. Endurupptökukröfunni hafi verið hafnað þrátt fyrir að nefndin viðurkenndi að hafa farið með rangt mál og vitnað í gögn er hún hafi ekki haft.
Aftari spenging hafi verið gerð á mjóbaki stefnanda 30. október 1997 og í framhaldinu óskað eftir endurupptöku hjá örorkunefnd vegna aðgerðarinnar og fleiri atriða. Örorkunefndin hafi hafnað henni.
Magnús Ólason læknir hafi 1. júlí 1998 f.h. örorkunefndar óskað eftir áliti Kristjáns Sigurjónssonar röntgenlæknis á röntgengögnum sem fylgt hafi seinni endurupptökukröfu lögmans stefnanda frá 25. maí 1998. Fyrir liggi í gögnum málsins hjá örorkunefndinni rannsókn sem Kristján Sigurjónsson hafi gert 29. nóvember 1993 Í svari Kristjáns frá 17. júlí 1998 til örorkunefndarinnar segi hann um eigin rannsókn á stefnanda að við endurskoðun á rannsókn frá Borgarspítala á hálsliðum frá 29. nóvember 1993 megi sjá smánabba á aðlægum afturbrúnum C5-C6.
Stefnandi rekur nokkur atriði í höfnun örorkunefndar 28. júlí 1998 á endurupptökubeiðni og hvernig vitnað hafi verið í sjúkraskrá hans frá 1981. Þá greinir stefnandi frá því að í bréfi örorkunefndarlæknanna Brynjólfs og Magnúsar til aðstoðarlandlæknis 25. ágúst 1998 sé greint frá því að fengið hafi verið afrit af sjúkraskrá hans frá Neskoti, skjalasafni Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í bréfi Jóhannesar M. Gunnarssonar, lækningaforstjóra SHR til aðstoðarlandlæknis frá 22. október 1998 komi fram að örorkunefndin sé ekki skráð í sjúkraskrá stefnanda sem aðili sem fengið hafi afrit af sjúkraskrám um stefnanda eins og lög og reglur geri ráð fyrir.
Þá rekur stefnandi að í höfnun örorkunefndar frá 28. júlí 1998 segi að sjúkraskrá tjónþola við slysadeild Borgarspítala hafi ekki legið til grundvallar álitsgerð örorkunefndar. Nefndin hafi kannað bráðasjúkraskrá og göngudeildarnótur stefnanda við deildina. Þá segi örorkunefndarmenn í bréfi til umboðsmanns Alþingis að í bókun nefndarinnar 28. júlí 1998 sé þess getið að nefndin hafi við meðferð beiðninnar kannað bráðasjúkraskrá og göngudeildarnótur um tjónþola á slysadeild Borgarspítala.
Stefnandi kveður nefndina hafa aflað umæddra gagna af sjálfdáðum. Hvorki stefnanda né lögmanni hans hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um þau gögn áður en nefndin hafi afgreitt endurupptökukröfuna.
Stefnandi vitnar til þess að í áliti umboðsmanns Alþingis frá 7. júlí 2000 í máli nr. 2614/1998 segi orðrétt: "Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú að Brynjólfur Mogensen læknir, hafi verið vanhæfur til setu í örorkunefnd þegar hún fjallaði um endurupptökubeiðni Jóns Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, f. h. Guðmundar Inga Kristinssonar, dags. 25. maí 1998, en umfjöllun nefndarinnar um hana lauk með því að nefndin synjaði beiðninni 28 júlí 1998."
Stefnandi kveðst hafa óskað eftir dómskvaðningu matsmanna við Héraðsdóm Reykjavíkur 9. ágúst 1999. Niðurstaða þeirra hafi verið að varanlegur miski matsbeiðanda væri 45% og varanleg örorka hans 75%. Þetta mat hafi verið mun nær fyrsta matinu og því rétt.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína um miskabætur vegna meintra laga- og reglugerðabrota örorkunefndar þannig.
|
· Reglugerðabrot örorkunefndar vegna ólöglegs eyðublaðs VÍS er nefndin hafnaði ekki eins og henni bar og vitnað í röntgengögn í niðurstöðu hennar er hún ekki hefði hjá sér í máli stefnanda. |
500.000 kr. |
|
· Brot á 11. gr. skaðbótalaga er örorkunefndin hafnaði á stefnanda vegna mjóbaksaðgerðarinnar 1997. |
500.000 kr. |
|
· Kristján Sigurjónsson læknir vanhæfur beggja vegna borðs í örorkunefnd að endurskoða eigið vottorð um stefnanda. |
1.000.000 kr. |
|
· Ólögleg taka/afritun Kristjáns Sigurjónssonar læknis á röntgenumsögn um stefnanda frá 1981
|
l .000.000 kr. |
|
· Andmælaréttur stjórnsýslulaga brotinn vegna notkunar örorku-nefndar á ólöglega tek./afritaðri röntgenumsögn Kristjáns um stefnanda frá 1981. |
500.000 kr. |
|
· Lömunarfölsun örorkunefndar í "endurupptökunarhöfnuninni". |
500.000 kr. |
|
· Ólögleg taka/afritun örorkunefndar á sjúkraskrá stefnanda frá 1981 er gerð var 1998 í Neskoti eða skurðdeild SHR. |
1.000.000 kr. |
|
· Ólögleg mismunun örorkunefndar gagnvart stefnanda er aðrir en hann fá að strika yfir klausu þeirra um óheftan aðgang að sjúkraskrám. |
500.000 kr. |
|
· Ólögleg taka/afritun örorkunefndar á bráðasjúkraskrá og göngu-deildarnótum á stefnanda frá 1993 er gerð var 1998 á slysadeild SHR. |
1.000.000 kr. |
|
· Andmælaréttur stjórnsýslulaga brotinn vegna notkunar örorku-nefndar á ólöglega tek./afritaðri sjúkraskrá um stefnanda frá 1981 |
500.000 kr. |
|
· Ólöglegar aðgerðir Brynjólfs Mogensen með gögn frá slysadeild SHR er hann var þar yfirmaður og voru tekin ólöglega og notuð af nefndinni. |
500.000 kr. |
|
· Andmælaréttur stjórnsýslulaga brotinn vegna notkunar örorku-nefndar á ólöglega tek./afritaðri sjúkraskrá um stefnanda frá 1993 |
500.000 kr. |
|
· Andmælaréttur stjórnsýslulaga brotin vegna notkunar örorku-nefndar á ólöglega tek./afritaðri göngudeildarnótum um stefnanda frá 1993. |
500.000 kr. |
|
· Brynjólfur Mogensen vanhæfur í nefndinni. |
500.000 kr. |
|
· Andmælaréttur stjórnsýslulaga brotinn vegna notkunar örorku-nefndar á ólöglegum og vanhæfum Kristjáni lækni í nefndinni. |
500.000 kr. |
|
· Samtals. |
9.500.000 kr. |
Stefnandi blandar inn í lýsingu á málsatvikum ályktunum sínum og fullyrðingum um framangreind meint réttarbrot örorkunefndarmanna og Kristjáns Sigurjónssonar læknis.
Málsástæður stefnanda eru að öðru leyti þær að hann telur að örorkunefnd, eða aðrir fyrir þá, hafi með ólöglegum hætti á árinu 1998 tekið og afritað sjúkraskrá og röntgenrannsókn um stefnanda frá 1981. Á sama tíma hafi þeir einnig tekið og afritað bráðasjúkraskrá og göngudeildarnótur um stefnanda frá 1993. Þetta hafi þeir gert án skriflegs samþykkis stefnanda. Þeir hafi ekki óskað skriflega eftir sjúkragögnunum til viðkomandi stofnana og ekki kvittað fyrir þeim eins og lög geri ráð fyrir. Stefnanda hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en nefndin hafi notað ólöglegu gögnin til að hafna endurupptöku stefnanda hjá nefndinni.
Þá hafi örorkunefndarmennirnir rangfært upplýsingar úr ólöglega tekinni sjúkraskrá um stefnanda frá 1981 og sagt í bókun sinni í júlí 1998 að í henni stæði að stefnandi hefði lamast en síðar viðurkennt fyrir landlækni að þeir hefðu vitað vel að hann hefði ekki verið lamaður. Stefnandi telur í þessu felast grófa fölsun og lögbrot.
Þá hafi örorkunefnd 1998 óskað eftir skriflegu áliti röntgenlæknis hjá SHR en sá sami læknir hafi gert greiningu á röntgenmyndum af stefnanda fyrir slysadeild 1993 vegna þess sama slyss og nefndin hafi verið að meta. Brynjólfur Mogensen læknir og örorkunefndarmaður hafi verið yfirlæknir slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur 1993. Röntgenlæknir stefnanda, Kristján Sigurjónsson, er hafði vottað röntgenmyndir fyrir hann, hafi farið í örorkunefnd og vottað allt annað fyrir nefndina á sínum eigin myndum, en hann hafði gert fyrir stefnanda 1993. Þetta sé að vera beggja vegna borðs og kolólöglegt.
Samkvæmt 11. gr. læknalaga beri lækni að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra læknayfirlýsinga. Skuli hann votta það eitt er hann viti sönnur á. Stefnandi veltir því fyrir sér hvor framangreindra röntgenúrskurða Kristjáns Sigurjónssonar sé sannur, sá er hann hafi gert fyrir stefnanda eða sá er hann hafi gert fyrir nefndina. Læknisvottorð séu gögn sem geti haft afgerandi þýðingu fyrir úrskurð opinberra aðila, samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 586/1991. Til að gera lögbrot sitt verra hafi þessi vanhæfi röntgenlæknir tekið afrit af umsögn um röntgenrannsókn á stefnanda hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur frá 1981 og sent nefndinni. Örorkunefndin hafi síðan í bókun sinni notað upplýsingar hans ólöglega til að valda stefnanda miska.
Þá telur stefnandi að örorkunefnd hafi brotið gegn 11. gr skaðbótalaga með því að hafna endurupptöku á álitsgerð um hann eftir stóraðgerð á mjóbakshrygg. Nefndin hafi brotið gegn jafnræðisreglu þar sem sumum, sem séu með mál fyrir nefndinni, sé heimilað að koma í veg fyrir óheftan aðgang nefndarinnar að sjúkraskrám um þá en stefnanda ekki. Þá hafi örorkunefndin ekki tekið á vanhæfi nefndarmanna við málsmeðferð á máli stefnanda ásamt fleiri brotum er komi fram í málavöxtum.
Stefnandi telur ekki fara á milli mála að örorkunefndin hafi vitað að hún væri vanhæf með Brynjólf og Kristján inni í nefndinni og að hún hafi vísvitandi og viljandi stolið sjúkraskrám og öðrum gögnum um stefnanda í þeim eina tilgangi að valda honum fjárhagstjóni og miska. Að lenda í umferðarslysi og slasast illa og fara í tvær stóraðgerðir á háls og mjóhrygg og fleira sé nóg til að takast á við, en að lenda svo í höndum á örorkunefnd sem farið hafi hamförum til þess að valda stefnanda miska sé fáránlegt og íslenskri stjórnsýslu til skammar.
Miskabótakröfu sinni til stuðnings rekur stefnandi fréttir af nokkrum dómsmálum þar sem miskabætur voru dæmdar
Stefnandi kveðst hafa verið stórslasaður og þess vegna mjög illa búinn undir að takast á við öll þau lögbrot og áföll er örorkunefndin hafi verið völd að. Hann rekur síðan álag á eiginkonu sína vegna slyssins, sjúkrahúslegu hennar á meðgöngu og veikindi sem stafað hafi af því að hugsa um veikan eiginmann og veikt barn, ásamt þremur eldri drengjum. Vinnubrögð örorkunefndar hafi valdið stefnanda, eiginkonu hans og börnum áfallastreituröskun og því séu 9.500.000 króna miskakröfur hans mjög hógværar og litlar.
Stefnandi vísar til fjölmargra laga og reglna máli sínu til stuðnings, meðal annars til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, reglugerðar um starfsháttu örorkunefndar, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 svo og 65. og 71. gr. stjórnarskrárinnar.
Málsástæður aðila varðandi frávísunarkröfu
Stefndu telja málið stórkostlega vanreifað af hálfu stefnanda. Málsástæður hans séu óljósar og samhengi skorti í málatilbúnaði. Lýsing í stefnu sé ekki gagnorð eins og krafist sé í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 heldur mjög ruglingsleg og fullnægi engan veginn lagaskilyrðum um skýrleika. Erfitt sé því að átta sig á sakarefninu. Stefna er í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga.
Dómkröfur stefnanda aðrar en miskabótakrafa og málskostnaðarkrafa geti ekki orðið grundvöllur dómsorðs heldur feli í sér beiðni til dómsins um lögfræðilegt álit og séu því í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. einkamálalaga eða feli í sér beiðni um rannsókn dómsins á þeim atriðum sem þar séu tilgreind. Dómkröfur hans séu einnig að þessu leyti í andstöðu við d-lið l. mgr. 80. gr. sömu laga og grundvallarreglur réttarfars.
Stefndu telja stefnanda ekki hafa gætt lagaskilyrða um fyrirsvar og því beri að vísa málinu í heild frá dómi. Öllum örorkunefndarmönnum, auk Kristjáns Sigurjónssonar röntgenlæknis sérfræðings, sem nefndin leitaði til, virðist stefnt f.h. örorkunefndar. Stefndu telja framangreint meðal annars andstætt skilyrðum 2. mgr. 17. gr., sbr. a- og b-liði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga.
Stefndu benda telja það einnig verulegan galla á málatilbúnaði stefnanda að hann hafi ekki gert grein fyrir uppgjöri sínu við VÍS hf. og óljóst sé af stefnu hvort hann hafi notast við örorkumat örorkunefndar eða niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Þá telja stefndu það galla á stefnu að stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því hvernig einstakar dómkröfur snúi að einstökum stefndu. Þá verði af stefnunni ráðið að hann krefjist miskabóta til handa eiginkonu sinni og börnum en þau séu ekki stefnendur málsins.
Stefndu telja að það eigi engu máli að skipta við úrlausn málsins hvort stefnuna hafi samið löglærður eða ólöglærður aðili. Málið sé með öllu ódómtækt eins og það sé lagt fram og sé þess krafist að málinu verði vísað frá dómi í heild.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að greinargerð stefndu beri það ekki með sér að lögmaður þeirra skilji ekki málatilbúnað hans. Þvert á móti virðast stefndu skilja allt og mótmæla öllu. Þá telur hann sér heimilt að krefjast úrlausnar dómstóla um ólögmæti athafna örorkunefndar í tengslum við þá miskabótakröfu sem hann setji fram í málinu.
Stefnandi telur að ekki geti talist rangt að stefnda öllum örorkunefndarmönnum f.h. örorkunefndar, enda beri þeir allir ábyrgð á störfum nefndarinnar og geti það ekki leitt til frávísunar málsins.
Stefnandi kveðst hafa gengið til uppgjörs við VÍS vegna slyssins á grundvelli 30% miska og 30% örorku en með fyrirvara. Síðar hafi tryggingafélagið greitt honum viðbótarbætur á grundvelli mats dómkvaddra matsmanna miðað við 75% örorku, auk 2% ársvaxta frá slysdegi og dráttarvaxta frá matsgerðinni.
Stefnandi telur algerlega ljóst af sundurliðun í stefnu að allir kröfuliðirnir snúi að örorkunefnd. Kristján Sigurjónsson hafi verið kallaður til starfa fyrir nefndina og nefndin beri ábyrgð á störfum hans.
Þá gat stefnandi þess að hann hafi leitað til um 20 lögmanna í því skyni að þeir tæku að sér málið en þeir hafnað því og borið við skyldleika eða hagsmunaárekstrum við örorkunefnd. Stefnandi telur að um ótta við örorkunefnd hafi verið að ræða. Honum hafi hins vegar verið leiðbeint af starfsmönnum Héraðsdóms Reykjavíkur.
Stefnandi tekur fram að þótt athafnir örorkunefndar hafi einnig bitnað á konu hans og börnum hafi hann engar kröfur gert vegna þeirra.
Niðurstaða
Stefndu í máli þessu eru tilgreindir ríkissjóður, dómsmálaráðuneytið og örorkunefnd eða með öðrum orðum íslenska ríkið, ráðuneyti og álitsgefandi nefnd samkvæmt skaðabótalögum nr. 37/1993. Ekki er sundurgreint í stefnu hvaða kröfum er beint að hverjum framangreindra aðila. Í málflutningi um frávísun kom hins vegar fram að öllum kröfunum væri beint að örorkunefnd.
Fjármálaráðherra er stefnt til fyrirsvars fyrir ríkissjóð, dómsmálaráðherra til fyrirsvars fyrir dómsmálaráðuneytið og öllum þremur örorkunefndarmönnum og Kristjáni Sigurjónssyni lækni, sem ekki á sæti í örorkunefnd, virðist stefnt til fyrirsvars fyrir nefndina. Í stefnu engin skýring gefin á því af hverju fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra er stefnt til fyrirsvars í málinu eða af hverju framangreindum lækni er stefnt til fyrirsvars fyrir örorkunefnd. Þannig virðist kröfum að hluta til beint gegn Kristjáni Sigurjónssyni lækni en honum hins vegar aðeins stefnt sem fyrirsvarsmanni örorkunefndar.
Samkvæmt framansögðu er fyrirsvar stefndu afar óljóst og einnig hvaða kröfum er beint að hverjum stefndu og er það veigamikill galli á málatilbúnaði stefnanda.
Miskabótakrafa stefnanda er sundurliðuð í 15 liðum og lúta þeir allir að athöfnum örorkunefndar og Kristjáns Sigurjónssonar læknis sem stefnandi telur ýmist brjóta í bága við lög eða reglugerðir. Miskabótakrafa er gerð fyrir hvert meint réttarbrot gegn stefnanda. Málatilbúnaður stefnanda er að öðru leyti á þá leið að í málsatvikalýsingu er að finna brotakennda frásögn af slysi sem stefnandi varð fyrir og afleiðingum þess. Þá er í löngu en slitróttu máli greint frá samskiptum stefnanda við örorkunefnd og gagnaöflun nefndarinnar. Einnig er að finna upplýsingar um álitsumleitan til Umboðsmanns Alþingis. Loks er greint frá niðurstöðu mats dómkvaddra matsmanna á örorku og miska stefnanda. Í frásögnina er blandað fullyrðingum stefnanda um meint réttarbrot örorkunefndar gagnvart honum.
Lýsingu málsatvika er um margt mjög áfátt. Í gögnum sem stefnandi hefur sjálfur lagt fram kemur fram að lögmaður hans ritaði undir yfirlýsingu um að örorkunefnd væri heimilt að afla gagna beint frá læknum, sjúkrastofnunum og öðrum opinberum aðilum eftir því sem þurfa þætti við meðferð og afgreiðslu matsbeiðni. Algerlega er horft framhjá þessu mikilvæga atriði í stefnu og ekki vefengt að lögmaðurinn hafi haft umboð til heimila þessa gagnaöflun.
Þá er í stefnu í engu greint frá endanlegu uppgjöri stefnanda við Vátryggingafélag Íslands hf. á greiðslu bóta vegna örorku og miska, á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Því liggur ekki fyrir í málinu hvaða örorku og miskabætur stefnandi hefur fengið greiddar vegna slyss sem hann varð fyrir 1993.
Stefnandi vísar til a.m.k. 4 reglugerða, 11 lagabálka og stjórnarskrárinnar kröfum sínum til stuðnings. Ekki gerir hann þó sérstaka grein fyrir því á hvaða grundvelli miskabótakrafan sé gerð. Hann gerir einungis grein fyrir miska sínum með þeim orðum að hann hafi verið stórslasaður og mjög illa undir búinn vegna þess að takast á við öll lögbrot og þau áföll sem örorkunefndin hafi verið völd að. Ekki tilgreinir hann þessi áföll sérstaklega. Þá telur hann sig hafa orðið fyrir áfallastreituröskun án þess að færa nokkur rök fyrir því.
Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, sem stefnandi vísar raunar til, er heimilt að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur til þess sem misgert var við.
Stefnandi gerir enga grein fyrir að hverju meintar ólögmætar meingerðir örorkunefndar gegn honum beindust. Þá skilur stefnandi ekki skýrlega á milli miska af völdum framangreinds slyss, sem hann virðist hafa fengið bættan, og miska sem hann telur örorkunefnd hafa valdið honum.
Eins og ráða má af framangreindu er sakarefni það sem stefnandi ber undir dóminn tiltölulega flókið og því afar mikilvægt að málatilbúnaður sé skýr og glöggur. Engu breytir í því sambandi að stefnandi rekur mál sitt sjálfur eða að honum hefur ekki lánast að ráða lögmann til að annast málareksturinn en að baki því kunna að liggja aðrar ástæður en stefnandi tilgreinir.
Samkvæmt framansögðu skortir mjög á glögga og skýra framsetningu málsástæðna og annarra atvika sem nauðsynlegt hefði verið að greina frá til þess að samhengi málsástæðna yrði ljóst. Þá er framsetning lagaraka ekki nægjanlega hnitmiðuð þannig að ekki er ljóst á hvaða lagagrunni miskabótakrafan hvílir. Málatilbúnaður stefnanda er að þessu leyti í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga og meginreglur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.
Stefnandi gerir kröfu um að að fram komi fyrir dómi hver/hverjir og þá hvernig örorkunefndin komst yfir afrit sjúkraskrár og röntgenrannsókn stefnanda frá 1981 og bráða/slysaskrár frá 1993. Einnig hver/hverjir hafa strikað yfir ólöglega klausu örorkunefndar um óheftan aðgang að sjúkraskrám tjónþola hjá nefndinni og hvers vegna þeir fá aðra meðferð en stefnandi.
Krafa stefnanda er ekki fjárkrafa, ekki krafa um viðurkenningu á tilteknum réttindum og ekki krafa um ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu. Krafan verður því ekki með nokkru móti fellt undir upptalningu í d-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga. Í kröfunni felast spurningar og virðist hún miða að því að dómarinn sjái til þess að upplýsingar komi fram fyrir dómi um atvik sem stefnandi virðist hafa grunsemdir um að hafi átt sér stað. Ekki er tekið fram hverjir eigi að veita upplýsingar um þau atriði sem dómkrafan lítur að.
Krafa þessi er orðuð með þeim hætti að útilokað er að dómsorð verði byggt á henni. Uppfyllir hún með engu móti skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga.
Í greinargerð stefndu er að nokkru leyti bætt úr framangreindum ágöllum á málatilbúnaði stefnanda. Þegar litið er á málatilbúnað stefnanda í stefnu í heild þykir hann brjóta svo alvarlega í bága við d- og e- liði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga og meginreglur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað að áframhaldandi meðferð málsins verður ekki grundvölluð á stefnunni. Þykir því ekki annað fært en að fallast á kröfu stefnda um að vísa beri málinu frá dómi í heild.
Með hliðsjón af atvikum öllum og þeim erfiðleikum sem stefnandi kveðst hafa haft við að fá lögmann til að fara með mál sitt þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi flutti mál sitt sjálfur en Óskar Thorarensen hrl. af hálfu stefndu.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi
Málskostnaður fellur niður.