Hæstiréttur íslands
Mál nr. 460/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfulýsing
- Vanlýsing
- Veðréttur
- Skiptastjóri
- Skaðabætur
|
|
Þriðjudaginn 24. ágúst 2010. |
|
Nr. 460/2010. |
Commerzbank International S.A. Raiffeisen Zentralbank Österreich AG Bayerische Landesbank og Eik Bank A/S (Bjarki H. Diego hrl.) gegn þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Vanlýsing. Veðréttur. Skiptastjóri. Skaðabætur.
C o.fl. kröfðust þess að viðurkennt yrði að þeir nytu við gjaldþrotaskipti S ehf. stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 í skjóli veðréttar í innstæðu bankareiknings fyrir fjárkröfu samkvæmt lánssamningi, en til vara að þeir ættu skaðabótakröfu á hendur þrotabúi S ehf. sömu fjárhæðar sem stæði í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laganna. Talið var að C o.fl. hafi með kröfulýsingu aðeins krafist að fá að njóta veðréttar fyrir fjárkröfu sinni samkvæmt lánssamningnum í nánar tilteknum fjölda hlutabréfa S ehf. í L hf. Hafi kröfu um að fá að njóta veðréttinda fyrir fjárkröfu í innstæðu bankareikningsins ekki verið réttilega lýst innan kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskipti S ehf. Þá var talið að ákvæði 1. til 6. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 gætu ekki staðið til þess að C o.fl. fengju nú komið að vanlýstri kröfu sinni um veðréttindi yfir fjárhæðinni sem hafi verið á bankareikningnum og var aðalkröfu þeirra því hafnað. Þá var varakröfu C o.fl. einnig hafnað þar sem ráðstafanir skiptastjóra hafi ekki verið með þeim hætti að þeir hafi öðlast vegna þeirra kröfu um skaðabætur á hendur þrotabúinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2010, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu á kröfu sóknaraðila og fleiri við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að „felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra um að krafa sóknaraðila um veðrétt í innstæðu reiknings nr. 0111-38-714909, að fjárhæð 1.650.003,39 evrur sé fallin niður vegna vanlýsingar.“ Þeir krefjast þess einnig að viðurkennt verði að krafa þeirra sömu fjárhæðar ásamt nánar tilteknum ársvöxtum frá 20. nóvember 2008 til 22. júlí 2009 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags njóti stöðu í réttindaröð við gjaldþrotaskiptin samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að viðurkennd verði krafa sóknaraðila að fjárhæð 264.791.708 krónur, sem njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Basisbank A/S, Sparbank Vest A/S og Totalbanken A/S, sem áttu aðild að málinu í héraði við hlið sóknaraðila, hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerði Samson eignarhaldsfélag ehf. samning við sóknaraðila ásamt Basisbank A/S, Sparbank Vest A/S, Totalbanken A/S og Landsbanka Luxembourg S.A. 27. október 2005 um að taka að láni hjá þeim sameiginlega allt að 100.000.000 evrum. Í samningi þessum voru meðal annars ákvæði um endurgreiðslu lánsins, vexti af því og vanefndaúrræði handa lánveitendunum. Hinir sömu gerðu annan samning 16. nóvember 2005 um tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins, en með honum var lánveitendunum veittur fyrsti veðréttur annars vegar í hlutabréfum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 316.782.609 krónur og hins vegar í innstæðu einkahlutafélagsins á reikningum nr. 0111-26-490902 og 0111-38-714909 við sama banka. Með þessum samningi veitti félagið jafnframt sóknaraðilanum Commerzbank International S.A. óafturkræft umboð til að ráðstafa verðmætunum, sem sett voru að veði, til fullnustu kröfum samkvæmt lánssamningnum, auk þess sem þar voru ákvæði um hvernig slík ráðstöfun mætti fara fram. Samkvæmt yfirlýsingu Landsbanka Íslands hf. 17. nóvember 2005 tók hann að sér í þágu lánveitendanna að fara með vörslur hlutabréfanna og bankareikninganna, sem veðréttindi þeirra tóku til, og skuldbatt sig til að varna því að Samson eignarhaldsfélag ehf. gæti ráðið yfir þessum verðmætum nema fyrir lægju skrifleg fyrirmæli um það frá sóknaraðilanum Commerzbank International S.A.
Samson eignarhaldsfélag ehf. mun 7. október 2008 hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar. Með stoð í ákvæðum um vanefndaúrræði í áðurnefndum lánssamningi lýsti sóknaraðilinn Commerzbank International S.A. því yfir fyrir hönd lánveitendanna 10. sama mánaðar að skuld félagsins væri felld í gjalddaga. Greiðslustöðvun félagsins lauk 4. nóvember 2008 og var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 12. sama mánaðar. Í tilefni af fyrirspurn skiptastjóra upplýsti Nýi Landsbanki Íslands með bréfi 20. nóvember 2008 að varnaraðili ætti þar alls níu bankareikninga, þar á meðal fyrrnefnda reikninga nr. 0111-26-490902 og 0111-38-714909. Væri engin innstæða á þeim fyrrnefnda, en 1.650.003,93 evrur á þeim síðarnefnda. Einskis var þar getið um að reikningar þessir væru háðir veði eða öðrum tryggingarréttindum fyrir skuldbindingum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Að fengnum þessum upplýsingum beindi skiptastjóri tilkynningu til „þekktra kröfuhafa í þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf.”, þar sem hann greindi frá fyrirætlan sinni um að „innleysa þær innstæður í erlendum gjaldmiðlum sem kostur er” og varðveita féð á bankareikningi í íslenskum krónum. Vegna þessa gerðu sóknaraðilar 1. desember 2008 þá athugasemd við skiptastjóra að þeir teldu þjóna betur hagsmunum kröfuhafa að hafa fé varnaraðila áfram í erlendum gjaldeyri sökum óvissu um þróun gengis íslensku krónunnar. Þessi athugasemd fékk því ekki breytt að skiptastjóri lét verða af ráðagerð sinni 5. desember 2008, en samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila fékk hann þá meðal annars í hendur innstæðuna á reikningi nr. 0111-38-714909. Varnaraðili kveður andvirði hennar hafa reynst vera 264.791.708 krónur og hafa sóknaraðilar ekki andmælt því.
Í málinu liggur fyrir að fresti til að lýsa kröfum á hendur varnaraðila hafi lokið 21. janúar 2009. Þann dag lýstu sóknaraðilar ásamt Basisbank A/S, Sparbank Vest A/S, Totalbanken A/S og Landsbanka Luxembourg S.A. kröfu á grundvelli lánssamningsins frá 27. október 2005 og kváðu höfuðstól hennar nema 51.624.185 evrum, áfallna vexti frá 10. október til 12. nóvember 2008 22.798 evrum og innheimtukostnað 32.163 evrum, 1.500 bandaríkjadölum og 120.000 dönskum krónum. Í kröfulýsingunni sagði meðal annars eftirfarandi: „Kröfur samkvæmt lánasamningnum eru tryggðar með veði í bréfum í Landsbanka Íslands hf. sbr. veðsamning milli Samson eignarhaldsfélags ehf. sem veðsala og Commerzbank sem umsjónarmanns ... dags. 16. nóvember 2005 sbr. fylgiskjal nr. 2 og eru allar skuldbindingar veðsala gagnvart lánveitendum samkvæmt lánasamningnum tryggðar skv. veðsamningnum sbr. skilgreiningu á „Secured Liabilities” í fylgiskjali nr. 2. Þar undir falla samningsbundnir vanefndavextir sem og skuldbindingar veðsala, hins gjaldþrota félags, til að greiða allan kostnað lánveitenda af því að viðhalda réttindum eða innheimta lánið. Því er ofangreindum höfuðstól, samningsvöxtum sem og innheimtu og lögfræðikostnaði lýst í heild sinni sem veðkröfu í samræmi við 111. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem um er að ræða veðkröfu ... er kröfunni lýst í hinum upprunalega gjaldmiðli í samræmi við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Að því marki sem andvirði veðsins hrekkur ekki til greiðslu kröfunnar, er henni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og að sama skapi skal krafan þá að því marki sem andvirði veðsins hrekkur ekki til greiðslu kröfunnar, færð til íslensks gjaldmiðils á skráðu sölugengi á gjaldþrotadegi í samræmi við ákvæði 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991.”
Í skrá um lýstar kröfur samþykkti skiptastjóri að viðurkenna þessa kröfu, svo og að hún nyti stöðu í réttindaröð sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 að því frátöldu að kröfuliður vegna innheimtukostnaðar teldist eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. sömu laga. Sóknaraðilar ásamt Basisbank A/S, Sparbank Vest A/S og Totalbanken A/S mótmæltu síðastgreindu atriði í afstöðu skiptastjóra til kröfu þeirra og var ágreiningur um þetta ekki leystur á skiptafundum 20. febrúar og 30. mars 2009. Áður en til þess kom að ákvörðun yrði tekin um að leggja þetta ágreiningsefni fyrir héraðsdóm báru framangreindir aðilar upp við skiptastjóra með bréfum 23. júní og 17. júlí 2009 kröfu um að fá fjárhæðina, sem hann innleysti sem fyrr segir bankareikningi 5. desember 2008, greidda í skjóli veðréttar yfir henni. Þessari kröfu hafnaði skiptastjóri 5. ágúst 2009, en í framhaldi af því gerðu þessir aðilar kröfulýsingu á hendur varnaraðila 23. september sama ár, þar sem sama krafa var höfð uppi á grundvelli „3. mgr. 110. gr.” laga nr. 21/1991. Með bréfi 17. október 2009 beindi skiptastjóri til héraðsdóms ágreiningi aðilanna um þessa kröfu, svo og um hverrar stöðu kröfuliður um innheimtukostnað ætti að njóta í réttindaröð. Mál þetta var þingfest af því tilefni 8. janúar 2010, en undir rekstri þess fyrir héraðsdómi var leystur síðastnefndi þátturinn í ágreiningi aðilanna.
II
Skilja verður fyrrgreindar dómkröfur sóknaraðila á þann veg að þeir geri aðallega kröfu um að viðurkennt verði að þeir njóti við gjaldþrotaskipti varnaraðila stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 í skjóli veðréttar í innstæðu áðurnefnds bankareiknings nr. 0111-38-714909 að fjárhæð 1.650.003,39 evrur fyrir fjárkröfu samkvæmt lánssamningnum frá 27. október 2005, en til vara að þeir eigi á hendur varnaraðila skaðabótakröfu sömu fjárhæðar, sem standi í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laganna. Þess er og að gæta að sem fyrr segir standa Basisbank A/S, Sparbank Vest A/S og Totalbanken A/S, sem voru lánveitendur samkvæmt lánssamningnum, ekki að kæru í málinu með sóknaraðilum, en þessi þrjú fjármálafyrirtæki virðast eftir gögnum málsins hafa veitt samanlagt 20% af heildarfjárhæð lánsins. Að því virtu geta sóknaraðilar ekki með réttu haft uppi hærri varakröfu en sem nemur 80% af fyrrgreindum 1.650.003,39 evrum.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að líta svo á að sóknaraðilar ásamt Basisbank A/S, Sparbank Vest A/S og Totalbanken A/S hafi með kröfulýsingu 21. janúar 2009 aðeins krafist að fá að njóta veðréttar fyrir fjárkröfu sinni samkvæmt lánssamningnum í nánar tilteknum fjölda hlutabréfa Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í Landsbanka Íslands hf., svo og að tilvísun í kröfulýsingunni til veðsamningsins frá 16. nóvember 2005 fái í þeim efnum engu breytt. Jafnframt verður á sama hátt að leggja til grundvallar að í afstöðu skiptastjóra varnaraðila til kröfunnar hafi eingöngu falist viðurkenning á veðréttindum lánveitendanna að þessu sama leyti, enda gat hann hvorki viðurkennt réttindi, sem þeir gerðu ekki kröfu um, né bar honum að benda þeim á að þeir kynnu að geta haft uppi frekari kröfur en raun varð á. Samkvæmt því var kröfu þessara aðila um að fá að njóta veðréttinda fyrir fjárkröfu sinni í innstæðu reiknings nr. 0111-38-714909 ekki réttilega lýst innan kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskipti varnaraðila.
Í upphafi 118. gr. laga nr. 21/1991 er mælt svo fyrir að krafa á hendur þrotabúi, sem ekki er lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. sömu laga, falli niður gagnvart því nema svo standi á, sem í einhverjum af sex töluliðum fyrrnefndu lagagreinarinnar segir, enda sé ekki unnt að fylgja kröfunni fram gagnvart þrotabúinu eftir 116. gr. laganna. Eins og atvikum í máli þessu er háttað geta ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 ekki varðað kröfu sóknaraðila. Í 4. mgr. sömu lagagreinar felst á hinn bóginn sú meginregla að lánardrottinn, sem nýtur heimildar til fullnustu fjárkröfu á hendur þrotabúi án frekari dóms, sáttar eða aðfarar í skjóli tryggingarréttinda fyrir henni í eign þess, geti fylgt þeim rétti sínum eftir án tillits til þess hvort hann hafi lýst kröfu sinni við gjaldþrotaskiptin. Í veðsamningnum frá 16. nóvember 2005 voru sóknaraðilanum Commerzbank International S.A. í þágu lánveitenda samkvæmt lánssamningnum frá 27. október sama ár veittar heimildir til að leita fullnustu í verðmætunum, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. setti þar að veði, þar á meðal í innstæðu bankareiknings nr. 0111-38-714909, en í skjóli þeirra heimilda hefði svo verið ástatt fyrir sóknaraðilum, sem að framan segir, ef annað kæmi ekki til. Í því sambandi verður að líta til þess að þótt lánveitendurnir gerðu áðurgreindar ráðstafanir til að tryggja veðréttindi sín greiddi Nýi Landsbanki Íslands út innstæðuna á fyrrnefndum reikningi 5. desember 2008 til varnaraðila og gátu þeir ekki af þeim sökum upp frá því neytt heimilda samkvæmt veðsamningnum til að taka hana til sín til fullnustu fjárkröfum á hendur varnaraðila óháð kröfulýsingu við gjaldþrotaskiptin. Með því að ákvæði 1. til 6. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 geta ekki staðið til þess að sóknaraðilar fái nú komið að vanlýstri kröfu sinni um veðréttindi yfir fjárhæðinni, sem áður var á bankareikningnum, verður að hafna aðalkröfu þeirra í málinu.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er varakrafa sóknaraðila reist á því að skiptastjóri hafi með ráðstöfunum sínum, sem vörðuðu innstæðuna á reikningi nr. 0111-38-714909, bakað varnaraðila skaðabótaskyldu gagnvart þeim og standi krafa þeirra af því í tilefni í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Um þetta verður að gæta að því að skiptastjóra bar samkvæmt 2. mgr. 122. gr. sömu laga að taka til sín innstæður á bankareikningum varnaraðila og mátti í þeim efnum ganga út frá því að þær yrðu ekki að réttu lagi greiddar út ef þær væru háðar veðréttindum annarra, sem nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að tryggja. Án tillits til þess hvort Nýi Landsbanki Íslands kunni gagnvart sóknaraðilum ranglega að hafa látið innstæðuna af hendi hefði þeim verið í lófa lagið að halda réttindum sínum fram gagnvart varnaraðila með því að krefjast í kröfulýsingu sinni 21. janúar 2009 viðurkenningar á veðrétti í fénu, sem varnaraðili hafði undir höndum og átti rætur að rekja til bankareikningsins. Ráðstafanir skiptastjóra voru að þessu virtu ekki með þeim hætti að sóknaraðilar hafi öðlast vegna þeirra kröfu um skaðabætur á hendur varnaraðila.
Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Commerzbank International S.A., Raiffeisen Zentralbank Österreich AG, Bayerische Landesbank og Eik Bank A/S, greiði í sameiningu varnaraðila, þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2010.
I.
Mál þetta var þingfest 8. janúar sl., en þá var lagt fram bréf skiptastjóra í þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf., móttekið 20. október 2009, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu í bú varnaraðila. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og 2. mgr. 120. gr. sömu laga.
Endanlegar kröfur sóknaraðila eru:
- Að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra um að viðurkenna ekki að sóknaraðili hafi átt veðrétt fyrir kröfu sinni samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila í bú varnaraðila, dags. 21. janúar 2009, í innstæðu reiknings nr. 0111-38-714909, að fjárhæð 1.650.003,93 evrur.
- Að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila, að fjárhæð 1.650.003,93 evrur, með 3,8% ársvöxtum frá 20. nóvember 2008 til 10. janúar 2009, með 2,8% ársvöxtum frá og með 11. janúar 2009 til og með 10. febrúar 2009, með 1,9% ársvöxtum frá og með 11. febrúar 2009 til og með 20. mars 2009, með 1,6% ársvöxtum frá og með 21. mars 2009 til og með 10. apríl 2009, og loks með 1% ársvöxtum frá og með 11. apríl 2009 til og með 22. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, njóti rétthæðar búskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Loks er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf., krefst þess aðallega að héraðsdómur staðfesti þá ákvörðun skiptastjóra að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, vegna innstæðu á reikningi nr. 0111-38-714909, sé fallin niður vegna vanlýsingar. Til vara er þess krafist að dómurinn viðurkenni að varnaraðila beri að úthluta til sóknaraðila 264.791.708 krónum á grundvelli 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þá krefst varnaraðili hæfilegs málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 10. júní sl.
II.
Bú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2008 og var Helgi Birgisson hrl. skipaður skiptastjóri búsins. Fyrri innköllun birtist í Lögbirtingablaðinu 21. nóvember 2008 og lauk kröfulýsingarfresti 21. janúar 2009. Meðal þeirra er lýstu kröfu í búið var Commerzbank International S.A., bæði fyrir sína hönd og annarra sóknaraðila, á grundvelli umboðs bankans sem umsjónarmanns sambankaláns sem krafan byggði á. Krafan var alls að fjárhæð 51.679.146 evrur, 1.500 Bandaríkjadalir og 120.000 danskar krónur. Í kröfulýsingu sóknaraðila, sem dagsett er 21. janúar 2009, er kröfunni þannig lýst: Krafa þessi er byggð á lánasamningi dags. 27. október 2005 milli ofangreindra kröfuhafa og Samson Eignarhaldsfélags ehf., sem lántakanda, að fjárhæð EUR 50.000.000 („Lánasamningurinn“) sbr. fylgiskjal nr. 1. sem gjaldfelldur var þann 10. október 2008 vegna vanefndaatviks. [ ] Kröfur samkvæmt Lánasamningnum eru tryggðar með veði í bréfum Landsbanka Íslands hf. sbr. veðsamning milli Samson Eignarhaldsfélags ehf. sem veðsala og Commerzbank sem umsjónarmanns (e: Facility Administrator) dags. 16. nóvember 2005 sbr. fylgiskjal nr. 2 og eru allar skuldbindingar veðsala gagnvart lánveitendum samkvæmt Lánasamningnum tryggðar skv. veðsamningnum sbr. skilgreiningu á „Secured Liabilities“ í fylgiskjali nr. 2. Kröfunni var í heild lýst sem veðkröfu í samræmi við 111. gr. laga nr. 21/1991. Með kröfulýsingunni fylgdu lánasamningur og veðsamningur, dagsettir 27. október 2005 og 16. nóvember 2005, auk tilkynningar um gjaldfellingu 10. október 2008. Öll voru skjölin á ensku.
Skiptastjóri varnaraðila samþykkti kröfuna, að öðru leyti en því að kröfum vegna innheimtu- og lögfræðikostnaðar var skipað í flokk eftirstæðra krafna. Þá var krafan lækkuð um 10%, þar sem einn bankanna sem stóðu að lánveitingunni, Landsbanki Luxembourg, hafði sjálfur lýst kröfu sinni. Lögmaður kröfuhafa mótmælti því að innheimtukostnaður væri settur í flokk eftirstæðra krafna, og krafðist þess að sá kostnaður yrði einnig viðurkenndur sem veðkrafa.
Í áðurnefndu bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur segir að skiptastjóra hafi í júní 2009 borist fyrirspurn frá lögmanni sóknaraðila um innstæðu á reikningi varnaraðila hjá Landsbanka Íslands hf., nr. 0111-38-714909. Taldi lögmaðurinn að hún hefði átt að vera til tryggingar kröfum samkvæmt áðurnefndum lánasamningi og krafðist þess að fjárhæðin yrði afhent Commerzbank, ásamt áföllnum vöxtum. Upplýst er að Landsbanki Íslands hf. hafði 5. desember 2008, að ósk skiptastjóra varnaraðila, fært innstæðuna á reikning þrotabúsins, án þess að tekið væri fram að þriðji aðili kynni að eiga réttindi til hennar. Í tilefni af þessari kröfu boðaði skiptastjóri lögmann sóknaraðila til fundar 23. júlí 2009, þar sem bókuð var sú afstaða skiptastjóra að síðbúin krafa sóknaraðila væri niður fallin vegna vanlýsingar. Lögmaður sóknaraðila mótmælti afstöðu skiptastjóra. Með bréfi 5. ágúst 2009 tilkynnti skiptastjóri lögmanni sóknaraðila að ágreiningi aðila yrði vísað til úrlausnar héraðsdóms, bæði þeim ágreiningi er laut að innheimtu- og lögfræðikostnaði sóknaraðila, en einnig vegna hinnar síðbúnu kröfu sóknaraðila. Þrátt fyrir það barst skiptastjóra ný og breytt kröfulýsing frá sóknaraðila 23. september 2009, þar sem færð voru fyrir því rök að sóknaraðilar ættu veð í innstæðureikningi varnaraðila, nr. 0111-38-714909, hjá Landsbanka Íslands hf.
Við upphaf munnlegs málflutnings lögðu aðilar fram bókun þess efnis að þeir hefðu náð samkomulagi um að leiðrétt krafa sóknaraðila vegna innheimtu- og lögfræðikostnaðar nyti rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991, að svo miklu leyti sem veðið hrykki til, en sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga, vegna þess sem út af stæði. Samkvæmt því er hér aðeins til úrlausnar ágreiningur aðila um hvort sóknaraðilar eigi veðrétt fyrir kröfu sinni að fjárhæð 1.650.003,93 evrur í innstæðu reiknings nr. 0111-38-714909, og hvort sú krafa njóti rétthæðar búskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
III.
Sóknaraðilar byggja á því að þeir hafi í heild lýst kröfu sinni sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og hafi skiptastjóri samþykkt kröfuna sem slíka. Í upphaflegri kröfulýsingu hafi verið tekið fram að kröfur samkvæmt lánasamningnum væru tryggðar með veði í bréfum Landsbanka Íslands hf., og vísað í því efni til meðfylgjandi veðsamnings milli Samsonar eignarhaldsfélags ehf., sem veðsala, og Commerzbank, sem umsjónarmanns. Einnig væri þar tekið fram að allar skuldbindingar veðsala gagnvart lánveitendum samkvæmt lánasamningnum væru tryggðar samkvæmt veðsamningnum, og vísað til skilgreiningar á hugtakinu Secured Liabilities í veðsamningnum. Með þessum hætti telja sóknaraðilar að þeir hafi með skýrum og ótvíræðum hætti vísað beint til ákvæða veðsamningsins, þótt ekki hafi berum orðum verið tekið fram í kröfulýsingunni að einnig væri um að ræða tryggingu í innstæðu á nánar tilgreindum bankareikningi í eigu varnaraðila. Skiptastjóra hafi hins vegar borið skylda til að kynna sér efni og ákvæði þeirra samninga sem vísað hafi verið til og fylgt hafi kröfulýsingunni, í þessu tilviki lánasamnings og veðsamnings aðila. Byggja sóknaraðilar á því að skiptastjóra hafi verið óheimilt að styðjast aðeins við kröfulýsinguna, enda sé kröfuhafi þar aðeins að gera grein fyrir kröfu sinni á grundvelli þeirra gagna sem krafan byggist á og fylgja kröfulýsingunni. Að þessu leyti telja sóknaraðilar að skiptastjóri hafi sýnt af sér gáleysi við yfirferð á kröfulýsingu þeirra. Benda þeir einnig á að þeir hafi í kröfulýsingunni áskilið sér rétt til að útlista kröfuna nánar og afla frekari gagna, óskaði skiptastjóri þess. Þar sem engin slík ósk hafi komið fram hafi sóknaraðilar mátt ætla að krafan hefði verið samþykkt í samræmi við kröfulýsinguna og fylgigögn. Skiptastjóri hafi heldur ekki gert neinar athugasemdir við kröfulýsinguna, sem honum var þó rétt að gera samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, ef hann taldi að slíkir vankantar væru á henni að ekki ætti að fallast á þá skuldaröð sem krafist var. Í ljósi þessa hafi sóknaraðilar ekki hreyft mótmælum við afstöðu skiptastjóra á kröfuhafafundi 20. febrúar 2009, enda hafi þeir talið að krafan væri þá samþykkt í samræmi við kröfulýsinguna.
Kröfur sóknaraðila byggjast einnig á því að skiptastjóri varnaraðila hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, þegar innstæða á hinum veðsetta reikningi, að fjárhæð 1.650.003,93 evrur, var millifærð að kröfu hans inn á reikning í eigu varnaraðila og hinum veðsetta reikningi lokað, þrátt fyrir skýlaust ákvæði veðsamningsins um að viðhalda ætti hinni veðsettu fjárhæð inni á reikningnum. Með því hafi skiptastjóri ónýtt veðið áður en kröfulýsingarfrestur rann út, og hafi veðhafar því ekki notið þeirrar réttarverndar sem veðinu var ætlað að tryggja. Skiptastjóri hafi því brotið gegn 2. mgr. 123. gr. laga nr. 21/1991 og valdið sóknaraðilum bótaskyldu tjóni, að svo miklu leyti sem sóknaraðilar fá ekki kröfu sína greidda úr búi varnaraðila. Slík bótakrafa njóti stöðu búskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga og því beri skiptastjóra að sjá til þess að umkrafin fjárhæð verði greidd sóknaraðilum úr öðrum sjóðum varnaraðila. Telja sóknaraðilar ótæka þá niðurstöðu að skiptastjóri hafi svo rúmar heimildir að hann geti ónýtt veðandlagið með þeim einu afleiðingum að sóknaraðilar eignist skaðabótakröfu á hendur honum samkvæmt 4. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991, í stað áður veðtryggðrar kröfu sinnar.
Að öðru leyti en að ofan greinir vísa sóknaraðilar til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttar um skyldu til samningsefnda. Krafa þeirra um vexti og dráttarvexti styðst við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og 114. gr. laga nr. 21/1991. Málkostnaðarkrafa er reist á 173. gr. laga nr. 21/1991 og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Aðalkrafa varnaraðila er á því reist að ætlaður veðréttur sóknaraðila sé glataður vegna vanlýsingar, enda hafi þeir fyrst með nýrri kröfulýsingu 23. september 2009 talið til réttinda yfir innstæðu á reikningi nr. 0111-38-714909. Því til stuðnings bendir varnaraðili á að ekki verði annað ráðið af upphaflegri kröfulýsingu sóknaraðila en að þar sé á því byggt að kröfur þeirra njóti aðeins veðréttar í hlutabréfum Landsbanka Íslands hf., enda sé því ekki hreyft að þeir kunni að eiga önnur og víðtækari veð, svo sem í innstæðum þrotabúsins hjá Landsbanka Íslands hf. Mótmælir hann þeirri röksemdafærslu sóknaraðila að skiptastjóra hafi verið óheimilt að láta sér nægja að styðjast við kröfulýsinguna sjálfa, þegar hann tók afstöðu til kröfunnar. Vísar hann í því efni til 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, þar sem fram kemur að kröfulýsing þurfi nánast að uppfylla sömu kröfur og stefna í einkamáli. Í því felist að kröfuhafi þurfi að láta í ljós hverra réttinda hann telji að krafa hans njóti. Þannig eigi kröfulýsing að leggja fullnægjandi og tæmandi grundvöll að kröfunni, svo skiptastjóri geti tekið afstöðu til hennar, og eigi framlögð gögn að vera henni til stuðnings. Skiptastjóri eigi hins vegar ekki að rannsaka fylgigögn kröfulýsingar og freista þess að ráða í hvaða réttarstöðu krafan kunni að njóta. Um leið bendir varnaraðili á að í 118. gr. laga nr. 21/1991 sé að finna undantekningar frá því að krafa tapist gagnvart þrotabúi fyrir vanlýsingu. Þar sem þær undantekningar eigi hér ekki við, áréttar varnaraðili að sóknaraðilar geti ekki komið að kröfum sínum í málinu.
Varnaraðili leggur á það áherslu að meðal upphafsráðstafana skiptastjóra sé að afla upplýsinga um eignir þrotabúsins og taka við umráðum þeirra. Meðal eigna búsins hafi verið innstæða á reikningi í Landsbanka Íslands hf., nr. 0111-38-714909, að fjárhæð 1.650.003,93 evrur. Að kröfu skiptastjóra hafi fjárhæðin verið lögð inn á reikning búsins 5. desember 2008, án nokkurra athugasemda um að þriðji aðili kynni að eiga réttindi til hennar, enda hafi á reikningsyfirliti verið skráð að reikningurinn væri opinn. Áður en til þess kom hefði skiptastjóri þó ritað öllum þekktum kröfuhöfum bréf 27. nóvember 2008 og tilkynnt þeim að hann hygðist færa allar innstæður í erlendum gjaldmiðlum yfir á reikning þrotabúsins í Landsbanka Íslands hf. Sóknaraðilar hafi þá engum andmælum hreyft við því að þrotabúið hefði ráðstöfunarrétt yfir þeim reikningi sem hér er um deilt. Fyrst í júní 2009 hafi lögmaður sóknaraðila upplýst skiptastjóra um að sóknaraðilar teldu sig eiga tilkall til innstæðunnar. Því eigi sú fullyrðing sóknaraðila, að skiptastjóri hafi sýnt af sér gáleysi við yfirferð kröfulýsingarinnar, og að sú háttsemi hans að millifæra fjárhæðina á bankareikning þrotabúins hafi verið ólögmæt og saknæm, ekki við nein rök að styðjast.
Fallist dómurinn á kröfur sóknaraðila, er varakrafa varnaraðila á því reist að sóknaraðilar eignist þá búskröfu í þrotabúið, sem geti aðeins numið andvirði þeirra fjármuna sem fluttir voru af umræddum reikningi inn á reikning þrotabúsins 5. desember 2008, þ.e. 264.791.708 krónum.
V.
Frestur til að lýsa kröfum í bú varnaraðila rann út 21. janúar 2009. Þann sama dag lýstu sóknaraðilar kröfu sinni í búið og samanstóð krafan af 51.679.146 evrum, 1.500 Bandaríkjadölum og 120.000 dönskum krónum. Fram kemur í kröfulýsingunni að krafan byggist á lánasamningi 27. október 2005, sem gjaldfelldur var 10. október 2008, og séu kröfur samkvæmt lánasamningnum tryggðar með veði í bréfum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt veðsamningi aðila frá 16. nóvember 2005. Orðrétt segir þar einnig: ...og eru allar skuldbindingar veðsala gagnvart lánveitendum samkvæmt Lánasamningnum tryggðar skv. veðsamningnum sbr. skilgreiningu á „Secured Liabilities“ í fylgiskjali nr. 2. Þar undir falla samningsbundnir vanefndavextir sem og skuldbindingar veðsala, hins gjaldþrota félags, til að greiða allan kostnað lánveitenda af því að viðhalda réttindum eða innheimta lánið. Því er ofangreindum höfuðstól, samningsvöxtum sem og innheimtu- og lögfræðikostnaði lýst í heild sinni sem veðkröfu í samræmi við 111. gr. laga nr. 21/1991. Bæði lánasamningurinn og veðsamningurinn fylgdu kröfulýsingunni, merkt sem fylgiskjal 1 og 2, svo og tilkynning um gjaldfellingu lánsins, dagsett 10. október 2008, merkt sem fylgiskjal 3. Öll fylgiskjölin voru á ensku, en hafa verið lögð fram í íslenskri þýðingu.
Í umræddum veðsamningi er í grein 1.5 að finna skilgreiningar á hugtökum lánasamningsins og veðsamningsins, m.a. á hugtakinu „Secured Liabilities“. Orðrétt er hugtakið þar skilgreint þannig, en í íslenskri þýðingu: „Tryggðar Fjárskuldbindingar“ stendur fyrir allar núverandi og framtíðar skuldbindingar og ábyrgðir (hvort sem er raunverulegar eða skilyrtar og hvort sem þær eru skuldaðar sameiginlega eða aðskilið eða í hvað formi sem er) Lántaka gagnvart Lánveitendum (eða hluta af þeim) samkvæmt hverju Fjármögnunarskjali, ásamt öllum kostnaði og gjöldum á hendur Lánveitanda í tengslum við vernd, viðhald eða fullnustu viðkomandi réttinda samkvæmt Fjármögnunarskjölum, eða öðrum skjölum sem sýna fram á eða tryggja slíkar Fjárskuldbindingar. Í sömu grein eru einnig skilgreind hugtökin veð (e: Collateral) og vörslureikningur (e: Custody Account). Samkvæmt þeim skilgreiningum var sóknaraðilum sett að veði hlutabréf Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í Landsbanka Íslands hf., ásamt nánar tilgreindum reikningum félagsins hjá Landsbanka Íslands hf., þ.á m. reikningur nr. 0111-38-714909, allt til tryggingar skuld veðsala samkvæmt áðurnefndum lánasamningi. Eins og áður segir kemur fram í kröfulýsingu að hlutabréfin séu til tryggingar kröfu sóknaraðila samkvæmt lánasamningnum, en í engu er þar getið um aðrar tyggingar.
Skiptastjóri varnaraðila samþykkti kröfu sóknaraðila, að öðru leyti en því að kröfum vegna innheimtu- og lögfræðikostnaðar var skipað í flokk eftirstæðra krafna. Var krafan þannig að stærstum hluta færð á kröfuskrá sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Kröfuskráin, ásamt skýrslu skiptastjóra og öðrum gögnum, var lögð fram á skiptafundi í búi varnaraðila 20. febrúar 2009. Voru þá m.a. bókuð mótmæli lögmanns sóknaraðila við afstöðu skiptastjóra til innheimtukostnaðar. Mótmælin voru ítrekuð á fundi skiptastjóra og lögmanns sóknaraðila 30. mars sama ár. Í bókun síðari fundarins kemur fram að skiptastjóri geti ekki fallist á að samþykkja lögfræði- og innheimtukostnað kröfuhafans sem veðkröfu.
Meðal gagna málsins eru bréf frá lögmanni sóknaraðila til skiptastjóra varnaraðila, dagsett 23. júní og 17. júlí 2009, þar sem þess er krafist að innstæða á reikningi varnaraðila nr. 0111-38-714909 í Landsbanka Íslands hf. verði greidd sóknaraðilum þá þegar, ásamt vöxtum. Í bréfunum er vísað til þess að innstæðan hafi verið veðsett sóknaraðilum til tryggingar láni þeirra til Samsonar eignarhaldsfélags ehf., og bent á ákvæði veðsamningsins því til stuðnings, m.a. skilgreiningar veðsamningsins á hugtökunum veð og fjárvörslureikningur. Eins og fyrr greinir féllst skiptastjóri ekki á rök sóknaraðila og hafnaði því að greiða þeim umkrafða fjárhæð. Var það mat hans að síðbúin krafa þeirra væri niður fallin gagnvart þrotabúinu. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu skiptastjóra og sendu honum nýja og breytta kröfulýsingu 23. september 2009, þar sem ítarlega var gerð grein fyrir því að krafa þeirra væri bæði tryggð með veði í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og í tilteknum fjárvörslureikningum, meðal annars reikningi nr. 0111-38-714909.
Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., segir að í kröfulýsingu skuli tiltaka kröfur svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu o.s.frv. Í lokamálslið ákvæðisins kemur fram að einnig skuli þar greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Af þessum fyrirmælum má ráða að kröfulýsing þarf nánast að vera í sama búningi og stefna í einkamáli. Í 119. gr. sömu laga er síðan mælt fyrir um skyldur skiptastjóra til að annast gerð kröfuskrár, þar sem getið skal hvers efnis kröfurnar séu, fjárhæða þeirra og umkrafinnar stöðu í skuldaröð. Þá segir þar að skiptastjóri skuli láta í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu. Í sömu grein er einnig fjallað um hvernig staðið skuli að tilkynningu skiptastjóra til kröfuhafa, fallist hann ekki að öllu leyti á kröfu, svo og um skyldu skiptastjóra til að leggja kröfuskrá fram til sýnis fyrir kröfuhafa. Hvorki er í 119. gr. né öðrum ákvæðum laga nr. 21/1991 að finna fyrirmæli um að skiptastjóra beri sjálfstætt að kanna hvort kröfuhafi kunni að eiga aðrar eða rétthærri kröfur á hendur búinu en lýst er í kröfulýsingu, eða um skyldu hans til að benda kröfuhafa á slíkt, enda verður að ætla að kröfuhafi búi sjálfur yfir betri vitneskju um kröfu sína en skiptastjóri. Kröfuhafi ræður því einnig sjálfur hvort og að hve miklu leyti hann lýsir kröfu sinni í þrotabúið, láti það ógert eða krefjist lakari stöðu í skuldaröð en hann kann að eiga. Ætlist hann hins vegar til þess að tiltekin krafa hans njóti sérstöðu í skuldaröð verður hann að krefjast þess berum orðum.
Að áliti dómsins var upphafleg kröfulýsing sóknaraðila ekki þannig úr garði gerð að ráða mætti af henni að sóknaraðilar væru þar jafnframt að krefjast viðurkenningar á veðrétti í innstæðu á áðurnefndum reikningi varnaraðila í Landsbanka Íslands hf. Bæði gaf hún beinlínis til kynna að sóknaraðilar krefðust aðeins viðurkenningar á veðrétti þeirra í hlutabréfum varnaraðila í Landsbanka Íslands hf., en geymdi einnig ónákvæma og misvísandi tilvísun til skilgreiningar í meðfylgjandi veðsamningi, þar sem ekkert kom fram um að krafan væri tryggð með veði í umræddum bankareikningi. Þar sem skiptastjóri viðurkenndi kröfuna sem veðkröfu, að innheimtu- og lögfræðikostnaði frátöldum, hafði hann enga ástæðu til að óska frekari gagna til stuðnings kröfunni eða gera að öðru leyti athugasemdir við kröfulýsingu sóknaraðila. Hins vegar var full ástæða fyrir sóknaraðila til þess að ganga úr skugga um það við móttöku kröfuskrár, og síðar á skiptafundi 20. febrúar 2009, að krafan nyti einnig veðréttar í áðurnefndum bankareikningi. Raunar skýtur það skökku við að sóknaraðilar haldi því fram að í upphaflegri kröfulýsingu hafi einnig falist krafa um viðurkenningu á veðrétti í bankareikningnum, þegar þess er gætt að skiptastjóri tilkynnti þeim bréflega 27. nóvember 2008 að hann hygðist færa allar innstæður varnaraðila á gjaldeyrisreikningum við Landsbanka Íslands hf. yfir á reikning þrotabúsins. Sóknaraðilar mótmæltu að sönnu þeirri fyrirætlan skiptastjóra, en með þeim rökum aðeins að hagsmunum kröfuhafa væri betur borgið með því að halda í erlendan gjaldeyri, í ljósi þeirrar miklu óvissu sem þá ríkti um stöðu íslensku krónunnar. Ekki var þar minnst á að sóknaraðilar ættu veð í einum eða fleiri gjaldeyrisreikningum varnaraðila.
Fyrri krafa sóknaraðila byggir á því að í upphaflegri kröfulýsingu þeirra frá 21. janúar 2009 hafi með fullnægjandi hætti verið gerð grein fyrir því að krafa þeirra væri bæði tryggð með veði í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og í innstæðu reiknings varnaraðila, nr. 0111-38-714909. Í ljósi ofanritaðs hafnar dómurinn þeirri málsástæðu sóknaraðila og áréttar að í kröfulýsingu þeirra var ekki að því vikið að krafa þeirra nyti einnig veðréttar í umræddum bankareikningi. Þar sem sú krafa kom fyrst fram eftir lok kröfulýsingarfrests var hún fallin niður gagnvart þrotabúinu, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þær undantekningar frá meginreglu ákvæðisins um réttaráhrif vanlýsingar, sem taldar eru upp í 118. gr., eiga ekki við um það tilvik sem hér er til umfjöllunar.
Síðari kröfu sóknaraðila, þess efnis að krafa þeirra að fjárhæð 1.650.003,93 evrur, ásamt nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum, njóti rétthæðar búskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 verður einnig hafnað, enda hafa sóknaraðilar hvorki fært sönnur á að fyrir hendi séu skilyrði skaðabótaréttar til þess að fella bótaábyrgð á varnaraðila vegna aðgerða eða meints aðgerðaleysis skiptastjóra, né sýnt fram á að krafa þeirra njóti rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, sem þó er skilyrði þess að bótaskylda verði lögð á varnaraðila á grundvelli 3. mgr. 123. gr., sbr. 3. töluliður 110. gr. sömu laga.
Samkvæmt ofanrituðu verður kröfum sóknaraðila hafnað, en staðfest sú ákvörðun skiptastjóra varnaraðila að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, vegna innstæðu á reikningi nr. 0111-38-714909 í Landsbanka Íslands hf., sé fallin niður vegna vanlýsingar.
Með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðilum óskipt gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 400.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Staðfest er ákvörðun skiptastjóra varnaraðila, þrotabús Samsonar eignarhaldsfélags ehf., um að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, vegna innstæðu á reikningi nr. 0111-38-714909 í Landsbanka Íslands hf., sé fallin niður vegna vanlýsingar.
Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.