Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 6. maí 2010.

Nr. 25/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Benedikt Óskari Ásgeirssyni

(Sigurður Jónsson hrl.

Ingimar Ingimarsson hdl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa á tímabilinu frá maí til ágúst á árinu 1995 í allt að tíu skipti haft samræði við A þegar hún var þrettán ára gömul, auk þess að hafa í allt að tvö skipti haft við hana munnmök. Með vísan til játningar X og staðfasts framburðar stúlkunnar þótti nægilega sannað að X hefði í allt að fimm skipti sumarið 1995 haft samræði við stúlkuna. X kvaðst fyrir dóminum ekki muna til þess að hafa haft munnmök við stúlkuna. Með vísan til framburðar hennar, þrátt fyrir minnisleysi X, var talið sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi að hafa í eitt skipti haft munnmök við A sumarið 1995. Sök X var ekki talin fyrnd og voru brot hans réttilega heimfærð til 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X ennfremur gefið að sök að hafa í september á árinu 1994 í eitt skipti haft samræði við A, sem þá var tólf ára. Við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi neitaði X þessu eindregið og voru ekki aðrir til frásagnar að þessu leyti en hann og A. Var því fallist á með X að önnur gögn, sem ákæruvaldið hefði stuðst við varðandi þennan lið ákæru, nægðu ekki til að sanna sök hans. Var X því sýknaður að þessu leyti. Sannað þótti að X hefði viljað halda sambandi þeirra leyndu. Honum hefði verið fullljóst um aldur stúlkunnar og var þeirri fullyrðingu X um að jafnræði hefði verið milli þeirra hafnað þrátt fyrir ungan aldur X. Hann hefði brotið gróflega gegn kynfrelsi stúlkunnar, enda yrði að telja að nítján ára gamall maður hefði mikla yfirburði gagnvart þrettán ára barni. Var refsing X ákveðin fimmtán mánaða fangelsi, en með vísan til þess að langur tími var liðinn frá því brotin áttu sér stað, játningar X og persónulegra haga og þess að honum hafði ekki verið gerð refsing áður, þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna. Var hann jafnframt dæmdur til að greiða A 800.000 í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum í 1. lið ákæru, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur að því er þann lið varðar og málinu vísað heim í hérað. Verði sakfelling staðfest krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af einkaréttarkröfu en til vara að hún verði lækkuð.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða er gefið að sök í 1. lið ákæru að hafa í september 1994 brotið gegn þágildandi 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa í eitt skipti haft samræði við A, sem þá var tólf ára. Við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi hefur ákærði neitað þessu eindregið og eru ekki aðrir til frásagnar um atvik að þessu leyti en hann og A. Fallast verður á með ákærða að önnur gögn, sem ákæruvaldið hefur stuðst við varðandi þennan lið ákæru, nægi ekki til að sanna sök hans. Ákærði verður því sýknaður að þessu leyti. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um önnur atriði, enda telst sök ákærða ekki fyrnd, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 29. apríl 2004 í máli nr. 32/2004.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 465.829 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. nóvember 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. október sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 29. maí 2009, á hendur Benedikt Óskari Ásgeirssyni, kt. [...], [...], [...],

„Fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni A, fæddri [...], framin í [...], sem hér greinir:

  1. með því að hafa í september á árinu 1994, að [...], í eitt skipti haft samræði við A þegar hún var 12 ára gömul.
  2. Með því að hafa á tímabilinu frá maí til ágúst á árinu 1995, að [...] og [...], í allt að tíu skipti haft samræði við A þegar hún var 13 ára gömul, auk þess að hafa í allt að tvö skipti haft við hana munnmök á sama tímabili.

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1994 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu einkaréttarkröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt  1. mgr. skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Þá er áskilinn réttur til hækkunar á einkaréttarkröfu á síðari stigum.“

 Mál þetta var þingfest þann 25. júní sl. og frestað til 21. júlí til framlagningar greinargerðar ákærða. Aðalmeðferð fór fram þann 28. október sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins auk þess að vera sýknaður af bótakröfunni. Verði krafan um sýknu ekki tekin til greina krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafan verði lækkuð verulega. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

                                                                                     I.

                Upphaf máls þessa er að brotaþoli kom á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir ítrekuð kynferðisbrot gagnvart henni, sumurin 1994 og 1995 á [...] í [...]. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að brotaþoli hefði verið að gæta barna systur ákærða á [...] umrædd sumur. Hún hefði komið eina helgi yfir réttirnar um haustið til að passa. Á réttadaginn hefði hún verið í bifreið með ákærða ásamt drengjunum sem hún var að gæta. Þau hefðu keyrt á milli fjárrétta og síðan farið heim.  Ákærði hefði þá byrjað að kitla brotaþola, hún hlaupið inn á baðherbergi, hann komið á eftir henni, tekið sturtuhausinn og sett hann inn á bak á henni og fíflast með að ætla að skrúfa frá. Hann hefði lokað hurðinni á eftir sér og í framhaldi kysst hana á munninn með tungunni. Ekkert frekar hefði gerst þá en þau farið aftur í réttirnar og með drengina með sér. Um kvöldið hefði hún komið drengjunum í rúmið og eldra fólkið farið á réttaball sem hafi verið á [...]. Ákærði hefði komið til baka af ballinu seinna um kvöldið og hefði hún þá verið ein heima með drengina. Ákærði hefði byrjað að kyssa hana og þukla og síðan leitt hana inn í svefnherbergi. Hún hefði ekki mótmælt né barist á móti. Þau hefðu haft samfarir í rúminu í umrætt sinn. Hún hefði farið heim til sín eftir þessa helgi og komið aftur sumarið eftir, sumarið 1995,  til að gæta sömu barna. Hefðu tvær vinkonur hennar einnig komið austur til að gæta barna hjá öðru fólki á [...]. Hefði hún auk vinkvenna sinna þá oft verið heima hjá ákærða á kvöldin en hann hefði þá búið í næsta húsi við hana. Ákærði og hún hefðu, það sumar, oft haft samræði og eftir fyrsta skiptið það sumarið hefði ákærði sagt henni að hún mætti ekki segja neinum frá þessu þar sem hún væri svo ung. Það sumar hefðu þau bæði haft samræði og munnmök. Hefðu þau haft samræði einu sinni til tvisvar í viku í júní og júlí en einu sinni í ágúst. Hún hefði farið heim til sín eftir það skipti. Giskaði hún á að þau hefðu haft samræði í allt að tíu skipti. Munnmök hefðu bara verið í tvö skipti í júlí. Sumarið 1995 hefði samræðið alltaf farið fram heima hjá ákærða, sem bjó við hliðina á systur sinni sem brotaþoli var að gæta barna fyrir.

II.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kvað stúlkuna hafa verið barnapíu fyrir systur sína sumarið 1994 og 1995 á [...]. Hefðu þau búið hlið við hlið. Kvaðst hann hafa vitað fyrir deili á stúlkunni þar sem samgangur hefði verið á milli fjölskyldna þeirra. Hann hefði vitað að stúlkan var á fermingaraldri á þessum tíma. Ákærði neitaði að hafa haft samræði við stúlkuna sumarið 1994 en hann kvaðst hafa farið á réttaball allt frá því hann var sextán ára gamall og því gæti það ekki staðist, hún færi þar með rangt mál. Hann myndi þó til þess að hafa skvett á hana vatni inni á baði þann dag. Aðspurður kvaðst hann hafa kysst stúlkuna á kinnina inni á baði, hann myndi þó ekki hvort það hefði verið tungukoss. Sumarið 1995 hefði hann haft samræði við stúlkuna og í síðasta sinn um verslunarmannahelgina það sumar. Þetta hefði kannski verið í fjögur til fimm skipti um sumarið og þá alltaf með samþykki stúlkunnar. Þetta hefði gerst bæði heima hjá systur hans og heima hjá honum. Hefðu þau bæði haft frumkvæði að samförunum. Ákærði kvaðst ekki muna eftir einstökum tilvikum og ekki hvort hann hefði fengið sáðlát. Ákærði kvað þetta örugglega ekki hafa verið í tíu skipti, heldur sjaldnar. Ákærði kvað svo langt um liðið að hann gæti ekki munað vel eftir þessu. Þá kvaðst hann ekki muna eftir munnmökum en þætti afar ósennilegt að svo hefði verið. Aðspurður um fyrsta skiptið, kvað ákærði það hafa verið um vorið 1995 og atvik hefðu bara æxlast þannig. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að blætt hefði hjá stúlkunni né vita hvort hún hefði haft samræði áður. Hann kvaðst ekki muna hvort stúlkan hefði einhvern tíma grátið við samfarir eða haft blæðingar. Aðspurður kvaðst hann hafa notað verjur í einhver skipti en mundi ekki hvort það hafi verið alltaf. Ákærði kvaðst einu sinni hafa sagt við stúlkuna að þegja yfir sambandi þeirra en það hefði verið í gríni. Ákærði kvaðst ekki hafa hugleitt það sérstaklega að það væri lögbrot að hafa samræði við svo unga stúlku. Þetta hefði verið einhvers konar hvolpaást, enda hann bara nítján ára. Ákærði kvað mikinn samgang hafa verið á milli heimilis hans og systur hans þar sem drengirnir hefðu oft hlaupið á milli og stúlkan því oft komið yfir til hans. Þá hefðu vinkonur hennar einnig komið með henni á heimili hans. Aðspurður kvað hann stúlkuna hafa verið bráðþroska líkamlega og andlega og hann talið að hún hefði haft þroska til að taka slíkar ákvarðanir. Engin samskipti hefðu verið á milli þeirra eftir sumarið 1995. Ákærði kvað einhverja kunningja sína hafa vitað af samskiptum sínum við stúlkuna en hann legði það hins vegar ekki í vana sinn að ræða sitt einkalíf við aðra. Ákærði kvaðst hafa vitað að stúlkan var fermd en systir hans hefði búið við hlið fjölskyldu hennar í [...] og átt stúlku á sama ári og mikill vinskapur hefði verið á milli þeirra. Því hefði hann vitað um fermingu stúlkunnar. Ákærði kvað samband þeirra vafalaust hafa verið einhvers konar kærustusamband en hann kvaðst ekki muna hvort þau hefðu t.d. leiðst úti á götu. Ákærði kvaðst hafa hitt stúlkuna fyrir skemmstu í hestaferð uppi á afrétti, en þá hefði hún veist að honum með ófögrum orðum. Hann hefði í fyrstu ekki þekkt konuna en áttað sig á henni fljótlega. Ákærði kvaðst vera kvæntur í dag og vera tveggja barna faðir.

                A, kt. [...], [...], [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið til systur ákærða sumurin 1994 og 1995 til að gæta barna. Hún hefði komið aftur í réttir haustið 1994 til að passa þá helgi. Ákærði hefði keyrt hana og drengina í og úr réttum um daginn. Ákærði hefði snert hana af og til, sem henni hefði ekki fundist vera tilviljun. Um daginn hefðu einhver fíflalæti verið á milli þeirra, ákærði sett sturtuhaus niður á bak á henni og þá kysst hana tungukossi. Þau hefðu verið ein inni á salerninu og drengirnir frammi að leika sér. Um kvöldið hefði verið réttaball og ákærði komið heim til hennar. Drengirnir hefðu verið sofnaðir. Kossar og þukl hefði verið á milli þeirra í sófanum og í framhaldi hefðu þau farið inn í svefnherbergi. Minnti stúlkuna að ákærði hefði afklætt sig en hún gæti þó ekki fullyrt það. Hann hefði þá haft við hana samfarir. Myndi hún eftir því að ákærði hefði beðið hana um að snúa sér við og hún þá neitað þar sem hún hefði haldið að hann ætlaði að hafa við hana endaþarmsmök. Hún hefði ekki vitað að hægt væri að hafa kynmök í leggöng aftanfrá. Ákærði hefði síðan haft samfarir við hana á þann hátt. Kvað hún ákærða hafa haft frumkvæðið að því. Henni hefði fundist ákærði sætur og um hvolpaást hefði verið að ræða af hennar hálfu. Ákærði hefði vitað um aldur hennar en hún og systurdóttir ákærða, sem var á sama aldri og hún, hefðu verið vinkonur frá fæðingu þeirra og mikill samgangur á milli heimilanna. Stúlkan kvaðst halda að hún hafi verið frekar þroskuð á þessum tíma, komin með brjóst og farin að hafa blæðingar. Kvaðst hún hafa farið heim til sín eftir þessa helgi. Hún hefði sagt tveimur vinkonum sínum frá þessu eftir að hún kom heim. Hún hefði haft áhyggjur af því að verða þunguð eftir fyrsta skiptið og haft áhyggjur þá um veturinn.

                Eftir skóla, sumarið eftir, hefði hún aftur farið til systur ákærða til að passa. Þau hefðu þá haft samfarir og eftir fyrsta skiptið hefði ákærði sagt við hana að hún mætti ekki segja frá þar sem hún væri svo ung. Samfarir þeirra hefðu átt sér stað bæði heima hjá ákærða og systur hans. Í eitt skipti hefði verið um munnmök að ræða sem hún myndi eftir, það gæti þó hafa verið oftar. Henni hefði fundist það ógeðslegt og hætt en þau hefðu í framhaldi haft samræði. Yfirleitt gerðist þetta þegar þau voru ein á kvöldin. Kvaðst hún halda að þau hafi leitað eftir samskiptum við hvort annað en hann hefði átt frumkvæðið að samförum þeirra. Aðspurð kvaðst hún ekki geta fullyrt hversu oft þetta hefði verið, hún hefði ekki haldið dagbók yfir þetta, það gæti verið sjaldnar en tíu sinnum, það gæti hafa verið oftar. Áður en þau höfðu samræði í síðasta sinn, hefði ákærði sagt við hana að þau gætu ekki haldið þessu áfram. Eftir verslunarmannahelgina hefðu hún og vinkonur hennar farið heim til ákærða, vinkonur hennar farið síðan og hún orðið eftir. Hún myndi að hún hefði losað hárið úr tagli og í minningunni fannst henni það hafa verið hvatinn að því að ákærði leitaði á hana. Hún hefði verið á blæðingum og því ekki viljað samfarir. Hún hefði gert ákærða það ljóst en hann samt haldið áfram að leita á hana. Hún minntist þess að þegar hún var komin upp í rúm hefði hún séð nærbuxur sínar liggjandi á gólfinu með tíðabindi í og skammast sín og farið að gráta. Ákærði hefði þá sagt henni að hann væri alveg að verða búinn. Þetta hefði verið í síðasta sinn sem þau höfðu samfarir. Aðspurð kvaðst hún hafa sagt B, vinkonu sinni, frá þessu eftir haustið 1994 og einnig eftir sumarið 1995. B hefði komið til að passa vorið 1995 en farið eftir vikudvöl. Kvaðst stúlkan hafa sagt henni frá samskiptum þeirra þá um sumarið. Þá hefði hún einnig sagt C, vinkonu sinni, frá strax haustið 1994. Hún hefði líka vitað um samskipti hennar og ákærða sumarið 1995. Aðspurð kvað hún sér hafa liðið ömurlega vegna þessa eftir að hún kom heim um haustið. Hún hefði þá einnig sagt systur sinni frá hluta af þessu. Aðspurð kvaðst hún hafa átt mjög erfitt eftir þetta, hún hefði ekki haft neina sjálfsvirðingu. Hún hefði byrjað að reykja og drekka og leiðst út í fíkniefnaneyslu. Hún kvaðst ekki geta fullyrt að misnotkunin hafi verið eina ástæðan en hún hafi haft mikil áhrif á líðan hennar á unglingsárum. Hún hefði verið lögð inn á geðdeild 2001 vegna þunglyndis. Þar hefði hún minnst á misnotkunina en ekki farið náið ofan í það. Árið 2006 hefði hún leitað til geðlæknis og í framhaldi hefði hún leitað til Stígamóta og ynni nú í því að losa sig við afleiðingar þessa sambands hennar og ákærða.

                D, kt. [...], [...], Reykjavík, systir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst aðspurð hafa merkt, eftir seinna sumarið, breytingar á brotaþola. Klæðaburður hennar hefði breyst, hún hefði klætt sig í „goth“ stíl, hún hefði verið dónalegri og ekki þessi hoppandi káti krakki sem hún hafði verið áður. Kvaðst hún minnast þess að brotaþoli hafi sagt sér frá kynlífssamskiptum við ákærða en ekki nákvæmlega hvað það hefði verið. Kvaðst hún hafa litið á hegðun brotaþola sem unglingsvandamál, en hún hefði verið í þessum stíl og lokað sig oft inni í herbergi. Fyrir um tveimur árum hefði brotaþoli sagt sér meira frá sambandi þeirra.

                E, kt. [...], [...], Reykjavík, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst minnast þess að brotaþoli hefði verið tregari til að fara að [...] seinna sumarið sem hún var þar, en hún hefði ekki fengið neina skýringu á því. Kvaðst hún ekki geta skýrt nákvæmlega þær breytingar sem hefðu orðið á brotaþola en hún hefði verið grátgjarnari en áður eftir veru sína á [...]. Hún hefði tengt það unglingsárunum og ekki vitað neina sérstaka ástæðu fyrir því. Brotaþoli hefði í gegnum tíðina þurft á andlegri aðstoð að halda og átt við þunglyndi að stríða. E kvaðst hafa búið í [...] til ársins 1987 og hefðu systurdætur ákærða og brotaþoli verið miklar vinkonur. Ákærða hefði því örugglega verið kunnugt um aldur hennar.

                C, kt. [...], búsett í Bretlandi, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið á [...] sumarið 1995. Minntist hún þess að stúlkan hefði sagt sér að hún hefði misst meydóminn með ákærða. Kvaðst hún ekki muna nákvæmlega hvenær það samtal fór fram en hún hefði sagt sér að ákærði hefði komið í heimsókn og afmeyjað hana í rúminu hjá konunni sem hún var að passa fyrir. Kvaðst hún hafa vitað um samband stúlkunnar og ákærða þetta sumar en stúlkan hefði sagt henni að þetta væri algjört leyndarmál.

                F, kt. [...], [...], [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa vitað að ákærði hafi verið eitthvað með stúlku á þessum tíma.

                B, kt. [...], [...], [...], vinkona brotaþola, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst muna að hún hafi verið í viku sumarið 1995 að gæta barna á [...]. Kvaðst hún muna til þess að brotaþoli hafi sagt henni frá kynferðissambandi hennar og ákærða og þá frá því að þau hafi átt í kynferðissambandi árinu áður. Þær hafi svo verið orðnar eldri þegar stúlkan sagði henni nánar frá því sem gerst hafði.

III.

                Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð Þórðar Sigmundssonar, yfirlæknis deildar 32C á Landspítalanum. Kemur þar fram að stúlkan eigi að baki eina innlögn á bráðageðdeild Landspítalans frá 16. nóvember 2001 til 21. desember 2001. Ástæða innlagnarinnar var þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Stúlkan hafi fengið greininguna F32.2 sem sé alvarlegt þunglyndi. Eftir útskrift hefði stúlkan verið í eftirliti um tíma hjá Gísla Á. Þorsteinssyni geðlækni og einnig hjá Margréti Arnljótsdóttur sálfræðingi á stofu. Þórður staðfesti vottorð þetta fyrir dóminum en hann kvaðst ekki hafa sinnt brotaþola sjálfur. Gísli og Margrét komu ekki fyrir dóminn.

                Þá liggur fyrir vottorð  Ínu Marteinsdóttur geðlæknis, dagsett 3. janúar 2009. Í vottorðinu kemur fram að hún hafi sinnt stúlkunni frá því í janúar 2006. Hún hefði þjáðst af djúpum og lamandi þunglyndisköstum sem erfitt hafi reynst að ráða við með lyfjum. Hún hefði tjáð sér í fyrsta tímanum að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á unga aldri eða um 12 ára þegar hún hafi verið send í sveit en viðkomandi hefði verið um tvítugt. Segir í vottorðinu að brotaþoli hafi talið þetta hafa haft djúpar afleiðingar fyrir sig en aldrei rætt það við viðkomandi. Segir enn fremur að stúlkan hafi ákveðið að leita til Stígamóta 2007 og réttar síns 2008. Þá segir enn fremur: „Í sambandi við öll stig tengd þessu máli hefur mátt merkja djúpar breytingar í geðheilsu hennar svo enginn vafi er að þetta hefur markað spor. Að hvaða leiti þetta er valdur að hennar geðsjúkdómi er erfitt að segja með vissu en hin háa tíðni kynferðislegrar misnotkunar meðal kvenna sem líða af alvarlegum geðkvillum styður það.“ Ína staðfesti vottorð sitt í símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hún aðspurð ekki geta fullyrt að slæm  geðheilsa stúlkunnar stafaði einungis af þeirri misnotkun sem hún varð fyrir á unga aldri en afleiðingar slíkra brota væru þekktar.

                Að lokum liggur fyrir vottorð Thelmu Ásdísardóttur, fyrrverandi starfskonu Stígamóta, dagsett 5. september 2009. Segir þar að stúlkan hafi fyrst komið í einkaviðtal til hennar þann 28. mars 2007 og hafi verið í reglulegum viðtölum þar til í júní þetta ár en síðast hafi hún komið 8. júní 2009. Þá segir að ársskýrsla Stígamóta sýni ár eftir ár að helstu afleiðingar sem brotaþolar kynferðislegs ofbeldis glími við séu skömm, sektarkennd, depurð, léleg sjálfsmynd, reiði og kvíði. Brotaþoli hafi verið að takast á við þetta allt saman þannig að ofbeldið hafi skert lífsgæði hennar verulega. Thelma staðfesti vottorð þetta í símaskýrslu fyrir dóminum.

IV.

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök í máli þessu að hafa brotið gegn A á árinu 1994 með því að hafa samræði við hana í eitt skipti, þá tólf ára gamla, og frá maí til ágúst á árinu 1995 með því að hafa í allt að tíu skipti haft samræði við A þegar hún var þrettán ára og í allt að tvö skipti haft við hana munnmök á sama tímabili. Ákærði neitaði að hafa haft samræði við stúlkuna á árinu 1994 en viðurkenndi að hafa haft samræði við hana í fjögur til fimm skipti sumarið 1995. Þá neitaði hann að hafa haft við hana munnmök á árinu 1995. Verjandi ákærða krafðist sýknu þar sem fordæmalaust væri að kæra svo löngu síðar. Þá hefði jafnræði verið á milli aðila og þau verið kærustupar. Við aðalmeðferð málsins kvað verjandi ákærða réttaróvissu ríkja um fyrningu brota, framin á þessum tíma, sem lengri refsing lægi við en tíu ára fangelsi og því bæri að sýkna ákærða vegna fyrningar.

Ákæruliður I.

Framburður brotaþola fyrir lögreglu og dóminum er í öllum veigamiklum atriðum á sama veg. Hún bar að haustið 1994, þegar hún kom um réttirnar, hefði ákærði ætlað að sprauta á hana vatni inni á baði. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að það væri rétt en taldi það ekki saknæmt. Stúlkan bar að ákærði hefði kysst hana í sama skipti tungukoss inni á baðinu. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hafa kysst hana á kinnina eða munninn, hann myndi það ekki. Vitnið C kvað fyrir dóminum að brotaþoli hefði sagt sér að hún hefði haft samfarir við ákærða og hann hefði afmeyjað hana heima hjá systur brotaþola. Sá vitnisburður styður frásögn brotaþola. Þá styður sá framburður E, móður stúlkunnar, að stúlkan hafi verið tregari til að fara að [...] seinna sumarið einnig framburð stúlkunnar. Ákærði hefur játað að hafa haft samfarir við stúlkuna sumarið eftir í nokkur skipti. Verður að telja, þrátt fyrir neitun ákærða, með vísan til staðfasts framburðar stúlkunnar sem fær stoð í framangreindum vitnisburði E og C, það hafið yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.

Ákæruliður II.

Ákærði er sakaður um að hafa í allt að tíu skipti haft samræði við stúlkuna sumarið 2005 auk þess að hafa haft við hana tvisvar sinnum munnmök. Ákærði hefur neitað að hafa haft samræði við stúlkuna nema í fjögur til fimm skipti þetta sumar. Stúlkan lýsti því fyrir dóminum að hún gæti ekki fullyrt hversu mörg skiptin voru en þau hafi haft samræði einu sinni til tvisvar í viku frá júníbyrjun fram að verslunarmannahelgi. Þó kvað hún það vel geta verið að skiptin væru færri, hún hefði ekki haldið dagbók yfir þau. Með vísan til játningar ákærða og staðfasts framburðar stúlkunnar, þykir nægilega sannað að ákærði hafi í allt að fimm skipti sumarið 1995 haft samræði við stúlkuna, þá þrettán ára gamla. Ákærði kvaðst, fyrir dóminum, ekki muna til þess að hafa haft munnmök við stúlkuna. Stúlkan lýsti því bæði fyrir lögreglu og dóminum að ákærði hefði sett liminn upp í hana og henni hefði fundist það ógeðslegt og kúgast. Er framburður hennar trúverðugur. Fyrir dóminum kvaðst stúlkan ekki geta staðfest að það hefði verið nema í eitt skipti. Með vísan til framburðar stúlkunnar, verður að telja sannað, þrátt fyrir minnisleysi ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi að hafa í eitt skipti haft munnmök við brotaþola sumarið 1995.

Fyrning.

Við aðalmeðferð málsins taldi verjandi ákærða að brot ákærða væru fyrnd en þau hefðu átt sér stað árið 1995. Háttsemi ákærða hefði á umræddum tíma varðað við 202. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Sækjandi málsins mótmælti þeirri kröfu að sýknað yrði sökum fyrningar. 

Brot ákærða eru framin sumurin 1994 og 1995. Eru brot ákærða réttilega heimfærð til 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 en þar segir að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skuli sæta fangelsi allt að 12 árum. Með 11. gr. laga nr. 61/2007 var refsiramminn hækkaður í sextán ár. Ber samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga að dæma eftir núgildandi ákvæði, en háttsemin varðar allt að tólf ára fangelsi í báðum tilvikum, en samkvæmt 202. gr. almennra hegningarlaga, eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 40/1992, skyldi þó beita vægari hegningu að tiltölu.

Með 5. gr. laga nr. 20/1981 var 81. gr. laga nr. 19/1940 breytt þannig að samkvæmt 3. tl. 81. gr. fyrntust brot sem ekki meira en tíu ára refsing lá við á tíu árum og samkvæmt 4. tl. fyrntust brot á fimmtán árum ef þyngsta refsing við broti er sextán ára fangelsi eða lengra tímabundið fangelsi. Taldi verjandi ákærða að brot, þar sem fangelsi í meira en tíu ár lægi við en minna en sextán ár, væru í réttaróvissu og því bæri að sýkna ákærða á þeim forsendum að brotin teldust fyrnd. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 63/1998 um fyrningu sakar segir m.a.: „Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 81. gr. hegningarlaganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, fyrnist sök á 15 árum, þegar þyngsta refsing við broti er 16 ára fangelsi eða lengra tímabundið fangelsi. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. fyrnist sök á 10 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi. Hætt er við að þessi ákvæði verði túlkuð þannig að ekki sé kveðið á um fyrningu sakar þegar þyngri refsing en 10 ára fangelsi en vægari refsing en 16 ára fangelsi liggur við broti. Ekki var þó gert ráð fyrir slíku við setningu laga nr. 20/1981. Hér er því lagt til að kveðið verði skýrar á um þetta atriði. Lagt er til að orðalagi 4. tölul. 1. mgr. 81. gr. verði breytt þannig að kveðið sé á um að sök fyrnist á 15 árum, þegar þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi.

Samkvæmt orðalagi 4. tl. 81. gr. fyrnast brot á fimmtán árum ef þyngsta refsing við broti er sextán ára fangelsi eða lengra tímabundið fangelsi. Túlkar dómurinn þetta orðalag svo með hliðsjón af 3. tl. að brot þar sem refsing er meiri en tíu ára fangelsi fyrnist á fimmtán árum. Fær þessi túlkun stoð í lögskýringargögnum, sbr. athugasemdir við 1. gr. laga nr. 63/1998 þar sem ákvæðinu var breytt til þess horfs sem það er í dag. Er því málið ekki talið fyrnt á þeim forsendum. Brotaþoli kærði brotið til lögreglu þann 16. júní 2008 og var ákærði fyrst yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins hinn 20. ágúst sama ár, en þá voru tæplega fjórtán ár liðin frá því að fyrsta brotið átti sér stað. Verður því ekki fallist á að brot ákærða séu fyrnd.

Með vísan til þessa  verður ákærði því sakfelldur fyrir  að hafa haft samræði við stúlkuna í eitt skipti sumarið 1994 þegar hún var 12 ára og í allt að fimm skipti um sumarið 1995 þegar hún var 13 ára gömul.  Þá verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa í eitt skipti  haft munnmök við stúlkuna sumarið 1995.

Refsiákvörðun.

Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þess hver refsiramminn var á þeim tíma er brotin voru framin. Þá verður einnig að líta til þess að í dag eru rúmlega fimmtán ár liðin frá því að fyrsta brotið átti sér stað en ákærði hefur á þeim tíma stofnað til fjölskyldu og eignast tvö börn. Ákærði telur að jafnræði hafi verið á milli hans og brotaþola þar sem hann hafi aðeins verið nítján ára gamall og hún bráðþroska. Hún hefði sjálf haft frumkvæði að samræðinu eins og hann og þau hefðu verið hálfgert kærustupar á þessum tíma. Því beri að hafa lokamálslið 1. mgr. 202. gr. hegningarlaga til hliðsjónar við ákvörðun refsingar. Samþykki brotaþola breytir engu varðandi refsiverða háttsemi ákærða í máli þessu. Þá mótmælti brotaþoli því að þau hefðu verið í eins konar kærustuparasambandi.

Sannað er að ákærði vildi halda sambandi þeirra leyndu, þrátt fyrir að hann hafi sagst hafa sagt það við stúlkuna í gríni. Ákærða var fullljóst um aldur stúlkunnar og er þeirri fullyrðingu ákærða um að jafnræði hafi verið milli þeirra, hafnað þrátt fyrir ungan aldur ákærða. Ákærði braut gróflega gegn kynfrelsi stúlkunnar og barnslegu sakleysi, enda verður að telja að nítján ára gamall maður hafi mikla yfirburði gagnvart tólf og þrettán ára barni. Eru ákvæði hegningarlaga um aldursmörk samræðis milli fólks sett í þeim tilgangi að verja ung börn og unglinga gegn slíkri háttsemi þar sem þau, sökum æsku, hafa ekki þroska til að taka ábyrgð á sjálfum sér né öðrum hvað þetta varðar.

Með hliðsjón af öllu framansögðu, er refsing ákærða ákveðin fangelsi fimmtán mánuði. Með vísan til þess að langur tími er liðinn frá því brotin áttu sér stað, játningar ákærða og persónulegra haga og þess að honum hefur ekki verið gerð refsing áður, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Bótakrafan.

Í málinu gerir A, kt. [...], kröfu um miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk nánar tilgreindra vaxta. Fyrir liggja vottorð Þórðar Sigmundssonar og Ínu Marteinsdóttur geðlækna þar sem kemur fram að stúlkan hefur átt við langvarandi geðræn vandamál að stríða og fer fyrst í innlögn á geðdeild í nóvember 2001, þá nítján ára gömul. Ekki hefur verið sýnt fram á það fyrir dóminum að öll þau geðrænu vandamál sem stúlkan hefur þurft að kljást við stafi eingöngu af þeirri kynferðislegu misnotkun sem hún sannanlega hefur verið beitt, enda lýsti hún því svo sjálf fyrir dóminum að hún væri ekki viss um að svo væri eingöngu. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa, á ófyrirleitinn hátt, brotið gegn brotaþola. Með vísan til þess sem að framan er rakið og jafnframt með skírskotun til þess að slíkur atburður er almennt talinn til þess fallinn að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið stúlkunni miska. Á hún rétt á miskabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Að málsatvikum virtum þykja bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins. Bera bæturnar vexti í samræmi við það.

Sakarkostnaður.

Að þessum niðurstöðum fengnum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara 128.054 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250  krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 186.750 krónur, auk ferðakostnaðar, 14.203 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts beggja aðila. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður dóm þennan upp, sem dómsformaður, ásamt Ásgeiri Magnússyni héraðsdómara og Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra, sem meðdómendum.

Dómsorð:

Ákærði, Benedikt Óskar Ásgeirsson, sæti fangelsi í fimmtán mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A í miskabætur 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1994 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 25. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 640.257 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 186.750 krónur, auk ferðakostnaðar, 14.203 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts beggja aðila.