Hæstiréttur íslands
Mál nr. 514/2013
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2013. |
|
Nr. 514/2013. |
Arion banki hf. (Stefán A. Svensson hrl.) gegn Þórarni Sveinssyni (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Lánssamningur. Ábyrgð.
Með yfirlýsingu forstjóra K hf. til Þ var tilkynnt að ákveðið hefði verið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð Þ á lánum til kaupa á hlutabréfum í K hf. og að ábyrgð Þ takmarkaðist við hlutabréfin sem sett hefðu verið að veði. A hf. krafðist þess í málinu að Þ yrði gert að greiða fjárhæð sem svaraði til persónulegrar ábyrgðar Þ á láni sem K hf. hafði upphaflega veitt Þ en A hf. hafði fengið framselt. Byggði A hf. á því að áðurnefnd yfirlýsing tæki ekki til láns Þ þar sem andvirði þess hefði ekki verið varið til kaupa á hlutabréfum í K hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í dómi réttarins frá 23. maí 2013 í máli nr. 34/2013 hefði því verið slegið föstu að yfirlýsingin tæki aðeins til lána sem notuð höfðu verið til að kaupa hluti í bankanum. Af gögnum málsins yrði ráðið að Þ hefði fengið lánsféð til frjálsrar ráðstöfunar og að það hefði margsinnis skipt um hendur áður en Þ keypti hlutabréf í bankanum fyrir nær þrisvar sinnum hærri fjárhæð en nam lánsfjáræðinni. Var því talið að Þ hefði ekki fært sönnur á að uppfyllt hefði verið það skilyrði niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar hans samkvæmt yfirlýsingunni að lánsféð hefði verið nýtt til hlutafjárkaupa í bankanum. Loks var hvorki fallist á að lánssamningurinn hefði verið bersýnilega ósanngjarn og andstæður viðskiptavenju, né gagnkröfu Þ til skuldajafnaðar vegna meints tjóns hans. Var Þ því dæmdur til að greiða A hf. umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2013. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 27.700.949 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir er í máli þessu deilt um greiðsluskyldu stefnda samkvæmt lánssamningi 9. febrúar 2006 milli Kaupþings banka hf. og stefnda að fjárhæð 150.000.000 krónur. Ekki er ágreiningur um að kröfuréttindi samkvæmt samningnum voru framseld áfrýjanda, sem þá hét Nýi Kaupþing banki hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Upphaflegar dómkröfur áfrýjanda voru í erlendri mynt, þar sem stefndi hafði óskað eftir myntbreytingu lánsins, en undir rekstri málsins í héraði breytti áfrýjandi kröfugerð sinni samkvæmt endurútreikningi á láninu með vísan til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og samþykkti stefndi þá breytingu.
Í grein 2.3. í lánssamningnum sagði að lánið væri veitt til fjármögnunar hlutafjárkaupa og að lántaki heimilaði bankanum að ráðstafa láninu til greiðslu og uppgjörs hlutafjárkaupa. Í grein 6.1. lánssamningsins var tekið fram að ábyrgð lántaka á skuldinni takmarkaðist við andvirði handveðs og hvers kyns viðbótartrygginga sem hann kynni að leggja fram en til viðbótar skyldi hann bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún væri á hverjum tíma með öðrum eignum sínum.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Hreiðars Más Sigurðssonar, þáverandi forstjóra Kaupþings banka hf., til stefnda 25. september 2008 um að bankinn hafi ákveðið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð hans vegna ,,hlutafjárkaupalána“ varðandi kaup á hlutabréfum í bankanum. Samkvæmt yfirlýsingunni skyldi ábyrgð hans takmarkast við hlutabréf í bankanum sem sett hafi verið sem veð.
Með tölvubréfi stefnda 30. september 2008 til regluvarðar Kaupþings banka hf. óskaði hann eftir heimild til að selja ,,allt að 400.000 bréf í Kaupþingi.“ Óumdeilt er að heimild til þess var veitt sama dag og að stefndi féll frá söluáformum sínum.
II
Yfirlýsing þáverandi forstjóra Kaupþings banka hf., sem áður er vísað til, bar þess merki að hafa verið stöðluð, en ekki sniðin að aðstæðum þeirra starfsmanna sem henni var beint til. Í dómi Hæstaréttar 23. maí 2013 í máli nr. 34/2013, þar sem reyndi að hluta á sambærileg álitaefni og í máli þessu, var því slegið föstu að yfirlýsingin tæki aðeins til lána sem notuð hafi verið til að kaupa hluti í bankanum, enda væri hún samkvæmt orðum sínum einskorðuð við slík lán. Verður sú niðurstaða lögð til grundvallar í máli þessu. Samkvæmt því þarf að leysa úr því hvort stefndi hafi varið láninu til kaupa á hlutafé í Kaupþingi banka hf. eða fengið lánsfjárhæðina sér til frjálsrar ráðstöfunar.
Af gögnum málsins verður ráðið að lánsfjárhæðinni var fyrst ráðstafað inn á reikning stefnda 9. febrúar 2006, en næsta dag voru 147.000.000 krónur lagðar af þeim reikningi inn á annan reikning í eigu stefnda. Við þá innborgun breyttist staða þess reiknings úr því að vera neikvæð um 22.729.769 krónur yfir í að verða jákvæð um 124.270.231 krónu. Í kjölfarið var fjármunum sem á reikningnum voru varið til ýmiss konar fjárfestinga, annarra en kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Það var fyrst 15. nóvember sama ár og 27. og 28. sama mánaðar sem stefndi keypti hluti í bankanum fyrir samtals 441.511.268 krónur. Af framangreindu verður ráðið að frá því að stefndi fékk fyrrgreint lán hafi lánsféð verið honum til frjálsrar ráðstöfunar og skipt margsinnis um hendur áður en hann keypti hlutabréf í bankanum fyrir nær þrisvar sinnum hærri fjárhæð en nam lánsfjárhæðinni. Hefur stefndi því ekki fært sönnur á að uppfyllt hafi verið það skilyrði fyrir niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar hans samkvæmt áðurnefndri yfirlýsingu að lánsféð hafi verið nýtt til hlutafjárkaupa í bankanum. Féll lánssamningurinn þar með utan gildissviðs yfirlýsingarinnar þannig að sú takmarkaða ábyrgð, sem kveðið var á um í 6. gr. samningsins, stóð óhögguð eftir.
Stefndi hefur uppi skaðabótakröfu til skuldajafnaðar sem hann reisir á því að Kaupþing banki hf. hafi valdið sér tjóni þar sem bankinn hafi með útgáfu yfirlýsingarinnar 25. september 2008 komið í veg fyrir að hann seldi hlutabréf sín. Eins og áður er rakið óskaði stefndi eftir því 30. sama mánaðar að fá að selja bréfin og fékk til þess heimild. Er því ekki hald í þeirri málsástæðu stefnda að bankinn hafi komið í veg fyrir að hann seldi þau. Þá sér þess hvergi stað í gögnum málsins að stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi lofað stefnda skaðleysi af hlutafjárkaupum svo að skuldbindandi væri fyrir bankann. Að þessu virtu verður ekki fallist á umrædda gagnkröfu stefnda.
Stefndi fékk á sínum tíma alla lánsfjárhæðina til frjálsrar ráðstöfunar, en hin persónulega ábyrgð hans á láninu var takmörkuð við einungis 10% af skuldinni. Samkvæmt því verður ekki fallist á þær röksemdir hans að áðurnefndur lánssamningur sé bersýnilega ósanngjarn og andstæður viðskiptavenju. Einnig er því hafnað að óheiðarlegt sé fyrir áfrýjanda að bera fyrir sig efni hans um persónulega ábyrgð stefnda á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Óumdeilt er að krafan samkvæmt margnefndum lánssamningi var gjaldfelld 30. ágúst 2010. Samkvæmt grein 3.5. í lánssamningnum og með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 leggjast dráttarvextir á skuldina frá og með gjaldfellingardegi.
Stefndi verður samkvæmt framansögðu dæmdur til að greiða kröfu áfrýjanda eins og hún er fram sett. Einnig verður stefnda gert að greiða málskostnað í héraði og Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Þórarinn Sveinsson, greiði áfrýjanda, Arion banka hf., 27.700.949 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 13. mars sl., var höfðað 20. janúar 2011 af Arion banka hf. kt. 581008-0150, Borgartúni 19. Reykjavík, á hendur Þórarni Sveinssyni, Sæbraut 21, Seltjarnarnesi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 27.700.949 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. ágúst 2010 til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að mati réttarins ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Stefndi krefst þess einnig að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.
Stefndi krafðist frávísunar málsins í greinargerð en féll frá því í þinghaldi 6. febrúar 2012 og lýsti því yfir að ekki væri lengur ágreiningur um fjárhæð meintrar kröfu stefnanda. Í þinghaldinu á undan 18. janúar s.á. hafði stefnandi lagt fram endurútreikning á kröfunni. Þar með leiðrétti og lækkaði stefnandi dómkröfurnar með samþykki stefnda.
I
Krafa stefnanda er reist lánssamningi sem Kaupþing banki hf. (hér eftir nefndur Kaupþing), gerði við stefnda 9. febrúar 2006 nr. 0690-35-3033. Lánið, sem var að fjárhæð 150.000.000 krónur, var samkvæmt grein 2.3 samningsins „veitt til fjármögnunar hlutafjárkaupa“. Með sama ákvæði heimilaði lántaki bankanum að ráðstafa láninu til greiðslu og uppgjörs hlutafjárkaupa. Lánsfjárhæðinni var ráðstafað inn á vörslureikning stefnda (329-26-446731).
Til útskýringar á aðild sinni að málinu vísar stefnandi til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnanda Arion banka hf. Réttindi og skyldur samkvæmt lánssamningi Kaupþings og stefnda, þ.m.t. veðréttindi sem honum tengjast og síðari viðaukar, hafi þar með verið framseld til stefnanda.
Stefndi var starfsmaður Kaupþings banka hf. frá árinu 1999. Upphaflega starfaði hann í fyrirtækjaráðgjöf bankans en frá árinu 2001 gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra á eignastýringarsviði bankans. Allt frá skráningu hlutabréfa bankans á Verðbréfaþingi Íslands hf. árið 2000 keypti stefndi hlutabréf í bankanum, fyrst með fjármögnun frá öðrum fjármálafyrirtækjum en síðar með lánveitingum frá bankanum sjálfum.
Forsaga lánveitinga Kaupþings til starfsmanna til kaupa á hlutabréfum í bankanum er rakin í greinargerð stefnda. Þ.ám. það að við undirbúning að skráningu hlutabréfa Kaupþings á Verðbréfaþingi Íslands árið 2000 hafi komið fram að eignarhlutdeild starfsmanna í bankanum var eitt af yfirlýstum markmiðum með skráningunni. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að á aðalfundi bankans 27. mars 2004 var samþykkt tillaga stjórnar bankans um að kaup- og söluréttir til starfsmanna gætu á hverjum tíma numið allt að 9% af heildarhlutafé bankans. Fram kom að bankinn hefði, í þeim tilgangi að halda í lykilstarfsmenn og laða til sín nýja, gert starfsmönnum kleift að kaup hluti í bankanum. Þannig hefði bankinn gefið út kauprétt, boðið lán í samræmi við almennar reglur til að fjármagna kaup og í sumum tilvikum gefið út sölurétt á selda hluti.
Árið 2005 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við það að kaup starfsmanna á hlutabréfum í bankanum væru fjármögnuð af öðrum bönkum en Kaupþingi hf. Á fundi stjórnar bankans þann 28. september 2005 samþykkti stjórnin að bankinn myndi eftirleiðis annast lánveitingar vegna hlutabréfakaupanna. Jafnframt var samþykkt að leitað yrði leiða til að takmarka skaða starfsmanna ef virði hlutabréfanna myndi lækka.
Verður nú vikið nánar að helstu ákvæðum lánssamningsins sem stefndi og Kaupþing gerðu með sér 9. febrúar 2006. Eins og áður sagði nam fjárhæð þess 150.000.000 króna og samkvæmt grein 2.4 í samningnum skuldbatt stefndi sig til að endurgreiða það ásamt ógreiddum áföllnum vöxtum með einni greiðslu þann 1. desember 2010, sbr. þó fyrirvara í greinum 2.6, 2.7 og 2.8 um heimild lántaka til að greiða lánið hraðar eða að fullu fyrir samningsbundinn gjalddaga, um að lánið félli í gjalddaga léti stefndi af störfum og um heimild til að greiða lánið upp fyrir gjalddaga við andlát starfsmanns eða óvinnufærni.
Samkvæmt 5. kafla um „TRYGGINGAR“ setti stefndi bankanum að handveði hluti í Kaupþingi að nafnverði 1.162.929 krónur, sbr. gr. 5.1 samningsins og handveðsyfirlýsingu, dags. 1. desember 2005, en aðilar gerðu síðar tvívegis með sér samninga um viðauka við handveðssamninginn að beiðni stefnda. Annars vegar 27. nóvember 2006, þar sem sú breyting var gerð á efni handveðssamningsins að fjöldi veðsettra hluta varð 1.402.929, og hins vegar 17. janúar 2008 þegar fjöldi handveðsettra hluta varð alls 402.929. Samkvæmt grein 5.2 skyldi veðhlutfall samningsins, þ.e. markaðsverðmæti trygginga skv. gr. 5.1 deilt með eftirstöðvum skuldarinnar á hverjum tíma vera að lágmarki 150%. Færi veðhlutfallið niður fyrir 120% og slíkt myndi vara í a.m.k. fimm bankadaga samfleytt, skyldi lántaki að fenginni tilkynningu bankans leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið næði aftur 150%. Viðbótartryggingin skyldi lögð fram innan fimm bankadaga frá því tilkynning var send lántaka.
Samkvæmt gr. 6.1 lánssamningsins var persónuleg ábyrgð stefnda á skuldinni takmörkuð við 10%. Nánar tiltekið var kveðið á um það í greininni að ábyrgð lántaka takmarkaðist við „andvirði handveðsins og hvers kyns viðbótartrygginga sem hann kann að leggja fram í samræmi við ákvæði 5. gr.“, en auk þess skyldi lántaki „bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún er á hverjum tíma með öðrum eignum sínum“. Í grein 6.2. er kveðið á um að komi til vanefnda, sbr. 9. gr., sem fjallar um „UPPSÖGN LÁNSSAMNINGS“, geti lánveitandi því eingöngu leitað fullnustu í handveðinu og þeim viðbótartryggingum sem lántaki kunni að leggja fram, sbr. 5. gr., og þar að auki geti lánveitandi innheimt 10% skuldarinnar með því að leita fullnustu í öðrum eignum. Að öðru leyti beri lántaki ekki ábyrgð á greiðslu skuldarinnar með öðrum eignum en handveðinu.
Á stjórnarfundi í Kaupþingi þann 25. og 26. september 2008 samþykkti stjórn bankans, á grundvelli tillögu frá starfskjaranefnd bankans, að veita bankastjóranum Hreiðari Má Sigurðssyni heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutabréfakaupalán starfsmanna. Í ákvörðuninni segir m.a. í íslenskri þýðingu: „Sú staðreynd að bankinn hefur lagt áherslu á að lykilstarfsmenn eigi hlutabréf til lengri tíma hefur í raun takmarkað mögulega þeirra til að selja hlutabréf í þeim tilgangi að draga úr persónulegri áhættu. Að tillögu launanefndar hefur stjórnin samþykkti að veita Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra, leyfi til að fella úr gildi persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna allra lána sem þeir hafa fengið til hlutabréfakaupa í þeim tilgangi að tryggja að þeir geti einbeitt sér að því að sinna skyldum sínum fyrir bankann. Ábyrgð starfsmanna skal takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði.“
Í málinu liggur einnig fyrir yfirlýsing, dagsett 25. september 2008. Hún ber yfirskriftina „Declaration to Þórarinn Sveinsson“ og er undirrituð af Hreiðari Má Sigurðssyni og stefnda. Hún hljóðar svo í íslenskri þýðingu: „Kaupþing banki, kt. 560882-0419, hefur ákveðið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð þína vegna hlutafjárkaupalána þinna varðandi kaup á hlutabréfum í Kaupþingi. Ábyrgð þín takmarkast við hlutabréf í Kaupþingi sem sett voru sem veð.“
Vegna falls íslenska bankakerfisins í októbermánuði 2008 urðu hlutabréfin í Kaupþingi verðlaus.
Með bréfi, dagsettu 17. maí 2010, tilkynnti stefnandi stefnda að stefnandi teldi að veðtryggingar lánssamningsins, þ.e. hlutabréf í Kaupþingi, væru ófullnægjandi miðað við verðmæti þeirra og raunar einskis virði. Því væri áskilnaður greinar 5.2 lánssamningsins um 150% veðhlutfall ekki uppfylltur. Þess var farið á leit að stefndi legði fram nýjar tryggingar að verðmæti a.m.k. 150% af útistandandi lánsfjárhæð innan 5 bankadaga. Jafnframt var vísað til gr. 9.1 d) í lánssamningi aðila. Í ákvæðinu segir að ef lántaki leggur ekki fram viðbótartryggingar innan tilskilins frests skv. 5. gr. samnings þessa, tryggingar/ábyrgðir að bakinu láninu eru ekki lengur fullnægjandi að mati bankans, eða lántaki brýtur gegn ákvæðum handveðsyfirlýsinga sem gefnar eru út í tengslum við samning þennan sé bankanum heimilt að segja öllu láninu upp einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Einnig var vísað í grein 2.7 um að lánið gjaldfélli 1. virka dag næsta mánaðar eftir að lántaki léti af störfum hjá Kaupþingi. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að yrði stefndi ekki við framangreindri áskorun mætti búast við að stefnandi gjaldfelldi alla lánsfjárhæðina án frekari fyrirvara og gerði ráðstafanir til innheimtu kröfunnar í samræmi við ábyrgð stefnda samkvæmt 6. gr. samningsins.
Með tölvubréfum 19. og 20. maí 2010 óskaði stefndi eftir fresti til að leita samkomulags um uppgjör samningsins. Þar sem engar frekari tryggingar voru lagðar fram af hálfu stefnda tilkynnti stefndi með bréfi til stefnanda, dagsettu 26. ágúst 2010, að lánssamningurinn væri gjaldfelldur. Ábyrgðarbréfið var afhent 30. ágúst 2010 og er gjaldfellingin miðuð við þann dag af hálfu stefnanda.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að umdeilt lán hafi ekki verið nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Þann 14. nóvember 2006 hafi hann keypt 300.000 hluti í bankanum og enn fremur þann 22. og 23. nóvember 2006 þegar hann keypti samtals 240.000 hluti. Það liggi því fyrir að umrætt lán hafi verið notað til að fjármagna hlutabréfakaup stefnda.
Stefndi lýsir því í greinargerð að í kjölfar þess að hlutabréf bankans tóku að lækka í septembermánuði 2008 hafi hann óskað eftir því við regluvörð Kaupþings að fá að selja 400.000 hluti í bankanum, m.a. í því skyni að greiða upp lánið sem um er deilt í máli þessu. Heimild til sölunnar hafi verið veitt af regluverði bankans þann sama dag eða nánar tiltekið 30. september 2008. Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur frá stefnda til regluvarðar 30. september 2008 þar sem stefndi spyr: „Ætlar þú að gefa mér heimild til að selja allt að 400.000 bréf í Kaupþingi.“ Svar barst frá regluverði sama dag sem er svohljóðandi: „Heimild veitt að því gefnu að þú hafir átt þessa hluti í 3 mán eða lengur. Gildir í dag.“ Stefndi heldur því fram að eftir að hann fékk þessa heimild til sölu hafi æðstu stjórnendur bankans farið þess á leit við hann að hann seldi ekki hlutina. Fyrrgreind tölvuskeyti stefnda og regluvarðar stefnda 30. september 2008 voru framsend 19. maí 2010 af starfsmanni stefnanda, Ólöfu Emblu Einarsdóttur,, til stefnda. Í skeyti hennar segir að í hennar gögnum sé ekki að finna nein viðbrögð frá yfirstjórn en Ingólfur hafi á sínum tíma fengið upplýsingar um beiðnir starfsmanna um umfangsmikil viðskipti með KAUP (þ. á m. um þessa beiðni).
Stefndi segir að í þessum viðræðum við stjórnendur hafi honum verið kynnt að stjórn bankans hefði á stjórnarfundi 25. og 26. september 2008 samþykkt að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna af lánum bankans sem tryggð voru með veði í hlutabréfum bankans. Í framhaldinu hafi honum verið látin í té yfirlýsing um niðurfellingu persónulegu ábyrgðarinnar. Í ljósi þessa og í trausti þess að áhætta af viðskiptunum væri fallin niður hafi stefndi samþykkt að selja ekki hlutina.
Stefndi krefst aðallega sýknu á grundvelli þess að með fyrrgreindri yfirlýsingu Kaupþings 25. september 2008 hafi persónulega ábyrgð hans á 10% af lánsfjárhæðinni samkvæmt 6. gr. lánssamningsins fallið niður. Krafa hans um sýknu er einnig reist á kröfu um skuldajöfnuð við skaðabótakröfu sína á hendur stefnanda og forsendubresti. Krafa stefnda um sýknu, og til vara um lækkun, er byggð á því að samningurinn sé bersýnilega ósanngjarn og andstæður viðskiptavenju, eins og nánar verður vikið að í kafla III hér á eftir.
II
Eins og áður sagði er krafa stefnanda samkvæmt lánssamningnum byggð á þeirri málsástæðu að lánsfjárhæðin, 150.000.000 króna, hafi aldrei verið nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, eins lánssamningurinn hafi ráðgert, heldur hafi fjármununum verið ráðstafað inn á vörslureikning stefnda. Stefnandi telur að þar sem láninu hafi að sönnu ekki verið ráðstafað til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi þá hafi niðurfelling Kaupþings á persónulegum ábyrgðum starfsmanna vegna lána til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi ekki náð til þess láns sem stefnandi krefur stefnda um. Af þessum sökum hafi láninu verið ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf.
Stefnandi bendir á að fyrir liggi að persónuleg ábyrgð stefnda samkvæmt lánssamningnum hafi verið bundin við 10%, sbr. nánar gr. 6.1 lánssamningsins. Af því leiði jafnframt, að mati stefnanda, að ábyrgð stefnda sé takmörkuð við 10% af þeirri lánsfjárhæð sem ráðstafað hafi verið til stefnanda með umræddri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Stefndi sé því krafinn um 10% af gjaldfallinni samningsfjárhæð ásamt áföllnum samningsvöxtum eða sem svari til persónulegrar ábyrgðar hans á lánsskuldinni samkvæmt gr. 6.1 lánssamningsins.
Þá byggir stefnandi á því að um gjaldfallna skuldbindingu sé að ræða. Þar sem stefndi hafi ekki orðið við kröfum stefnanda um framlagningu frekari trygginga, sbr. kröfu stefnanda þar að lútandi hinn 17. maí 2010 með vísan til gr. 5.2 í lánssamningum, hafi stefnanda verið heimilt að gjaldfella útistandandi lánsskuldbindingu, sbr. bréf stefnanda hér að lútandi til stefnda, dags. 26. ágúst 2010, sbr. og gr. 9.1 d) í lánssamningnum. Skuldbinding stefnda sé því að lögum fallin í gjalddaga. Varðandi efndir á lánsskuldbindingu er einkum vísað til meginreglu samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga.
Upphaflegar dómkröfur stefnanda voru í erlendri mynt, þ.e. CHF og JPY, þar sem stefnandi byggði á því að um erlenda lánsskuldbindingu hefði verið að ræða á gjaldfellingardegi vegna myntbreytinga á láninu er átt höfðu sér stað samkvæmt 4. gr. að beiðni stefnda árin 2006 og 2009. Eins og áður sagði lagði stefnandi hins vegar fram undir rekstri málsins endurútreikning á láninu með vísan til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Í samræmi við það krefur stefnandi stefnda nú um höfuðstól lánsskuldbindingarinnar í íslenskum krónum auk óverðtryggðra vaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands frá lántökudegi að gjalddaga, og frá höfuðstól og áföllnum vöxtum eru dregnar þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar, sbr. nánar 4., 10. og 1., 3. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Þessar breytingar stefnanda á kröfugerð, og málsástæðum sem henni liggja til grundvallar, voru settar fram með samþykki stefnda.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af skuldinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafstími dráttarvaxta miðast við gjalddaga lánsins, sbr. heimild í 3. gr. lánssamningsins, þ.e. þann 30. ágúst 2010, en þá var skuldin gjaldfelld sem fyrr greinir.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
III
Stefndi mótmælir því að umdeilt lán hafi ekki verið nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Stefndi segir að eftir fyrrgreindar breytingar á fjármögnun hlutabréfakaupa starfsmanna bankans árið 2005, eða þann 1. desember 2005, hafi stefndi átt 1.162.929 hluti í bankanum. Þeir hafi verið fjármagnaðir að hluta með láni frá bankanum en að hluta með eigin fé stefnda. Auk þessara hluta hafi stefndi átt 300.000 hluti í bankanum sem hann kveðst hafa eignast með því að nýta kauprétt á hlutabréfum sem hann hafði fengið sem starfsmaður bankans. Þessir hlutir hafi ekki verið tengdir fjármögnuninni þar sem fyrir hafi legið að stefndi þyrfti að selja þá hluti á árinu 2006 til þess að mæta skattgreiðslum sem féllu á hann vegna innlausnar á kauprétti vegna þessara hlutabréfa.
Með lánssamningnum 9. febrúar 2006 hafi Kaupþing banki veitt stefnda viðbótarlán að fjárhæð 150.000.000 króna. Í samræmi við ákvæði samningsins um að lánið væri veitt til að fjármagna hlutabréfakaup hafi verið settir að veði til tryggingar láninu áður greindir 1.162.929 hlutir sem stefndi hafði keypt í Kaupþingi. Stefndi bendir á að þegar lánið var veitt hafi markaðsvirði þeirra 1.162.929 hluta sem stefndi átti í bankanum verið 1.151.299.710 krónur. Með þessari viðbótarfjármögnun hafi lán frá bankanum með veðtryggingu í hlutabréfunum numið u.þ.b. 700.000.000 króna. Tryggingaþekjan hafi því verið yfir þeim 150% mörkum sem lánssamningar hafi gert ráð fyrir. Stefndi hafi aukið við hlut sinn í bankanum 14. nóvember 2006 þegar hann hafi keypt 300.000 hluti í bankanum og aftur 22. og 23. nóvember 2006 þegar hann hafi keypt samtals 240.000 hluti. Það liggi því fyrir að umrætt lán hafi verið notað til að fjármagna hlutabréfakaup stefnda.
Stefndi kveðst í ágúst 2007 hafa selt 900.000 hluti í bankanum og notað söluandvirðið til þess að greiða upp öll lán bankans, önnur en það lán sem um er deilt í þessu máli, sem voru með veðtryggingu í hlutabréfum í bankanum. Eftir söluna hafi hann samtals átt 826.071 hlut í bankanum sem hafi enn verið í eigu hans við fall bankans í októbermánuði 2008.
Kröfur stefnda um sýknu byggjast aðallega á því að með yfirlýsingunni sem Kaupþing hafi gefið út þann 25. september 2008 hafi persónuleg ábyrgð stefnda á 10% af lánsfjárhæðinni, skv. 6. kafla lánasamningsins, fallið niður. Stefndi hafði óskað eftir því að fá heimild regluvarðar bankans til þess að selja hlutabréf í því skyni að greiða upp lánið. Þegar hann hafi ætlað að selja hlutabréfin hafi honum verið tilkynnt að bankinn ætlaði að gefa út yfirlýsingu um að hin persónulega ábyrgð á lánssamningnum myndi falla niður ef hann seldi ekki bréfin. Á grundvelli þessa tilboðs hafi stefndi samþykkt að selja ekki hlutabréfin.
Ef ekki verður fallist á að krafa um persónulega ábyrgð stefnda á láninu hafi fallið niður með útgáfu yfirlýsingar bankans er á því byggt að bankinn og stjórnendur hans hafi valdið stefnda skaðbótaskyldu tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Fyrir liggi að stefndi hafði óskað eftir því að selja hluti í bankanum til þess að greiða lánið upp. Bankinn hafi komið í veg fyrir þau áform með því að gefa út umrædda yfirlýsingu um niðurfellingu ábyrgðarinnar. Ef yfirlýsing bankans verður á einhvern hátt metin óskuldbindandi fyrir stefnanda liggi fyrir að hún hefur verið gefin út og notuð í lögskiptum með saknæmum hætti. Tjón stefnda vegna þessa nemi þeirri kröfu sem beint er að honum í þessu máli. Stefndi krefst þess að skaðabótakrafan vegna tjónsins komi til skuldajafnaðar við kröfu bankans.
Á framlögðu yfirliti um þróun á markaðsvirði hlutabréfa í Kaupþingi sem byggt sé á heimildum frá Fjármálaeftirlitinu megi sjá að í lok árs 2005 og á fyrstu mánuðum ársins 2006 hafi verð hlutabréfa í bankanum hækkað verulega. Verðið hafi náð hámarki í febrúar 2006 en síðan farið lækkandi mánuðina á eftir vegna hinnar svokölluðu minni bankakreppu á Ísland. Verðið hafi haldist lágt fram eftir ágústmánuði en síðan farið hækkandi eftir það og hækkað síðan fram yfir ármótin 2006/2007. Upp úr miðju ári 2007 hafi verð bréfanna náð hámarki en síðan farið lækkandi vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum bæði á Íslandi og erlendis í kjölfar lausafjárkreppu sem ríkti á mörkuðum og íslenski markaðurinn hafi ekki farið varhluta af. Vegna falls íslenska bankakerfisins í októbermánuði 2008 urðu hlutabréfin í Kaupþingi verðlaus. Þannig liggi fyrir að markaðsvirði hlutanna sem stefndi átti þann 30. september 2008 hafi verið umtalsvert hærra en það lán sem hann er krafinn um greiðslu á í þessu máli. Gengi hluta í Kaupþingi hafi á þeim degi verið 692 og stefndi hafi átt 826.071 hlut í bankanum. Markaðsvirði hlutanna hafi því verið 571.641.132 krónur. Stefndi hefði því getað komið í veg fyrir það tjón sem hann varð fyrir vegna þess að hlutabréfin í Kaupþingi urðu seinna verðlaus.
Stefndi byggir enn fremur á því að forsendur lánssamningsins um ábyrgð stefnda á 10% hluta lánsins hafi brostið þar sem hann hafi verið fenginn til að falla frá sölu hlutabréfa í þeim tilgangi að borga upp lánið. Fyrir liggi að forsendur lánveitinga til starfsmanna bankans hafi verið að þær hefðu ekki í för með sér mikla áhættu fyrir starfsmennina og að þeir myndu geta selt hlutabréfin til þess að koma í veg fyrir eða a.m.k. takmarka tjón þegar tryggingaþekjan fór niður fyrir 120%. Það hafi verið regla hjá bankanum og í samræmi við ákvæði lánssamningsins að hlutir yrðu seldir ef tryggingaþekja færi undir skilgreind mörk í lánssamningum aðila.
Loks er á því byggt að fella beri ábyrgðina niður eða a.m.k. lækka hana á grundvelli þess að samningurinn sé bersýnilega ósanngjarn og andstæður viðskiptavenju þegar litið er til atvika málsins, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Til stuðnings þessu vísar stefndi til undirliggjandi forsendna lánveitinganna um að draga skyldi úr áhættu starfsmanna og yfirlýsingarinnar sem hafi verið gefin til að koma í veg fyrir sölu stefnda á hlutabréfum í septembermánuði 2008. Einnig er byggt á því að það sé óheiðarlegt af stefnanda að bera fyrir sig efni lánssamningsins um persónulegu ábyrgðina í ljósi atvika málsins skv. 33. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi styður kröfur sínar við meginreglur kröfuréttar og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. og 36. gr. þeirra laga. Skaðabótakrafa stefnda byggist á sakarreglunni. Málskostnaðarkrafan styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Eins og fram hefur komið er krafa stefnanda byggð á þeirri staðhæfingu hans að lánið sem hér er deilt um hafi ekki verið nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi eins og ráðgert hafi verið í lánssamningnum heldur hafi fjárhæð lánsins verið ráðstafað inn á vörslureikning stefnda. Stefndi hafi því fengið lánið greitt til frjálsrar ráðstöfunar. Fyrir vikið taki niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar samkvæmt ákvörðun stjórnar Kaupþings 25. september 2008 ekki til lánsins. Ekki er deilt um að yfirlýsingin var veitt vegna þess lánssamnings sem dómkröfur stefnanda eru reistar á. Við flutning málsins mótmælti stefnandi því enn fremur að stefndi hefði ætlað að greiða upp þetta lán. Hann hefði ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings og því væri það ósannað. Stefnandi mótmælti einnig skuldajafnaðarkröfu stefnda sem vanreifaðri. Einnig mótmælti stefndi því að nokkrar forsendur væru til sýknu vegna ósanngirni eða óheiðarleika.
Stefndi gaf skýrslu fyrir dómi sem og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. Við aðalmeðferð lagði stefndi einnig fram endurrit skýrslna úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness frá 17. maí 2011 í máli nr. E-1906/2010, Kaupþing banki hf. gegn Halldóri B. Hreinssyni, sem teknar voru af Hreiðari Má Sigurðssyni og fyrrverandi stjórnarmönnum Kaupþings Ásgeiri Thoroddsen og Gunnari Páli Pálssyni. Stefnandi gerði ekki athugasemdir við framlagningu skýrslnanna en lýsti því yfir við flutning málsins að vitnisburðurinn í þeim hefði ekki þýðingu í þessu máli.
Stefndi bar fyrir dóminum að tilgangurinn með gerð lánssamningsins 9. febrúar 2006 hefði verið að kaupa hlutabréf í Kaupþingi. Hins vegar hefði á þeim tíma ekki verið hagstætt að kaupa sökum blika sem hefðu verið á lofti en skuldaálög hefðu verið byrjuð að þokast upp. Hann hefði því ekki keypt hlutabréf strax við gerð lánssamningsins 9. febrúar 2006 heldur frestað kaupum. Hann lýsti aðdraganda að samkomulaginu sem hann byggir á að hann hafi gert við forstjóra Kaupþings, sbr. fyrrgreinda yfirlýsingu forstjórans til stefnda, dagsetta 25. september 2008. Stefndi sagði að hlutabréfin hefðu verið að lækka og honum hefði virst að þau væru að fara niður fyrir 120% veðhlutfallið samkvæmt lánssamningnum. Hann hefði því haldið að bankinn myndi senda hótun um að hann tæki bréfin en ljóst hefði verið þegar stefndi hefði selt hlutabréf 2007 að hann ætlaði ekki að leggja fram frekari tryggingar. Þetta ákvæði í lánssamningnum um auknar tryggingar færi veðhlutfall niður fyrir 120% verndaði í raun báða aðila þar sem hægt væri að koma í veg fyrir frekara tap. Hann hefði rætt þetta við yfirmann sinn Ingólf Helgason, forstjóra á Íslandi, og þá hefði verið útskýrt fyrir honum að stjórnin hefði tekið ákvörðun um að ganga ekki að bréfum starfsmanna. Stefndi hefði bent á að þetta væri til verndar viðskiptamönnum og ef hann færi fram á að selja hlyti hann að fá að gera það. Hann hefði því sótt um leyfi til að selja bréfin. Þegar hann hefði verið kominn með heimild hefði hann hringt í miðlara til að selja bréfin og þá hefði miðlarinn spurt hann hvort hann vildi ekki tala betur um þetta við yfirlögfræðinginn, Ingólf og starfsmannastjóra. Þá hefði farið af stað ákveðið ferli og yfirlýsingin frá 25. september 2008 verið gefin út. Stefndi kvaðst hafa getað fallist á þennan viðauka við lánssamninginn. Hann hefði tekið ákvörðun um að treysta á þennan viðauka við samninginn enda hefðu menn, þ. á m. lögmenn, talið þetta gilda stjórnarákvörðun. Hann hefði m.ö.o. ákveðið að treysta þessari yfirlýsingu. Hann hefði talið sig jafnsettan hvorn kostinn sem hann veldi enda hefði hann þá séð fram á að bankinn færi í gegnum erfiðleikana sem síðan hefði ekki orðið raunin eftir atburðina 6. október 2008.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, staðfesti undirritun sína á yfirlýsingunni frá 25. september 2008. Aðdragandi gerðar hennar hefði verið fall Lehman Brothers 15. september. Hann sagði að erfitt hefði verið fyrir bankann ef starfsmenn hefðu selt í miklum mæli. Í stað þess að heimila starfsmönnum að selja, og til að vernda þá, hefði þetta verið ákveðið. Það var borið undir vitnið að stefnandi haldi því fram að umdeilt lán væri ekki til hlutabréfakaupa heldur þekjulán og hvort stjórn hefði gert greinarmun á þessum tveimur tegundum lána. Vitnið sagði að hann hefði ekki heyrt um að gera ætti slíkan greinarmun fyrr en eftir fall bankans. Þetta væri „eftir á skýring“. Vitnið sagði að yfirlýsing hans hefði átt við þetta lán stefnda. Þetta hefði verið gert vegna þess að bankinn hefði ekki viljað að starfsmenn seldu bréfin. Það hefði aldrei verið gerður greinarmunur á þessum tegundum lána. Ástæðan hefði verið sú að stjórn bankans hefði ekki viljað að starfsmenn seldu bréfin. Bankinn hefði neitað þeim um sölu.
Fyrir liggur, eins og stefnandi heldur fram, að andvirði lánsins var lagt inn á vörslureikning í eigu stefnda sama dag og lánssamningur var gerður, þ.e. 9. febrúar 2006, en hafi ekki samstundis verið varið til hlutabréfakaupa í Kaupþingi heldur fóru fjármunirnir inn á eignastýringarreikning stefnda hjá Kaupþingi. Á hinn bóginn sanna framlögð gögn einnig þá staðhæfingu stefnda að hann keypti síðar á sama ári hluti í Kaupþingi. Nánar tiltekið keypti hann 300.000 hluti 14. nóvember 2006 að andvirði um 250 milljónir króna og aftur 22. og 23. nóvember sama ár samtals 240.000 hluti að andvirði um 190 milljónir króna. Þá liggur fyrir samkvæmt viðauka, dagsettum 27. nóvember 2006, við upprunalega handveðssamninginn frá 1. desember 2005, sem vísað var til í grein 5.2 í lánssamningnum, að fjöldi veðsettra hluta var hækkaður í 1.402.929 hluti í stað 1.162.929 hluta áður. Með vísan til þessa þykir sýnt fram á að stefndi hafi nýtt umrætt lán frá Kaupþingi til fjármögnunar hlutafjárkaupa í samræmi við lánssamninginn. Þykir ekki skipta neinu máli að kaupin fóru ekki fram um leið og lánsfjárhæðin var greidd út heldur síðar á árinu enda hefur stefndi gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna hann kaus að hinkra með kaupin.
Fyrrgreind yfirlýsing Hreiðars Más Sigurðssonar, þáverandi forstjóra Kaupþings, dagsett 25. september 2008, er eins og áður sagði einnig undirrituð af stefnda. Með yfirlýsingunni lýsti forstjóri Kaupþings því yfir að bankinn hefði ákveðið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð stefnda vegna hlutafjárkaupalána hans varðandi kaup á hlutabréfum í Kaupþingi og að ábyrgð stefnda takmarkaðist við hlutabréf í Kaupþingi sem sett höfðu verið sem veð. Óumdeilt er að yfirlýsing þáverandi forstjóra Kaupþings var gefin út vegna þessa láns sem hér er krafist greiðslu á og að bankinn átti enga aðra kröfur á hendur stefnanda vegna hlutabréfakaupa. Þá styðja fyrrgreind skeytasamskipti milli stefnda og regluvarðar Kaupþings frá 30. september 2008 þann framburð hans að hann hafi á þeim tíma haft í hyggju að selja hlutabréf í Kaupþingi í því skyni að greiða upp lánið samkvæmt lánssamningnum og verið búinn að fá samþykki regluvarðar fyrir sölu bréfanna. Þegar horft er til þess, orðalags yfirlýsingar og að teknu tilliti til framanritaðs framburðar Hreiðars Más Sigurðssonar þykir ljóst að það hafi verið sameiginlegur skilningur beggja aðila hennar, þ.e. þáverandi forstjóra og stefnda, að yfirlýsingin tæki til ábyrgar stefnda samkvæmt lánssamningnum frá 9. febrúar 2006.
Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að með yfirlýsingunni frá 25. september 2008 hafi komist á skuldbindandi samningur milli Kaupþings og stefnda um að Kaupþing felldi niður persónulega ábyrgð hans á 10% skuldarinnar samkvæmt grein 6.1a lánssamningsins frá 9. febrúar 2006. Stefndi er því sýknaður af kröfu stefnanda. Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem eftir atvikum og umfangi málsins þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.
Vegna anna dómara dróst uppkvaðning dómsins fram fyrir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en hvorki dómari né aðilar töldu þörf á að flytja það að nýju.
Af hálfu stefnanda flutti málið Þóra Jónsdóttir hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Sigurðsson hrl.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Þórarinn Sveinsson, er sýknaður af kröfu stefnanda, Arion banka hf.
Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.