Hæstiréttur íslands
Mál nr. 87/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Ómerking
- Dómsuppkvaðning
|
|
Mánudaginn 20. febrúar 2006. |
|
Nr. 87/2006. |
Aldís Pálsdóttir(Valborg Þ. Snævarr hrl.) gegn Óla Pétri Gunnarssyni (enginn) |
Kærumál. Ómerking. Dómsuppkvaðning.
Úrskurður héraðsdóms var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu úrskurðar að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. janúar 2006, þar sem annars vegar var staðfest sú ákvörðun skiptastjóra að sóknaraðili haldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæði að Litlu-Sandvík og hins vegar hafnað að svo stöddu kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði borinn út úr sama íbúðarhúsnæði. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík. Að öðru leyti krefst sóknaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands 20. júní 2005. Samkvæmt endurriti úr þingbók dómsins var það munnlega flutt 5. desember 2005 og tekið til úrskurðar. Hinn kærði úrskurður var sem fyrr segir kveðinn upp 23. janúar 2006, en ekki var þá sótt þing af hálfu málsaðila. Á síðastnefndum degi var liðinn frestur samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, til að kveða upp úrskurð í málinu án þess að það yrði munnlega flutt á ný eða aðilar þess og héraðsdómari væru samdóma um að það væri óþarft. Ekkert liggur fyrir í málinu um að aðilarnir hafi lýst slíku yfir. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar á ný.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar á ný.
Kærumálskostnaður fellur niður.