Hæstiréttur íslands
Mál nr. 610/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Fjarskipti
- Símahlerun
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2014. |
|
Nr. 610/2014.
|
Lögreglustjórinn á Selfossi (Gunnar Örn Jónsson settur lögreglustjóri) gegn X (enginn) |
Kærumál. Rannsókn. Fjarskipti. Símahlerun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um heimild til að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við tvö tilgreind símanúmer á nánar tilgreindu tímabili, og eftir atvikum önnur símanúmer sem X kynni að hafa umráð yfir, með skírskotun til þess að skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væru ekki fyrir hendi í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. september 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fjarskiptafyrirtækjum yrði gert að heimila sóknaraðila „í þágu rannsóknar opinbers máls að hlusta á og taka upp símtöl og skilaboð í talhólf við símanúmerin [...] og [...] sem og aðra síma sem [varnaraðili] kann að hafa umráð yfir, frá úrskurðardegi og í allt að fjórar vikur þaðan í frá.“ Þá var þess krafist að heimildin næði til þess að „skrá í hvaða númer er hringt og úr hvaða númeri er hringt og að sú heimild nái tvær vikur aftur í tímann frá úrskurðardegi að telja“ sem og að afrita textaskilaboð sem send væru úr og bærust í ofangreind símanúmer eða aðra síma sem varnaraðili hefði umráð yfir. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki átt kost á að láta málið til sín taka, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.
Fallist er á með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að ætluð brot varnaraðila, sem til rannsóknar eru, geti að lögum varðað allt að átta ára fangelsi eins og áskilið er í 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Eins og ráðið verður af athugasemdum með frumvarpi til laganna er með skilyrðinu í 2. mgr. 83. gr. um að ríkir almannahagsmunir geti réttlætt það að gripið verði til aðgerða á borð við símahlustun samkvæmt 81. gr. laganna vísað til annarra samfélagslegra hagsmuna en einvörðungu þeirra að brot séu upplýst, sbr. dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2014 í máli nr. 101/2014. Í ljósi þessa og að virtum rannsóknargögnum málsins er staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að ekki séu fyrir hendi skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Verður hann því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. september 2014.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur í dag krafist þess að fjarskiptafyrirtækjum verði með úrskurði gert að heimila lögreglunni á Selfossi í þágu rannsóknar opinbers máls að hlusta á og taka upp símtöl og skilaboð í talhólf við símanúmerin [...] og [...] sem og aðra síma sem X, kt. [...] kann að hafa umráð yfir, frá úrskurðardegi og í allt að fjórar vikur þaðan í frá. Þess er jafnframt óskað að heimildin nái til þess að skrá í hvaða númer er hringt og úr hvaða númeri er hringt og sú heimild nái tvær vikur aftur í tímann frá úrskurðardegi að telja. Ennfremur er farið fram á að heimilt verði að afrita SMS skilaboð sem send eru úr og berast í ofangreind símanúmer, sem og aðra síma sem hinn grunaði aðili kann að hafa umráð yfir.
Krafan var tekin fyrir á dómþingi í dag og kom settur lögreglustjóri fyrir dóminn og gerði grein fyrir henni.
Krafan var, að beiðni lögreglustjóra, tekin fyrir á dómþingi án þess að sá sem hún beinist að væri kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Í greinargerð lögreglustjóra með kröfunni segir að um langa hríð hafi lögreglu borist ítrekaðar ábendingar um að ofangreindur aðili standi fyrir sölu og dreifingu fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Selfossi, m.a. frá heimili sínu að [...] á [...]. Margoft hafi verið höfð afskipti af X vegna fíkniefnatengdra mála á síðustu tveimur árum svo sem rakið sé í rannsóknargögnum lögreglu. Þá hafi lögregla jafnframt um skeið haft eftirgrennslan með heimili hans og haft afskipti af aðilum er komi þaðan. Þau afskipti lögreglu veki sterkan grun um að sala fíkniefna fari fram á heimili X.
Þá hafi X sætt eftirliti lögreglu um nokkurn tíma og hafi lögregla fylgst með ferðum hans. M.a. hafi komið í ljós að X fari oft hjólandi eða gangandi um göngustíg á milli [...] og [...] á [...]. Þá hafi lögregla séð hann fara inn á athafnasvæði við [...] á [...]. Samkvæmt upplýsingagjöfum lögreglu geymi X ekki mikið magn fíkniefna á heimili sínu af ótta við lögreglu.
Nú í nótt hafi lögreglan á Selfossi verið við leit á umræddum slóðum með fíkniefnaleitarhundi og hafi fundist á umræddri athafnalóð u.þ.b. 350 gr. af kannabisefnum falin undir tveimur gámum. Þar sem ekki sé hægt að koma við stöðugu eftirliti vegna staðsetningar og umhverfis hafi lögregla fjarlægt efnin með leynd. Ætla megi að eigendur efnanna komist að því í dag að þau hafi verið fjarlægð.
Upplýsingar lögreglu bendi sterklega til að sala og dreifing fíkniefna fari fram á vegum X á [...]. Þar fyrir utan telji lögregla fram kominn rökstuddan grun um að X hafi komið miklu magni fíkniefna fyrir á umræddu athafnasvæði, ætla megi að söluverðmæti umræddra efna sé á aðra milljón króna. M.v. það magn sem fundist hafi í nótt auk rannsóknargagna megi ætla að um umfangsmikla sölustarfsemi sé að ræða og að efnum sé dreift til fjölda aðila bæði á [...] og í nágrannasveitarfélögum.
X hafi margoft komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála sem og annarra mála og hafi hlotið fjölda refsidóma.
Vegna rannsóknar málsins sem sé yfirgripsmikil, á frumstigi og varði mjög alvarleg sakarefni, fari lögregla þess á leit að héraðsdómur heimili ofangreindar rannsóknaraðgerðir með úrskurði. Mjög mikilvægir almannahagsmunir séu fyrir því að upplýsa mál þetta eins og frekast sé kostur, m.a. um hugsanlega sölu og dreifingu fíkniefna, hverjir komi að sölu umræddra fíkniefna og hvernig henni sé háttað. Þá sé einnig nauðsynlegt að reyna að upplýsa um uppruna umræddra fíkniefna.
Umrædd brot geti varðað við ákvæði 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og geti varðað allt að 12 ára fangelsi ef sök sannist.
Lögreglustjóranum á Selfossi sé því nauðsyn á að fá nefndan úrskurð sbr. tilvitnuð lagaákvæði, enda sé full ástæða til þess að ætla að upplýsingar sem geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins, fáist með þessum hætti.
Um heimildir til rannsóknaraðgerðanna vísar lögreglustjóri til a liðar 1. mgr. 82. gr., sbr. 80. og 81. gr. laga nr. 88/2008.
Niðurstaða
Í 81. gr. laga nr. 88/2008 segir að með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. sé heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki ellegar við síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns. Með sömu skilyrðum er heimilt að leyfa lögreglu að fylgjast með eða taka upp fjarskipti með þar til gerðum búnaði.
Í 1. mgr. 83. gr. laganna segir að skilyrði fyrir aðgerðum skv. 80.82. gr. sé að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti. Þá segir í 2. mgr. 83. gr. laganna að auk þess sem segi í 1. mgr. verði þau skilyrði að vera fyrir hendi svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.
Það er þannig skilyrði þess að slíkar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar sem krafist er, að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.
Í greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargögnum kemur fram að lögregla hafi fundið og lagt hald á um 350 grömm af ætluðu kannabisefni, sem talið sé ætlað til sölu og dreifingar, auk þess að grunur lögreglu beinist að því að nefndur X hafi um nokkurt skeið stundað ótiltekna sölu slíkra efna.
Að virtri dómaframkvæmd þykir afar óvarlegt að slá því föstu að rannsókn lögreglu beinist að broti sem geti að lögum varðað allt að 8 ára fangelsi, sbr. ofangreind tilvitnuð lagaákvæði, sem og 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá þykir ekkert sérstakt hafa komið fram um það að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess að umræddar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar og er því ekki unnt að fallast á beiðni lögreglustjóra um það.
Verður skv. framansögðu kröfu lögreglustjóra í málinu hafnað.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu lögreglustjóra er hafnað.