Hæstiréttur íslands

Mál nr. 667/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 11. nóvember 2010.

Nr. 667/2009.

Sorpa bs.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Láru Magnúsdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón.

L féll fram af rampi á móttökustöð S fyrir úrgang er hún hugðist kasta sorpi í þar til gerðan gám. Krafðist L skaðabóta úr hendi S vegna tjóns sem hún varð við það. Laut deila aðila að því hvort lækka ætti bætur til L vegna eigin sakar hennar. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að um kröfur til fyrirkomulags og öryggis á móttökustöðvum S yrði að miða við að almenningi væri skylt að farga úrgangi þar og að viðskipavinum væri sjálfum ætlað að færa úrgang úr bifreiðum sínum, flokka hann og setja í viðeigandi gáma. Kröfur samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, væru lágmarkskröfur á stöðum sem þessum þar sem almenningi væri ætluð för auk starfsmanna. Þá segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að ekki hefðu verið sérstakar fallvarnir á rampinum þar sem slys L átti sér stað og að gulmálaður kantur meðfram brún hans hefði frekar verið til þess fallinn að auka líkur á slysi. Var ekki talið að L yrði gefin sök á slysinu og héraðsdómur staðfestur um bótaskyldu S. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dæmdri fjárhæð samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og að málskostnaður falli niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda varð fyrir slysi á athafnasvæði áfrýjanda við Dalveg 1 í Kópavogi 22. október 2005. Málvöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi viðurkennir bótaskyldu á því tjóni sem stefnda varð fyrir við slysið. Enginn tölulegur ágreiningur er í málinu en aðila greinir á um hvort lækka eigi bætur til stefndu vegna eigin sakar hennar.

Áfrýjandi rekur móttökustöðvar fyrir úrgang á höfuðborgarsvæðinu. Þær kröfur sem gera verður til fyrirkomulags og öryggis á þessum stöðvum verður að miða við að almenningi er skylt að farga úrgangi þar og viðskiptavinum er ætlað sjálfum að færa úrgang úr bifreiðum sínum, flokka hann og setja í viðeigandi gáma. Þá verður að miða við að kröfur samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum séu lágmarkskröfur á stöðum sem þessum þar sem almenningi er ætluð för auk starfsmanna.

Slysið 22. október 2005 varð með þeim hætti að stefnda, sem var að losa sorp úr bifreið sinni, féll niður af svonefndum rampi þegar hún gekk meðfram bifreiðinni með  rusl í fanginu. Á þeim stað er hún féll hafði gámur verið fjarlægður til losunar. Meðfram brún rampsins var 15 cm hár og 15 cm breiður gulmálaður steinsteyptur kantur en ekki voru sérstakar fallvarnir þar meðan á losun gáma stóð. Af myndum af vettvangi verður ráðið að breidd rampsins hafi ekki verið meiri en svo að fjarlægð á milli bifreiðar stefndu og gulmálaðs kantsins á brún rampsins hafi verið innan við einn metri, en þá leið þurfti stefnda að ganga til að losa sig við ruslið. Við þessar aðstæður verður að ætla að ruslið sem stefnda hélt á hafi byrgt henni sýn niður á við og hún því ekki séð gulmálaðan kantinn. Hann hafi því frekar verið til þess fallinn að auka líkur á slysi við að um hann yrði hrasað en að minnka þær. Þegar þetta er haft í huga verður stefndu ekki gefin sök á slysinu. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.    

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera órasakaður.

Áfrýjandi, Sorpa bs., greiði stefndu, Láru Magnúsdóttur, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. október sl., var höfðað með stefnu birtri 8. apríl 2009 af Láru Magnúsdóttur, Hlíðarvegi 4, Kópavogi, á hendur Sorpu bs., Gufunesi, Reykjavík og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6, Reykjavík, til réttargæslu, til heimtu skaðabóta, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi greiði stefnanda kr. 2.069.364 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 736.610 frá 22. október 2005 til 1. júlí 2007, en með dráttarvöxtum, af þeirri fjárhæð, skv. 1. mgr. 9. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og með vöxtum skv. 2. mgr. 8. gr. sömu laga, af kr. 1.331.754 frá 15. nóvember 2006 til 1. júlí 2007, en með dráttarvöxtum, af þeirri fjárhæð, skv. 1. mgr. 9. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum helmingi af greiðslu Tryggingastofnunar ríkisins (50%) kr. 299.208 sem innt var af hendi 25. september 2007. Þá er þess krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda.  Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, en í varakröfu að málskostnaður falli niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar dómkröfur í málinu.

I

Þann 22. október 2005 varð stefnandi, sem var að kasta sorpi, fyrir slysi á athafnasvæði stefnda, gámastöð Sorpu við Dalveg 1 í Kópavogi. Á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi kom í ljós að stefnandi var brotinn á vinstri ökkla og hægri sköflungi.  

Tildrögum slyssins er lýst þannig í skýrslu vinnueftirlitsins, dags. 22. okt. 2005, að þegar slysið varð var verið að skipta um gáma sem standa jafnan í ákveðnum stæðum við rampa sem ekið er uppá til að komast í þægilega hæð til að losa sorp í gámana. Meðfram rampanum frá plani upp skábrautina og allan hringinn ofan á rampanum er steyptur kantur sem er 0,15 m á hæð og 0,5 m á breidd. Fjarlægðin frá planinu upp á rampann er 1,2 m. Handrið er á kantinum upp skábrautina og á nokkrum öðrum stöðum. Ekkert handrið var þar sem pressugámurinn stóð. Þegar gámar eru á sínum stað er ekki hætta á að starfsmenn eða viðskiptavinir falli af römpunum. Hin slasaða hafði ekið bíl sínum upp á rampann og var að losa sorp í gám þegar hún féll af rampanum þar sem fullur gámur hafði verið fjarlægður. Engin viðvörun um fallhættu var á staðnum.

Í skýrslunni voru stefnda gefin fyrirmæli um að settar yrðu upp fallvarnir á alla rampa til að koma í veg fyrir fall af hærri stað. Var stefnda gefinn frestur til 1. febrúar 2006 til að framkvæma úrbætur. Lögð var áhersla á að starfsmenn stefnda skyldu vakta staðinn þegar gámalosun ætti sér stað þar til fallvörnum yrði komið fyrir.

Hinn 30. nóvember 2005 gaf stefnandi skýrslu um slysið hjá Sýslumanninum í Kópavogi. Í skýrslu hennar kemur fram að hún hafi lagt bifreið sinni fyrir aftan bifreið sem fyrir var uppi á rampa gámastöðvarinnar. Hún telji að hún hafi tekið töluvert af drasli úr farangursgeymslu bifreiðarinnar í fangið og sennilega hafi það hindrað henni sýn fram á við. Hún hafi verið meðvituð um að það vantaði einn gám á þeim stað þar sem hún var stödd og því hafi hún ætlað að ganga með draslið yfir göngubrú sem tengi rampann við næsta rampa. Hún geti ekki útskýrt hvað gerðist, henni hafi sennilega fipast eða eitthvað álíka, en hún hafi skyndilega farið fram af upphækkuðum rampanum og fallið niður á steinsteypa stéttina.

Slysið var tilkynnt stefnda og símbréf sent til réttargæslustefnda í kjölfarið, 8. desember 2005, þar sem stefnandi tilkynnti að hún hygðist krefja stefnda um skaðabætur vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir við slysið. Réttargæslustefndi svaraði símbréfinu með bréfi, dags. 14. desember 2005. Í bréfinu segir m.a. orðrétt:

„Hins vegar sé ljóst að  slysið verði að miklu leyti rakið til aðgæsluleysis tjónþola sjálfs og rétt sé því að hann beri tjón sitt að hálfum hluta sjálfur.“

Hinn 25. apríl 2007 lá fyrir matsgerð læknanna Leifs Dungals og Magnúsar Ólasonar um líkamstjón stefnanda vegna slyssins sem var unnið í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum. Var matið unnið að beiðni stefnanda og réttargæslustefnda. Niðurstöður matsins voru eftirfarandi:

1.       Að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni á tímabilunum 22. október 2005 til 1. apríl 2006 og 18. október til 3. nóvember 2006.

2.       Að ekki teljist hafa verið frekari bata að vænta (batahvörf/stöðugleikapunktur) hjá stefnanda eftir 15. nóvember 2006.

3.       Að stefnandi skuli fá greiddar þjáningabætur vegna tímabilanna 22. október 2005 til 1. apríl 2006 og 18. október til 3. nóvember 2006, þar af skuli miðað við að hún hafi verið rúmföst í 7 daga í skilningi skaðabótalaga.

4.       Að varanlegur miski stefnanda nemi 20 stigum.

5.       Að varanleg örorka stefnanda nemi 20%.

Kröfubréf byggt á matsgerðinni er dags. 31.05.2007. Með bréfi, dagsettu 14.06.2007, féllst réttargæslustefndi á greiðslu bóta að hálfu leyti. 

Upp úr miðju ári 2007 fór stefnandi að finna fyrir vaxandi verkjum vegna slyssins. Heimilislæknir vísaði henni til Sverris Bergmanns, læknis og sérfræðings í heila- og taugafræði, sem hafði hana til meðferðar nokkra hríð. Að beiðni lögmanns stefnanda gaf Sverrir sérfræðiálit á nánar tilgreindum efnisatriðum í fyrirliggjandi matsgerð. Í álitinu kom fram að hann mæti miska og örorku stefnanda 35%. Ákveðið var að óska eftir dómkvaðningu tveggja matsmanna til að meta heilsufar stefnanda á nýjan leik. Voru læknarnir Torfi Magnússon og Stefán Carlsson dómkvaddir til starfans. Matsgerð þeirra er dags. 06.01.2009 og voru helstu niðurstöður þær sömu og í fyrra mati eða 20% miski og 20% örorka.

Til uppgjörs var gengið á grundvelli bréfs réttargæslustefnda frá 14.06.2007 þann 7. september 2007. Af hálfu stefnanda var gerður fyrirvari um réttmæti þess að greiða bætur einungis að hálfu leyti og höfðar stefnandi mál þetta til að krefja stefnda um greiðslu fullra bóta vegna slyssins.

II

1.       Skaðabótakrafa stefnanda

Stefnandi byggir ábyrgð stefnda á tjóni stefnanda á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Starfsmenn stefnda hafi valdið tjóni stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti og stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem vinnuveitandi umræddra starfsmanna.

Starfsmenn stefnda hafi hagað sér gáleysislega og ekki í samræmi við það sem búast mátti við af þeim. Þannig hafi háttsemi þeirra bæði vikið frá því sem venjulegt megi telja út frá almennum sjónarmiðum og brotið gegn settum hátternisreglum. Þá byggi stefnandi á því að á fasteignareigendum hvíli almennt rík aðgæsluskylda til þess að rækja viðhald og umhirðu með fasteign til að koma í veg fyrir að þeir sem erindi eigi í eða út úr fasteign verði ekki fyrir tjóni. Vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. 

Hvað saknæmismatið varði sé vísað til almennt viðurkenndra sjónarmiða í skaðabótarétti um þætti sem hafi þýðingu við sakarmatið. Nánar tiltekið sé átt við sjónarmið um hættu á tjóni (líkur á tjóni vegna háttsemi), hve auðvelt (eða erfitt) hafi verið fyrir tjónvald að gera sér grein fyrir hættu á tjóni og að lokum möguleika á ráðstöfunum til þess að fyrirbyggja tjón eða minnka áhættu á tjóni. Þannig byggi stefnandi á því að vanræksla stefnda á að varna tjóni hafi falið í sér umtalsverða hættu á tjóni. Þá sé ljóst að tiltölulega auðvelt hafi verið fyrir starfsmenn stefnda að gera sér grein fyrir því að hætta stafaði af því að gera engar varúðarráðstafanir til að varna því að fólk félli niður af rampanum eins og hafi orðið raunin í tilviki stefnanda. Að lokum sé ljóst að starfsmenn stefnda höfðu alla möguleika á að fyrirbyggja tjón með því að koma fyrir handriði eða setja upp varúðarskilti og hefðu getað gert það án mikillar fyrirhafnar og með óverulegum kostnaði.

Ljóst sé að háttsemi starfsmanna stefnda, er fólst í því að fjarlægja gám úr stæði ásamt eftirfarandi vanrækslu þeirra á nauðsynlegum athöfnum til varnar slysum verði að teljast brot á reglum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 en ljóst sé að lögin gildi um stefnda, sbr. 2. gr. laganna. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til almennra reglna laganna í 13. gr. en þar segi að atvinnurekandi skuli tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Þá segi í 42. gr. laganna að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Auk þessa skuli vísað til ákvæðis 38. gr. laganna, en þar segi: Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem [...] um að settar skuli upp á vinnustað greinilegar aðvaranir og/eða vinnusvæði girt eða afmörkuð með öðrum hætti.

Stefnandi byggir á því að framangreindum reglum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 hafi ekki verið fylgt á vinnustað stefnda er umrætt slys bar að. Almennt hafi verið litið svo á að ef markmið skráðra hátternisreglna sé sérstaklega að tryggja öryggi og forðast líkams- eða munatjón (eins og eigi við um framangreindar reglur) megi fullyrða, að það hafi mikla þýðingu við sakarmat, hvort eftir þeim hafi verið farið eða ekki.

Auk framangreinds byggi stefnandi á því að gera eigi auknar kröfur til stefnda þegar saknæmi starfsmanna hans sé metið. Sé það með vísan til þess að um opinbert athafnasvæði sé að ræða, sem almenningi beri skylda til að eiga leið um þegar losa á sig við sorp, annað en almennt heimilissorp manna, en sveitarstjórnir séu ábyrgar fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum, sbr. 2. tl. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003. Sérstaklega beri í þessu sambandi að hafa í huga að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003, sé skylda að færa allan úrgang til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð (Sorpu) í samræmi við önnur ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt þessu sé ljóst að stefnanda var skylt að fara á svæði stefnda umrætt sinn, en á svæðinu sé gert ráð fyrir því að þegar losa eigi sorp, af því tagi sem stefnandi var með, þá sé ekið upp á rampa og viðskiptavinurinn sjái sjálfur um að afferma bíla og bera sorp í viðeigandi gáma. Með vísan til þessa byggi stefnandi á því að gera verði enn ríkari kröfur til stefnda, en ella, til þess að allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir slys.

Stefnandi vísi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 5 júní 2008, í máli nr. E-7851/2007 þar sem málsatvik hafi verið nokkuð sambærileg.

2. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti

Stefnandi krefjist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 (vxl.), af kr. 736.610 frá 22.10.2005 til 1. júlí 2007. Upphafstími vaxtanna sé miðaður við þann dag er hið bótaskylda atvik átti sér stað en lokadagur þeirra sé miðaður við það tímamark er stefnandi telji sig eiga rétt á dráttarvöxtum af skaðabótakröfu sinni. Það sé nánar tiltekið mánuði eftir að kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 1. mgr. 9. gr. vxl. Þann 1. júlí 2007 hafi mánuður verið liðinn frá því að stefnandi sendi Tryggingarmiðstöðinni kröfubréf, dags. 31. maí 2007, og sé því upphafstími dráttarvaxta miðaður við þessa dagsetningu. Af þessum sökum krefjist stefnandi dráttarvaxta af þessum hluta kröfunnar samkvæmt 1. mgr. 9. vxl. frá þeim degi til greiðsludags.

Framangreindur hluti kröfu stefnanda, þ.e. kr. 736.610 sé sá hluti hennar sem ber vexti frá hinu bótaskylda atviki en það séu nánar tiltekið allar kröfur stefnanda nema sú sem byggð er á varanlegri örorku, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 8. gr. vxl.

Þá krefjist stefnandi vaxta skv. 2. mgr. 8. gr. vxl. af kr. 1.331.754 (varanleg örorka) frá 15. nóvember 2006 til 1. júlí 2007. Þá krefjist stefnandi dráttarvaxta af þessum hluta kröfunnar samkvæmt 1. mgr. 9. vxl. frá þeim degi til greiðsludags.               

Þessi hluti kröfunnar, þ.e. kr. 1.331.754, beri ekki vexti frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, líkt og við eigi um aðra kröfuliði, heldur frá þeim degi er ástand stefnanda var orðið stöðugt (s.k. stöðugleikatímapunktur) sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 2. mgr. 8. gr. vxl., en sá dagur sé 15. nóvember 2006 samkvæmt gögnum málsins.

3. Um fjárhæð dómkrafna stefnanda

Fjárhæð dómkröfu stefnanda er byggð upp með vísan í útreikninga er sjá má í bréfi Tryggingarmiðstöðvarinnar til lögmanns stefnanda frá 14. júní 2007 en fyrir liggur að stefndu hafa þegar greitt 50% af skaðabótum vegna tjónsins ásamt vöxtum og kostnaði af þeim hluta. Krafan sundurliðast þannig:

1.        Þjáningabætur                                

kr.    222.320

2.        Varanlegur miski

kr. 1.252.900

3.        Varanleg örorka                             

kr. 2.663.507

               Samtals                                             

kr. 4.138.727

Helmingur þessarar fjárhæðar nemi kr. 2.069.364, sem skiptist þannig að þjáningarbætur og miski (50%) nema samtals kr. 736.610 og varanleg örorka (50%) kr. 1.331.754 að viðbættum vöxtum og kostnaði en að frádregnum helmingi af greiðslu Tryggingastofnunar ríkisins (50%) kr. 299.208.

Krafa stefnanda um skaðabætur sé byggð á óskráðum reglum skaðabótaréttarins, nánar tiltekið á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Um mat á saknæmi stefnda sé vísað til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, einkum ákvæða 13. gr., 38. gr. og 42. gr.

Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 1. og 2. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa stefnanda um dráttarvexti sé byggð á 1. mgr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um vaxtavexti sé byggð á 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa stefnanda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Um heimild til réttargæslustefnu sé vísað til 21. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

III

Stefndi viðurkenni sök í málinu og þar með bótaskyldu. Stefndi telji hins vegar að eins og mál þetta sé vaxið eigi stefnandi einnig sök á því hvernig fór í umrætt sinn. Telji hann eðlilegt að stefnandi beri tjón sitt að hálfu og þar sem það hafi verið lagt til grundvallar þegar uppgjör fór fram 07.09.2007 eigi stefnandi ekki rétt á frekari bótum úr hendi stefnda.

Ágreiningur málsins snúist því um það hvort eigin sök sé yfirleitt til að dreifa og ef svo sé þá hve mikil hún kunni að vera. Stefndi telji vafalaust að svo sé og bendi á eftirfarandi staðreyndir því til stuðnings.

Í fyrsta lagi viðurkenni stefnandi í lögregluskýrslu þann 30.11. 05 að hún vissi að enginn gámur var til staðar við rampann sem hún ók uppá, sem reyndar blasti við hverjum sem þar átti leið um, enda bjart af degi þegar slysið varð um kl. 16:30, auk þess sem lýsing þarna sé góð.

Í öðru lagi viðurkenni stefnandi að hún hafi verið með það mikið af rusli í fanginu að það hafi byrgt henni sýn, eða með öðrum orðum, hún hafi gengið nánast blindandi að göngubrúnni sem hún hugðist fara yfir til að losa sig við ruslið. Þessi háttsemi stefnanda hafi verið afskaplega óvarleg einkum í ljósi þess að hún vissi um hættuna.

Í þriðja lagi sé ljóst að stefnandi gjörþekkti allar aðstæður, þar sem fram komi í umræddri lögregluskýrslu að þarna hafi verið um að ræða viku úrgang frá saumastofu hennar sem hún hafði að eigin sögn rekið í 25 ár. Það þýði að stefnandi hafi orðið að koma þarna u.þ.b. einu sinni í viku og hafi því margsinnis verið búin að koma á athafnasvæðið við Dalbraut eða aðra sambærilega losunarstaði stefnda.

Í fjórða lagi sé hér um merkt vinnusvæði að ræða og öllum sem þangað komi megi vera ljóst að þar þurfi að gæta fyllstu varúðar, sem vissulega hafi skort á hjá stefnanda.

Í fimmta lagi sé bent á að meðfram rampanum sé steyptur kantsteinn 0,15 m á hæð og 0,15 m á breidd, málaður í skærgulum lit og þannig vel sýnilegur öllum sem þar eigi leið um og benda megi á í því sambandi að Vinnueftirlitið hafði fyrir slysið ekki gert athugasemdir við það fyrirkomulag sem þarna var, en farið fram á vissar úrbætur eftir slysið, sem brugðist hafi verið við.

Í sjötta lagi verði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að stefnandi hafi á slysdegi verið tæplega 53 ára að aldri og hefði því vegna aldurs og reynslu enn frekar mátt gera sér grein fyrir þeim hættum er þarna þurfti að varast og haga vinnubrögðum sínum samkvæmt því.

Það sé með vísan til framanrakins sem stefndi telji eigin sök stefnanda augljósa og telji jafnframt að sú helmings skerðing sem lögð hafi verið til grundvallar í uppgjöri aðila þann 07.09.05 sé í fullu samræmi við dómvenjuna í málum af því tagi sem hér um ræði og því hafi stefnandi þegar fengið þær bætur frá stefnda sem hún geti átt rétt á í máli þessu og því beri að sýkna.

Varakrafa um lækkun sé studd sömu rökum og aðalkrafan.

Stefndi mótmælir tilvísunum stefnanda til laga 46/1980 og reglugerðar 737/2003 og telur þær á misskilningi byggðar.

Jafnframt sé því mótmælt að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E- 7851/2007 hafi fordæmisgildi í máli þessu.

IV

Stefnandi varð fyrir slysi á athafnasvæði stefnda, gámastöð Sorpu við Dalveg 1 í Kópavogi, 22. október 2005 og hlaut af líkamstjón. Stefndi hefur viðurkennt sök í málinu og þar með bótaskyldu. Stefndi telur hins vegar að stefnandi eigi einnig sök á slysinu og að eðlilegt sé að hún beri tjón sitt að hálfu. Hefur stefndi greitt stefnanda bætur í samræmi við það en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Í máli þessu er því einungis ágreiningur um sakarskiptingu.

Enginn ágreiningur er um það með aðilum hvernig og hvar slys stefnanda varð, en engin vitni voru að slysinu. Stefnandi kveðst í umrætt sinn hafa stöðvað bifreið sína fyrir aftan bifreið uppi á rampanum. Hún hafi sótt rusl í skott bifreiðarinnar og verið að ganga með það í fanginu með fram hægri hlið bifreiðarinnar þegar hún hafi rekið fótinn í steinkantinn á rampanum og við það fallið af honum og niður á malbikið.

Fyrir liggur að í umrætt sinn var búið að fjarlægja gáminn við rampann þar sem slysið varð en þegar gámur er við rampann varnar hann falli. Ekkert handrið var með fram rampanum en handrið var þar sem ekið er upp á hann. Þá liggur fyrir að engin viðvörunarskilti voru uppi.

Stefnandi hefur viðurkennt að henni hafi verið ljóst að gám vantaði á umræddum stað. Hins vegar þykir ekki sýnt að hún hafi hegðað sér öðruvísi en búast hefði mátt við af þeim sem voru í sömu erindagerðum uppi á rampanum. Aðgæsluleysi stefnanda hafi þannig ekki verið ástæða slyssins heldur það að gámur hafði verið fjarlægður og handrið vantaði á rampann. Voru þessar aðstæður óforsvaranlegur á stað sem fjöldi fólks á erindi dag hvern til að losa sig við rusl. Enda er á það að líta að Vinnueftirlitið gaf í kjölfar slyssins fyrirmæli um að settar yrðu upp fallvarnir á alla rampa til að koma í veg fyrir fall. Þá voru gefin fyrirmæli um að þar til fallvörnum hefði verið komið upp skyldu starfsmenn stefnda vakta staðinn þegar gámalosun ætti sér stað.

Það er því niðurstaða dómsins að stefndi beri fulla skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda sem hún hlaut þann 22. október 2005.

Samkvæmt því og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur í málinu verða stefnukröfur stefnanda teknar til greina eins og greinir í dómsorði.

Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála og í samræmi við framangreinda niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Sorpa bs., greiði stefnanda Láru Magnúsdóttur, kr. 2.069.364 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 736.610 frá 22. október 2005 til 1. júlí 2007, en með dráttarvöxtum, af þeirri fjárhæð, skv. 1. mgr. 9. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og með vöxtum skv. 2. mgr. 8. gr. sömu laga, af kr. 1.331.754 frá 15. nóvember 2006 til 1. júlí 2007, en með dráttarvöxtum, af þeirri fjárhæð, skv. 1. mgr. 9. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum helmingi af greiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, (50%) kr. 299.208 sem innt var af hendi 25. september 2007. Vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.