Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2007


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 13. mars 2008.

Nr. 443/2007.

Guðbjörg Jónsdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Erni Geirdal Gíslasyni og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Gjafsókn.

Ágreiningur aðila laut að því hvort E og T bæri að greiða G bætur vegna varanlegrar örorku, en óumdeilt var í málinu að T og E voru skaðabótaskyldir gagnvart G vegna slyss er hún varð fyrir 2003. Fyrir lá að G, sem var öryrki, var óvinnufær þegar slysið varð. G krafðist þess hins vegar að fá bætt tjón sitt vegna varanlegra örorku til heimilisstarfa sbr., 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga 50/1993. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að ákvæði þetta fæli ekki í sér heimild fyrir sjálfstæðum mælikvarða fyrir skerta getu til heimilisstarfa óháð því hvernig færi um getu til starfa utan heimilis. Ákvæðið gæti ekki veitt rétt til skaðabóta í tilviki þar sem geta til starfa utan heimilis var engin þegar tjónsatburður varð, heldur fæli það eingöngu í sér fyrirmæli um grundvöll til að áætla tekjutap þegar því væri að skipta. Voru T og E sýknaðir af kröfu K.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. ágúst 2007. Hún krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.059.904 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 9. desember 2004 til 8. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara að dæmd fjárhæð beri 4,5% ársvexti frá 9. desember 2004 til dómsuppsögu í Hæstarétti, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaður verði látinn niður falla. Að því frágengnu beri fjárhæðin 4,5% ársvexti frá 9. desember 2004 til 3. ágúst 2006, en dráttarvexti eins og að framan greinir frá þeim degi til greiðsludags.

Samkvæmt gögnum málsins varð áfrýjandi fyrir líkamstjóni 9. júní 2004 í umferðarslysi, sem óumdeilt er að stefndu beri bótaábyrgð á. Með örorkumati 27. október 2005 var ákveðið tímabil þjáninga áfrýjanda af völdum slyssins, varanlegur miski hennar og varanleg örorka til heimilisstarfa, 7%, en fyrir liggur að hún lagði ekki stund á vinnu utan heimilis fyrir slysið og skorti með öllu til þess getu. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. innti af hendi bætur til áfrýjanda 17. maí 2006 vegna þjáninga og varanlegs miska, en neitaði á hinn bóginn að greiða skaðabætur vegna örorku samkvæmt framangreindu mati. Í málinu leitar áfrýjandi greiðslu þeirra bóta, en um fjárhæð þeirra er ekki ágreiningur.

Við úrlausn málsins verður að líta til þess að ákvæði 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er ætlað að leiða til jafnræðis að því leyti að sá, sem kosið hefur að nýta vinnugetu sína að hluta eða öllu leyti til heimilisstarfa um lengri eða skemmri tíma, þurfi ekki af þeim sökum að fara á mis við bætur vegna skertrar getu til að sinna störfum utan heimilis á síðari stigum, ef hann hefði þá kosið að verja fremur vinnugetu sinni til slíkra starfa. Ákvæðið felur á hinn bóginn ekki í sér heimild fyrir sjálfstæðum mælikvarða fyrir skerta getu til heimilisstarfa óháð því hvernig fari um getu til starfa utan heimilis, en að því virtu getur ekki átt við að meta sérstaklega örorku til heimilisstarfa einna út af fyrir sig. Ákvæðið getur því ekki veitt rétt til skaðabóta í tilvikum þar sem geta til starfa utan heimilis var engin þegar tjónsatburður varð, heldur felur það eingöngu í sér fyrirmæli um grundvöll til að áætla tekjutap þegar því er að skipta. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Guðbjargar Jónsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2007.

          Mál þetta var höfðað 3. ágúst 2006 og dómtekið 24. apríl sl. 

Stefnandi er Guðbjörg Jónsdóttir, Heiðarvegi 5, Reykjanesbæ.

Stefndu eru Örn Geirdal Gíslason, Holtsgötu 34, Njarðvík, og Trygginga­miðstöðin hf., Aðalstræti 6, Reykjavík.

 

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 1.059.904 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 9. desember 2004 til 8. desember 2005 en með dráttarvöxtum frá 8. desember 2005 til greiðsludags samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.  Jafnframt er þess krafist að dæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyld og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

          Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

          Til vara er krafist lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn niður falla.  Ef bætur verða að einhverju leyti tildæmdar er þess krafist að þær beri 4,5% ársvexti frá 9. desember 2004 til dómsuppsögudags, en beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

          Til þrautavara er þess krafist að tildæmd bótafjárhæð beri 4,5% ársvexti frá 9. desember 2004 til 3.8.2006, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

 

Málavextir

          Þann 9. júní 2004 slasaðist stefnandi í umferðarslysi í Reykjanesbæ er bifreiðinni UV-871 var ekið aftan á bifreiðina EA-026 sem stefnandi var farþegi í.  Ekki er um það deilt að stefndu bera óskipta fébótaábyrgð á líkamstjóni því er stefnandi hlaut í slysinu, sbr. 88., 90. og 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

          Stefnandi kveður afleiðingar umferðarslyssins þær að hún sé með stöðugan seyðing aftan í hálsi, verk sem leiði upp í hnakka og herðar.  Hún finni alltaf fyrir dofatilfinningu í hálsinum og fram í kinnar, þannig að stundum sé erfitt að kyngja.  Þá kveðst hún oft fá höfuðverkjaköst, hún dofni í andliti, einkum í vinstri kinn.  Loks eigi hún verulega erfitt með að stunda heimilisstörf sem hún hafi unnið fyrir umferðarslysið 9. júní 2004.

          Með matsgerð, dags. 27. október 2005, mátu Júlíus Valsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl., afleiðingar slyssins.  Þeir töldu heilsufar stefnanda stöðugt þann 9. desember 2004, að tímabundin óvinnufærni hennar væri einn mánuður og að tímabil þjáninga án rúmlegu væri þrír mánuðir.  Þá töldu þeir varanlegan miska stefnanda vera 10% og varanlega örorku hennar vegna skertrar vinnugetu til heimilisstarfa vera 7%.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., féllst ekki á mat matsmanna um 7% varanlega örorku stefnanda.  Að beiðni stefndu voru því dómkvaddir matsmenn til þess að svara því hvort stefnandi hefði haft starfsgetu til vinnu utan heimilis fyrir umferðarslysið þann 9. júní 2004.  Með matsgerð, 31. mars 2006, komust dómkvaddir matsmenn, Guðjón Baldursson læknir og Sigurður R. Arnalds hrl. að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði á slysdegi verið með öllu óvinnufær til starfa utan heimilis.   Er sú niðurstaða í samræmi við fyrri matsgerð dags. 27. október 2005 og er óumdeilt í málinu að stefnandi hafi verið ófær til launaðrar vinnu utan heimilis.

Ágreiningur stefnanda og stefndu lýtur að því hvort stefnanda beri skaðabætur vegna 7% varanlegrar örorku til heimilisstarfa samkvæmt 5.-7. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ásamt síðari breytingum.  Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., neitaði, með bréfi dags. 6. apríl 2006, að greiða stefnanda bætur fyrir varanlega örorku vegna afleiðinga umferðarslyssins.  Því telur stefnandi nauðsynlegt að höfða mál þetta til innheimtu bótanna.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að við útreikning skaðabóta til stefnanda skuli farið eftir skaðabótalögum nr. 50/1993.  Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku hennar byggi á 5. - 7. gr. þeirra laga.

Stefnandi hafi verið 46 ára þegar hún slasaðist.  Hún hafi verið baksjúklingur fyrir slysið vegna brjóskloss í mjóbaki og þess vegna hafi hún ekki stundað launaða vinnu utan heimilis en hafi annast heimilishald og sinnt heimilisstörfum á heimili sínu og eiginmanns síns.

Eftir slysið hafi heilsa stefnanda versnað til muna og ráði stefnandi nú ekki við erfiðari heimilisstörf sem hún hafi áður getað sinnt.  Á bls. 7 í matsgerð matsmanna Júlíusar Valssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. sé því lýst hve einkenni stefnanda séu þrálát og ljóst að fyrri bakeinkenni hennar vegna sjúkdóma og slysa hafi ýfst upp og versnað við slysið 9. júní 2004.  Þá segi á bls. 7-8 í matsgerð:

 

Við mat á varanlegri örorku er litið til þeirra [einkenna] sem að framan er lýst  og sem matsmenn telja almennt séð til þess fallin að hafa áhríf á starfsgetu í velflestum störfum.  [Stefnandi] var ekki á vinnumarkaði og hafði ekki verið um     langan tíma.  Í Ijósi heilsufarssögu verður að telja ólíkíegt að hún hefði komist á          vinnumarkað.  Mat á varanlegrí örorku er því miðað við heimilisstörf.  Ljóst er að     hún gat ekki unnið öll heimilisstörf fyrír slysið og jafnframt ljóst að slysið          09.06.2004 hefur valdið skerðingu á getu til heimilisstarfa umfram það sem áður       var.  Matsmenn telja varanlega örorku til heimilisstarfa rétt metna 7%.“

 

          Varanleg örorka stefnanda sé því metin 7%.  Því mati hafi ekki verið hnekkt. Stefnandi geti ekki unnið öll þau heimilisstörf sem hún gerði áður en hún slasaðist, svo sem að skúra, ryksuga, bogra yfir þvottavél eða hengja upp þvott, sbr. framangreind ummæli í matsgerðinni.  Þetta sé einnig staðfest á bls. 10-11 og 17 í matsgerð dómkvaddra matsmanna, Sigurjóns Sigurðssonar og Sigurðar R. Arnalds.

          Stefnandi krefjist þess að fá bætt tjón sitt vegna 7% varanlegrar örorku til að vinna heimilisstörf.  Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, bæði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna.

          Bótafjárhæð vegna slíks tjóns eigi samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að miðast við verðmæti vinnu við heimilisstörf.  Sá sem ekki gegni launuðu starfi utan heimilis teljist verða fyrir fjártjóni þar sem hann, vegna líkamstjóns síns, getur ekki sinnt heimilisstörfum að hluta eða öllu leyti.  Það breyti engu þótt að tjónþoli hafi ekki þurft að bera kostnað af því að einhver annar leysti af hendi þá vinnu í hans stað, sbr. H 2000:594.

          Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi til laga nr. 37/1999, sem varð að núgildandi 8. gr. skaðabótalaga, segi:

 

          Í tilviki heimavinnandi einstaklings yrði almennt að meta skert hæfi til tekju­öflunar utan heimilis samkvæmt þeim viðmiðunum sem að framan greinir.  Hugsanlegt er að örorka til heimilisstarfa geti orðið afleiðing slyss, þótt hún yrði ekki talin þess eðlis að af henni leiði skerta eða jafnskerta möguleika til tekjuöflunar utan heimilis.  Sem dæmi má nefna hreyfihömlun af tilteknu tagi.  Við þær aðstæður yrði að meta viðkomandi einstaklingi fjárhagslega örorku vegna minnkaðrar getu til heimilisstarfa.  Hún yrði þá bætt á grundvelli lágmarkstekjuviðmiðunar 7. gr. laganna, sbr. og 3. mgr. 1. gr. laganna.“

 

          Af tilgreindum ummælum í greinargerð sé ljóst að það skipti ekki máli við mat á varanlegri örorku til heimilisstarfa hvort tjónþoli vinni, eða hafi getu til að vinna utan heimilis.  Það sé tekið fram að aðstæður geti verið með þeim hætti, eins og í tilviki stefnanda, að afleiðingar slyss skerði einungis getu til að vinna heimilisstörf.  Við ákvörðun bóta samkvæmt skaðabótalögum beri því ekki að líta til þess hvort tjónþoli hafi kosið að vinna við heimilisstörf eða geri það af nauðsyn einni.  Líta  beri til þess hvort þau séu yfirleitt unnin.

          Stefnandi vísar einnig til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar um að tjónþoli skuli fá allt tjón sitt bætt.  Ef stefnandi fái ekki bætta varanlega örorku sína til að geta sinnt heimilisstörfum, fái hún ekki tjón sitt bætt að fullu.  Með skaðabótalögum nr. 50/1993 séu heimilisstörf metin til jafns við önnur störf, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Dómstólar hafa dæmt skaðabætur í slíkum tilvikum.  Ef tjón stefnanda fáist ekki bætt, sé það í andstöðu við skýr ákvæði skaðabótalaga og fordæmi dómstóla.

          Um útreikning tjóns stefnanda vegna varanlegrar örorku fari því eftir 5. - 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna.  Þá beri að leggja til grundvallar útreikningnum lágmarkstekjuviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. tilvitnuð ummæli í greinargerð með lögum nr. 37/1999.

Við ákvörðun bótafjárhæðar sé byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, og matsgerð Júlíusar Valssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. frá 27. október 2005 um afleiðingar slyss stefnanda. Varanleg örorka stefnanda sé metin 7%. Útreikningur á kröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku hennar byggi á 5. - 7. gr. skaðabótalaga.

          Vaxtakrafa stefnanda byggist á 16. gr. skaðabótalaga.  Vaxta sé krafist frá slysdegi, en dráttarvaxta frá 8. desember 2005, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þegar mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefndu bréflega um greiðslu skaðabóta. Þá hafi legið fyrir öll gögn sem stefndi hafi þurft til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefndu og lagarök

          Stefndu reisa sýknukröfu sína á því að áður en stefnandi lenti í slysinu hafi hún um langt árabil verið ófær til að stunda atvinnu utan heimilis.  Á árinu 1979, þá 21 árs gömul, hafi hún, í fyrsta skipti af þremur, verið skorin við brjósklosi í baki.  Hún hafi fyrst verið metin til örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 1981, en frá árinu 1991 hafi hún ekkert unnið utan heimilis.  Frá ársbyrjun 1994 hafi hún verið talin með öllu óvinnufær og metin til hæstu örorku hjá Tryggingastofnun.  Frá sama ári hafi hún einnig verið metin til 100% örorku hjá lífeyrissjóði og við endurmat á örorkunni á árinu 2002 hafi verið tekið fram að fyrirsjáanlegur bati væri ekki í sjónmáli.

Í umferðarslysinu í júní 2004 hafi stefnandi hlotið tognun í hálsi og baki.  Að beiðni stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., og lögmanns stefnanda hafi Júlíus Valsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður metið afleiðingar slyssins.  Í matsgerð þeirra, dags. 27. október 2005, komi fram að áverkar þeir sem hún hlaut séu almennt séð til þess fallnir að hafa áhrif á starfsgetu í velflestum störfum.  Stefnandi hafi ekki verið á vinnumarkaði um langan tíma og í ljósi fyrri heilsufarssögu verði að telja ólíklegt að hún hefði komist á vinnumarkað.  Við mat á varanlegri örorku hafi því verið miðað við heimilisstörf.  Ljóst sé að fyrir slysið hafi hún ekki getað unnið öll heimilisstörf og jafnframt að slysið hafi valdið skerðingu á getu til að sinna heimilisstörfum umfram það sem áður var. Hafi matsmenn talið varanlega örorku til heimilisstarfa rétt metna 7%.

          Í ljósi þess að örorka stefnanda hafi einungis verið metin vegna skertrar getu til heimilisstarfa hafi þótt nauðsynlegt að afla frekara sönnunargagns um hver hafi verið geta hennar til að afla vinnutekna utan heimilis fyrir slysið í júní 2004.  Í því skyni hafi verið dómkvaddir tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, Guðjón Baldursson læknir og Sigurður R. Arnalds hæstaréttarlögmaður, til að meta m.a. hver hafi verið starfsgeta stefnanda til vinnu utan heimilis fyrir slysið þann 9. júní 2004. Í matsgerð þeirra, dags. 31. mars 2006, komi fram að stefnandi kveðst aðspurð eiga erfiðara með að sinna heimilisstörfum en áður.  Hún eldi oftast, en sé með uppþvottavél.  Hún kveðst sjá um þvotta en eiginmaður hennar hjálpi til.  Hún geti ekki skúrað né ryksugað, en hafi reyndar ekki verið fær um það fyrir slysið heldur.  Hafi niðurstaða matsmanna, sem byggðist á læknisskoðun sem framkvæmd var í tengslum við matsgerðina og öðrum gögnum málsins, verið sú að stefnandi hafi á slysdegi verið með öllu óvinnufær til starfa utan heimilis.

          Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999 um breyting á þeim, eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku, ef líkamstjón veldur varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna.  Í þessari grein sé mælt fyrir um þá megninreglu laganna að skerðing á getu til að afla vinnutekna sé skilyrði þess að tjónþoli eigi rétt til bóta fyrir varanlega örorku.  Nánari fyrirmæli um hvernig örorkan skuli metin sé að finna í 2. og 3. mgr. 5. gr., en þessi grein lúti fyrst og fremst að þeim sem í reynd afli vinnutekna.  Hins vegar eigi 8. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1999, við um þá tjónþola sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, en örorkubætur skuli í slíkum tilvikum einnig ákvarðaðar á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr.  Af skýru orðalagi ákvæðisins sé augljóst að þeir tjónþolar, sem undir það falla, skuli hafa vinnugetu sem skerðist vegna líkamstjóns svo þeir geti átt rétt til bóta fyrir varanlega örorku.  Að öðrum kosti eigi tjónþoli ekki rétt á slíkum bótum.

          Í athugasemdum við 7. gr. þess frumvarps sem varð að fyrrgreindum lögum nr. 37/1999 um breyting á skaðabótalögum segi svo varðandi núgildandi 8. gr. laganna:

 

„Ljóst er að sum þeirra hliðsjónaratriða, sem nefnd eru, svo sem tekjur fyrir og eftir slys, geta ekki átt við um flesta þá sem 8. gr. tekur til.  Þrátt fyrir það er lagt til að fram fari fjárhagslegt örorkumat gagnvart þeim einstaklingum, með misnnun á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys sem      mælikvarða og líklegum

áhri­f­um á atvinnutekjur. Við mat á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys yrði m.a. að líta til starfshæfni og starfa viðkomandi tjónþola fyrr á ævinni, menntunar hans og starfsréttinda með það fyrir augum að ákvarða að hvaða marki þessir möguleikar hafi raskast...

 

...í tilviki heimavinnandi einstaklings yrði almennt að meta skert hæfi til tekjuöflunar utan heimilis samkvæmt þeim viðmiðunum sem að framan greinir.“

 

          Af tilvitnun þessari sé engum vafa undirorpið að það mat, sem framkvæma skal vegna þeirra tjónþola sem 8. gr. taki til, skuli vera fjárhagslegt mat þar sem metin sé skerðing á atvinnutækifærum og líkleg áhrif líkamstjóns á atvinnutekjur tjónþolans.  Hið sama gildi um tjónþola sem sinni heimilisstörfum.  Í þeim tilvikum skuli einnig metin skerðing á getu til tekjuöflunar utan heimilis.  Ef líkamsástand tjónþola hafi verið með þeim hætti fyrir slys að hann hafði enga getu til að afla tekna utan heimilis, sé ekki um að ræða að líkamstjón af völdum slyss geti haft í för með sér skerðingu á slíkri getu.

          Af ákvæðum skaðabótalaga verði með engu móti dregin sú ályktun að tjónþoli, sem misst hafi hæfi sitt til að afla tekna utan heimilis áður en slys bar að höndum, eigi rétt til bóta fyrir varanlega örorku.  Þar sem ekki sé um neitt fjárhagslegt tjón að ræða stríði það gegn réttum rökum, ef tjónþoli geti átt tilkall til bóta fyrir varanlega örorku.  Ekki verði heldur leitt af ákvæði 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að tjónþoli geti við aðstæður, eins og hér um ræði, átt rétt á bótum fyrir varanlega örorku.  Það ákvæði eigi einvörðungu við um ákvörðun sjálfrar bótafjárhæðarinnar, þ.e. annars vegar þegar laun séu metin í tengslum við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. laganna, og hins vegar við mat á árslaunum þegar fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku sé ákveðin, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 8. gr.

          Fyrir liggi, og sé óumdeilt, að stefnandi hafði enga starfsgetu til vinnu utan heimilis fyrir slysið 9. júní 2004.  Af því leiði, samkvæmt framangreindu, að mat þeirra Júlíusar Valssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar á varanlegri örorku vegna heimilisstarfa hefur ekki lagastoð og getur því ekki verið grundvöllur fyrir kröfu hennar um bætur fyrir varanlega örorku.  Hún hafi heldur ekki orðið fyrir fjártjóni vegna þeirrar örorku, sem þannig hafi verið metin, og af þeim sökum sé ekki um það að ræða að hún hafi ekki fengið tjón sitt bætt að fullu.  Því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum hennar í máli þessu.

          Í stefnu sé vitnað til nánar tilgreindra ummæla í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1999.  Nokkurs misskilnings gæti þar í túlkun á hinum tilgreindu ummælum.  Það sem málið snúist um sé að hæfi tjónþola til tekjuöflunar utan heimilis fyrir slys getur skerst af völdum líkamstjóns, ef það hefur leitt til þess að geta til að sinna heimilisstörfum hafi að einhverju leyti skerst jafnvel þótt það hafi ekki haft í för með sér skerta eða jafnskerta möguleika til tekjuöflunar utan heimilis.  Það sé grundvallaratriði í hinum tilvitnuðu umælum að um sé að ræða almennt mat á skertu hæfi til að afla tekna utan heimilis.  Af téðum ummælum verði alls ekki leidd sú regla að skert hæfi til að gegna heimilisstörfum skuli metið til varanlegrar örorku, jafnvel þótt engin starfsgeta til vinnu utan heimilis hafi verið fyrir hendi þegar slysið varð.

          Lagagrundvöllur fyrir bótakröfu stefnanda í máli þessu er afar óljós og honum verði ekki fundinn staður í beinum fyrirmælum skaðabótalaga, öðrum ákvæðum laga eða dómvenju, að séð verður.  Málefnalegar ástæður búi að baki því að ágreiningur þessi sé lagður fyrir dómstóla.  Ef ástæða þyki til að taka kröfu stefnanda til greina sé rétt að hún beri ekki dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá endanlegum dómsuppsögudegi í málinu. Með vísan til síðari málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er þess krafist að tildæmdar bætur beri dráttarvexti fyrst frá þeim degi að telja.

Með vísan til 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, er þess krafist til þrautavara að dráttarvextir reiknist frá þeim degi er mál þetta var höfðað eða 3. ágúst 2006, en þann dag hafi stefna verið árituð af lögmanni fyrir hönd stefndu.

          Málskostnaðarkröfur stefndu, bæði í aðalkröfu og varakröfu, eru reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Óumdeilt er að stefndu eru skaðabótaskyldir gagnvart stefnanda vegna slyss er hún varð fyrir 9. júní 2004.  Ágreiningur í málinu lýtur einvörðungu að því hvort stefndu beri að greiða stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku, en eins og rakið er hér að framan er einnig ágreiningslaust að stefnandi, sem hefur verið öryrki til margra ára vegna langvinnrar bakveiki, var óvinnufær á slysdegi.

Í 2. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að ef líkamstjón hafi varanlegar afleiðingar skuli greiða bætur fyrir miska og bætur fyrir örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna.  Í 1. mgr. 5. gr. segir að valdi líkamstjón varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku.

Séu ákvæði þessi lesin er ljóst að þau miða að því að bætt sé tjón sem veldur skerðingu á möguleikum tjónþola til þess að afla sér tekna.  Í athugasemdum við frumvarp til skaðabótalaga nr. 50/1993 kemur þetta einnig fram en þar segir að við ákvörðun örorkubóta samkvæmt reglum frumvarpsins skuli miða við raunveruleg áhrif sem líkamstjón hefur á getu til þess að afla tekna. 

Fyrir liggur að stefnandi var óvinnufær þegar slysið varð.  Hafði það tjón sem hún varð fyrir í umræddu slysi því engin áhrif á getu hennar til að afla tekna.  Varð hún því ekki fyrir fjárhagstjóni sem bótaskylt telst samkvæmt skaðabótalögum.

Ákvæði 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga á einungis við um ákvörðun sjálfrar bótafjárhæðarinnar, þ.e. annars vegar þegar laun eru metin í tengslum við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. laganna, og hins vegar við mat á árslaunum þegar fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku er ákveðin, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna, og hefur það því engin áhrif á þessa niðurstöðu.

Stefndu skulu því vera sýknir af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Eiríks Jónssonar hdl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Örn Geirdal Gíslason og Tryggingamiðstöðin hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Guðbjargar Jónsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Eiríks Jónssonar hdl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.