Hæstiréttur íslands
Mál nr. 310/2000
Lykilorð
- Höfundarréttur
- Útgáfusamningur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2000. |
|
Nr. 310/2000. |
Steingrímur Steinþórsson og Ívar Gissurarson vegna sín og Máls og Myndar sf. (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Birni Péturssyni (Andri Árnason hrl.) |
Höfundarréttur. Útgáfusamningur. Sératkvæði.
B, sem unnið hafði að gerð ættfræðirits, náði samkomulagi við félagið M um að það myndi annast útgáfu ritsins. Þegar ritið kom út í ágúst 1998 hafði ekki verið gengið endanlega frá samningi um útgáfuna, en samkomulag var um að höfundarlaun tækju mið af stöðluðum samningi Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambandsins. Samkvæmt þeim samningi getur höfundir valið milli tveggja kosta við útreikning höfundarlauna, annars vegar að þau séu reiknuð sem hlutfall af seldum eintökum, 23%, og hins vegar sem hlutfall af framleiddum eintökum, 16,5%. Upp kom ágreiningur um greiðslur B fyrir verkið og hvort þær skyldu skertar vegna ljósmynda og ítarefnis og vinnu S, sem ráðinn var af M til starfa við fullvinnslu handritsins. Höfðaði B mál í héraði til heimtu höfundarlauna á grundvelli tilgreinds hlutfalls af seldum eintökum og miskabóta. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með vísan til forsendna um annað en miskabætur, en málinu var ekki áfrýjað varðandi miskabótakröfu, var ekki talið að M hefði sannað að samkomulag hefði verið um að B tæki þátt í greiðslum til S og var kröfu M þar um því hafnað. Þá var ekki talið að S gæti gert tilkall til höfundarlauna sem meðhöfundur. Einnig var talið upplýst að meðan á vinnslu ritsins stóð hafi aldrei verið rætt við B um skerðingu greiðslna til hans vegna mynd- og ítarefnis og var ekki talið að M gæti fyrst gert um það kröfu við lokauppgjör og var kröfu þar um því hafnað. Var M því gert að greiða B höfundarlaun vegna ritsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 10. ágúst 2000. Þeir krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnda, en til vara að kröfur hans verði stórlega lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað málinu og verður því ekki fjallað um miskabótakröfu hans í héraði.
Með vísun til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Steingrímur Steinþórsson og Ívar Gissurarson vegna sín og Máls og Myndar sf., greiði in solidum stefnda, Birni Péturssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
Ég er sammála því, að áfrýjendur hafi ekki fært sönnur á samkomulag við stefnda þess efnis, að hann tæki þátt í greiðslum til Sigurðar Hermundarsonar, sem starfaði á þeirra vegum að gerð ritsins um Krossaætt, þegar líða tók á verkið, og þá gegn endurgjaldi, sem ákveðið var án samráðs við hann. Einnig er ég sammála því, að áfrýjendur hafi ekki getað gert kröfu um það við verklok, að höfundarlaun stefnda yrðu skert vegna ljósmynda og ítarefnis í ritinu. Má vísa um hvorttveggja til forsendna hins áfrýjaða dóms.
Á hinn bóginn virðist framlag áfrýjenda og þessa starfsmanns þeirra eða verktaka til ritsins í endanlegri gerð hafa verið þannig vaxið, að það tilheyri ekki aðeins útgáfustarfi, heldur einnig höfundarverki, og kom það að hluta í stað vinnu, sem stefndi hefði annars leyst af hendi. Virðist stefndi hafa afráðið að hlíta þeirri tilhögun, sem höfð var á verkinu, þótt staðfestingar á samþykki hans við henni væri ekki aflað. Af þessum sökum má fallast á það með áfrýjendum, að þeir eigi tilkall til nokkurar hlutdeildar í höfundarlaunum stefnda, en þó mjög takmarkaðrar. Virðist hæfilegt, að launin verði skert að álitum um 300.000 krónur, þegar atvik eru virt í heild.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að dæma beri áfrýjendur til að greiða stefnda 1.222.818 krónur, með dráttarvöxtum eins og um er mælt í héraðsdómi, auk hæfilegs málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 27. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Birni Péturssyni, kt. 200737-4749, Reykjavíkurvegi 40; Hafnarfirði, með stefnu birtri 9. desember 1998 á hendur Steingrími Steinþórssyni, kt. 150151-3339, Framnesvegi 23, Reykjavík, og Ívari Gissurarsyni, kt. 230453-3229, Eskihlíð 18, Reykjavík, persónulega og fyrir hönd sameignarfélags þeirra, Máls og myndar sf., kt. 630395-2839, Bræðraborgarstíg 9, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 2.422.818, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 1.851.793 frá 01.09.1998 til 01.10. s.á., en af kr. 1.973.673 frá þeim degi til 01.11. s.á., en af kr. 2.001.194 frá þeim degi til 01.12. s.á., en af kr. 2.022.818 frá þeim degi til 15.12. s.á., en af kr. 2.422.818 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, allt að frádregnum kr. 500.000, sem greiddar voru inn á kröfuna þann 27. apríl 2000.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá gera stefndu kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II.
Málavextir:
Málavextir eru þeir að á árinu 1996 leitaði stefnandi til stefnda um útgáfu ættfræðirits um svonefnda Krossaætt, sem hann hafði unnið að undangengin ár. Náðist um það samkomulag, að stefndu myndu annast útgáfu ritsins. Ritið kom út í ágúst 1998, en þá hafði ekki verið gengið endanlega frá samningi um útgáfuna og enginn skriflegur samningur til milli aðila þar að lútandi. Aðilar voru þó sammála um, að höfundarlaun myndu taka mið af stöðluðum samningi Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambandsins. Samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr., samningsins getur höfundur valið milli tveggja kosta við útreikning höfundarlauna. Annars vegar að þau séu reiknuð sem hlutfall af seldum eintökum, 23%, og hins vegar sem hlutfall af framleiddum eintökum, 16,5%. Í báðum tilvikum er miðað við verðlistaverð bókmenntaverksins. Seld eintök voru 1029 og verðlistaverð kr. 8.547.
Ágreiningur er um greiðslur til stefnanda fyrir verkið og m.a. um það, hvort greiðslur til stefnanda skuli skertar vegna vinnu Sigurðar Hermundarsonar, kt. 260544-2419, sem ráðinn var af stefnda til að starfa við fullvinnslu handritsins, og enn fremur, hvort skerðingarákvæði í lokamálslið 13. gr. hins staðlaða útgáfusamnings megi leggja til grundvallar uppgjöri á höfundarlaunum. Jafnframt er ágreiningur um miskabótakröfu stefnanda.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveður stefndu hafa gert sér tilboð, sbr. bréf lögmanns, dags. 14. september 1998, þar sem kveðið hafi verið á um höfundarlaun, kr. 626.090, miðað við seld eintök, sem þá hafi verið tæplega eitt þúsund, eða kr. 681.433, miðað við framleidd eintök. Hafi stefnanda verið boðið að velja á milli þessara tveggja uppgjörsleiða. Í tilboðinu sé gert ráð fyrir 30% skerðingu á höfundarlaunum stefnanda, reiknuðum samkvæmt ákvæðum hins staðlaða samnings. Af hálfu stefnda hafi tvær meginröksemdir verið færðar fyrir skerðingunni:
Annars vegar byggi stefndu tilboð sitt á því, að stór hluti ritsins sé myndefni og ítarefni, en í 13. gr. hins staðlaða samnings sé að finna ákvæði, sem taki til slíkra tilvika. Stefnandi telji engar forsendur fyrir því að skerða höfundarlaun sín á grundvelli þessa ákvæðis. Þegar samkomulag tókst með aðilum, um að stefndu tækju að sér útgáfu umrædds rits, og rætt hafi verið um, hvort leggja ætti til grundvallar staðlaðan samning Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambandsins, hafi stefndu engan fyrirvara gert um, að niðurlag 13. gr. yrði lagt til grundvallar. Hafi því jafnframt verið lýst yfir af hálfu stefndu, að ekki yrði byggt á skerðingarákvæði 13. gr.
Í umræddu ákvæði segi, að þegar um sé að ræða myndskreytta útgáfu fyrir fullorðna, sé heimilt að lækka höfundarlaun í sama hlutfalli og nemi umfangi af prentfleti bókarinnar, allt að 50%. Þetta ákvæði mæli fyrir um heimild til skerðingar og um hámarksskerðingu. Ef ákveðið sé að byggja á því, hljóti að þurfa að taka tillit til allra aðstæðna, þegar metið sé, hvort skerðing skuli eiga sér stað, og hve mikil hún skuli vera. Í ýmsum tilvikum komi skerðing á þessum forsendum, eðli málsins samkvæmt, tæpast til greina, t.d. ef um sé að ræða myndskreytingar eða ljósmyndir höfundar sjálfs, eða þegar ljósmyndirnar eigi rætur að rekja til rannsókna höfundarins. Ein meginástæða þess, að slíkt skerðingarákvæði sé að finna í útgáfusamningum, sé sú, að ljósmyndir og annað myndefni lúti höfundarréttarreglum. Efni ritsins, sem gefið sé út, lúti því höfundarrétti annars manns, sem iðulega þurfi að greiða fé fyrir birtingarréttinn. Sjónarmið af þessum toga eigi ekki við um myndefni þess rits, sem hér sé fjallað um. Að mestu leyti sé um að ræða myndir, sem einstaklingar úr Krossaættinni hafi sjálfir lagt fram, birtar séu endurgjaldslaust, og stefndu hafi litla vinnu lagt í að útvega. Verði því að líta svo á, að 30% skerðing vegna myndskreytinga sé óhófleg og óeðlileg.
Hin forsenda skerðingar höfundarlauna stefnanda, samkvæmt tilboði stefndu, sé sú, að aðilar hafi komizt að samkomulagi um, að þeir myndu skipta að jöfnu milli sín kostnaði við vinnu Sigurðar Hermundarsonar við útgáfu bókarinnar, en hann muni hafa starfað við ættfræðirannsóknir á vegum bókaútgáfunnar. Stefnandi mótmæli því, að nokkur samningur þessa efnis hafi náðst. Þvert á móti telji hann, að alltaf hafi legið ljóst fyrir, að stefndu bæru kostnaðinn af störfum Sigurðar, enda hafi stefndu ráðið hann til starfa. Krafa af hálfu stefndu, um að stefnandi skyldi bera kostnað af störfum starfsmanna stefndu, komi fyrst fram í ágúst 1998. Því hafi umsvifalaust verið hafnað af stefnanda hálfu, sbr. bréf lögmanns stefnanda, dags. 17. ágúst 1998. Stefndu hljóti að bera sönnunarbyrðina fyrir því, að slíkt samkomulag hafi tekizt með aðilum. Engin gögn styðji fullyrðingar stefndu og í reynd sé farið út fyrir ramma hinna stöðluðu samningsákvæða, því þar sé ekki gert ráð fyrir skerðingu af þessum toga. Um sé að ræða fyrsta skipti, sem gefið sé út rit eftir stefnanda, en stefndu hafi atvinnu af bókaútgáfu og því eðlilegt að gera ríkari kröfur til þeirra um að tryggja hagsmuni sína með sannanlegum hætti. Ekki sé hægt að líta svo á, að Sigurður Hermundarson hafi, með störfum sínum og framlagi til ritsins, orðið meðhöfundur stefnanda. Samkvæmt l. gr. laga nr. 73/1972 um höfundarétt eigi höfundur að bókmenntaverki eignarrétt á því. Þrátt fyrir að stefnandi hafi gefið útgefendum leyfi til þess að bæta og breyta texta handrits síns að nokkru leyti, bendi ekkert til þess, að hann hafi afsalað nokkru af fullkomnum eignarrétti sínum yfir verkinu. Megi í þessu samhengi enn fremur benda á 28. gr. höfundalaganna, en af henni megi ráða, að sönnunarbyrði um rétt útgefenda, eða annarra framsalshafa höfundarréttar, til að breyta höfundarverki, hvíli á útgefandanum. Jafnframt sé hér bent á, að í 13. gr. hinna stöðluðu samningsákvæða segi, að þegar um sé að ræða tvo eða fleiri, sem eigi rétt til þóknunar, skuli kveða á um það í samningnum við báða (alla) aðila. Það hafi ekki verið gert og bendi í raun ekkert til þess, að samkomulag hafi náðst með aðilum um þetta atriði.
Þar eð stefnandi hafi ekki viljað ganga til uppgjörs samkvæmt tilboði stefndu frá september 1998, hafi stefndi sett fram nýtt greiðslutilboð, sem þó hafi verið bundið því skilyrði, að ágreiningi um höfundarlaun skyldi þar með lokið. Tilboðið hafi gert ráð fyrir, að höfundarlaun stefnanda skyldu vera kr. 1.200.000 og greiðast með þremur jöfnum greiðslum; 1. nóvember 1998, l. febrúar 1999 og 1. marz 1999. Forsendur tilboðsins hafi ekki verið skýrðar sérstaklega, en ljóst sé, að um allt of lága fjárhæð sé að ræða fyrir útgáfurétt á verki höfundar, sem og miðað við uppgjörsgrundvöll hins staðlaða samnings, sem aðilar hafi byggt á í viðræðum sínum.
Endanleg dómkrafa sé reiknuð samkvæmt reikniaðferð hins staðlaða samnings Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambandsins. Miðað sé við forlagsverð, kr. 8.547 fyrir hvert eintak. Reiknað sé út frá seldum eintökum bókarinnar og þess vegna miðað við 23% höfundarlaun, sbr. 14. gr. hins staðlaða samnings. Miðað sé við, að 1.029 eintök hafi selzt, þ.e. 942 eintök í ágúst 1998, 62 í september s.á., 14 í október s.á. og 11 í nóvember s.á. Samkvæmt þessu krefjist stefnandi kr. 2.022.818 í þóknun fyrir útgáfuréttinn að bókmenntaverki sínu.
Auk höfundarlauna krefjist stefnandi miskabóta samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972. Í 3. mgr. 8. gr. hins staðlaða samnings rithöfunda og bókaútgefenda segi: "Útgefandinn ákveður uppsetningu og útlit bókarinnar í samráði við höfundinn." Sé ákvæði þetta í samræmi við almennar meginreglur höfundaréttarins. Stefnanda hafi leynt og ljóst verið haldið frá vinnu við verkið, þegar komið var að lokafrágangi, og hafi sala verið hafin á bókunum, þrátt fyrir ósk stefnanda, um að það yrði ekki gert, fyrr en gengið hefði verið frá skriflegum útgáfusamningi. Þar eð þessi ólögmæta háttsemi hafi óneitanlega raskað rétti stefnanda, setji hann fram kröfu um kr. 400.000 í miskabætur. Verði sú krafa að teljast hófleg í ljósi allra atvika.
Krafizt sé dráttarvaxta frá fyrsta degi næsta mánaðar vegna seldra eintaka, en dráttarvaxta af miskabótum sé krafizt frá þingfestingardegi, 15. desember 1998. Sé skilyrðum 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 þá án efa fullnægt.
Stefnandi vísar, máli sínu til stuðnings, fyrst og fremst til almennra reglna kröfu- og samningaréttar. Þá vísar stefnandi til höfundalaga nr. 73/1972. Krafa um dráttarvexti byggir á III. kafla laga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla l. nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.
Málsástæður stefnda:
Stefndi kveður hafa verið þörf á mikilli samræmingarvinnu, áður en handritsbútar voru sendir til niðja, þar sem höfundurinn hafi skráð upplýsingar með mjög handahófskenndum hætti. Starfsmaður stefndu hafi unnið við það fram á haustið 1996. Snemma árs 1997 hafi gögn verið send til niðja með beiðni um athugasemdir og leiðréttingar.
Strax eftir útsendingu gagnanna hafi komið í ljós, að miklar veilur væru í handritinu og fjöldi niðja hafi hringt til stefndu til að gera athugasemdir við það. Við gerð handrits síns hafi stefnandi ekki vandað til vinnu við upplýsingaleit. Í ljós hafi komið, að stefnandi hafi einkum aflað upplýsinga úr þjóðskrá og með samtölum við ættingja, en ekki unnið upp úr frumheimildum, manntölum og kirkjubókum.
Þegar aðilar hafi gert sér grein fyrir hinum miklu veilum í handriti stefnanda, hafi verið ljóst að leggja þyrfti fram mikla vinnu til að fullbúa handrit af Krossaætt, ef útgáfa ætti að takast vel. Stefnandi hafi lýst sig reiðubúinn til að halda áfram verki sínu, en fljótlega hafi komið í ljós, að það verk hafi ekki unnizt vel. Stefndu hafi séð fram á, að útgáfa verksins myndi dragast mjög á langinn, ef ekki yrði settur aukinn kraftur í handritavinnu. Ef útgáfa drægist á langinn, myndi handritið úreldast vegna breytinga á stöðu og högum niðja.
Í framhaldi hafi aðilar orðið ásáttir um, að stefndu fengju Sigurð Hermundarson, kt. 260544-2419, til að starfa við fullvinnslu handritsins. Upphaflega hafi verið áætlað, að þessi vinna Sigurðar myndi taka um 2 - 3 mánuði, en fljótlega hafi komið í ljós, að verkið yrði töluvert umfangsmeira.
Við vinnu Sigurðar hafi fundizt nýir ættliðir, sem áður hafi ekki verið taldir vera fyrir hendi. Töluvert hafi vantað af tengdafólki í handritið, og einnig hafi vantað nokkuð af yngstu börnum í Krossaætt. Nauðsynlegt hafi verið að yfirfara handrit stefnanda mjög nákvæmlega og við þá yfirferð hafi fundizt ýmsar meinlegar villur.
Starfi Sigurðar við fullvinnslu handritsins hafi ekki lokið fyrr en um miðjan júlí 1998. Þá hafði handritið vaxið að umfangi um 50% frá því að stefndu sendu handritsbúta til niðja með beiðni um athugasemdir og leiðréttingar. Í því handriti, sem stefnandi afhenti stefndu til útgáfu, hafi einstakir niðjar verið um 8700, en eftir fullvinnslu handrits á vegum stefndu hafði einstökum niðjum fjölgað í um 13000. Þegar upp var staðið, hafi ættfræðingur á vegum stefnanda og stefndu verið búinn að vinna að frumvinnslu og úrvinnslu handrits Krossaættar í 9 mánuði, eða frá október 1997 til júlí 1998.
Frá upphafi samskipta aðila hafi verið ráð fyrir því gert, að höfundarlaun tækju mið af stöðluðum samningi Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambandsins, sbr. dskj. nr. 3. Samningsdrög hafi verið lögð fyrir stefnanda málsins til undirritunar, en hann hafi færzt undan því að rita undir hinn skriflega samning. Framan af samskiptum aðila hafi stefnandi ekki mótmælt samningsdrögum, en af einhverjum óljósum ástæðum hafi hann ekki ritað undir. Vegna vinnu Sigurðar Hermundarsonar við handrit Krossaættar hafi stefndu greitt alls kr. 1.500.000. Stefndu hafi haldið því fram, að frá upphafi hafi verið ráð fyrir því gert, að kostnaður þessi skiptist að jöfnu. Um það sé vísað til 29. gr. samningsdraganna.
Stefndu hafi aflað allra ljósmynda í Krossaætt. Enn fremur hafi þeir aflað og ritað ítarefni í ritið.
Stefnandi hafi skilað af sér próförkum og formála að ritinu, og þegar Krossaætt fór í prentun, hafi enginn ágreiningur verið með aðilum um útgáfu eða dreifingu. Stefndu hafi verið í þeirri trú, að samningur samkvæmt samningsdrögum á dskj. nr. 12 lægi fyrir. Krossaætt 1- 2 hafi komið út hjá stefndu þann 20. ágúst 1998.
Þegar hefja hafi átt dreifingu bókarinnar, hafi stefnandi óskað eftir því, að ofangreind drög að útgáfusamningi yrðu send lögmanni hans til athugunar, og hafi stefndi orðið við því. Í framhaldinu hafi komið upp ágreiningur milli aðila um uppgjör höfundarlauna af Krossaætt, eins og bréf á dsk. nr. 4-9 beri með sér.
Stefndu haldi því fram, að Sigurði Hermundarsyni hafi verið falið, af aðilum sameiginlega, að vinna að handriti Krossaættar með þeim skilmálum, að kostnaður vegna þess framlags við handritið greiddist af aðilum að jöfnu. Með þeim samningi hafi stefndu talið, að óþarft væri að geta um sérstakt þóknunarhlutfall samkvæmt 13. gr. hins staðlaða samnings.
Þáttur stefnanda í þeim kostnaði, kr. 750.000, skyldi dragast frá höfundarlaunum stefnanda. Öllum fullyrðingum stefnanda um, að stefndu hafi ætlað að bera allan kostnað vegna handritavinnu Sigurðar Hermundarsonar sé mótmælt sem röngum. Stefnandi hafi ekki mótmælt því, að Sigurði hafi verið greiddar kr. 1.500.000 vegna framlags hans til handritsins.
Samkvæmt 13. gr. hins staðlaða útgáfusamnings á dskj. nr. 3 skuli ákveða höfundarlaun sem hundraðshluta af verðlistaverði útgefanda. Með verðlistaverði sé átt við það verð, án virðisaukaskatts, sem útgefandi tilkynni viðskiptamönnum sínum á útgáfutíma bókar. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. geti verðlistaverð verið með tvennum hætti, eftir því hvort bækur séu seldar í bókabúðum eða hjá öðrum hefðbundnum söluaðilum bóka, eða seldar í farandsölu eða símsölu á vegum útgefanda. Krossaætt hafi verið seld hjá útgefanda í samræmi við 2. mgr. b-lið 13. gr. útgáfusamningsins, og skuli verðlistaverð þá reiknast sem smásöluverð, án vsk., að frádregnum 30% sölulaunum.
Samkvæmt útreikningi stefndu hafi ættfræðitexti Krossaættar reynzt vera um 580 blaðsíður, eða um 52% bókarinnar. Sé hins vegar titilsíðum, framættum og nafnaskrá sleppt í þessum útreikningi, sé ættfræðitextinn tæplega 60% af bókinni. Annað séu myndir og ítarefni, sem lagt hafi verið til bókarinnar á kostnað og ábyrgð stefndu. Í samræmi við lokamálsgrein 13. gr. hins staðlaða útgáfusamnings á dskj. nr. 3 og 12 hafi stefndu krafizt lækkunar á höfundarlaunum í sama hlutfalli og nemi umfangi af prentfleti bókarinnar. Í bréfi á dskj. nr. 7 hafi verið gerð krafa um lækkun höfundarlauna í samræmi við lokamálsgrein 13. gr., og hafi þar verið talið eðlilegt og sanngjarnt, að skerðingin væri 30%. Fullyrðingum stefnanda í stefnu, um að stefndu hafi lýst því yfir, að þeir myndu ekki beita skerðingarákvæði 13. gr., sé mótmælt sem röngum.
Í nefndu riti séu um 4000 ljósmyndir, og séu þær, ásamt ítarefni, um 40% af prentfleti bókarinnar. Án þessa framlags stefndu væri ritið innan við 600 bls., auk nafnaskrár, í stað rúmlega 1100 bls. Nafnaskráin sé einnig unnin af stefndu. Mikið verk hafi verið innt af hendi af hálfu stefndu við útvegun á hinum 4000 myndum. Starfsmenn stefndu hafi lagt til um 6 mánaða vinnu í söfnun, skráningu og varðveizlu mynda og skil á myndum.
Í ritinu sé mikið af landslags- og bæjarmyndum úr safni Páls Jónssonar, ljósmyndara, en stefndu þurfi að endurgjalda fyrir þær myndbirtingar. Stefndu hafi innt af hendi allt vinnuframlag og kostnað við að koma myndum og ítarefni á tölvutækt form. Stefndu beri alla ábyrgð á myndbirtingum og ítarefni gagnvart höfundum þess efnis.
Skerðing á höfundarlaunum, samkvæmt lokamálsgrein 13. gr. í hinum staðlaða samningi á dskj. nr. 3 að kröfu stefndu, hljóti að teljast eðlileg og réttmæt. Skerðingin fari eftir skilmálum, sem aðilar leggi til grundvallar í lögskiptum sínum.
Í samræmi við ofangreint og hina stöðluðu samningsskilmála hafi stefndu lagt til, að höfundarlaun stefnanda tækju mið af kr. 5.983 pr. eintak af bókinni, m.v. að útsöluverð fyrir einstaka bók sé kr. 13.920.
Í samningum um höfundarlaun sé almennt tekið mið af tveimur aðferðum, sbr. 14. og 15. gr. í framlögðum stöðluðum útgáfusamningi. Í bréfi stefndu til stefnanda á dskj. nr. 7 hafi stefndu lagt fram tillögur að uppgjöri á höfundarlaunum stefnanda, og hafi stefndu lýst sig reiðubúna til að ljúka málinu í samræmi við aðra hvora aðferðina eftir vilja stefnanda, að frádregnum þeim kostnaði, sem stefnanda hafi borið að greiða vegna framlags Sigurðar Hermundarsonar til handritsins. Samkvæmt útreikningum stefndu, sem fram komi í tilvitnuðu bréfi, skyldu höfundarlaun stefnanda vera kr. 626.090, ef tekið hefði verið mið af heildaruppgjöri samkvæmt 14. gr. samnings á dskj. nr. 3, en kr. 681.433, ef tekið hefði verið mið af heildaruppgjöri samkvæmt 15. gr.
Með bréfi á dskj. nr. 8 hafi stefnandi mótmælt þessum hugmyndum að uppgjöri.
Stefnandi hafi valið að byggja stefnukröfur sínar á því, að uppgjör á höfundarlaunum skuli fara fram samkvæmt 14. gr. hinna stöðluðu samningsskilmála á dskj. nr. 3, samkvæmt seldum eintökum. Stefnukröfurnar séu í ósamræmi við 14. gr. samningsskilmálanna, sem stefnandi byggi þó á.
Stefndu byggi kröfur sínar á því, að fara eigi eftir hinum stöðluðu samningsskilmálum um uppgjör höfundarlauna til stefnanda, þar sem skerða eigi höfundarlaun samkvæmt lokamálsgrein 13. gr. samningsins í samræmi við ofangreint. Þá eigi að draga frá höfundarlaunum helming af þeirri greiðslu, sem stefndu hafi innt af hendi til Sigurðar Hermundarsonar, vegna vinnu hans við handrit Krossaættar. Þá byggi stefndu á því, að við uppgjör á höfundarlaunum eigi að fara eftir 14. gr. og 21. gr. hinna stöðluðu samningsskilmála.
Stefnukrafan byggi á því, að seld eintök af Krossaætt hjá stefndu hafi verið 1450 þann 1. október 1998.
Framleidd eintök af Krossaætt 1-2 hafi verið 1539 eintök. Gölluð eintök í framleiðslu hafi verið 9, og 25 eintök séu í starfsstöð stefndu, sem ætluð séu höfundi. Af framleiddum eintökum séu 120 ætluð útgefanda í samræmi við 18. gr. hins staðlaða útgáfusamnings. Seld eintök af bókinni þann 1. október 1998 hafi verið 1004, og hafi þá verið til á lager, sem ætlað hafi verið til sölu, alls 381 eintak. Upplag útgáfunnar, sem ætlað hafi verið til sölu, hafi verið 1385 bækur. Áætluð höfundarlaun fyrir allt upplag frumútgáfu geti ekki tekið mið af öðru en eintökum, sem ætluð séu til sölu.
Samkvæmt 14. gr. samnings á dskj. nr. 3 skyldu stefndu vera búnir að greiða helming áætlaðra höfundarlauna fyrir útgáfuna innan þriggja mánaða frá útgáfudegi.
Útgáfudagur ritsins hafi verið 20. ágúst 1998. Að mati stefndu hafi helmingur áætlaðra höfundarlauna fyrir allt upplagið, skv. 14. gr., sbr. 13. gr. á dskj. nr. 3, aldrei getað verið meira en kr. 952.943. Frá því hafi borið að draga helming af kostnaði, sem stefndu höfðu lagt út fyrir til vinnslu handrits í samráði við stefnanda, kr. 750.000. Þann 1. október 1998 hafi stefndu ekki verið skuldbundnir til að greiða til stefnanda meira en kr. 202.943. Í framhaldinu hafi stefndu borið að haga uppgjöri í samræmi við 21. gr. hinna stöðluðu samningsskilmála á dskj. nr. 3.
Stefnandi hafi haft allar upplýsingar um framleidd og seld eintök bókarinnar þegar í október 1998. Greiðsla til stefnanda í samræmi við ákvæði 14. gr., sbr. 13. gr. samningsskilmálanna, hafi verið til reiðu hjá stefndu og verið boðin fram til stefnanda. Stefnandi hafi neitað viðtöku þeirrar greiðslu og einnig neitað viðtöku á greiðslum í samræmi við greiðslutilboð á grundvelli heildaruppgjörs höfundarlauna, sem fram komi á dskj. nr. 7 og 9. Af þessum sökum beri að sýkna stefndu, en til vara að lækka stefnukröfur hans verulega.
Ef talið verði, að samningur hafi ekki legið fyrir milli aðila um skiptingu kostnaðar vegna vinnu Sigurðar Hermundarsonar við handrit Krossaættar 1-2, hljóti að verða að leggja það til grundvallar, að höfundarréttur að ættfræðitexta bókarinnar skiptist milli aðila.
Í bréfi á dskj. nr. 6 sé lagt til, að höfundarrétti að ættfræðitextanum verði skipt þannig, að stefnandi teljist höfundur að 2/3 hluta textans, en stefndu, vegna framlags þeirra og Sigurðar Hermundarsonar, höfundar að 1/3 hluta. Ef slík skipting verði lögð til grundvallar, geti stefndu ekki talizt hafa verið greiðsluskyldir gagnvart stefnanda á meira en kr. 635.295 þann l. október 1998, sbr. 13. gr. hinna stöðluðu samningsskilmála. Sú greiðsla hafi staðið til reiðu fyrir stefnanda í starfsstöð stefndu, en stefnandi hafi einnig neitað uppgjöri á þeim forsendum.
Ef talið verði, að samningur hafi ekki legið fyrir milli aðila um skiptingu kostnaðar vegna vinnu Sigurðar Hermundarsonar við handrit Krossaættar 1-2, og ef ekki verði lagt til grundvallar, að ættfræðitexta bókarinnar verði skipt, sé á því byggt, að stefnandi sé engu að síður greiðsluskyldur á helmingi kostnaðarins, kr. 750.000. Stefnandi hafi samþykkt, að Sigurður Hermundarson yrði fenginn til að vinna við ættfræðitexta bókarinnar, og stefnandi hafi fylgzt með hinni miklu vinnu, sem Sigurður og stefndu lögðu til handritsins. Stefnandi hafi aldrei gert fyrirvara um, að vinna Sigurðar ætti að vera á kostnað stefndu. Þegar stefnandi samþykkti, að Sigurður yrði fenginn til vinnu við handritið, hafi stefndu áskilið sér rétt til að krefja stefnanda um helming kostnaðarins, enda slík krafa eðlileg og sanngjörn.
Í tilefni af málsókn stefnanda hafi stefndu lagt fram matsbeiðni þar sem farið sé fram á dómkvaðningu matsmanna skv. IX. kafla 1. nr. 91/1991 til að meta annars vegar umfang ættfræðitexta í hundraðshlutum af prentfleti bókarinnar Krossaætt og hins vegar til að meta framlag stefnanda í hundraðshlutum til ættfræðitexta bókarinnar í hlutfalli við framlag stefndu og Sigurðar Hermundarsonar. Stefndu áskilji sér rétt til að byggja á niðurstöðu matsins, að því er varði skerðingu á höfundarlaunum vegna myndflatar og ítarefnis og að því er varði framlag stefnanda til handritsins í hlutfalli við framlag Sigurðar Hermundarsonar og stefndu. Áskilinn sé réttur til að byggja þóknunarhlutfall stefnanda, sbr. 13. gr. í hinum stöðluðu samningsskilmálum á dskj. nr. 3 og 12, í samræmi við niðurstöðu matsins.
Ef áðurgreindar málsástæður stefndu varðandi kostnaðarskiptingu vegna framlags Sigurðar Hermundarsonar til handritsins eða skiptingu á höfundarrétti á ættfræðitexta vegna vinnuframlags hans og stefndu verði ekki teknar til greina, sé gerð krafa til þess, að stefnandi greiði stefndu kr. 750.000, með dráttarvöxtum frá 1. október 1998, og sé sú krafa höfð uppi til skuldajafnaðar í málinu skv. 28. gr. l. nr. 91/1991.
Miskabótakröfu stefnanda, að fjárhæð kr. 400.000, sé mótmælt. Stefnandi byggi þessa kröfu sína á því, að stefndu hafi raskað rétti hans með ólögmætum hætti með því, leynt og ljóst, að halda stefnanda frá vinnu við verkið, þegar komið hafi verið að lokafrágangi. Þá haldi stefnandi því fram, að sala hafi verið hafin á bókinni, þrátt fyrir ósk stefnanda um, að það yrði ekki gert, fyrr en gengið hafi verið frá skriflegum útgáfusamningi. Þessum málsástæðum stefnanda sé mótmælt sem röngum.
Eins og áður greini, hafi aðilar lagt hina stöðluðu samningsskilmála til grundvallar í lögskiptum sínum. Samningsskilmálarnir hafi verið afhentir stefnanda í frumvinnslu útgáfunnar. Stefndu hafi mátt vera í þeirri trú, að samningur hefði tekizt milli aðila um kostnaðarskiptingu vegna framlags Sigurðar Hermundarsonar til handritsins, en ráðning hans til þeirrar vinnu hafi verið í samráði aðila. Stefnandi hafi fylgzt með allri vinnu við útgáfuna og lesið yfir prófarkir. Stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við verkframvindu. Er handrit Krossaættar 1-2 var fullbúið til prentunar, hafi stefnandi ritað formála að bókinni á miðju sumri 1998, þar sem hann hafi lýst yfir góðum samskiptum og samstarfi við stefndu.
Stefndu hafi boðið fram uppgjör, sem sé í samræmi við samkomulag aðila og hina stöðluðu samningsskilmála, sem stefnandi byggi á. Greiðsla vegna höfundarlauna, í samræmi við hina stöðluðu samningsskilmála, hafi verið stefnanda til reiðu á starfsstöð stefndu. Stefnandi hafi kosið að beina óréttmætum og ósanngjörnum kröfum um höfundarþóknun gagnvart stefndu og neitað viðtöku á greiðslum í samræmi við tillögur stefndu að uppgjöri. Ef stefnukröfur verði teknar til greina, muni stefndu tapa fjármunum á útgáfu Krossaættar 1-2.
Dráttarvaxtakröfum í stefnu sé mótmælt. Ef dæmt verði, skuli ekki telja upphafstíma dráttarvaxta byrja fyrr en frá dómsuppsögu. Gjalddagi á höfundarréttarkröfu geti ekki talizt vera fyrr en 20. nóvember, eða þremur mánuðum eftir útgáfu Krossaættar 1-2, sbr. 14. gr. hinna stöðluðu samningsskilmála.
Því sé mótmælt, að stefndu hafi sýnt af sér vanefndir gagnvart stefnanda, og að þær vanefndir eigi að leiða til annars upphafstíma dráttarvaxta en ella.
Í samræmi við framangreint beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Til vara sé þess krafizt, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.
Í málskostnaðarkröfu sé ekki krafizt virðisaukaskatts á málskostnað, en starfsemi stefndu við bókaútgáfu sé virðisaukaskattskyld.
Um málatilbúnað sinn vísi stefndu til almennra reglna kröfu- og samningaréttar. Vísað sé til höfundalaga nr. 73/1972 og til 28. gr. l. nr. 91/1991, að því er varði gagnkröfu til skuldajafnaðar. Krafa um dráttarvexti á gagnkröfu styðjist við III. kafla l. nr. 25/1987, og krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla 1. nr. 91/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Aðilar og matsmenn gáfu skýrslu fyrir dómi. Af hálfu stefndu hafði verið boðað, að vitnið Sigurður Hermundarson myndi einnig koma til skýrslugjafar, en við aðalmeðferð málsins tilkynnti lögmaður stefndu, að vitnisburður hans teldist óþarfur í málinu.
Ágreiningslaust er, að aðilar gerðu með sér samning, um að stefnandi sæi um gerð ættfræðirits Krossaættar gegn greiðslu höfundarlauna. Skyldi staðlaður samningur Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands lagður til grundvallar samningum aðila, en aldrei var gengið frá endanlegum, skriflegum samningi. Óumdeilt er, að stefnandi gat valið um uppgjörsaðferð samkvæmt 14. gr. hins staðlaða samnings. Stefnandi byggir kröfur sínar um uppgjör á tilgreindu hlutfalli af seldum eintökum, og er ekki ágreiningur um fjölda þeirra eða verðlistaverð. Samkvæmt því reiknast höfundarlaun stefnanda kr. 2.022.818, svo sem hann gerir kröfu um. Af hálfu stefndu er því hins vegar haldið fram, að fjárhæð þessa beri að skerða, annars vegar vegna þátttöku stefnanda í kostnaði við vinnu Sigurðar Hermundarsonar að ættfræðiritinu, og hins vegar vegna ljósmynda og ítarefnis, sbr. 13. gr. hins staðlaða samnings. Til vara gerir stefndi tilkall til hluta höfundarréttargreiðslna vegna aðildar að höfundarrétti. Verður nú fjallað um hvert atriði fyrir sig og jafnframt um miskabótakröfu stefnanda.
Þáttur Sigurðar Hermundarsonar:
Í framburði stefndu fyrir dómi kom fram, að þeir réðu Sigurð Hermundarson til verksins, þar sem það reyndist mun umfangsmeira en upphaflega hafði verið talið. Sigurður Hermundarson hafði áður starfað fyrir stefndu að ýmsum verkefnum og hafði þar vinnuaðstöðu. Mun hann hafa starfað þar sem verktaki. Stefnandi kveðst hafa litið svo á, að Sigurður Hermundarson væri starfsmaður stefndu og launþegi hjá þeim. Hann bar fyrir dómi, að Sigurður hefði komið inn á fyrsta fund sinn með stefndu vorið 1996 og tekið þátt í kaffiborðsumræðu. Stefndi, Steingrímur, skýrði svo frá, að það kunni að vera, að Sigurður hafi verið á þessum fundi, en útilokað, að honum hafi verið lofuð vinna á þessu stigi. Hann staðhæfði enn fremur, að hann hefði ekkert verið á vegum fyrirtækisins á árinu 1996. Í bréfi stefndu til stefnanda á dskj. nr. 6, sem og í drögum að samningi á dskj. nr. 12, 6. og 29. gr., er talað um Sigurð sem starfsmann stefnda. Eins og fram er komið hafði Sigurður starfsaðstöðu í starfsstöð stefndu, og greiddu þeir honum laun. Báru stefndu, að þeir hefðu ekki haft samráð við stefnanda um launagreiðslur til Sigurðar vegna vinnu hans við Krossaætt, hvorki um fjárhæðir né hversu hátt hlutfall launa hans þeir ætluðu stefnanda að greiða. Þá bar stefndi, Steingrímur, að stefndu hefðu fyrst krafið stefnanda um greiðslu vegna vinnu Sigurðar við ritið, þegar komið var að lokauppgjöri við stefnanda. Eins og vinnusamband stefndu og Sigurðar Hermundarsonar blasti við stefnanda er sá framburður hans trúverðugur, að hann hafi mátt ætla, að Sigurður væri starfsmaður stefndu og á launum hjá þeim. Að þessu öllu virtu þykja stefndu ekki hafa fært sönnur að því eða gert sennilegt, gegn andmælum stefnanda, að samkomulag hafi verið með aðilum um, að stefnandi tæki þátt í greiðslum til Sigurðar Hermundarsonar og ber því að hafna þeim.
30% skerðing höfundarlauna vegna ljósmynda og ítarefnis:
Lokamálsliður 13. gr. hins staðlaða samnings hljóðar svo:
“Þegar um er að ræða myndskreytta útgáfu fyrir fullorðna er heimilt að lækka höfundarlaun í sama hlutfalli og nemur umfangi af prentfleti bókarinnar allt að 50%. Skerðingarákvæði þetta á því aðeins við að umfang myndskreytingar nemi minnst 7% af prentfleti bókar. Ef myndskreyting er meira en 50% af prentfleti bókarinnar skal semja um þóknun sérstaklega.”
Eftir orðanna hljóðan má líta svo á, að það sé útgefandans að ákveða, hvort til slíkrar skerðingar komi, sem þarna er heimiluð. Hins vegar ber að skýra greinina svo, að höfundi skuli gerð grein fyrir því, áður en gengið er til samninga um höfundarlaun, hvort útgefandi hyggst beita skerðingarákvæðinu, þannig að það verði hluti af samningi aðila. Kveða hinir sérfróðu meðdómsmenn þetta og vera hina almennu reglu í samskiptum útgefenda og höfunda. Ekki er fallizt á þá skýringu stefnanda, að skerðingarákvæðið eigi aðeins við um mynd- og ítarefni, sem lúta höfundarréttarákvæðum og útgefandi þarf að greiða fyrir sérstaklega, og verður slík túlkun ekki lesin úr orðalagi samningsins. Er það og í samræmi við túlkun greinarinnar í almennum samskiptum útgefenda og höfunda.
Stefnandi heldur því fram, að stefndu hafi lýst því yfir, að þeir myndu ekki beita ofangreindu skerðingarákvæði. Af hálfu stefndu er því mótmælt, og gera stefndu kröfu um að greiðslur til stefnanda verði skertar um 30% vegna mynd- og ítarefnis.
Stefndu halda því hvergi fram í málatilbúnaði sínum, að þeir hafi í upphafi samningssambands aðila áskilið sér rétt til framangreindrar skerðingar, og kemur skerðingin fyrst fram í skjölum málsins í bréfi stefndu til lögmanns stefnanda, dags. 14. september 1998, eða eftir útgáfudag ritsins. Þá skýrði stefndi, Ívar, svo frá fyrir dómi, að rangt væri, að stefnandi hefði spurt, hvort stefndu myndu skerða höfundarlaun með tilliti til mynda. Stefndu hefðu alltaf gengið út frá því, að svo yrði gert. Það komi fram í hinum staðlaða samningi, og þetta hefði ekki verið rætt neitt frekar. 30% skerðing miði við myndflöt í ritinu og hafi hún einfaldlega verið ákveðin með því að mæla það út.
Samkvæmt framansögðu þykir upplýst, að meðan ritið var í vinnslu var aldrei rætt við stefnanda um skerðingu greiðslna til hans vegna mynd- og ítarefnis, og er ekki fallizt á, að stefndu geti fyrst gert um það kröfu við lokauppgjör til stefnanda. Ber því að hafna þessari kröfu þeirra.
Tilkall stefndu til höfundarréttar:
Ekki liggur annað fyrir, en að upphaflega hafi verið gengið út frá því, að stefnandi yrði einn höfundur ritsins. Svo sem að framan er rakið, er ósannað, að höfundarréttargreiðslur til hans hafi átt að skerðast vegna vinnu Sigurðar Hermundarsonar eða annarra starfsmanna stefndu. Tilgreining stefnda, Máls og Myndar, á innanverðri titilsíðu, sem meðhöfundar, var ekki gerð með samþykki eða vitund stefnanda, svo sem fram kom við skýrslugjöf aðila fyrir dómi. Að þessu virtu er ekki fallizt á, að stefndi geti gert kröfur til hluta höfundarlauna sem meðhöfundur að ritinu.
Miskabætur:
Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á því, að stefndu hafi raskað rétti hans með ólögmætum hætti, þar sem samráð var ekki haft við hann um uppsetningu og útlit bókarinnar, sbr. 3. mgr. 8. gr. hins staðlaða samnings. 2. mgr. 56. gr. höfundalaga nr, 73/1972, sbr. 7. gr. l. nr. 78/1984, sem stefnandi styður miskabótakröfu sína við, hljóðar svo:
“Dæma skal höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi.”
Gegn andmælum stefndu er ósannað, að stefnanda hafi “leynt og ljóst verið haldið frá vinnu við verkið, þegar komið var að lokafrágangi”, svo sem stefnandi heldur fram. Aðilar báru allir fyrir dómi, að stefnanda hefði verið boðin vinnuaðstaða í starfsstöð stefndu, og að hann hefði haft aðgang að öllum gögnum varðandi ritið, en hins vegar hefði hann ekki mátt fara með frumgögn úr húsi. Þá kom fram að aðstaða hefði verið til ljósritunar á staðnum, til afnota fyrir stefnanda. Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að myndir og ítarefni hefðu alfarið verið á vegum stefnda, og hann hafi ekki fengið að hafa álit á því. Er síðari fullyrðingin ósönnuð og engum rökum studd. Stefnandi kvaðst aðspurður aldrei hafa gert athugasemdir við það, að hann sem höfundur hefði ekkert með úrvinnslu að gera úr innsendum upplýsingum frá niðjum, og hefði honum verið sagt, að þetta væri gangurinn í þessari vinnu, og þess vegna hafi hann sætt sig við það. Af formála, sem stefnandi ritaði að verkinu seinni hluta júlímánaðar 1998, má ráða, að hann hafi á þeim tíma talið samskipti sín og stefndu hafa verið með ágætum. Sala á ritinu hófst tæpum mánuði síðar, og verður að ganga út frá því, þar sem annað liggur ekki fyrir, að þá hafi verið ljóst, hvernig endanlegur frágangur bókarinnar yrði. Þá hefur stefnandi ekki bent á nein atriði við frágang bókarinnar, sem eru á annan veg en hann hefði kosið, og liggur ekki fyrir, að hann hafi haft sérstakar óskir í því sambandi, sbr. niðurlag 8. gr. hins staðlaða samnings. Þá er ekki sýnt fram á, að það að hefja sölu bókarinnar, áður en endanlega var gengið frá skriflegum samningi við stefnanda, hafi á einhvern hátt raskað rétti stefnanda. Enn fremur ber að líta til þess, að stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði gefið “grænt ljós” á útgáfuna í trausti þess, að hinir stöðluðu samningar yrðu lagðir til grundvallar. Þá er alls ósannað, að dráttur sá, sem varð á tilraunum til gerðar skriflegs samnings milli aðila, stafi fremur frá stefndu en stefnanda. Ber að öllu þessu athuguðu að hafna kröfum stefnanda um miskabætur.
Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda kr. 1.522.818, ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 435.000, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kváðu upp Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari, Páll Bragi Kristjónsson bókaútgefandi og Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Steingrímur Steinþórsson og Ívar Gissurarson, persónulega og fyrir hönd Máls og myndar sf., greiði stefnanda, Birni Péturssyni, kr. 1.522.818 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 2.022.818 frá 01.12.1998 til 27. 04.2000, en af kr. 1.522.818 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 435.000 í málskostnað.