Hæstiréttur íslands

Mál nr. 62/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Skattur
  • Réttindaröð


                                     

Miðvikudaginn 5. febrúar 2014.

Nr. 62/2014.

Fjármálaeftirlitið

(Grímur Sigurðsson hrl.)

gegn

EA fjárfestingarfélagi ehf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skattur. Réttindaröð.

F lýsti kröfu við slit E ehf. á grundvelli eftirlitsgjalds vegna ársins 2012 sem F lagði á E ehf. á grundvelli laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Slitastjórn E ehf. viðurkenndi kröfu F en hafnaði því að skipa henni í réttindaröð samkvæmt 2. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., heldur taldi hana eiga að njóta rétthæðar við slitin samkvæmt 113. gr. sömu laga. Ágreiningi um rétthæð kröfunnar var vísað til úrlausnar héraðsdóms sem komst að sömu niðurstöðu. Hæstiréttur skipaði kröfunni auk dráttarvaxta í réttindaröð við slit E ehf. samkvæmt 2. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki á þeim grundvelli að opinber gjöld, sem lögð væru á þrotabú vegna starfsemi þess eftir upphaf gjaldþrotaskipta, teldust til skiptakostnaðar samkvæmt síðastgreindu ákvæði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi um rétthæð kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu sinni að fjárhæð 11.667.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2012 til greiðsludags verði skipað í réttindaröð samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta á rætur að rekja til þess að með bréfi sóknaraðila 10. janúar 2012 var varnaraðila, sem áður hét MP banki hf., tilkynnt að lagt hafi verið á hann eftirlitsgjald vegna ársins 2012 að fjárhæð 1.135.000 krónur á grundvelli laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Varnaraðili mun hafa verið tekinn til slita 1. júní 2012 samkvæmt ákvæði 4. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í framhaldi af því tilkynnti sóknaraðili varnaraðila 3. júlí 2012 um endurálagningu eftirlitsgjalds vegna tímabilsins eftir að hann var tekinn til slita. Gjald þetta væri að fjárhæð 11.667.000 krónur „sem samsvarar einum þriðja hluta eftirlitsgjalds á félög sem áður höfðu starfsleyfi sem viðskiptabanki“, en um leið félli niður þriðjungur gjaldsins, sem áður hafði verið lagt á varnaraðila samkvæmt framansögðu. Um heimild til töku þessa gjalds, sem yrði á gjalddaga 1. september 2012, vísaði sóknaraðili til 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999. Sóknaraðili lýsti síðan kröfu 16. ágúst 2012 um greiðslu gjaldsins við slit varnaraðila og krafðist þess að henni yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn varnaraðila viðurkenndi kröfu sóknaraðila, en hafnaði því að skipa henni í réttindaröð á þann hátt, sem sá síðarnefndi hafði krafist, og taldi hana þannig eiga að njóta rétthæðar við slitin samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ágreiningur reis um þessa afstöðu slitastjórnar, sem vísaði honum 9. janúar 2013 til úrlausnar héraðsdóms, en mál þetta var þingfest af því tilefni 1. mars sama ár.

Óumdeilt er að eftirlitsgjaldið, sem að framan greinir, hafi verið lagt á varnaraðila vegna tímabils eftir að hann var tekinn til slita. Hér skipta því hvorki máli lögskýringargögn, sem varða reglur um rétthæð kröfu um skatta fyrir tímabil sem liðið var við upphaf gjaldþrotaskipta eða slit fjármálafyrirtækis, né sú skipan, sem leiðir af ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002, að ekki verði til ný persóna að lögum við það að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 ræðst rétthæð krafna við slit varnaraðila af ákvæðum XVII. kafla laga nr. 21/1991 og öðrum lagaákvæðum, sem í gildi voru við upphaf slitanna. Opinber gjöld, sem lögð eru á þrotabú vegna starfsemi þess eftir upphaf gjaldþrotaskipta, teljast til skiptakostnaðar samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Að því gættu leiðir af fyrrnefndri 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að kröfu sóknaraðila, sem deilt er um í málinu, verður að skipa á sama hátt í réttindaröð við slit varnaraðila. Um fjárhæð kröfunnar er ekki ágreiningur og ber hún dráttarvexti eins og sóknaraðili krefst, en fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili fallið frá þeirri málsástæðu að krafa um dráttarvexti hafi ekki réttilega verið höfð uppi í kröfulýsingu sóknaraðila.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Við slit varnaraðila, EA fjárfestingarfélags ehf., skal krafa sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, um greiðslu á 11.667.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2012 til greiðsludags njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014.

                Þetta mál var þingfest 1. mars 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 12. nóvember sl.

Sóknaraðili er Fjármálaeftirlitið, Höfðatúni 2, Reykjavík, en varnaraðili er EA fjárfestingarfélag ehf., Skipholti 50d, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að krafa sem hann lýsti í slitabú varnaraðila vegna eftirlitsgjalds ársins 2012, dags. 16. ágúst 2012, að fjárhæð 11.667.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2012 til greiðsludags, skuli njóta rétthæðar eftir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og að staðfest verði að krafa sóknaraðila sé almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

                Hinn 1. júní 2012 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og Björn L. Bergsson hrl. skipaður í slitastjórn. Eftir innköllun í Lögbirtingarblaði lýstu níu aðilar tólf kröfum, þar á meðal sóknaraðili.

                Krafa sóknaraðila byggir á lögákveðnu eftirlitsgjaldi fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi ber sóknaraðila að innheimta eftirlitsgjald af gjaldskyldum aðilum. Eftir 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna skal álagning eftirlitsgjalds fara fram eigi síðar en 15. janúar ár hvert og skal eftirlitsgjaldið greiðast ársþriðjungslega í jöfnum greiðslum.

                Hinn 1. janúar 2009 tóku gildi lög nr. 153/2008 um breytingu á lögum nr. 99/1999. Samkvæmt lokamálslið 1. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, eins og ákvæðið hljóðaði eftir breytinguna, skyldu Glitnir banki hf., Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. greiða fast eftirlitsgjald til sóknaraðila.

                Hinn 1. janúar 2010 tóku gildi lög nr 139/2009 um breytingu á lögum nr. 99/1999. Þessari gjaldtöku var þá breytt í almenna heimild til gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum undir stjórn skilanefnda, slitastjórna eða bráðabirgðastjórna. Í 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1991, eins og ákvæðið var orðað eftir breytinguna, var kveðið á um að fjármálafyrirtækjum, sem stýrt væri af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, bæri að greiða fast eftirlitsgjald.

                Hinn 1. janúar 2011 tóku gildi lög nr. 150/2010 um breytingu á lögum nr. 99/1999. Ákvæði 9. mgr. 5. gr. síðarnefndu laganna var breytt í það horf að færi eftirlitsskyldur aðili undir yfirráð skilanefndar, slitastjórnar eða bráðabirgðastjórnar, breyttist áður álagt gjald á þann veg að það skyldi ákvarðað sem föst fjárhæð og greiðast hlutfallslega frá því tímamarki sem eftirlitsskyldur aðili færi undir yfirráð skilanefndar, slitastjórnar eða bráðabirgðastjórnar.

                Hinn 1. janúar 2012 tóku gildi lög nr. 182/2011 um breytingu á lögum nr. 99/1999. Ákvæði 9. mgr. 5. gr. síðarnefndu laganna stóð óbreytt, að öðru leyti en því að fjárhæðum eftirlitsgjalds var breytt.

                Hinn 1. janúar 2013 tóku gildi lög nr. 132/2012 um breytingu á lögum nr. 99/1999. Við 9. mgr. 5. gr. síðarnefndu laganna var bætt við ákvæði þess efnis að um gjaldið færi eftir 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að öðru leyti stóð ákvæðið óbreytt, fyrir utan að fjárhæðum eftirlitsgjalds var breytt.

                Varnaraðili hafði starfsleyfi sem viðskiptabanki. Með bréfi dags. 10. janúar 2012 lagði sóknaraðili eftirlitsgjald ársins 2012 á varnaraðila á grundvelli a-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 og miðaðist gjaldið við 0,0338% af eignum varnaraðila. Þannig ákvarðað nam eftirlitsgjald ársins 2012 1.135.000 krónum og skyldi það greiðast með þremur jafnháum greiðslum, hverri að fjárhæð 378.000 krónur, dagana 1. febrúar, 1. maí og 1. september 2012.

                Með bréfi, dags. 3. júlí 2012, tilkynnti sóknaraðili varnaraðila um endurálagningu eftirlitsgjalds ársins 2012. Þar sem varnaraðili hafði starfsleyfi sem viðskiptabanki áður en hann var tekinn til slitameðferðar, ákvað sóknaraðili að eftirlitsgjald ársins 2012 skyldi nema 35 milljónum króna með vísan til þágildandi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999. Þar sem varnaraðili hafði þá þegar greitt 2/3 af áður álögðu eftirlitsgjaldi, kvaðst sóknaraðili telja rétt, m.a. með hliðsjón af meðalhófsreglu, að krefja varnaraðila um 1/3 af eftirlitsgjaldi viðskiptabanka í slitameðferð, eða 11.667.000 krónur, sem skyldu vera á gjalddaga 1. september 2012.

                Með bréfi, dags. 9. júlí 2012, tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að krafan hefði verið færð á kröfuskrá varnaraðila en ekki hefði verið tekin afstaða til hennar að svo stöddu.

                Með kröfulýsingu, dags. 16. ágúst 2012, lýsti sóknaraðili formlegri kröfu í bú varnaraðila að fjárhæð 11.667.000 króna. Var kröfunni lýst sem búskröfu á grundvelli 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili kveðst einnig með sama bréfi hafa lýst kröfu vegna dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá úrskurðardegi varnaraðila. Varnaraðili mótmælir því hins vegar að kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið lýst.

                Varnaraðili hafnaði kröfunni sem búskröfu samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 með bréfi dags. 20. nóvember 2012, en samþykkti hana sem almenna kröfu við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila með bréfi, dags. 27. nóvember 2012.

                Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundi sem haldinn var 7. janúar sl. til að leysa úr ágreiningi aðila um kröfuna. Með bréfi mótteknu 10. janúar sl. beindi slitastjórn varnaraðila ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili vísar til þess að fjármálafyrirtæki séu ekki tekin til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., heldur gildi ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki um slit þeirra. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að réttaráhrif úrskurðar um slitameðferð fjármálafyrirtækis væru í raun þau sömu og við gjaldþrotaskipti. Þegar varnaraðili var tekinn til slita með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2012 hafi verið í gildi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, um gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum í slitameðferð, eins og henni hafði verið breytt með lögum nr. 182/2011.

                Óumdeilt sé að varnaraðila hafi verið stýrt af slitastjórn frá og með 1. júní 2012 og hafi þar af leiðandi frá því tímamarki fallið undir þágildandi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999. Varnaraðili hafði leyfi til að starfa sem viðskiptabanki þegar hann fór í slitameðferð. Þágildandi ákvæði 9. mgr. 5. gr. laganna hafi því mælt fyrir um að varnaraðila bæri að greiða lögbundið eftirlitsgjald að fjárhæð 35 milljónir króna á ársgrundvelli meðan hann væri í slitameðferð. Krafa sóknaraðila sé í réttu hlutfalli við eftirstöðvar gjaldsins þegar varnaraðili fór í slitameðferð 1. júní 2012.

                Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gildi við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, með þeim undantekningum sem í ákvæðinu greinir. Af ákvæðinu leiði að teljist krafa búskrafa á grundvelli 110. gr. laga nr. 21/1991 við skipti á þrotabúi, njóti krafan sömu réttindaraðar við slit á fjármálafyrirtæki.

                Meginreglan sé á þá leið að skattar og önnur opinber gjöld sem falli á þrotabú eftir að það sé tekið til skipta teljist til búskrafna. Reglan styðjist m.a. við þau sjónarmið að við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti verði til nýr skattaðili, sbr. 2. og 3. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991. Skattar og önnur opinber gjöld, sem lögð séu á þennan nýja skattaðila, teljist þar af leiðandi sjálfkrafa hluti af kostnaði við skiptin. Slíkum skiptakostnaði beri að skipa í réttindaröð samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að skattkröfur sem stofnist fyrir töku bús til skipta séu almennar kröfur sem falli undir 113. gr. laga nr. 21/1991. Það leiði af muni á gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 99/1999 að krafa sóknaraðila hafi stofnast eftir töku varnaraðila til slitameðferðar. Kröfur sem stofnist eftir upphaf skipta verði aldrei almennar kröfur, enda séu þær ekki kröfur á hendur þrotamanni heldur á hendur þrotabúinu. Kröfur um skatta og eftirlitsgjald verði til eftir upphaf gjaldþrotaskipta og leggist á þrotabú sem haldi áfram rekstri og séu þær kröfur búskröfur. Ekki sé tekið fram í lögum nr 90/2003 um tekjuskatt og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að skattkröfur gegn þrotabúi séu búskröfur, heldur leiði það af almennum reglum.

                Ákvæði 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 sé sérlagaákvæði og beri að túlka ákvæði laga nr. 21/1991 í samræmi við þau. Þá séu umrædd ákvæði laga nr. 99/1999, sbr. lög nr. 182/2011, yngri en ákvæði laga nr. 21/1991. Samkvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum gangi sérlög framar almennum lögum og yngri lög framar eldri. Því sé hafin yfir vafa sú ákvörðun löggjafans að veita þessari kröfu þannig stöðu við slit fjármálafyrirtækja að tryggt sé að krafan greiðist að fullu. Skýrt og ótvírætt lagaákvæði, sem kveði á um greiðsluskyldu fjármálafyrirtækja undir slitum, dugi eitt og sér til að varnaraðila sé skylt að greiða sóknaraðila gjaldið að fullu. Það leiði því af sjálfu sér að 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 sé eina ákvæði laganna sem krafa sóknaraðila geti fallið undir þegar gjaldtökunni sé skipað í réttindaröð laganna. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að eftirlitsgjaldið næði ekki tilgangi sínum ef krafa um greiðslu gjaldsins væri ekki búskrafa, enda væri annars óljóst hvort og þá hvenær gjaldið innheimtist.

                Gjaldtökunni sé sérstaklega ætlað að standa undir rannsókn sóknaraðila á varnaraðila meðan slitameðferð varnaraðila standi yfir. Gjaldtakan sé því með beinum hætti tengd kostnaði af slitum varnaraðila og stofnist ekki fyrr en slitameðferð sé hafin. Gjaldtakan sé þannig ein af lögfylgjum þess að félag hljóti leyfi til að starfa sem fjármálafyrirtæki á grundvelli laga nr. 161/2002 og óaðskiljanlegur hluti af slitum fjármálafyrirtækis. Gjaldtakan sé með öðrum orðum lögmæltur skiptakostnaður fjármálafyrirtækja. Gjaldtakan falli því undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

                Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að kröfur á hendur fjármálafyrirtæki falli ekki í gjalddaga við upphaf slitameðferðar. Fyrirtækið haldi því áfram rekstri. Fjármálafyrirtæki verði því áfram að greiða eftirlitsgjald, enda sé fyrirtækið enn undir eftirliti.

                Öll tvímæli um stöðu gjaldsins í réttindaröð við slit fjármálafyrirtækja hafi verið tekin af með lögum nr. 132/2012, sem tóku gildi 1. janúar sl. og breyttu m.a. 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999. Í greinargerð með ákvæðinu segi m.a. að þessi breyting sé gerði til áréttingar á því sem hafi gilt hingað til.

                Sóknaraðili byggir jafnframt á því að við mat á því hvort krafa falli undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 þurfi alls ekki að sýna fram á að til hennar hafi verið stofnað með sérstökum aðgerðum eða að tilhlutan skiptastjóra. Ákvæðið mæli eingöngu fyrir um að undir það falli skiptakostnaður. Þar geti bæði komið til skiptakostnaður sem skiptastjóri stofni til, eða lögákveðinn skiptakostnaður eins og í þessu tilviki. Sérstaklega sé kveðið á um réttindaröð krafna, sem verði til fyrir tilstuðlan eða atbeina skiptastjóra, í 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Með samanburðarskýringu á 2. og 3. tl. 110. gr. laganna sé augljóst að krafa, sem falli undir 2. tl. 110. gr. laganna, þurfi ekki að hafa stofnast fyrir tilstuðlan eða atbeina skiptastjóra.

                Það hafi enga þýðingu við úrlausn málsins að greina hvort gjaldið sé skattur eða þjónustugjald. Ákvæði 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 uppfylli almenn skilyrði til að teljast skattlagningarheimild, en af því leiði að ákvæðið uppfylli einnig skilyrði sem gerð séu til lagaheimildar fyrir töku þjónustugjalda. Þar af leiðandi hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins að leiða í ljós hvort raunverulegur kostnaður sóknaraðila af slitum varnaraðila sé hærri eða lægri en hin lögákveðna fjárhæð. Ákvæðið mæli fyrir um nákvæma fjárhæð gjaldsins og geti það mat löggjafans ekki komið til endurskoðunar af hálfu stjórnvalds við álagningu þess né heldur af hálfu dómstóla.

                Slitastjórn varnaraðila hafi samþykkt fjárhæð kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Ágreiningur aðila lúti eingöngu að því hvar skuli skipa kröfunni í réttindaröð. Málsástæður um stjórnskipulegt gildi kröfu sóknaraðila, hvort um skattlagningu eða þjónustugjald sé að ræða, eða um fjárhæð kröfunnar séu því vart til umfjöllunar í málinu. Með samþykki á kröfunni sem almennri kröfu hafi slitastjóri jafnframt samþykkt réttmæti kröfunnar.

                Verði þrátt fyrir þetta talið skipta máli við úrlausn málsins, hvort um skattlagningu eða þjónustugjald sé að ræða, árétti sóknaraðili að þágildandi 5. mgr. 9. gr. laga nr. 99/1999 uppfylli öll skilyrði til að teljast gild skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Ákvæðið mæli fyrir um skattskyldu tiltekinna lögaðila, þ.e. fjármálafyrirtækja undir slitum. Skattstofninn sé skýrt greindur í lagaákvæðinu, en hann ráðist af tegund starfsleyfis umrædds fjármálafyrirtækis. Þá séu nákvæmar reglur í ákvæðinu um ákvörðun fjárhæðar skattsins. Þrotabú teljist sjálfstæðir skattaðilar og eigi hið sama við um slitabú fjármálafyrirtækja að þessu leyti. Þá gildi sú almenna regla að skattur, álagður á félög undir slitum, teljist skiptakostnaður. Verði gjaldið talið vera skattur í eðli sínu, njóti það því stöðu í réttindaröð samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

                Ákvæðið uppfylli einnig skilyrði þess að teljast þjónustugjald. Til töku þjónustugjalda nægi almennt einföld lagaheimild, þar sem kveðið sé á um heimild til gjaldtöku. Sé ekki kveðið á um fjárhæð gjaldsins í lagaákvæðinu þurfi við ákvörðun fjárhæðarinnar að taka tillit til endurgjaldsins, sem látið sé í té gegn greiðslu gjaldsins. Hafi löggjafinn hins vegar metið fjárhæð gjaldsins ráðist fjárhæð þess eingöngu af lagaákvæðinu. Við þær aðstæður þurfi sá, sem veiti þjónustuna, ekki að rökstyðja útreikning gjaldsins. Umræddu stjórnvaldi sé þá skylt að innheimta fjárhæðina sem lagaákvæðið kveður á um, en geti ekki að eigin frumkvæði innheimt aðra fjárhæð sem endurspegli raunkostnað við veitingu þjónustunnar. Lögákveðið þjónustugjald sem sé lagt á fjármálafyrirtæki í slitameðferð og hafi það hlutverk að standa undir kostnaði sóknaraðila af umræddum skiptum, geti ekki notið annarrar stöðu í réttindaröðinni en samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, enda sé gjaldið lögákveðið, það verði gjaldkræft eftir að slitameðferð hefst, því sé ætlað að standa undir kostnaði af slitunum og skuli innheimt allt þar til slitum ljúki.

                Samþykkja beri kröfu sóknaraðila við slit á varnaraðila eins og henni var lýst. Í því felist að samþykktir verði dráttarvextir á kröfuna frá og með gjalddaga hennar, 1. september 2012, til greiðsludags. Um heimild til að reikna dráttarvexti á kröfuna frá gjalddaga vísi sóknaraðili til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 9. júlí 2012, hafi sóknaraðili tilkynnt varnaraðila um endurálagningu eftirlitsgjalds árið 2012 sem greiðast skyldi 1. september 2012. Þannig styðjist upphafsdagur dráttarvaxta einnig við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Áföllnum dráttarvöxtum á kröfu, sem skipað sé í réttindaröð samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, skuli skipa í sömu réttindaröð. Það byggi á gagnályktun frá 1. tl. 114. gr. laganna, sem og almennum reglum kröfuréttar. Um vaxtafót dráttarvaxta sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

                Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Þess sé óskað að tekið verði tillit til greiðslu virðisaukaskatts við ákvörðun um málskostnað, en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og njóti því ekki endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Málsástæður varnaraðila

                Lögmaður varnaraðila vísaði til þess við munnlegan flutning málsins að þetta mál snerist einvörðungu um stöðu kröfu sóknaraðila í kröfuröð og um afturvirkni. Lögmaðurinn vísaði til þess að varnaraðili væri ekki þrotabú, heldur fjármálafyrirtæki í slitameðferð og þyrfti sérstakan úrskurð um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Varnaraðili sé því ekki ný lögpersóna.

Varnaraðili bendir á að almennt beri að fara með kröfur sem lýst sé í tilefni af slitum fjármálafyrirtækis á grundvelli laga nr. 161/2002, eftir lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, þar á meðal um rétthæð krafna. Sérstaklega sé tekið fram í 2. tl. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að því leyti sem rétthæð krafna geti ráðist samkvæmt þeim lögum af þeim tíma sem úrskurður sé kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta, skuli miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita. Af því megi álykta að leysa beri úr þessu máli á grundvelli gildandi laga 1. júní 2012 er varnaraðili var tekin til slita með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að sá dagur sé frestdagur við slitameðferðina og miðist réttarstaða félaga í slitum við frestdag.

                Kröfu sóknaraðila beri að hafna. Skattkröfur sem til stofnist við skipti á búum þar sem kröfur lúti lögmálum laga nr. 21/1991 teljist ekki búskröfur þannig að þær falli undir greindan tölulið. Til þess skorti bæði á hugtaksskilyrði og efnisleg skilyrði.

                Að auki beri að hafna kröfu sóknaraðila þar sem ótvírætt sé að eftirlitsgjald fjármálafyrirtækja í slitameðferð hafi ekki notið stöðu búskröfu lögum samkvæmt þegar varnaraðili hafi verið tekinn til slita 1. júní 2012. Í lögum nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hafi á þessum tíma þess verið í engu getið að skattkröfur vegna eftirlitsgjalds nytu stöðu búskröfu. Þau lög verði ekki túlkuð rúmt frekar en önnur lög sem fjalli um álagningu opinberra gjalda. Lögmætisreglan standi slíkri túlkun í vegi, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Síðbúin breyting á lögum nr. 99/1999 með lögum nr. 132/2012, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2013, breyti engu og staðfesti einvörðungu að gjaldið njóti ekki stöðu búskröfu samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að ákvæði 2. tl. hefði verið túlkað þannig að þar undir falli kröfur vegna ráðstafana skiptastjóra og sé því rangt að 3. tl. sömu greinar fjalli um ráðstafanir skiptastjóra. Ákveði skiptastjóri að halda áfram rekstri bús það sú ákvörðun skiptastjóra sem valdi því að kröfur stofnist á hendur búinu en ekki lagafyrirmæli. Engin lagaheimild hafi verið fyrir því að gjaldið nyti stöðu búskröfu þegar úrskurður var kveðinn upp um slitameðferð varnaraðila eða þegar gjaldið féll í gjalddaga 1. september 2012. Löggjafinn hafi viðurkennt þessa staðreynd í verki en þessi breyting geti ekki haft afturvirk áhrif frekar en skattlagningarheimildin sem slík, sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Ummæli í lögskýringargögnum geti engu um þetta breytt, sérstaklega ekki ummæli í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 132/2012. Þau lög hafi verið sett eftir að hafnað hafi verið að samþykkja kröfu sóknaraðila sem búskröfu.

                Til grundvallar þeirri niðurstöðu að hafna beri kröfu sóknaraðila liggi afdráttarlaus löggjafarvilji sem eigi rætur að rekja allt aftur til ársins 1974 þegar þágildandi skiptalögum nr. 3/1878 var breytt með lögum nr. 32/1974 á þá lundu að fella niður forgangsrétt skattkrafna við búskipti. Það hafi ekki verið talið í samræmi við nútímaviðhorf að tryggja stjórnvöldum forréttindi á kostnað annarra kröfuhafa. Þetta breytta löggjafarviðhorf hafi verið áréttað með 2. tl. 82. gr. þar sem tekið hafi verið fram að skiptagjöld í ríkissjóð skuli ekki vera meðal búskrafna sem njóti forgangs.

                Þegar lög um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og virðisaukaskatt nr.  50/1988 hafi verið sett hafi þau geymt ákvæði um forgang slíkra krafna við gjaldþrotaskipti. Með setningu laga nr. 78/1989 hafi ákvæði um forgangsrétt verið afnumin sökum þess að setning þeirra væri meðal annars í andstöðu við þau rök sem færð voru fyrir afnámi áður gildandi forgangsréttar fyrir opinber gjöld og vitnað í þeim efnum til greinargerðar með lögum nr. 32/1974. Jafnframt hafi því verið slegið föstu í athugasemdum með frumvarpinu að það sé mjög óheppilegt að dreifa ákvæðum um forgangsröð krafna í þrotabúum um löggjöfina vítt og breitt. Æskilegt hafi þótt að lagaákvæði um skuldaröð væru í skiptalögum einum.

                Hugmynd um forgang eða stöðu skattkrafna sem búskröfu hafi verið talin svo fjarri sanni að löggjafinn hafi ekki talið þörf á lögbundinni áréttingu þegar núgildandi lög nr. 21/1991 voru sett. Það hafi verið gert undir þeim formerkjum að gjöld í ríkissjóð vegna skipta teljist ekki til skiptakostnaðar, og því varnagli óþarfur eins og í 2. tl. 82. gr. laga nr. 3/1878, sérstaklega þar sem slík gjöld gætu tæplega talist eiga undir hugtakið skiptakostnaður eins og getið hafi verið í lögskýringargögnum.

                Sú réttarstaða að krafa sóknaraðila njóti ekki stöðu búskröfu styðjist einnig við þau rök að ella væri gengið á stjórnarskrárvarinn eignarrétt kröfuhafa varnaraðila í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar og jafnræði kröfuhafa væri raskað. Hlutur þeirra yrði eftir á gerður lakari að lögum en hlutur sóknaraðila. Slíkt standist ekki heldur 65. gr. stjórnarskrárinnar.

                Það breyti ekki réttarstöðunni sóknaraðila í hag að nefna eftirlitsgjald samkvæmt lögum nr. 99/1999 þjónustugjald. Engin tengsl séu á milli þess eftirlits sem sóknaraðili hafi uppi og gjaldsins. Gjaldið sé lagt á eftir því hvernig komið sé fyrir þeim sem gjaldið sé álagt, án tillits til raunverulegs eftirlits og án tengsla við þörfina á eftirliti. Umfang þeirrar starfsemi sem eigi að sæta eftirliti sé í engum tengslum við fjárhæð gjaldsins. Ekkert í slitum varnaraðila kalli á sérstakt eftirlit sóknaraðila umfram eftirlit og aðhald héraðsdóms og kröfuhafa samkvæmt lögum nr. 21/1991. Eftirlitsgjaldið hafi þannig eingöngu yfirbragð skatts. Lögmaður varnaraðila tók fram við munnlegan flutning málsins að óumdeilt væri að eftirlitsgjaldið væri skattur.

                Að auki hafi opinber gjaldtaka sem þessi ekkert með skipti á búi varnaraðila að gera. Það verkefni að fylgjast með starfsemi félaga í slitameðferð hafi ekkert með slitin sem slík að gera og því eðlisólíkt þeim kostnaði sem falli undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Þetta eftirlit falli því ekki að hugtaksskilyrðum þess að vera kostnaður af skiptunum. Þetta eðli gjaldsins endurspeglist í því að þegar varnaraðili var tekinn til slitameðferðar hafi eftirlitsgjaldið hækkað úr 1.135.000 krónum í 35 milljónir króna.

                Slitastjórn og skiptastjórar sem fari með skipti búa stofni til búskrafna í því skyni að vinna að úrlausn skiptanna, til að greina þá hagsmuni sem kunni að vera í húfi, vinna slíka hagsmuni undir búið eftir atvikum og til að ljúka skiptum. Það sé meðal frumskyldna skiptastjóra og slitastjórna að standa þannig að verki að ekki sé stofnað til skuldbindinga sem falli undir 110. gr. laga nr. 21/1991, sem geti rýrt hlut almennra kröfuhafa, nema fé sé til slíkra verka og hagsmunir búsins kalli á þau fjárútlát. Gæsla almannahagsmuna sé ekki þar á meðal. Hafi búið ekki ráð á að sinna verkum og séu kröfuhafar ekki reiðubúnir að standa straum af kostnaði við þau beri skiptastjóra og slitastjórn að ljúka sínum verkum þegar í stað. Álagning opinbers gjalds án tillits til þess hversu umkomið búið sé til að greiða það geti ekki notið stöðu búskröfu. Slík gjaldtaka geti beinlínis stuðlað að því að verkum við búskipti eða slitameðferð verði ekki lokið með fullnægjandi hætti, enda sé það álagt án tillits til bolmagns búsins til að standa undir því.

                Varnaraðili mótmælir sérstaklega kröfu sóknaraðila um dráttarvexti. Í kröfulýsingu sóknaraðila hafi enginn áskilnaður verið gerður um dráttarvexti af kröfunni og sé krafa um þá of seint fram komin. Lögmaður varnaraðila tók fram við munnlegan flutning málsins að almennt hefði verið getið um dráttarvexti í kröfulýsingu en ekki getið um fjárhæð. Þá sé krafa um dráttarvexti alltaf eftirstæð krafa.

Varnaraðili vísar til ákvæða laga nr. 21/1991, sem og laga nr. 161/2002. Um fyrirsvar vísar varnaraðili til 4. mgr. 101. gr. og 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

Niðurstaða

Ágreiningur málsaðila snýst um það hvaða rétthæð krafa sóknaraðila um lögbundið eftirlitsgjald fjármálafyrirtækja í slitameðferð fyrir árið 2012 eigi að njóta við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili telur að krafan eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en varnaraðili telur að kröfuna eigi að flokka sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga við slitameðferðina. Ekki er ágreiningur um réttmæti kröfunnar sem slíkrar eða um fjárhæð hennar. Aðila greinir einnig á um hvort krafan eigi að bera dráttarvexti og þá hvaða rétthæð krafa um dráttarvexti eigi að njóta við slitameðferð varnaraðila.

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, með undantekningu sem þar er nánar lýst. Í lokamálslið ákvæðisins segir að því leyti sem rétthæð krafna geti ráðist samkvæmt lögum nr. 21/1991 af þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skuli miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita. Það leiðir af 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að teljist krafa búskrafa á grundvelli 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við skipti á þrotabúi, nýtur krafan sömu stöðu við slit fjármálafyrirtækis.

Ekki er um það deilt að umrætt eftirlitsgjald teljist skattur, en ekki þjónustugjald. Ágreiningur málsaðila snýst um það eitt hvort lagaheimild mæli fyrir um það að krafan eigi að njóta þeirrar rétthæðar við slitameðferð fjármálafyrirtækis sem sóknaraðili gerir kröfu um. Það leiðir af framangreindum lokamálslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að leysa verður úr þessu máli samkvæmt þeim lögum sem voru í gildi 1. júní 2012, þegar varnaraðili var tekinn til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 verður bú fjármálafyrirtækis ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum. Fram kemur m.a. í 4. mgr. sömu greinar að þegar dómsúrlausn hafi gengið um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita skipi héraðsdómari því slitastjórn sem í skuli sitja allt að fimm menn. Við skipun hennar taki hún við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi. Samkvæmt 103. gr. a laga nr. 161/2002 getur slitameðferð fjármálafyrirtækis lokið með því að allar viðurkenndar kröfur séu greiddar og fyrirtækið látið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda eða með því að hluthöfum eða stofnfjáreigendum sé greiddur út eignarhlutur þeirra af eftirstöðvum eigna, eftir því sem þar er nánar kveðið á um, með gerð nauðasamnings eða með því að bú fyrirtækisins sé tekið til gjaldþrotaskipta. Hvorki í þessum ákvæðum né öðrum ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 er tekið fram að ákvæði 72. og 73. gr. laga nr. 21/1991 gildi við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Að mati dómsins leiðir af framangreindum ákvæðum að þegar fjármálafyrirtæki er tekið til slita verður ekki til ný lögpersóna. Tilvísun í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til 74. gr. laga nr. 21/1991 þykir ekki breyta þessari niðurstöðu. Tilvísuninni var bætt við málsgreinina með 4. gr. laga nr. 78/2011 en samkvæmt athugasemdum við 4. gr. frumvarps sem varð að þeim lögum, átti með þessari tilvísun að taka af öll tvímæli um að ákvæði 74. gr. laga nr. 21/1991 um efndir skuldbindinga þegar um grandlausa viðsemjendur sé að ræða gildi einnig við slit fjármálafyrirtækis.

Það leiðir af 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að þrotabú telst vera sjálfstæður skattaðili. Hvorki í þeim tölulið né öðrum töluliðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 er sérstaklega kveðið á um skattskyldu fjármálafyrirtækis í slitameðferð. Varnaraðili er einkahlutafélag og því skattskyldur samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem ekki verður til ný lögpersóna við töku fjármálafyrirtækis til slitameðferðar verður að líta svo á að fjármálafyrirtæki í slitameðferð sé ekki nýr, sjálfstæður skattaðili.

Sú meginregla gengur í gegnum lög nr. 21/1991 að kröfuhafar þrotabús eiga að sitja við sama borð og njóta sömu réttinda við búskiptin. Með ákvæðum XVII. kafla laga nr. 21/1991 er vikið frá þessu með því að kröfum á hendur þrotabúi er skipað í röð eftir rétthæð, þannig að kröfur sem teljast til ákveðinnar rétthæðar greiðast af eignum búsins á undan kröfum sem falla í næsta flokk í röðinni. Sú meginregla kemur fram í 113. gr. laganna að allar kröfur, sem ekki eru taldar sérstaklega upp í 109. til 112. gr. eða 114. gr. teljast vera almennar kröfur. Í samræmi við almenn viðhorf við skýringar 109. til 112. gr. verður að túlka þessi ákvæði eftir orðanna hljóðan.

Undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 fellur kostnaður af skiptunum. Eins og ákvæðið hefur verið skýrt fellur undir þennan lið kostnaður sem skiptastjóri stofnar til. Ákvæðið er þó samkvæmt orðanna hljóðan ekki bundið við þau tilvik þegar skiptastjóri stofnar til skiptakostnaðar með ákvörðunum sínum. Í athugasemdum við 110. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 21/1991 segir m.a. að í 2. tl. 110. gr. sé ekki tekið berum orðum fram að gjöld í ríkissjóð vegna skipta teljist ekki til skiptakostnaðar, svo sem sé gert í 2. tl. 82. gr. laga nr. 3/1878, en sá varnagli þyki óþarfur í ljósi þess að slík gjöld geti tæplega talist eiga í eðlilegum skilningi undir hugtakið skiptakostnaður. Með 2. gr. laga nr. 32/1974 var 82. gr. þágildandi laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. breytt í það horf að tekið var fram í 2. tl. 82. gr. að undir þann lið félli skiptakostnaður, þó ekki skiptagjöld í ríkissjóð. Með 4. gr. laga nr. 32/1974 var 84. gr. laga nr. 3/1878 breytt þannig að skattkröfur töldust ekki lengur forgangskröfur. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 32/1974 sagði að lagt væri til að skiptagjöld í ríkissjóð yrði almenn krafa, en krafa um greiðslu þessara gjalda væri nú forgangskrafa. Fyrir þessari breytingu væru sömu rök og fyrir því að fella almennt niður skattkröfur sem forgangskröfur. Samkvæmt þessu virðist tilgangur löggjafans við setningu laga nr. 21/1991 hafa verið sá að gjöld í ríkissjóð vegna skipta féllu ekki undir 2. tl. 110. gr. 

Vegna þessa tilgangs 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 telur dómurinn ljóst að rétthæð lögákveðins skiptakostnaðar, önnur en sem almenn krafa, verði að byggja á skýrri lagaheimild. Þar sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð telst hvorki vera nýr lögaðili né nýr skattaðili getur slík rétthæð ekki byggst á 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Getur umkrafin rétthæð kröfu sóknaraðila aðeins byggst á 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 182/2011. Ákvæði um að Kaupþing banki hf., Landsbanki Íslands hf. og Glitnir banki hf. skyldu greiða eftirlitsgjald kom inn í lög nr. 153/2008 með breytingatillögu viðskiptanefndar Alþingis sem Alþingi samþykkti. Í þeim lögum var ekki tekin afstaða til þess berum orðum hvaða rétthæð krafa um greiðslu eftirlitsgjalds á hendur þessum þremur fjármálafyrirtækjum ætti að hafa við slitameðferð þeirra og ekki var fjallað um það í nefndaráliti nefndarinnar. Í lögum nr. 139/2009, 150/2010 og 182/2011 var ekki heldur tekin afstaða til þess hvaða rétthæð krafa um greiðslu eftirlitsgjalds samkvæmt 9. mgr. 5 gr. laga nr. 99/1999 ætti að hafa við slit fjármálafyrirtækis. Ekki er heldur fjallað um það í athugasemdum með frumvörpum sem urðu að þeim lögum eða öðrum lögskýringargögnum. Hins vegar verður ekki annað ráðið af athugasemdum við þau frumvörp sem urðu að lögum nr. 139/2009, 150/2010 og 182/2011, en að gert væri ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki í slitameðferð greiddu umkrafið eftirlitsgjald að fullu. Þar sem ekki var kveðið á um tiltekna rétthæð í 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, sbr. lög nr. 182/2011, og einungis með óljósum hætti fjallað um hana í lögskýringargögnum við ákvæðið er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðila að ákvæðið mæli skýrt fyrir um að krafa hans njóti rétthæðar samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Vegna þessa er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðila að krafa hans falli undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila og staðfesta þá afstöðu varnaraðila að krafa sóknaraðila teljist vera almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga við slitameðferð varnaraðila.

Í kröfulýsingu sóknaraðila var tekið fram að krafist væri ,,áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum“ af höfuðstól kröfunnar frá og með úrskurðardegi. Er krafa sóknaraðila um dráttarvexti því ekki of seint fram komin. Kröfulýsing sóknaraðila var dags. 16. ágúst 2012 og móttekin 17. ágúst 2012 og er ekki ágreiningur um að krafa sóknaraðila var þá ekki fallin í gjalddaga. Samkvæmt 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 teljast kröfur um vexti af kröfu samkvæmt 113. gr. sem hafa fallið til eftir að úrskurður gekk um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta vera eftirstæð krafa. Krafa um áfallandi dráttarvexti verður því tekin til greina með rétthæð samkvæmt 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 300.000 krónur. Er þá litið til greiðslu varnaraðila á þingfestingargjaldi, sem og skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, um að krafa hans að fjárhæð 11.667.000 krónur njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, EA fjárfestingarfélags ehf., er hafnað og staðfest sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga.

Viðurkennt er að krafa sóknaraðila ber áfallandi dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2012 til greiðsludags sem njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.