Hæstiréttur íslands
Mál nr. 275/2003
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Uppsögn
- Laun
- Niðurlagning stöðu
- Skaðabætur
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 275/2003. |
Háskóli Íslands (Hörður Felix Harðarson hrl.) gegn þrotabúi Gunnars Þórs Jónssonar (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. Guðmundur Sigurðsson hdl.) og þrotabú Gunnars Þórs Jónssonar gegn Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahúsi (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Laun. Niðurlagning stöðu. Skaðabætur. Miskabætur.
G starfaði sem prófessor við læknadeild H og einnig sem yfirlæknir á L samkvæmt samningi H og L. G var á árinu 1999 vikið um stundarsakir úr prófessorsstöðu sinni vegna tilgreindra ávirðinga í starfi. Sama ár var honum jafnframt sagt upp störfum yfirlæknis á L. Í dómi Hæstaréttar 18. maí 2000 var sú uppsögn metin ógild. Nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 komst að þeirri niðurstöðu 31. maí 2000, að háskólarektor hefði ekki verið rétt að veita G lausn um stundarsakir frá prófessorsstöðunni. G fékk ekki stöður þessar að nýju, en prófessorsstaðan var lögð niður rúmu ári síðar. G krafði H og L um vangoldin laun og bætur. Annars vegar beindi hann kröfum að H og L sameiginlega vegna vangoldinna launa G í starfi yfirlæknis auk miskabóta vegna ólögmætrar uppsagnar. H og L voru sýknaðir af þessari kröfu. Á hinn bóginn krafðist G bóta úr hendi H þar sem prófessorsstaða hans hefði verið lögð niður með ólögmætum hætti, svo að jafngilti brottvikningu. Var talið að H hefði ekki sýnt fram á að aðrar efnislegar forsendur hafi legið til grundvallar því að umrædd staða var lögð niður en þær, sem beint hafi tengst G. Var í því ljósi ekki unnt að fallast á að staðan hefði verið lögð niður í skilningi 34. gr. laga nr. 70/1996. Ljóst hafi verið að ríkur vilji hafi verið til þess innan læknadeildar H að víkja G úr starfi vegna ætlaðra ávirðinga hans. Hefði því borið að gera það í samræmi við ákvæði VI. kafla sömu laga, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, svo að G fengi notið þeirrar réttarverndar, sem ríkisstarfsmönnum sé þar tryggð. Þar sem svo hafði ekki verið gert var talið að brotinn hefði verið réttur á G og varðaði það H bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Var H dæmdur til að greiða G bætur vegna starfsmissis auk miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2003 og krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en málskostnaður verði felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómi var gagnáfrýjað 23. júlí 2003. Gagnáfrýjandi krefst þess annars vegar, að aðaláfrýjandi og stefndi verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 4.139.608 krónur með dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í héraðsdómi, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Á hendur aðaláfrýjanda einum er hins vegar gerð krafa um greiðslu á 70.425.000 krónum auk dráttarvaxta, eins og greinir í héraðsdómi, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi, Landspítali háskólasjúkrahús, krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en lækkunar til vara. Í báðum tilvikum er þess krafist, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2004 var bú Gunnars Þórs Jónssonar tekið til gjaldþrotaskipta og hefur þrotabúið tekið við aðild málsins. Skiptastjóri féllst á, að málið yrði flutt fyrir Hæstarétti af hálfu búsins með því skilyrði, að því yrði haldið skaðlausu af kostnaði vegna þessa, og hafa aðaláfrýjandi og stefndi fallið frá málskostnaðarkröfum sínum.
I.
Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram er kröfugerð gagnáfrýjanda tvíþætt. Fyrri kröfunni er beint að aðaláfrýjanda og stefnda sameiginlega og þess krafist, að þeir greiði gagnáfrýjanda vangoldin laun vegna starfa Gunnars Þórs Jónssonar sem yfirlæknis á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og síðar Landspítala háskólasjúkrahúsi frá 1. desember 1999 til 1. júlí 2001 samkvæmt útreikningi tryggingafræðings auk miskabóta vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfinu.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um þessa kröfu gagnáfrýjanda.
II.
Síðari kröfu gagnáfrýjanda er beint að aðaláfrýjanda einum. Þess er krafist, að hann greiði gagnáfrýjanda núvirðisreiknuð laun Gunnars Þórs Jónssonar sem prófessors við Háskóla Íslands frá 1. júlí 2001 til 1. júlí 2012 að frádregnum biðlaunum frá 1. júlí 2001 til jafnlengdar næsta árs auk verðmætis ætlaðra námsferða og miskabóta vegna ólögmætrar brottvikningar úr starfi.
Með bréfi varadeildarforseta læknadeildar háskólans 28. desember 1998 til Gunnars Þórs var honum gefinn kostur á að tala máli sínu „vegna áminningar sem læknadeild Háskóla Íslands hefur í hyggju að veita yður.“ Í bréfinu voru ástæður fyrirhugaðrar áminningar sagðar vera slök rannsóknavirkni, nánast engin þátttaka í fjórða árs verkefnum læknadeildar, kennslu hafi ekki verið sinnt sem skyldi, mæting á deildarfundi hafi verið stopul, þótt lög feli í sér mætingaskyldu, störf að málefnum deildarinnar hafi verið óveruleg og vanræksla á að gera tillögur um ráðstafanir til að efla slysa- og bæklunarlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í bréfinu er einnig tilgreind vanræksla Gunnars Þórs í starfi yfirlæknis við sjúkrahúsið og vegna hennar hafi hann hlotið áminningar. Að fengnum andmælum Gunnars Þórs var samþykkt í deildarráði læknadeildar 21. apríl 1999, að honum skyldi veitt áminning.
Með bréfi 30. apríl 1999, sem ritað var á bréfsefni læknadeildar og undirritað af háskólarektor ásamt forseta og varaforseta deildarinnar, var Gunnari Þór veitt áminning vegna starfa hans við skólann með vísun til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í áminningarbréfinu var vísað til slakrar rannsóknavirkni, hann hafi ekki sinnt kennslu sem skyldi, mæting á deildarfundi hafi verið lítil og störfum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur svo illa sinnt, að búið væri að áminna hann af þeim sökum. Var talið, að Gunnar Þór hefði ekki náð fullnægjandi árangri í starfi sem prófessor. Þess var óskað, að hann sendi rektor nákvæma greinargerð, þar sem meðal annars kæmu fram hugmyndir hans og áform um það, hvernig hann teldi fræðigreinina slysa- og bæklunarlækningar við læknadeild háskólans best verða nýtta til framdráttar kennslu heilbrigðisstétta og til vísindarannsókna á þessu fræðasviði, hverjar væru áætlanir hans varðandi uppbyggingu slysa- og bæklunarlækningasviðs, varðandi rannsóknir hans sjálfs og stefnu í rannsóknum á slysadeildinni almennt.
Umbeðin greinargerð var lögð fram og kynnt á deildarfundi læknadeildar 27. maí 1999. Fundurinn samþykkti ályktunartillögu, þar sem því var beint til rektors að veita Gunnari Þór lausn um stundarsakir frá störfum sem prófessor í slysalækningum. Í tillögunni kom fram, að greinargerð prófessorsins væri að mati rektors og forsvarsmanna læknadeildar ekki fullnægjandi samkvæmt almennum akademískum vinnubrögðum.
Rektor Háskóla Íslands veitti Gunnari Þór lausn um stundarsakir úr stöðu prófessors við læknadeild skólans frá og með 21. desember 1999 á grundvelli 2. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum. Sama dag var nefnd samkvæmt 27. gr. laganna fengið málið til athugunar.
Það var niðurstaða nefndarinnar 31. maí 2000, að rektor hafi ekki verið rétt að veita Gunnari Þór lausn frá störfum um stundarsakir. Nefndin taldi málsmeðferð háskólans frá upphafi bera það með sér, að 28. desember 1998 hafi í raun þegar verið ákveðið að veita Gunnari Þór lausn um stundarsakir með lausn að fullu í huga og málið ekki rekið til þess að gefa honum raunverulegt tækifæri til að bæta ráð sitt. Nefndin tók sérstaklega fram, að vegna þeirra annmarka á formhlið málsins, sem hún taldi vera fyrir hendi og lutu meðal annars að andmælarétti og formi áminningarinnar, hefði hún ekki tekið afstöðu til þess, hvort efnisleg skilyrði hefðu verið til að veita Gunnari Þór lausn um stundarsakir.
Á meðan þessu fór fram innan veggja Háskóla Íslands var Gunnari Þór sagt upp starfi yfirlæknis slysa- og bæklunarlækningadeildar við Sjúkrahús Reykjavíkur með bréfi forstjóra, framkvæmdastjóra og lækningaforstjóra þess 22. júlí 1999 að veittum andmælarétti og var uppsagnarfrestur fjórir mánuðir. Í uppsagnarbréfinu var vísað til formlegrar áminningar sjúkrahússins frá 1. desember 1997, meðal annars vegna slælegra vinnubragða við skil á vottorðum og greinargerðum. Var yfirlæknirinn ekki talinn hafa bætt ráð sitt og hefði ítrekað verið fundið að störfum hans frá þeim tíma. Með dómi Hæstaréttar 18. maí 2000 í máli nr. 133/2000, bls. 1932 í dómasafni, var uppsögnin metin ógild, en Gunnari Þór var ekki gefinn kostur á að taka við starfi sínu að nýju.
Fram er komið, að 22. júní 2000 sagði forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss upp ódagsettum samningi frá 1983 milli Háskóla Íslands og Borgarspítalans í Reykjavík um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss. Skyldi uppsögnin koma til framkvæmda 30. júní 2001. Nýr samstarfssamningur var gerður milli Landspítala og háskólans 10. maí 2001 með viðbótarsamningi 28. júní 2002.
III.
Í héraðsdómi er gerð ítarleg grein fyrir umræðum um endurskipulagningu kennsluhátta innan læknadeildar Háskóla Íslands vegna þróunar og hugmynda um greiningu og meðferð slasaðra og bráðveikra og tilkomu svonefndrar bráðalæknisfræði, sem heilbrigðisráðherra mun hafa viðurkennt sem sérgrein árið 1992. Á fundi deildarráðs læknadeildar 20. júní 2001 var samþykkt að óska eftir því við rektor, að störf prófessors og dósents í slysalækningum verði lögð niður frá og með 1. júlí 2001 til að skapa grundvöll fyrir endurskipulagningu á þessu sviði með tilkomu nýrrar sérgreinar á Landspítala háskólasjúkrahúsi, bráðalæknisfræði. Í bréfi til rektors sama dag, sem undirritað var af deildarforseta, kennslustjóra og formanni kennsluráðs læknadeildar, var sett fram sú tillaga, að stofnuð yrði ný fræðigrein við læknadeild Háskóla Íslands og framangreindar stöður lagðar niður. Í rökstuðningi kemur meðal annars fram, að nýskipanin kalli á að fella niður kennslu í slysalækningum í þáverandi mynd og þar með stöður prófessors og dósents í slysalækningum. Byrja þurfi á nýjum grunni kennslu í nýrri fræðigrein og því eðlilegt, að nýjar kennslustöður verði til, sem sótt yrði um á viðeigandi forsendum. Bæklunarlækningar myndu þróast sem hluti fræðasviðsins handlækningar og bæklunarlæknisfræðin yrði þannig aðgreind frá bráðalækningum, eins og eðlilegt væri með tilliti til þróunar greinanna. Bráðalækningar yrðu sjálfstæð fræðigrein eða fræðasvið innan deildarinnar með sérstökum forstöðumanni og eigin fjárhagsáætlun. Deildarráð myndi fjalla síðar um skipun kennara í þessa nýju fræðigrein, „en þeir kennarar yrðu að hafa sérfræðimenntun og/eða viðeigandi/sambærilega reynslu í kennslu og rannsóknum í bráðalækningum og skyldum greinum/fræðasviðum.“
Rektor féllst á framangreindar tillögur læknadeildar og tilkynnti Gunnari Þór Jónssyni í bréfi 22. júní 2001, að hann hefði ákveðið að leggja niður störf prófessors og dósents í slysalækningum frá og með 1. júlí sama ár. Gunnar Þór væri því leystur frá störfum við Háskóla Íslands frá sama tíma en ætti rétt á biðlaunum í tólf mánuði í samræmi við 34. gr. laga nr. 70/1996. Gunnar Þór mótmælti þegar í stað meðal annars á þeim forsendum, að sér hefði í engu verið gefinn kostur á að tjá sig um málið og hefði verið unnið að tillögu læknadeildar án sinnar vitundar.
Félag íslenskra bæklunarlækna sendi frá sér fréttatilkynningu í kjölfar þessa og mótmælti harðlega niðurlagningu prófessorsstöðu tengdri bæklunarlækningum og taldi þetta gert án sýnilegra faglegra forsendna. Frekari andmæli komu fram af hálfu nokkurra tilgreindra bæklunarlækna.
IV.
Eins og áður greinir komst nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 að þeirri niðurstöðu 31. maí 2000, að rektor Háskóla Íslands hafi ekki verið rétt að víkja Gunnari Þór Jónssyni úr stöðu prófessors um stundarsakir 21. desember 1999. Aðaláfrýjandi gerði ekki frekari reka að því að láta á það reyna, hvort efnisleg skilyrði væru til frávikningar, en niðurstaða nefndarinnar var eingöngu reist á því, að annmarkar hefðu verið á formhlið málsins. Gunnari Þór var þó ekki fengið kennslustarf sitt við læknadeild að nýju. Á þessum tíma lá það jafnframt fyrir, að Hæstiréttur hafði metið uppsögn Gunnars Þórs úr starfi yfirlæknis slysa- og bæklunarlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur 22. júlí 1999 ógilda, en hann fékk það starf heldur ekki að nýju.
Rúmu ári eftir að umrædd lausn um stundarsakir var metin óréttmæt var tekin ákvörðun um að leggja prófessorsstöðu Gunnars Þórs við læknadeild háskólans niður. Ekki er fram komið, að nokkurt samráð hafi verið haft við hann um undirbúning þeirrar ákvörðunar eða einhverra leiða leitað til að fá honum stað við fyrirhugaðar breytingar á þeim fræðasviðum, er lutu að bæklunarlækningum og meðferð slasaðra og bráðveikra. Er óhjákvæmilegt í því sambandi að hafa í huga, að í dómnefndaráliti um umsóknir um prófessorsembætti í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands á árinu 1983 hafði Gunnar Þór verið metinn annar tveggja hæfustu umsækjenda sem alhliða bæklunarskurðlæknir. Aðaláfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að maður með menntun og reynslu á borð við Gunnar Þór hefði ekki getað uppfyllt þær kröfur, sem gera yrði til kennara við breytt fyrirkomulag á sviði bæklunar- og bráðalækninga. Því til styrktar eru ummæli deildarforseta læknadeildar 1998 til 2000 fyrir héraðsdómi, er hann var spurður að því, hvort á því hefðu verið einhverjir annmarkar að hafa áfram prófessorsstöðu Gunnars Þórs og stofna jafnframt við deildina kennslustöðu í bráðalækningum, ef í fyrrnefndu stöðunni hefði verið maður, sem gegnt hefði öllum starfsskyldum sínum framúrskarandi vel. Hann kvað það eðlilegt að sínu mati og sagði: „Ef maður stendur sig mjög vel þá reynir maður að hlúa að hans störfum og að það sé hægt að byggja upp við hliðina fræðasviðið bráðalækningar.“ Þessi ummæli verða ekki skilin á annan veg en þann, að deildarforsetinn hafi ekki talið óhjákvæmilegt við eðlilegar aðstæður að leggja niður prófessorsstöðu í slysalækningum til þess að greiða fyrir kennslu og rannsóknum í bráðalækningum.
Fyrir liggur, að Gunnar Þór hafði á árinu 1999 fengið alvarlega áminningu um vanrækslu í starfi sínu við læknadeild háskólans og höfðu deildarfundur og rektor metið það svo, að hann hefði ekki bætt ráð sitt og réttmætt væri að veita honum lausn um stundarsakir. Áðurnefndur deildarforseti og varadeildarforseti á sama tíma rituðu grein í Morgunblaðið 16. júní 2000, þar sem ávirðingar á hendur Gunnari Þór voru tíundaðar og sagt, að framferði hans væri með eindæmum í læknadeild og hvar sem væri í háskólum. Mál hans snerist ekki um „lögfræðileg formsatriði heldur um alvarlegan vanda sem skapast þegar ríkisstarfsmenn skila ekki því starfi sem þeim er falið.“
Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að telja, að aðaláfrýjanda hafi ekki tekist að sýna fram á, að aðrar efnislegar forsendur en þær, sem beint tengdust Gunnari Þór, hafi ráðið því, að staða hans við læknadeild Háskóla Íslands var lögð niður. Í því ljósi verður ekki fallist á, að staðan hafi verið lögð niður í skilningi 34. gr. laga nr. 70/1996, sem tekur til niðurlagningar stöðu vegna atvika, sem ekki varða starfsmanninn sjálfan. Það er ljóst, að ríkur vilji var til þess innan læknadeildar að víkja Gunnari Þór úr starfi vegna ætlaðra ávirðinga hans. Það bar þá að gera í samræmi við ákvæði VI. kafla laganna, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, svo að hann fengi notið þeirrar réttarverndar, sem ríkisstarfsmönnum er þar tryggð. Þar sem svo var ekki gert var brotinn réttur á Gunnari Þór og varðar það aðaláfrýjanda þegar af þeirri ástæðu bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess, hvort rektor Háskóla Íslands hafi verið bær til þess að leggja niður prófessorsstöðuna eða hvort aðdragandi þeirrar ákvörðunar hafi verið lögmætur.
V.
Við ákvörðun bóta verður að líta til þess, að Gunnar Þór Jónsson naut réttinda og bar skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996 og mátti að öllu óbreyttu búast við því að halda stöðu sinni, þar til hann næði hámarksaldri starfsmanna ríkisins, sbr. 25. gr. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum. Hann var 59 ára gamall, þegar staða hans var lögð niður, og verður að telja, að mönnum á þeim aldri sé almennt óhægt um vik að koma undir sig fótunum á vinnumarkaði að nýju. Þótt Gunnar Þór hafi góða menntun og langa starfsreynslu má á það fallast, eins og aðdraganda starfsloka hans var háttað og í ljósi þeirra ávirðinga, sem á hann hafa verið bornar, að honum kunni að reynast erfitt að nýta sérkunnáttu sína hér á landi að minnsta kosti. Fram er komið, að hann hafi að einhverju marki starfað erlendis eftir lok starfa sinna við læknadeild Háskóla Íslands, en um það nýtur takmarkaðra gagna í málinu. Með hliðsjón af því, hvernig aðaláfrýjandi stóð að því að koma Gunnari Þór úr starfi andstætt ákvæðum laga nr. 70/1996 þykir hann ekki hafa sérstakar málsbætur, er áhrif hafi á bótafjárhæð. Þessar aðstæður leiða einnig til þess, að Gunnar Þór verður talinn hafa orðið fyrir ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu, svo að miskabótum varði samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.
Gagnáfrýjandi styður bótakröfu sína þeim rökum, að aðaláfrýjanda beri að efna þann ráðningarsamning, sem falist hafi í æviskipun Gunnars Þórs í embætti prófessors, og því beri að miða bætur við núvirðisreiknuð laun til ætlaðra starfsloka við hámarksaldur starfsmanna ríkisins. Þessi kröfugerð er fjarri lagi og á sér enga stoð í dómvenju um bætur til handa þeim, er sæta ólögmætri uppsögn eða frávikningu úr starfi. Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar og aðstæðum í þessu máli, þar á meðal biðlaunum Gunnars Þórs í eitt ár eftir niðurlagningu stöðunnar að fjárhæð 3.284.000 krónur, þykir að álitum hæfilegt, að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 4.000.000 krónur í bætur og hefur þá verið tekið tillit til þess miska, sem Gunnar Þór mátti þola af hendi aðaláfrýjanda. Þessar bætur skulu bera dráttarvexti frá þingfestingardegi í héraði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Málskostnaður milli gagnáfrýjanda og stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Aðaláfrýjandi skal greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, eins og mælt er um í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Landspítali háskólasjúkrahús, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, þrotabús Gunnars Þórs Jónssonar.
Aðaláfrýjandi, Háskóli Íslands, greiði gagnáfrýjanda 4.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.
Málskostnaður milli gagnáfrýjanda og stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 25. apríl 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. apríl sl., er höfðað 27. febrúar 2002 af Gunnari Þór Jónssyni, Laugavegi 39b, Reykjavík, á hendur Háskóla Íslands við Suðurgötu og Landspítala, háskólasjúkrahúsi við Hringbraut, báðum í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að báðir stefndu verði dæmdir til greiðslu in solidum á 4.139.608 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 152.313 krónum frá 1. desember 1999 til 1. janúar 2000, en af 316.636 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, en af 480.959 krónum frá þeim degi til 1. mars s.á., en af 645.282 krónum frá þeim degi til 1. apríl s.á., en af 809.605 krónum frá þeim degi til 1. maí s.á., en af 973.928 krónum frá þeim degi til 1. júní s.á., en af 1.138.251 krónu frá þeim degi til 1. júlí s.á., en af 1.302.574 krónum frá þeim degi til 1. ágúst s.á., en af 2.466.897 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., en af 2.631.220 krónum frá þeim degi til 1. október s.á., en af 2.795.543 krónum frá þeim degi til 1. nóvember s.á., en af 2.959.866 krónum frá þeim degi til 1. desember s.á., en af 3.124.189 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2001, en af 3.288.512 krónum frá þeim degi til 1. febrúar s.á., en af 3.452.835 krónum frá þeim degi til 1. mars s.á., en af 3.617.158 krónum frá þeim degi til 1. apríl s.á., en af 3.781.481 krónu frá þeim degi til 1. maí s.á., en af 3.945.804 krónum frá þeim degi til 1. júní s.á., en af 4.139.608 krónum frá þeim degi til 1. júlí s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 4.139.608 krónum frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu.
Stefnandi krefst 70.425.000 króna greiðslu úr höndum stefnda Háskóla Íslands með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.000.000 króna frá 1. ágúst 2000 til l. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til þingfestingardags málsins, 28. febrúar 2002, en af 70.425.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi Landspítali, háskólasjúkrahús krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Stefndi Háskóli Íslands krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins. Til vara er þess krafist að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi var skipaður prófessor í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands frá 1. janúar 1984. Með samningi milli stefnda Háskóla Íslands og Borgarspítalans í Reykjavík, sem gilti frá 1. janúar 1983, var ákveðið að samningsaðilar skyldu vinna að sameiginlegum verkefnum sem tilgreind eru í samningnum. Í samningnum er ákvæði um sameiginlegt starfslið sem verði meðal annars prófessor, dósent eða lektor í fullu starfi við læknadeild sem jafnframt verði í hlutastarfi við sjúkrahúsið. Þegar stefnandi var skipaður prófessor var ákveðið að hann yrði jafnframt yfirlæknir slysadeildar Borgarspítalans og tilkynnti stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar stefnanda að hann væri ráðinn til að gegna því starfi með bréfi framkvæmdastjóra, dagsettu 18. janúar 1984.
Sjúkrahús Reykjavíkur tók til starfa 1. janúar 1996 er Borgarspítali og St. Jósefsspítali, Landkoti, voru sameinaðir. Með bréfi forstjóra, framkvæmdastjóra og lækningaforstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 22. júlí 1999, var stefnanda sagt upp störfum sem yfirlækni á sjúkrahúsinu. Uppsagnarfrestur var talinn fjórir mánuðir frá 31. júlí sama ár og skyldi síðasti starfsdagur stefnanda á sjúkrahúsinu vera 30. nóvember. Með dómi Hæstaréttar frá 18. maí 2000 var uppsögnin dæmd ógild. Eftir það greiddi spítalinn, sem þá hét Landspítali, háskólasjúkrahús samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 127/2000, stefnanda laun til 30. júní 2001 en deilt er um hvernig þau skyldu reiknuð.
Stefnda var veitt lausn frá stöðu prófessors um stundarsakir með bréfi háskólarektors, dagsettu 21. desember 1999, samkvæmt heimild í 2. mgr. 26. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Nefnd samkvæmt 27. gr. sömu laga taldi að rektor hefði ekki verið rétt að veita stefnanda lausn frá störfum um stundarsakir en álit nefndarinnar er frá 31. maí 2000. Stefnandi heldur því fram að hann hafi ítrekað leitað eftir því að fá að koma aftur til starfa en það hafi engan árangur borið.
Með bréfi deildarforseta læknadeildar Háskóla Íslands, dagsettu 21. júní 2001, voru rektor sendar tillögur deildarráðs og kennsluráðs læknadeildar frá 20. sama mánaðar þar sem lagðar voru til breytingar á kennslu í bæklunar-, slysa- og bráðalækningum. Þar var lagt til að stofnuð yrði ný fræðigrein við deildina í bráðalækningum. Einnig var lagt til að störf prófessors og dósents í slysalækningum, sem byggð hefðu verið á grunni bæklunarlæknisfræði, yrðu lögð niður frá og með 1. júlí sama ár. Rektor háskólans féllst á þessar tillögur og tilkynnti stefnanda það með bréfi, dagsettu 22. júní 2001. Umræddar stöður voru lagðar niður frá 1. júlí 2001 en stefnanda voru greidd biðlaun í eitt ár frá þeim degi til 1. júlí 2002.
Krafa stefnanda á hendur báðum stefndu er reist á því að laun hans sem yfirlæknis á tímabilinu 1. desember 1999 til 30. júní 2001 hafi ekki verið rétt reiknuð og krefst stefnandi greiðslu á því sem hann telur vangreitt. Af hálfu stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss er þessu mótmælt og því haldið fram að laun stefnanda hafi verið rétt reiknuð og greidd að fullu. Stefndi Háskóli Íslands byggir á því að hann verði ekki krafinn um laun sem stefnandi hafi væntanlega átt að fá frá Landspítalanum.
Stefnandi telur jafnframt að ólögmætt hafi verið að leggja prófessorsstöðuna niður. Ekki hafi verið tekin lögmæt ákvörðun um það en til þess hafi hvorki rektor né deildarráð verið bært. Einnig hafi verið brotinn andmælaréttur á stefnanda, en honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þessa ákvörðun áður en hún var tekin. Þá telur stefnandi að ákvörðun um að leggja stöðuna niður hafi verið ólögmæt vegna þess að þar hafi einungis verið um dulbúna uppsögn hans að ræða. Af hálfu stefnda Háskóla Íslands er því haldið fram að rétt hafi verið staðið að ákvörðun um að leggja prófessorsstöðuna niður og því mótmælt að í því hafi falist dulbúin uppsögn.
Miskabótakrafa stefnanda á hendur báðum stefndu er byggð á því að fyrirsvarsmenn stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss hafi valdið stefnanda miska með ólögmætri uppsögn. Stefndu halda því fram að ekki séu fyrir hendi skilyrði til þess að dæma þá til greiðslu miskabóta. Af hálfu stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss er því haldið fram að ástæðuna fyrir uppsögninni sé engan veginn að rekja til ólögmætrar meingerðar í garð stefnanda. Af hálfu stefnda Háskóla Íslands er því haldið fram að hann eigi enga aðild að hinni ólögmætu uppsögn. Miskabótakrafa á hendur stefnda Háskóla Íslands er byggð á því að stefnanda hafi með ólögmætum hætti verið vikið úr starfi, fyrst þegar honum var vikið tímabundið úr starfi í desember 1999 og síðar þegar ólögmæt ákvörðun hafi verið tekin um að leggja prófessorsstöðuna í slysalækningum niður. Af hálfu stefnda Háskóla Íslands er því mótmælt að í þessu hafi falist ólögmæt meingerð og því séu ekki fyrir hendi skilyrði til að dæma miskabætur.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi verið skipaður prófessor í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands frá 1. janúar 1984 að telja með skipunarbréfi forseta Íslands 21. desember 1983. Í auglýsingu um stöðuna hinn 16. nóvember 1982 hafi verið tekið fram að prófessorinn myndi fá starfsaðstöðu við slysadeild Borgarspítalans. Frá l. janúar 1983 hafi verið í gildi samningur milli Háskóla Íslands og Borgarspítalans, nú stefnda Landspítalans, um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss. Þar hafi verið kveðið á um sameiginlegt starfslið, sem meðal annars skyldi vera prófessor, dósent eða lektor í fullu starfi við háskólann og jafnframt í hlutastarfi við sjúkrahúsið. Væri starfandi prófessor við sjúkrahúsið skyldi hann jafnframt vera yfirlæknir á viðkomandi deild. Eftir skipun stefnanda í prófessorsembættið hafi stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar staðfest ráðningu stefnanda sem yfirlæknis slysa- og sjúkravaktar Borgarspítalans.
Stefnandi hafi gegnt starfi prófessors og yfirlæknis alveg fram á árið 1999, þegar fyrirsvarsmenn stefndu hafi tekið að reyna að bola honum úr þessum störfum. Í júlí sama ár hafi Sjúkrahús Reykjavíkur, nú stefndi Landspítalinn, sagt stefnanda upp störfum sem yfirlækni frá og með 1. desember það ár. Stefnandi hafi talið uppsögnina ólögmæta og hafi hann höfðað mál gegn sjúkrahúsinu. Með dómi Hæstaréttar 18. maí 2000 í máli nr. 133/2000 hafi verið viðurkennt að uppsögnin væri ógild. Í desember 1999 hafi rektor Háskóla Íslands veitt stefnanda lausn um stundarsakir frá embætti prófessors. Málið hafi lögum samkvæmt farið til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í álitsgerð, dagsettri 31. maí 2000, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið rétt að veita stefnanda lausn frá störfum.
Stefnandi hafi ekki notið launa frá spítalanum eftir l. desember 1999 og aðeins hálfra fastra launa frá háskólanum frá l. janúar 2000. Þegar framangreind álitsgerð lá fyrir í maí 2000, hafi lögmaður stefnanda ritað báðum stefndu bréf, dagsett 7. júní 2000, og krafist vangreiddra launanna fyrir liðinn tíma auk dráttarvaxta, miskabóta og kostnaðar. Stefndi Háskóli Íslands hafi þá greitt helming þeirra vangreiddu launa, sem krafist hafi verið, en hafi hafnað kröfum um dráttarvexti, miskabætur og kostnað að hluta. Stefndi Landspítalinn hafi greitt stefnanda laun fyrir liðinn tíma, en hafi ekki fallist á útreikning stefnanda á þeim. Krafa stefnanda hafi verið miðuð við meðalmánaðarlaun hans hjá sjúkrahúsinu 1998, þ.e.a.s. síðasta heila árið sem starfshagir stefnandi þar hafi verið eðlilegir. Stefndi hafi hins vegar miðað við laun stefnanda síðustu 12 mánuðina fyrir gildistöku hinnar ólögmætu uppsagnar, þ.e.a.s. tímabilið 1. desember 1998 til 1. desember 1999. Þetta hafi gefið umtalsvert lægri fjárhæð þar sem stefnandi hafi lengst af á árinu 1999 mátt verja hendur sínar í starfinu gegn hinum ólögmætu aðgerðum fyrirsvarsmanna sjúkrahússins og því hafi hann ekki unnið jafn mikla yfirvinnu og vaktir sem fyrr. Spítalinn hafi greitt dráttarvexti af laununum en hafnað kröfum um miskabætur og kostnað. Með bréfum 4. og 5. júlí 2000 hafi stefnandi mótmælt afstöðu stefndu að því leyti sem í henni fælust synjanir á kröfum hans.
Með bréfi stefnda Landspítalans til stefnda Háskóla Íslands, dagsettu 22. júní 2000, hafi samningnum frá 1983 verið sagt upp og gert ráð fyrir að uppsögnin kæmi til framkvæmda 30. júní 2001. Með bréfi, dagsettu 6. júlí 2000, hafi skrifstofa rektors sent afrit bréfs spítalans til stefnanda og getið þess að viðræður væru þegar hafnar um nýjan samning sem taka ætti til allra starfsmanna sem störfuðu við læknadeild Háskóla Íslands og á Landspítala, háskólasjúkrahúsi.
Fram til 1. júlí 2001 hafi stefnandi fengið greidd föst laun frá báðum stefndu, en þann dag hafi launagreiðslur til hans frá stefnda Landspítalanum verið felldar niður. Á vettvangi stefnda Háskóla Íslands hafi hins vegar orðið þau tíðindi að með bréfi forseta læknadeildar, dagsettu 21. júní 2001, sem borist hafi stefnanda 27. júní sama ár, hafi honum verið tilkynnt að til stæði að leggja niður prófessorsembættið í slysalækningum við læknadeildina, sem stefnandi hafi gegnt. Yrði þess í stað stofnuð ný fræðigrein við deildina sem tæki til bráðalækninga. Skyldu þessar breytingar koma til framkvæmda l. júlí sama ár, eða þremur dögum eftir að stefnanda barst bréfið. Stefnandi hafi mótmælt þessari fyrirætlan sama dag með símskeyti til rektors. Samdægurs hafi stefnanda borist bréf rektors þar sem hann hafi tilkynnt stefnanda ákvörðun sína um að leggja niður embætti hans frá og með 1. júlí 2001 og væri stefnandi leystur frá störfum við Háskóla Íslands frá sama tíma.
Stefnandi hafi freistað þess að ná rétti sínum með kvörtunum til umboðsmanns Alþingis og mótmælum og kærum á vettvangi háskólans vegna þeirrar ákvörðunar að leggja stöðu hans þar niður. Hann hafi einnig leitað samkomulags við stefndu, annað hvort um að taka aftur til starfa eða um starfslok sín. Meðal annars hafi hann leitað eftir atbeina heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis við þetta. Af öllu þessu hafi enginn árangur orðið og hafi honum því verið nauðugur sá kostur að höfða málið.
Stefnandi sundurliði dómkröfur þannig:
1. Krafa á hendur báðum stefndu:
a) Vangoldin laun frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og
Landspítala desember 1999 til júní 2001 samkvæmt
útreikningi tryggingafræðings 3.139.600 krónur.
b) Miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi við
sjúkrahúsið 1.000.000 “ .
4.139.600 krónur.
2. Krafa á hendur stefnda Háskóla Íslands:
a) Laun stefnanda frá 1. júlí 2001 til 1. júlí 2012,
núvirðisreiknuð af tryggingafræðingi 68.842.000 krónur.
b) Verðmæti námsferða 3.867.000 “ .
72.709.000 krónur.
c) Frádregin biðlaun frá HÍ 1. janúar 2001 til
1. janúar 2002 -3.284.000 “ .
69.425.000 krónur.
d) Miskabætur vegna ólögmætrar
brottvikningar úr starfi 1.000.000 “ .
70.425.000 krónur.
Dómkröfur stefnanda séu í fyrsta lagi reistar á því að hann eigi eftir að fá rétt gerð upp laun og miskabætur vegna þeirra ólögmætu uppsagna sem hann hafi sætt á árinu 1999, annars vegar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 18. maí 2000 og hins vegar á grundvelli álitsgerðar nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 31. maí 2000. Í öðru lagi byggist kröfur stefnanda á því að brotinn hafi verið á honum réttur til starfsins sem skipaðs prófessors í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands með aðgerðum skólans í júní 2001, þegar staða hans hafi verið lögð niður. Ákvörðunin hafi verið ólögmæt að formi til og einnig hafi falist í henni dulbúin ólögmæt uppsögn úr starfi sem stefnandi hefði verið skipaður til að gegna en óheimilt hafi verið að segja honum upp.
Í fyrri dómkröfunni sé á því byggt að hann hafi átt rétt á að ógreidd laun fyrir starfið á spítalanum miðuðust við laun hans fyrir það starf síðasta heila árið sem hann hafi fengið að sinna því ótruflað, þ.e.a.s. árið 1998. Stefndi Landspítalinn geti ekki miðað þetta launauppgjör við tímabil í starfi stefnanda á árinu 1999, þegar verulegur tími hans hafi farið í að verjast ólögmætri aðför þessa stefnda, og hann hafi þess vegna ekki haft tækifæri til þess að afla sér sömu tekna, sem hann hefði getað aflað árið á undan, þ.e. árið 1998. Krafa sé gerð um vangreidd laun frá desember 1999 til júní 2001 og sé fjárhæð kröfunnar byggð á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dagsettum 2. október 2001. Einnig sé gerð krafa um miskabætur vegna þeirrar ólögmætu uppsagnar úr starfi á sjúkrahúsinu sem dæmt hafi verið um í Hæstarétti 18. maí 2000. Krafan sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, og dómafordæmum. Stefnandi mótmæli því að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að hann hafi ekki staðið sig í starfi, eins og stefndi Landspítalinn haldi fram, enda hafi hann hrakið allar staðhæfingar stefnda í þeim efnum. Kröfunni sé beint að báðum stefndu. Launagreiðslur stefnanda fyrir starfið við spítalann hafi komið beint þaðan og hljóti kröfu um vangreidd laun þann tíma, sem stefnandi teljist hafa gegnt því starfi, að vera réttilega beint að honum. Miskabótakröfunni væri beint að spítalanum á þeirri forsendu að fyrirsvarsmenn hans hafi með ólögmætri uppsögn valdið miska sem bóta sé krafist fyrir. Kröfunum sé einnig beint að stefnda Háskóla Íslands, en þar hafi stefnandi verið skipaður í starf sitt við skólann með skipunarbréfinu 1983 með þeim starfsþætti sem sinnt hafi verið á spítalanum og hafi talist hluti af starfinu, sbr. forsendur framangreinds dóms Hæstaréttar.
Dráttarvaxta sé krafist af hinum vangreidda launamun frá hverjum og einum gjalddaga launanna á því 19 mánaða tímabili sem krafan taki til. Stefnandi hafi fengið laun sín greidd fyrirfram og sé gjalddagi því í upphafi hvers mánaðar frá og með l. desember 1999. Upphafstími kröfu um dráttarvexti af miskabótum sé 1. ágúst 2000, en miskabótanna hafi verið krafist í bréfi lögmanns stefnanda til sjúkrahússins 7. júní 2000. Vísað sé til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 sem hafi verið í gildi á þessum tíma.
Síðari kröfunni sé aðeins beint að stefnda Háskóla Íslands. Stefnandi hefði verið skipaður í embætti sitt við skólann og þó að embættinu hafi átt að fylgja starfshluti og aðstaða við sjúkrahúsið, eins og fram komi í dómi Hæstaréttar frá 18. maí 2000, hafi það verið á ábyrgð skólans að sjá til þess að stefnandi fengi notið þess starfshluta, enda forsenda þess að hann gæti gegnt embætti sínu við skólann. Stefndi Landspítali hafi sagt upp samninginum við háskólann frá og með l. júlí 2001 en málssóknin byggðist á því að spítalinn væri aðeins ábyrgur gagnvart stefnanda þann tíma sem samningurinn hafi verið í gildi. Háskólinn sé hins vegar ábyrgur fyrir öllum kröfum stefnanda vegna ráðningarslitanna á báðum stöðum, þar sem skólinn teljist hafa verið hinn eiginlegi vinnuveitandi stefnanda, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar. Krafan hljóði um núvirðisreiknuð laun stefnanda fyrir bæði störfin frá l. júlí 2001 til 1. júlí 2012, en stefnandi verði sjötugur 19. júní það ár. Þá sé gerð krafa um verðmæti námsferða sem stefnandi eigi rétt á vegna stöðu sinnar við sjúkrahúsið þessi sömu ár. Frá þessum fjárhæðum dragist svo biðlaunin sem stefndi Háskóli Íslands hafi greitt stefnanda fyrir tímabilið 1. júlí 2001 til 1. júlí 2002.
Stefnandi byggi á því að brotinn hafi verið á honum réttur, sem honum hafi borið sem æviskipuðum ríkisstarfsmanni, með aðgerðum stefnda Háskóla Íslands í júní 2001, þegar staða hans var lögð niður. Stefnandi hafi notið stöðu, sem kveðið hafi verið á um í 4. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 14. gr. laganna. Í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem hafi leyst eldri lögin af hólmi, sé kveðið á um starfslok þeirra starfsmanna ríkisins, sem skipaðir hefðu verið eða ráðnir í störf ótímabundið fyrir gildistöku laganna, án gagnkvæms uppsagnarfrests. Skyldu ákvæði 25. gr. og VI. kafla laganna gilda um þau. Með þessu hafi í reynd verið staðfest skipan eldri laganna um að þessum starfsmönnum yrði ekki sagt upp störfum, nema staða þeirra væri lögð niður, enda óheimilt við setningu hinna nýju laga að rýra réttindi þessara ríkisstarfsmanna eins og fram komi í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpinu um ákvæðið til bráðabirgða. Ekki sé unnt að dulbúa uppsögn með niðurlagningu stöðu eins og staðfest hafi verið, m.a. í dómsmálum.
Stefnandi haldi því fram að tilgangurinn með ákvörðuninni um að leggja stöðu hans niður hafi augljóslega verið sá að koma honum úr embætti, en allur aðdragandi þessarar ákvörðunar og tímasetning hennar sýni það vel. Fyrirsvarsmenn læknadeildar hefðu um langa hríð freistað þess að koma stefnanda úr starfi. Engu hafi það virst breyta þó að nefndin samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga hefði komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið í mörgum greinum á rétti stefnanda við fyrri tilraun þessara fyrirsvarsmanna við að koma honum úr embætti. Hann hafi ekki fengið að koma aftur til starfa sinna og hafi aðförinni að honum verið haldið áfram. Með fárra daga fyrirvara hafi sömu menn, sem fyrr hefðu veist að stefnanda, staðið að tillögugerð um að leggja stöðu hans niður. Tímasetningin falli saman við lok á gildistíma samningsins á milli stefndu, sem hafi verið grundvöllur þess starfsþáttar sem tilheyrt hafi stefnanda á sjúkrahúsinu. Engin frambærileg efnisleg rök hafi heldur verið fyrir þessari aðgerð. Stefnandi sé sérfræðingur í bæklunarlækningum. Undir embætti hans, sem nefnt hafi verið „prófessor í slysalækningum”, hafi fallið kennsla deildarinnar í þeim hluta bæklunarlækninga sem varði áverka á stoðkerfi. Þar sé um að ræða eina af þýðingarmestu grunngreinum í læknisfræði. Ekki standi til að leggja þessa kennslu niður við læknadeildina. Hún sé aðeins færð í annan búning, sýnilega í þeim eina tilgangi að réttlæta brottvikningu stefnanda úr embætti. Í forsendum deildarráðs læknadeildar fyrir tillögunum um stofnun nýrrar fræðigreinar, bráðalækninga, við Háskóla Íslands, sem kæmu m.a. í stað slysalækninga, hefði auk annars verið staðhæft, að víðast hvar á Vesturlöndum hefði sérgreinin bráðalækningar, emergency medicine, orðið til. Stefnandi hafi aflað upplýsinga frá Svíþjóð, Noregi og Finnlandi um þetta og hafi fengið þau svör að hún sé ekki viðurkennd sérfræðigrein innan læknisfræðinnar í neinu þessara landa.
Umrædd ákvörðun hafi ekki aðeins falið í sér skýrt brot á réttindum stefnanda til starfs síns heldur hafi ákvörðunin ekki verið tekin á réttan hátt, bæði um form- og efnisatriði. Á fundi deildarráðs læknadeildar 21. júní 2001 hafi verið samþykkt að leggja til við rektor að staðan yrði lögð niður frá og með l. júlí það ár. Aldrei hafi verið fjallað um málið á deildarfundum. Stefnanda hafi hvorki verið tilkynnt um það né hafi hann notið réttar til að tjá sig um þessa fyrirætlan. Rektor hafi ekki tekið langan umhugsunarfrest en hann hafi samþykkt tillögu deildarráðsins þegar í stað og tilkynnt stefnanda þetta með bréfi, dagsettu 22. júní sama ár. Stefnanda hafi borist fyrstu tíðindin af málinu 27. júní s.á. með bréfi forseta læknadeildar 21. júní s.á., en afrit af bréf til rektors um málið hafi fylgt. Stefnandi hafi strax mótmælt þessum fyrirætlunum með símskeyti til rektors en það hafi ekki borið árangur. Hann hafi síðar freistað þess með bréfi, dagsettu 20. júlí s.á., að kæra ákvörðunina til læknadeildar og hafi hann fylgt því eftir með bréfi, dagsettu 28. ágúst s.á. Á fundi læknadeildar 29. ágúst s.á. hafi verið talið að stefnandi væri að kæra ákvörðun æðra stjórnvalds til lægra stjórnvalds en slíkt væri ekki hægt og hafi fundurinn vísað málinu til rektors. Hinn 31. október s.á. hafi rektor hafnað öllum mótmælum stefnanda og sjónarmiðum með bréfi til stefnanda en álitsgerð lögfræðings háskólans hefði fylgt bréfinu. Stefnandi mótmæli þessari málsmeðferð harðlega og telji hana andstæða lögum í mörgum greinum.
Stefnandi telji það verkefni deildarfundar hjá háskóladeild að gera tillögu um að leggja niður prófessorsstöðu og að það falli í verkahring háskólaráðs að taka endanlegar ákvarðanir um slíkt, en vísað sé til 11. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands um það. Samkvæmt lögunum geti ákvörðun um þetta ekki fallið undir embætti rektors enda veiti 12. gr. laganna rektor ekki þessa valdheimild. Þar sé fjallað um ráðningu í störf en ekki ákvarðanir um að stofna nýjar stöður eða leggja stöður niður. Því sé einnig mótmælt að deildarfundur geti framselt ákvörðun um niðurlagningu stöðu til deildarráðs samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 10. gr. laganna. Ákvörðun um slíkt feli meðal annars í sér að einn af þeim mönnum sem sitji deildarfundi með atkvæðisrétti missi þann rétt. Það fái ekki staðist að deildarfundur geti framselt til undirnefndar vald til að svipta einn hinna atkvæðisbæru deildarmanna rétti til að eiga aðild að deildarfundum. Undirnefnd með slíkt vald gæti þá tekið sjálf öll völd í viðkomandi deild með því að leggja niður embætti deildarmanna. Af þessum sjónarmiðum leiði að engin lögmæt ákvörðun hafi verið tekin á vettvangi Háskóla Íslands um að leggja niður embætti stefnanda.
Við ákvörðunartökuna hafi einnig verið brotið gegn andmælarétti stefnanda. Ákvörðunin hafi varðað verulega persónulega hagsmuni hans, auk þess sem hann hafi átt rétt á að tjá sig um málið sem starfandi prófessor í háskólagreininni sem um ræði. Að auki hafi hann átt rétt á að fá tilkynningu um að málið væri til meðferðar og að fá að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið vörðuðu. Einskis af þessu hafi verið gætt við málsmeðferðina og hafi hún því farið í bága við 13., 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar að auki verði að ætla að þeir menn, sem tekið hefðu þátt í aðgerðunum gegn stefnanda, sem um sé fjallað í álitsgerð nefndar samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga hinn 31. maí 2000, hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins, þ.m.t. forseti læknadeildar, Reynir Tómas Geirsson, og háskólarektor, Páll Skúlason, samkvæmt 6. tl. l. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi brot leiði til þess að ákvörðun um að leggja niður embættið sé ógild gagnvart stefnanda og verði að líta svo á að hann gegni því ennþá.
Krafa stefnanda um núvirðisreiknuð laun í embætti til aldursmarka við 70 ára aldur sé í fyrsta lagi krafa um efndir af hálfu stefnda Háskóla Íslands á þeim ráðningarsamningi sem falist hafi í æviskipun hans í embættið. Hann hafi lýst sig reiðubúinn til að inna af hendi starfsskyldur sínar og eigi hann þar með rétt á efndum af hálfu stefnda. Þetta gildi fallist dómurinn á að ekki hafi verið tekin lögmæt ákvörðun á vettvangi skólans um að leggja prófessorsstöðu stefnanda niður. Embættið sé þar með ennþá til staðar og stefnandi gegni því áfram, þó að stefndi hafi kosið að hafna vinnuframlagi hans, og eigi stefnandi þá rétt á launum sínum. En jafnvel þótt litið yrði svo á að tekin hafi verið gild ákvörðun um að leggja embættið niður krefjist stefnandi engu að síður efnda vegna þess að slík ákvörðun hafi falið í sér réttarbrot gagnvart honum, en annar aðili í tvíhliða réttarsambandi geti ekki haft af hinum lögmætar efndir með réttarbroti gegn honum. Verði fallist á að stefnda Háskóla Íslands beri að efna skyldu sína til að greiða stefnanda laun út starfsævi hans, sé sú launakrafa öll fallin í gjalddaga, þar sem stefndi hafi lýst því yfir með aðgerðum sínum að hann hygðist ekki efna þessa skyldu. Krafan sé aftur á móti reiknuð til núvirðis þannig að ekki sé krafist meira fjárverðmætis stefnanda til handa en vera myndi ef hann fengi greiðslur launanna um hver mánaðamót til 70 ára aldurs.
Verði ekki fallist á kröfuna um efndir á ráðningarskipan stefnanda, styðjist kröfur hans um launin til aldursmarka til vara við sjónarmið um efndabætur. Þessi laun hafi verið höfð af stefnanda með ólögmætri riftun á ráðningu hans. Í slíku falli beri stefnda Háskóla Íslands að halda honum eins settum og skyldur stefnda hefðu verið efndar allan þennan tíma. Stefnandi sé 60 ára gamall en á þeim aldri sé erfitt að koma sér fyrir á nýjum starfsvettvangi. Raunar sé þar fáum vinnuveitendum til að dreifa öðrum en þeim sem staðið hafi að aðförinni að stefnanda. Þar við bættist að framkoma stefndu við hann undanfarin ár, sem sagt hafi verið ítarlega frá á opinberum vettvangi, sé beinlínis til þess fallin að torvelda honum för gagnvart öðrum.
Um rökstuðning fyrir miskabótakröfu stefnanda í þessum síðari kröfulið sé vísað til sömu lagasjónarmiða og um sams konar kröfu í fyrri kröfuliðnum. Dráttarvaxta sé krafist af kröfunni um miskabætur frá 1. ágúst 2000 og sé vísað til þess sem áður hafi komið fram um fyrri miskabótakröfu. Annars sé dráttarvaxta krafist frá þingfestingardegi málsins, 28. febrúar 2002.
Vísað sé til ákvæða í lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Um málskostnaðarkröfur sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss
Sýknukröfur stefnda Landspítalans eru byggðar á því að stefnanda hefðu verið greidd að fullu þau laun sem honum hafi borið á tímabilinu desember 1999 til júní 2001. Stefnandi hafi ekki innt af hendi vinnuskyldu á þessu tímabili. Af því leiði að stefndi verði að hámarki krafinn launa af hálfu stefnanda á tímabilinu sem nemi föstum mánaðarlaunum hans, þ.e. taxtalaunum. Stefnda hafi með öllu verið óskylt að greiða stefnanda umfram það en hafi þó ákveðið að miða greiðslur til hans við meðallaun síðustu tólf mánaða áður en uppsögn hafi komið til framkvæmda, þ.e. á tímabilinu 1. desember 1998 til 30. nóvember 1999. Hafi sú ákvörðun verið tekin umfram skyldu og veiti stefnanda engan frekari rétt á hendur stefnda enda hafi stefndi engar sérstakar skyldur borið gagnvart stefnanda.
Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggi stefndi á því að umrætt tímabil hafi verið eðlilegur viðmiðunargrundvöllur sem hafi veitt raunsannar upplýsingar um hugsanleg eða möguleg laun stefnanda á því tímabili. Fullyrðingum stefnanda um að miða beri við þau laun sem stefnandi hafi haft síðasta heila árið, „sem hann hafi fengið að gegna starfi ótruflað”, sé mótmælt sem röngum og órökstuddum. Á árinu 1999 hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við störf stefnanda. Slíkar athugasemdir hafi á engan hátt komið í veg fyrir að stefnandi gæti unnið dagleg störf og gengið vaktir. Á liðnum árum hafi fyrirsvarsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur, áður Borgarspítala, ítrekað haft uppi athugasemdir vegna slælegra vinnubragða stefnanda og svo hafi einnig verið á árinu 1998. Sú viðmiðun, sem notuð hafi verið, þ.e. laun síðustu 12 mánuði áður en uppsögn hafi komið til framkvæmda, eigi sér stoð í kjarasamningum og reglugerðum um opinbera starfsmenn, þ.m.t. þeim kjarasamningi sem stefnandi hafi tekið laun samkvæmt hjá sjúkrahúsinu. Hins vegar sé hvergi að finna stoð fyrir því að velja viðmiðunartímabil með þeim hætti sem stefnandi byggi á. Við útreikninga á yfirvinnu, vaktaálagi o.þ.h. samkvæmt reglum, sem í gildi hafi verið á þeim tíma um ríkisstarfsmenn, annars vegar reglugerð um greiðslu launa í barnsburðarleyfi nr. 410/1989 og hins vegar reglugerð um greiðslu launa í veikindum nr. 411/1989, sé miðað við laun síðustu 12 mánuði eins og gert hafi verið í tilviki stefnanda. Stefnandi ætti ekki að standa betur að vígi en ef um veikindi hefði verið að ræða. Auk þess mæltu engin sérstök rök með því að miða við laun ársins 1998. Miklu fremur hefði þá borið að taka meðaltal launa síðustu 3-5 árin.
Útreikningi og forsendum tryggingastærðfræðings sé mótmælt. Stefndi leggi fram yfirlit yfir launagreiðslur stefnda til stefnanda á árunum 1993 til 2001. Launatekjur stefnanda hafi verið áberandi langhæstar á árinu 1998 sem hafi mátt rekja til nokkurrar yfirvinnu stefnanda þá. Fyrri ár hafi verið áberandi lakari svo og árið 1999. Því sé mótmælt að stefnandi geti valið sér viðmið sem honum henti best. Forsendur sem vísað sé til í útreikningi tryggingastærðfræðings um nokkra hækkun launataxta lækna á árinu 1998 eigi ekki við um stefnanda og hefðu ekki komið honum sérstaklega til góða. Á starfstímanum hjá stefnda hafi stefnandi hvorki átt kröfu á né hafi hann getað ráðgert aðra og meiri vinnu en starfshlutfall hans hafi kveðið á um, þ.e. 69% starfshlutfall, og því hafi föst mánaðarlaun stefnanda við starfslok verið 230.962 krónur. Enn fremur liggi fyrir að tryggingastærðfræðingurinn hafi ekki haft fullnægjandi gögn við gerð útreiknings eins og sjáist af fyrirvara sem hann hafi gert. Tryggingastærðfræðingur hafi gengið út frá því í útreikningi sínum að stefnanda hafi á tímabilinu frá desember 1999 til loka júní 2001 einungis verið greidd föst mánaðarlaun. Hið rétta sé að stefnanda hafi verið greidd meðallaun á þessu tímabili sem hafi miðast við launagreiðslur stefnda til stefnanda síðustu 12 mánuðina áður en uppsögn hafi komið til framkvæmda. Engin rök mæltu með því að miða útreikning á tekjum stefnanda við árið 1998.
Af hálfu stefnda er kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta alfarið mótmælt. Stefnandi hafi verið ráðinn í starf yfirlæknis við slysadeild sjúkrahússins og því hafi verið litið svo á að hann nyti réttinda og bæri skyldur sem starfsmaður þess og að sjúkrahúsið færi með heimildir vinnuveitanda. Stefnandi hafi tekið laun og önnur starfskjör hjá stefnda samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar v/Sjúkrahúss Reykjavíkur o.fl. annars vegar og Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur hins vegar. Ásökunum stefnanda í garð forsvarsmanna stefnda sé mótmælt en þær séu tilhæfulausar og órökstuddar. Engin skilyrði séu því til að dæma stefnda til að greiða stefnanda miskabætur vegna uppsagnarinnar á árinu 1999 þótt Hæstiréttur hafi talið uppsögnina ólögmæta. Því til stuðnings bendi stefndi á að forsvarsmenn Borgarspítala, síðar Sjúkrahúss Reykjavíkur, hafi á liðnum árum ítrekað borið fram kvartanir við stefnanda vegna starfa hans. Ástæður þess hafi ýmist verið atvik innan sjúkrahússins eða kvartanir sjúklinga, landlæknis, lögmanna og tryggingafélaga. Margar þessara kvartana hafi varðað slæleg vinnubrögð stefnanda við skil á læknisvottorðum og greinargerðum. Ýmis dæmi væru um að sjúklingar hefðu þurft að bíða svo árum skipti eftir venjubundinni afgreiðslu vottorða og greinargerða. Af hálfu stefnda hafi margsinnis verið gerðar athugasemdir við vinnubrögð stefnanda og vorið 1999 hafi svo verið komið að ekki hafi lengur verið við unað.
Á árinu 1990 hafi stefnandi ritað greinargerð, dagsetta 12. ágúst það ár, til Sjúkrahúss Reykjavíkur um störf sín á tímabilinu 1984-1990, en þar geri stefnandi grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi ýmsar ávirðingar og ásakanir um brot og vanrækslu í starfi sem á hann hefðu verið bornar. Hin síðari ár hafi umfang kvartana undan vinnubrögðum stefnanda aukist mjög eins og eftirtalin dæmi gefi til kynna.
Á árinu 1993 hafi sjúkrahúsinu borist kvartanir frá sjúklingi vegna aðgerðar sem stefnandi hafi framkvæmt. Sjúklingurinn hafi leitaði til landlæknis með mál sitt og með bréfi landlæknis til stefnanda, dagsettu 14. maí 1993, hafi verið óskað afhendingar á gögnum. Þrátt fyrir ítrekanir landlæknis hafi stefnandi ekki sinnt beiðni hans. Í bréfi lögmanns, dagsettu 5. október 1993, hafi verið kvartað yfir slælegum skilum stefnanda á vottorðum. Lögmaðurinn hefði ritað stefnanda bréf, dagsett 7. febrúar 1992, og óskað eftir áverkavottorði. Tæpum tveimur árum síðar hafi lögmaðurinn ritað framkvæmdastjóra spítalans bréf og óskað úrlausnar sinna mála er stefnandi hafði ekki enn ritað umrætt vottorð.
Með bréfi, dagsettu 9. september 1994, hafi stefnanda verið veitt áminning vegna vanrækslu í starfi. Tilefni þess hafi verið að lögmaður hefði óskað eftir læknisvottorði fyrir sjúkling með bréfi, dagsettu 12. mars 1993. Lögmaðurinn hafi sent stefnanda margar ítrekanir. Með bréfi landlæknis til stefnanda, dagsettu 14. febrúar 1994, hafi stefnanda verið veittur tveggja vikna frestur til að skila umræddu vottorði. Í bréfi landlæknis hafi vinnubrögð stefnanda verið átalin og vanræksla hans talin ítrekuð. Með bréfi, dagsettu 6. september 1994, hafi landlæknir enn á ný borið fram kvörtun vegna vinnubragða stefnanda vegna þessa máls.
Á árinu 1995 hafi Borgarspítalanum borist bréf lögmanns, dagsett 19. janúar 1995. Lögmaður hefði ritað stefnanda bréf, dagsett 30. mars og 12. júlí 1994, og óskað eftir læknisvottorðum vegna tveggja skjólstæðinga sinna. Með bréfi lækningaforstjóra spítalans til stefnanda, dagsettu 20. janúar 1995, hafi verið óskað skriflegra skýringa á þessum drætti. Svör stefnanda hafi borist með bréfum hans, dagsettum 23. janúar 1995.
Með bréfi landlæknis til Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 6. júní 1996, hafi verið ítrekuð ósk um afrit af tiltekinni sjúkraskrá og umsögn stefnanda vegna aðgerðar á sjúklingi. Landlæknir hefði áður ritað stefnanda bréf, dagsett 2. janúar og 29. mars 1996, um sama efni. Með bréfi yfirlæknis bæklunarlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur til lækningaforstjóra, dagsettu 9. júlí sama ár, hafi málinu verið vísað til afgreiðslu hans. Svo hafi farið að öðrum lækni hafi verið falið að vinna greinargerð í málinu með beiðni lækningaforstjóra. Með bréfi landlæknis til stefnanda, dagsettu 29. júlí 1996, hafi stefnandi verið áminntur alvarlega og málinu vísað til yfirmanna hans.
Stefnanda hafi verið veitt skrifleg áminning Sjúkrahúss Reykjavíkur l. desember 1997. Tildrög áminningarinnar hafi verið þau að landlæknir hafi ritað stefnanda bréf, dagsett 3. apríl 1995, þar sem óskað hafi verið eftir afriti af sjúkraskrá o.fl. vegna aðgerðar sjúklings. Stefnandi hafi í engu svarað erindi landlæknis og á árinu 1997 hafi svo verið komið að forstöðulæknir bæklunarlækningadeildar hafi ritað stefnanda bréf og krafið hann svara. Í kjölfar þessa hafi stefnandi verið kallaður til fundar með lækningaforstjóra og þess krafist að hann skilaði greinargerð vegna málsins. Á fundi aðila hafi stefnanda verið gerð grein fyrir alvarleika málsins og að margítrekuð vanræksla hans í þessum efnum yrði ekki umborin lengur. Þess hafi verið krafist að hann tjáði sig um fram komnar ávirðingar og gerði viðhlítandi grein fyrir sjónarmiðum sínum. Stefnandi hafi skilað lækningaforstjóra greinargerð, dagsettri 26. nóvember 1997. Í henni segi það eitt um vinnubrögð hans varðandi skil á umsögn til landlæknis að hann telji sig hafa beðið ritara að taka til umbeðin sjúkraskrárgögn og senda landlækni en það hafi verið yfirsjón hans að semja ekki þá þegar umsögn um málið. Í kjölfar þessa hafi stefnanda verið veitt skrifleg áminning. Í áminningarbréfi hafi sérstaklega verið tekið fram að endurtekning á vanrækslu sem þessari myndi leiða til þess að hann yrði leystur frá störfum við sjúkrahúsið.
Á árinu 1998 hafi ýmsar kvartanir verið bornar fram vegna starfshátta stefnanda. Með bréfi Sjóvár-Almennra trygginga hf. til yfirlæknis bæklunarlækningadeildar, dagsettu 27. ágúst 1998, hafi verið kvartað vegna endurtekinnar vanrækslu stefnanda á að skila umbeðnum vottorðum. Í bréfi tryggingafélagsins komi fram að það hefði sent fimm beiðnir um lokavottorð vegna sjúklings, dagsett í apríl 1994, apríl og nóvember 1995, júlí 1996 og apríl 1998, en ekkert svar hefði borist enn. Með bréfi yfirlæknis til stefnanda, dagsettu 21. september 1998, hafi þess verið krafist að stefnandi afgreiddi mál þetta strax og jafnframt að hann gerði grein fyrir töfum á afgreiðslu þess. Þetta hafi verið ítrekað með bréfi, dagsettu 27. október 1998, og hafi stefnandi skilað greinargerð um sjúkling, dagsettri 6. nóvember 1998, eftir nokkrar ítrekanir yfirlæknis. Kvörtun hafi borist vegna slælegra skila stefnanda á vottorðum eins og fram komi í bréfi yfirlæknis til stefnanda, dagsettu 11. júní 1998.
Í ljósi alls framanritaðs hafi forsvarsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur ákveðið að grípa til aðgerða gagnvart stefnanda. Litið hafi verið meðal annars til þeirrar ábyrgðar sem sjúkrahúsið beri almennt samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og á grundvelli annarra laga varðandi þjónustu við sjúklinga. Með bréfi Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 27. maí 1999, hafi forsvarsmenn sjúkrahússins gert grein fyrir frekari ávirðingum sem fram hefðu komið á hendur stefnanda. Í því tilviki hafi verið um að ræða sjúkling sem hefði ítrekað óskað eftir afriti af sjúkraskýrslum, fyrst með bréfi dagsettu 23. júní 1998. Enn fremur hefði stefnandi látið hjá líða að afgreiða beiðni frá Vátryggingafélagi Íslands hf. um sama sjúkling, en sú beiðni hafi borist 2. febrúar 1998. Af hálfu Sjúkrahúss Reykjavíkur hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því að sjúkrahúsið hefði í hyggju að segja honum upp störfum og hafi honum verið veittur frestur til 17. júní 1999 til að koma að athugasemdum og andmælum um það. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 25. júní 1999, hafi komið fram athugasemdir og andmæli stefnanda vegna fyrirætlunar sjúkrahússins að segja upp ráðningarsamningi við hann.
Með bréfi Sjúkrahúss Reykjavíkur til stefnanda, dagsettu 22. júlí 1999, hafi stefnanda verið sagt upp störfum en uppsagnarfrestur hafi verið 4 mánuðir samkvæmt gr. 2.2.2. í kjarasamningi fjármálaráðherra o.fl. annars vegar og Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur hins vegar. Fullt samráð hafi verið við Háskóla Íslands vegna uppsagnarinnar. Líta verði heildstætt til málavaxta og ástæðna stefnda til uppsagnar á þeim tíma sem um ræði og til atvika málsins að öðru leyti, sérstaklega á hvern hátt stefnandi hafi rækt starfa sinn hjá stefnda. Efnislegar ástæður hafi verið til uppsagnar á umræddu tímamarki og hafi ávirðingar í garð stefnanda verið slíkar að réttlætt hafi uppsögnina. Efnisþættir og forsendur uppsagnar hafi verið bornar undir Háskóla Íslands, sem hafi fallist að öllu leyti á framkvæmd og fyrirkomulag uppsagnar. Þá hafi jafnframt verið gætt réttra aðferða við framkvæmd uppsagnar. Stefnandi hafi brotið starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í ljósi þessa séu engar forsendur eða skilyrði fyrir kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta. Þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar frá 18. maí 2000 eigi stefnandi engan bótarétt þar sem hann hafi með háttalagi sínu fyrirgert rétti sínum til starfa á vegum stefnda. Því þurfi að leggja efnislegt mat á ávirðingar og ástæður stefndu til uppsagnar sem og önnur atvik málsins. Verulegur vafi hafi verið um réttarstöðu og réttarsamband stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss og stefnanda. Tveir efnisdómar hafi fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli þessu, sá fyrri stefnda í hag en sá síðari stefnanda í hag, en í báðum tilvikum hafi verið gengið út frá því í niðurstöðum dóms að Sjúkrahús Reykjavíkur væri vinnuveitandi stefnanda. Stefndi hafi hins vegar gætt allra lögbundinna sjónarmiða við framkvæmd uppsagnar og hafi samhliða haft um það nauðsynlegt samráð við þann sem samkvæmt dómi Hæstaréttar reyndist eini vinnuveitandi stefnanda, þ.e. Háskóla Íslands.
Stefnandi hafi ekki með nokkrum rökum gert sennilegt, hvað þá fært að því sönnur, að uppsögn hafi mátt rekja til einhverra þeirra atvika sem tilgreind hafi verið af hans hálfu. Ásakanir stefnanda í garð forsvarsmanna stefnda séu ástæðulausar, tilviljunarkenndar og rakalausar. Þá hafi öll opinber umfjöllun þessa máls verið einhliða frá hendi stefnanda en stefndi hafi á engan hátt lýst opinberlega afstöðu sinni til ágreiningsefnis né tekið þátt í fjölmiðlaumræðu um það. Í máli þessu beri að leggja skýringar stefnda svo og fyrirliggjandi gögn þessa máls til grundvallar mati á ástæðum uppsagna. Því sé alfarið mótmælt að fyrir hendi séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til greiðslu miskabóta vegna áðurnefndrar uppsagnar.
Sýknukröfur stefnda séu enn fremur reistar á aðildarskorti, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Af dómi Hæstaréttar frá 18. maí 2000 verði ráðið að Háskóli Íslands sé eini vinnuveitandi stefnanda. Samkvæmt því hafi stefnandi einungis staðið í vinnuréttarsambandi við háskólann. Kröfugerð stefnanda um greiðslu launa byggi á því að báðir stefndu verði dæmdir til greiðslu launakröfu en sú tilhögun sé andstæð grundvallarreglum íslensks vinnuréttar auk þess sem viðurkennt hafi verið með dómi að Háskóli Íslands teldist vinnuveitandi stefnanda. Stefnanda beri því að beina öllum dómkröfum þessa máls að stefnda Háskóla Íslands.
Stefndi vísi til meginreglna íslensks vinnuréttar, ákvæða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins svo og reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þá vísi stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um málskostnað til ákvæða 129. og 130. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda Háskóla Íslands
Af hálfu stefnda Háskóla Íslands er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi verið skipaður prófessor í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands frá 1. janúar 1984 að telja. Í samningi milli Háskóla Íslands og Borgarspítalans frá 1. janúar 1983 um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss hafi m.a. verið kveðið á um samvinnu um kennslu, nýtingu nýjunga í læknisfræði og rannsóknarstarfsemi. Í 4. gr. samningsins sé fjallað um sameiginlegt starfslið og komi þar meðal annars fram að ef prófessor væri starfandi við sjúkrahúsið skyldi hann jafnframt vera yfirlæknir á viðkomandi deild.
Undir fræðigreinina slysalækningar hafi á þessum tíma fallið áverkar á stoðkerfi en sjúkdómar í stoðkerfi undir bæklunarlækningar. Jafnframt hafi fallið undir slysalækningar móttaka slasaðra og frumgreining slasaðra á vettvangi. Kennarar annarra sérgreina hafi hins vegar kennt aðra hluta úr því sem í dag sé nefnt bráðalæknisfræði.
Þróun í greiningu og meðferð slasaðra og bráðveikra hafi verið hröð síðustu tvo áratugi. Neyðarbíll hafi tekið til starfa á árinu 1982 og gangi allir læknar neyðarbílsins í gegnum ákveðna þjálfun áður en þeir fái leyfi til að starfa á bílnum. Á árinu 1986 hafi verið komið á þyrluvakt lækna og hafi forsjá hennar verið sett undir svæfinga- og gjörgæsludeild. Forsjá neyðarbílsins hafi hins vegar verið færð undir lyflækningadeild enda hafi á þeim tíma engir sérfræðingar verið til í bráðalæknisfræðum.
Síðari hluta níunda áratugarins hafi átt sér stað umræður, m.a. innan læknaráðs Borgarspítalans, um framtíðarmönnun í slysamóttöku. Hafi þar m.a. verið rætt um aukna þörf á sérfræðingum á slysa- og bráðamóttöku Borgarspítalans. Talið hafi verið æskilegt að þar starfaði a.m.k. einn sérfræðingur í neyðarlækningum, emergency medicine. Frá árinu 1991 hafi ávallt verið sérfræðingur á vakt á slysa- og bráðamóttöku með reynslu og þekkingu í móttöku slasaðra.
Við mótun framtíðarstefnu í slysa- og bráðamóttöku hér á landi hafi verið litið mjög til þeirrar þróunar sem hafi átt sér stað í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar í bráðalæknisfræðum. Líkt og hér á landi hafi áhersla lengst af einkum verið á móttöku slasaðra og oftast hafi bæklunarlæknar stjórnað starfsemi slysadeilda. Upp úr 1960 hafi hins vegar verið farið að leggja aukna áherslu á að tryggja þjónustu jafnt fyrir bráðveika sem slasaða. Lágmarkskröfur hafi verið gerðar um sérfræðinga á vakt hverju sinni. Ljóst hafi þótt að sérfræðiþjálfun í bæklunarlækningum hafi ekki nægt til þess að takast á við fjölþætt vandamál á slysa- og bráðamóttökudeildum.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi viðurkennt bráðalæknisfræði sem sérgrein árið 1992. Á árinu 1994 hafi slysa- og bráðamóttöku verið skipt þannig að læknar slysa- og bráðamóttöku hafi alfarið hætt afskiptum af legusjúklingum og hafi þeir í staðinn einbeitt sér að störfum á slysa- og bráðamóttöku. Á árinu 1996 hafi bæklunarlækningadeild orðið hluti af skurðlækningasviði spítalans, en slysa- og bráðamóttaka hafi orðið hluti af slysa- og bráðasviði. Við slysa- og bráðamóttöku starfi nú sérfræðingar úr hinum ýmsu greinum, svo sem bráðalæknisfræðum með eiturefnafræði sem undirgrein, almennum skurðlækningum, barnalækningum, bæklunarlækningum, heimilislækningum, lyflækningum og lýtalækningum.
Um áramótin 1997/1998 hafi verið skipuð nefnd til að skoða ýmsa þætti í starfsemi slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og hafi hún skilað skýrslu 2. desember 1998. Þar hafi meðal annars verið vakin athygli á að rík þörf væri á að skilgreina nánar hlutverk sérfræðinga slysa- og bráðamóttöku og kröfur sem gerðar væru til lækna þar, svo sem um menntun, þjálfun í endurlífgun, móttöku slasaðra, hópslysaviðbúnaði og fleira. Talið hafi verið æskilegt að umræddir læknar væru sérþjálfaðir í bráðalæknisfræði eða hefðu víðtæka reynslu í móttöku bráðveikra og slasaðra svo að þeir gætu sinnt hlutverki sem verkstjórar, kennarar og ráðgjafar. Enn fremur hafi verið vakin athygli á nauðsyn þess að skilgreina slysa- og bráðalækningar sem fræðasvið innan læknadeildar Háskóla Íslands og efla kennslu og rannsóknir á þessu sviði. Vakin hafi verið athygli á þeim breytingum sem átt hafi sér stað í slysa- og bráðalækningum frá því að stofnað var til prófessorsstöðu í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands um 17 árum áður. Nauðsynlegt hafi verið talið að fram færi endurskilgreining á fræðigreininni í samvinnu við læknadeild Háskóla Íslands sem tæki mið af nýjum áherslum í slysa- og bráðalækningum og að forstaða kennslugreinarinnar yrði við slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Sambærileg umræða hafi einnig farið fram innan læknadeildar Háskóla Íslands. Á árinu 1994 hafi deildarráð læknadeildar óskað eftir formlegum viðræðum við framkvæmdastjórn Borgarspítalans um framtíðarskipan og aðstöðu fyrir kennslu og fræðastarfsemi í slysa- og bráðalækningum. Ráðið hafi talið nauðsynlegt að tryggja að læknanemar, kandidatar og aðstoðarlæknar fengju sem besta kennslu á þessu sviði.
Aukin áhersla hafi verið lögð á þessa umræðu innan læknadeildar á árunum 1999 og 2000 enda hafi þá verið fyrirséð að móttaka slasaðra og bráðveikra við Landspítala, háskólasjúkrahús myndi að öllum líkindum framvegis byggjast á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar. Á fundi deildarráðs læknadeildar 24. ágúst 2000 hafi verið rætt um að hefja nám í bráðalækningum og að sú kennsla yrði felld inn í aðrar kennslugreinar í stað sérstaks fræðasviðs í slysalækningum. Aftur hafi verið vikið að sama máli á fundi deildarráðs 6. september sama ár.
Endurskipulagning kennslufyrirkomulags innan læknadeildar hafi áfram verið til umræðu næstu mánuði innan kennsluráðs læknadeildar. Á fundi ráðsins 21. maí 2001 hafi Brynjólfur Mogensen dósent og yfirlæknir kynnt greinargerð um þróun bráðalæknisfræðinnar sem sérgreinar. Með bréfi, dagsettu 31. maí sama ár, hafi Jóhannes M. Gunnarsson lækningaforstjóri Landspítalans tilkynnt forseta læknadeildar að víðtæk samstaða hefði tekist meðal sviðsstjóra um að í framtíðinni muni móttaka slasaðra og bráðveikra við spítalann byggjast á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar. Á fundi deildarráðs læknadeildar 20. júní sama ár hafi verið samþykkt að óska eftir því við rektor Háskóla Íslands að störf prófessors og dósents í slysalækningum yrðu lögð niður frá og með 1. júlí s.á. til að skapa grundvöll fyrir endurskipulagningu á þessu sviði með tilkomu nýrrar sérgreinar á Landspítalanum í bráðalæknisfræði. Sama dag hafi rektor verið gerð grein fyrir samþykkt deildarráðs og forsendum þeirra breytinga sem lagt hafi verið til að ráðist yrði í. Með bréfi, dagsettu 22. júní s.á., hafi rektor tilkynnt stefnanda að hann hefði ákveðið að leggja niður umrædd störf frá og með 1. júlí s.á. og að stefnandi ætti rétt til biðlauna í tólf mánuði frá þeim degi. Stefnandi hafi mótmælt niðurlagningunni með bréfaskriftum og mikil umfjöllun hafi verið um málið í fjölmiðlum þar sem því hafi meðal annars verið haldið fram af stefnanda að umræddar niðurlagningar hafi beinst gegn honum persónulega og ættu rætur að rekja til valdabaráttu innan læknadeildar.
Krafa stefnda Háskóla Íslands um sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu vangreiddra launa fyrir störf hans hjá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi sé reist á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og sýknukrafa sjúkrahússins að frátaldri málsástæðu sjúkrahússins um sýknu vegna aðildarskorts. Einnig sé varakrafa stefnda Háskóla Íslands um lækkun fjárkrafna í fyrri kröfulið stefnanda reist á sömu málsástæðum og fram hafi komið af hálfu stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss. Stefndi Háskóli Íslands krefjist enn fremur sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en kröfu stefnanda um greiðslu vangreiddra launa vegna starfa hans við Landspítala, háskólasjúkrahús sé ranglega beint að háskólanum. Stefnandi hafi allan sinn starfsferil fengið laun sín vegna yfirlæknisstarfsins greidd frá sjúkrahúsinu og svo hafi einnig verið á þeim tíma sem krafa stefnanda taki til. Skylda til greiðslu umræddra launa hafi því óumdeilanlega verið hjá sjúkrahúsinu en ekki stefnda Háskóla Íslands.
Krafa stefnanda á hendur stefnda Háskóla Íslands um greiðslu á 70.424.000 krónum sé á því reist að brotinn hafi verið réttur á stefnanda þegar starf hans í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands var lagt niður. Annars vegar sé byggt á því að niðurlagning starfsins hafi í reynd verið dulbúin uppsögn en hins vegar að ekki hafi verið gætt réttra formreglna við ákvörðunartökuna.
Um hina meintu formgalla haldi stefnandi því fram að það sé verkefni deildarfundar að gera tillögu um að leggja niður prófessorsstarf og það sé síðan háskólaráðs að taka endanlega ákvörðun um niðurlagningu starfsins. Deildarráð geti ekki fengið framselt vald til að setja fram tillögu um að leggja niður starf og rektor sé ekki bær til að taka ákvörðun um slíkt. Stefndi Háskóli Íslands haldi því fram að samkvæmt l. mgr. 10. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands sé deildarfundi heimilt að framselja ákvörðunarvald sitt í einstökum málum eða málaflokkum til deildarráðs. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setji háskólaráð nánari reglur um starfsemi deilda og hlutverk. Í 21. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands sé tekið fram að deildarráði sé heimilt að fjalla um öll mál sem deildina varði en hafi hins vegar einungis úrslitavald í þeim málaflokkum þar sem deildarfundur hafi framselt ákvörðunarvald sitt. Á deildarfundi í læknadeild sem haldinn hafi verið 13. desember 2000 hafi verið samþykktar reglur um framsal valds deildarfundar læknadeildar til deildarforseta, deildarráðs eða skorarstjórna. Í l. gr. reglnanna séu talin upp málin sem deildarfundur framselji vald sitt til deildarráðs og í 16. tl. segi að tillögur um nýjar kennslugreinar og ný kennarastörf falli framvegis undir valdsvið deildarráðs læknadeildar. Tillögur um nýjar kennslugreinar og ný kennarastörf feli í sér breytingar á fyrirkomulagi læknanáms með sama hætti og tillögur um niðurlagningu slíkra starfa eða kennslugreina. Umrætt valdframsal eigi sér skýra lagastoð og taki til þeirrar ákvörðunar sem hér um ræði. Hinn 17. desember 1997 hafi deildarfundur í læknadeild tekið stefnumarkandi ákvörðun um að framkvæmd endurskipulagningar á fyrirkomulagi læknanáms yrði falin deildar- og kennsluráði.
Heimild rektors til að taka ákvörðun um niðurlagningu prófessorsstarfs sé byggð á því að í 12. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 sé mælt fyrir um að rektor ráði prófessora, dósenta, lektora, sérfræðinga, vísinda- og fræðimenn og forstöðumenn háskólastofnana. Það sé meginregla í vinnurétti að vald til að stofna til vinnuréttarsambands og vald til að binda endi á slíkt samband sé á sömu hendi. Vísað sé jafnframt um það til 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en reglan gildi jafnt um niðurlagningu starfs, lausn frá embætti eða uppsögn ráðningarsamnings.
Stefnandi haldi því fram að brotið hafi verið gegn 13., 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en því sé mótmælt af hálfu stefnda Háskóla Íslands. Starf stefnanda hafi verið lagt niður vegna þróunar í slysa- og bráðalækningum. Ákvörðun um niðurlagninguna hafi ekki byggst á ástæðum sem hafi snert stefnanda sjálfan, svo sem verkum hans eða hæfni til starfs. Í slíkum tilvikum komi ekki til kasta 13. gr. stjórnsýslulaga. Af sömu ástæðu reyni ekki á ákvæði 14. gr. sömu laga enda taki umrætt ákvæði einungis til tilvika þar sem aðili máls eigi rétt til að tjá sig um efni þess samkvæmt 13. gr. Ekki hafi verið brotið gegn 15. gr. laganna enda hafi stefnanda ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Stefnandi hafi fengið allar fundargerðir deildarráðs læknadeildar sendar til yfirlestrar. Hann hafi því átt hægt um vik að kynna sér fram komnar tillögur og tjá sig um þær teldi hann þörf á því. Enn fremur hafi það heyrt til starfsskyldna stefnanda að sækja deildarfundi og fylgjast með umræðum innan læknadeildar um framtíðarfyrirkomulag kennslu innan deildarinnar.
Stefnandi telji Reyni Tómas Geirsson forseta læknadeildar og Pál Skúlason rektor Háskóla Íslands hafa verið vanhæfa til meðferðar málsins og sé vísað til þess að þeir hafi áður tekið þátt í ákvörðun um að veita stefnanda tímabundna lausn frá störfum í desember 1999. Hæfisregla 6. tl. l. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi verið skýrð svo að það leiði ekki til vanhæfis þótt starfsmaður í stjórnsýslunni hafi áður fengist við önnur mál sama aðila. Þá sé jafnframt ljóst að þótt menn hafi ólíkar skoðanir eða hafi greint á í afstöðu til manna eða málefna valdi það ekki vanhæfi. Beinlínis þurfi að hafa komið til illvígra deilna til að starfsmaður teljist vanhæfur á grundvelli lagaákvæðisins. Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að forseti læknadeildar hafi beitt sér gegn stefnanda með þeim hætti að hann geti talist vanhæfur til að fjalla á hlutlausan hátt um mál sem snerti stefnanda persónulega. Því síður eigi það við um rektor Háskóla Íslands. Meðferð málsins, sem lagt hafi verið fyrir nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, hafi á engan hátt verið ómálefnaleg þótt nefndin hafi hins vegar talið að annmarkar hefðu verið á formhlið málsins. Hvorki forseti læknadeildar né rektor Háskóla Íslands hafi sýnt af sér óviðeigandi framkomu í garð stefnanda við meðferð málsins eða við önnur tækifæri. Ekkert liggi fyrir um að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ákvörðunartöku í umræddu máli heldur hafi aðeins verið færð rök fyrir því að stefnandi hefði vanrækt starfsskyldur sínar þannig að rétt væri að veita honum lausn frá störfum um stundarsakir. Því mati hafi ekki verið hnekkt enda hafi nefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort efni hafi verið til að víkja stefnanda frá störfum. Við skýringu á 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga beri einnig að líta til þess að hvorki forseti læknadeildar né rektor hafi haft einstaklegra hagsmuna að gæta af ákvörðun um að leggja niður stöður í slysalækningum.
Stefnandi reisi kröfur sínar jafnframt á því að umrædd ákvörðun hafi í reynd verið dulbúin ólögmæt uppsögn úr starfi, en hann telji að allur aðdragandi ákvörðunarinnar og tímasetning sýni að tilgangur hennar hafi verið að koma stefnanda úr embætti. Ákvörðun hafi verið tekin með fárra daga fyrirvara og tímasetningin falli saman við lok á gildistíma samningsins á milli stefndu sem hafi verið grundvöllur þess starfsþáttar sem hafi tilheyrt stefnanda á sjúkrahúsinu. Það sé rangt að ákvörðunin hafi verið tekin með fárra daga fyrirvara enda sýni breytingar, sem orðið hafi á slysa- og bráðalækningum frá því að stofnað var til prófessorsstarfs í slysalækningum við læknadeildina, að aðdragandinn hafi verið langur. Ákvörðun um að byggja upp fræðigreinina bráðalækningar innan læknadeildar hafi verið liður í endurskoðun námsfyrirkomulags í læknisfræðiskor deildarinnar. Af framlögðum fundargerðum deildarráðs og kennsluráðs læknadeildar sé ljóst að umræða um þessi málefni hafi staðið yfir um nokkurn tíma auk þess sem fylgst hafi verið grannt með þróun mála hjá Landspítala, háskólasjúkrahúsi. Endanleg ákvörðun í þessum efnum hafi hins vegar haldist í hendur við endurskoðun námsskrár deildarinnar og miðað hafi verið við að staðan yrði lögð niður í upphafi nýs háskólaárs, 1. júlí 2001.
Haldið sé fram af stefnanda hálfu að með því að leggja niður störf prófessors og dósents í slysalækningum og stofnun nýs starfs í bráðalækningum hafi starf sem stefnandi gegndi einungis verið fært í nýjan búning enda standi áfram til að stunda kennslu innan læknadeildar í þeim hluta bæklunarlækninga sem fallið hafi undir starf stefnanda. Starf stefnanda hafi verið í slysalækningum og stefnandi hafi gegnt yfirlæknisstarfi á slysadeild Landspítala, háskólasjúkrahúss. Tilkoma bráðalækninga sem sjálfstæðrar fræðigreinar hafi kallað á nýja hætti í kennslu og rannsóknavinnu á þessu sviði. Bæklunarlækningar, líkt og margar aðrar fræðigreinar, tengdust bráðalækningum, en þær séu ekki undirstaða bráðalækninga líkt og hafi verið áður um slysalækningar. Kennsla í bráðalækningum taki til bráðatilvika á öllum helstu sviðum læknisfræðinnar. Markmið slíkrar kennslu sé að gera lækna hæfa til að takast á við margvísleg bráðatilvik, greina þau hratt, hefja grunnmeðferð og beina þeim síðan áfram til þeirra sem hafi sérkunnáttu á umræddu sviði. Stofnuð verði ný fræðigrein innan Háskóla Íslands sem krefjist annarrar sérfræðiþekkingar en áður hafi gilt um slysalækningar. Áfram verði dósents- eða prófessorsstaða við læknadeild í bæklunarlækningum.
Af framsetningu stefnanda verði helst ráðið að ákvörðun Landspítala, háskólasjúkrahúss um að byggja bráðamóttöku framvegis á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar og ákvörðun læknadeildar Háskóla Íslands um að færa kennslu innan deildarinnar til samræmis við þessa þróun hafi haft þann tilgang einan að koma stefnanda úr starfi. Þessi framsetning, sem sé einn helsti grundvöllur málsóknar stefnanda, fái ekki með nokkru móti staðist. Í fyrsta lagi hafi verið lögð niður tvö störf í slysalækningum. Það hafi því ekki einungis verið stefnandi sem missti starf sitt. Í öðru lagi verði ákvörðun um að leggja stöðurnar í slysalækningum niður rakin til þróunar sem átt hafi sér stað síðustu tvo áratugi. Umræða um þörf á menntun sérfræðinga í bráðalækningum hér á landi hafi hafist fyrir upphaf hinnar meintu aðfarar gegn stefnanda innan háskólans og á Landspítalanum. Þegar umrædd störf voru lögð niður hafi það verið þáttur í endurskipulagningu kennslu innan læknadeildar sem jafnframt hafi tekið mið af breytingum á bráðamóttöku Landspítala, háskólasjúkrahúss. Breytingarnar hafi enn fremur haldist í hendur við víðtæka endurskipulagningu á samstarfi stefndu.
Heimildir til niðurlagningar starfs vegna skipulagsbreytinga, sem styðjist við málefnaleg rök, hljóti eðli málsins samkvæmt að taka jafnt til allra starfa, óháð persónu þeirra starfsmanna sem á hverjum tíma gegni starfinu. Háskóli Íslands sé vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun sem veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum mikilvægum störfum í þjóðfélaginu. Til að háskólinn uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hans í þessum efnum þurfi sífellt að eiga sér stað endurskoðun á starfsemi hans og aðlögun að breyttum kröfum í þjóðfélaginu. Ákvörðun um niðurlagningu starfs stefnanda hafi verið fagleg og hafi hún verið grundvölluð á þeirri þróun sem átt hafi sér stað síðustu áratugi í móttöku og meðferð slasaðra og bráðveikra.
Verði fallist á að brotið hafi verið gegn stefnanda þegar starf hans var lagt niður geti það eingöngu leitt til bótaskyldu. Ákvörðun rektors um niðurlagningu starfs stefnanda standi og hafi bundið enda á vinnuréttarsamband milli stefnanda og stefnda Háskóla Íslands. Af meginreglum íslensks vinnuréttar leiði að stefnandi eigi ekki rétt til að fá starf sitt aftur. Stefnandi geti að sama skapi ekki krafist efnda á samningi sínum við Háskóla Íslands.
Stefndi mótmæli miskabótakröfunni en hann telji skilyrði miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki vera fyrir hendi. Engar þær hvatir eða ástæður hafi legið að baki uppsögninni eða því að staðan var lögð niður að talist geti ólögmæt meingerð gegn stefnanda. Fjárhæð miskabótakröfunnar sé einnig mótmælt sem of hárri.
Stefndi mótmæli því að útreikningar Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings verði lagðir til grundvallar kröfum stefnanda en forsendur útreikninganna séu rangar. Stefndi mótmæli þeirri aðferð að leggja laun stefnanda hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur á árinu 1998 til grundvallar útreikningum. Fari svo ólíklega að stefndi verði dæmdur bótaskyldur beri við ákvörðun bóta að líta til þess að stefnandi hafi möguleika á að afla sér tekna fram til 70 ára aldurs. Þá telji stefndi að fara beri eftir ákvæðum 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996 við ákvörðun bóta. Því fari fjarri að kröfur stefnanda samræmist fordæmum í íslenskri réttarframkvæmd um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar ríkisstarfsmanna. Þá sé því mótmælt að stefnandi geti átt rétt til greiðslna vegna námsferða. Stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt með greiðslu biðlauna í tólf mánuði frá þeim tímar er staða hans hafi verið lögð niður.
Mótmælt sé upphafstíma dráttarvaxta í aðal- og varakröfu og þess krafist að miðað verði við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti. Málskostnaðarkrafan sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Krafa stefnanda á hendur stefndu vegna vanreiknaðra launa er byggð á því að við útreikning á launum á tímabilinu desember 1999 til júní 2001 beri að nota laun stefnanda á árinu 1998 til viðmiðunar þar sem það hafi verið síðasta árið sem stefnandi hafi fengið að sinna starfi sínu á Landspítalanum án truflana, en á árinu 1999 hafi verulegur tími hans farið í að verjast ólögmætri aðför spítalans. Þessar staðhæfingar stefnanda verður að telja ósannaðar gegn andmælum stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss enda hafa engin haldbær gögn verið lögð fram af hálfu stefnanda sem styðja þær. Ber að miða útreikning launa á umræddu tímabili við laun stefnanda síðustu 12 mánuðina sem hann gegndi störfum yfirlæknis hjá stefnda Landspítalanum. Stefnandi hefur fengið greidd laun úr hendi stefnda í samræmi við það og ber með vísan til þess að sýkna stefndu af þessari kröfu stefnanda.
Stefnandi krefst miskabóta úr höndum stefndu vegna hinnar ólögmætu uppsagnar í júní 1999. Stefnandi hafði vinnuskyldu gagnvart stefnda Landspítalanum og fékk greidd laun frá honum eins og fram hefur komið. Störf stefnanda sem yfirlæknis byggðust á samkomulagi stefndu sem gilti frá 1. janúar 1983. Stefndi Landspítalinn leitaði álits stefnda Háskóla Íslands á hinni fyrirhuguðu uppsögn og voru engar athugasemdir gerðar af því tilefni af hálfu háskólans. Ekki lá fyrir fyrr en með dómi Hæstaréttar 18. maí 2000 að stefndi Landspítali, háskólasjúkrahús hefði ekki heimild til að segja stefnanda upp störfum á spítalanum. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að skilyrði séu til að dæma stefndu til að greiða stefnanda miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga vegna uppsagnarinnar. Verður því að sýkna stefndu af þessari kröfu stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið tekin lögmæt ákvörðun um að leggja niður prófessorsstöðuna í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands sem stefnandi gegndi frá 1. janúar 1984 samkvæmt skipunarbréfi forseta Íslands, dagsettu 21. desember 1983. Óumdeilt er að stefnandi átti rétt á því að gegna stöðunni nema hún væri lögð niður, sbr. 4. gr. þágildandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 og 25. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í þeim lögum. Stefnandi byggir á því að ákvörðun um að leggja stöðuna niður hafi verið ólögmæt, annars vegar vegna þess að ekki hafi verið rétt að henni staðið og hins vegar vegna þess að hún hafi verið dulbúin uppsögn.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 er háskólarektor yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með allri starfsemi háskólans, þar með talið ráðningar- og fjármálum einstakra deilda og stofnana. Í 15. gr. laga um háskóla nr. 136/1997 segir að rektor hafi ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Samkvæmt þessu fer rektor Háskóla Íslands með vald til að leggja prófessorsstöður niður en ekki háskólaráð. Rektor hefur lagt niður stöðu prófessors í slysalækningum eins og fram kemur í bréfi hans til stefnanda, dagsettu 22. júní 2001. Verður hvorki fallist á að hann né aðrir, sem tóku þátt í undirbúningi ákvörðunarinnar, hafi verið vanhæfir þótt þeir hafi áður tekið ákvörðun eða komið að þeirri málsmeðferð er snerti stefnanda og stöðu hans sem prófessors, en ekki er fallist á að aðstæður hafi verið með þeim hætti að óhlutdrægni þeirra hafi mátt draga í efa með réttu. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að ákvörðun um að leggja umrædda prófessorsstöðu niður sé ógild, eins og stefnandi heldur fram, og verður þá heldur ekki fallist á að stefnandi gegni stöðunni ennþá. Af því leiðir að hann á ekki rétt á launum úr hendi stefnda Háskóla Íslands á tímabilinu 1. júlí 2002 til 1. júlí 2012 eða greiðslu vegna námsferða eins og krafa hans hljóðar um. Stefnandi kann hins vegar að eiga rétt á bótum samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 verði talið að ákvörðun um að leggja stöðuna niður hafi verið óréttmæt.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 718/2001, sem settar voru með heimild í lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, er stjórn deildar háskólans í höndum deildarfunda, deildarráðs, ef við á, og deildarforseta. Deildarfundur fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum, sem hver deild er bær að taka ákvörðun um, en í tilteknum málum eða málaflokkum er háskóladeild heimilt á fundi að framselja ákvörðunarvald til deildarráðs eða deildarforseta, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laga um Háskóla Íslands. Samkvæmt 4. mgr. 21. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 er deildarráði heimilt að fjalla um öll mál, er deildina varða, en úrslitavald hefur það aðeins í þeim málaflokkum sem deildarfundur hefur framselt ákvörðunarvald í. Slíkt framsal skal bókað í fundargerð deildarfundar.
Á deildarfundi læknadeildar 17. desember 1997 var samþykkt samhljóða að hefja endurskoðun námsskipulags í læknisfræði og fól fundurinn deildarráði að annast framkvæmd þess. Á fundi deildarráðs 24. ágúst 2000 voru kynntar nýjar leiðir um skipulag kennslu eins og fram kemur í fundargerð. Þar kemur einnig fram að í tengslum við umfangsmiklar breytingar á námsskrá deildarinnar hafi sérstaklega verið rætt um að hefja nám í bráðalækningum og að sú kennsla yrði felld inn í aðrar kennslugreinar í stað sérstaks fræðasviðs í slysalækningum. Málinu var vísað til kennsluráðs. Samkvæmt fundargerð kennsluráðs læknadeildar frá 21. maí 2001 var tekin fyrir endurskipulagning á slysa-, bráða- og bæklunarlæknisfræði. Kynnt var hvernig bráðalækningar hefðu smám saman þróast sem sérgrein og að slysalækningar væru þá orðnar hluti af bráðalækningum. Þessi þróun hefði orðið í Ameríku og Bretlandi en hún hafi gengið hægar á Norðurlöndum og hægt hér á landi. Rætt var um endurskoðun með tilliti til breyttra áherslna í framtíðinni. Þetta þurfi að leggja fyrir deildarráð og þurfi sjúkrahúsið einnig að koma að málinu. Með bréfi Jóhannesar M. Gunnarssonar lækningaforstjóra hjá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi til forseta læknadeildar, dagsettu 31. maí 2001, var greint frá því að náðst hefði víðtæk samstaða meðal sviðsstjóra um að í framtíðinni verði móttaka slasaðra og bráðveikra við spítalann byggð á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar. Í bréfinu er því lýst nánar hvað í þessu felist en stefnt verði að umræddum breytingum í áföngum og hafist handa um endurskilgreiningu verkefna og ábyrgðar þegar á næstu mánuðum. Á fundi deildarráðs læknadeildar 20. júní sama ár var samþykkt að óska eftir því við rektor að störf prófessors og dósents í slysalækningum verði lögð niður frá og með 1. júlí 2001 til að skapa grundvöll fyrir endurskipulagningu á þessu sviði með tilkomu nýrrar sérgreinar á Landspítalanum í bráðalæknisfræði. Deildarforseti sendi rektor tillögur, dagsettar 20. júní sama ár, sem eru undirritaðar af deildarforseta læknadeildar, kennslustjóra og formanni kennsluráðs, með bréfi, dagsettu 21. júní sama ár. Þar er lagt til að stofnuð verði ný fræðigrein við deildina í bráðalækningum og að störf prófessors og dósents í slysalækningum, sem byggð hefðu verið á grunni bæklunarlæknisfræði, verði lögð niður frá og með 1. júlí 2001. Fram hefur komið að dagsetningin 1. júlí hafi verið miðuð við upphaf háskólaársins. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þá um vorið hafi verið fjallað um tillögur á deildarfundum, sem fram höfðu komið í deildarráði og kennsluráði, um að prófessorsstaðan í slysalækningum yrði lögð niður og ekki kemur fram að upplýsingar um að staðan hefði verið lögð niður hafi komið fram á deildarfundi fyrr en 29. ágúst sama ár.
Af hálfu stefnda Háskóla Íslands er vísað til reglna um framsal valds, sem samþykktar voru á deildarfundi í læknadeild 13. desember 2000, en þar segir meðal annars að deildarfundur feli deildarráði að fara með vald til að setja fram tillögur um nýjar kennslugreinar og ný kennarastörf. Dómurinn telur ekki unnt að fallast á að með þessu hafi deildarráði verið framselt vald til að ákveða að prófessorsstöður yrðu lagðar niður. Hefur því valdið til að taka ákvörðun um að prófessorsstaðan í slysalækningum, sem stefnandi gegndi, ekki verið framselt deildarráði með nægilega skýrum hætti enda hefur það ekki verið bókað eins og skylt er samkvæmt 4. mgr. 21. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000.
Af því sem hér að framan hefur verið rakið er ljóst að hvorki var tekin ákvörðun á deildarfundi um að leggja niður prófessorsstöðuna í slysalækningum sem stefnandi gegndi né hafði deildarfundur framselt deildarráði með nægilega skýrum hætti vald til að taka slíka ákvörðun. Verður að telja að með þessu hafi ekki verið staðið rétt að ákvörðun um að leggja stöðuna niður og hafi ákvörðunin að því leyti verið óréttmæt. Breytir engu í því sambandi þótt stefnanda hafi verið sendar fundargerðir deildarráðs og hann hafi ekki hreyft athugasemdum vegna þess sem þar kemur fram varðandi prófessorsstöðu hans í deildinni. Þykir stefnandi eiga rétt á bótum úr hendi stefnda Háskóla Íslands vegna þessa samkvæmt 2. mgr. 32. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996. Stefndi Háskóli Íslands hefur í málsvörn sinni gert ítarlega grein fyrir ástæðum þess að prófessorsstaðan var lögð niður. Það hafi komið til af breytingum á kennslu á fræðasviði slysalækninga vegna þróunar og hugmynda um bráðalæknisfræði. Af gögnum málsins má augljóslega ráða að breytingin á skipulagi og kennslufyrirkomulagi læknadeildar átti sér langan aðdraganda og hafði það að meginmarkmiði að laga starfsemi deildarinnar að nútímaþörfum um umönnun og meðhöndlun bráðveikra sjúklinga en var ekki beint að stefnanda á nokkurn hátt að því er best verður séð. Því er hafnað þeirri staðhæfingu stefnanda, að niðurlagning stöðu hans hafi haft þann tilgang einan að koma honum úr starfi. Af þessu leiðir einnig að reglur stjórnsýslulaga, sem stefnandi vísar til, eiga ekki við um þá ákvörðun að leggja prófessorsstöðuna niður og er því hafnað að þær hafi verið brotnar við meðferð málsins.
Við ákvörðun bóta ber að líta til þess að stefnandi virðist ekki eiga möguleika á sambærileg starfi en fram hefur komið að hann starfar nú tímabundið við afleysingar í sérgrein sinni í Svíþjóð og fær laun þar. Einnig er litið til þess að stefnanda hafa verið greidd biðlaun til 1. júlí 2002. Þá ber og að líta til þess að af því sem fram hefur komið þykir ljóst að þeir sem stóðu að undirbúningi og ákvörðun um að leggja prófessorsstöðuna niður, en meðal þeirra var deildarforseti læknadeildar, töldu að þeir hefðu til þess fullnægjandi heimildir og deildarfundur, sem haldinn var 24. október 2001, lýsti yfir stuðningi við ákvarðanir deildarstjórnar og rektors sem vörðuðu breytingar og framkvæmdir við endurskiplagningu á náminu að þessu leyti. Með vísan til þessara síðastgreindu atriða verður einnig að telja að skilyrði skorti til að dæma stefnda Háskóla Íslands til að greiða stefnanda miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga vegna þess að ólögmæt meingerð hafi falist í því að leggja stöðuna niður og verður sú krafa því ekki tekin til greina.
Miskabótakrafa stefnanda á hendur stefnda Háskóla Íslands er jafnframt reist á því að ólögmætt hafi verið að veita honum lausn frá prófessorsstarfinu um stundarsakir en stefnanda var veitt lausn frá 21. desember 1999 fyrir meintar misfellur í starfi samkvæmt ákvörðun rektors með heimild í 2. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Eins og málið liggur fyrir verður að telja sannað að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt eins og skylt er samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar áður en honum var veitt lausn. Áminning sem stefnanda var veitt 30. apríl 1999 uppfyllti ekki formskilyrði til áminningar að áliti nefndar samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga en því hefur ekki verið andmælt af hálfu stefnda Háskóla Íslands. Hefur öðru sem fram kemur í álitsgerðinni um brot á málsmeðferðarreglum er stefnanda var veitt umrædd lausn ekki verið hnekkt af stefnda og ber að leggja það til grundvallar við úrlausn á því hvort stefnandi eigi rétt á miskabótum vegna hinnar ólögmætu lausnar um stundarsakir. Með því að gæta ekki réttra málsmeðferðarreglna þegar stefnanda var vikið úr starfi um stundarsakir vegna meintrar vanrækslu í starfi hefur stefnanda verið sýnd óvirðing sem prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Þykir því rétt að fallast á að í málsmeðferðinni hafi falist ólögmæt meingerð í hans garð og að hann eigi af þeim sökum rétt til miskabóta úr hendi stefnda Háskóla Íslands samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Verða bætur vegna missis prófessorsstöðunnar og miskabætur dæmdar í einu lagi og þykja þær hæfilega ákveðnar 7.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum er greiðast þegar liðinn var mánuður frá þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að dæma stefnda Háskóla Íslands til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Með vísan til 3. mgr. sömu lagagreinar þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss falli niður.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Sigríður Ingvarsdóttir sem dómsformaður og Skúli J. Pálmason ásamt Sturlu Stefánssyni yfirlækni.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Landspítali, háskólasjúkrahús, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Gunnars Þórs Jónssonar, í máli þessu.
Stefndi, Háskóli Íslands, greiði stefnanda 7.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. mars 2002 til greiðsludags og 900.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður vegna málssóknarinnar á hendur stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi fellur niður.