Hæstiréttur íslands

Mál nr. 490/2017

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Fillipe Raphael Szymoszche (Unnar Steinn Bjarndal hrl.)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Ómerkingarkröfu hafnað

Reifun

F var sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa staðið að innflutningi á 1.950 ml af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um umtalsvert magn fíkniefna var að ræða. Hins vegar væri óljóst hvort F hefði eingöngu flutt efnin til landsins eða hvort hlutverk hans hefði verið annað og meira. Í þeim efnum yrði F að njóta vafans. Var refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem fíkniefnin voru gerð upptæk.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.

Ákærði krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeirri forsendu, að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem niðurstaða málsins ráðist af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Framangreint ákvæði réttarfarslaga felur í sér heimild en ekki skyldu til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi með sér og ræðst nauðsyn þess af aðstæðum hverju sinni. Ljóst er að sakfelling héraðsdóms í máli þessu ræðst ekki eingöngu af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi enda var ákærði handtekinn við komuna til landsins með í fórum sínum fíkniefnin, sem liggja til grundvallar ákæru. Verður því ekki fallist á aðalkröfu ákærða.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi er óljóst hvort ákærði hafi eingöngu flutt fíkniefnin til landsins eða hvort hlutverk hans hafi verið annað og meira. Í þeim efnum verður hann að njóta vafans. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Fellipe Raphael Szymoszche, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 637.962 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. júlí 2017

                Mál þetta, sem dómtekið var 12. júlí 2017, er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 12. júní 2017 á hendur Fillipe Raphael Szymoszche, fæddum 13. nóvember 1990, brasilískum ríkisborgara, „fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 22. mars 2017, staðið að innflutningi á samtals 1.950 ml af kókaíni sem hafði 69% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði til Íslands, sem farþegi með flugi FI-[...] frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar og fundu tollverðir þau í fjórum brúsum undir snyrtivörur í farangri ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar.“

Þetta er talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess er krafist að framangreind fíkniefni, 1950 ml af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um málsvarnarlaun.

I.

                Miðvikudaginn 22. mars 2017 höfðu tollverðir afskipti af ákærða er hann kom til landsins með flugi FI-[...] frá Amsterdam. Í skýrslu tollstjóra kemur fram að ákærði hafi verið beðinn að setja farangur sinn í gegnumlýsingarvél, eina stóra svarta ferðatösku og svartan bakpoka. Farangurinn hafi svo verið skoðaður í leitaraðstöðu tollstjóra. Ákærði hafi greint frá því að hann væri kominn hingað til lands sem ferðamaður en hann hefði aldrei séð snjó og ætlaði að reyna að fara á snjóbretti. Einnig hafi hann ætlað í Bláa lónið. Hann hafi ætlað að dvelja hér á landi í tíu daga. Ákærði hefði sýnt tollvörðum bókun á Base hótel í Reykjanesbæ í þrjár nætur en hann hafi ekki verið viss hvar hann ætlaði að gista eftir það. Þá greindi ákærði frá því að faðir hans hefði bókað farmiðann fyrir hann fyrir tíu dögum. Ákærði var með 1.780 evrur og 500 brasilískar reais. Við nánari skoðun á farangri ákærða hafi fundist fjórir brúsar. Einn hafi verið merktur sem munnskol og innihald þess líkst kremi. Svipað innihald hafi verið í hinum brúsunum. Tekið hafi verið efnagreiningarpróf af innihaldi brúsanna sem hafi gefið jákvæða svörun á kókaín. Einnig var tekið stroksýni af höndum ákærða sem hafi gefið jákvæða svörun á kókaín. Aðspurður um brúsana hafi ákærði sagt að þetta væri sjampó, sápa og munnskol, en þegar hann hafi verið spurður nánar út í innihald brúsanna hafi hann ekkert kannast við þá og sagt að hann vissi ekki hver hefði sett þá í farangur sinn. Ákærði var færður í röntgenskoðun vegna gruns um að hann væri með fíkniefni innvortis.

                Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 24. apríl 2017, var um að ræða kókaín í umræddum brúsum. Styrkur kókaíns í þremur sýnum reyndist vera 69% sem samsvarar 77% af kókaínklóríði en í einu sýni var styrkurinn 71% sem samsvarar 80% af kókaínklóríði. Í matsgerð, dags. 2. maí 2017, segir að neyslustyrkur kókaíns hér á landi hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega. Neyslustyrkleiki kókaíns í Danmörku hafi verið að miðgildi 37% árið 2015, en mikill breytileiki hafi verið í neyslustyrkleika frá aldamótum, allt frá 16% árið 2007 upp í 48% árið 2001. Miðað við 37% neyslustyrkleika væri hægt að búa til úr efninu sem fannst í farangri ákærða 4,5 kg af efni sem væri 37% að styrk.

                Fyrir liggur skýrsla tollstjóra, dags. 27. mars 2017, vegna skoðunar í myndavélakerfi. Þar kemur fram að þegar ferðataska ákærða hafi verið sett upp á leitarborð tollstjóra hafi ákærði farið beint í hægri vasa sinn og tekið upp lyklakippu til að opna ferðatöskuna. Einnig hafi taskan verði læst með kóða og hann hafi opnað hann og sagt tollvörðum númerið. Svört úlpa hafi verið efst í töskunni. Undir henni hafi verið brún svunta (hluti af töskunni) sem skilur að efri og neðri hluta töskunnar. Þegar henni hafi verið smellt frá hafi legið handklæði yfir farangrinum. Í töskunni hafi verið fatnaður, handklæði, svört úlpa, plastvasi með tveimur brúsum og svört snyrtitaska með tveimur brúsum. Plastvasinn og snyrtitaskan hafi verið fyrir miðju í ferðatöskunni. Snyrtitaskan hafi innihaldið 500 ml Colgate munnskolsbrúsa og 250 ml Nivea sápubrúsa með pumpuloki. Glæri plastvasinn hafi innihaldið 750 Tresemmé sjampóbrúsa og 400 ml Neutrogena krembrúsa. Þá kemur fram í skýrslu tollstjóra að við leit í farangri ákærða hafi ákærði verið mikið að laga sig til og litið út fyrir að honum væri farið að hitna þar sem hann hafi mikið verið að lyfta upp og hreyfa peysu sína. Hann hafi verið rólegur þegar brúsarnir hafi verið skoðaðir fyrir framan hann og spurður út í þá hafi hann svarað að þetta væri fyrir sápur og fyrir tennurnar. Hann hafi sýnt með látbragði eins og hann væri að bursta tennurnar þegar hann hafi verið spurður út í munnskolið. Þegar brúsarnir voru teknir burtu hafi engin óeðlileg viðbrögð komið frá ákærða en þegar hann hafi svo verið spurður frekar út í innihald þeirra, þegar komið hafi í ljós að um kókaín væri að ræða, hafi hann sagt að hann vissi ekkert hvað þetta væri og hefði hann verið orðinn órólegri en hann hafi verið í fyrstu. Hann hafi þverneitað að vita hvað þetta væri. 

Lögregla rannsakaði farsímanotkun ákærða en engin samskipti reyndust vera milli ákærða og annarra símanúmera hér á landi. Ákærði kvaðst heimila lögreglu að rannsaka gögn á netfangi sínu en aðgangsorð sem hann gaf lögreglu reyndist ekki rétt og því var ekki unnt að opna netfangið og rannsaka gögn þar. Einnig var rannsakað SD-minniskort úr ljósmyndavél sem ákærði var með í vörslum sínum en ekkert kom fram sem nýttist við rannsókn málsins. Það vakti hins vegar athygli rannsakanda að ljósmyndirnar á kortinu bentu til þess að ákærði hefði litla sem enga menntun eða reynslu á sviði ljósmyndunar en samkvæmt framburði hans væri hann atvinnuljósmyndari.

Þá rannsakaði lögregla ferðir ákærða. Ákærði átti bókaða ferð til Íslands 21. mars 2017. Ákærði átti flug til baka 1. apríl 2017. Greitt var fyrir ferðina með greiðslukorti en greiðandi var A. Ferðin var bókuð með flugfélaginu KLM frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Amsterdam í Hollandi, en ákærði millilenti þar og kom svo með flugi [...] hingað til lands hinn 22. mars.

                Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 23. mars 2017. Um hagi sína sagði ákærði að hann væri einbirni. Hann ætti sjö ára gamla dóttur og að hann byggi með barnsmóður sinni og dóttur. Ákærði skýrði frá því að þegar hann var í Rio de Janeiro hafi hann látið frá sér töskurnar. Það hafi ekki mátt setja neinar flöskur í töskurnar þar sem hann hafi verið að ferðast á milli landa. Þegar hann kom til Amsterdam hafi hann ekki náð í töskuna þar sem hann hafi verið í beinu tengiflugi. Hann hafi bara náð í töskuna þegar hann kom til Íslands. Við komuna til landsins hafi verið farið í gegnum töskuna hans og svo hafi komið lögreglumaður og sagt að hann væri handtekinn vegna kókaíns sem væri í tösku hans. Ákærði hefði sagt að hann væri ekki eigandi að því sem væri í töskunni og það hljóti að vera að einhver hafi sett eitthvað í töskurnar hjá sér. Þá sagði ákærði að hann hafi ætlað að flytja til Kaliforníu ásamt fjölskyldu sinni eftir tvo mánuði en hann hafi ætlað að koma hingað til lands í smáferðalag og kynna fyrir föður sínum hvernig það væri á Íslandi svo að hann gæti kannski komið hingað seinna í ferðalag með konu sinni. Ákærði kvaðst ekki nota krem eða sjampó. Ákærði hélt því fram að efnin hefðu verið sett í tösku hans í Rio de Janeiro eða Amsterdam. Spurður hvernig ferð hans til Íslands væri tilkomin sagði ákærði að Ísland væri frægt fyrir veitingastaði og  norðurljósin og að hann hafi ætlað að reyna að sjá þau. Einnig hafi hann ætlað að reyna að fara í hvalaskoðun. Þá kvaðst ákærði stunda hjólabretti í Brasilíu og langa til að prófa að fara á snjóbretti. Hann hafi bara ætlað að vera hérna í nokkra daga til að kynnast landinu og hefðum þess, kíkja á víkingaslóðir og svona. Hann kvaðst vera ljósmyndari og verktaki. Hann gerði fjölskyldualbúm, tæki myndir á bifhjólamótum o.fl. Hann hefði komið með myndavélar með sér, linsur og filter o.fl. Um ástæðu þess að ákærði ferðaðist einn til landsins sagði ákærði að hann ferðaðist alltaf einn og segði svo frá hvernig hlutirnir væru og þá kannski ákvæðu aðrir að fara. Ákærða var kynnt skýrsla tollstjóra þar sem fram kemur að ákærði hafi tjáð tollvörðum að brúsarnir innihéldu sjampó, sápur og munnskol og kvaðst ákærði vera búinn að segja að hann ætti ekki neitt í þessu. Hann hefði strax sagt tollverði að þetta væru ekki hans hlutir, en hann hefði sagt tollverðinum hvað þetta væri samkvæmt því sem stóð á umbúðunum. Hann hafi í raun verið að lesa framan á brúsana. Hann hafi ekki verið að segja að hann ætti þetta. Hann hafi ekki talið sig vera að svara því hvort hann ætti þetta eða ekki. Fram að þessari stundu hafi hann ekki vitað hvert innihaldið var. Nánar aðspurður um það hver hafi átt að setja brúsana í ferðatösku hans sagði ákærði að það gæti hafa verið gert á flugvellinum í Rio de Janeiro eða á hótelinu sem hann dvaldi á fyrir flugið. Hann kvaðst hafa skilið töskuna eftir í ákveðnu herbergi á hótelinu þar sem hann hafi ekki verið að fara að nota neitt úr töskunni. Þegar hann hafi farið af hótelinu þá hafi hann tekið töskuna úr geymslunni og farið með hana á flugvöllinn.

                Ákærði var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 31. mars 2017. Þá kvaðst hann vilja segja söguna frá byrjun. Fyrir 30 dögum síðan hafi val hans verið á milli þess að fara til Íslands eða Finnlands. Hann hafi valið að fara til Íslands þar sem hann hafi viljað skoða norðurljósin, fara á snjóbretti, í hvalaskoðun o.fl. Vinir hans, B og C, hafi vitað af ferð hans viku áður og beðið hann um minjagripi. Daginn fyrir ferðalagið hafi B boðið honum til grillveislu. Þjóðverji, sem héti hugsanlega „D“, hafi sótt ákærða fyrir grillveisluna og eiginkona D verið með í för. Þau hafi komið við á kjötmarkaði áður en þau fóru heim til B. Ákærða gruni að D hafi komið fíkniefnunum fyrir í farangi sínum. Ákærði kvaðst hafa farið með ferðatösku sína heim til B en þar hafi verið önnur ferðataska fyrir sem hann hafi átt og föt hans verið í. Ákærði hefði pakkað farangri sínum heima hjá B og m.a. tekið föt úr hinni töskunni og sett síðan stórt handklæði yfir farangurinn. Ákærði kvaðst vera heima hjá B nánast daglega. Ákærði hafi svo skilið töskuna eftir ólæsta á rúmi inni í svefnherbergi og farið fram í eldhús og stofu til að borða og drekka bjór. Ákærði sagði að hann gruni að Þjóðverjinn hafi þá komið fíkniefnunum fyrir í tösku sinni. Ákærði hafi farið að sofa um klukkan 22:30, hinn 20. mars, en móðir B hafi vakið hann daginn eftir. B hafi þá verið tilbúinn úti í bíl með ferðatöskuna og ekið ákærða út á flugvöllinn í Curitiba. Þaðan hafi ákærði flogið til Rio de Janeiro. Ákærði kvaðst hafa farið þar á hótel og farið inn á almenningssalerni. Þar hafi hann opnað ferðatöskuna og tekið stuttbuxur úr henni sem hann hafi klætt sig í. Hann hafi ekki tekið eftir neinu óeðlilegu í töskunni. Hann hafi skilið töskuna eftir hjá starfsmanni í móttöku hótelsins og farið út af hótelinu og verið fjarverandi í um þrjár klukkustundir. Þegar hann kom aftur á hótelið hafi hann lagt sig í um tvo klukkutíma. Svo hafi hann farið í sturtu og farið í buxurnar sem hann var í áður og lagt stuttbuxurnar ofan á handklæðið í ferðatöskunni og því ekki séð neitt óeðlilegt við farangurinn. Hann hafi læst töskunni með lykli og farið með leigubíl á flugvöllinn. Hann hafi ekki átt neitt við töskuna eftir þetta, fyrr en hann var stöðvaður á flugvellinum í Keflavík. Ákærði kvaðst fyrst hafa læst ferðatöskunni í bílnum hjá B, en hann hafi ráðlagt honum að gera það. Þá sagði ákærði að hann hefði heyrt að Þjóðverjinn stundaði sölu og dreifingu fíkniefna í Brasilíu. Jafnframt sagði ákærði að hann hefði greint tollvörðum frá því að hann ætti ekki brúsana, áður en honum var tilkynnt að um kókaín væri að ræða. Hann hafi gert það þegar brúsarnir voru settir við hlið töskunnar. Hann ætti hvorki snyrtitöskuna né plastpokann sem brúsarnir voru í. Hann sagði að hann hefði ekki komið með neinar snyrtivörur með sér þar sem ekki mætti taka meðferðis vökva yfir 200 ml. Ákærða var þá bent á að ferðataska hans hafi verið innrituð og kvaðst ákærði þá ekki nota sjampó og tannkremið hafi verið í óþarflega stórum brúsa. Hann hefði ekkert með svona stóran brúsa að gera. Hann hafi því ekki þurft á snyrtivörum að halda. Einnig sagði ákærði að hann starfaði sem sjálfstæður ljósmyndari og væri með ljósmyndaramenntun frá Europe Center. Hann hafi viljað koma til Íslands til að ljósmynda og taka upp myndbönd. Hann hafi viljað sjá snjó og viljað koma hingað til þess. Ákærði kvaðst hafa komið til London, Zurich, Munchen, Barcelona, Amsterdam o.fl. staða.  Hann hafi ætlað að dvelja hér á landi í tíu daga. Hann hefði bókað tvær nætur á hóteli og ætlað að bóka frekari gistingu eftir komuna hingað. Hann hefði skoðað upplýsingar um Ísland í farsíma sínum fyrir komuna til Íslands. Ákærða var bent á að við rannsókn lögreglu á farsíma hans hafi ekkert komið fram um að hann hefði skoðað upplýsingar um Ísland í farsíma sínum. Ákærði kvaðst þá endursetja farsíma sinn reglulega þar sem minni í símanum væri lítið. Ákærða var þá bent á að Internet-saga í síma hans næði eitthvað aftur í tímann en það eina sem hann hefði skoðað varðaði gistingu hans á Base hostel í tvær nætur eftir komuna til landsins. Þá benti farangur hans ekki til þess að hann hygðist fara í skoðunarferðir og hann hefði ekki haft hlý föt meðferðis. Ákærði kvaðst þá ætla að leigja þetta allt, snjóbretti og viðeigandi fatnað. Ákærði kvaðst viðurkenna að e.t.v. hefði hann ekki gert réttar ráðstafanir varðandi farangur enda í fyrsta sinn að ferðast til lands sem væri svona kalt. Hann benti á að hann væri með úlpu en þyrfti að kaupa betri skó. Einnig var ákærða bent á að ljósmyndir í myndavél hans bentu ekki til þess að hann væri atvinnuljósmyndari og viðurkenndi ákærði þá að hann væri ekki atvinnuljósmyndari, en hann væri áhugaljósmyndari. Jafnframt var ákærða bent á að stuttbuxur hans hefðu ekki legið ofan á handklæði í ferðatösku hans, eins og hann hélt fram, heldur undir handklæðinu. Ákærði þvertók fyrir það og fullyrti að hann hefði sett stuttbuxurnar ofan á handklæðið í töskunni þegar hann hafi verið búinn að nota þær í Rio de Janeiro. Þá greindi ákærði frá því að faðir hans hefði bókað flugfarið.

                Aftur var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglu 7. apríl 2017 og sagði ákærði sömu sögu og áður, um að hann hafi farið í grillveislu hjá B og að Þjóðverjinn hefði sótt hann og hann hefði gist hjá B. Hann hafi skilið tösku sína eftir lokaða en ólæsta á rúmi B. Hann hefði ekki pakkað neinum snyrtivörum því að hann hafi ætlað að kaupa þær hér á landi. Ákærða var sýnt myndband af tollskoðuninni á ferðatösku hans og að þar komi í ljós að engar stuttbuxur hafi verið ofan á handklæðinu, eins og ákærði hélt fram. Ákærði sagði þá að hann hefði ekki átt við að stuttbuxurnar hefðu verið ofan á handklæðinu heldur ofarlega í töskunni. Hann hafi ekki þurft að taka handklæðið frá heldur hafi hann rennt stuttbuxunum undir handklæðið án þess að taka það upp. Þetta hefði eitthvað skolast til hjá honum og bæðist hann afsökunar á því. Þá var ákærða bent á að á myndbandinu megi sjá snyrtitöskuna og plastpokann með brúsum sem fíkniefni voru í við hliðina á stuttbuxunum. Ákærði sagði að hann hefði aldrei tekið handklæðið upp. Hann hafi ekki þurft að opna rennilás töskunnar allan hringinn til að koma stuttbuxunum fyrir. Hefði hann séð þetta hefði hann alveg örugglega fjarlægt þetta. Hann hafi aldrei tekið með sér sjampó eða neitt svoleiðis í ferðalög milli landa, hvað þá í svona miklum mæli. Beðinn um að útskýra ástæðu þess að sýni af höndum ákærða gaf jákvæða svörun á kókaín sagði ákærði að þetta hljóti að hafa komið á hendurnar á honum heima hjá B eða í bílnum hjá Þjóðverjanum. Hann hafi séð kannabis þar en ekki kókaín. 

II.

                Í greinargerð sem ákærði lagði fram í málinu er byggt á því að brot hans hafi hvorki verið unnið af ásetningi né gáleysi. Þá byggir ákærði á því að útilokað sé að byggja sakfellingu á gögnum sem aflað hafi verið áður en ákærði hafi fengið aðstoð túlks, áður en honum var kynnt réttarstaða sín og áður en hann hafi fengið að ráðfæra sig við verjanda. Þannig geti sakfelling ekki byggst á því að ákærði hafi svarað spurningum tollvarða um innihald tannkremsbrúsa eða því að hátterni ákærða hafi verið óvenjulegt.

                Ákærði heldur því fram að framburður hans sé í öllum meginatriðum skýr og að frásögn hans hafi verið sú sama í öllum meginatriðum við rannsókn málsins. Engin gögn hafi komið fram við rannsókn málsins sem stangist á við framburð ákærða. Gögn málsins styðji framburð ákærða.

Enn fremur byggir ákærði á því að í málinu liggi ekki fyrir nein bein sönnunargögn sem tengi ákærða við innflutning fíkniefnanna, annað en fíkniefnin sjálf sem ákærði kannist ekkert við. Einnig heldur ákærði því fram að finna megi mörg dæmi um það í gögnum málsins að hallað hafi á ákærða við mat á sönnunarögnum eða upplýsingum frá ákærða.

III.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði sagði að tilgangur ferðar hans hingað til lands hafi verið að fara á snjóbretti. Valið hafi staðið á milli Íslands eða Finnlands. Hann hafi ætlað að taka myndir af norðurljósunum og hvölum. Einnig hafi hann ætlað að fara í Bláa lónið. Einnig greindi ákærði frá því að hann hefði bókað farmiða viku fyrir ferðina. Spurður hvernig hann hefði undirbúið sig fyrir ferðina sagði ákærði að hann hefði tekið með sér góða úlpu og hann hafi ætlað að leigja föt til að fara á snjóbretti. Einnig sagði ákærði að hann hefði verið með myndavél og linsu til að taka myndir af norðurljósunum og aðra til að taka myndir af hvölum. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að athuga með skoðunarferðir. Þá sagði ákærði að hann hafi ætlað að fara til Kaliforníu í fimm ára nám eftir Íslandsferðina og að faðir hans hafi hjálpað honum fjárhagslega með ferðina hingað til lands. Ákærði kvaðst hafa pakkað í ferðatöskuna heima hjá vini sínum, B, en hann hafi gist hjá honum nóttina fyrir flugið til Rio de Janeiro. Ákærði kvaðst hafa verið með tvær töskur. Hann hafi pakkað í aðra töskuna og skilið hina eftir hjá B. Þá sagði ákærði að hann hefði læst töskunni á leiðinni út á flugvöll. Hann hefði opnað töskuna á baðherbergi á hóteli í Rio de Janeiro. Ákærði kvaðst hafa náð í stuttbuxur sem hafi verið efst í töskunni, en hann hefði ekki séð hvað var í töskunni. Hann hefði dregið stuttbuxurnar undan handklæðinu í töskunni. Hann hefði svo farið með töskuna læsta niður í móttöku hótelsins. Ákærði neitaði því að eiga fíkniefnin sem fundust í tösku hans og kvaðst ekki vita til þess að einhver hafi sett efnin í töskuna. Kenning hans væri sú að einhver hefði sett efnin í tösku hans þegar hann hafi verið í grillveislu hjá B og það hafi verið vinur B sem hafi gert það, en hann væri kallaður Þjóðverjinn. Ákærði kvaðst hafa heyrt að Þjóðverjinn tengist fíkniefnum. Þjóðverjinn hafi verið að koma ákærða í vandræði því hann væri öfundsjúkur yfir því að ákærði væri að fara til Kaliforníu en Þjóðverjinn gæti það ekki. Þá sagði ákærði að hann hefði skýrt tollvörðum frá því að hann ætti ekki brúsana sem voru í tösku hans. Hann hefði verið spurður hvað þetta væri, tannkremsbrúsinn, og hann hafi sagt hvað þetta væri en ekki að hann ætti þetta. Um ástæðu þess að kókaín var á höndum ákærða sagði ákærði að hann hefði fengið það á hendur sínar heima hjá B, en sími ákærða hafi gengið manna á milli, eða í bílnum hjá B. B neyti kókaíns en ákærði kvaðst ekki gera það.

                Vitnið E, varðstjóri hjá tollstjóranum á Keflavíkurflugvelli, skýrði frá því að ákærði hefði verið tekinn til skoðunar við venjubundið eftirlit. Vitnið kvaðst hafa rætt við ákærða á ensku. Ákærði hefði greint frá því að hann hafi komið til landsins til að sjá snjó og að hann hafi ætlað að fara á snjóbretti. Þá sagði vitnið að ákærði hefði ekki sagt að hann ætti ekki snyrtitöskuna og brúsana fyrr en í ljós kom að í þeim var kókaín. Ákærði hefði verið spurður hvað væri í brúsunum og hann hafi sagt sápa og tannkrem. Einnig kom fram hjá vitninu að strok var tekið af lófum ákærða sem gaf jákvæða svörun við kókaín.

                Vitnið F, aðalvarðstjóri hjá tollstjóranum á Keflavíkurflugvelli, kvaðst hafa framkvæmt líkamsleit á ákærða. Þá sagði vitnið að það hefði ekki verið vandamál að skilja ákærða og hann hafi skilið tollverði.

                Vitnið G, lyfjafræðingur hjá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti fyrirliggjandi matsgerðir í málinu, dags. 24.apríl og 2. maí 2017. Fram kom hjá vitninu að styrkleiki umræddra efna væri mikill og að um hættulegt efni væri að ræða. 

                Vitnið H rannsóknarlögreglumaður, sem stýrði rannsókn málsins, kom fyrir dóm en ekki er ástæða til að rekja hér framburð vitnisins.

IV.

Ákærði neitar sök. Framburður ákærða hefur tekið breytingum. Ákærði sagði í fyrstu hjá lögreglu, við yfirheyrslu 23. mars 2017, að hann hefði komið hingað til lands sem ferðamaður og að hann væri ljósmyndari. Ákærði kvaðst ætla að fara á snjóbretti, í Bláa lónið og skoða norðurljósin og hvali. Ákærði neitaði því að hafa vitað af fíkniefnum sem fundust í ferðatösku hans. Nánar tiltekið voru efnin í brúsum fyrir munnskol, sápu, krem og tannkrem, en brúsarnir voru í svartri snyrtitösku og plastvasa, sem ákærði kvaðst ekki eiga og ekki hafa vitað af. Hélt ákærði því fram að einhver hefði sett efnin í ferðatösku hans á hóteli þar sem hann dvaldi í Rio de Janeiro eða á flugvellinum þar. Við yfirheyrslu 31. mars 2017 breytti ákærði framburði sínum og hélt því fram að maður sem væri kallaður „Þjóðverjinn“ hefði sett efnin í tösku hans á heimili vinar hans, B, kvöldið áður en ákærði hélt til Rio de Janeiro. Einnig kom fram hjá ákærða að hann hefði farið í sturtu á hótelinu í Rio de Janeiro en hann kvaðst ekki hafa tekið eftir snyrtitöskunni og plastvasanum með brúsunum. Ákærði hélt því fram sem fyrr að hann hefði komið til landsins sem ferðamaður og kvaðst hafa skoðað upplýsingar um Ísland í farsíma sínum. Ákærði viðurkenndi svo að hann væri ekki atvinnuljósmyndari eins og hann hafði áður haldið fram. Fyrir dómi sagði ákærði að tilgangur ferðar hans hingað til lands hafi verið að fara á snjóbretti. Einnig hafi hann ætlað að taka myndir af norðurljósunum og hvölum og fara í Bláa lónið. Hann hefði bókað ferðina hingað til lands viku fyrir ferðina. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að athuga með skoðunarferðir hér á landi. Einnig kom fram hjá ákærða að hann hefði opnað töskuna á hótelinu í Rio de Janeiro og skipt um föt. Þá setti ákærði fram þá kenningu að „Þjóðverjinn“ hefði sett efnin í tösku ákærða til að koma honum í vandræði, þ.e. vegna þess að „Þjóðverjinn“ hafi verið öfundsjúkur út í ákærða vegna þess að hann væri að fara í nám í Kaliforníu.

Fyrir liggur að ákærði kom hingað til lands með skömmum fyrirvara og var um að ræða langt og dýrt ferðalag. Það verður ekki ráðið af farangri ákærða að hann hafi komið hingað til lands til að fara á snjóbretti eins og hann heldur fram. Þá leiddi rannsókn lögreglu á farsíma ákærða í ljós að hann hafði ekki skoðað upplýsingar um skoðunarferðir á Íslandi, en hann hefur haldið því fram að hann hafi gert það. Ákærði hélt því fram í fyrstu að hann væri atvinnuljósmyndari en viðurkenndi svo að það væri ekki rétt. Er framburður ákærða um að hann hafi komið hingað til lands sem ferðamaður ótrúverðugur. Þá hefur framburður ákærða tekið breytingum um það hvar og hvernig fíkniefnunum hefur verið komið fyrir í ferðatösku hans. Um er að ræða mikið magn fíkniefna og mikil verðmæti og er áleitin sú spurning hvernig sá sem setti efnin í töskuna hefur átt að nálgast efnin hjá ákærða, hafi ákærði ekki vitað af þeim. Sú skýring ákærða að „Þjóðverjinn“ kunni að hafa sett efnin í tösku hans til að koma honum í vandræði er afar langsótt. Fyrir liggur upptaka úr eftirlitsmyndavél sem sýnir afskipti tollvarða af ákærða. Af upptökunni og vitnisburði E, varðstjóra hjá tollstjóranum á Keflavíkurflugvelli, er ljóst að það var ekki fyrr en í ljós kom að brúsarnir innihéldu fíkniefni að ákærði neitaði því að eiga snyrtitöskuna og plastvasann með brúsunum. Við tollskoðun blasti snyrtitaskan og plastvasinn við ákærða en hann lét á engan hátt í ljós að hann ætti þetta ekki. Af þessu verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi vitað af snyrtitöskunni og plastvasanum með brúsunum sem innihéldu fíkniefnin. Þá verður séð af upptökunni, og hvernig raðað var í töskuna, að snyrtitaskan og plastvasinn með brúsunum hefur ekki getað dulist ákærða þegar hann opnaði ferðatöskuna í Rio de Janeiro og skipti um föt. Einnig verður að líta til þess að efnisleifar af kókaíni fundust á höndum ákærða og virðist ákærði því hafa sjálfur komist í snertingu við efnið og þannig vitað af því. Engir annmarkar voru á rannsókn málsins.

Með vísan til alls framangreinds verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákæru og er brot hans þar réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

V.

      Ákærði er fæddur í nóvember 1990. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að um mikið magn hættulegra fíkniefna var að ræða. Óljóst er hvort ákærði var svokallað burðardýr eða hvort hann hafi verið annað og meira. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, en til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 23. mars 2017.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber ákærða að greiða sakarkostnað málsins, alls 2.937.626 krónur. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða útlagðan kostnað vegna rannsóknar á ákærða á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og matsgerða frá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, samtals 391.796 krónur. Þóknun verjanda er ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 2.345.150 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, og aksturskostnaður 200.680 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Filipe Raphael Szymoszche, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu ákærða komi gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 23. mars 2017.

                Ákærði sæti upptöku á 1.950 ml af kókaíni.

                Ákærði greiði 2.937.626 krónur í sakarkostnað, þar með er talin 2.345.150 króna þóknun verjanda hans, Unnars Steins Bjarndal hæstaréttarlögmanns, og 200.680 króna aksturskostnaður hans.