Hæstiréttur íslands

Mál nr. 167/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
Eyjólfi Ingólfssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl., Halldór Reynir Halldórsson hdl. 3. prófmál),
(Þórdís Bjarnadóttir réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Nauðgun
  • Miskabætur

Reifun

E var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við A, er hún var 17 ára, sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var refsing E ákveðin fangelsi í tvö ár auk þess sem honum var gert að greiða A 1.000.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um að hafa aðfaranótt laugardagsins 19. apríl 2014 haft samræði eða önnur kynferðismök við brotaþola, sem þá var 17 ára, með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Var sú niðurstaða reist á rökstuddu mati á framburði ákærða og vitna og er ekkert fram komið í málinu sem styður að þetta mat héraðsdóms sé rangt svo einhverju skipti við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því hafnað ómerkingarkröfu ákærða sem reist er á þessum grunni.  

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði lýst því að hann hafi ætlað að hafa samræði við brotaþola, en af því hafi ekki orðið þar sem sér hafi ekki risið hold. Er sú frásögn í samræmi við framburð vitnis, sem rakinn er í héraðsdómi, en það vitni kom að ákærða þar sem hann var að nýta sér ölvun og svefndrunga brotaþola til kynferðisathafna. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur, þó þannig að ákærði verður aðeins sakfelldur fyrir að hafa haft önnur kynferðismök við brotaþola en samræði. Er sú háttsemi ákærða í héraðsdómi réttilega færð til 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá verður héraðsdómur staðfestur um önnur atriði með vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Eyjólfur Ingólfsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 840.694 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember 2015, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 23. september 2015, á hendur Eyjólfi Ingólfssyni, kennitala [...], óstaðsettum í hús, „fyrir nauðgun og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 19. apríl 2014, að [...] í [...], haft samræði eða önnur kynferðismök við A, sem þá var 17 ára gömul, gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. apríl 2014 til 19. júlí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa, sem verði bundin skilorði, og að bótakrafan verði lækkuð. Loks er gerð krafa um að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða.

I

Föstudaginn 25. apríl 2014 kom A brotaþoli í viðtal hjá starfsmanni barnaverndarnefndar [...] í kjölfar þess að sálfræðingur hennar hafði tilkynnt það tveimur dögum fyrr að henni hefði verið nauðgað helgina áður. Tilkynnti barnaverndarnefnd lögreglu um atvikið með bréfi 28. apríl 2014. Í bréfinu segir meðal annars að A hafi greint starfsmanni barnaverndar frá því að hún hefði verið heima hjá B frænku sinni að kvöldi 18. apríl þegar strákur, C að nafni, hafi hringt í B og boðið þeim í heimsókn. Hún hefði farið en B ákveðið að fara niður í bæ. C búi að [...] í [...] með D, frænda hennar. Þegar brotaþoli kom á staðinn hafi D frændi hennar verið þar, E bróðir hennar, C og vinur þeirra, ákærði. Hafi þau öll farið að drekka nema E bróðir hennar. Hafi þau verið að fíflast, hlæja og tala saman. Í fyrstu hafi þau öll verið í stofunni og hafi brotaþoli og ákærði farið að spjalla saman. Hafi þau farið úr stofunni og inn í herbergi C og setið þar á rúminu hans og talað saman um ýmis fjölskyldumál. Hafi brotaþoli veikst og farið inn á baðherbergið til að kasta upp. Hafi E bróðir hennar og ákærði komið inn á baðherbergið til hennar og hafi E haldið á henni í rúmið í herbergi C því að hún hafi ekki getað staðið upp. Hafi E náð í fötu, slökkt ljósið í herberginu og lokað hurðinni að herberginu. Þá segir enn fremur í bréfinu að þeir C og E hafi sagt ákærða að láta brotaþola í friði, en hann hafi alltaf verið að koma inn í herbergið og kíkja á brotaþola og spyrja hana að því hvort hún vildi ekki koma fram. Brotaþoli kveðst hafa sofnað, en vaknað við það að einhver hafi haldið utan um hana aftan frá. Þegar hún vaknaði hafi hún þurft að kasta upp. Hún hafi í fyrstu ekki vitað hver hafi haldið utan um hana en komist að því síðar að það var ákærði. Hann hafi farið að strjúka henni um magann, en hún hafi sagt honum að hætta. Hann hafi þá spurt hvort hún væri alveg viss og hafi hún svarað því játandi. Brotaþoli kveðst ekki muna mikið meira því að hún hafi dottið út og það næsta sem hún viti er að ákærði sé ofan á henni og sé að hrista á henni hausinn og nauðga henni.

Haft er eftir brotaþola í bréfinu að hún hafi í fyrstu haldið að þetta væri ekki raunveruleiki heldur martröð. Ákærði hafi ekki sagt neitt og haldið áfram. Hún hafi sagt honum að hætta og segist hafa náð að ýta sér á hliðina en hann hafi þá tosað hana til baka. Hann hafi talað um það að strákurinn sem hún væri hrifin af væri ábyggilega með annarri stelpu á þessu augnabliki. Hún hafi sagt nei við hann og þá hafi hann hætt og kysst hana á kinnina. Stuttu síðar hafi C komið inn og hún hafi sagt honum frá því sem gerst hafði. Hann hafi orðið reiður og hent ákærða út.

Móðir brotaþola gaf skýrslu hjá lögreglu 2. maí 2014 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola. Þann 5. maí 2014 var tekin skýrsla af brotaþola hjá lögreglu. Þar kom fram hjá henni að ákærði hefði farið að reyna við hana í umrætt sinn, en hún hafi gert honum grein fyrir því að hún væri hrifin af öðrum strák og vildi ekki neitt. Allt í einu hafi henni farið að líða mjög undarlega og var eins og hún væri að sofna. Kvaðst brotaþoli hafi staðið upp og farið inn á salerni og kastað upp. Hún hafi þá verið orðin mjög máttlaus og ekki getað hreyft sig. Hafi bróðir hennar komið og opnað dyrnar og ákærði með honum. Sagði brotaþoli að bróðir hennar hefði tekið hana upp og borið inn í herbergið og breitt sæng yfir hana. Einnig að hún hefði heyrt bróður sinn segja við ákærða að fara ekki inn í herbergið og leyfa henni að sofa og hafi ákærði lofað því. Þá skýrði brotaþoli frá því að hún hefði vaknað stuttu síðar við það að einhver opnaði dyrnar að herberginu og spurði hvort hún vildi ekki koma út, en hún hafi svarað því til að hún ætlaði að sofa lengur þangað til hún hresstist meira, en kæmi þá fram. Næst þegar brotaþoli hafi vaknað lá einhver fyrir aftan hana. Hún hafi í fyrstu ekki áttað sig á því að þetta væri ákærði, en hann hafi haldið utan um hana og svo snúið höfðinu á henni, en við það hafi hún kastað upp. Þá hafi ákærði tekið í höfuðið á henni og kysst hana. Hún hafi verið með lokuð augun og kysst til baka. Þá hafi hann kysst hana meira og hún þá opnað augun og áttað sig á því að þetta var ekki sá strákur sem hún var hrifin af.

Brotaþoli sagði ákærða hafa strokið á henni magann, en hún hafi bannað honum það. Hann hafi þá spurt hvort hann mætti samt liggja þarna og hafi hún sagt já við því og sofnað aftur, en vaknað á ný við það að ákærði var kominn ofan á hana, búinn að draga buxurnar hennar niður og var inni í brotaþola. Hún hafi verið illa áttuð en reynt að átta sig á því hvort þetta væri martröð eða ekki. Brotaþoli kvaðst hafa sagt honum að hætta en hann hafi ekki gegnt því og reynt að sannfæra hana um að sofa hjá honum á meðan hann hafi verið að nauðga henni. Hann hafi ekki hætt og hún hafi ekki getað hreyft sig. Svo hafi hann stoppað og þá hafi hún beitt allri sinni orku og ýtt sér á hliðina og sagt nei. Þá hafi ákærði rifið í lærið á henni, tosað hana að sér og gert þetta aftur. Kvaðst brotaþoli hafa sagt honum að þetta væri rangt, en hann hafi ekki hlustað á það og ekki viljað hætta. Þá hafi brotaþoli sagt honum að hún vildi þetta ekki og þá hætti hann. Þá hafi C komið inn í herbergið og sagt að F myndi ekki vilja labba inn á þetta og farið svo út. Ákærði hafi þá beðið hana afsökunar og spurt hvort þau gætu ekki haft þetta á milli þeirra. Hún hafi ekki svarað því. C hafi hent ákærða út úr íbúðinni og komið svo aftur til að athuga um brotaþola.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 8. maí 2014. Hann kvaðst viss um að þetta hefði ekki verið nauðgun. Þau hafi bæði verið ölvuð og hann hafi tekið amfetamín um kvöldið. Hann hafi verið orðinn vel fullur og farið inn í herbergi til brotaþola, lagst upp í rúm og spurt hvort þau ættu að kúra og hafi brotaþoli samþykkt það. Þau hafi legið í einhvern tíma og þá hafi hann byrjað að kyssa hana og hafi hún kysst eitthvað á móti, þannig að hann hafi haldið áfram og farið með höndina niður á kynfærin, snert hana þar og fróað henni í smástund. Þá hafi ákærði tekið brotaþola úr buxunum og verið ennþá að fróa henni og reynt að ná getnaðarlimnum upp en það hafi ekki tekist. Á meðan hann hafi reynt það segi hún að hún sé bara fyrir F og hafi fært fæturna saman. Þá hafi hann farið. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa fróað brotaþola með því að stinga fingri í leggöng hennar. Spurður um áfengisneyslu brotaþola sagði ákærði að hún hefði fengið sér nokkra bjóra og verið orðin vel drukkin, slafrandi full og farin að detta út. Þá hafi hún farið inn í herbergi til að hvíla sig þar. Spurður um það af hverju ákærði hefði tekið brotaþola úr buxunum sagði hann að hann hefði gert það í þeim tilgangi að þau myndu sofa saman. Hún hafi ekkert verið að berjast á móti eða neitt og ekki sagt neitt við hann, þannig að sér hafi ekki fundist þetta vera nauðgun af því að hann hafi aldrei heyrt „hættu, nei, stopp eða eitthvað.“ Ákærði neitaði því aðspurður að hann hefði verið með getnaðarliminn í leggöngum brotaþola þegar hún hafi vaknað og sagði það ekki vera rétt því að hann hefði ekki náð honum upp. Hann hafi ekki „virkað“ fyrr en næsta kvöld. 

II

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði lýsti því að hann hefði verið búinn að drekka mikið umrætt kvöld. Hann og brotaþoli hefðu verið að tala saman í um tvær klukkustundir og eitthvert daður hefði verið á milli þeirra. Hafi brotaþoli látið hann hafa símanúmerið sitt að hans beiðni af því að hann ætlaði að bjóða henni út síðar. Kvaðst ákærði hafa hætt að tala við brotaþola og farið inn í herbergi til E. Brotaþoli hafi verið komin inn í annað herbergi og hafi ákærði farið til hennar og lagst hjá henni og spurt hana hvort þau ættu ekki að kúra. Kvaðst ákærði hafa kysst brotaþola og hún hann til baka. Þá kvaðst ákærði hafa haldið áfram að kyssa brotaþola og reynt að ná getnaðarlimnum upp en það hafi ekki tekist. Síðan segi brotaþoli nei, er bara fyrir F, og þar með hafi ákærði farið út úr herberginu og farið að spjalla og farið heim til sín skömmu síðar. Spurður kvaðst ákærði halda að brotaþoli hefði drukkið þrjár til fjóra bjóra. Sjálfur hafi hann verið búinn að drekka sex bjóra eða meira. Ákærði kvaðst hafa lítillega þekkt til brotaþola fyrir atvikið og vitað hver hún var. Ákærði kvaðst ekki muna atvikin vel fram að þeim tíma að brotaþoli sagði að hún væri bara fyrir F. Spurður um ástand brotaþola sagði ákærði að hún hefði verið í glasi og vel hress. Hann hafi ekki veitt því athygli að hún hafi farið á salerni til að kasta upp eða að hún hefði verið veik, en hann hafi þá verið inni í herbergi hjá D að spjalla við hann. Eftir það kveðst ákærði hafa farið inn í herbergið þar sem brotaþoli var. Spurður nánar um samskipti hans við brotaþola inni í herberginu sagði ákærði að hann hefði lagst hjá brotaþola og spurt hana hvort þau ættu að kúra og hafi hún játað því. Þau hafi legið saman í nokkrar mínútur og hafi brotaþoli snúið bakinu að ákærða. Hann hafi kysst brotaþola tungukossi og hún til baka. Þá hafi hann rennt hendinni niður í klof og fróað brotaþola í um eina mínútu. Hann hafi ekki farið með fingur í leggöng brotaþola. Viðbrögð brotaþola hafi ekki verið neikvæð og hafi hún ekki ýtt frá sér. Hún hafi ekki sagt neitt. Hún hafi legið á bakinu síðan þau voru að kyssast. Hann hafi síðan fært hana upp og úr buxunum með því að draga þær niður. Brotaþoli hafi ekki aðstoðað hann við það en þó lyft rassinum upp til að hann gæti tekið buxurnar niður. Hann hafi ætlað að hafa samfarir við brotaþola og því reynt að ná getnaðarlimnum upp en það hafi ekki tekist. Á því augnabliki hafi brotaþoli sagt nei, ég er bara fyrir F. Þá hafi hann farið, enda ekki ætlað að rökræða við brotaþola um samfarir. Enginn hafi komið inn í herbergið á meðan hann hafi verið þar með brotaþola. Spurður kvaðst ákærði ekki kannast við að honum hafi verið vísað út úr íbúðinni. Hann hafi farið sjálfviljugur heim til sín, enda hafi verið orðið áliðið. Þá sagði ákærði ekki rétta þá lýsingu brotaþola að hún hafi vaknað við það að ákærði var að hafa við hana samfarir. Spurður um tilganginn með því að fara inn í herbergi sagði ákærði að það hafi verið til að kúra og athuga á hverju hún hefði áhuga. Þá kvaðst ákærði ekki vita hvað brotaþoli var að gera inni í herberginu en taldi líklegt að hún hefði ætlað að gista þar. Milli þeirra hefði verið daður fyrr um kvöldið. Hann hefði þó ekki fengið samþykki brotaþola fyrir því sem hann hafi gert, en þetta hefði bara þróast svona eftir að þau hafi verið að kyssast. Ákærði kvað brotaþola hafa verið í glasi og hress er atvik urðu, en kannaðist aðspurður ekki við þá lýsingu á ölvunarástandi brotaþola sem hann gaf hjá lögreglu um að brotaþoli hafi verið slafrandi full og hefði farið inn í herbergið og lagt sig vegna ölvunarástands síns. Spurður gat ákærði ekki skýrt þetta misræmi, en taldi að hann hefði munað þetta betur við skýrslugjöf hjá lögreglu.

Í skýrslu brotaþola fyrir dómi lýsti hún atvikum þannig að hún hafi farið í íbúðina við [...] af því að hún hélt að F, sem bjó þar, vildi fá hana og vinkonu hennar í heimsókn. Vinkonan hafi ekki komist og því hafi hún farið ein. Komið hafi í ljós að um misskilning var að ræða því að F var ekki á staðnum, en þar voru D frændi hennar, E, yngri bróðir hennar, C og ákærði. Hún hafi því ákveðið að vera um kyrrt. Henni hafi verið boðinn bjór sem hún hafi þegið. Hún hafi verið að spjalla við strákana. Hafi ákærði talað mikið við hana og hafi henni fundist það vera í lagi, hann hafi virst vera mjög fínn og auk þess æskuvinur D frænda hennar. Fyrst hafi þau verið í herberginu hans D, en þau hafi fært sig inn í stofu. Ákærði hafi þá farið að lyfta lóðum og verið mikið að sýna á sér vöðvana. Hann hafi líka sagt henni frá því að hann notaði eiturlyf þegar hann væri að skemmta sér og væri að slást við aðra stráka. Brotaþoli kvaðst þá hafa orðið hálfhrædd við ákærða og fundist að hún yrði að passa sig á honum. Hafi ákærði beðið brotaþola um að koma með sér inn í herbergi D af því að hann ætlaði að fá sér sígarettu. Hún hafi samþykkt það og setið við hliðina á ákærða af því að hann hafi viljað tala áfram við hana. Þá hafi ákærði farið að tala um bestu vinkonu sína, sem hann sofi hjá, en brotaþoli hafi talað um F sem hún væri mjög hrifin af. Hafi ákærði skilið það vel. Ákærði hafi lagt höndina á læri brotaþola, en hún hafi tekið höndina af lærinu og sagt honum að hætta, því að hún væri bara fyrir einn mann. Það sagðist ákærði skilja vel. Þá hafi þau farið að tala um fjölskyldur sínar. Brotaþoli sagði ákærða hafa boðið sér sígarettu, sem hún þáði, en eftir nokkra smóka hafi henni farið að líða mjög undarlega. Hún hafi þá verið búin að drekka þrjá og hálfan bjór. Fann brotaþoli fyrir svima og jafnvægisleysi og bað ákærða um að hinkra aðeins. Hún hafi farið inn á baðherbergi til að pissa. Hún hafi dottið á gólfið og ekki náð að standa upp. Þá hafi hún byrjað að kasta upp. Hún hafi verið lengi inni á baðherberginu og allt þar til bróðir hennar hafi komið og bankað á dyrnar. Hún hafi opnað og þá hafi bróðir hennar séð ástandið á henni og haldið á henni inn í herbergið hans C og lagt hana á rúmið og breitt sæng yfir hana. Hann sótti einnig vatnsglas og fötu og setti við hliðina á rúminu. Brotaþoli kveðst hafa sagt við bróður sinn að hleypa engum inn í herbergið og hafi heyrt hann banna ákærða að fara inn til brotaþola, en ákærði hafi ætlað að athuga með brotaþola.

Skömmu síðar hafi brotaþoli vaknað við það að ákærði kom inn í herbergið. Hann hafi beðið hana að koma fram. Hún hafi svarað því til að hún kæmi þegar hún gæti. Þá hafi ákærði farið. Það næsta sem hún viti er að hún finni ógeðslega matarlykt. Þá sé ákærði kominn aftur inn í herbergið með matardisk og sé að borða og tala við brotaþola um leið. Lyktin hafi valdið því að brotaþoli hafi kastað upp. Ákærði hafi þá farið fram. Hún hafi þá „misst meðvitund“, en það næsta sem hún muni er að strákur haldi utan um hana. Hún hafi í fyrstu haldið að það væri F. Hann fari að kyssa hana og hafi hún kysst hann til baka og þá fundið vonda lykt og að eitthvað hafi verið skrýtið við kossinn. Þá hafi hún áttað sig á því að þetta væri ekki F. Hún hafi opnað augun og séð að þetta var ákærði og sagt nei. Hann hafi þá lagt höndina á magann og strokið hana. Hún hafi þá sagt: „Hættu.“ Þá hafi hann spurt: „Má ég þetta ekki?“ og hafi hún svarað því neitandi. Þá hafi hann spurt hvort hann mætti liggja hjá henni og hafi hún sagt já við því og sofnað. Þegar hún hafi vaknað hafi ákærði verið að hrista á henni andlitið og verið inni í henni. Buxurnar hafi verið komnar niður á hæla og bolurinn kominn hátt upp. Hún hafi reynt að átta sig á því hvað væri að gerast. Hún hafi legið en ekki getað hreyft sig. Þegar hún hafi áttað sig á því að þetta var ekki martröð hafi hún sagt nei, en hann segi: „Þetta er allt í lagi“, en hún hafi sagt: „Nei, ég er hrifin af F“. Þá segi hann að F sé niðri í bæ að sofa hjá fullt af stelpum. Hún hafi svarað því til að henni væri sama, en hann hafi ekki hætt heldur hafi haldið áfram. Það hafi verið ógeðsleg tilfinning að vita af honum inni í sér. Allt í einu hætti ákærði og þá hafi hún gripið tækifærið og ýtt sér allri á hliðina eins mikið og hún gat til að sýna ákærða að hana langaði þetta ekki, en allt í einu hafi ákærði rifið í lærið á henni hægra megin og dregið hana að sér og gert þetta aftur. Brotaþoli kveðst hafa verið orðin svo hrædd að hún hafi hvorki öskrað né farið. Hún hafi sagt ákærða að hætta því að hún hafi ekki viljað þetta, en hann hafi haldið áfram að reyna að sannfæra hana. Loksins hafi hún sagt mjög harkalega að hún vildi þetta ekki og þá hafi hann stoppað. Hún hafi legið grátandi og horft á vegginn og ekki sagt orð. Ákærði hafi setið yfir brotaþola og þá hafi C komið inn í herbergið og sagt að F yrði ekki ánægður með þetta og labbað út. Þá virðist ákærði hafa áttað sig á því hvað hann hafi gert því að hann segi við brotaþola: „Ég vissi ekki að þú værir svona hrifin af F“, en það hafi verið það eina sem þau töluðu um. Þá hafi ákærði stungið upp á því að þau hefðu þetta bara á milli þeirra, en því hafi brotaþoli ekki svarað. Ákærði hafi farið út úr herberginu og C komið þangað og séð brotaþola gráta og spurt hvað væri að. Það eina sem hún hafi sagt við C var: „Mig langaði þetta ekki, mig langaði þetta ekki.“ Það fyrsta sem C hafi gert var að öskra á ákærða og henda honum út úr íbúðinni. Eftir það hafi C komið inn í herbergið og huggað brotaþola.

Brotaþoli kvaðst hafa sagt B vinkonu sinni frá atvikunum daginn eftir og hafi hún aðstoðað brotaþola við að segja öðrum frá því sem gerðist. Nánar aðspurð kvaðst brotaþoli hafa drukkið þrjá og hálfan stóran Tuborg-bjór. Hún hafi verið óvön að drekka. Henni hafi fundist erfitt að tala áður en hún veiktist og um leið og hún hafi fengið sígarettuna hafi hún fundið fyrir ógleði og máttleysi. Hún muni ekki hvað hún hafi verið lengi á snyrtingunni en hún hafi sofnað ofan á klósettinu. Það hafi ekki verið fyrr en E hafi kallað, þá hafi hún áttað sig á því að hún hafi verið of lengi þarna inni. Hún hafi opnað fyrir honum og hann lyft henni upp og stutt hana inn í herbergið. Hún hafi varla getað gengið og hafi kastað mikið upp þar inni. E hafi aðstoðað hana í fyrstu meðan hún var að kasta upp, en svo hafi hann farið fram. Þá hafi ákærði ætlað að koma inn en verið bannað það. Brotaþoli kvaðst hafa verið orðin hrædd við ákærða og að hún myndi lenda í aðstæðum sem hún vildi ekki. Hann hafi verið ágengur við hana og því meira eftir því sem hún hafi orðið ölvaðri. Hafi ákærði komið tvisvar sinnum inn í herbergið áður en hún hafi misst meðvitund og spurt hana hvort hún ætlaði ekki að koma fram. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki muna til þess að ákærði hafi nuddað á henni kynfærin, en hún myndi eftir ákærða inni í sér að hreyfa sig inn og út. Brotaþoli kvaðst ekki muna það þegar ákærði lagðist upp í rúmið til hennar, enda hafi hún verið sofandi, en kvaðst muna eftir því að ákærði hafi komið inn í herbergið tvisvar áður en hún hafi dottið út. Þá kom fram hjá brotaþola að þegar hún hafi verið inni á salerni að kasta upp hafi ákærði komið og séð að hún væri veik. Þá hafi hann einnig séð æluna í fötunni inni í herberginu. 

Vitnið E, bróðir brotaþola, greindi frá því að hann hefði verið heima hjá frænda sínum þegar ákærði hafi komið á staðinn. Brotaþoli hafi verið á leiðinni til þeirra og hafi ákærði spurt hvort hún væri falleg. Allir nema vitnið hafi verið að drekka bjór og hafi brotaþoli, sem hafi verið búin að drekka áður en hún kom, orðið nokkuð drukkin á staðnum og hafi það endað þannig að hún hafi farið inn á baðherbergi til að kasta upp. Vitnið kvaðst hafa þrifið upp eftir hana og farið með brotaþola inn í herbergi og breitt yfir hana. Vitnið kvaðst hafa sofnað, en daginn eftir hafi brotaþoli sagt henni hvað hafi komið fyrir. Vitnið kvaðst varla hafa trúað brotaþola. Daginn þar á eftir hafi öll systkinin verið saman og þá hafi brotaþoli brotnað niður. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því að ákærði og brotaþoli hafi verið að tala saman, en vissi ekki um hvað. Spurður um ástand brotaþola þegar vitnið aðstoðaði hana við að fara af salerninu og inn í herbergið sagði vitnið að botaþoli hefði verið mjög máttlaus og hefði ekki getað staðið í lappirnar. Hafi hún virst vera sofandi, en vitnið kvaðst vita að hún hefði verið vakandi en við það að „deyja“. Þá kvaðst vitnið hafa beðið ákærða og aðra viðstadda að láta brotaþola vera í friði og leyfa henni að sofa.

Vitnið G, móðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að brotaþoli hefði brotnað niður á öðrum degi páska og sagt henni frá atvikinu. Hefði brotaþoli greint frá því að hún hefði verið heima hjá frænda sínum. Bróðir hennar hefði hjálpað henni upp í rúm af því að hún hefði verið áfengisdauð. Hún hefði svo vaknað við að ákærði hefði verið að kyssa hana og hefði verið kominn inn í hana. Hafi brotaþoli sagt við hann að hún vildi þetta ekki og að þetta væri rangt, en hann hafi ekki viljað hætta. Við frásögnina hafi brotaþoli hágrátið og verið hrædd og með kvíða. Atvikið hafi haft mikil áhrif á brotaþola sem hafi haft lélegt sjálfsmat og sjálfsmorðshugleiðingar og hafi vegna þess verið á BUGL hjá sérfræðingi í áfallastreituröskun. Fyrir atvikið hafi brotaþoli verið með prófkvíða og leitað til sálfræðings og var í slíkri meðferð þegar atvikið átti sér stað.

Vitnið B greindi frá því að brotaþoli hefði hringt í hana eftir helgina og lýsti því sem gerst hafði. Hafi brotaþoli sagt að hún hafi talað mikið við ákærða um kvöldið og að þau hefðu verið búin að drekka mikið. Þau hefðu legið saman inni í herbergi og verið að spjalla saman. Hún hafi síðan vaknað við það að ákærði hafi verið byrjaður að hafa við hana samfarir. Hún hafi sagt honum að hætta, en hann hafi ekki sinnt því. Þá hafi hún skipað honum að hætta og þá hafi hann hætt, staðið upp, girt sig og farið fram.

Vitnið H, bróðir brotaþola, greindi frá því að brotaþoli hefði sagt honum frá atvikinu daginn eftir. Þá hafi öll systkinin verið saman heima hjá vitninu að horfa á mynd. Brotaþoli hafi skroppið frá til að tala í síma. Vitnið kvaðst nokkru síðar hafa athugað um brotaþola og þá komið að henni hágrátandi inni í herbergi vitnisins. Hún hafi lokið samtalinu um leið og vitnið kom inn í herbergið. Þá hafi brotaþoli greint honum frá því að ákærði hefði nauðgað henni. Vitnið kvaðst hafa rekist á ákærða í bænum og hafi hann þá reynt að tala við vitnið sem ekki hafi sagt neitt. Hafi ákærði beðið vitnið um að berja sig til að „ljúka þessu af“.

Vitnið I, bróðir brotaþola, lýsti því að brotaþoli hefði sagt að hún hefði verið í gleðskap kvöldið áður og þar hefði einhver strákur nauðgað henni. Hún hafi verið með honum í herbergi og sagt honum að hætta en hann hafi haldið áfram. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið grátandi og liðið mjög illa þegar hún hafi greint frá atburðinum.

Vitnið D lýsti því fyrir dómi að hann hefði verið heima hjá sér að kvöldi 19. apríl 2014. Vitnið kvaðst hafa verið inni í herbergi, en brotaþoli, ákærði og C inni í stofu að hlusta á tónlist. Þau voru blindfull, en vitnið kvaðst ekki geta lýst því nánar, enda hefði hann ekki verið nálægt þeim. Brotaþoli hafi verið orðin full, en ekki dauðadrukkin. Spurður um það hvort brotaþoli hafi verið veik og verið að kasta upp kvað vitnið svo hafa verið í smástund. Vitnið kvaðst hafa heyrt það nokkrum vikum síðar að brotaþoli hafi kært ákærða fyrir nauðgun. Aðspurt kvaðst vitnið hafa séð ákærða og brotaþola sitja saman fyrr um kvöldið og því virst að vel færi á með þeim og að þau væru að draga sig saman. Hann kvaðst þó ekki hafa séð þau kyssast.

J, sálfræðingur og sérfræðingur í Barnahúsi, lýsti því fyrir dómi að hún hefði tekið viðtöl við brotaþola eftir beiðni 29. apríl 2014 um þjónustu í Barnahúsi. Meðferðin hófst 27. maí sama ár og hittust þær í 12 skipti, síðast í lok september 2014. Brotaþoli hafi átt mjög auðvelt með að tjá sig og gera grein fyrir líðan sinni. Vitnið sagði að miklar breytingar hefðu orðið á líðan brotaþola eftir hið meinta brot í apríl 2014. Hún hafi grátið mikið við upphaf meðferðar og hafi þá rakið atvik málsins og þá líðan sem hún hafi upplifað í kjölfarið, sem hafi einkennst af depurð og vonleysi og væri hún bæði andlega og líkamlega þreytt þar sem hún hugsi sífellt um það sem hafi gerst. Brotaþoli hafi greint frá því að hún ætti mjög erfitt með að umgangast aðra eftir það sem gerðist og eigi erfitt með að treysta fólki og vilji helst vera heima. Hún hafi verið mjög óttaslegin til að byrja með um að henni yrði ekki trúað með það sem gerðist og upplifði mikla reiði, særindi og vonbrigði og það hafi tengst strákunum sem hafi verið á staðnum, sem hafi verið tregir til að vitna um það hjá lögreglu sem gerðist vegna þess að þeir vilji ekki blanda sér í málið.

Meðferðin hafi gengið út á það að veita fræðslu um afleiðingar slíkra brota og reyna að innleiða bjargráð til þess að hafa áhrif á þessa líðan. Brotaþoli hafi átt erfitt með að nærast, fara í bað og vera snert af öðru fólki. Fannst líkaminn vera skítugur og skrúbbaði sig mikið þegar hún fór í bað og klóraði sig í húðina. Mikil vinna hafi átt sér stað við það að hafa áhrif á þessa hegðun. Brotaþoli hafi verið með hugsanir og tilfinningar sem tengdust atburðinum, hún var óttaslegin og upplifði mikið öryggisleysi og hugsanir um að eitthvað slæmt myndi gerast aftur. Smám saman átti brotaþoli auðveldara með að ræða líðan sína og fannst hún upplifa ákveðnar framfarir en hún hafði upplifað góðan stuðning og hjálp frá fjölskyldu sinni fyrst eftir atburðinn, en þegar frá leið upplifði hún minni stuðning fjölskyldunnar og síðustu tvö skiptin sem þær hittust þá talaði hún mikið um að þrátt fyrir framfarir stæði hún talsvert ein og væri einmana að takast á við þessar afleiðingar og lýsti því að hún upplifði doða og áhugaleysi og ítrekaðar sjálfsvígshugsanir. Það hafi orðið til þess að vitnið ákvað að vísa henni í mat á BUGL og hafi brotaþoli fengið frekari þjónustu þar. Brotaþoli lýsti því að hún væri hrædd um að hitta ákærða sem væri brjálaður í skapi úti á götu. Hann myndi þá ráðast að henni.

K sálfræðingur greindi frá því fyrir dómi að brotaþoli hefði verið hjá henni fyrir atburðinn. Svo hafi hún komið á þriðjudeginum 22. apríl 2014, sest í sófann og farið að hágráta og greint þá frá atburðinum. Í viðtalinu hafi hún nafngreint manninn. Hún hafi sagt frá því að hún hafi lagst upp í rúm og sofnað, en vaknað við það að maðurinn hafi verið hjá henni og var að þreifa á henni. Hafi hún sagt honum að hætta. Hún hafi síðan vaknað aftur við það að hann var að nauðga henni. Hún hafi grátið allan tímann í viðtalinu, þannig að hún hafi ekki viljað spyrja nánar. Síðar hafi brotaþoli komið tvisvar sinnum og rætt um afleiðingar brotsins og stuðning við brotaþola sem sýnt hafi mikil kvíðaeinkenni og alvarleg einkenni áfallastreitu. Líðan brotaþola hafi breyst mikið eftir atburðinn frá því sem áður var.

L geðhjúkrunarfræðingur lýsti því fyrir dómi að brotaþoli hefði verið hjá henni á einkastofu í 14 skipti. Tildrögin hafi verið að brotaþoli hafi komið í bráðaviðtal á BUGL 6. október 2014. Vitnið kvaðst hafa sérhæft sig í flókinni áfallastreituröskun og hugrofseinkennum og noti aðra nálgun en notuð hafði verið. Komið hafi í ljós að brotaþoli hafi verið með alvarleg hugrofseinkenni. Hugrofseinkenni séu þannig að einstaklingurinn sé búinn að þróa með sér ákveðin varnarviðbrögð þar sem hann aftengir sig frá umhverfinu ef hann upplifir mikinn kvíða eða álag og skynjar á einhvern hátt einhverja hættu. Þá aftengist hluti af meðvitundinni frá núverandi augnabliki. Þetta þurfi að taka til meðferðar áður en hægt sé að vinna úr áföllum. Brotaþoli hafi greint frá því að við meðferðina í Barnahúsi hafi hún ekki almennilega „verið á staðnum“ þegar hún hafi verið fengin til að rifja upp áfallið, þá hafi hún aftengst. Þá hafi hún upplifað sig fyrir utan sjálfa sig eða ekki á staðnum. Hafi meðferðin gengið út á það að koma henni út úr þessum hugrofum til að hún myndi þola úrvinnslu úr þeim áföllum sem hún hafði orðið fyrir. Aðspurð um það hvort brotaþoli hafi lýst brotinu fyrir vitninu kvað vitnið svo hafa verið og að brotaþoli hafi lýst því að hún hefði farið heim til frænda síns og þar hefði frændinn verið, bróðir hennar og vinur hans og voru að drekka bjór. Lýsti brotaþoli því að hún hefði orðið mjög syfjuð og sljó af óvanalega litlu magni af áfengi. Það hafi litið þannig út að mögulega hafi eitthvað verið sett út í drykkinn hennar. Hún lýsti því að hún hefði orðið mjög þreytt og sljó og viljað leggja sig og farið inn í svefnherbergi. Hafi frændi hennar sagt vini sínum, sem hafi sýnt brotaþola áhuga, að láta hana í friði. Skömmu seinna hafi vinur frænda hennar verið kominn inn í svefnherbergið og hafi brotaþoli rankað við sér með hann ofan á sér.

Vitnið C lýsti því fyrir dómi að hann, F, D og bróðir brotaþola hafi verið að drekka í íbúðinni að [...]. F hafi farið niður í bæ með öðru fólki, en hann haldið áfram að sötra heima. Brotaþoli kom síðan á staðinn um miðnættið. Hún og ákærði voru að drekka bjór og fíflast í stofunni en hún hafi komið til að hitta F en ekki ákærða, enda höfðu brotaþoli og F eitthvað verið saman, en F vildi ekki vera á föstu og fór niður í bæ. Þegar á kvöldið leið kvaðst vitnið hafa verið að horfa á mynd með D inni í herbergi. Eftir að hafa verið þar í um 40 mínútur hafi vitnið farið fram og þá séð að lokað var inn í hans herbergi í íbúðinni. Hann kveðst hafa labbað inn og kveikt ljósið og þá séð að ákærði stendur upp eftir að hafa legið ofan á brotaþola, en ekki verið með liminn stífan. Brotaþoli hafi kallað: „F, F, F“. Vitnið kveðst hafa rifið í ákærða og sagt: „Hver djöfullinn gengur á maður?“ Þá hafi brotaþoli öskrað: „Hann er að nauðga mér.“ Þá hafi vitnið hent ákærða út úr íbúðinni og farið aftur inn til brotaþola til að hugga hana. Það hafi tekið nokkurn tíma, en svo hafi hún sofnað. Hann sjálfur hafi sofnað inni í stofu með D. Morguninn eftir hafi B komið og hafi hann sagt henni hvað hefði gerst. Eftir að F hafi verið kominn heim hafi brotaþoli mætt á staðinn eins og ekkert hafi í skorist. Spurður kvaðst vitnið muna eftir því að brotaþoli hafi orðið veik og verið inni á salerni að kasta upp. Bróðir hennar hafi hjálpað henni. Vitnið kvaðst lítið hafa verið með brotaþola og ákærða um kvöldið en meira með D inni í herbergi að horfa á mynd. Nánar aðspurður um það hvað hann hafi séð í herberginu greindi vitnið frá því að hann hefði séð þau bæði nakin í rúminu og hefði ákærði legið ofan á brotaþola, en stokkið strax á fætur þegar ljósið var kveikt. Þá hafi brotaþoli öskrað nafn F. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að drulla sér í fötin, enda hafi hann upplifað þetta eins og eitthvað væri að. Hann hafi farið aftur inn til brotaþola sem hafi sagt við vitnið að hún hefði haldið að þetta væri F. Brotaþoli hafi grátið frekar mikið. Aðspurður kvað vitnið að eitthvert daður hafi verið á milli ákærða og brotaþola fyrir um kvöldið sem hafi verið gagnkvæmt.

III

Ákærði neitar sök, en í málinu er hann borinn sökum um að hafa aðfaranótt laugardagsins 19. apríl 2014, í íbúð að [...] í [...], haft samræði eða önnur kynferðismök við A, sem þá var 17 ára, gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Fyrir liggur að samkvæmi var í íbúðinni umrædda nótt og voru brotaþoli og ákærði þar gestkomandi. Í íbúðinni voru auk þeirra yngri bróðir brotaþola og frændi þeirra og vinur hans, en tveir síðastgreindu bjuggu í íbúðinni ásamt F. Framburður brotaþola er á þann veg að hún hafi komið í íbúðina til að hitta F, sem hún var hrifin af, en hann hafi þá verið farinn í bæinn. Hún hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hún kom á staðinn og ákveðið að vera um kyrrt þótt F væri farinn. Hún hafi þegið bjór og verið að spjalla við ákærða og aðra viðstadda, en mest við ákærða sem hafi sýnt henni mikinn áhuga. Þegar á leið hafi hún orðið hálfhrædd við ákærða. Hann hafi gefið henni sígaréttu en eftir nokkra smóka hafi henni farið að líða undarlega. Hún hafi þá verið búin að drekka þrjá og hálfan stóran Tuborg-bjór. Hún hafi kastað upp og eftir það hafi bróðir hennar hjálpað henni að leggjast fyrir og breitt sæng yfir hana. Hún hafi vaknað skömmu síðar við það að ákærði hafi verið lagstur fyrir aftan hana í rúminu og verið að strjúka á henni magann. Hún hafi beðið hann um að hætta því en leyft honum að liggja hjá sér, að hans beiðni, og sofnað aftur. Hún hafi vaknað aftur og þá við það að ákærði var að hafa við hana samfarir í leggöng. Brotaþoli hafi sagt honum að hætta en hann hafi ekki sinnt því og haldið áfram uns hún hafi skipað honum að hætta. Þá hafi hann hætt. Á sama tíma hafi C komið inn í herbergið og rekið ákærða út. 

Framburður ákærða er á þann veg að hann hafi verið búinn að drekka mikið þetta kvöld. Hann hafi talað við brotaþola í um tvær klukkustundir og eitthvert daður hefði verið á milli þeirra. Síðar, þegar brotaþoli hafi verið lögst upp í rúm, hafi hann farið á eftir henni og lagst upp í rúm til hennar og kysst brotaþola sem hafi kysst hann á móti. Hann hafi þá haldið áfram að kyssa brotaþola og auk þess fróað henni án þess að setja fingur í leggöng hennar. Þá hafi hann reynt að ná getnaðarlimnum upp en það hafi ekki tekist og hafi honum ekki risið hold. Viðbrögð brotaþola við því sem hann gerði við hana hafi í fyrstu ekki verið neikvæð. Hún hafi kysst hann á móti og ekki ýtt honum frá sér, en hún hafi ekki sagt neitt. Hann hafi því fært brotaþola úr buxunum og þegar hann hafi verið að því hafi hún lyft rassinum upp svo að hann gæti tekið buxurnar niður. Hafi hann ætlað að hafa samfarir við brotaþola en það hafi ekki tekist vegna þess að hann hafi ekki náð limnum upp. Ákærði sagði að hann hefði ekki fengið samþykki brotaþola fyrir því sem hann gerði en þetta hefði bara þróast svona eftir að þau hafi farið að kyssast.

Framburður vitnanna E, D og C er að mestu samhljóða um það ástand brotaþola umrædda nótt að hún hafi verið mjög ölvuð og orðið veik þegar leið á nóttina. Hún hafi farið á salerni og kastað þar upp og sofnað eftir það. Vitnið E bar um það fyrir dómi að brotaþoli hefði verið búin að drekka eitthvað áður en hún kom að [...] og orðið nokkuð drukkin eftir að hún kom þangað sem hefði endað með því að hún hafi kastað upp. Hann kvaðst hafa aðstoðað hana við að leggjast til svefns í rúmi í nærliggjandi herbergi og breitt sæng yfir brotaþola. Vitnið sagði brotaþola hafa verið mjög máttlausa og ekki getað staðið. Hún hafi virst vera sofandi. Þá kvaðst hann hafa sérstaklega farið fram á það við ákærða að hann léti brotaþola í friði meðan hún væri að jafna sig. Brotaþoli bar um það að hún hefði verið búin að drekka þrjá og hálfan stóran bjór þegar hún hefði orðið veik og máttlaus, en hún væri óvön að drekka áfengi. Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að hann héldi að brotaþoli hefði verið búin að drekka þrjá til fjóra bjóra í umrætt sinn. Hún hafi verið vel í glasi og hress, en hann hafi ekki veitt því athygli að hún hefði orðið veik. Framburður ákærða um þetta atriði hjá lögreglu var á annan veg, en þá greindi ákærði frá því að brotaþoli hefði drukkið nokkra bjóra og verið orðin vel drukkin. Hún hefði verið slafrandi full og farin að detta út.

Brotaþoli hefur greint frá atvikum með sama hætti fyrir barnaverndarnefnd, hjá lögreglu og fyrir dómi og verið einlæg og trúverðug í mjög ítarlegri frásögn sinni af atvikum, þar á meðal því að ákærði hefði verið með getnaðarlim sinn í leggöngum hennar þegar hún vaknaði. Að mati dómsins er ekki minnsta ástæða til að efast um trúverðugleika hennar og breytir engu í þeim efnum þótt haft hafi verið eftir vinkonu brotaþola, B, í skýrslu hjá lögreglu, að brotaþoli hafi greint henni frá því að ákærði hefði verið að reyna að hafa samfarir við hana. Fram er komið að ákærði og brotaþoli hafi rætt um fjölskyldumál sín á milli og hafi skipst á upplýsingum um þá einstaklinga sem þau væru skotin í. Þá liggur fyrir að þeim ber ekki saman um það hvort þau hafi daðrað við hvort annað.

Brotaþoli greindi vinkonu sinni frá því sem gerðist degi síðar. Einnig þremur systkinum sínum og hafa tvö þeirra borið um það fyrir dómi að brotaþoli hafi verið mjög miður sín. Þá liggur fyrir að brotaþoli greindi móður sinni frá því sem gerst hafi, tveimur sálfræðingum og geðhjúkrunarfræðingi. Framburður þessara sérfræðinga fyrir dómi styður ítarlega frásögn brotaþola af atburðum í umrædd sinn. Í framburði L geðhjúkrunarfræðings kom fram að brotaþoli hefði einkenni áfallastreitu og í viðtölum hefði verið unnið að því að draga úr hugrofseinkennum hennar. Þá segir í vottorði hennar 16. desember 2015, sem staðfest var fyrir dómi, að í viðtölum við brotaþola hefðu komið fram hjá henni einkenni sem bentu til flókinnar áfallastreituröskunar, það er endurupplifanir af ýmsum áföllum, „þar á meðal meintri nauðgun“ í svefni og vöku, forðunarhegðun, ofurárverkni og hugrofseinkenni. Allt þetta rennir stoðum undir framburð brotaþola um að ákærði hafi haft samræði eða önnur kynferðismök við brotaþola gegn vilja hennar.

Ákærði hefur öðrum þræði haldið því fram að viðbrögð brotaþola við kynferðislegum athöfnum hans við brotaþola hafi ekki verið neikvæð og því hafi hún verið þeim samþykk allt þar til hún hafi sagt að hún væri bara fyrir F. Á þetta verður ekki fallist með ákærða eins og að framan er rakið, enda er ekkert það fram komið í málinu sem gat gefið ákærða tilefni til að ætla að brotaþoli væri samþykk kynmökum við hann.

Framburður ákærða hefur ekki verið á einn veg hjá lögreglu og fyrir dómi. Hjá lögreglu greindi ákærði frá því að hann hefði fróað brotaþola með því að stinga fingri í leggöng hennar. Þessu neitaði ákærði fyrir dómi. Þá er framburður ákærða fyrir dómi um atvik í íbúðinni í umrætt sinn nokkuð á annan veg en vætti annarra sem þar voru. Á það við um ölvunarástand brotaþola og veikindi hennar. Kannaðist ákærði hvorki við það að brotaþoli hafi kastað upp á salerni eða að fata sem ælt hefði verið í hefði verið við rúm það sem brotaþoli svaf í um nóttina. Þetta misræmi dregur að mati dómsins úr trúverðugleika framburðar ákærða.

Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið, framburðar ákærða, sem dómurinn metur ótrúverðugan, ítarlegrar og nákvæmrar frásagnar brotaþola, sem fær að nokkru stuðning í vætti annarra vitna í málinu, þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali ríkissaksóknara.  

IV

Ákærði er fæddur í [...] 1992. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga skal sá sem gerist sekur um kynferðisbrot af því tagi, sem ákærði er sakfelldur fyrir, sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 árum. Þá segir í 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að hann hefur gerst sekur um alvarlegt brot og horfir það til refsiþyngingar. Brot ákærða beindist að 17 ára barni sem ákærði vissi eða mátti vita að var ósjálfbjarga vegna áfengisneyslu. Að þessu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár. Í ljósi alvarleika brotsins eru engin efni til að binda refsingu ákærða skilorði.

V

Fyrir liggur miskabótakrafa brotaþola að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta. Með þeirri háttsemi sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér skyldu til að greiða brotaþola miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í málinu liggur fyrir vottorð K sálfræðings þar sem fram kemur að brotaþoli hafi í viðtölum eftir atburðinn sýnt mikil kvíðaeinkenni og lýsi alvarlegum einkennum áfallastreitu. Hún eigi erfitt með að sofa og vilji helst sofa á daginn í björtu þar sem hún upplifi sig öruggari. Hún fái ítrekaðar martraðir sem tengist nauðguninni sjálfri og hræðslu við framhaldið. Hún fari ekki ein út, upplifi mikið óöryggi, einbeitingarleysi og gráti mikið. Hún sé þreytt, orkulaus og með höfuðverk og sé þessi líðan mjög frábrugðin því sem var fyrir atburðinn. Þá segir í vottorðinu að rannsóknir sýni að börn sem beitt séu kynferðisofbeldi í æsku glími gjarnan við langvarandi sálræna erfiðleika, svo sem áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða. Veita þurfi brotaþola viðeigandi stuðning og meðferð. Í vottorði L geðhjúkrunarfræðings segir að brotaþoli hafi orðið fyrir endurteknum áföllum í æsku og á unglingsárum sem hafi valdið henni ómældri vanlíðan. Brot það sem nú sé til meðferðar muni hafa valdið henni auknum skaða og flækt áfallastreituröskun hennar. Þurfi brotaþoli á áframhaldandi meðferð að halda sem gæti tekið marga mánuði og jafnvel ár að ljúka. Samkvæmt þessu þykir ljóst að verknaður af því tagi sem hér um ræðir sé til þess fallinn að valda þeim sem fyrir verður nokkrum miska. Er því rétt að dæma brotaþola bætur úr hendi ákærða, sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Upphafstími vaxta skal vera 19. apríl 2014 eins og krafist er, en dráttarvextir skulu reiknast frá 19. júlí sama ár, þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar hjá lögreglu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að öðru leyti fer um vexti svo sem greinir í dómsorði.  

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins. Um er að ræða þóknun skipaðs verjanda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, svo og 59.000 krónur í annan sakarkostnað.

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Málið dæma héraðsdómararnir Jón Höskuldsson, sem dómsformaður, Bogi Hjálmtýsson og Ragnheiður Bragadóttir. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Eyjólfur Ingólfsson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði A 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. apríl 2014 til 19. júlí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 450.120 krónur. Þá greiði ákærði 59.000 krónur í annan sakarkostnað.