Hæstiréttur íslands
Mál nr. 591/2009
Lykilorð
- Útburður
- Endurkrafa
- Fyrirvari
- Greiðsla
|
|
Fimmtudaginn 6. maí 2010. |
|
Nr. 591/2009. |
Runólfur Björn Gíslason (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Auðsholti ehf. (Ólafur Björnsson hrl.) |
Útburður. Endurkrafa. Fyrirvari. Greiðsla.
Að beiðni A ehf. hafði R verið borinn úr af jörð. Var munum í eigu R komið fyrir í leigðum gámum á læstu svæði í eigu þriðja aðila. Eftir langvarandi deilur greiddi R réttmætan kostnað A ehf. af gerðinni. Þessar tafir á greiðslu leiddu til aukins kostnaðar A ehf. vegna geymslu á munum R. R greiddi A ehf. þennan aukna geymslukostnað með fyrirvara og höfðaði mál á hendur A ehf. til endurheimtu hans. Hin umþrætta skuld var talin afleiðing þess að R hefði ekki boðið fram með fullnægjandi hætti greiðslu á réttmætum kostnaði A ehf. vegna útburðarins. Var A ehf. því sýknað af kröfu R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2009. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.857.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. september 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í héraðsdómi hafa deilur aðila staðið um langa hríð. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 21. apríl 2006 var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda sjö reikninga, samtals að fjárhæð 3.847.833 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum vegna kostnaðar stefnda við að bera áfrýjanda af jörðinni Auðsholti í Ölfusi á árinu 2005. Í þeirri fjárhæð fólst meðal annars kostnaður stefnda fyrir leigu, flutning og geymslu á gámum með hlutum í eigu áfrýjanda sem fluttir höfðu verið af jörðinni við útburð. Þessum þætti héraðsdómsins undi áfrýjandi. Áfrýjandi hafði samkvæmt bréfi 4. júní 2005 boðist til að setja tryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur sem hann kvaðst hafa lagt á fjárvörslureikning þáverandi lögmanns síns. Þessu hafnaði þáverandi lögmaður stefnda bréflega þremur dögum síðar. Tók hann meðal annars fram að slíkur „greiðslumáti“ væri ófullnægjandi og hefði ekkert gildi. Hinn 5. september 2006 greiddi áfrýjandi skuldina samkvæmt dóminum 21. apríl 2006 og einnig kostnað sem stefndi krafði hann um vegna leigu á gámum og geymslu þeirra hjá Hafnarbakka hf. tímabilið ágúst 2005 til ágúst 2006. Nam sá hluti greiðslunnar 1.857.500 krónum og var inntur af hendi með fyrirvara um réttmæti skuldarinnar. Í máli þessu endurkrefur áfrýjandi stefnda um þessa fjárhæð.
Fram er komið í málinu að áfrýjandi bauð ekki með fullnægjandi hætti fram greiðslu á skuld sem hann sannanlega var í við stefnda vegna útburðar af jörðinni Auðsholti. Sökum þess hlóðst upp kostnaður vegna leigu og geymslu á gámum með lausafé áfrýjanda sem hann greiddi ekki fyrr en 5. september 2006. Áfrýjandi hefur heldur ekki sýnt fram á réttmæti fullyrðingar sinnar um að sá kostnaður hafi verið óeðlilega mikill. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Runólfur Björn Gíslason, greiði stefnda, Auðsholti ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. júlí 2009.
Mál þetta sem dómtekið var 29. júní sl., var höfðað af Runólfi Birni Gíslasyni, kt. 271256-7799, Kambahrauni 33, Hveragerði, gegn Auðsholti ehf., kt. 560802-2340, Borgarhrauni 27, Hveragerði, fyrirsvarsmaður Ingimundur Sigurmundsson, kt. 241165-3619.
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.857.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. september 2006 til greiðsludags. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.000.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. júní 2005 til 5. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 6. gr., frá þeim degi til greiðsludags. Í þriðja lagi krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af fyrstu dómkröfu stefnanda. Þá krefst stefndi frávísunar á annarri dómkröfu stefnanda en til vara að hann verði sýknaður af kröfunni. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik.
Stefnandi mun hafa hafið ábúð á jörðinni Auðsholti í Sveitarfélaginu Ölfusi í júní árið 1973. Í september 2003 keypti stefndi jörðina á nauðungarsölu. Stefnandi bjó áfram á jörðinni eftir nauðungarsöluna og átti í viðræðum við stefnda um að kaupa jörðina, en samkomulag um það tókst ekki. Með símskeyti stefnda hinn 10. desember 2003 var stefnanda tilkynnt að honum bæri þá þegar, og eigi síðar en 15. janúar 2004, að víkja af eigninni. Stefnandi fór ekki að þessum tilmælum og setti stefndi þá fram þá kröfu við Héraðsdóm Suðurlands að stefnandi yrði borinn út af jörðinni. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 30. mars 2004, var fallist á þá kröfu og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi sínum 3. júní 2004.
Að fenginni þessari niðurstöðu var málið tekið fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi í nokkur skipti og við fyrirtöku þess 28. júní 2004 var bókað í gerðabók sýslumanns að það samkomulag hefði orðið með aðilum að íbúðarhús yrði rýmt fyrir kl. 17.00 hinn 1. júlí s.á. en þeim þætti útburðar, sem sneri að húsdýrahaldi yrði frestað til 6. júlí s.á., kl. 10.00. Jafnframt var þá bókað að stefnandi skyldi þá leggja fram skriflega tillögu að því hvernig dýrin yrðu fjarlægð og hvenær þannig að tjón allra aðila yrði eins lítið og mögulegt væri og jafnframt yrði þá gerður skriflegur samningur um húsaleigu útihúsa næðist samkomulag á þessum grunni.
Hinn 6. júlí 2004 var útburðarmálið enn tekið fyrir og undirrituðu málsaðilar þá í viðurvist sýslumannsins á Selfossi samkomulag. Samkvæmt því skyldi umferð og viðvera stefnanda á jörðinni eingöngu miðast við nauðsynlega starfsemi við eggjaframleiðslu hans og annars þess sem nánar var þar tilgreint. Var búseta eða gisting stefnanda, fjölskyldu hans eða fólks á hans vegum óheimil á jörðinni. Þá var þar og kveðið á um að stefnandi skyldi fyrir kl. 12 hinn 17. ágúst 2004 vera búinn að fjarlægja af jörðinni allt rusl og annað lausadót, þ.m.t. bílhræ og vinnuvélar sínar. Gengi þetta ekki eftir félli leigan þegar úr gildi. Kom og fram í samkomulaginu að leigutíminn skyldi miðast við frestun útburðarins en honum yrði tafarlaust fullnægt yrði ekki staðið við gefna dagsetningu. Sama gilti félli samkomulagið úr gildi fyrr af framangreindum ástæðum. Samkvæmt lokagrein samkomulagsins skyldi stefnandi við lok leigutíma vera búinn að fjarlægja öll húsdýr, rusl og annað lausadót af jörðinni og úr hinum leigðu húsum og þeim skilað snyrtilegum og þrifnum. Það sem kynni að verða skilið eftir yrði litið á sem verðlaust og því fargað án ábyrgðar stefnda og aðstandenda hans og á kostnað stefnanda.
Stefndi tilkynnti stefnanda um vanefndir samkomulagsins með símskeyti þann 17. september 2004, þar sem tekið var fram að stefndi teldi stefnanda hafa brotið gegn 4. og 5. gr. samkomulagsins. Stefndi krafðist þess þá að útburðarmálinu gegn stefnanda yrði haldið áfram. Útburðarmálið var tekið fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi þann 22. október 2004 og mótmælti stefnandi kröfunni með þeim rökum að aðfararheimildin hefði fallið niður með framangreindu samkomulagi 6. júlí 2004. Málinu hefði þar með verið lokið. Þessu mótmælti stefndi og krafðist þess, að útburðurinn færi fram. Sýslumaður frestaði gerðinni til 8. nóvember s.á. en ákvað þann dag, að aðilum fjarstöddum, að gerðinni skyldi þá fram haldið. Skaut stefnandi þeirri ákvörðun til dómstóla og var kröfu hans vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 22. febrúar 2005 sem staðfestur var í Hæstarétti 6. apríl s.á.
Lögmaður stefnda sendi stefnanda símskeyti 21. mars 2005 þar sem skorað var á stefnanda að fjarlægja allt lausafé hans, fjölskyldu hans og allra annarra á hans vegum af fasteigninni fyrir 31. sama mánaðar. Í skeytinu var og tekið fram að yrði stefnandi ekki við þessari áskorun yrði litið svo á að hann gerði ekki tilkall til þessa lausafjár og yrði því þá ráðstafað á hans ábyrgð og kostnað.
Stefnandi kveðst á þessum tímapunkti enn hafa verið með verulegan hluta eigna sinna í Auðsholti, þ. á m. búslóð sína, enda hafi stefnandi á grundvelli fyrrgreinds samkomulags um leigu haldið áfram búrekstri sínum. Stefnandi hafi haft mikinn hug á að kaupa jörðina að nýju af stefnda og hafi því beðið með að flytja eigur sínar af jörðinni.
Meðal gagna málsins er óundirritað samkomulag dagsett 10. maí 2005. Samkomulagið gerði ráð fyrir að stefndi heimilaði stefnanda að koma í Auðsholt til að taka lausafé út úr nánar tilgreindum húsum sem skilið hafi verið eftir lok leigutíma þann 1. mars s.á. Aðgangur stefnanda skyldi renna út í lok dags 15. maí s.á. og skyldi þá allt lausafé stefnanda og hans fjölskyldu vera farið af jörðinni. Einnig skyldi stefnandi greiða stefnda 500.000 krónur upp í áfallinn kostnað við undirritun samningsins og greiða gjaldfallinn lögmannskostnað nafngreinds hæstaréttarlögmanns. Í lok samkomulagsins var tekið fram að með samkomulaginu sé gert út um öll ágreinings- og uppgjörsmál aðila varðandi jörðina Auðsholt og eigi hvorugur þeirra nokkra kröfu vegna þessara mála á hendur hinum eða eigendum stefnda persónulega eftir undirritun samkomulagsins.
Stefnandi fullyrðir að samkomulag hafi tekist í maí 2005 um að stefnandi fengi að nálgast eigur sínar sem þá hafi enn verið í Auðsholti, gegn greiðslu á 500.000 krónum og hefði stefnandi haft tvær vikur til verksins. Stefnandi kveðst hafa á grundvelli samkomulagsins hafist handa við að fjarlægja eigur sínar úr Auðsholti og setja þær í gáma til flutnings. Meðan á þeirri vinnu hafi staðið hafi fyrirsvarsmenn stefnda komið að Auðsholti og gert athugasemdir við framkvæmd verksins og m.a. krafist þess að eigur skyldu teknar í ákveðinni röð. Þeir hafi einnig farið fram á að stefnandi undirritaði samkomulag sem m.a. hafi falið í sér að stefnandi hafi fallið frá öllum kröfum á hendur stefnda og fyrirsvarsmönnum stefnda persónulega. Stefnandi hafi neitað að skrifa undir samkomulagið. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi þá meinað stefnanda að halda áfram að fjarlægja eigur sínar úr Auðsholti og hafi sjálfir haldið áfram að setja eigur stefnanda í gámana. Er þeir hafi talið verkinu lokið hafi þeir neitað að afhenda stefnanda eigur sínar í skjóli haldsréttar. Stefndi hafi gert það að skilyrði fyrir afhendingu eignanna að stefnandi innti áður af hendi greiðslu vegna áfallins lögmannskostnaðar, greiðslu vegna vinnu fyrirsvarsmanna stefnda við hreinsun og tiltekt á jörðinni auk greiðslu annars kostnaðar vegna útburðargerðarinnar. Þá hafi fyrirsvarsmenn stefnda sett það skilyrði fyrir afhendingu eignanna að stefnandi undirritaði yfirlýsingu um að hann félli frá öllum kröfum á hendur þeim og stefnda vegna fyrri viðskipta. Stefnandi kveðst í staðinn hafa boðið fram 2.000.000 krónur í reiðufé sem tryggingu fyrir kostnaði vegna útburðargerðarinnar gegn því að hann fengi eigur sínar afhentar. Þá hafi stefnandi óskað eftir því að gámarnir yrðu geymdir á geymslusvæði sem hann hefði aðgang að án endurgjalds. Stefndi hafi hafnað þessu. Stefndi kveður hins vegar að í apríl s.á. hafi fyrirsvarsmenn stefnda talið sig hafa komist að samkomulagi við stefnanda um að hann fjarlægði lausafé af jörðinni Auðsholti og greiddi upp í áfallinn kostnað af málinu. Þann 10. maí s.á. hafi fyrirsvarsmenn stefnda boðið stefnanda að skrifa undir samkomulagið en stefnandi hafi ekki gert það.
Þann 25. maí 2005 sendi stefndi stefnanda áskorun um að fjarlægja lausafé sem honum og fjölskyldu hans tilheyrði og að útburðargerðin færi fram þann 30. maí s.á. Þann dag var útburðarkrafan tekin fyrir enn á ný á skrifstofu sýslumannsins á Selfossi. Voru þá bókuð mótmæli stefnanda við því að gerðin færi fram þar sem hann „hafi ítrekað óskað eftir að fá að taka hluti sína og verið meinað það, auk þess sem rætt hafi verið um kaup hans á jörðinni og hann sé reiðubúinn að taka eignir sínar enda hafi verkið verið hafið“. Þrátt fyrir mótmæli stefnanda ákvað sýslumaður að útburður skyldi fram fara. Var fyrirtökunni síðan fram haldið að Auðsholti í viðurvist aðila eða umboðsmanna þeirra og þar ákveðið með hvaða hætti útburðurinn færi fram. Skyldu munir verða teknir úr tilgreindum húsum og settir í gáma, sem síðan yrðu geymdir á læstu svæði Hafnarbakka. Að ósk stefnanda var gerð grein fyrir þeim kostnaði, sem nú þegar væri orðinn af gerðinni og hver hann yrði gróft áætlað. Bókun sýslumanns lýkur síðan með því, að framkvæmd útburðarins geti hafist á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola. Gámar með eigum stefnanda voru fluttir á gámasvæði Hafnarbakka í júní 2005 að útburði loknum.
Með bréfi, dags. 4. júní 2005, fór lögmaður stefnanda fram á að stefnandi fengi afhentar eignir sínar jafnskjótt og þær væru fluttar frá Auðsholti. Kom þar og fram að stefnandi hefði lagt 2.000.000 krónur inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu hans „sem hann fellst á að standi sem trygging fyrir greiðslu kostnaðar til umbjóðenda yðar vegna útburðargerðarinnar og er hann reiðubúinn að leggja fram yfirlýsingu þess efnis ef fram á það verður farið.“ Einnig var í bréfinu tekið fram að stefnandi hafnaði þeim skilyrðum sem stefndi hefði sett fyrir afhendingu eigna. Lutu skilyrði þessi að því annars vegar að stefnandi yrði að fallast á að greiða allan áfallinn kostnað stefnda sem væri lögmannskostnaður vegna útburðargerðarinnar, fyrri lögmannskostnaður sem fjárnám hefði verið gert fyrir, greiðsla vegna vinnu Auðsholtsmanna við hreinsun og tiltekt á jörðinni að fjárhæð 500.000 krónur og annan kostnað við gerðina. Þá yrði hann hins vegar að falla frá öllum frekari kröfum á hendur stefnda og fyrirsvarsmönnum hans.
Stefndi höfðaði mál á hendur stefnanda fyrir Héraðsdómi Suðurlands til greiðslu ellefu reikninga vegna kostnaðar sem hann taldi hafa fallið á vegna útburðar stefnanda og viðskilnaðar á jörðinni Auðsholti. Þann 21. apríl 2006 var stefnandi dæmdur til greiðslu sjö reikninga, samtals 3.847.833 krónur, en kröfu stefnda um greiðslu fjögurra reikninga var vísað frá dómi vegna vanreifunar. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 8. júní 2006 var frávísun héraðsdóms felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu um greiðslu reikninganna fjögurra til efnislegrar meðferðar. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands þann 9. október 2006 var stefnandi sýknaður af greiðslu eins reiknings vegna þóknunar fyrir geymslu á munum stefnda á þeim tíma sem krafa stefnanda var til meðferðar hjá sýslumanni, en dæmdur til að greiða stefnda 450.000 krónur að álitum vegna kostnaðar stefnda af hreinsunaraðgerðum, umsjón með verktökum við þær aðgerðir og förgun á heyrúllum. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 18. júní 2007 var stefnandi sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu reikninganna. Í dómi Hæstaréttar kemur m.a. fram að krafa stefnda í því máli yrði ekki talin til kostnaðar við útburðargerðina og yrði því ekki studd við 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá hefði stefndi ekki heldur sýnt fram á að krafa hans yrði reist á samkomulagi aðila frá 6. júlí 2004.
Gámar með eigum stefnanda voru geymdir á gámasvæði Hafnarbakka þar til í september 2006, en þann 5. september 2006 greiddi stefnandi kröfu stefnda vegna leigu á geymslusvæði og gámum fyrir tímabilið ágúst 2005 til ágúst 2006, samtals 1.857.500 krónur. Krafan sundurliðast svo að höfuðstóll er 1.499.118 krónur, dráttarvextir til 5. september 2006 160.386 krónur og innheimtuþóknun 197.996 krónur. Stefnandi greiddi með fyrirvara um réttmæti kröfunnar og endurkröfu.
Með bréfum, dagsettum 27. júlí 2007 og 31. mars 2008, krafðist stefnandi endurgreiðslu en af hálfu stefnda var endurgreiðslukröfu stefnanda ekki svarað.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um endurgreiðslu á 1.857.500 krónum á því að stefnda hafi aldrei verið nauðsynlegt að hafa vörslur á eigum stefnenda til tryggingar á kostnaði vegna útburðar af jörðinni Auðsholti. Þá hafi stefnda verið óheimilt að meina stefnanda að fá umráð yfir eigum sínum. Haldsréttur hafi aldrei stofnast og varsla stefnda á eigum stefnanda hafi því verið ólögmæt. Þá byggir stefnandi á því að hafi haldsréttur á annað borð verið til staðar hafi hann fallið niður 10. september 2005.
Stefnandi byggir á því að lögmaður hans hafi haft samband við lögmann og fyrirsvarsmann stefnda þann 3. júní 2005 til að freista þess að fá eigur stefnanda afhentar. Lögmaður stefnanda hafi þá óskað eftir því að eigur stefnanda yrðu ekki fluttar af jörðinni fyrr en búið væri að setja allt í gáma. Að því loknu myndi stefnandi greiða kostnað við gerðina og fá gámana afhenta í kjölfarið. Fyrirsvarsmenn stefnda svöruðu málaleitan lögmanns stefnanda með því að stefnandi yrði að greiða áfallinn lögmannskostnað, 500.000 krónur fyrir óskilgreinda vinnu fyrirsvarsmanna stefnda vegna hreinsunar og tiltektar á jörðinni. Þá yrði stefnandi að falla frá öllum frekari kröfum á hendur stefnda og fyrirsvarsmönnum stefnda persónulega. Lögmaður stefnanda hafi í framangreindu bréfi frá 4. júní 2005 tilkynnt að stefnandi teldi þessa skilmála óaðgengilega. Hluti þess kostnaðar sem stefndi hafi krafið stefnanda um greiðslu á gegn því að afhenda eigur hans hafi að mati stefnanda verið útburðargerðinni óviðkomandi. Stefnandi kveður þetta mat sitt hafa verið staðfest í dómi Hæstaréttar þann 18. júní 2007. Stefnandi telur því ljóst að ekki hafi verið grundvöllur fyrir haldsrétti í eigum hans.
Stefnandi kveðst einnig hafa boðið fram fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu á kostnaði stefnda vegna útburðargerðarinnar, 2.000.000 króna. Stefnandi hafi greitt umrædda tryggingu inn á fjárvörslureikning hjá lögmanni sínum. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi hafnað þessari tryggingu sem ófullnægjandi með tölvubréfi dagsettu 7. júní 2005. Stefnandi telur framboðna tryggingu hins vegar hafa verið fullnægjandi og bersýnilega hafi verið ósanngjarnt af hálfu stefnda að neita honum um að fá eigur sínar afhentar gegn tryggingunni. Stefnandi hafi með þessu reynt að leysa málið og fá umráð eigna sinna og draga þar með úr þeim kostnaði sem síðar féll til vegna leigu á gámum og geymslusvæði.
Stefnandi lítur svo á að stefnda hafi verið óheimilt að beita haldsrétti í eigum stefnanda þar sem á meðal þeirra muna hafi verið munir sem hafi verið stefnanda og fjölskyldu hans nauðsynlegir til heimilishalds, m.a. þvottavél, uppþvottavél, húsgögn og ýmsir persónulegir munir. Stefnandi telur, m.a. með vísan til 1. mgr. 43. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, að stefndi hafi með ólögmætum hætti meinað stefnanda umráð yfir þessum eigum sínum. Með því að svipta stefnanda og fjölskyldu hans eigum sem þau hafi í raun ekki getað verið án hafi stefndi gengið lengra en lög heimili. Haldsréttur stefnda hafi því verið ólögmætur og beri stefnda að endurgreiða stefnanda allan kostnað ásamt vöxtum auk skaðabóta.
Stefnandi byggir ennfremur á því að hafi haldsréttur verið til staðar hefði verið eðlilegt að stefndi nýtti nauðungarsöluheimild samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í stað þess að nýta þá heimild hafi stefndi höfðað mál á hendur stefnanda til innheimtu á þessum sömu kröfum með stefnu, dagsettri 10. september 2005. Stefnandi kveðst telja að hafi haldsréttur stefnda verið til staðar hafi hann fallið niður við málshöfðunina. Varsla stefnda á eigum stefnanda eftir málshöfðunina hafi því verið ólögmæt. Því beri stefnda að endurgreiða stefnanda kostnað við leigu á geymslusvæði og gámum frá þeim tíma er umrætt mál hafi verið höfðað og þar til stefnandi hafi greitt kröfu stefnda með fyrirvara þann 5. september 2006.
Stefnandi segir fjárkröfu sína byggja á sömu upphæð og hann hafi greitt stefnda með fyrirvara þann 5. september 2006 auk dráttarvaxta samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. september 2006 til greiðsludags.
Stefnandi kveðst gera kröfu um skaðabætur úr hendi stefnda vegna skemmda á munum, afnotamissis, óþæginda og miska sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að honum hafi verið meinuð umráð yfir eigum sínum á ólögmætan hátt í hálft annað ár. Stefnandi segist byggja kröfu sína einkum á því að stefndi hafi ekki sinnt umönnunarskyldu þeirri sem á honum hafi hvílt og leiða megi af almennum reglum kröfuréttar.
Þegar stefnandi hafi loks fengið umráð eigna sinna í september 2006 hafi komið í ljós að munir sem geymdir höfðu verið í gámunum hefðu orðið fyrir miklum skemmdum sökum óvandaðrar meðferðar, raka og kulda. Meðal þeirra muna sem hafi skemmst hafi verið nánast öll búslóð stefnanda og fjölskyldu hans, t.d. húsgögn, s.s. sófasett, fataskápar, heimilistæki, hillur, bækur og myndaalbúm með fjölskyldumyndum. Sumir munanna hafi verið með öllu ónothæfir vegna rakaskemmda og fúkka. Auk búslóðarinnar hafi fleiri munir og tæki skemmst, m.a. hafi orðið skemmdir á sláttutraktor og snjósleða sökum harkalegrar meðferðar að því að virðist þegar þeir hafi verið settir inn í gámana. Þá hafi hundruð lítra af málningu eyðilagst þar sem hún hafi frosið í gámunum. Stefnandi hafi með þessu orðið fyrir eignatjóni og óbætanlegu tilfinningatjóni þar sem skemmdir á myndaalbúmum fjölskyldunnar séu óafturkræfar.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar verið skylt að gæta þess að munir stefnanda sem stefndi hélt í skjóli haldsréttar væru meðhöndlaðir og geymdir á forsvaranlegan hátt. Í því felist m.a. skylda til að hindra að viðkvæmir munir verði fyrir raka- og frostskemmdum eða annars konar rýrnun eða eyðileggingu. Með því að vanrækja umönnunarskyldu sína hafi stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa fundið upphæð bótakröfunnar út að álitum og telji hana vera í hóf stillt þegar tekið sé tillit til þess eignatjóns, afnotamissis og miska sem hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir en mál þetta hafi valdið þeim miklu hugarangri og óþægindum.
Stefnandi segist gera kröfu um að stefndi greiði honum vexti af upphæð skaðabóta frá tjónsdegi, þ.e. þegar fyrirsvarsmenn stefnda hafi ákveðið að meina stefnanda að ljúka við að fjarlægja eigur sínar af jörðinni og neitað stefnanda að fá umráð eigna sinna gegn greiðslu tryggingar þann 4. júní 2005. Þá krefst stefnandi dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
Um lagarök vísar stefnandi til 8. gr. og 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga nr. 38/2001. Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu af fyrstu dómkröfu stefnanda aðallega á dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 21. apríl 2006 í máli nr. E-456/2005. Í því máli hafi stefnandi verið dæmdur til að endurgreiða stefnda kostnað sem stefndi hafi haft af útburðargerðinni. Í dóminum hafi stefnandi m.a. verið dæmdur til að endurgreiða reikninga frá Hafnarbakka sem útgefnir hafi verið 30. júní 2005 og 30. júlí s.á. auk reikninga fyrir leigu gáma. Dómi héraðsdóms hafi ekki verið áfrýjað.
Eins og sundurliðun kröfu stefnanda beri með sér sé aðeins um að ræða kostnað sem hafi hlotist af útburðargerðinni. Stefnandi hafi ekki greitt kostnað vegna útburðargerðarinnar eins og sýslumaður hafi mælt fyrir um. Stefnandi hafi því ekki takmarkað tjón sitt og verði því að bera það sjálfur. Stefnandi hafi fengið gámana afhenta um leið og hann hafi verið búinn að greiða kröfuna.
Stefnandi krefji stefnda nú um endurgreiðslu á sams konar reikningum og hann hafi verið dæmdur til að greiða stefnda með framangreindum héraðsdómi. Dómurinn sé fordæmisgefandi hvað þennan geymslukostnað varði.
Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að halda því lausafé sem borið hafi verið út af jörðinni Auðsholti á grundvelli almennra reglna um haldsrétt þar til kostnaður af útburðargerðinni hafi verið að fullu greiddur. Stefndi hafi þá átt þann kost að krefjast nauðungarsölu á þeim eignum sem bornar höfðu verið út á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu ef greiðsla hefði ekki borist.
Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi ekki getað sótt umrætt lausafé að Auðsholti vegna aðgerða stefnda. Stefnandi hafi sjálfur sett búslóð sína í gáma vorið 2004 og hafi ekki búið í Auðsholti síðan. Stefnanda hafi ítrekað verið sendar áskoranir um að fjarlægja lausaféð. Þann 25. maí 2005 hafi stefnanda verið send áskorun um að fjarlægja lausaféð og að útburðargerðin færi fram þann 30. maí s.á. Stefnandi hafi ekki orðið við þeirri áskorun og hafi útburðurinn því verið framkvæmdur.
Stefndi telur útilokað að þeir munir sem bornir hafi verið út og haldsréttur tekinn í hafi fallið undir skilgreiningu þeirra muna sem fram komi í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem stefnandi hafi ekki hirt um að sækja munina þrátt fyrir áskoranir stefnda. U.þ.b. eitt ár hafi liðið frá því stefnandi hafi haft fasta búsetu í Auðsholti og þar til lausafé hans hafi verið borið út af jörðinni. Stefndi hafni þeim ummælum í stefnu að munirnir hafi verið hluti daglegs heimilishalds stefnanda.
Stefnandi haldi því fram að hann hafi verið tilbúinn til að greiða allan útburðarkostnað í júní 2005, nema 500.000 króna kostnað eigenda stefnda vegna hreinsunar, lögmannskostnað og að hann hafi átt að falla frá öllum kröfum á hendur stefnda. Stefnandi hafi hins vegar ekkert greitt og sé þessi mótbára hans því ekki trúverðug. Stefnandi hafi einnig boðið 2.000.000 króna tryggingu fyrir útburðarkostnaði í byrjun júní 2005 sem augljóslega hafi verið of lág, enda hafi kostnaður við útburðinn, sem seinna hafi verið dæmdur af héraðsdómi, að höfuðstól 3.847.833 krónur. Stefndi hafi ekki samþykkt þessa tryggingu, enda hafi því verið hafnað í framangreindum dómi héraðsdóms frá 21. apríl 2006.
Stefndi segir að allir gámarnir hafi verið fluttir á gámasvæði Hafnarbakka í júní 2005 að útburði loknum. Gámarnir hafi verið á geymslusvæðinu þar til í september 2006 þar sem stefnandi hafi ekki fyrr en þá greitt kostnað sem hafi hlotist af geymslu munanna. Útburðargerðin hafi verið á ábyrgð stefnda en á kostnað stefnanda og með framangreindum dómi héraðsdóms frá 21. apríl 2006 hafi stefnandi verið dæmdur til að greiða kostnað af sama meiði og hann endurkrefji stefnda nú um.
Stefndi vísar því á bug að haldsréttur hafi fallið niður með málshöfðun þann 10. september 2005 þar sem greiðsla á kostnaði vegna útburðargerðarinnar hafi ekki verið innt af hendi.
Stefndi kveðst telja kröfu stefnanda um skaðabætur vanreifaða. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón sitt krefjist stefndi frávísunar á dómkröfunni. Til vara krefst stefndi sýknu af dómkröfunni. Krafan sé ósönnuð, enda ekki studd neinum gögnum. U.þ.b. eitt ár hafi liðið frá því stefnandi hafi haft fasta búsetu í Auðsholti og þar til lausafé hans hafi verið borið út af jörðinni. Því hafni stefndi því að munirnir hafi verið hluti daglegs heimilishalds stefnanda.
Þeir sex gámar sem tilheyrt hafi stefnanda og hafi verið á hlaðinu í Auðsholti hafi staðið úti um tíma og sumir upp undir ár. Það sé því ekki við stefnda að sakast ef innihald þeirra hafi skemmst. Engar upplýsingar liggi fyrir um ástand þeirra muna sem settir voru í gáma í útburðargerðinni, hvorki fyrir né eftir geymslu gámanna á gámasvæði Hafnarbakka.
Krafa stefnanda sé ekki studd við matsgerð og sé sett fram að álitum. Stefndi telur ósannað að tjón hafi hlotist á munum stefnanda og ef svo sé verði í ljósi framangreinds að telja það á ábyrgð stefnanda, sem hafi verið í lófa lagið að fara með eigur sínar frá Auðsholti allt frá því í september 2003 til 30. maí 2005 er útburður hafi farið fram. Allt frá því útburðurinn var framkvæmdur var lýst yfir haldsrétti í eigum stefnanda til tryggingar kostnaði við gerðina. Stefnandi hafi fengið eigur sínar afhentar í september 2006 um leið og hann hafi greitt kostnað við útburðargerðina.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar um að samninga skuli halda og til ólögfestra reglna íslensks réttar um haldsrétt. Stefndi vísar einnig til aðfararlaga, nr. 90/1989. Þá vísar stefndi til laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, einkum 26. og 45. gr. laganna. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129., 130. og 131. gr. Stefndi krefst virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Niðurstaða.
Stefnandi krefst í fyrsta lagi greiðslu á 1.857.500 krónum úr hendi stefnda. Óumdeilt er að stefnandi greiddi þessa fjárhæð til stefnda þann 5. september 2006 með fyrirvara um endurkröfu.
Ágreiningur aðila um útburð stefnanda af jörðinni Auðsholti hefur áður komið til kasta dómstóla. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 21. apríl 2006 var fallist á dómkröfur stefnda á grundvelli sjö tilgreindra reikninga vegna útlagðs kostnaðar samtals að fjárhæð 3.847.833 krónur. M.a. var um að ræða tvo reikninga útgefna af Hafnarbakka, sem útgefnir voru 30. júní 2005 og 30. júlí s.á. Dómi þessum var ekki áfrýjað og er bindandi um úrlausn þess sakarefnis sem þar var dæmt um, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 3. júní 2004 í máli nr. 157/2004 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Suðurlands frá 30. mars s.á. um að stefndi mætti fá stefnanda borinn út af jörðinni Auðsholti. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför ber stefnandi ábyrgð á kostnaði við útburðargerðina. Óumdeilt er að stefnandi greiddi stefnda hina umkröfðu upphæð og að hún er vegna leigu á geymslusvæði og gámum tímabilið ágúst 2005 til ágúst 2006. Stefndi telur að um sé að ræða kostnað sem hafi hlotist af útburðargerðinni og sem stefnandi beri því ábyrgð á. Í endurriti gerðarbókar sýslumannsins á Selfossi frá 30. maí 2005 kemur fram að útburði verði hagað þannig að munir verði teknir úr húsum og komið fyrir í gámum sem síðan verði geymdir á læstu svæði Hafnarbakka. Kostnaður við leigu á gámunum og geymslu þeirra fellur að mati dómsins undir kostnað við útburð stefnanda og ber hann því samkvæmt greindu lagaákvæði ábyrgð á þessum kostnaði.
Málsaðilar deila einnig um hvort stefndi hafi haft haldsrétt í munum stefnanda sem komið var fyrir í framangreindum gámum, til tryggingar á greiðslu kostnaðar við gerðina. Stefnandi greiddi eins og fyrr greinir ekki kostnað við leigu og geymslu á gámum með munum hans fyrr en 5. september 2006. Leggja verður til grundvallar að stefndi hafi greitt þennan kostnað um sinn og að hann hafi haft vörslur gámanna, þó hann hafi falið þriðja manni að geyma þá. Með vísan til endurrits gerðarbókar sýslumannsins á Selfossi frá 30. maí 2005 verður að telja að stefnandi hafi samþykkt að munir hans yrðu settir í gáma og þeir síðan geymdir. Verður því að telja að uppfyllt séu skilyrði haldsréttar.
Stefnandi telur að óheimilt hafi verið að beita haldsrétti í eigum stefnanda, þar sem þeirra á meðal hafi verið munir sem hafi verið stefnanda og fjölskyldu hans nauðsynlegir til heimilishalds og vísar um það til 1. mgr. 43. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Stefndi mótmælir því að þessir munir hafi verið notaðir við daglegt heimilishald stefnanda. Umrætt lagaákvæði bannar fjárnám ,,í lausafjármunum, sem nauðsynlegir eru gerðarþola og heimilismönnum hans til að halda látlaust heimili með þeim hætti, sem almennt gerist.“ Í 3. mgr. 43. gr. er hins vegar tekið fram að ákvæði 1. mgr. taki ,,ekki til muna, sem standa að veði fyrir kröfu gerðarbeiðanda“. Haldsréttur er í eðli sínu tryggingarréttur sem á að stuðla að því að rétthafi haldsréttar fái tiltekna greiðslu og svipar að því leyti til veðréttinda. Að mati dómsins getur stefnandi því ekki byggt á ákvæði 1. mgr. 43. gr. aðfararlaga. Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort meðal eigna stefnanda hafi verið slíkir munir sem ákvæðið tekur til.
Stefnandi byggir á því, verði talið að haldsréttur hafi stofnast, að hann hafi fallið niður 10. september 2005 við málshöfðun stefnda á hendur honum. Á þetta er ekki fallist. Haldsréttur fellur ekki niður fyrr en við greiðslu á þeirri kröfu sem haldsrétturinn tryggir. Sú málsókn stefnda var auk þess ekki til greiðslu á kröfu stefnda um greiðslu á kostnaði við geymslu á gámunum fyrir tímabilið ágúst 2005 til ágúst 2006.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi borið að greiða stefnda 1.857.500 krónur og að stefndi hafi haft haldsrétt í munum stefnanda sem geymdir voru í gámum á geymslusvæði Hafnarbakka.
Stefnandi krefst í öðru lagi greiðslu á 5.000.000 krónum í skaðabætur vegna skemmda á munum, afnotamissis, óþæginda og miska þar sem honum hafi verið meinuð umráð eigna sinna með ólögmætum hætti í hálft annað ár. Stefndi mótmælir skaðabótakröfu stefnanda og telur hana vanreifaða. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi verið heimilt að beita haldsrétti í munum stefnanda sem geymdir voru í gámum á geymslusvæði Hafnarbakka. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna bótakröfu stefnanda vegna afnotamissis, óþæginda og miska. Kemur þá til skoðunar bótakrafa stefnanda vegna skemmda á munum. Að mati dómsins skortir verulega á reifun stefnanda á þessari kröfu. Í stefnu eru ekki taldir upp allir þeir munir sem urðu fyrir skemmdum, heldur einungis talin upp nokkur dæmi. Sú upptalning stefnanda er afar almenn, s.s. ,,nánast öll búslóð stefnanda “, ,,sófasett, fataskápa, heimilistæki og hillur“, ,,bækur og myndaalbúm með fjölskyldumyndum“ og ,,hundruð lítra af málningu“. Þá segir stefnandi að sumir munir úr búslóð stefnanda hafi verið með öllu ónothæfir, en gerir enga tilraun til að gera grein fyrir því hvaða munir hafi skemmst og hverjir séu ónýtir. Þá gerir stefnandi enga grein fyrir verðmæti skemmdra og ónýtra muna eða viðgerðarkostnaði á skemmdum munum. Stefnanda var þó í lófa lagið að sýna fram á ætlað tjón sitt með matsgerð. Loks gerir stefnandi enga tilraun til að rökstyðja upphæð bótakröfu sinnar, nema með óljósri tilvísun til þess að henni sé í hóf stillt. Þegar litið er til þessa er það mat dómsins að krafa stefnanda um skaðabætur sé svo vanreifuð að hún sé ódómtæk og verður henni því vísað frá dóminum.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnandi greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega vera ákveðinn 500.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Auðsholt ehf., er sýknað af kröfu stefnanda, Runólfs Björns Gíslasonar, um greiðslu á 1.857.500 krónum.
Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um skaðabætur úr hendi stefnda að fjárhæð 5.000.000 krónur.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.