Hæstiréttur íslands
Mál nr. 698/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Útlendingur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og a. liðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að erlendum aðila, sem kveðst X og vera fæddur […] 1984, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember 2017, kl. 16:00. Til vara er þess krafist að kærða verði bönnuð för frá landinu á sama tímabili.
Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að farbanni verði beitt í stað gæsluvarðhalds.
Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglan hafi nú til rannsóknar mál er varði ætluð brot varnaraðila og annarra á ákvæðum útlendingalaga. Varnaraðili hafi verið handtekinn í gær í kjölfar þess að hann, í félagi við annan mann, hafi sótt póstsendingu í póstafgreiðslu Íslandspósts sem innihélt ferðaskilríki sem lögregla ætli að séu fölsuð. Um hafi verið að ræða póstsendingu sem send hafi verið til landsins frá Grikklandi í ábyrgðarpósti og stíluð á samferðarmann varnaraðila. Póstsendingin hafi reynst innihalda tvö grísk vegabréf, annað sem líti út fyrir að vera útgefið á varnaraðila og hitt á samferðarmann hans. Við handtöku hafði varnaraðili meðferðis georgískt vegabréf með nafninu X, fæddur […] 1984. Reyndist sama mynd vera í því vegabréfi og því gríska en það vegabréf var ánafnað A.
Varnaraðili hafi verið yfirheyrður ásamt samferðarmanni sínum í gær. Við þá yfirheyrslu kvaðst hann ekkert vita um téða póstsendingu, sem hann taldi að innihéldi tóbak. Sé framburður varnaraðila að mati lögreglu ótrúverðugur og í engu samræmi við önnur gögn málsins né heldur framburð samferðamanns hans.
Rannsókn lögreglu hafi þegar leitt í ljós að gríska vegabréfið hafi verið tilkynnt stolið. Sé það niðurstaða skilríkjasérfræðings lögreglu að vegabréfið sé breytifalsað. Þá hafi athugun lögreglu á persónuupplýsingum úr georgíska vegabréfinu leitt í ljós að varnaraðili sé í ólöglegri dvöl á Schengen svæðinu og sé í endurkomubanni bæði frá Noregi og Þýskalandi, hvar hann hafði komið sér undan ákvörðun um brottvísun. Unnið sé að því að rannsaka nánar lögmæti allra framangreindra persónuskilríkja auk þess sem unnið sé að því að afla upplýsinga á grundvelli fingrafara varnaraðila en beðið sé frekari upplýsinga frá erlendum löggæsluyfirvöldum hvað það varði.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri sig hafa rökstuddan grun um að varnaraðili hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á e., f. og h-lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga en brot gegn ákvæðinu varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Er unnið að því að upplýsa hver varnaraðili sé í raun og veru og að kanna nánar tilhögun ferðar hans hingað til lands, í hvaða tilgangi og á hvers vegum. Sé þannig hafin gagnaöflun á erlendri grundu um persónu varnaraðila og telji lögregla jafnframt þörf á að kanna með brotaferil hans erlendis. Jafnframt vinni lögregla að því að afla upplýsinga um samverkamenn varnaraðila, hér á landi og erlendis. Samkvæmt þessu telji lögreglustjóri nauðsynlegt að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar. Telji lögreglustjóri þannig að varnaraðili kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus ellegar reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn eða fullnustu refsingar. Í ljósi aðstæðna í máli þessu sé ekki sé völ á vægari úrræðum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er þess krafist að fallist verði á kröfuna og varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Varnaraðili var handtekinn í gær í kjölfar þess að hafa sótt tvö grísk vegabréf á pósthús sem lögregla ætlar að séu fölsuð, en annað vegabréfið leit út fyrir að vera útgefið á varnaraðila. Þá var varnaraðili einnig með Georgískt vegabréf með nafninu X sem sömu mynd og var í fyrrnefndu grísku vegabréfi sem ánafnað var A. Er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa framvísað við lögreglu stolnu og breytifölsuðu grísku vegabréfi. Auk þess hefur rannsókn lögreglu þegar leitt í ljós að réttur handhafi Georgíska vegabréfsins, sé um varnaraðila að ræða, dvelji ólöglega á Schengensvæðinu. Beinist rannsókn lögreglu að því að upplýsa hver varnaraðili er, auk þess rannsaka lögmæti þeirra persónuskilríkja sem lagt hefur verið hald á við rannsókn málsins. Er fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili gefi rangar upplýsingar um hver hann er. Er fallist á að fyrir hendi séu rannsóknarhagsmunir sem réttlæti að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. einnig 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, sem kveðst heita X, fæddur […] 1984, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember 2017, kl. 16:00.