Print

Mál nr. 222/2006

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsagnarfrestur
  • Aðilaskipti
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. nóvember 2006.

Nr. 222/2006.

G.P.G. Fiskverkun ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Gunnari Finnboga Jónassyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur. Aðilaskipti að fyrirtækjum. Sératkvæði.

Starfsfólki Jökuls ehf. á Raufarhöfn var tilkynnt í lok maímánaðar 2003, að fyrirhuguð væri gagnger endurskipulagning á starfsemi fyrirtækisins. Breyta ætti framleiðslunni þannig að unninn yrði léttsaltaður þorskur í stað lausfrystra flakabita og blokkarvinnslu. Stöðugildum yrði fækkað úr rúmlega 50 í um 20 og nauðsynlegar breytingar gerðar á húsakynnum og vélakosti. Þegar var hafist handa við framkvæmd þessara breytinga. Í júní 2003 var öllu starfsfólkinu, þ. á m. G, sagt upp störfum hjá Jökli ehf. Um sumarið tók G.P.G. við verkefninu og breyttust framangreind áform ekki að neinu verulegu leyti við það. G.P.G. leigði allar húseignir Jökuls ehf. sem notaðar höfðu verið við fiskvinnsluna og þau tæki sem nýta mátti, auk þess sem Jökull ehf. kostaði að hluta nauðsynlegar breytingar á tækjakosti. Um 20 fyrrverandi starfsmenn Jökuls ehf. voru ráðnir til starfa hjá G.P.G, þ. á m. G sem framleiðslustjóri. G fékk greidd lægri laun en áður og þegar honum var sagt upp störfum í júlí 2004 fékk hann einungis eins mánaðar uppsagnarfrest. G taldi að G.P.G. hefði verið þetta óheimilt þar sem G.P.G. væri bundið af ákvæðum laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, kemur fram að um aðilaskipti sé að ræða í skilningi laga nr. 72/2002 ef fyrirtæki heldur „einkennum sínum“. Þegar atvik málsins voru skoðuð í ljósi meginmarkmiðs laganna um verndun launamanna við þær aðstæður þegar nýir vinnuveitendur taka við atvinnustarfsemi og viðmiðanna við túlkun á hugtakinu „aðilaskipti“, var talið að aðilaskipti í skilningi laganna hefðu átt sér stað. Hafi G.P.G. því borið á grundvelli laganna að virða þau launakjör og starfsréttindi sem G hafði áunnið sér.                                                                                                                                                                                          

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2006. Hann krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum voru, samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga, meðal annars sett í því skyni að innleiða tilskipun nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sbr. tilskipun nr. 77/187/EBE og tilskipun nr. 98/50/EB. Jafnframt kemur fram í athugasemdunum að meginmarkmið laganna hafi verið að setja ákvæði til að tryggja réttindi launamanna þegar nýir vinnuveitendur taki við starfsemi. Leiðbeiningar sem Evrópudómstóllinn telur að líta beri til við mat á því hvort fyrirtæki haldi einkennum sínum, eru ennfremur reifaðar í athugasemdunum. Vísað er til máls C-24/85 (Speijkers) um þessi meginviðmið og það að leggja beri heildstætt mat á þau og önnur atriði sem skipt geta máli. Er þetta nánar rakið í hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt málsgögnum liggur fyrir að starfsfólki Jökuls ehf. á Raufarhöfn var tilkynnt í lok maímánaðar 2003, að fyrirhuguð væri gagnger endurskipulagning á starfsemi Jökuls ehf. Breyta ætti framleiðslunni þannig að unninn yrði léttsaltaður þorskur í stað lausfrystra flakabita og blokkarvinnslu. Af þessu leiddi að stöðugildum yrði fækkað úr rúmlega 50 í um 20. Nauðsynlegar breytingar yrðu einnig gerðar á húsakynnum og vélakosti. Yrði stefnt að því að hin nýja starfsemi hæfist um haustið að loknum sumarleyfum. Þegar var hafist handa við framkvæmd þessara breytinga með uppsögnum starfsfólks. Vegna gagnrýni á hvernig staðið hafði verið að uppsögnum voru þær dregnar til baka. Starfsfólkinu var sagt upp að nýju og ákveðið, samkvæmt tilkynningu 16. júní 2003, að vinnslu úr tvífrystu hráefni yrði haldið áfram eftir sumarleyfi til loka september. Vinnsla á léttsöltuðum þorskafurðum skyldi hefjast „í húsnæði Jökuls í haust“. Um sumarið yfirtók áfrýjandi síðan verkefnið og verður ekki séð að framangreind áform hafi breyst við það að neinu verulegu leyti. Áfrýjandi leigði allar húseignir Jökuls ehf. sem notaðar höfðu verið við fiskvinnsluna og þau tæki sem nýta mátti. Jökull ehf. sá einnig um að fjármagna ýmsar nauðsynlegar breytingar á tækjakosti. Vinnslan hófst á svipuðum tíma og áætlað hafði verið, eða 1. október 2003 og skiptir í þessu samhengi ekki máli þó að leigusamningur aðila væri ekki formlega undirritaður fyrr en 15. desember sama ár. Þriðjungur starfsmanna var endurráðinn eins og til hafði staðið. Samkvæmt samningi lét Jökull ehf. áfrýjanda í té hráefni til vinnslu, en ágreiningur er um hvort það gekk eftir. Framleiðslan var ekki eðlisólík þeirri sem stunduð hafði verið, starfhæf efnahagsleg eining hafði verið til staðar sem með breytingum var nýtt áfram við hina nýju vinnslu. Áfrýjandi hafði hins vegar áður framleitt fyrir hefðbundna saltfiskmarkaði og má vænta þess að hann hafi getað nýtt þau viðskiptasambönd.

Þegar allt framangreint er metið í ljósi leiðbeininga um skýringu á hugtakinu „aðilaskipti“ í 4. tölulið 2. gr. laga nr. 72/2002 og þær virtar með hliðsjón af því meginmarkmiði laganna að setja ákvæði um verndun launamanna við þær aðstæður þegar nýir vinnuveitendur taka við atvinnustarfsemi, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, þá er staðfest niðurstaða hans um að aðilaskipti í skilningi laganna hafi átt sér stað.

Sannað er að forsvarsmaður áfrýjanda falaðist eftir vinnu stefnda um sumarið 2003 og að stefndi byrjaði að vinna hjá honum nokkru áður en vinnslan hófst á Raufarhöfn undir merkjum áfrýjanda. Honum var falið að koma af stað og stjórna framleiðsluferlinu þar. Samkvæmt þessu var eðlileg samfella á starfstíma að því stefnda varðar. Skiptir ekki máli hvaða fyrirkomulag var á greiðslum til stefnda fyrstu mánuðina og að hve miklu leyti hann vann þá einnig hjá Jökli ehf. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna verður héraðsdómur staðfestur.

Áfrýjandi skal greiða stefna málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, G.P.G. Fiskverkun ehf., greiði stefnda, Gunnari Finnboga Jónassyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. 

                                                                           


Sératkvæði

Árna Kolbeinssonar

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hafði stefndi um árabil starfað við fiskvinnslu hjá Jökli ehf. Raufarhöfn. Hafði hún falist í vinnslu lausfrystra flakabita og frosinnar blokkar fyrir Bandaríkjamarkað úr tvífrystu hráefni, svonefndum rússafiski. Vinnslan var rekin með tapi og ákvað Jökull ehf. því í maílok 2003 að hætta þessari vinnslu og segja upp öllu starfsfólki. Ágreiningur reis um hvort rétt hefði verið staðið að uppsögnunum og voru þær dregnar til baka en starfsfólki sagt upp að nýju í júní sama ár og komu þær uppsagnir til framkvæmda miðað við 1. júlí. Þegar uppsagnirnar voru tilkynntar var jafnframt greint frá áformum Jökuls ehf. um að endurskipuleggja framleiðsluna og hefja framleiðslu léttsaltaðra þorskafurða og endurráða hluta starfsfólks til þeirrar framleiðslu. Þessi áform komu ekki til framkvæmda. Þess í stað leigði Jökull ehf. áfrýjanda ótímabundið meginhluta þeirra fasteigna sem atvinnurekstrinum á Raufarhöfn tengdust ásamt vélakosti. Hóf áfrýjandi þar framleiðslu á léttsöltuðum flökum fyrir Spánarmarkað 1. október 2003 og réð um þriðjung þeirra starfsmanna, sem unnið höfðu hjá Jökli ehf., til þeirrar framleiðslu. Stefndi hóf strax störf hjá áfrýjanda, í upphafi samhliða störfum tengdum frágangi fyrir Jökul ehf., en frá ársbyrjun 2004 vann hann eingöngu fyrir áfrýjanda og þáði laun hjá honum. Áfrýjandi sagði stefnda upp 27. júlí 2004 með mánaðar fyrirvara.

 Kröfur stefnda í máli þessu taka mið af því að honum hafi borið sömu launakjör hjá áfrýjanda og hann naut hjá Jökli ehf. og að hann hafi átt þar sex mánaða uppsagnarfrest. Greinir aðila fyrst og fremst á um hvort ákvæði laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eigi við um það þegar áfrýjandi hóf rekstur á Raufarhöfn í stað Jökuls ehf. og hvort réttarstaða stefnda ráðist því af ákvæðum þeirra laga. Samkvæmt 4. tölulið 2. gr. eru það aðilaskipti í merkingu laganna þegar aðilaskipti verða á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Með vísan til túlkunar Evrópudómstólsins á tilskipun þeirri, sem innleidd var með lögunum, þarf samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til þeirra að líta til tiltekinna atriða við mat á því hvort aðilaskipti að fyrirtæki falli undir gildissvið laganna. Þar þarf að líta til þess um hvaða tegund fyrirtækis er að ræða. Þá skiptir máli hvort áþreifanleg verðmæti eru framseld, svo sem fasteignir eða lausafé og hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram. Jafnframt er litið til þess hvort meirihluti starfsmanna flyst til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi heldur viðskiptamönnum framseljanda. Þá skiptir sá tími sem rekstur liggur niðri máli sem og að hve miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin. Þessi atriði ber að meta heildstætt og að mínu mati með samanburði á starfseminni eins og hún var fyrir ætluð aðilaskipti við þá starfsemi sem rekin er eftir þau. Skiptir í þeim efnum ekki máli að ætlaður framseljandi rekstrarins hafi sjálfur haft uppi áform um að breyta rekstri sínum ef þau áform voru ekki komin til framkvæmda. Í því máli sem hér um ræðir liggur ekkert fyrir um að Jökull ehf. hafi sumarið 2003 hafist handa um að hrinda áformum um framleiðslu á léttsöltuðum flökum í framkvæmd. Ljóst er að áfrýjandi tók á leigu meginhluta fasteigna og vélbúnað þann sem notaður var í starfsemi Jökuls ehf. á Raufarhöfn. Ekki verður hins vegar talið að óhlutbundin verðmæti sem máli skipta og tengst kunna að hafa rekstri Jökuls ehf. hafi flust til áfrýjanda. Einnig er ljóst að viðskiptasambönd og viðskiptamannahópur Jökuls ehf. fluttist að engu leyti til áfrýjanda enda markaðssvæði afurðanna ólík, en áfrýjandi mun vera rótgróið saltfiskvinnslufyrirtæki með þekkingu á markaði fyrir saltaðar afurðir á Spáni. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að um þriðjungur starfsmanna Jökuls ehf. var ráðinn til áfrýjanda. Starfsemi  lá niðri í þrjá mánuði eftir að Jökull ehf. hætti vinnslu og þar til vinnsla hófst hjá áfrýjanda. Þá er ljóst að þótt fiskvinnsla hafi verið stunduð bæði af Jökli ehf. og áfrýjanda var þónokkur munur á eðli framleiðslunnar bæði með tilliti til vinnsluaðferða, framleiddra afurða, mannafla við vinnsluna og markhópa sem beina átti sölu afurðanna til. Þegar öll framangreind atriði eru metin heildstætt tel ég að umræddar breytingar á fiskvinnslurekstri á Raufarhöfn falli ekki undir gildissvið laganna.

Fyrir liggur að stefndi lét í ljós óánægju með launakjör sín í febrúar 2004. Í framhaldi af því sömdu aðilar um að áfrýjandi myndi greiða stefnda, auk þeirra mánaðarlauna sem greidd höfðu verið fyrir janúar 2004, 50.000 krónur í bílastyrk á mánuði. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að samningar hafi tekist milli aðila um greiðslu hærri launa honum til handa. Að öllu þessu virtu tel ég að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda.

 Í ljósi atvika málsins tel ég að hvor aðili eigi að bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. janúar 2006. 

Mál þetta, sem dómtekið var þann 6. desember s.l., hefur Gunnar Finnbogi Jónasson, kt. 060456-4379, Lindarholti 10, 675 Raufarhöfn, höfðað hér fyrir dómi á hendur G.P.G. fiskverkun ehf., kt. 711097-2609, Suðurgarði 640 Húsavík, með stefnu útgefinni 12. ágúst 2005.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæð samtals kr. 3.471.410 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu

af                kr.                      78.309                   frá              ½´04                 til                1/3´04

                                        156.618                                    1/3´04                                1/4´04

                                        234.927                                    1/4´04                                1/5´04

                                        313.236                                    1/5´04                                1/6´04

                                        391.545                                    1/6´04                                1/7´04

                                        469.854                                    1/7´04                                1/8´04

                                        548.163                                    1/8´04                                1/9´04

                                        626.472                                    1/9´04                                1/10´04

                                     1.120.781                                    1/10´04                              1/11´04

                                     1.615.090                                    1/11´04                              1/12´04

                                     2.109.399                                    1/12´04                              1/1´05

                                     2.603.708                                    1/1´05                                1/2´05 og

                                     3.471.410                   frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum kr. 531.184 sem stefnandi fékk í laun og atvinnuleysisbætur á ofangreindu tímabili.  Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50,1988

Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.  Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð verulega og stefnda verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.

Mál þetta varðar túlkun á ákvæðum laga nr. 72, 2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, um rétt til launa og lengd uppsagnarfrests.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hóf stefnandi að starfa við fiskvinnslu hjá Jökli ehf. á Raufarhöfn árið 1970, en fimm árum síðar, er hann hafði lokið réttindanámi í Fiskvinnsluskólanum var hann ráðinn einn af verkstjórum félagsins og frá árinu 1980 varð hann framleiðslustjóri, sbr. ráðningarsamning þar um, sem dagsettur er 16. maí 2000.

Árið 1999 keypti Útgerðarfélag Akureyringa ehf. Jökul ehf. af Raufarhafnarhreppi.

Fyrir liggur að þann 27. júní 2003 var öllum starfsmönnum Jökuls ehf., þ.á.m stefnanda sagt upp störfum, alls um 60 manns, með svonefndri hópuppsögn, og var tilefnið langvarandi taprekstur.  Var stefnanda sagt upp með sex mánaða uppsagnarfresti í samræmi við þann uppsagnarfrest sem hann hafði áunnið sér samkvæmt áðurnefndum ráðningarsamningi.  Nokkru áður hafði slík hópuppsögn farið fram, en hún dregin til baka vegna ætlaðra formgalla.

Samkvæmt lýsingu stefnanda var í tilefni síðari uppsagnanna hinn 27. júní haldinn fundur með starfsfólkinu af hálfu fyrirsvarsmanna eiganda, Útgerðarfélags Akureyringa ehf., þ.á.m. Guðbrandi Sigurðssyni þáverandi framkvæmdastjóra.  Á fundinum var greint frá því að vinnsluaðferðum hjá Jökli ehf. yrði breytt og að 20-25 starfsmenn yrðu endurráðnir, að þeir myndu halda öllum sínum réttindum, en að Útgerðarfélagið myndi annast vinnsluna.

Samkvæmt lýsingu stefnda hætti Jökull ehf. allri fiskvinnslu á Raufarhöfn um mánaðamótin júní/júlí 2003, og fékk verkafólk greidd laun í uppsagnarfresti til loka septembermánaðar.  Liggur fyrir að fyrirsvarsmönnum Útgerðarfélagsins var það ljóst að lokun vinnustaðarins var reiðarslag fyrir byggðina á Raufarhöfn og þeir því haft frumkvæði að viðræðum við stjórnendur stefnda, G.P.G. fiskverkun á Húsavík, um hvort að það félag gæti gert eitthvað með húsnæði Jökuls þannig að skapa mætti ný störf, en á greindum tíma átti Útgerðarfélagið 50% eignarhlut í stefnda.  Í þessum viðræðum voru viðraðar hugmyndir um stofnun á fiskmóttöku með 1-2 starfsmönnum og allt til þess að stofna til rekstrar saltfiskvinnslu af minni gerðinni.  Niðurstaðan hafi að lokum orðið sú að stefndi hafi  afráðið að taka hluta af húsnæði Jökuls ehf. á leigu í eitt ár til reynslu, frá 1. október 2003 til 1. október 2004 með það að markmiði að setja á fót útibú, þ.e. tilraunavinnslu á léttsöltuðum pækilflökum.  Vegna þessa hafi stefndi og Verkalýðsfélag Raufarhafnar í septembermánuði 2003 gert samning sín í milli um kjör þess verkafólks er hefja myndi störf í útibúinu hinn 1. október 2003, sbr. dskj. nr. 6.

Ágreiningslaust er að í júlímánuði 2003 ræddi framkvæmdastjóri stefnda, Gunnlaugur Karl Hreinsson, við stefnanda og tjáði honum frá áformum félagsins og innti hann jafnframt eftir því hvort hann væri reiðubúinn að sjá um vinnsluna fyrir stefnda.  Liggur fyrir að stefnanda samþykkti málaleitan framkvæmdastjórans og unnu þeir í framhaldi af því í ágúst- og septembermánuði að skipulagningu starfseminnar og kynntu hana m.a. á fundi með u.þ.b. 20 verðandi starfsmönnum.  Hófst vinnsla stefnda í húsnæði Jökuls ehf. á Raufarhöfn þann 1. október 2003, en formlegur leigusamningur þar um var undirriðaður 15. desember sama ár.

Stefnandi heldur því fram að á greindu undirbúningstímabili hafi launakjör hans komið til tals og hann þá látið í ljós þá skoðun að hann myndi ekki sætta sig við lægri laun en hann hefði áður haft hjá Jökli ehf., en ágreiningslaust er að hann starfaði og var á launaskrá hjá félaginu til ársloka 2003.  Er ágreiningur með aðilum að þessu leyti.  Heldur stefndi því fram að stefnandi hafi verið ráðinn á töluvert lægri launum heldur en hann hafði samkvæmt ráðningarsamningi sem framleiðslustjóri hjá Jökuls ehf., þ.e. kr. 494.309, en fyrir liggur að hinn 1. febrúar fékk hann útborguð laun fyrir janúarmánuð kr. 416.000.  Heldur stefnandi því fram að greind launakjör hafi verið einhliða ákvörðuð af framkvæmdastjóra stefnda, er hafi verið í ósamræmi við viðræður þeirra um kjörin fyrr um sumarið.  Hafi hann verið ósáttur vegna þessa og minnt framkvæmdastjórann á fyrri viðræður þeirra og hafi þá orðið að niðurstöðu að stefndi myndi greiða auk greindra launa kr. 50.000 í bílastyrk á mánuði, sem þó hafi ekki verið staðið við fyrr en í apríl 2004 fyrir fyrstu fjóra mánuðina.

Samkvæmt gögnum lokaði stefndi fiskvinnslu sinni á Raufarhöfn vegna sumarleyfa frá 23. júlí til 15. ágúst 2004, en þann 27. júní barst stefnanda í hendur uppsagnarbréf frá stefnda, sem dagsett er 27. júlí 2004.  Að sögn stefnda var ástæða uppsagnarinnar m.a. framkomnar upplýsingar frá samstarfsfólki um stjórnun stefnanda á fyrirtækinu.  Samkvæmt bréfinu var uppsagnarfrestur stefnanda einn mánuður frá 31. júlí 2004.  Fékk hann í samræmi við það laun fyrir ágústmánuði 2004, en auk þess desemberuppbót.

Fyrir liggur í málinu að eftir starfslok stefnanda voru nokkur bréfaskipti með málsaðilum, en stefnandi hafði m.a. leitað eftir aðstoðar Verkstjórasambands Íslands.  Ritaði Verkstjórasambandið bréf til stefnda hinn 6. september 2004 og krafðist fimm mánaða lengri uppsagnarfrests til handa stefnanda en kveðið var á í greindu uppsagnarbréfi, með vísan til þess að um aðilaskipti að fyrirtæki hefði verið að ræða samkvæmt lögum nr. 72, 2002.  Þá var í bréfi Verkstjórasambandsins dagsettu 12. janúar 2005 að auki vísað til þess að stefnanda hefði verið lofað óbreyttum starfskjörum af hálfu framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Akureyringa ehf. og stefnda.  Þá liggur fyrir að lögmaður stefnanda krafði stefnda í bréfi hinn 31. maí 2005 um leiðréttingu launa á starfstíma hans, en einnig fimm mánaða aukinn uppsagnarfrest.  Nefndum kröfum andmæltu lögmenn stefnda  með bréfum dagsettum 12. október 2004, 24. apríl 2005 og 9. júní 2005.

II.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að með yfirtöku stefnda á starfsemi Jökuls ehf. á Raufarhöfn hafi stefndi tekist á hendur skyldur gagnvart starfsmönnum þess á grundvelli laga nr. 72, 2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.  Þá hafi stefnda verið óheimilt að breyta einhliða og fyrirvaralaust launkjörum stefnanda þann 1. janúar 2004, og borið að virða kjarasamningsbundinn og áunnin uppsagnarfrest hans.  Af hálfu stefnanda er að þessu leyti vísað til 4. tl. 2. gr. greindra laga, þar sem segir:

„Aðilaskipti eru aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.“

Af hálfu stefnanda er þessu til stuðnings vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 275/2004 og athugasemda er fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72, 2002, þar sem kveðið sé á um skýringu á aðilaskiptum í skilningi tilskipunar nr. 201/23/EB og ennfremur til túlkunar Dómstóls Evrópubandalagslaganna á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar í máli C-24/85.  Hafi dómstóllinn talið að um aðilaskipti væri að ræða í skilningi tilskipunarinnar héldi fyrirtæki einkennum sínum, en við mat á því ætti að áliti dómstólsins m.a. að líta til þess um hvers konar fyrirtæki væri um að ræða, hvort að áþreifanleg verðmæti væru seld og hvert væri verð óhlutbundinna verðmæta.  Þá ætti að líta til þess hvort meirihluti starfsmanna flyttist til hins nýja fyrirtækis, hvort framsalshafi héldi viðskiptavinum framseljanda og hversu langur tími liði þar til starfsemi nýja fyrirtækisins gæti hafist.  Meta ætti öll greind atriði heildstætt.

Með vísan til ofangreinds telur stefnandi það ljóst að stefndi sé bundinn af ákvæðum laga nr. 72, 2002.  Stefndi hafi leigt efnahagslega einingu af Jökli ehf. og hafi einingin haldið einkennum sínum.  Um væri að ræða skipulega heild verðmæta er hafi verið notuð í efnahagslegum tilgangi.  Starfsemi beggja fyrirtækjanna hafi beinst að fiskverkun, öll áþreifanleg verðmæti Jökuls ehf. hafi verið leigð til stefnda.  Loks hafi stór hluti starfsmanna Jökuls ehf. haldið störfum áfram hjá stefnda.

Auk ofannefndra atriða byggir stefnandi á því að alltaf hafi verið talað um það í öllum aðdraganda yfirtöku stefnda á starfsemi Jökuls ehf. á Raufarhöfn að starfsmenn er hæfu störf hjá stefnda héldu öllum réttindum sínum, eins og þau hefðu verið hjá Jökli ehf.  Að sögn hefði þetta gengið eftir, og veikindaréttur einstakra starfsmanna því tekið mið af áunnum réttinum með hliðsjón af störfum þeirra hjá Jökli ehf.

Stefnandi sundurliðar endanlega dómkröfu sína með eftirfarandi hætti:

Það sem á vantar á laun vegna janúar 2004 til ágúst 2004

494.309 - 416.000 = 78.309 x 8                         kr.                                           626.472

 

Laun vegna september 2004 til janúar 2005

494.309 x 5 =                                                                                                     kr.        2.471.545

 

12,07% orlof af kr. 3.098.017                           kr.                                           373.393

                                                                                                                                       kr.        3.471.410

Um frádrátt á stefnukröfum vísar stefnandi til framlagðrar útskriftar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, en þar komi fram að stefnandi hafi fengið greiðslur frá Úthlutunarnefnd Norðurlands eystra í október 2004 kr. 123.864, í nóvember 57.510, desember kr. 137.136 og í janúar 2005 kr. 31.897, eða samtals í atvinnuleysisbætur kr. 350.047.  Þá hafi stefnandi fengið laun frá Fiskmarkaði Þórshafnar í nóvember 2004 kr. 175.777 og frá Raufarhafnarhreppi kr. 5.000 eða kr. 180.777.  Samtals hafi því greiðslur til stefnanda á þessu tímabili verið kr. 531.184 er dragist frá dómkröfunni í samræmi við dómaframkvæmd.

Um lagarök vísar stefnandi til reglna samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga og vinnuréttarins um að virða beri kjarasamninga.  Gildandi kjarasamningur sé kjarasamningur Verkstjórasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 27. maí 2004 og gildi til 31. desember 2007.  Ákvæði um uppsagnarfrest sé að finna í grein 10.1.

Um orlof vísar stefnandi til orlofslaga nr. 30, 1987, en stefnandi hafi áunnið sér orlofsrétt í 29 daga samkvæmt grein 2.1. í kjarasamningi aðila.

Varðandi kröfu um dráttarvexti er krafist dráttarvaxta frá gjalddaga launa og til greiðsludags, sbr. 5. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu.  Byggir stefnandi á ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.  Orlof beri að greiða upp að fullu í lok uppsagnarfrests.

Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991, en um varnarþing til 33. gr. sömu laga.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50, 1988.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að engin aðilaskipti að fyrirtæki eða á hluti að fyrirtæki í skilningi laga nr. 72, 2002 um réttarstöðu starfsmanna hjá fyrirtækjum hafi átt sér stað.  Lögin gildi um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna.  Ekkert framsal á „fyrirtæki“, þ.e. rekstri Jökuls ehf. hafi átt sér stað.  Það fyrirtæki hafi ekki verið framselt neinum aðila heldur hafi það hætt starfsemi.  Þess vegna hafi öllum starfsmönnum Jökuls verið sagt upp sumarið 2003 og hafi sú uppsögn verið lögmæt.

Af hálfu stefnda er á því byggt að engin rekstrareining Jökuls ehf., þ.e. starfhæf efnahagsleg eining, sem hafi haldið einkennum sínum, hafi verið framseld, keypt eða leigð af stefnda á grundvelli löggernings.  Engin samruni hafi heldur átt sér stað.  Hafi slíkt verið ætlan eiganda Jökuls hefði hópuppsögn allra starfsamanna Jökuls verið ólögmæt, sbr. ákvæði í 4. gr. laganna um vernd gegn uppsögnum.  Lögmæti greindra uppsagna Jökuls hafi og aldrei verið dregið í efa.  Á því sé heldur ekki byggt í stefnu að uppsagnir Jökuls hafi verið lögmætur.

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefndi hafi eingöngu tekið hluta af húsnæði Jökuls ehf. á leigu samkvæmt leigusamningi frá 15. desember 2004.  Sé sú fullyrðing og frásögn stefnanda í stefnu, að stefnda hafi tekið á leigu rekstur Jökuls ehf. alröng og eigi því tilvísun til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 275/2004 ekki við.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að er stefndi hóf nýjan og sjálfstæðan rekstur hinn 1. október 2003 í húsnæði Jökuls ehf. hafi verið um nýja starfsemi og rekstur að ræða, þ.e. tilraunavinnsla á nýrri afurð.  Hafi stefndi lagt fram ný tæki og rekstrarfé og þekkingu til þessarar nýju starfsemi og þar sem ekkert framsal á rekstri Jökuls ehf. hafi átt sér stað hafi þurft að segja öllum starfsmönnum Jökuls ehf. upp störfum.  Ástæða hópuppsagnar sumarið 2003 hafi og orðið sú að enginn rekstur Jökuls ehf. hafi verið framseldur til annars aðila.  Rekstri Jökuls ehf. hafi verið hætt en hann hafi falist í hefðbundinni frystingu og botnfiskvinnslu.  Sá rekstur hafi því ekki verið yfirtekinn af neinum rekstraraðila heldur hafi Jökull ehf. hætt freðfiskvinnslu í júlí 2003 vegna langvarandi tapreksturs.

Til þess er vísað af hálfu stefnda að þar sem hann hafi ekki tekið yfir neinn atvinnurekstur hafi hann og Verkalýðsfélag Raufarhafnar þurft að semja sérstaklega á ný um lægri launakjör fyrir þá starfsmenn er ráðnir voru til hinnar nýju tilraunastarfsemi stefnda á pækilsöltuðum flökum frá 1. október 2003.  Stefnandi, einn fyrrum starfsmanna Jökuls ehf., krefjist hins vegar óbreyttra launa eftir að uppsagnarfresti hans lauk hjá Jökli ehf. á grundvelli meintra aðilaskipta á fyrirtækinu.

Vísar stefndi til þess að það eitt að „fiskverkun“ hafi verið endurreist í hluta af fyrrum húsakynnum Jökuls ehf. af stefnda, að hluta til með sama starfsfólki, teljist það ekki vera „aðilaskipti að fyrirtæki“ í skilningi laga nr. 72, 2002.  Bendir stefndi á að framsal á rekstrarhæfri einingu þurfi að eiga sér stað er haldi einkennum sínum og sérkennum, skipulagi, starfsaðferðum og rekstrarfjármunum, sbr. ummæli EFTA dómstólsins í ASKS málinu, E-3/96, 21., en þar hafi dómurinn sérstaklega vísað til dóms Evrópudómstólsins í svonefndu Süzen máli.  Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til dóma Hæstaréttar í málum nr. 435/2002 og nr. 344/2004, sbr. og 2. gr. laga nr. 72, 2002.

Af hálfu stefnda er framangreindum málatilbúnaði stefnanda svo og tilvísun til laga nr. 72, 2002 andmælt af þeirri ástæðu að stefnandi hafi fyrst hafið störf hjá stefnda hinn 1. janúar 2004.  Gildi nefnd lög um réttarstöðu starfsmanna sem séu í starfi við yfirtöku og flytjist yfir til nýs eiganda/framsalshafa, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna.  Þá sé ljóst að rekstur stefnda í leiguhúsnæði á Raufarhöfn hafi hafist þann 1. október 2003.  Hafi því réttarstaða stefnanda er hafi hafið störf hjá stefnda þann 1. janúar 2004 verið sú sama og allra nýrra starfsmanna sem ráðnir voru til starfa hjá stefnda.  Sé því augljóst að stefnandi hafi einfaldlega ráðið sig til nýs fyrirtækis og nýrra starfa hjá útibúi stefnda á Raufarhöfn frá ársbyrjun 2004 eftir sex mánaða uppsagnarfrest og störf hjá Jökli ehf.  Stefnandi hafi og  verið ráðinn til starfans á mun lægri launakjörum en hann hafði áður.  Hafi föst laun stefnda þannig verið 416.000 kr. á mánuði eða 78.000 lægri en þau höfðu verið hjá Jökli ehf., sbr. framlagða launaseðla á dskj. nr. 4 og 21.  Hafi stefnanda fyllilega verið ljóst, líkt og öllum öðrum starfsmönnum stefnda á Raufarhöfn, að hann var ráðinn til nýrra starfa með breyttum starfskjörum í mun minna fyrirtæki en áður hafði þar starfað.  Vegna þessa hafi stefnandi heldur engar athugasemdir gert við stefnda þegar hann samdi um laun sín, enda verið ljóst að um tilraunavinnslu væri að ræða.  Fullyrðingar stefnanda á síðari stigum málsins, löngu eftir uppsögn hjá stefnda, um að hann hafi verið „svikinn“ um greiðslur launa á starfstíma sínum hjá stefnda séu því misvísandi og rangar og með öllu ósannaðar.  Þá standist ekki sú skýring stefnanda að honum hafi verið bætt hin meintu svik með greiðslu bifreiðastyrks.  Hafi stefnandi fengið greiddan útlagðan aksturskostnað í samræmi við ætlaðan raunverulegan akstur í þágu stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi breytt kröfugerð sinn og málatilbúnaði frá upphafi málsins, þ.e. fyrsta kröfubréfi Verkstjórasambands Íslands.  Krefjist stefnandi nú „leiðréttingar“ á umsömdum launum fyrir janúar til ágúst 2005.  Hafi endanleg krafa stefnanda fyrst komið fram í bréfi lögmanns hans í lok maí 2005.  Telur stefndi að tómlæti og aðgerðarleysi stefnanda í tæpt ár sýni glöggt að engin vanskil hafi verið á greiðslu launa á starfstíma hans hjá stefnda, heldur hafi launin verið umsamin og greidd réttilega, enda móttekin af stefnanda án nokkurra athugasemda.  Af hálfu stefnda er þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu, að „alltaf hafi verið talað um það“ að starfsmenn er hætt hafi störfum hjá Jökli ehf. héldi „öllum réttindum“ andmælt sem ósönnuðum.  Það sé heldur ekki rétt að einstakir starfsmenn stefnda hafi haldið slíkum réttindum svo sem veikindarétti, en um þau réttindi ólíkt réttindum til uppsagnar hafi verið samið um í kjarasamningi, sbr. kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands, grein 8.1.6., en einnig í kjarasamningi verkstjóra, sbr. greinar 1.8 og 5.1.

Af hálfu stefnda er því andmælt að hann hafi brotið samninga eða gefið loforð til stefnanda.  Stefnandi hafi ekki átt rétt á 6 mánaða uppsagnarfresti hjá stefnda, skv. kjarasamningi Verkstjórasambandsins, en þar sé miðað við uppsagnarfrest við 15 ára verkstjórastarf hjá sama vinnuveitanda.  Það skilyrði hafi stefnandi ekki uppfyllt.  Þá er öllum kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38, 2001 andmælt.

Sýknu- og varakröfu sína styður stefndi m.a. við það að með öllu sé óljóst hvort stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna uppsagnarinnar.  Ekki sé ljóst hvort og þá hvaða tekjur stefnandi hafi haft á tímabilinu frá ágúst 2004 til febrúar 2005.  Laun eða tekjur frá öðrum aðilum eða vegna vinnu í eigin þágu eigi samkvæmt dómvenju að koma til frádráttar kröfufjárhæðinni.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. og 131. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

III.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi, Gunnar Finnbogi Jónasson og fyrirsvarsmaður stefnda Gunnlaugur Karl Hreinsson, framkvæmdastjóri.  Þá gáfu vitnaskýrslur Guðbrandur Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Brims h.f. á Akureyri, Pálína Auðbjörg Valsdóttir,  formaður Verkalýðsfélags Raufarhafnar á árunum 2000-2004, og Heiðrún Helga Þórólfsdóttir, oddviti Raufarhafnarhrepps og fyrrverandi starfsmaður Jökuls ehf. og stefnda.

                                                                                                IV.

Fyrir liggur að er atvik máls þessa gerðust á árinu 2003 hafði Jökull ehf. á Raufarhöfn verið í eigu Útgerðarfélags Akureyringa ehf. um árabil.  Var síðarnefnda félagið hluti af félaginu Brimi hf. sem aftur var dótturfélag Hf. Eimskipafélags Íslands.  Þá var Útgerðarfélag Akureyringa ehf. helmingseigandi í stefnda G.P.G. fiskverkun ehf., en það félag hefur aðalstarfsstöð á Húsavík og hefur frá árinu 1997 rekið saltfiskvinnslu.

Samkvæmt framlögðum gögnum hafði verið umtalsvert og viðvarandi tap á rekstri Jökuls ehf. á árunum 2002 og 2003.  Mátti rekja hallareksturinn til þess að verð á afurðum félagsins hafði stöðugt lækkað m.a. vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar og lækkandi verðs á afurðum unnum úr tvífrystu hráefni.  Liggur fyrir að vegna þessa gripu eigendur Jökuls ehf. til þess á vordögum 2003 að segja upp öllu starfsfólki sínu, en vegna formgalla voru uppsagnirnar dregnar til baka en síðan endurteknar með nýjum bréfum dagsettum 27. júní.  Var miðað við að starfslok yrðu 1. júlí s.á.  Á meðal þeirra er fengu uppsagnarbréf var stefnandi máls þessa en hann hafði um áraraðir verið verkstjóri og framleiðslustjóri hjá félaginu.  Af hálfu stefnanda eru ekki hafðar upp athugasemdir um lögmæti uppsagnarinnar.

Í tilkynningum sem Brim hf. sendi frá sér 28. maí og  16. júní 2003 vegna greindra aðgerða, og staðfestar voru af fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins vitninu Guðbrandi Sigurðssyni, segir m.a.: „Starfsemi Jökuls ehf. á Raufarhöfn verður tekin til gagngerrar endurskipulagningar frá og með 1. júlí n.k.  Endurskipulagningin felur í sér að í stað lausfrystra flakabita og blokkarvinnslu verður megin áhersla lögð á framleiðslu léttsaltaðra þorskafurða.  Þessar breytingar fela í sér að stöðugildum hjá Jökli mun fækka úr rúmlega 50 í um 20 stöðugildi.  Unnið verður eftir núverandi skipulagi fram að sumarlokum, þ.e. til 1. júlí n.k.  Þá verður ráðist í nauðsynlegar breytingar á húsakynnum og vélakosti en síðan er ætlunin að hefja starfsemina að nýju með breyttum áherslum á haustdögum.  Gert er ráð fyrir því að velta Jökuls eftir breytingarnar verði svipuð og hún hefur verið.  Ástæðan er sú að vinnsla léttsaltaðra þorskafurða er hraðvinnsla og gerir fyrirtækinu fremur kleift að ná arðsemi í vinnslunni en með núverandi vinnslufyrirkomulagi.“  Og í síðari tilkynningunni segir m.a.: „Verða endurráðnir rösklega 20 starfsmenn sem lengstan starfsaldur hafa hjá Jökli.  Frá endurráðningum verður endanlega gengið að loknu sumarleyfisstoppi, sem hefst 30. júní og stendur til 10. ágúst.  Vinnsla á afurðum úr tvífrystu hráefni verður framhaldið eftir sumarleyfi, en gert er ráð fyrir að henni ljúki í lok september.  Við það er miðað að vinnsla á léttsöltuðum þorskafurðum hefjist síðan í húsnæði Jökuls í haust.“

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu breyttust áform eiganda Jökuls ehf. sumarið 2003, þ.e. um áframhald á rekstri félagins.  Liggur og fyrir að þá höfðu stjórnarmenn í stefnda, G.P.G. fiskverkunar ehf., þ.á.m. nefndur Guðbrandur Sigurðsson og framkvæmdastjóri stefnda og Gunnlaugur Karl tekið ákvörðun um að stefndi hæfi framleiðslu á léttsöltuðu þorskflökum á Raufarhöfn í stað Jökuls ehf.  Verður ráðið að fljótlega hafi hafist undirbúningur vegna vinnslunnar í húsnæði Jökuls ehf., þ.á.m. með viðræðum við væntanlegt starfsfólk og gerð samkomulag við Verkalýðsfélag Raufarhafnar um launakjör.  Er það dagsett er 25. september 2003,  og er þar m.a kveðið á um fastan kaupauka (bónus) til einstakra starfsmanna á greidda vinnustund í stað hópbónus er áður hafði gilt hjá Jökli ehf..  Að öðru leyti er í samkomulaginu vísað til almenns kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Fyrir liggur að stefndi hóf atvinnustarfsemi sína í húsnæði Jökuls ehf. þann 1. október 2003, en til grundvallar lá leigusamningur á eigum þess síðarnefnda.  Í leigusamningnum er tekið fram að stefndi greiði ekki leigu fyrir tímabilið frá 1. október til 31. desember 2003 og mun ástæða þess hafa verið sú leigusalinn Jökull ehf. tókst ekki að fjarlægja allar afurðir sínar úr húsnæðinu á tilsettum tíma.  Vegna þessa dróst einnig gerð og undirritun formlegs leigusamnings.  Var hann að lokum undirritaður þann 15. desember 2003 af fyrirsvarsmönnum Jökuls ehf. og stefnda, en einnig af fyrirsvarsmönnum Útgerðarfélags Akureyringa ehf.

Í 1. gr. leigusamningsins er kveðið á um að stefndi leigi tvö frystihús, hið nýja og hið gamla, en einnig svonefnt Hafsilfurshús, að undanskyldri bogaskemmu, en upplýst er að þar geymdi Útgerðarfélag Akureyringa ehf. veiðarfæri fyrir uppsjávarfisk.  Auk þessa voru í samningnum undanskilin tvö einbýlishús.  Þá tók stefndi á leigu allar vélar og tæki sem í húsunum voru, en þar um er vísað til sérstaks lista.  Í 4. gr. er tiltekið að leigutíminn hefjist 1. október 2003, að samningurinn sé uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara og að leigan skuli fyrst greiðast 1. janúar 2003.  Heimild til að endurskoða leigugjaldið er tiltekin 1. janúar 2005.  Þá segir í 6. gr. samningsins: „Leigusali mun kosta breytingar og endurbætur á húsnæði fyrir allt að 25 milljónir vegna viðhalds (10 milljónir) og (15 milljónir) vegna starfsemi sem G.P.G. hefur með höndum.  G.P.G. greiðir 9.357.210 plús vsk. vegna þeirra framkvæmda sem ÚA hefur kostað, sbr. fylgiskjal 3.“, og í 7. gr. segir ennfremur: „Þær afurðabirgðir sem eru í frystiklefa á Raufarhöfn eru eign leigusala.  Leigusali hefur 3 mánuði til þess að taka þessar byrgðir og ber engan kostnað vegna geymslu þeirra á Raufarhöfn.  Hráefni sem til er í klefa félagsins hinn fyrsta október, kaupir leigutaki á kostnaðarverði af leigusala.  Þá kaupir G.P.G. afurðarbirgðir fyrir kr. 652.674.  Útgerðarfélag Akureyringa hf. leggur til a.m.k. 300 tonn af þorski inn í vinnsluna á Raufarhöfn fyrsta rekstrarárið.“

Samkvæmt vætti Guðbrands Sigurðssonar gerði stefndi þá kröfu við samningsgerðina að hið leigða atvinnuhúsnæði væri þannig tækjum búið að unnt væri að hefja vinnslu á léttsöltuðum fiskflökum, en vegna þessa skilyrðis kvað vitnið Jökul ehf. hafa keypt nýtt frystitæki og síðan leigt það með þeim tækjum sem fyrir voru í vinnslunni.  Er þetta í samræmi við skýrslu framkvæmdastjóra stefnda, Gunnlaugs Karls, fyrir dómi, en hann kvaðst að auki hafa gert þá kröfu að vinnslan væri „úttekin af Fiskistofu“.  Samkvæmt frásögn framkvæmdastjóranna fylgdu engir viðskiptasamningar nefndum leigumála.

Í málinu er ekki ágreiningur um að eftir að stefndi hafði afráðið að hefja fiskvinnslu á Raufarhöfn sumarið 2003 hafi framkvæmdastjóri stefnda átt viðræður við stefnanda og innt hann eftir því hvort að „hann væri tilbúinn að leiða þessa vinnslu“.  Liggur fyrir að stefnandi féllst á þá málaleitan og hóf hann störf hjá stefnda eftir sumarleyfi hinn 1. ágúst, samhliða starfi sínu hjá Jökli ehf.  Samkvæmt frásögn stefnanda þekkti hann vel til vinnslu á léttsöltuðum þorskflökum, þar sem sú afurð hafði verið framleidd í fiskvinnslu Jökuls ehf. á árunum 1995 og 1996.  Óumdeilt er að stefnandi vann í fyrstu við undirbúningsstörf og átti m.a. fundahöld ásamt framkvæmdstjórna stefnda með væntanlegu starfsfólki, en tók síðan við sem framleiðslustjóri er eiginleg vinnsla hófst hinn 1. október 2003.

Upplýst er að þrátt fyrir framangreint starf stefnanda fyrir stefnda fékk hann áfram greidd laun frá Jökli ehf. í samræmi við áunninn uppsagnarrétt, allt til 31. desember 2003.  Í aðilaskýrslu kvaðst stefnandi ekki hafa gert athugasemd við þetta fyrirkomulag, enda litið svo á að nefnd félög, stefndi og Jökull ehf., væru samtvinnuð eignalega í gegnum Útgerðarfélag Akureyringa ehf.  Með þeim hafi og verið „heilmikil tengsl“ og hafi stefndi m.a. í fyrstu, sbr. ákvæði leigusamnings, fengið ferskan þorsk til vinnslu frá Útgerðarfélaginu, en einnig unnið tvífrystan fisk.

Fyrir liggur að ekki var gerður sérstakur ráðningarsamningur milli stefnanda og stefnda, og er ágreiningur um hvaða launakjör var samið þeirra í milli.  Bar stefndi að í viðræðum hans við framkvæmdastjóra stefnda, Gunnlaug Karl, haustið 2003 hafi verið fastmælum bundið að hann hefði sömu laun og hann hefði áður haft hjá Jökli ehf., kr. 494.000 á mánuði.  Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að hann hafi strax tilkynnt stefnanda að slík laun væru alltof há og þau auk þess ekki í samræmi við launastefnu stefnda.  Þá hafi það verið ein af forsendum fyrir hinum nýja rekstri í útibúinu á Raufarhöfn að stefndi kæmi „að hreinu borði“ gagnvart því starfsfólki er þar kæmi til starfa.  Hafi stefnanda því við fyrstu útborgun, þann 1. febrúar 2004, verið greidd laun að fjárhæð kr. 416.000.  Eru aðilar sammála um að launakjör stefnanda hafi í kjölfarið komið til tals vegna óánægju stefnanda.  Bar stefnandi að samkomulag hafi orðið um að laun hans yrðu leiðrétt á þann hátt að hann fengi tilbúinn akstursstyrk að fjárhæð kr. 50.000 á mánuði.  Vísaði hann að því leyti til framlagðra og áritaðra akstursreikninga á dskj. nr. 20, og staðhæfði að raunakstur hans fyrir stefnda hefði í heild aðeins verið um 300 kílómetrar og því allt um fram það verið umrædd leiðrétting.  Var það ætlan stefnanda að nefndar greiðslur auk launagreiðslna hefðu því sem næst verið sambærileg við fyrri launakjör hans hjá Jökli ehf.  Af hálfu framkvæmdastjóra stefnda er þessari lýsingu stefnanda andmælt.  Bar hann að nefndar akstursskýrslur hafi að hans ætlan verið í samræmi við ekna kílómetra í þágu stefnda og stefnandi því fengið greitt í samræmi við það.

Samkvæmt framansögðu er ágreiningur með aðilum um gildi og réttaráhrif áðurrakins leigusamnings stefnda, Jökuls ehf. og Útgerðarfélags Akureyringa ehf. og um rekstur stefnda í atvinnuhúsnæði Jökuls ehf. á Raufarhöfn.  Reisir stefnandi kröfur sínar á því að aðilaskipti hafi orðið að rekstri í skilningi laga nr. 72, 2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Í lögum nr. 72, 2002 eru reglur sem svara til ákvæða tilskipunar nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.  Í 2. gr. laganna eru orðskýringar og í 4. tl. greinarinnar segir að með aðilaskiptum sé átt við aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulegri heild verðmæta sem notuð eru í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.  Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72, 2002 um skýringu á aðilaskiptum í skilningi fyrrgreindrar tilskipunar er vitnað til túlkunar Evrópudómstólsins á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 77/187/EBE í máli c-24/85.  Taldi dómstóllinn að um aðilaskipti væri að ræða ef fyrirtæki héldi einkennum sínum.  Við mat á því átti að áliti dómstólsins m.a. að líta til þess um hvers konar fyrirtæki væri að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti væru framseld og hvert væri verðgildi óhlutbundinna verðmæta.  Þá skyldi líta til hvort meirihluti starfsmanna flyttist til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi héldi viðskiptum framseljanda.  Sá tími sem starfsemi liggur niðri og að hvað miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin skyldi einnig hafa áhrif á þetta mat.  Líta skyldi heildstætt á öll þessi atriði en ekki hvert og eitt sér.  Í athugasemdum við frumvarpið var þess einnig getið að EFTA dómstóllinn hafi litið með hliðstæðum hætti á aðilaskiptin og lagt áherslu á það hvort að rekstri væri haldið áfram með sambærilegum hætti.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 72, 2002 gilda þau um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.  Í athugasemdum í frumvarpi að lögunum segir um 1. gr. m.a. að eðli aðilaskiptanna, þ.e. hvort þau verða t.d. fyrir sölu eða leigu á fyrirtæki, sé ekki aðalatriðið, heldur skipti megin máli að nýr vinnuveitandi komi að rekstri fyrirtækisins í stað hins fyrri.  Hafi þetta verið staðfest í dómum Evrópudómstólsins og EFTA dómstólsins þar sem fram hafi komið að eigendaskipti þurfi ekki að hafa farið fram til að um aðilaskipti sé að ræða heldur sé nægjanlegt að nýr aðili verði ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis og teljist því vinnuveitandi starfsfólksins.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið var það álit eigenda Jökuls ehf., Útgerðarfélags Akureyringa ehf., árið 2003, að full þörf væri á efnahagslegum breytingum í rekstri félagsins og var því lýst yfir af þeirra hálfu að hætt yrði vinnslu afurða úr tvífrystu hráefni, en þess í stað skyldi lögð megin áhersla á framleiðslu léttsaltaðra þorskflaka.  Kallaði þetta einnig á breytingar á starfsmannahaldi.  Verður ráðið af gögnum, þ.á.m. fréttabréfum Brims hf., sem einnig er í samræmi við frásögn stefnanda, að undirbúningur vegna þessa hafi hafist fyrri hluta sumars.  Það liggur hins vegar fyrir að fallið var frá þessum áformum síðar um sumarið er samningar tókust við stefnda um að hann tæki megin hluta atvinnuhúsnæðis og tækjabúnaðar Jökuls ehf. á leigu og setti á stofn vinnslu á nefndri afurð.  Liggur fyrir að stefndi samdi að auki um það að Útgerðarfélag Akureyringa ehf. léti honum í té viðbótartækjabúnað og að minnsta kosti 300 tonn af þorski fyrsta rekstrarárið.  Í þessu viðfangi er til þess að líta að náin eignatengsl voru með stefnda og Útgerðarfélaginu.

Óumdeilt er að fyrirsvarsmaður stefnda leitaði eftir aðstoð stefnanda umrætt sumar, en hann naut þá áður áunnins 6 mánaða uppsagnarfrests hjá Jökli ehf.  Varð stefnandi í framhaldi af því einn af forsvarsmönnum stefnda við allan undirbúning og síðar við vinnslu á hinum léttsöltuðu þorskflökum.  Verður í þessu sambandi lögð til grundvallar sú frásögn stefnanda að hann hafi þekkt vel til vinnslu nefndra afurða vegna fyrri starfa hans hjá Jökli ehf.

Að framangreindu virtu og þegar litið er heildstætt til þeirra áhersluatriða sem vísað er til í athugasemdum er fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72, 2002, er það niðurstaða dómsins að með áðurröktum ráðstöfun og leigugerningi, sem er ótímabundin, hafi rekstur Jökuls ehf. verið færður til stefnda og að hann hafi síðan haldið áfram rekstrinum með sambærilegum hætti og áður hafði verið áætlað.  Skiptir í því viðfangi ekki máli að áliti dómsins, að einstakir hlutar í starfsemi Jökuls ehf. hafi ekki fylgt með, svo sem viðskiptasambönd eða fyrri stöðugildi að öllu leyti.  Er það því niðurstaða dómsins að með nefndum gerningi hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu í skilningi laga nr. 72, 2002.

Í 1. og 2. mgr. 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72, 2002 er kveðið á um að réttindi og skyldur framseljanda, samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á, skuli færast yfir til framsalshafa.  Kveðið er á um það að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi hafi verið sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.  Er stefndi því bundinn af ákvæðum ráðningarsambands stefnanda við Jökul ehf. frá 16. maí 2000 svo og ákvæðum kjarasamnings milli Verkstjórasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, líkt og byggt er á í stefnu að því er varðar föst mánaðarlaun, 6 mánaða uppsagnarfrest og orlof, allt að frádregnum þeim launum og atvinnuleysisbótum, sem greind eru í stefnu, samtals að fjárhæð kr. 532.184, en við munnlegan málflutning var ekki ágreiningur um þann þátt málsins. 

Óumdeilt er að stefnandi lét í ljós óánægju sína með launakjör sín við stefnda í febrúar 2004.  Hefur stefnandi staðhæft að í framhaldi af því hafi launakjör hans verið bætt í formi akstursstyrkja, að frátöldum 300 kílómetrum sem hann hafi í raun ekið fyrir stefnda.  Samkvæmt framlagðri akstursdagbók stefnanda lagði hann fram reikninga á tímabilinu frá janúar til ágúst 2004 fyrir samtals 7.380 kílómetra akstri og nam heildargreiðsla til hans fyrir það kr. 417.026.

Samkvæmt framansögðu er óumdeilt að stefnandi gerði strax athugasemdir við launagreiðslur stefnda.  Þá liggur fyrir að verkalýðsfélag gerði ítrekaðar athugasemdir við launakjörin hans  eftir að stefnanda hafði verið sagt upp starfi hjá stefnda.  Loks krafðist lögmaður stefnanda leiðréttinar á kjörum hans með bréfi dagsettu 31. maí 2005.  Verður í ljósi þessa ekki fallist á með stefnda að stefnandi hafi firrt sig rétti með tómlæti. En að ofangreindu virtu og með hliðsjón af varakröfu og málatilbúnaði stefnda og í ljósi yfirlýsinga stefnanda vegna þeirra akstursstyrkja sem hann þáði á nefndu tímabili ber að draga frá kröfum stefnanda tilsvarandi fjárhæð, kr. 400.076.

Með vísan til alls þessa er það niðurstaða dómsins að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda kr. 2.540.150.  Rétt er að dæma stefnda til greiðslu dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, frá 30. júní 2005 til greiðsludags.

Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 450.000 og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991 áður en dómur var kveðinn upp í málinu.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

                                                                                        D Ó M S O R Ð :

Stefnda, G.P.G. fiskverkun ehf., greiði stefnanda, Gunnari Finnboga Jónassyni, kr. 2.540.150, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá 30. júní 2005 til greiðsludags og kr. 450.000 í málskostnað.