Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Blóðsýni
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 11. ágúst 1999. |
|
Nr. 322/1999. |
Ákæruvaldið (enginn) gegn Hjörleifi Harðarsyni (enginn) |
Kærumál. Blóðrannsókn. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kæru H á úrskurði héraðsdóms um að taka skyldi úr honum blóðsýni var vísað frá Hæstarétti með vísan til 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem blóðsýnið hafði þegar verið tekið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. ágúst 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. ágúst 1999, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að tekið skyldi blóðsýni úr varnaraðila. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Með fyrrgreindum úrskurði héraðsdóms var varnaraðila gert að sæta því að blóðsýni yrði tekið úr honum, sbr. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Lýsti varnaraðili yfir kæru úrskurðarins þegar eftir uppkvaðningu hans. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, var blóðsýnið tekið úr varnaraðila í beinu framhaldi af þessu. Hefur því sú athöfn, sem kveðið var á um í úrskurðinum, þegar farið fram. Samkvæmt þessu ber að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti með vísan til 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.