Hæstiréttur íslands
Mál nr. 852/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til föstudagsins 26. janúar 2018 klukkan 16. Kæruheimild var í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hún haldi frelsi sínu gegn því að leggja fram tryggingu samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 29. desember 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], kærðu, verði gert að sæta áfram farbanni allt til föstudagsins 26. janúar nk., kl. 16.00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar ætlað hegningarlagabrot kærðu gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Forsaga málsins sé sú að kærða og barnsfaðir hennar, A, kt. [...], hafi slitið hjúskap vorið 2012 og ákveðin hafi verið sameiginleg forsjá með barni þeirra, B, kt. [...], og að lögheimili barnsins yrði hjá A. Barnið sé enn með lögheimili hjá föður sínum og hafi umgengni kærðu við barnið verið vika og vika í senn. Á tímabilinu 13. til 19. mars sl., á meðan kærða hafi síðast haft umgengni með barninu, hafi hún farið ásamt núverandi sambýlismanni sínum til [...], þaðan sem hún sé ættuð, án vitundar eða samþykkis föður barnsins og sé barnið þar enn. Kærða hafi hins vegar snúið aftur til Íslands skömmu síðar til að vinna og sé skráð til heimilis í [...].
Sækjandi tekur fram að faðir barnsins hafi ítrekað reynt að fá kærðu til að hlutast til um að barnið snúi aftur heim en því hafi kærða neitað og jafnframt hindrað föður í að hafa samskipti við barnið. Þá hafi kærða sagt að hún hefði ekki í hyggju að koma með barnið til Íslands, það væri með [...] ríkisborgararétt og væri hjá fjölskyldu sinni þar í landi, en kærða hafi ekki gefið upplýsingar um hverjir það væru.
Í greinargerð sækjanda kemur einnig fram að 4. apríl sl. hafi faðir barnsins lagt fram beiðni til innanríkisráðuneytisins um að barninu yrði skilað til Íslands með vísan til Haag-samningsins. Beiðnin hafi nú verið send [...] yfirvöldum og málið komið á borð dómstóla þar í landi. Jafnframt hafi faðir barnsins kært kærðu til lögreglu.
Þá er þess getið að 8. september sl. hafi faðir barnsins krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði að honum yrði til bráðabirgða falin forsjá barnsins og hafi úrskurður þess efnis fallið 28. nóvember sl., sbr. mál E-899/2017. Í kjölfar úrskurðarins hafi faðir barnsins skorað á kærðu að koma á forsjá með honum og barninu en hún hafi neitað því. Þann 1. desember sl. hafi framburðarskýrsla verið tekin af kærðu og hún spurð um afstöðu og næstu aðgerðir í kjölfar framangreinds úrskurðar. Hún hafi þar sagst ætla til [...] þann 18. desember sl. og ekki ætla að koma aftur til landsins með barnið nema íslenskir dómstólar myndu úrskurða á ný um breytta tilhögun forsjár yfir barninu.
Sækjandi tekur fram að í ljósi framangreins telji lögregla að kærða sé undir rökstuddum grun um brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að neita að aflétta því ólögmæta ástandi sem felist í því að neita föður barnsins valdi og umsjá, þar með forsjá, yfir barninu. Kærða sé ættuð frá [...] og fram komi í fyrrgreindum úrskurði að hún hyggi á för þangað um næstu áramót, en þar sé fjölskylda hennar, unnusti og barn, en hún sé ekki talin eiga neina ættingja hér á landi. Að mati lögreglu sé brýnt að nærvera kærðu verði tryggð á meðan mál hennar sé til rannsóknar og annarrar meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að henni verði gert að sæta farbanni þar til málið sé til lykta leitt, ella megi ætla að hún reyni að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Þá er þess getið að 1. desember sl. hafi kærða verið úrskurðuð í farbann til föstudagsins 29. desember 2016 kl. 16.00, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-444/2017 og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 757/2017. Íslensk yfirvöld vinni að því í samvinnu við [...] yfirvöld að hafa upp á barninu og koma á forsjá þess hjá föður sínum. Kærða hafi ekki viljað gefa upp dvalarstað barnsins og samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi hún haft á orði við föður þess og forsjáraðila að hún myndi ekki koma barninu í hans hendur. Með hliðsjón af framansögðu telji lögreglan að enn séu skilyrði til að kærða sæti farbanni frá Íslandi. Farið sé fram á að kærða verði úrskurðuð í farbann á grundvelli 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Á því sé byggt að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga séu uppfyllt enda sé kærða að mati lögreglu undir rökstuddum grun um háttsemi sem varðað geti fangelsisrefsingu.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærða sé sökuð um, sé þess krafist að hún sæti farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamaála nr. 88/2008.
Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, krefst þess að kærða sæti áfram farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Tilefni kröfugerðarinnar er rakið í greinargerð sóknaraðila en efni hennar hefur verið lýst. Samkvæmt 100. gr. fyrrgreindra laga er það skilyrði þess að fallast megi á kröfu sóknaraðila um farbann að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Auk þess verður eitthvert þeirra sérstöku skilyrða sem rakin eru í fjórum stafliðum í greininni að vera fyrir hendi.
Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins og fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að kærða sé undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur við 193. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940. Sannist sök getur brot af þessu tagi varðað fangelsi. Almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt.
Krafa sóknaraðila er á því reist að b-liðar greinarinnar sé einnig fyrir hendi. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 95. gr. laganna má beita gæsluvarðhaldi ef ætla má að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi hefur kærða, sem er [...] ríkisborgari jafnframt því að vera íslenskur ríkisborgari, verið hér í vinnu. Kærða er gift íslendingi og á barn með honum. Þau eru nú í [...] ásamt eldra barni kærðu sem þetta mál varðar. Þá upplýsti kærða að hún hefði haft í huga að fara til [...] 18. desember sl. en koma aftur 6. janúar nk. með barnið. Samkvæmt þessu er ekki loku fyrir það skotið að kærða muni reyna að fara úr landi og er því á það fallist að framangreindu skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 100. gr. sömu laga fyrir beitingu farbanns sé uppfyllt.
Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, X, kt. [...], skal áfram sæta farbanni allt til föstudagsins 26. janúar nk., kl. 16.00.