Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-67

Geri allt slf. og Daníel Sigurðsson (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Jóhanni Þorlákssyni (Hilmar Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Þjónustukaup
  • Galli
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 15. maí 2024 leita Geri allt slf. og Daníel Sigurðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. apríl sama ár í máli nr. 238/2023: Geri allt slf. og Daníel Sigurðsson gegn Jóhanni Þorlákssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um skaðabætur vegna galla á þjónustu leyfisbeiðenda við framkvæmdir á baðherbergi gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms með vísan til forsendna hans að fallast á kröfur gagnaðila og dæma leyfisbeiðendur til að greiða honum 1.042.252 krónur í skaðabætur. Í héraðsdómi kom fram að óumdeilt væri að við notkun á sturtu í baðherbergi gagnaðila flæddi töluvert af vatni út á gólf þar sem niðurfall hennar hefði ekki undan auk þess sem sturtubotn lægi ofan á gólfinu. Til þess að niðurfallið nýttist sem öryggisniðurfall í rýminu hefði sturtubotninn orðið að vera lægri en gólfið sjálft og það að halla í átt að sturtubotninum. Var gagnaðili talinn hafa sýnt fram á að þjónusta leyfisbeiðenda hefði verið gölluð í skilningi 1., 4., 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Við mat á tjóni gagnaðila horfði dómurinn til kostnaðarmats sérfróðs aðila við rekstur málsins hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, sem stefnukrafa var reist á, en því hefði ekki verið hnekkt.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi, varði þá mikilvægum hagsmunum og sé bersýnilega röng að efni til. Dómurinn feli í sér að verktökum sé gert að ábyrgjast vörur sem þeir hafi ekki keypt til framkvæmda og gerð krafa á þá um að finna lausnir sem séu í andstöðu við góðar fagvenjur til að geta nýtt þær vörur. Í málinu reyni á hve langt ábyrgð verktaka nái í slíkum tilvikum. Þá reyni á hvaða kröfur skuli gera til verktaka vegna minni viðhaldsframkvæmda innanhúss. Enn fremur sé málið mikilvægt varðandi sönnunarkröfur í málum er varða þjónustukaup en niðurstaða þess hafi byggst á skýrslu sem fullnægi engan veginn kröfum sem gerðar séu til matsgerðar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.