Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2001


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Sönnun
  • Ómerking
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. mars 2002.

Nr. 426/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Þorsteini Kristni Björnssyni

(Jón Kr. Sólnes hrl.)

 

Ölvunarakstur. Sönnun. Ómerking. Heimvísun.

Þ var ákærður fyrir ölvunarakstur en var sýknaður með dómi héraðsdóms 9. febrúar 2001. Taldi héraðsdómur ekki útilokað að Þ hefði neytt áfengis eftir að akstri lauk í þeim mæli, sem niðurstaða rannsóknar á blóði og þvagi gaf til kynna. Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 var héraðsdómur ómerktur og með vísan til ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála var lagt fyrir héraðsdómara að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið. Var málið dæmt að nýju í héraði og skotið til Hæstaréttar. Taldi Hæstiréttur einsýnt að úrslit málsins hlytu að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar Þ og tveggja lögreglumanna fyrir dómi og hvernig skýrslur þeirra yrðu samræmdar þeim staðreyndum, sem fyrir lágu, þar á meðal um vegalengdir. Að fengnum ómerkingardómi Hæstaréttar hefði verið enn brýnni ástæða til þess en áður að neyta fyrir héraðsdómi heimildar síðari málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð opinberra mála til að láta þrjá héraðsdómara skipa dóm í málinu. Auk þessa þótti niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi framburðarins ekki nægilega skýr og ótvíræð og samningu dómsins áfátt að því leyti. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála þótti óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu fyrir þremur héraðsdómurum og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. nóvember 2001 samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994. Krefst hann þess, að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, sbr. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara, að hann verði dæmdur til vægustu refsingar, sem lög leyfa.

Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 var dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 9. febrúar sama ár ómerktur, en með honum hafði ákærði verið sýknaður af þeim sakargiftum, sem á hann eru bornar í máli þessu. Með vísan til ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, var lagt fyrir héraðsdómara að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið. Hæstiréttur benti á, að framburður lögreglumannanna hefði í öllum aðalatriðum verið samhljóða um aðdragandann að handtöku ákærða og þar á meðal þann skamma tíma, frá einni mínútu til þriggja, sem hann hefði haft til umráða eftir að akstri hans lauk við Höfða og þar til annar lögreglumannanna kom á vettvang, og yrði ekki séð tilefni til að draga í efa sönnunargildi framburðar þessara vitna. Það væri fjarstæðukennt, að ákærði hefði á þessum tíma getað opnað sumarhúsið, kveikt þar á sjónvarpstæki og neytt nægilegs áfengis til þess, að vínandamagn í blóði hans hafi mælst 1,56‰ úr sýni, sem tekið hafi verið hálfri annarri klukkustund eftir handtökuna.

Eins og mál þetta liggur fyrir og skýrlega kemur fram í áðurnefndum dómi Hæstaréttar er einsýnt, að úrslit þess hljóti að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og tveggja lögreglumanna fyrir dómi og hvernig skýrslur þeirra verða samræmdar þeim staðreyndum, sem fyrir liggja, þar á meðal um vegalengdir. Að fengnum ómerkingardómi Hæstaréttar var enn brýnni ástæða til þess en áður að neyta fyrir héraðsdómi heimildar síðari málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994 og 36. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, til að láta þrjá héraðsdómara skipa dóm í málinu. Auk þessa er niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi framburðarins ekki nægilega skýr og ótvíræð og er samningu dómsins áfátt að því leyti, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994. Í því sambandi er þess að gæta, að héraðsdómari virðist meðal annars reisa niðurstöðu sína á þeim framburði annars lögreglumannsins við fyrri skýrslutöku fyrir dóminum, að fimm mínútur hafi getað liðið frá síðara símtali þeirra starfsfélaganna, þar til hann kom að Höfða. Í lögregluskýrslu hafði lögreglumaðurinn hins vegar talið um að ræða eina mínútu og hið sama kom fram hjá honum við síðari skýrslutöku fyrir dómi eftir ómerkingardóm Hæstaréttar, enda hefði hann mælt vegalengdina frá Árgerðisbrúnni, þar sem hann var þegar símtalið fór fram, og hefði hún verið 700 metrar.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, er óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm, sbr. 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991, og vísa málinu heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu fyrir þremur héraðsdómurum og dómsálagningar að nýju.

Vegna þessara úrslita verður að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu, málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Allur kostnaður sakarinnar í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þorsteins Kristins Björnssonar, á báðum dómstigum, Jóns Kr. Sólness hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. október 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. september s.l., er höfðað hér fyrir dómi með ákæru sýslumannsins á Akureyri, dagsettri 7. desember 2000, á hendur Þorsteini Kristni Björnssyni, kt. 311252-2329, Dalbraut 4, Dalvíkurbyggð; 

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudagskvöldið 5. maí 2000, ekið bifreiðinni KR-946 undir áhrifum áfengis frá Stykkishólmi áleiðis til Dalvíkur uns hann stöðvar bifreiðina við sumarbústaðinn Höfða, sem stendur skammt sunnan við Dalvík, þar sem hann er handtekinn af lögreglu. 

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44, 1993.“

Verjandi ákærða, Jón Kr. Sólnes, hæstaréttarlögmaður, hefur fyrir hönd ákærða aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst hann málsvarnarlauna að mati réttarins.

 I.

Í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 9. febrúar 2001 var í máli þessu kveðinn upp dómur og ákærði sýknaður af broti gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands þann 28. febrúar 2001.  Krafðist hann þess, að ákærði yrði sakfelldur, dæmdur til refsingar og sviptur ökurétti. Ákærði krafðist aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að honum yrði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. 

Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu þann 17. maí 2001.  Í niðurstöðu réttarins sagði m.a.:  „Þegar alls þessa er gætt eru slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum sé rangt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn áfrýjaða dóm með vísan til ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Verður lagt fyrir héraðsdóm að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið.“

II.

Málsatvik eru þau, að föstudaginn 5. maí 2000, kl. 21:00, var Felix Jósafatsson, lögregluvarðstjóri, á leiðinni norður þjóðveg 82, Ólafsfjarðarveg, er hann í nánd við bæinn Fagraskóg ók fram úr bifreiðinni KR-946 og taldi sig þekkja ökumann sem var Þorsteinn Kristinn Björnsson, ákærði í máli þessu, og var hann einn í bifreiðinni.  Taldi Felix að ákærði væri ekki eins og hann ætti að sér að vera og taldi hann m.a. vera þreytulegan.  Hringdi Felix í Sævar Frey Ingason, aðstoðarvarðstjóra í lögreglunni á Dalvík, sem var á vakt í greint sinn.  Í framhaldi af þessu fór Sævar að sumarbústaðnum á Höfða, skammt sunnan Dalvíkur, að tilvísan Felixar, og handtók ákærða þar og fór með hann í upphafi á lögreglustöðina á Dalvík, en þar sem vakthafandi læknir á Dalvík reyndist upptekinn var farið með ákærða á lögreglustöðina á Akureyri.  Samkvæmt vottorði læknis var blóðsýni tekið úr ákærða kl. 22:48 en þvagsýni kl. 22:58.  Við rannsókn rannsóknarstofu í lyfjafræði reyndist alkóhólmagn í blóði vera 1,56 ‰ en alkóhólmagn í þvagi 2,16 ‰.

III.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðarinnar KR-946 umrætt sinn, en bar jafnframt, að hann hafi neytt áfengis eftir að akstri lauk. 

Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá, að hann hafi lagt af stað á bifreiðinni KR-946 frá Stykkishólmi um kl. 15:00 umræddan dag og ekið áleiðis til Dalvíkur.  Kvaðst hann hafa ekið að sumarbústaðnum á Höfða, en þar hafi hann viljað hvíla sig eftir erfiða ökuferð.  Tók ákærði fram að hann og félagar hans hafi oft og iðulega hist í umræddum bústað og hafi hann vonast eftir að einhver þeirra ræki inn nefið.  Kvaðst ákærði hafa farið inn um aðalinngang hússins, en sú hurð hafi verið ólæst.  Inni í bústaðnum hafi hann kveikt ljós og einnig kveikt á sjónvarpi og myndbandstæki.  Því næst hafi hann valið sér myndbandsspólu til að horfa á, en á meðan hafi hann drukkið lungann úr ginfleyg, er hann hafi keypt í Stykkishólmi og haft með sér norður, sem og 1 eða 2 litla bjóra.  Hann hafi síðan sest niður og tekið að horfa á myndbandsspóluna.  Kvaðst ákærði telja það hafi tekið hann um 5-15 mínútur að framkvæma hinar lýstu athafnir.

Bar ákærði að nokkru eftir að hann kom í bústaðinn, um 15-20 mínútum síðar, hafi hann heyrt að bifreið var ekið að húsinu.  Kvaðst hann hafa ætlað að þar væri kominn einhver af „félögunum“.   Þegar enginn hafi komið inn hafi hann farið út í glugga og séð lögreglubifreið og brugðið illilega í brún þar sem hann hafi gert sér grein fyrir þeim vanda sem hann væri mögulega í, verandi einn í bústaðnum, nýkominn inn og búinn að fá sér áfengi.  Hann hafi þrátt fyrir þessar áhyggjur sínar ákveðið að fara og tala við lögregluþjóninn, Sævar Frey Ingason.  Sævar hafi strax innt ákærða eftir því hvort hann hefði verið að drekka og hafi ákærði játað því og greint frá bjórdrykkjunni, en láðst að segja frá gininu en hann hafi áður en lögreglu bar að garði verið búinn að ganga frá fleygnum inni í búri, sem sé inni af eldhúsinu.  Sævar hafi í framhaldinu beðið ákærða um að blása í áfengismæli, sem hann hafi gert, og eftir það hafi Sævar tjáð honum að hann yrði færður á lögreglustöð.  Kvaðst ákærði þá hafa beiðst leyfis til að ganga frá sjónvarpinu, myndbandstækinu og slökkva ljósin.  Það leyfi hafi verið veitt og hafi ákærði því farið inn í bústaðinn ásamt Sævari þessara erinda.

Aðspurður um aksturslag við Fagraskóg að kvöldi 5. maí 2000 bar ákærði, að hann hafi verið að stilla útvarpstækið í bifreið sinni er bifreið hafi komið upp að bifreið hans og kvaðst ákærði hafa vikið til hliðar og hleypt bifreiðinni fram úr.  Nánar um ökuhraða bar ákærði að hann teldi að hann hefði ekið bifreiðinni nokkru hraðar en með 50-60 km hraða á klukkustund, eins haldið hafi verið fram í málinu.

Ákærði kvaðst hafa drukkið hvítvín og rauðvín að kvöldi 4. maí 2000, en bar að sú drykkja hafi verið hófleg enda fundarseta daginn eftir.

IV.

Vitnið Felix Jósafatsson, lögregluvarðstjóri, skýrði svo frá fyrir dómi, að það hafi ekið fram úr ákærða rétt sunnan við bæinn Fagraskóg og sérstaklega veitt því athygli hversu hægt hann ók og að bifreið ákærða hafi alveg verið við það að rása.  Kvaðst vitnið hafa greint ákærða sem ökumann bifreiðarinnar og hafi hann virst þreytulegur.  Hafi vitnið hringt í Sævar Frey Ingason, aðstoðarvarðstjóra, og beðið hann um að koma á móti og athuga með ákærða.  Vitnið kvaðst síðan hafa fylgst með ákærða í baksýnisspegli.  Bar vitnið að það hafi ekki greint annað athugavert við aksturslag ákærða eftir framúraksturinn, en það hversu hægt hann hafi ekið.  Tók vitnið reyndar fram, að það hafi fylgst með ákærða úr nokkurri fjarlægð.  Er vitnið hafi nálgast Dalvík hafi ákærði horfið úr baksýnisspeglinum og vitnið því snúið við og þá séð ákærða aka að sumarbústaðnum á Höfða.   Kvaðst vitnið þá hafa gert Sævari aðvart um það í síma og á meðan á símtalinu stóð hafi vitnið séð til Sævars á brúnni yfir Svarfaðardalsánna.  Vitnið hafi síðan fylgst með Sævari aka að bústaðnum.  Kvað vitnið ákærða þá hafa verið mjög stutta stund í sumarbústaðnum eða þann tíma sem tekið hafi Sævar að aka frá brúnni að sumarbústaðnum, í mesta lagi 1 til 3 mínútur. 

Kvað vitnið um 15 mínútur hafa liðið á milli áðurnefndra símtala þess við Sævar.

Vitnið Sævar Freyr Ingason, aðstoðarvarðstjóri, bar fyrir dómi, að umrætt kvöld hafi það verið statt á lögreglustöðinni á Dalvík þegar Felix Jósafatsson, varðstjóri, hafi hringt og greint frá akstri ákærða norður þjóðveg nr. 82.  Vitnið kvaðst hafa tafist aðeins en síðan farið af lögreglustöðinni skömmu síðar og ekið í suðurátt.  Þegar vitnið hafi verið rétt sunnan bæjarins Árgerðis hafi Felix hringt aftur og greint frá því að ákærði hefði ekið bifreiðinni upp að sumarbústaðnum á Höfða.  Á meðan á þessu símtali stóð hafi vitnið ekið yfir Svarfaðardalsárbrúnna og hafi Felix tjáð vitninu í símann, að hann sæi lögreglubifreið þess á brúnni. 

Eftir síðara símtalið kvaðst vitnið hafa aukið ferðina og í framhaldinu ekið upp að sumarbústaðnum.  Vitnið gat ekki borið með vissu um hve langur tími hafi liðið frá síðara símtalinu og þar til vitnið hafi komið að sumarbústaðnum, en gat sér til um að það hafi verið um 5 mínútur.  Vitnið kvað bifreiðina KR-946 hafa staðið fyrir utan bústaðinn og er vitnið ók upp að honum hafi ákærði komið út.  Vitnið kvaðst hafa innt ákærða eftir því hvort hann hefði verið að drekka og ákærði játað því.  Í framhaldinu hafi ákærði komið með vitninu í lögreglubifreiðina og blásið í öndunarsýnamæli.  Að fenginni niðurstöðu mælisins hafi vitnið tilkynnt ákærða, að hann væri grunaður um ölvun við akstur og handtekið hann.  Ákærði hafi þá beiðst leyfis til að slökkva ljósin í bústaðnum og á sjónvarpi og hafi vitnið samþykkt það og þeir farið saman þeirra erinda inn í bústaðinn.

Vitnið kvaðst ekki hafa séð áfengi í sumarbústaðnum en tók fram, að það hafi ekki leitað sérstaklega eftir því.

Vitnið Sigurður Jónsson bar fyrir dómi, að það væri einn tveggja eigenda sumarhússins á Höfða.  Kvað vitnið bústaðinn vera samkomustað vina og kunningja eigendanna og væri alls ekki óvenjulegt að þeir einstaklingar kæmu í bústaðinn í tíma og ótíma.  Vitnið kvað ákærða hafa fulla heimild til nýta sér bústaðinn.

Kvaðst vitnið hafa komið í bústaðinn að kvöldi 5. maí 2000 og hafi bifreiðin KR-946 þá staðið fyrir utan.  Vitnið hafi hins vegar ekki orðið vart við neinn á staðnum og undrast það, en ekki komist að hinu sanna fyrr en síðar.

Vitnið kvaðst hafa komið í bústaðinn ásamt Felix Jósafatssyni nokkrum dögum eftir að atvik máls áttu sér stað og þá rekist á ginfleyg í búrinu, sem sé inn af eldhúsinu.  Kvaðst vitnið ekki hafa vitað hver eigandi fleygsins væri.

V.

Í málinu hefur verið lagt fram „álit“ Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra á lyfjafræðistofnun Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði.  Í álitinu segir „Bendir hlutfall ethanols í blóði og þvagi til þess að viðkomandi einstaklingur hafi ekki neytt áfengis svo nokkru nemi í a.m.k. 1-2 klukkustundir áður en sýnin voru tekin kl. 22:48 (blóðsýni) og kl. 22:58 (þvagsýni).  Ekki er hægt að segja með nákvæmni um ethanolþéttni í viðkomandi ökumanni kl. 21:00, en miðað við hið mikla áfengismagn í blóði og þvagi má ætla að hann hafi verið undir áhrifum áfengis kl. 21:00 þetta umrædda kvöld.“ 

Vitnið Kristín Magnúsdóttir staðfesti og skýrði ofanrakið álit fyrir dómi.  Vitnið bar, að ekki væri hægt að segja nákvæmlega um ethanólþéttni í blóði ákærða á þeim tíma, sem hann væri talinn hafa verið við akstur.  Af því hlutafalli sem mælst hafi milli blóðs annars vegar og þvags hins vegar, og af hinu mikla ethanólmagni, sérstaklega í þvaginu, dragi vitnið hins vegar þá ályktun, að talsverðar líkur séu á því að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis, þ.e. með yfir 0,5 ‰ alkóhóls í blóði, tæpum tveimur klukkustundum fyrir sýnatökurnar.  Kvaðst vitnið ekki vilja taka sterkar til orða en þetta og var á vitninu að skilja, að því valdi hversu langur tími leið frá því að ákærði var handtekinn og þar til sýnin voru tekin.

Kvað vitnið það lítil áhrif hafa á álit þess þó svo miðað væri við að akstur ákærða hefði átt sér stað kl. 21:15 í stað 21:00.  Niðurstaðan yrði svipuð.

Vitnið bar, að 24 klst. eftir að áfengisneyslu lýkur, eigi áfengismagn í blóði og þvagi að vera hverfandi, nema viðkomandi hafi verið því drukknari, þ.e. ofurölvi. 

VI.

Upplýst er í málinu, að ákærði ók bifreiðinni KR-946 norður þjóðveg nr. 82 að kvöldi föstudagsins 5. maí 2000.  Jafnframt liggur fyrir, að ákærði ók bifreiðinni að sumarbústaðnum á Höfða um kl. 21:00 nefnt kvöld, sbr. tímasetningar þær er fram koma í rannsóknargögnum lögreglu.  Þá er og staðreynd, að blóð- og þvagsýni þau, er ákærði gaf vegna rannsóknar málsins, voru tekin kl. 22:48 (blóð) og 22:58 (þvag), eða nálega tveimur tímum eftir að ákærði kom í bústaðinn.

Ákærði hefur frá upphafi neitað að hafa ekið undir áhrifum áfengis greint sinn, sbr. framburð hans fyrir lögreglu og fyrir dómi.  Hefur hann verið staðfastur í þeim framburði sínum, að hann hafi ekki neytt áfengis þennan dag fyrr en hann kom í bústaðinn á Höfða.

Að mati dómsins verður það, að ökuhraði bifreiðar ákærða hafi umrætt sinn verið nokkuð innan lögmælts hámarkshraða, ekki metið sem vísbending um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. 

Lýsing Felixar Jósafatssonar á aksturslagi ákærða að hraðanum slepptum, áður en til framúraksturs kom, þykir leiða ákveðnar líkur að því, að ákærði hafi þá verið undir áhrifum áfengis.  Til þess verður hins vegar að líta, að ákærði skýrði óstöðugt aksturslag sitt við Fagraskóg, með því að þá hafi hann verið að stilla útvarp bifreiðarinnar.  Jafnframt verður ekki horft fram hjá því, að Felix kvaðst ekki hafa séð neitt athugavert við akstur ákærða, er hann fylgdist með honum í baksýnisspegli bifreiðar sinnar eftir framúraksturinn.

Miða verður við það í málinu, að Sævar Freyr Ingason hafi komið að sumarbústaðnum á Höfða skömmu eftir að ákærða bar þar að, sbr. framburð Sævars fyrir dómi er nefndi 5 mínútur, framburð Felixar Jósafatssonar er nefndi 1-3 mínútur og framburð ákærða sjálfs er nefndi 5-15 mínútur.  Til þess ber hins vegar að líta, að ákærði hafði sannanlega ákveðið svigrúm til drykkju eftir að í sumarbústaðinn kom.  Þannig hefur Sævar staðfest það vætti ákærða, að hann hafi verið búinn að kveikja ljós í bústaðnum og jafnframt á sjónvarpstæki í stofunni.  Verður því að mati dómsins ekki með nokkru móti útilokað, að ákærði hafi getað drukkið áðurlýst magn áfengis, eftir að hann kom í bústaðinn.  Það er aftur á móti ljóst, að til þess hefur hann þurft að hafa hröð handtök.

Ákærði bar fyrir dómi, að hann hafi m.a. drukkið úr ginfleyg eftir að í bústaðinn var komið.  Fyrir liggur samkvæmt framburði Sævars Freys Ingasonar, að lögregla kannaði ekki sérstaklega hvort ákærði hefði neytt áfengis í bústaðnum.  Framburður vitnisins Sigurðar Jónssonar verður hins vegar ekki skilinn öðru vísi en svo, að hann hafi nokkrum dögum síðar fundið fleyg sömu tegundar á þeim stað í bústaðnum, sem ákærði ber að hann hafi komið fleyg sínum fyrir.  Framburður Sigurðar er því til stuðnings framburði ákærða að þessu leyti. 

Í framlögðu áliti Kristínar Magnúsdóttur segir, að ætla megi að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis kl. 21:00 umrætt kvöld.  Fyrir dómi kvaðst Kristín ekki vilja taka sterkar til orða en svo, að talsverðar líkur væru á því að ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis, þ.e. með yfir 0,5 ‰ alkóhóls í blóði, kl. 21:00.  Óvissuna skýrði hún með þeim langa tíma sem liðið hafi frá því að ákærði var handtekinn og þar til sýnin voru tekin.  Af þessu má ljóst vera, að álit Kristínar er langt frá því að vera fortakslaust um ölvun ákærða kl. 21:00 umrætt kvöld.

Að mati dómsins hefur ekkert það komið fram í málinu, sem útilokar að framburður ákærða geti verið réttur.  Þó svo aksturslag ákærða við Fagraskóg, hinn stutti tími sem hann hafði til áfengisneyslu í bústaðnum og nefnt álit Kristínar Magnúsdóttur leiði að því ákveðnar líkur, að ákærði hafi ekið undir áhrifum áfengis umrætt kvöld, þykja þær líkur hins vegar ekki, gegn staðfastri neitun ákærða, vera svo sterkar, að sekt hans verði hafin yfir skynsamlegan vafa.  Verður því, með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Allan sakarkostnað ber að greiða úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Kr. Sólnes, hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin kr. 60.000,-.

Uppsaga dóms þessa hefur tafist lítillega vegna starfsanna dómstjóra.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Þorsteinn Kristinn Björnsson, skal vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Kr. Sólnes, hæstaréttarlögmanns, kr. 60.000,-.