Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/1999
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Sakarskipting
|
|
Föstudaginn 18. júní 1999. |
|
Nr. 18/1999. |
Ebenezer Bárðarson (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Þörungaverksmiðjunni hf. (Jakob R. Möller hrl.) og gagnsök |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Sakarskipting.
E, sem starfaði sem stýrimaður í afleysingum á skipi í eigu Þ, slasaðist við löndun á þangi. Stóð E á kerrupalli og var að losa pokahnút á netpoka. Opnaðist hnúturinn ekki við tilraunir E til að losa hann, en gaf sig skyndilega skömmu síðar. Við það steyptist þangið yfir hann með þeim afleiðingum að hann lærleggsbrotnaði auk þess sem hann tognaði á öxl. Krafðist E bóta úr hendi Þ á grundvelli örorkumats vegna tímabundins atvinnutjóns, miska, varanlegrar örorku o.fl. Talið var að vinnuaðstæður við löndunina hefðu verið óviðunandi og hættulegar og var Þ talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni E. Var E þó talinn bera einn þriðja hluta ábyrgðar á tjóninu vegna þess að slysið varð að nokkru rakið til óvarkárni hans. Var Þ gert að greiða E bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 1999. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 7.090.079 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1998 til greiðsludags, en til vara 5.583.205 krónur með dráttarvöxtum frá 21. júlí 1994 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til þrautavara er krafist staðfestingar héraðsdóms og að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 4. febrúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmdar skaðabætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
I.
Í héraði hafði aðaláfrýjandi uppi kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón alls að fjárhæð 1.491.986 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi var henni vísað frá héraðsdómi. Aðaláfrýjandi leitaði ekki endurskoðunar á því ákvæði héraðsdóms með kæru. Kemur sá liður bótakröfu aðaláfrýjanda því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
II.
Þegar atvik málsins gerðust hafði aðaláfrýjandi gegnt stöðu stýrimanns á skipi gagnáfrýjanda Karlsey í nokkra daga. Aðaláfrýjandi var 41 árs að aldri og hafði reynslu sem stýrimaður á flutningaskipi. Karlsey var notuð í tengslum við þangskurð á Breiðafirði og flutti þangið til hafnar á Reykhólum, þar sem verksmiðja gagnáfrýjanda er. Um borð í skipinu var þangið sett í poka gerðum úr netum og voru um 2.500 kg í hverjum poka. Munu yfirleitt um 60 pokar hafa verið fluttir í hverri ferð skipsins. Í höfninni var þangpokunum lyft úr skipinu með krana og einn poki í senn tæmdur á flutningakerru á bryggjunni. Var pokinn opnaður með því að togað var í band, sem leysti hnút á honum, og féll þangið þá á pall kerrunnar. Kerrupallurinn var að sögn aðaláfrýjanda minni en vörubifreiðarpallur, með háum skjólborðum, en opinn að aftan.
Hinn 21. júlí 1994 var verið að afferma Karlsey. Við verkið voru auk aðaláfrýjanda stjórnandi kranans Sævar Þór Grímsson og ónafngreindur maður, sem hristi þang úr netunum. Aðaláfrýjandi hafði það verkefni að losa úr þangpokunum. Um klukkan 18 var hann á palli kerrunnar og ætlaði að opna einn pokann. Hnúturinn losnaði ekki til fulls, þótt aðaláfrýjandi togaði í losunarbandið. Lýsti vitnið Sævar atviki þessu svo fyrir héraðsdómi að hnúturinn hafi verið orðinn laus að öðru leyti en því að síðasta bragðið hafi verið eftir.
Aðaláfrýjandi stóð aftarlega á pallinum, en til hliðar við pokann. Hann togaði aftur í bandið, en ekki raknaði hnúturinn. Að því búnu hugðist aðaláfrýjandi fara niður af kerrunni og sneri sér frá pokanum. Í sama mund losnaði um hnútinn og féll þang úr pokanum á aðaláfrýjanda með þeim afleiðingum að hann datt á kerrupallinn. Varð aðaláfrýjandi síðan undir því, sem eftir var af hlassinu. Hlaut hann af þessu áverka, sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi.
Ekki er ljóst hvers vegna hnúturinn raknaði ekki eins og til var ætlast. Hins vegar liggur fyrir, að nokkuð algengt var að hnútar stæðu á sér við affermingu, eins og raun varð á í umrætt sinn. Áðurnefndur kranastjórnandi, sem jafnframt var flokkstjóri hjá gagnáfrýjanda, bar fyrir héraðsdómi að við losun þangpoka hefði pokamaður venjulega stokkið af kerrupallinum um leið og pokinn opnaðist. Í þetta sinn hefði aðaláfrýjandi snúið baki við pokanum og hlassið því fallið niður aðaláfrýjanda að óvörum. Flokkstjórinn tók jafnframt fram að reyndur maður hefði farið niður af pallinum strax eftir að búið hefði verið að gera eina tilraun til að opna pokann með því að toga í losnunarbandið.
Einhvern tíma eftir að slysið varð var horfið frá þeirri vinnutilhögun við losun þangpoka, sem nú var lýst. Var tekin upp sú aðferð að nota krók til að leysa pokahnúta og lína úr króknum fest aftast í flutningakerruna. Gaf gagnáfrýjandi starfsmönnum sínum skriflega þau fyrirmæli í apríl 1997, að alltaf skyldi nota þennan búnað við verkið og að pokamaður skyldi jafnan standa við hlið kerrunnar, þegar togað væri í bandið.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi er leitt í ljós að til þess var ætlast af hálfu gagnáfrýjanda að sá, sem losaði hnút á þangpokum, stæði á kerrunni við verk sitt og forðaði sér síðan áður en hlassið félli. Er ljóst að ekki var unnt að vinna verkið, ef staðið var á bryggjunni utan kerrunnar. Fallist er á það álit héraðsdómara að vinnuaðstæður þessar hafi verið óviðunandi og hættulegar. Verður að telja, að slys þetta hefði ekki orðið, ef unnið hefði verið eftir þeim reglum, sem síðar voru teknar upp hjá gagnáfrýjanda. Er því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms, að gagnáfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni því, sem aðaláfrýjandi varð fyrir af slysinu.
Aðaláfrýjandi hóf störf hjá gagnáfrýjanda 17. júlí 1994. Var hann þá í sumarleyfi frá vinnu sinni hjá Samskipum hf., en hann gegndi stýrimannsstöðu á einu af skipum þess félags. Aðaláfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að hann hefði í tvo daga fylgst með hvernig umrætt verk fór fram og sér hefði verið sýnt hvernig skyldi vinna það. Með vísun til þess og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á með héraðsdómara að leggja beri á aðaláfrýjanda einn þriðja hluta ábyrgðar á tjóninu.
III.
Aðaláfrýjandi reisir kröfur sínar á örorkumati læknis dagsettu 27. maí 1998. Samkvæmt matinu var aðaláfrýjandi rúmfastur í tvær vikur frá slysdegi og síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi í 5½ mánuð, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Læknirinn mat miskastig aðaláfrýjanda 25%, sbr. 4. gr. sömu laga, og varanlega örorku 25%. Andmælir gagnáfrýjandi ekki þessum niðurstöðum læknisins.
Auk kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, sem fjallað var um í I. kafla hér á undan, sundurliðar aðaláfrýjandi höfuðstól kröfu sinnar svo:
Þjáningabætur vegna 14 daga, sem hann var rúmfastur 19.864 krónur
Þjáningabætur vegna 180 daga eftir það 137.517 krónur
Bætur fyrir varanlegan miska 1.091.408 krónur
Bætur fyrir tjón af varanlegri örorku 4.338.236 krónur
Ekki er ágreiningur um fjárhæð annarra af ofangreindum kröfuliðum en þjáningabætur fyrir það tímabil, sem aðaláfrýjandi var veikur án þess að liggja rúmfastur, en svo sem fyrr segir var sá tími í örorkumati læknisins talinn hafa verið 5½ mánuður eftir að 14 daga rúmlegu lauk. Verður gagnáfrýjanda því gert að greiða aðaláfrýjanda 764 krónur í þjáningabætur vegna hvers dags þessa tímabils eða alls 128.352 krónur fyrir 168 daga, sbr. 1. málslið 1. mgr. 3. gr. og 15. gr. skaðabótalaga.
Frá kröfu aðaláfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku verða dregnar 856.075 krónur, sem Vátryggingafélag Íslands h.f. greiddi honum 9. desember 1997 úr atvinnuslysatryggingu sjómanna, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Nemur óbætt tjón vegna varanlegrar örorku því 3.482.161 krónu.
Samkvæmt framansögðu verður krafa aðaláfrýjanda tekin til greina með samtals 4.721.785 krónum (19.864 + 128.352 + 1.091.408 + 3.482.161), en 1/3 hluta tjónsins, eða 1.573.928 krónur, verður aðaláfrýjandi eftir framansögðu að bera sjálfur.
Verður gagnáfrýjandi því dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 3.147.857 krónur. Í aðalkröfu aðaláfrýjanda felst meðal annars útreikningur á 2% ársvöxtum af kröfufjárhæð frá slysdegi. Samkvæmt því þykir mega dæma 2% ársvexti af síðastgreindri fjárhæð frá 21. júlí 1994 til upphafstíma dráttarvaxta, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, en að frádregnum 15.728 krónum, sem Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi aðaláfrýjanda í vexti 9. desember 1997.
Málsaðilar deila um upphafstíma dráttarvaxta. Í héraði og áfrýjunarstefnu krafðist aðaláfrýjandi dráttarvaxta frá 18. janúar 1998. Í greinargerð fyrir Hæstarétti krafðist hann hins vegar dráttarvaxta í varakröfu frá 21. júlí 1994. Samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994, kemur síðastnefnd krafa ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Ekki verður séð að aðaláfrýjandi hafi lagt fram upplýsingar, sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta, fyrr en undir rekstri málsins. Málið var höfðað með stefnu útgefinni 19. janúar 1998, en ekki er ljóst af fyrirliggjandi gögnum hvenær hún var birt. Málið var þingfest 29. sama mánaðar. Þegar litið er til þessa verða aðaláfrýjanda dæmdir dráttarvextir frá síðastnefndum degi, sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður óraskað. Til samræmis við kröfugerð beggja aðila fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Þörungaverksmiðjan hf., greiði aðaláfrýjanda, Ebenezer Bárðarsyni, 3.147.857 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá 21. júlí 1994 til 29. janúar 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, en frá dragast vextir að fjárhæð 15.728 krónur, sem draga skal frá uppreiknaðri kröfu aðaláfrýjanda eins og hún stóð 9. desember 1997.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 1998.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. september s.l., er höfðað með stefnu útgefinni 19. janúar s.l. Stefnan er með ódagsettri áritun um birtingu en málið var þingfest 29. janúar s.l.
Stefnandi er Ebenezer Bárðarson, kt. 090453-2979, Vesturbergi 79, Reykjavík.
Stefndi er Þörungaverksmiðjan hf., kt. 530686-1329, Reykhólum, Reykhólahreppi, A-Barðastrandarsýslu.
Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 7.583.189 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 18. janúar 1998 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól árlega, í fyrsta sinn 18. janúar 1999. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Engar sjálfstæðar dómkröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar sjálfstæðar dómkröfur í málinu.
Af hálfu stefnanda hefur verið samþykkt að til frádráttar komi laun sem stefndi greiddi stefnanda í tvo mánuði, samtals kr. 292.824 og dagpeningar úr slysatryggingu sjómanna frá réttargæslustefnda, kr. 81.215.
Málavextir
Stefnandi lýsir málsatvikum svo að 21. júlí 1994 hafi hann starfað sem stýrimaður í afleysingum á Karlsey BA sem er í eigu stefnda. Var verið að landa þangi úr skipinu og var það gert þannig að þangi er lyft í netpoka úr skipinu með krana yfir á land í kerru, en um sé að ræða kerrupall sem sé nokkuð minni en vörubílspallur með háum skjólborðum og opinn að aftan. Stefnandi segir verkstjóra hafa fengið sér það verkefni að vera uppi í kerrunni og losa pokahnútinn en stefnandi sagði þetta í fyrsta sinn sem hann vann við slíka losun og hafði hann opnað nokkra poka eftir að hafa fengið leiðbeiningar um hvernig staðið skyldi að því. Stefnandi kvaðst í umrætt sinn hafa togað einu sinni í bandið sem á að opna hnútinn en hnúturinn hafi ekki opnast við það. Hafi hann þá togað á ný en ekkert hafi gerst. Stefnandi kvaðst þá hafa hugleitt að koma sér úr kerrunni en pokahnúturinn hafi þá allt í einu opnast og þangið steypst yfir hann. Hafi hann fallið á kerrugólfið og lærleggsbrotnað. Hann kvaðst ekki hafa staðið beint undir farginu heldur til hliðar við það og kvaðst hann hafa lent með höfuðið nálægt brún kerrunnar.
Stefnandi var fluttur á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann gekkst undir aðgerð og var brot á lærleggshálsi fært í réttar skorður og neglt. Auk þessa tognaði stefnandi á hægri öxl. Stefnandi hóf vinnu 31. janúar 1995 sem stýrimaður á flutningaskipi eftir að hann hafði jafnað sig nokkuð, en síðari hluta þess árs mun hann hafa byrjað að finna fyrir verkjum í hægri mjöðm. Stefnandi leitaði til Ólafs Stefánssonar heimilislæknis síns 22. mars 1996 og í vottorði hans dagsettu 16. júlí sama ár segir svo m.a.: „Þannig 43 ára gamall karlmaður sem lenti í vinnuslysi fyrir 2 árum og braut hægri lærleggsháls og fékk tognunaráverka á hægri öxl. Hann er með minni háttar einkenni frá hægri öxl síðan, þar sem skoðun er nánast eðlileg. Hins vegar er lærleggshálsbrot hægra megin sem neglt var með tveimur nöglum. Þeir teknir út í ágúst 1995. Frá janúar haft verki og stirðleika í hægri mjöðm, sem staðfest hefur verið að stafi af svokallaðri caput necrosu. Ef ekkert er aðgert munu einkennin versna og hann hljóta snemmkomna slitgigt. Fyrr eða síðar mun hann þurfa gerfilið í hægri mjöðm. Þeim mun fyrr sem einkenni eru meiri.”
Sigurjón Sigurðsson, læknir, skilaði örorkumatsgerð vegna stefnanda 6. október 1997 og í ályktun læknisins segir svo m.a.: „Hér er um að ræða mann sem lendir í því að fá yfir sig 2,5 tonna hlass af blautu þangi og hljóta við það brot á lærleggshálsi hægra megin auk áverka á hægri öxl sem túlka verður sem tognun. Þrátt fyrir aðgerð og negling hafi gefist vel kom upp í kjölfar slyssins svokölluð caput necrosa eða drep í lærleggshöfuðið sem stundum getur komið fyrir í brotum sem þessum. Þetta veldur því að lærleggshöfuðið verður óreglulegt og veldur ertingu í liðnum ásamt meðfylgjandi verkjum sem hafa þær afleiðingar að Ebenezer hefur skert starfsþol þar sem hann þolir illa göngur og stöður. Eina leiðin til meðferðar á þessu er að setja inn gervilið, en þar sem hann er tiltölulega ungur þykir það ekki ráðlegt strax þar sem ending slíkra gerviliða er því minni sem menn eru yngri. Samkvæmt örorkumatstöflum er gerviliður í góðri stöðu metinn til 10% örorku en þar sem Ebenezer verður að bíða í fjölda ára eftir slíkum gervilið með vaxandi verkjum eftir því sem tíminn líður og ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að viðkomandi aðgerð heppnist fullkomlega er tekið tillit til þess í mati þessu. Aftur á móti ef aðgerð heppnast engan veginn og eftir situr stíf mjöðm er örorka skv. töflum um 40%. Telja verður því að örorka hans vegna áverkans á hægri mjöðm sé 20%. Hvað varðar örorku vegna afleiðinga áverkans á hægri öxl telst hún hæfilega metin 5% og er því samtals varanleg örorka 25% vegna umrædds slyss.
Samkvæmt framansögðu mat læknirinn tímabundna örorku stefnanda í sex og hálfan mánuð 100% og varanlega örorku 25%.
Með bréfi dagsettu 25. maí s.l. fór lögmaður stefnanda þess á leit við sama lækni að hann legði mat á örorkustig, miskastig og þjáningabætur samkvæmt I. kafla skaðabótalaga. Samkvæmt álitsgerð læknisins dagsettri 27. maí s.l. mat hann tímabundið atvinnutjón stefnanda samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga 100% frá 21. júlí 1994 til 31. janúar 1995, hann hafi þurft að vera rúmfastur í tvær vikur og síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi í fimm og hálfan mánuð vegna afleiðinga slyssins, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, miskastig vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skaðabótalaga mat læknirinn 25%, varanleg örorka skv. 5. gr. laganna var metin 25% og tímabundin læknisfræðileg örorka af völdum slyssins var metin 100% frá 21. júlí 1994 til 31. janúar 1995 og síðan varanleg læknisfræðileg örorka 25%.
Lagt hefur verið fram í málinu bréf Vinnueftirlits ríkisins dagsett 6. maí s.l. Í bréfinu segir að slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirlitinu en beina hefði átt tilkynningu til Siglingastofnunar samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1980, þar sem um lögskráðan áhafnarmeðlim var að ræða. Starfsmaður Vinnueftirlitsins mun hafa skoðað verksmiðjuna 27. júlí 1994, en ekki gert skýrslu um slysið sennilega vegna þess að hinn slasaði var skipverji. Þá er skýrt frá því að á síðustu 10 árum hafi stefndi tilkynnt um 5 vinnuslys og var eitt þeirra árið 1996. Varð slysið með þeim hætti að starfsmaður festist með fingur í hring sem losunarkaðallinn fer í gegnum. Þurfti að skera kaðalinn sundur við hringinn og við það opnaðist pokinn og tveir menn urðu undir þanginu.
Samkvæmt gögnum málsins voru samþykktar verklags- og vinnureglur við löndun á vegum stefnda 17. apríl 1997. Samkvæmt reglunum skal nota þar til gerðan krók til að leysa pokahnúta og lína úr krók skal festast aftast í vagn. Alltaf skal staðið við hlið vagns þegar híft er í krók og sé nauðsynlegt að nálgast pokahnút til að skera á línu skal það gert í samráði við kranamann sem jafnframt er flokkstjóri.
Málsástæður og lagarök
Stefnandi byggir á því að honum verði með engum hætti kennt um slysið. Ljóst sé að slysið verði rakið til vanbúnaðar og gildi einu hvort umræddur trollpokahnútur hafi verið notaður í 20 ár eða lengur. Staðreynd sé að vinnuslys hafi orðið vegna þessa útbúnaðar hjá stefnda bæði fyrir 21. júlí 1994 og eftir þann tíma. Í frétt um eitt slysanna sé haft eftir framkvæmdastjóra stefnda að til að losa úr netpokanum í flutningavagnana sé togað í hnúta á þeim en fyrir komi að þeir gefi ekki eftir og verði þá að skera á línuna. Stefnandi byggir á því að honum hafi aldrei verið tjáð eða lýst fyrir honum að skera þyrfti á umrædda línu. Stefnandi hafi ekki farið undir netpokann heldur stóð hann til hliðar við fargið og var reyndar að fara ofan af kerrunni þegar slysið varð. Afdráttarlaust sé að um vanbúnað sé að ræða á umræddum netpoka, vanbúnað sem hefur ítrekað leitt til þess að starfsmenn hafa slasast. Búnaðurinn sé hættulegur og ófullnægjandi með öllu. Staðreynd sé að umrætt slys hafi hvorki verið einstakt né óhappatilvik heldur eitt af mörgum slysum sem vinnuveitanda var fullkunnugt um en stefnanda ekki enda var hann nýbyrjaður í afleysingastarfi hjá stefnda. Stefnandi sé stýrimaður sem hafi starfað um árabil á hafskipum. Hann hafi enga sérþekkingu á því starfi sem fólst í því að standa við löndun og losa kranabúnað í landi.
Stefnandi byggir kröfur sínar á örorkumati og örorkutjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, dagsettum 18. janúar s.l. Samkvæmt skattframtali stefnanda voru vinnutekjur hans árið 1993 þær að laun voru kr. 2.304.856, hlunnindi kr. 139.040, samtals kr. 2.443.896. Stefnandi reiknar bætur fyrir tímabundið tjón, þjáningabætur, miska og varanlega örorku miðað við lánskjaravísitölu 3582/3358 auk 2% vaxta frá slysdegi til 18. janúar 1998 en krefst dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Kröfurnar eru sundurliðaðar þannig að fyrir tímabundið atvinnutjón er krafist kr. 1.491.986, þjáningabætur í 7 daga rúmliggjandi kr. 9.932, þjáningabætur í 188 daga á fótum kr. 143.629, miskabætur kr. 1.091.408, varanlegt örorkutjón kr. 4.338.236 og 2% vextir og vaxtavextir samtals 7,18% kr. 507.998, samtals kr. 7.583.189. Eins og rakið er að framan samþykkir stefnandi að til frádráttar stefnukröfum komi kr. 374.039.
Stefnandi styður kröfu sína við skaðabótalög nr. 50/1993, reglur um húsbóndaábyrgð, einkum 49. gr., 50. gr. og 2. mgr. 37. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Stefnandi styður miskabótakröfu við 26. gr. skaðabótalaga og dómvenju og bendir á að stefnandi hafi um óvenju langa hríð sætt óþægindum og röskun vegna slyssins og sé eigi fær um að stunda sjómennsku eftir slysið. Dráttarvaxtakrafa er studd við III. kafla vaxtalaga og málskostnaðarkrafa við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt er reist á l. nr. 50/1988.
Stefndi bendir á að um slys stefnanda fari eftir almennum skaðabótareglum, þ.e. sakarreglunni. Hafði stefndi keypt lögboðna slysatryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga vegna stefnanda og komi hlutlæg bótaábyrgðarregla skv. 1. mgr. 172. gr. laganna því ekki til álita hér þegar af þeirri ástæðu, sbr. 5. tl. 175. gr. laganna.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að stefndi eigi enga sök á slysinu, sem alfarið má rekja til gáleysis stefnanda sjálfs og óhappatilviljunar. Það sé rangt og misskilningur hjá stefnanda að opnunarbúnaður netapokans með trollpokahnút sé hættulegur vanbúnaður í skilningi skaðabótaréttar. Sé þvert á móti um viðurkenndan og mjög einfaldan útbúnað að ræða, sem hefur um árabil verið notaður á sjó og landi og talinn hið mesta þarfaþing. Ekki hafi verið til að dreifa bilun eða galla í búnaðinum þegar slysið varð og hafi Vinnueftirlitið engar athugasemdir gert við búnaðinn eða við aðbúnað, verklag og aðrar aðstæður á vinnustaðnum yfirleitt. Verði skaðabótaábyrgð því ekki reist á því að slysið hafi hlotist af hættulegum vanbúnaði á vinnustað. Hverju barni hafi mátt vera ljós hættan af því að standa fast við eða undir netapokanum þegar losað var úr honum og hafi stefnandi þannig sýnt stórkostlegt gáleysi. Ekkert slys hefði orðið hefði stefnandi hefði haldið sig aðeins fjær meðan hann togaði í bandið til að leysa hnútinn. Stefnandi hafi togað of laust til að hnúturinn raknaði samstundis og stóð of nærri pokanum til að fá þangið ekki yfir sig þegar hnúturinn losnaði. Stefnandi var 41 árs að aldri og stýrimaður að mennt og mikla starfsreynslu að baki. Átti hann því flestum fremur að gera sér grein fyrir hinum einfalda losunarbúnaði netapokans og hættunni af því að bera sig ekki rétt að verki. Auk þess hafði stefnandi fengið leiðbeiningar um hvernig standa ætti að opnun netapokanna og var búinn að opna nokkra poka áfallalaust áður en slysið varð þannig að hann vissi hvernig þangið féll úr pokunum.
Stefndi reisir varakröfu sína á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar og verði stefnandi að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við það auk þess sem skaðabætur ber að lækka tölulega. Stefndi mótmælir kröfu um tímabundið atvinnutjón og telur skorta gögn um raunverulegt tekjutap stefnanda meðan hann var tímabundið óvinnufær eftir slysið og sönnur um það að hvaða starfi hann ætlaði að hverfa eftir starfslok hjá stefnda, en skv. dómvenju bætist aðeins sannað raunverulegt tímabundið vinnutekjutap. Krafa um tímabundið tjón verði því ekki byggð á líkindareikningi. Stefndi byggir á því að viðmiðunartekjur til útreiknings bótum fyrir varanlega örorku séu ekki í takt við 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en engin rök séu færð fram sem réttlæti frávik. Stefndi mótmælir vaxtakröfu og telur vexti skv. 16. gr. skaðabótalaga ekki tilheyra höfuðstól skaðabóta auk þess sem vextir séu reiknaðir af of háum höfuðstól. Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fylgst með því hvernig staðið var að losun hnúta í 2 daga. Kvaðst hann hafa fengið leiðbeiningar um það hvernig fara skyldi að, en hann kvaðst aldrei hafa leyst slíka hnúta áður. Stefnandi kvaðst enga reynslu hafa af fiskveiðum en hann kvaðst hafa verið stýrimaður í millilandasiglingum. Stefnandi kvað spottann hafa verið það langan að hægt var að standa vel til hliðar við pokann, en pokinn hékk ekki það hátt að hann kæmist undir hann. Stefnandi kvaðst hafa kippt í hnútinn en er hann opnaðist ekki kippti hann aftur en ekkert gerðist. Kvaðst hann þá hafa fært sig nær en þá opnaðist pokinn skyndilega og lenti hlassið á honum. Stefnandi kvað ekki hafa verið hægt að standa annars staðar eins og búnaði var háttað.
Vitnið Sævar Þór Grímsson, kt. 210757-7249 kvaðst fyrir dómi hafa stjórnað krananum umrætt sinn. Hann kvað hnútinn hafa losnað upp að síðasta bragðinu, sem stóð á sér. Vitnið kvað þangsláttumenn sjá um að hnýta hnútana en að mati hans var hnúturinn ekki rangt bundinn. Að sögn vitnisins velkjast pokarnir stundum í sjó og gæti það verið skýringin á því að hnútur losnar ekki, en vitnið vissi ekki til þess að hnútur hafi áður losnað með þeim hætti er hér um ræðir. Vitnið taldi ekki að stefnandi hafi staðið rangt að losun hnútarins. Vitnið skýrði frá því að þegar allt sé eðlilegt stökkvi menn af kerrunni þegar losað hefur verið um hnútinn.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu snýst ágreiningur aðila um það hvort tjón stefnanda verði rakið til vanbúnaðar á vinnustað sem leiða eigi til bótaskyldu stefnda og verði niðurstaðan sú er deilt um eigin sök stefnanda og útreikning bóta.
Telja verður nægilega upplýst í máli þessu að ætlast var til þess af hálfu stefnda að sá sem losaði hnútinn á netapokunum stæði á kerrunni þegar hann kippti í spottann og forðaði sér síðan niður áður en hlassið féll. Hefur komið fram að ekki var hægt að standa annars staðar eins og búnaði þessum var háttað. Stefnandi hafði aldrei unnið slíkt starf áður en hann hafði fylgst með löndun með þessum hætti í 2 daga. Fékk hann leiðbeiningar um það hvernig staðið skyldi að verki en ekki hefur verið sýnt fram á að hann hafi verið upplýstur um hvað gera skyldi ef hnútur losnaði ekki. Komið hefur fram í málinu að nú hefur verklagi verið breytt við löndun á þangi.
Það er álit dómsins að þær vinnuaðstæður sem stefnanda var boðið upp á hafi verið óviðunandi og hættulegar og ber stefndi af þeim sökum skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Fallast ber á það með stefnda að stefnanda, sem er stýrimaður að mennt með mikla starfsreynslu, hafi mátt vera ljóst að nokkur hætta kynni að fylgja lönduninni eins og staðið var að verki. Samkvæmt framburði vitnisins Sævars Þórs, sem stjórnaði krananum umrætt sinn, losnaði hnúturinn upp að síðasta bragðinu en stóð þá á sér. Þegar litið er til menntunar stefnanda og reynslu verður að telja að hann hefði mátt sjá hvernig í pottinn var búið og hefði hann því átt að forða sér af kerrunni í stað þess að kippa aftur í spottann. Af þessum sökum þykir rétt að stefnandi beri sjálfur þriðjung tjóns síns.
Fallast ber á það með stefnda að gögn skorti um tímabundið atvinnutjón stefnanda og verður þeim kröfulið vísað frá dómi sökum vanreifunar. Aðrar kröfur að frátalinni vaxtakröfu eru í samræmi við ákvæði skaðabótalaga og verða teknar til greina. Samkvæmt framansögðu verður stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 3.722.137 með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til eigin sakar stefnanda.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 550.000 í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Þörungaverksmiðjan hf., greiði stefnanda, Ebenezer Bárðarsyni, kr. 3.722.137 með 2% vöxtum frá 21. júlí 1994 til 18. janúar 1998 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón er vísað frá dómi.
Stefndi greiði stefnanda kr. 550.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.