Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Niðurfelling máls
  • Afturköllun
  • Lögvarðir hagsmunir


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. júní 2009.

Nr. 327/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Framsal sakamanns. Stjórnvaldsákvörðun. Niðurfelling máls. Afturköllun. Lögvarðir hagsmunir.

 

X bar undir héraðsdóm þá ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra að X skyldi framseldur til Póllands. Á dómþingi héraðsdóms var X tilkynnt um þá ákvörðun ráðherra að afturkalla framangreinda ákvörðun um framsal X. Krafðist ákæruvaldið þess í kjölfarið að málið yrði fellt niður og féllst héraðsdómur á þá beiðni. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sé  ekki að finna sérreglur um málsmeðferð við afturköllun ákvörðunar stjórnvalds samkvæmt 25. gr.  laganna. Af því leiði að málsmeðferðarreglur laganna gilda um slíka ákvörðun eftir því sem við á, þar með taldar reglur III. og IV. kafla. Þar sem X hafi ekki notið réttar samkvæmt 13. gr. laganna, þegar ráðherra ákvað að afturkalla ákvörðun sína um framsal X, hefði ákvörðunin ekki gildi gagnvart honum. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2009, þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um fella niður mál hans á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í v. lið 1. mgr. 192. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað til héraðsdóms til efnismeðferðar. Þá krefst hann hækkunar á þóknun til handa verjanda sínum vegna meðferðar málsins í héraði og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með bréfi pólskra stjórnvalda 23. september 2008 til dóms- og kirkjumálaráðherra var óskað framsals varnaraðila til Póllands til fullnustu refsidóms. Samkvæmt gögnum sem fylgdu var framsalsins beiðst í því skyni að láta varnaraðila taka út fangelsisrefsingu en hann hafi hinn 1. ágúst 2005 verið dæmdur af héraðsdómi í Lomza, Póllandi, til að sæta fangelsi í 18 mánuði og greiða sekt fyrir auðgunarbrot og skjalafals. Hafi varnaraðili verið sakfelldur fyrir að hafa fengið kreditkort með því að framvísa fölsuðu skjali og nota kortið til að kaupa vörur að fjárhæð 2197,80 PLN án þess að ætla sér að greiða úttektirnar. Hann hafi ekki mætt til afplánunar á tilskildum tíma í október 2006. Endurrit héraðsdómsins frá 1. ágúst 2005 fylgdi framsalsbeiðninni.

Dóms- og kirkjumálaráðherra féllst á framsalsbeiðni þessa 14. janúar 2009. Varnaraðili bar ákvörðun ráðherra undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem kvað upp úrskurð 27. febrúar 2009, þar sem ákvörðunin var staðfest. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar sem felldi úrskurðinn úr gildi með dómi 3. apríl 2009 í máli nr. 116/2009. Byggðist dómur Hæstaréttar á því að ráðherra hefði ekki með réttum hætti framkvæmt mat á því hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum stæðu í vegi fyrir framsali, en varnaraðili hafði við meðferð málsins byggt á því að svo væri. Að gengnum þessum dómi tók dóms- og kirkjumálaráðherra nýja ákvörðun 8. maí 2009. Var þar fallist á framsalsbeiðnina á ný. Samkvæmt málsgögnum mun varnaraðila ekki sérstaklega hafa verið gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en þessi ákvörðun var tekin.

Varnaraðili óskaði nú eftir að ákvörðun ráðherra yrði borin undir héraðsdóm. Vísaði ríkissaksóknari málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2009 og krafðist staðfestingar á ákvörðun ráðherra. Varnaraðili krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Í greinargerð af hans hálfu 8. júní 2009, sem lögð var fram á dómþingi 9. júní 2009 færði hann ýmis rök fyrir kröfu sinni. Taldi hann að ekki hefði verið gætt formreglna við ákvörðunina og einnig að á henni væru efnislegir annmarkar. Á sama dómþingi lagði sóknaraðili fram bréf dóms- og kirkjumálaráðherra 8. júní 2009 til skipaðs verjanda varnaraðila, þar sem tilkynnt var að ráðuneytið hefði vegna „ágalla á málsmeðferð“ ákveðið með vísan til 2. töluliðs 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að afturkalla ákvörðun sína frá 8. maí 2009. Ekki var í bréfinu að finna frekari skýringar á þessari ákvörðun. Í bréfinu var síðan sagt að meðferð málsins yrði fram haldið eins og málið hafi staðið við töku hinnar afturkölluðu ákvörðunar. Jafnframt var tilkynnt að ný ákvörðun yrði tekin í málinu 29. júní 2009. Var varnaraðila gefinn frestur til 23. júní 2009 til að koma athugasemdum, gögnum eða upplýsingum til ráðherra. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði óskaði sóknaraðili á dómþinginu 9. júní 2009 eftir að málið yrði fellt niður þar sem ákvörðun ráðherra hefði verið afturkölluð. Varnaraðili mótmælti því. Var hinn kærði úrskurður kveðinn upp síðar sama dag.

Varnaraðili hefur við meðferð málsins fyrir Hæstarétti meðal annars haldið því fram að við ákvörðun ráðherra um að afturkalla fyrri ákvörðun sína hafi honum borið að gæta málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga, þar með talið um andmælarétt og rökstuðning. Það hafi hann ekki gert. Þess vegna sé ákvörðunin ógild og beri af þeirri ástæðu að ljúka efnislegri meðferð málsins sem borið var undir héraðsdóminn að hans ósk.

Fallist verður á með varnaraðila að hann hafi lögvarða hagsmuni af ákvörðun ráðherra 8. júní 2009 um að afturkalla ákvörðunina frá 8. maí 2009. Afturköllun ákvörðunar er annars konar ákvörðun en ógilding hennar. Í stjórnsýslulögum er ekki að finna sérreglur um málsmeðferð við afturköllun ákvörðunar stjórnvalds samkvæmt 25. gr. laganna. Af því leiðir að málsmeðferðarreglur laganna gilda um slíka ákvörðun eftir því sem við á, þar með taldar reglur III. og IV. kafla. Fyrir liggur meðal annars að varnaraðili naut ekki réttar samkvæmt 13. gr. laganna þegar ráðherra ákvað að afturkalla fyrri ákvörðun sína. Þegar af þessari ástæðu verður fallist á með varnaraðila að ákvörðun ráðherra 8. júní 2009 hafi ekki gildi gagnvart honum. Þetta leiðir til þess að hinn kærði úrskurður verður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Ákvörðun um þóknun skipaðs verjanda varnaraðila í héraði bíður efnismeðferðar málsins. Samkvæmt 3. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 88/2008 verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur  9. júní 2009.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag er rekið á grundvelli bréfs ríkis­saksóknara (sóknaraðila) dags. 12. maí s.l. Málið var þingfest 29. maí s.l.

Sóknaraðili vísar með ofangreindu bréfi til dómsins kröfu varnaraðila, X, um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins um framsal varnaraðila til Póllands. Sóknaraðili vísar varðandi lagaheimild til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1983 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Sóknaraðili krefst staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðherra frá 8. maí 2009 um framsal varnaraðila. Varnaraðili krefst þess í greinargerð sem lögð var fram í dag að ofangreind ákvörðun dómsmálaráðherra verði felld úr gildi.

Við fyrirtöku málsins fyrr í dag var varnaraðila afhent frumrit bréfs dómsmála­ráðuneytisins dagsett í gær, þar sem honum var tilkynnt afturköllun ofangreindar ákvörðunar ráðuneytisins. Í ljósi nefnds bréfs óskaði sóknaraðili eftir því að mál þetta yrði fellt niður. Varnaraðili mótmælti því og krafðist málskostnaðar.

Með vísan til 170. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, verður mál þetta fellt niður. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af umfangi málsins, meðal annars vinnu verjanda vegna farbannskröfu í tengslum við mál þetta þykir þóknun hans, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðin 350.000 krónur, þar af 22.080 krónur vegna aksturskostnaðar.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Mál þetta er fellt niður.

Þóknun verjanda varnaraðila, 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.