Hæstiréttur íslands
Mál nr. 321/2000
Lykilorð
- Klám
- Upptaka
|
|
Þriðjudaginn 19. desember 2000. |
|
Nr. 321/2000. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Sigurði John Lúðvíkssyni (Jón Magnússon hrl.) |
Klám. Upptaka.
S var ákærður fyrir að hafa haft klámmyndir til sölu og fjölfaldað klámmyndir til sölu í verslun sinni. Þá var hann ákærður fyrir að hafa tvívegis flutt inn frá Bandaríkjunum sams konar efni til útbreiðslu. Var S sakfelldur fyrir brotin, en þau voru talin varða við 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Við ákvörðun refsingar var höfð hliðsjón af því að háttsemin var liður í atvinnurekstri S og að hann hélt rekstrinum áfram. Var S dæmdur til greiðslu sektar og upptöku myndbanda, geisladiska og stafrænna myndadiska.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar að ósk ákærða með stefnu 14. ágúst 2000. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og upptöku muna en jafnframt er þess krafist að refsing verði þyngd og að dómfelldi verði dæmdur til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Ákærði rak verslunina Taboo að Aðalstræti 7 í Reykjavík á árinu 1998. Við húsleit þar 20. nóvember lagði lögreglan hald á 717 myndbandsspólur og átta stafræna myndadiska með myndefni því sem frá er skýrt í héraðsdómi. Einnig lagði lögreglan þar hald á CMC tölvu, Samsung tölvuskjá ásamt lyklaborði og tölvumús, þrjá tölvukapla, tíu myndbandstæki af Tensai gerð og eitt myndbandstæki af gerðinni Samsung. Talið var að ákærði notaði muni þessa til fjölföldunar myndbanda. Ákærði flutti verslun sína í ársbyrjun 1999 að Skúlagötu 40 a. Þar lagði lögreglan við húsleit 9. apríl 1999 hald á 1734 sams konar myndbandspólur og 13 stafræna myndadiska. Ákærði rekur verslun sína enn að Skúlagötu 40 a. Hann hefur auglýst starfsemi sína í blöðum og tímaritum og eins á heimasíðu fyrirtækis síns á netinu.
Í 1. og 2. lið II. kafla ákæru er ákærði saksóttur fyrir að hafa haft klámmyndir til sölu í verslun sinni og hafa auk þess fjölfaldað klámmyndir til sölu á fyrstnefnda staðnum. Í 1. og 2. tölulið I. kafla ákæru er hann aftur á móti ákærður fyrir að hafa fyrst í maí 1999 og síðan í júní sama ár flutt inn frá Bandaríkjunum sams konar efni til útbreiðslu, svo sem nánar greinir í héraðsdómi.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta að ákærði hafi gerst sekur um alla þá starfsemi, sem um er getið í ákæru, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem sækjandi hefur gert á efni hennar. Háttsemi ákærða er þar réttilega færð til 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. sömu greinar.
Við ákvörðun viðurlaga ber þess að gæta auk þeirra atriða sem réttilega eru tilgreind í héraðsdómi, að háttsemi sú, sem getið er í ákæru, var liður í atvinnurekstri hans og samkvæmt því, sem fram kemur í gögnum málsins, heldur hann áfram þessum rekstri. Með vísan til raka héraðsdóms og þess sem að framan greinir þykir refsing hans hæfilega ákveðin 1.500.000 króna sekt í ríkissjóð, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en ella sæti ákærði fangelsi í þrjá mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku myndbanda, geisladiska og stafrænna myndadiska er staðfest með skírskotun til raka héraðsdóms. Samkvæmt skýrslum og framburði Kristjáns Inga Kristjánssonar lögreglumanns tókst lögreglunni ekki að nota búnað þann, sem hald var lagt á að Aðalstræti 7, til að fjölfalda hvorki DVD diska né myndbönd. Er því varhugavert að telja fyllilega sannað gegn neitun ákærða að búnaðurinn hafi verið notaður í þessu skyni, en hann má einnig nota í öðrum tilgangi. Verður því að hafna kröfu um upptöku þessa búnaðar, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan kostnað við áfrýjun máls þessa, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður John Lúðvíksson, greiði 1.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.
Upptækt skal vera 2471 myndband, 31 geisladiskur, 83 stafrænir myndadiskar, sem hald var lagt á í fyrirtæki ákærða við húsleit 20. nóvember 1998 og 9. apríl 1999.
Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um upptöku á myndbandsspólunum, The bite 2, Sailor in the wild, Big guns, Mike Henson, Manrammer, John Davenport og Cruising 3. Einnig er hafnað kröfu ákæruvaldins um upptöku tíu Tensai myndbandstækja, Samsung myndbandstækis, CMC tölvu, Samsung tölvuskjás, lyklaborðs, tölvumúsar og þriggja tölvukapla.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan kostnað af áfrýjun máls þessa, þar með talda málflutningsþókun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2000.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 10. mars 2000 á hendur ákærða, Sigurði John Lúðvíkssyni, kt. 271168-6089, Brekkutanga 19, Mosfellsbæ “fyrir eftirgreind kynferðisbrot í Reykjavík:
I.
1. Að hafa í maí 1999 flutt inn í útbreiðsluskyni, frá Kaliforníu, Bandaríkjunum, klámmyndir á 29 myndböndum, þar af eru 4 teiknimyndir, og 51 stafrænum myndadiski, sem Tollgæslan í Reykjavík haldlagði í Flutningsmiðluninni Jónar, Skútuvogi 1E, 31. maí. Meginmyndefnið á framangreindum myndböndum og diskum sýnir fólk af báðum kynjum í samförum við gagnstætt kyn og eigið kyn, um leggöng og endaþarm, við munnmök, sjálfsfróun og aðrar kynlífsathafnir, m.a. með notkun gerfilima, og er lögð áhersla á að sýna kynfæri beggja kynja.
2. Að hafa í júní 1999 flutt inn í útbreiðsluskyni, frá Kaliforníu, Bandaríkjunum, klámmyndir á 2 myndböndum, 31 geisladiski og 11 stafrænum myndadiskum, sem Tollgæslan í Reykjavík haldlagði í Flutningsmiðluninni Jónar, Skútuvogi 1E, 28. júní. Meginmyndefnið á framangreindum myndböndum og diskum sýnir fólk af báðum kynjum í samförum við gagnstætt kyn og eigið kyn, um leggöng og endaþarm, við munnmök, sjálfsfróun og aðrar kynlífsathafnir, m.a. með notkun gerfilima, og er lögð áhersla á að sýna kynfæri beggja kynja.
II.
1. Að hafa frá ársbyrjun til 20. nóvember 1998 haft klámmyndir til sölu í verslun sinni Taboo, Aðalstræti 7, og að hafa þar fjölfaldaðar klámmyndir til að selja, en 20. nóvember haldlagði lögreglan við húsleit í versluninni 719 myndbandsspólur og 8 stafræna myndadiska þar sem meginmyndefnið sýnir fólk af báðum kynjum í samförum við gagnstætt kyn og eigið kyn, um leggöng og endaþarm, við munnmök, sjálfsfróun og aðrar kynlífsathafnir, m.a. með notkun gerfilima, og er lögð áhersla á að sýna kynfæri beggja kynja. Einnig lagði lögreglan hald á CMC tölvu, Samsung tölvuskjá ásamt lyklaborði og tölvumús, 3 tölvukapla, 10 myndbandstæki af Tensai gerð og eitt myndbandstæki af gerðinni Samsung, sem ákærði notaði til fjölföldunar klámmynda.
2. Að hafa fyrri hluta árs 1999 haft klámmyndir til sölu í verslun sinni vídeósölunni, Skúlagötu 40a, en 9. apríl lagði lögreglan hald á 1802 myndbandsspólur, þar af eru 58 teiknimyndir, og 13 stafræna myndadiska þar sem meginmyndefnið sýnir fólk af báðum kynjum í samförum við gagnstætt kyn og eigið kyn, um leggöng og endaþarm, við munnmök, sjálfsfróun og aðrar kynlífsathafnir, m.a. með notkun gerfilima, og er lögð áhersla á að sýna kynfæri beggja kynja.
Telst þetta varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum 2552 myndböndum, 31 geisladiski, 83 stafrænum myndadiskum, 10 Tensai myndbandstækjum, Samsung myndbandstæki, CMC tölvu, Samsung tölvuskjá, lyklaborði, tölvumús og 3 tölvuköplum sem hald var lagt á, samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.”
Við munnlegan málflutning féll sækjandi frá saksókn vegna fjögurra teiknimynda á myndbandsspólum í 1. tl. I. kafla ákæru, sem bera heitin Advancer Tina, La blue girl 1 og 5 og Orchid Emblem.
Þá féll sækjandi frá saksókn vegna einnar kvikmyndar í 1. tl. II. kafla ákæru, en hún ber heitið, Captured beauty, og er um að ræða tvö eintök á myndbandsspólum.
Loks féll sækjandi frá saksókn vegna eftirtalinna kvikmynda í 2. tl. II. kafla ákæru:
The best of british spanking (7 eintök á myndbandsspólum), The Story of O, (3 eintök á myndbandsspólum), svo og eftirtalinna teiknimynda, sem allar eru á myndbandsspólum:
Dragon Knight, (5 eintök), La blue girl 2, (4 eintök), La blue girl 3, (7 eintök), La blue girl 4, (7 eintök), La blue girl 6, (10 eintök), Lady blue 1, (8 eintök), Lady blue 2, (10 eintök), Private psyscho lesson (6 eintök) og Rayon (6 eintök).
Í ljós kom samlagningarskekkja í ákæru í tilgreiningu á fjölda teiknimynda í 2. tl. II. kafla ákæru. Kvað sækjandi eintökin hafa verið 63, svo sem að ofan greinir, en ekki 58 eins og greini í ákæru. Kvaðst sækjandi falla frá saksókn vegna allra þessara eintaka.
Eftir ofangreinda breytingu kvað sækjandi 1. tl. I. kafla ákæru kveða á um að ákærði hafi flutt inn í útbreiðsluskyni klámmyndir á 25 myndböndum og 51 stafrænum myndadiski. 1. tl. II. kafla ákæru kveði á um að lögreglan hafi við húsleit í verslun ákærða haldlagt 717 myndbandsspólur og 8 stafræna myndadiska og 2. tl. II. kafli ákæru kveði á um að hinn 9. apríl 1999 hafi lögregla lagt hald á 1729 myndbandsspólur og 13 stafræna myndadiska.
Sækjandi kvað upptökukröfu ákæruvalds breytast í samræmi við ofangreint.
Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða samkvæmt mati dómsins verði felld á ríkissjóð.
II.
Málavextir.
Um 1. lið I. kafli ákæru.
Hinn 31. maí 1999 lagði Tollstjórinn í Reykjavík hald á sendingu af VHS-myndbandsspólum og DVD-diskum í Flutningsmiðluninni Jónum, en talið var að um klámmyndir væri að ræða. Skráður innflytjandi sendingarinnar var ákærði. Samkvæmt skýrslu lögreglu 19. til 22. júní 1999 og meðfylgjandi munskrá var um að ræða 29 VHS-myndbönd og 51 DVD-disk, þar af voru 29 titlar á myndbandsspólum og 20 titlar á DVD-diskum. Skoðun lögreglu þótti leiða í ljós að um klámefni væri að ræða. Lögreglan tók saman lýsingu á meginmyndefni viðkomandi kvikmynda, sbr. skjal nr. 7.2 á dskj. nr. 4.
Ákærði var yfirheyrður vegna málsins 30. júní 1999. Hann kvað myndefnið einungis hafa verið ætlað til einkanota, en hvorki til dreifingar eða sölu. Ákærði kvaðst hafa pantað myndefnið að utan frá fyrirtækinu Game Link ásamt nokkrum kunningjum sínum, sem hann vildi ekki nafngreina. Ákærði kvaðst hafa greitt kaupverðið með greiðslukorti sínu og hafi félagar hans ætlað að greiða honum til baka þegar þeir fengju myndefnið í hendur. Ákærði hafi hins vegar ekki átt að hagnast á innkaupunum. Ákærða var sýnd munaskrá lögreglunnar og kvaðst hann ekki rengja hana.
Um 2. lið I. kafla ákæru.
Hinn 28. júní 1999 lagði Tollstjórinn í Reykjavík hald á sendingu af VHS-myndbandsspólum og DVD-diskum í Flutningsmiðluninni Jónum, en seljandi vörunnar var fyrirtækið Game Link í San Francisco í Bandaríkjunum. Talið var að um klámmyndir væri að ræða. Innflytjandi sendingarinnar var ákærði. Samkvæmt skýrslu lögreglu 3. september og meðfylgjandi munskrá var um að ræða 11 DVD-diska með 9 myndatitlum, 31 CD-disk með jafnmörgum myndatitlum og 2 VHS-myndbönd með jafnmörgum myndatitlum. Samkvæmt skýrslu lögreglu voru myndirnar skoðaðar 26. til 29. september 1999 og að mati lögreglu þótti ekki vafi leika á því að um klámefni væri að ræða. Lögreglan tók saman lýsingu á meginmyndefni viðkomandi kvikmynda, sbr. skjal nr. I/4.2 á dskj. nr. 5.
Ákærði var yfirheyrður vegna málsins 1. október 1999. Hann kvaðst hafa pantað ofangreint efni frá fyrirtækinu Game Link í Bandaríkjunum 24. júní 1999 og hefði hann greitt fyrir myndirnar með greiðslukorti sínu og látið senda sér með Fedex-hraðsendingarþjónustu. Kvaðst hann hafa pantað myndefnið til einkanota, en það hefði ekki verið ætlað til sölu. Hann áliti að um erótískt myndefni væri að ræða en ekki klám. Hann kvaðst reka verslunina Taboo við Skúlagötu 40a og færi þar fram sala á erótískum kvikmyndum á myndbandsspólum og DVD-diskum, svo og á hjálpartækjum ástarlífsins. Enn sem komið er hefði hann ekki selt efni þetta á CD-diskum. Myndefnið hefði ekki verið ætlað til sölu í verslun hans.
Um 1. og 2. lið II. kafla ákæru.
Föstudaginn 20. nóvember 1998 var gerð húsleit í fyrirtæki ákærða, Taboo, við Aðalstræti 7 í Reykjavík að gengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Ákærði var á staðnum þegar lögreglu bar að garði. Aðspurður kvaðst hann vera eigandi og eini starfsmaður fyrirtækisins. Hann sagði að starfsemi þess væri fólgin í sölu á DVD-myndum, fjölföldun erótískra mynda og sölu þeirra.
Í skýrslu lögreglu segir að verslunin Taboo skiptist í tvo hluta. Annars vegar sé um að ræða verslunarrými og hins vegar bakherbergi þar sem fjölföldun myndefnis fari fram. Í verslunarrýminu sé tölva, afgreiðsluborð, posavél og myndefni, aðallega klámefni, uppraðað í hillurekka. Einnig segir að þar geti að líta skilti með áletrun um að hægt sé að panta myndbönd og að afgreiðslutíminn sé sólarhringur. Í skýrslunni segir jafnframt að í bakherberginu séu tæki til fjölföldunar og fjölfölduð myndbönd með ýmsum titlum. Vettvangur var ljósmyndaður áður en leit hófst. Lagt var hald á tölvu af gerðinni CMC, tölvuskjá af gerðinni Samsung, lyklaborð, tölvumús, þrjá tölvukapla, tíu myndbandstæki af gerðinni Tensai og eitt myndbandstæki af gerðinni Samsung, svo og VHS-myndbönd og DVD-diska. Samkvæmt munaskrá lögreglu á skjali nr. I/6 og skýrslu lögreglu 30. júní 1999 og 8. mars 2000 (skjal I/47 og 47A) á dskj. nr. 6 var lagt hald á alls 8 DVD-diska og 719 VHS-myndbönd við húsleit í ofangreindu fyrirtæki ákærða 30. nóvember 1998. Heildarfjöldi titla var 299.
Föstudaginn 9. apríl 1999 var gerð húsleit í fyrirtæki ákærða, Videósölunni, að Skúlagötu 40a í Reykjavík að gengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Í skýrslu lögreglunnar dagsettri þann dag var tilhögun húsnæðisins þannig, að komið var inn í forstofuherbergi og úr því var gengið inn í skrifstofu og þar inn af var lítið eldhús og salerni. Úr forstofunni var einnig gengt inn í um það bil 20 fermetra herbergi með sófa og borði og úr því herbergi var gengið inn í stórt rými þar sem voru veggrekkar með tómum umslögum af klámspólum, eins og segir í skýrslunni. Á miðju gólfi var borð með sýnishornum af ýmsum hjálpartækjum ástarlífsins. Útfrá aðalrýminu voru tvö minni rými þar sem lager Vídeósölunnar var geymdur. Lagt var hald á myndefni á VHS-myndbandsspólum og DVD-diskum, svo og sýnishorn af bæklingum og póstkröfuseðlum í möppu. Samkvæmt munaskrá lögreglu á skjali nr. I/46 og skýrslu lögreglu 8. mars 2000 á skjali nr. I/47A á dskj. nr. 6 voru haldlagðir alls 13 DVD-diskar og 1802 VHS-myndbandsspólur í fyrrnefndu fyrirtæki ákærða 9. apríl 1999. Heildarfjöldi titla var 478.
Samkvæmt heildarskýrslu lögreglu um skoðun myndefnis, sem haldlagt var að Aðalstræti 7 hinn 20. nóvember 1998 og Skúlagötu 40a 9. apríl 1999, var lagt hald á alls 2521 VHS-spólu og 21 DVD-disk. Heildarfjöldi titla var 558, en við seinni leitina voru haldlagðir margir hinna sömu titla og fundust í fyrri leitinni, en einnig fundustu nýir titlar í þeirri síðari. Lögregla tók saman lýsingu á meginmyndefni þeirra kvikmynda, sem haldlagðar voru við húsleitir hjá ákærða 20. nóvember 1998 og 9. apríl 1999, sbr. skjal nr. I/47-48 á dskj. nr. 6. Lögregla hafði áður tekið saman lýsingu á meginmyndefni þeirra kvikmynda, sem haldlagðar voru við fyrri húsleitina, sbr. skjal nr. I/6-44 á dskj. nr. 6, en þeirri skýrslu var steypt saman við áðurgreinda heildarskýrslu um skoðun myndefnisins.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna fyrri húsleitarinnar 20. nóvember 1998. Honum var tjáð að hann væri grunaður um brot á höfundarréttarlögum og ólöglega fjölföldun klámmynda. Ákærði kvað fyrirtækið Taboo einkafirma sitt. Hann sæi um rekstur fyrirtækisins og væri eini starfsmaður þess. Starfsemi Taboo væri fólgin í því að kaupa inn DVD-myndir til endursölu. Flest allt myndefnið hefði hann keypt af Tæknivali í heildsölu og kvaðst ákærði hafa leyfi Tæknivals til að selja myndirnar í smásölu. Um væri að ræða bæði venjulegar og erótískar kvikmyndir.
Þá kvaðst ákærði einnig vera nýbyrjaður að flytja inn DVD-diska sjálfur og keypti hann þá af fyrirtækinu Game Link í San Fransisco í Bandaríkjunum. Um væri að ræða bæði venjulegar og erótískar kvikmyndir. Hefði hann leyfi fyrirtækisins til að selja DVD-myndir í smásölu. Kvaðst hann flytja DVD-myndirnar inn með pósti og væru þær tollafgreiddir með venjulegum hætti. Kvaðst hann hafa hafið þennan innflutning fyrir um það bil mánuði. Ákærði kvaðst ekki fjölfalda DVD-myndir, einungis selja þær í smásölu.
Ákærði kvaðst kaupa erótískar myndir á VHS-myndböndum af fyrirtækinu Game Link og hefði hann leyfi fyrirtækisins til fjölföldunar á því efni. Jafnframt hefði hann leyfi fyrirtækisins til að selja þetta fjölfaldaða efni í smásölu. Kvaðst hann einungis selja fjölfaldað efni en ekki leigja það út. Þá kvaðst hann ekki selja þeim sem væru yngri en 18 ára erótískar myndir. Hann seldi ekki óeðlilegar erótískar myndir, eins og ákærði orðaði það, þ.e. hvorki barnaklám eða dýraklám.
Gunnar Guðjón Ingvarsson, innkaupafulltrúi hjá Tæknivali hf., var yfirheyrður af lögreglu vegna málsins 14. desember 1998. Hann kvað Tæknival hf. tvívegis hafa flutt inn erótískar kvikmyndir frá fyrirtækinu Vivid í Bandaríkjunum á árinu 1998 og hefði ákærði hafa keypt slíkar myndir af Tæknivali hf. Honum voru sýnd ljósrit af reikningum Tæknivals, sem merktir eru ákærða, og kvað hann þá sýna heildarviðskipti ákærða við Tæknival hf. árið 1998. Diskar, sem auðkenndir væru með DVD Various Disks á reikningunum væru allt diskar með erótísku efni.
Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tæknivals hf., gaf skýrslu hjá lögreglu 18. janúar 1999. Hann staðfesti einnig að Tæknival hf. hefði keypt myndefni á DVD-diskum frá fyrirtækinu Vivid í Bandaríkjunum, en kvaðst ekki hafa vitað að um klámefni hefði verið að ræða. Hann framvísaði yfirliti yfir þær myndir, sem Tæknival hf. hefði keypt af hinu bandaríska fyrirtæki, svo og lista yfir þá, sem keypt hefðu myndefni þetta af Tæknivali. Á lista þessum getur að líta nafn ákærða.
Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 20. janúar 1999 og var þá tjáð að hann væri grunaður um brot á póstlögum og almennum hegningarlögum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa fjölfaldað efni af DVD-diskum yfir á VHS-myndbönd. Hann kvaðst hins vegar hafa verið með VHS-myndbönd í umboðssölu fyrir ýmsa aðila, sem hann vildi ekki nafngreina. Einstaklingar þessir hefðu ekki viljað gefa upp full nöfn og hann ekki krafist þess að þeir gerðu það. Þeir hefðu yfirleitt vitjað greiðslu fyrir myndböndin síðar. Myndir þessar hafi oft verið með kápum, sem merktar hefðu verið DVD, en hann kvaðst aldrei hafa fjölfaldað slíkar kápur sjálfur. Þá kvaðst hann aðspurður ekki hafa flutt inn myndir frá fyrirtækinu Vivid. Munaskrár voru bornar undir ákærða og kvaðst hann ekki að rengja þær.
Ákærði var yfirheyrður á ný af lögreglu 11. febrúar 1999. Aðspurður kvaðst ákærði hafa fjölfaldað einkamyndbönd frá VHS-palkerfinu yfir á VHS-NTSC kerfið, þ.e. frá okkar kerfi yfir á ameríska kerfið, eins og ákærði orðaði það. Hann kvaðst ekki hafa fjölfaldað þær erótísku myndir, sem hann hefði verið með sölu í versluninni. Hann kvað hluta þeirra myndbandstækja, sem lögregla hefði lagt hald á, hafa verið notuð til fjölföldunar. Þrjú tækjanna hefðu verið tengd, en hin tækin ótengd.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 13. apríl 1999, en þá hafði húsleit í fyrirtæki hans, Vídeósölunni, að Skúlagötu 40a, farið fram. Aðspurður kvaðst hann þekkja mann að nafni Arnaldur, en kvaðst ekki vita hvert föðurnafn hans væri eða hvar hann byggi. Hann kvað Arnald þennan hafa aðstoðað sig í verslun sinni í september eða október 1998. Um vinargreiða hefði verið að ræða og hefði Arnaldur ekki þegið laun. Þá kvað hann Arnald hafa sinnt afgreiðslustörfum í versluninni á meðan ákærði var fjarverandi. Ákærða var kynnt að við leit í fyrirtæki hans að Aðalstræti 7 hefði fundist fjöldi VHS-myndbanda í kápum, sem merktar hefðu verið eins og um DVD-diska væri að ræða og einnig hefðu kápur þessar greinilega verið litljósritaðar. Þá hefði mátt sjá í byrjun VHS-myndbanda þessa texta þar sem fram kæmi að um DVD-myndefni væri að ræða. Ákærði kvaðst hafa verið með umrædd VHS-myndbönd í umboðssölu fyrir mann, sem kallaður væri Guðmundur. Kvaðst ákærði engin frekari deili vita á þessum manni, en lýsti útliti hans lítillega og kvað hann vera á aldrinum 26 til 33 ára. Þá var borinn undir ákærða tölvupóstur, sem fannst í hinni haldlögðu tölvu, sendur af Arnaldi 26. september 1998 kl. 12.11 (skjal VI/3.2) og sem virtist sendur frá tölvupóstfangi ákærða. Setningin, “Nýju bláu DVD, á að afrita þær spólur og byrja að selja?”, í umræddum tölvupósti var borin sérstaklega undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa fengið tölvupóst þennan. Þá kannaðist ákærði ekki við svarbréf undirritað af Sigga John, sbr. skjal nr. VI/3.3. Þá var ákærða kynnt að talsvert af þeim myndböndum, sem haldlögð voru í versluninni að Aðalstræti 7 hefðu innihaldið klámefni frá fyrirtækinu Vivid og væru kápurnar litljósritaðar og merktar eins og um DVD-myndir frá Vivid væri að ræða. Ákærði sagði að öll VHS-myndbönd, sem merkt hefðu verið DVD og hefðu verið í versluninni að Aðalstræti 7, hefði hann verið með í umboðssölu fyrir fyrrnefndan Guðmund. Hann kvaðst ekki treysta sér til að segja um hversu mikið magn Guðmundur þessi hefði látið hann fá af VHS-myndböndum. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hægt væri að nota DVD-drif hinnar haldlögðu tölvu til að fjölfalda DVD-myndefni yfir á myndbandsspólur.
Aðspurður kvað ákærði að í fyrirtæki hans að Skúlagötu 40a væru seldar erótískar myndir. Viðskiptavinir hans væru fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar. Þá kvaðst ákærði vera með póstverslun, sem seldi hjálpartæki ástarlífsins. Hann kvað allt myndefnið, sem lögregla hefði lagt hald á að Skúlagötu 40a, hefði hann verið með í umboðssölu, annars vegar fyrir fyrrnefndan Guðmund og hins vegar fyrir mann að nafni Reynir. Ákærði kvaðst ekki vita hvert föðurnafn hans væri, hvar hann ætti heima eða hvert símanúmer hans væri. Hann lýsti útliti Reynis þessa og kvað hann vera um fertugt. Ákærði kvað litljósritunarvél, sem var í fyrirtæki hans að Skúlagötu 40a, hafa verið notaða til að litljósrita pöntunareyðublöð, myndalista og kápur utan um VHS-myndbönd. Mikið af myndböndum frá Guðmundi og Reyni væru kápulaus og þyrfti hann því að útbúa kápur utan um þau. Þá kvaðst hann nota vélina til að gera auglýsingar og veggspjöld. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa fjölfaldað VHS-myndbönd, sem fundust við leit í fyrirtæki hans 9. apríl 1999. Hann kvað Guðmund og Reyni hafa samband við sig í versluninni og þeir spyrðu hvaða myndbönd hann vanti, hann segði þeim það og síðan kæmu þeir með myndefnið í verslunina til ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvert kaupverð myndbandanna væri, en það væri í höndum endurskoðanda hans.
Arnaldur Geir Schram var yfirheyrður vegna málsins 15. apríl 1999. Hann kvað ákærða vera vin bróður síns, Björgvins Schram og kvað þá æskuvini. Kvaðst Arnaldur hafa þekkt ákærða í nokkur ár. Hann kvaðst hafa aðstoðað ákærða í verslun hans, Taboo, við Aðalstræti 7 í september og fram í miðjan október eða hugsanlega fram að mánaðamótum október og nóvember 1998. Sagðist hann hafa verið í fullu starfi hjá ákærða í um það bil eina og hálfa viku, en hina dagana hefði hann unnið í 2 til 3 tíma eftir skóla. Sagði hann starfið hafa verið fólgið í því að selja erótískt efni og leigja út DVD-myndir. Viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu verið einstaklingar. Myndefnið, sem hefði verið í versluninni hefði komið frá einhverjum einstaklingum í umboðssölu, annað vissi hann ekki. Hann hefði aldrei þurft að greiða reikninga fyrir myndefnið, en ákærði hefði séð um þá hlið mála. Arnaldur kvaðst ekki hafa þegið laun fyrir störf sín í þágu ákærða. Hann kvaðst hafa annast um verslunina á meðan ákærði fór til Bandaríkjanna um miðjan september 1998. Aðspurður kvaðst hann hafa sent ákærða tölvupóst á meðan ákærði var í Bandaríkjunum og spurt hann um reksturinn. Einnig kvað hann ákærða hafa sent sér tölvupóst til baka og svarað ýmsum spurningum varðandi reksturinn. Arnaldi var kynntur tölvupóstur frá honum til ákærða frá 26. september 1998 kl. 12.11. Arnaldur kvaðst hafa verið að vinna í versluninni hjá ákærða á þessum tíma. Hann kvaðst ekki muna eftir þessum tölvupósti, en gerði þó ráð fyrir að hafa sent ákærða hann þar sem enginn annar hefði haft aðgang að tölvu ákærða á þessum tíma. Í fyrstu kvað Arnaldur að engin tæki hefðu verið til fjölföldunar í versluninni á meðan hann vann þar og þar hefði engin fjölföldun farið fram. Arnaldi var nú kynnt svarbréf ákærða í tölvupósti frá 26. september 1998 kl. 15.20. Eftir að hafa rætt einslega við verjanda sinn í síma vildi Arnaldur breyta framburði sínum og skýra rétt frá hvað varðar fjölföldun myndefnis. Sagði hann að í fyrirtæki ákærða við Aðalstræti 7 hefðu verið fjölföldunartæki. Í bakherbergi hefðu verið 10 VHS-myndbandstæki og að hægt hefði verið að afrita 5 VHS-spólur í einu. Myndbandstækin hefðu öll verið samtengd og tölvan tengd við þau öll í einu þannig að hægt hefði verið að afrita af einum DVD-disk yfir á 10 VHS-spólur í einu. Forrit hefði verið í tölvunni, sem spilað hefði af DVD-diskinum. Hann kvaðst ekki treysta sér til að lýsa tengingum tækjanna. Arnaldur kvaðst hafa afritað “hommamyndefni” af DVD-diskum yfir á VHS-spólur á meðan ákærði var í Bandaríkjunum í september 1998. Kvaðst hann ekki muna hversu margar spólur hann hefði afritað. Kvaðst hann hafa gert þetta að beiðni ákærða, eins og fram kæmi í fyrrgreindum tölvupósti. Annað efni hefði hann ekki fjölfaldað fyrir ákærða. Ákærði hefði almennt séð um alla fjölföldun sjálfur. Hann kvað það rétt að ákærði hefði verið með eitthvað af klámmyndböndum í umboðssölu, eins og hann hefði áður greint frá. Þegar hann hefði verið að vinna í fyrirtækinu hefðu verið til staflar af kápum utan um klámmyndböndin og kvaðst hann ekki hafa haft hugmynd um hvaðan ákærði fékk kápurnar.
Björgvin Schram var einnig yfirheyrður hjá lögreglu 15. apríl 1999. Aðspurður kvað Björgvin ákærða góðan kunningja sinn til margra ára. Hann kvaðst aðeins hafa keypt af honum DVD-diska, en engar “bláar” spólur eða “bláa” DVD-diska. Hann kvað ákærða hafa pantað diskana að utan og hann borgað honum um það bil 2.500 krónur fyrir diskinn. Sagðist hann hafa beðið ákærða um að afrita spólur af ameríska kerfinu yfir á evrópska kerfið. Um hefði verið að ræða eina og eina spólu, sem hann hefði sjálfur komið með til ákærða. Hefði ákærði gert þetta á gamla staðnum í Aðalstræti, eins og Björgvin orðaði það. Hann kvaðst hafa komið til ákærða á nýja staðinn að Skúlagötu 40a. Sagði hann að ákærði seldi þar hjálpartæki ástarlífsins og “bláar” myndir. Aðspurður sagði hann að bróðir hans, Arnaldur Schram, væri kallaður Addi.
Að lokum var ákærði yfirheyrður af lögreglu 30. júní 1999. Undir ákærða var borinn framburður Arnalds Schram um að hann hefði fjölfaldað myndefni af DVD-diskum yfir á VHS-myndbandsspólur fyrir ákærða. Einnig var ákærði inntur skýringa á ósamræmi í framburði hans, en í fyrstu skýrslu hans hjá lögreglu greindi hann frá því að hann hefði fjölfaldað erótískt myndefni á VHS-spólum frá fyrirtækinu Game Link, en í síðari skýrslum sínum hjá lögreglu hefði hann neitað því að hafa fjölfaldað klámefni. Ákærði svaraði því svo til að hann hefði fjölfaldað myndefni á VHS-myndbandsspólum fyrir viðskiptavini sína, þ.e.a.s. myndefni sem þeir hefðu sjálfir komið með og beðið hann um að fjölfalda yfir á fleiri spólur. Það erótíska efni, sem hann hefði haft á boðstólum í versluninni hefði hann haft í umboðssölu fyrir ýmsa aðila. Hann neitaði því að hafa fjölfaldað myndefni af DVD-diskum yfir á VHS-spólur. Hann kannaðist ekki við að Arnaldur Schram hefði fjölfaldað myndefni af DVD-diskum yfir á VHS-spólur fyrir hann. Hann kvaðst hins vegar vita til að Arnaldur hefði fjölfaldað myndefni fyrir viðskiptavini fyrirtækisins, sem þeir hefðu sjálfir komið með.
Hin haldlagða tölva ásamt fylgihlutum hennar var rannsökuð af tæknideild lögreglu meðal annars með hliðsjón af því hvort hægt væri að nota tölvubúnaðinn til fjölföldunar myndefnis af DVD-diskum yfir á myndbandsspólur eða aðra diska. Í skýrslu tæknideildar lögreglu 17. mars 1999 kemur fram að farið hefði verið yfir þau forrit, sem til staðar voru í tölvunni, en athyglinni hefði sérstaklega verið beint að forritum, sem tengdust DVD-geisladrifinu. Í skráarmöppunni, C:\DVDdrv\dx2mode\, hafi verið forrit sem heiti, dxr2mode.exe, og textaskjal sem heiti, readme.txt. Samkvæmt textaskjalinu muni forrit þetta hafa tvennskonar virkni á DVD-geisladrif, annars vegar það sem nefnt sé, PAL/NTSC colourspace switching, og hins vegar það sem nefnt sé, Macrovision disabling. PAL/NTSC volourspace switching geri mögulegt að spila til dæmis DVD-geisladiska, sem gerðir séu fyrir bandaríska NTSC-sjónvarpskerfið yfir á evrópska PAL-sjónvarpskerfið. Macrovision sé hliðrænt afritunarvarnarkerfi, sem sé ætlað að koma í veg fyrir upptöku á myndmerki (video signal) á myndbandsupptökutæki. Það vinni þannig að það rugli AGC og litaupplýsingar í myndmerkinu á þann hátt að það hefur ekki áhrif á sjónvörp heldur á myndbandsupptökutæki. Macrovision disabling geri því mögulegt að aftengja Macrovision afritunarvörn á DVD-geisladiskum. Dxr2mode-forritið sé ekki hluti af forritum, sem fylgi með DVD-geisladrifinu því það geri mögulegt að fjölfalda efni og/eða spila efni frá mismunandi höfundarréttarsvæðum. Mjög auðvelt sé að nálgast forritið á internetinu. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ætla megi að hægt hefði verið að nota DVD-geisladrif tölvunnar til að fjölfalda myndefni af DVD-geisladiskum yfir á myndbandsspólur. Tilraun tæknideildar til að afrita efni frá DVD-drifi tölvunnar yfir á VHS-myndbandsupptökutæki hefði að vísu ekki tekist með fullnægjandi hætti. Hins vegar hefðu ekki legið fyrir upplýsingar um hvernig tölvan var tengd við jaðartæki á vettvangi þegar hún var haldlögð. Líklegt væri að kaplar, sem tengdir voru við tölvuna, hefðu ekki allir verið haldlagðir og fylgt tölvunni þegar hún var afhent tæknideild lögreglu.
Að beiðni lögreglu voru hin haldlögðu myndbandstæki skoðuð af rafeindaþjónustu hér í bæ í því skyni að kanna hvort myndbandstækin væru með búnaði til að opna afritunarvörn á myndböndum og DVD-diskum. Skoðun rafeindaþjónustunnar leiddi í ljós að ekki hefði verið átt við AGC rás í tækjunum, sem réði því hvort macrovion (svo) virkar á tækin eða ekki.
Í þinghaldi 31. maí sl. óskuðu sækjandi og verjandi eftir að skoðuð yrðu eitt eða fleiri myndskeið úr fjórtán kvikmyndum til að staðreyna hvort og að hve miklu leyti leggja mætti til grundvallar skýrslur lögreglu um skoðun á myndefninu. Valdi ákærði sex kvikmyndir, en sækjandi átta af handahófi. Myndir þessar voru ýmist á VHS-myndböndum eða DVD-diskum. Myndskeið úr eftirfarandi kvikmyndum voru skoðuð og er miðað við teljara á VHS- eða DVD-myndbandstæki:
Best of British spanking, VHS, allri hraðspólað, Beautyful, VHS, 00428-00918, Bobby Sox, VHS, 01637-02255, Buttman 5 nudea a poppin, VHS, 3222-3305 og 10150-10332, Camp of correction, VHS, 00- 02126, Dangerous, VHS, 00545-00941, 02407-03114 og 04648-05114, Debbie does Dallas, VHS, 02742-02939, 10143-10448 og 10928-11118, Hot strippers, DVD, hraðspólað að hluta, Night nurses, DVD, 2,00020-3,01651, Private psycho lesson, VHS, allri hraðspólað, Sex censored, DVD, 4,0006-21,00232, Story of O, VHS, hraðspólað að hluta, The world´s luckiest man, DVD, 5,00034-5,00046, 6,00026-6,00217, Victim of love, DVD, var ekki skoðuð þar sem ákærði lýsti því yfir í þinghaldinu að hann féllist á lýsingu lögreglu á efni myndarinnar.
Við aðalmeðferð málsins féll sækjandi frá saksókn vegna eftirtalinna kvikmynda, sem skoðaðar voru: Best of british spanking, Story of O og Private psycho lesson
Í þinghaldi 5. júní sl. var bókað í þingbók eftir sækjanda og verjanda að þau væru sammála um að á því mætti byggja í máli þessu að lýsing lögreglu á efni viðkomandi kvikmynda á skjali nr. 7.2 á dskj. nr. 4, skjali nr. I/4.2 á dskj. nr. 5 og skjali nr. I/48 á dskj. nr. 6, væri í meginatriðum rétt. Þó væri ekki fallist á það af hálfu ákærða að um klámmyndir væri að ræða.
Í sama þinghaldi óskaði verjandi ákærða eftir að bókað yrði að ákærði héldi því nú fram, að myndefni það, sem lagt hefði verið hald á í tolli í maí og júní 1999 hefði ekki verið flutt inn í útbreiðsluskyni heldur hefðu þeir Stefán Karl Lúðvíksson, Lúðvík Sindri Lúðvíksson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Hallgrímur Þorláksson, Unnar Þór Gunnarsson og Björgvin Schram auk ákærða sjálfs staðið sameiginlega að innflutningum og hefði myndefnið verið ætlað til einkanota þeirra.
Þá óskað verjanda ákærða að bókað yrði að annað myndefni, sem lögregla hefði lagt hald á, hefði ekki verið til sölu í verslun ákærða, heldur hefði aðallega verið um skiptimarkað að ræða og tilgreindi 26 einstaklinga, sem ættu töluvert magn þess myndefnis, sem haldlagt hefði verið. Auk þeirra hefðu töluvert fleiri menn átt hluta af því myndefni, sem um ræddi í 1. og 2. lið II. kafla ákæru, en ákærði vildi ekki nafngreina þá að svo stöddu.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu sem vitni lögreglumennirnir Kristján Ingi Kristjánsson og Kristján Kristjánsson, svo og Arnaldur Geir Schram, Lúðvík Sindri Lúðvíksson, Stefán Karl Lúðvíksson, Björgvin Schram, Páll Óskar Hjálmtýsson, Hallgrímur Þorláksson og Unnar Þór Gunnarsson.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvaðst hafa hafið viðskipti með myndefni af kynferðislegum toga í ársbyrjun 1998 eða þegar hann opnaði verslun sína að Aðalstræti 7. Kvaðst ákærði hafa rekið verslun með myndefni af þessum toga síðan, en einnig hefði hann til sölu hjálpartæki ástarlífsins. Ákærði kvaðst ekki hafa leigt út erótískar myndir. Hins vegar hefði hópur manna, vinir og kunningjar, getað komið með spólur í verslunina og skipst á spólum. Ákærði hefði lánað þeim spólur og þeir honum. Einnig hefði verið til sölu erótískt myndefni á DVD-diskum. Í dag kvaðst ákærði reka fyrirtækið, Taboo, að Skúlagötu 40a. Þar kvaðst hann selja myndefni af kynferðislegum toga og vörur tengdar kynlífi. Kvað hann dskj. 10 vera útskrift af heimasíðu fyrirtækis síns.
Ákærði var fyrst spurður út í ákæruatriði í 1. lið II. kafla ákæru að teknu tilliti til þess að fallið hefur verið frá saksókn vegna áðurgreindra myndbandsspóla. Ákærði kvað það ekki rétt að hann hefði viðurkennt í skýrslu sinni hjá lögreglu 20. nóvember 1998 að hafa selt fjölfaldað myndefni. Hið rétta væri að hann hefði veitt viðskiptavinum þá þjónustu að fjölfalda myndbönd fyrir þá til einkanota, t.d. myndir úr fermingarveislum. Hann hefði síðan selt viðskiptavinum sínum fjölfölduðu eintökin. Hann hefði hins vegar ekki fjölfaldað erótískt efni og selt það í verslun sinni. Rétt væri hins vegar að hann hefði leyfi frá fyrirtækinu Game Link til að fjölfalda erótískt myndefni frá fyrirtækinu og selja það, svo sem fram kæmi í skýrslu hans frá 20. nóvember 1998. Hann hefði hins vegar aldrei notfært sér þá heimild. Áður en hann gaf skýrsluna hefði honum verið tjáð að hann væri grunaður um brot á höfundarlögum. Það eina sem hefði vakað fyrir honum hefði verið að sýna fram á að hann hefði öll tilskilin leyfi í lagi. Ákærði kvaðst ávallt hafa verið með myndir í umboðssölu. Langstærstur hlut þeirra mynda, sem haldlagðar hefðu verið af lögreglu, væru í eigu viðskiptavina sinna, en þeir hefðu geymt spólur hjá honum. Hver viðskiptavinur hefði átt eitt eintak af hverri mynd, en viðskiptavinirnir hefðu verið margir og því hefðu í sumum tilvikum verið haldlögð nokkur eintök af sama titlinum. Þó að hann hefði einnig haft myndir til sölu hefðu viðskiptin þróast út í hálfgerðan skiptimarkað. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið með lista yfir alla viðskiptamenn sína og hvaða myndir þeir áttu.
Aðspurður kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við lýsingu í 1. lið II. kafla ákæru á meginmyndefni hinna haldlögðu kvikmynda og lýsingu lögreglu á meginmyndefni umræddra kvikmynda á skjali nr. I/48 á dskj. nr. 6. Ákærði kvaðst hins vegar ekki fallast á að um klámmyndir væri að ræða. Þá kvaðst hann ekki hafa fjölfaldað klámmyndir og haft þær til sölu.
Þá var ákærði spurður út í ákæruatriði í lið 2 í II. kafla ákæru að teknu tilliti til þess að fallið hefur verið frá saksókn vegna nokkurra áðurgreindra myndbandsspóla. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við atvikalýsingu í 2. lið II. kafla ákæru, en kvaðst þó ekki fallast á að um klámmyndir væri að ræða.
Þá var ákærði spurður út í ákæruatriði í 1. og 2. lið I. kafla ákæru. Ákærði kvaðst hafa pantað myndbandsspólur, DVD-diska og geisladiska fyrir sig og vini sína í umrædd skipti. Pöntunin hefði ekki tengst verslunarrekstri hans. Vinir hans hefðu komið til hans og þeir valið saman nokkrar myndir, sem ætlaðar hefðu verið til einkanota þeirra. Vinir hans hefðu ætlað að borga honum fyrir myndirnar og hefði hann ekki ætlað að hagnast á þessu á nokkurn hátt. Hann hefði haft sambönd erlendis og því getað fengið myndirnar á góðu verði. Myndirnar hefðu því verið pantaðar í hans nafni. Hann staðfesti að myndirnar hefðu verið pantaðar á sama tíma og hann rak verslunina að Skúlagötu 40a. Ástæða þess að hann hefði ekki gefið upp nöfn vina sinna í fyrstu hefði verið sú að hann hefði ekki viljað blanda þeim í málið án þess að ræða við þá. Um sömu pöntun væri að ræða í 1. og 2. lið I. kafla ákæru, en hún hefði komið í tvennu lagi. Ákærði kvað Stefán Karl Lúðvíksson og Lúðvík Sindra Lúðvíksson bræður sína, en Pál Óskar Hjálmtýsson, Hallgrím Inga Þorláksson, Unnar Þór Gunnarsson og Björgvin Schram vini sína. Ákærða voru sýnd skjöl merkt 9.1. og 9.2 á dskj. nr. 4, en á skjali merktu 9.2 er ljósrit af auglýsingu verslunar hans, Taboo, að Skúlagötu 40a, í tímaritinu Bleiku og bláu, sem samkvæmt lögregluskýrslu á dskj. nr. 9.1 kom í verslanir í byrjun júní 1999. Í auglýsingunni kemur fram titillinn Flashpoint, en í sendingunni, sem haldlögð var 31. maí 1999 voru 10 eintök af mynd með þessum titli. Ákærði kvaðst hafa pantað eitt eða tvö eintök af umræddri mynd, en fyrirtækið hefði sent honum 10 eintök fyrir mistök. Fyrrgreind auglýsing í tímaritinu Bleiku og bláu hefði ekki komið umræddri pöntun við og hefði tilviljun ein ráðið því að titill þessi hefði komið fram í auglýsingunni. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við atvikalýsingu í liðum 1 og 2 í I. kafla ákæru, en kvaðst hafna því að um klámmyndir væri að ræða. Þá kvaðst ákærði ekki viðurkenna að hann hefði flutt myndirnar inn í útbreiðsluskyni. Þá kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við lýsingu lögreglu á meginmyndefni umræddra mynda á skjali nr. I/48 á dskj. nr. 6, en þó með þeirri athugasemd að um klámmyndir væri ekki að ræða Ákærði kvaðst ekki hafa séð myndefni þeirra DVD-diska, sem hann pantaði og haldlagðir voru hjá Tollstóra í maí og júní 1999. Hann hefði því ekki getað gert sér nákvæma grein fyrir efni þeirra.
Aðspurður af verjanda sínum sagði ákærði að þegar hann hefði í yfirheyrslum hjá lögreglu rætt um diska hefði ákærði átt við svokallaða “videódiska”, þ.e. upprúlluð myndbönd, sem væru á hring inni í myndbandsspólunum, en ekki DVD-diska. DVD-diska kallaði hann einfaldlega DVD. Fólk tæki þessa “diska” út úr spólunum til að minna færi fyrir þeim til dæmis á ferðalögum milli landa. Ákærði kvaðst hafa tæki til að setja diska þessa í hulstur. Slíkir diskar hefðu einungis komið frá einkaaðilum.
Undir ákæra var borinn tölvupóstur, sem fór á milli ákærða og Arnaldar Geirs Schram 26. september 1998. Eftirfarandi setning í tölvupósti frá Arnaldi til ákærða var borin sérstaklega undir ákærða: “Nýju bláu DVD, á að afrita þær á spólur og byrja að selja?”. Ákærði sagði að um misskilning væri að ræða og hljóti Arnaldur að hafa átt við fyrrgreinda “videódiska”. Kvaðst hann annars ekki vita hvað Arnaldur hefði átt við enda spyrji hann í svarbréfi sín, “What new DVD are you talking about”.
Ákærði kvaðst ekki bera brigður á efni skýrslna sinna hjá lögreglu eða undirskrift sína undir þeim.
Ákærði kvaðst mótmæla kröfu ákæruvalds um upptöku á þeim munum, sem tilgreindir væru í ákæru. Hann kvað tæki þau, sem krafist væri upptöku á, ekki hafa verið notuð til fjölföldunar á ætluðu klámefni, sem til sölu hefði verið í versluninni Taboo.
Vitnið, Arnaldur Geir Schram, kvaðst hafa afgreitt í verslun ákærða, Taboo við Aðalstræti á árinu 1998. Kvaðst hann hafa selt erótískt efni og leigt út DVD-myndir. Vitnið var innt út í setningu í fyrrgreindum tölvupósti hans til ákærða þar sem segir. “Nýju bláu DVD, á að afrita þær á spólur og byrja að selja?”. Kvaðst vitnið hafa átt við diska, sem væru inni í venjulegum myndbandsspólum. Hann kvað það ekki vera rétt, sem fram kæmi í skýrslu hans hjá lögreglu, að í fyrirtæki ákærði hefði farið fram fjölföldun á myndefni af DVD-diskum yfir á myndbandsspólur. Hefðu þetta verið orð lögreglumannanna og hann ritað undir skýrsluna eftir þriggja tíma yfirheyrslu og hótanir um að honum yrði hent í “steininn”. Einnig hefði verið rangt eftir sér haft að í bakherbergi hefðu verið tíu myndbandstæki og hægt hefði verið að afrita af fimm myndbandsspólum yfir á aðrar fimm í einu og afrita af einum DVD-diski yfir á tíu myndbandsspólur í einu. Um misskilning hefði verið að ræða og hefði vitnið átt við svokallaða videódiska, sem væru inni í myndbandsspólum. Hægt hefði verið að afrita efni af slíkum videódiski yfir á 10 myndbandsspólur í einu. Vitnið kvaðst hafa verið kunnugt um það á þessum tíma hvað DVD-diskur var, þ.e. geisladiskur. Um hefði verið að ræða kvikmyndir á geisladiskum. Vitnið kvað ákærða hafa fengið myndefni lánað hjá öðru fólki, fjölfaldað það og selt í versluninni. Hann kvaðst ekki kannast við að ákærði hefði verið með myndir í umboðssölu í verslun sinni. Um hefði verið að ræða erótískt efni á myndböndum, þ.e. myndbandsspólum og svokölluðum “videódiskum”. Hann staðfesti að í versluninni hefðu verið til kápur, sem settar hefðu verið utan um myndbandsspólurnar þegar þær voru seldar. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að slíkar kápur hefðu verið ljósritaðar í versluninni. Vitnið kvaðst hafa fjölfaldað efni fyrir einstaklinga af svokölluðum “videódiskum” og venjulegum myndbandsspólum á meðan hann starfaði í verslun ákærða.
Vitnið, Lúðvík Sindri Lúðvíksson, kvað þá bræður, ákærða og vitnið, hafa skoðað myndefni á netinu og hefði vitnið bent á þær myndir, sem það vildi fá og þær verið pantaðar. Kvaðst vitnið minnast þess að hafa valið myndirnar, Flashpoint, á DVD diski og Dirty debutanties nr. 4 og 6 og einhverjar fleiri myndir, sem hann myndi ekki nöfnin á. Hefði vitnið ætlað að fá eitt eintak af hverri mynd. Engin sérstök ástæða hefði verið fyrir því að ákærði pantaði myndefnið í sínu nafni. Vitnið hefði átt að greiða ákærða kostnaðarverð myndanna eftir á. Kvaðst það hafa beðið ákærða um að panta um það bil 30 til 40 myndir fyrir sig.
Vitnið, Stefán Karl Lúðvíksson, kvaðst hafa beðið bróður sinn, ákærða í máli þessu, um að panta fyrir sig erótískar myndir í maí og júní 1999. Hann kvað ákærða hafa valið fyrir sig myndirnar þar sem hann hefði vitað á hvaða myndum vitnið hefði áhuga. Vitnið kvaðst hafa verið í Danmörku á þessum tíma og ætlað að koma heim í lok sumars og hefði myndefnið átt að bíða hans hér heima. Vitnið kvaðst ekki muna heiti þeirra mynda, sem þeir ákærðu hefðu rætt saman um, en kvaðst þó muna eftir að pantaðar hefðu verið einhverjar myndir, sem leikstýrðar væru af Randy West. Kvaðst vitnið hafa ætlað að fá 2 til 5 myndir og eitt eintak af hverri mynd.
Vitnið, Björgvin Schram, kvað ákærða hafa pantað erótískar myndir fyrir sig vorið 1999. Hefðu þeir verið að spara flutningskostnað með því að panta saman. Hefði vitninu skilist að ákærði gæti fengið myndefnið ódýrt, jafnvel í heildsölu. Vitnið kvaðst hafa valið myndirnar með því að skoða “katalóga” á netinu. Þeir ákærði hefðu síðan hist og farið yfir myndirnar. Vitnið kvaðst ekki muna heiti þeirra mynda, sem hann pantaði, enda hefði hann ekki pantað myndirnar vegna titlanna. Hann gat ekki sagt til um hversu margar myndir hann bað ákærða um að panta fyrir sig.
Vitnið, Páll Óskar Hjálmtýsson, kvaðst kannast við það að hafa pantað myndefni af kynferðislegum toga bæði sjálfur og með aðstoð ákærða. Hann kvaðst ekki muna hvenær ákærði pantaði slíkt myndefni fyrir hann, en vel mætti vera að það hefði verið í maí eða júní 1999. Engin sérstök ástæða hefði verið fyrir því að ákærði pantaði myndefni þetta fyrir vitnið. Vitnið kvað nei við því að hagstæðara hefði verið að láta ákærða panta efnið fyrir sig. Hann kvaðst ekki muna heiti þeirra mynda, sem ákærði pantaði fyrir hann vorið 1999, en um hefði verið að ræða sjónrænar fantasíur fyrir samkynhneigða karlmenn. Hann kvaðst halda að flestar myndirnar hefðu verið frá amerísku fyrirtæki, sem heiti Falcon eða Catalina. Þau fyrirtæki væru í mestum metum hjá vitninu. Kvaðst vitnið hafa beðið ákærða að panta um það bil 10 myndir fyrir sig í umrætt sinn. Vitnið kannaðist við að í verslun ákærða hefði verið nokkurs konar skiptimarkaður. Kvaðst vitnið hafa lánað ákærða nokkurt magn af myndefni um mánaðamót mars og apríl 1999 úr einkasafni sínu, sem hann hefði ekki fengið til baka. Kvaðst vitnið halda sérstaka dagbók um þær myndir, sem hann lánaði öðrum. Fram kæmi í dagbók þessari að hann hefði lánað ákærða 40 til 50 myndir. Ákærði hefði fengið myndirnar lánaðar til einkanota og væri vitninu ekki kunnugt um það að umræddar myndir hefðu verið til sölu í verslun ákærða. Vitnið benti á að myndefni, sem hann hefði lánað ákærða, kæmi fram á ljósmynd á bls. 14 í myndamöppu lögreglu frá 9. apríl 1999. Hluti af myndefni vitnisins væri á efstu hillu á efri myndinni á bls. 14.
Vitnið, Hallgrímur Ingi Þorláksson, kvað ákærða hafa pantað fyrir sig erótískar myndir vorið 1999. Kvaðst vitnið hafa farið heim til Sigurðar og þeir skoðað og valið myndefnið á netinu. Vitnið kvaðst ekki muna heiti þeirra mynda, sem pantaðar voru. Sagðist vitnið hafa valið 15 til 20 myndir og eitt eintak af hverri mynd. Hann kvað ákærða stundum hafa geymt fyrir hann myndir og þeir stundum skipst á myndum. Skipti þessi hefðu farið fram á heimili ákærða, en líklega hefði hann geymt myndirnar í versluninni. Hann kvaðst ekki vita til þess að myndefni, sem hann hefði lánað ákærða hefði verið til sölu í verslunum hans. Hann kvaðst hafa átt um það bil 10 myndir hjá ákærða, sem haldlagðar hefðu verið, en sagðist ekki muna hvaða myndir það væru.
Vitnið, Unnar Þór Gunnarsson, kvaðst hafa haft samband við ákærða og beðið hann um að panta fyrir sig erótískt myndefni vorið 1999. Ástæða þess að hann bað ákærða um að panta myndefnið væri sú að hugsanlega hefði ákærði greiðari aðgang að efninu en hann. Hann kvaðst hafa látið ákærða um að velja myndirnar, en þó hefði hann nefnt einhverja leikara. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða myndir hefðu verið pantaðar, en kvaðst muna eftir leikurunum Jeanna Jameson og Adriana, og einni mynd, Up and cummers. Kvaðst vitnið hafa ætlað að fá um það bil 15 myndir.
Vitnið, Kristján Ingi Kristjánsson lögreglumaður, kvað það ekki hafa komið fram í yfirheyrslum yfir ákærða að viðskiptavinir hefðu komið til hans með myndbönd á “videódiskum”, ein sog ákærði hefur lýst hér að framan. Vitnið kvaðst hafa skoðað allt myndefni þeirra mynda, sem haldlagðar hefðu verið. Farið hefði verið í gegnum hverja einustu mynd, gripið niður í vissa kafla, en einnig hraðspólað. Vitnið staðfesti samandregna lýsingu lögreglu á meginmyndefni umræddra mynda á skjali merktu nr. 7.2 á dskj. nr. 4, skali merktu nr. I/4.2 á dskj. nr. 5 og skjali merktu nr. I/48 á dskj. nr. 6. Myndum, sem haldlagðar hefðu verið og ekki reyndust vera af kynferðislegum toga, hefði verið skilað og kæmu þær ekki fram á fyrrgreindum skjölum. Hann kvað flestar myndirnar hafa sýnt klámefni frá upphafi til enda. Forsaga og söguþráður hefðu verið af skornum skammti og í myndunum hefði verið aðeins eitt þema, þ.e. klám.
Vitnið, Kristján Kristjánsson lögreglumaður, staðfesti að í hinni haldlögðu tölvu ákærða hefði verið forrit, sem leysti svokallaða afritunarlása og hefði það getað leyst afritunarvörn á DVD-diskum. Hann kvaðst hafa gert tilraun til að afrita af DVD-drifinu í tölvunni yfir á myndbandstæki, en það hefði ekki tekist. Hins vegar hefði hann ekki fengið vitneskju um það hvernig vélin var tengd á staðnum og með henni hefðu ekki fylgt þeir kaplar, sem hún hefði verið tengd með á staðnum. Hin haldlögðu myndbandstæki hefðu verið skoðuð af radíóvirkja og í þeim hefði ekki verið búnaður til að brjóta upp afritunarvörn á myndbandsspólum. Vitnið kvaðst hins vegar hafa aflað sér þeirra upplýsinga á netinu að hægt væri að kaupa kapla við viðkomandi myndbandstæki með umræddum búnaði. Vitnið kvaðst ekki hafa farið á vettvang við húsleitina og ekki tekið niður búnaðinn þar. Hann hefði því ekki séð hvernig tengingum hans var háttað í verslun ákærða.
III.
Niðurstaða.
Í dómi sakadóms Reykjavíkur 28. febrúar 1990 í málinu nr. 124/1990: Ákæruvaldið gegn Jóni Óttari Ragnarssyni, en sá dómur var staðfestur í Hæstarétti 3. október 1990 og í dómi héraðsdóms Reykjaness 1. október 1997: Ákæruvaldið gegn Magnúsi Herði Valdimarssyni, en sá dómur var einnig staðfestur í Hæstarétti 12. mars 1998, er tilgreind skilgreining sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna á klámi. Í forsendum ofangreindra dóma segir: “Af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var í mars 1986 gerður greinarmunur á hugtökunum klámi (pornografia) og kynþokkalist (erotika), þannig, að klám var skilgreint sem ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist sem bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar. Telur dómurinn að við þessa skilgreiningu megi styðjast þegar metið er hvort kvikmyndir þær, sem ákært er fyrir dreifingu á í máli þessu, innihaldi klám.
Það er mat dómsins að öll myndskeiðin, sem skoðuð voru í þinghaldi 31. maí sl., séu klámfengin, þótt misgróf séu. Hið sama gildir um meginmyndefni hinna haldlögðu kvikmynda, sem lýst er í fyrrgreindum skoðunarskýrslum lögreglu. Lögð er áhersla á að sýna kynfæri karla og kvenna, kynmök um leggöng og endaþarm, munnmök, sjálfsfróun og fjöldakynmök, allt á ögrandi hátt. Þá eru gervilimir notaðir við ýmsar kynlífsathafnir í mörgum myndanna, sömuleiðis á ögrandi hátt. Í mörgum myndanna enda kynlífssenur á því að karlmenn fá sáðfall yfir andlit, kynfæri eða annars staðar á skrokk rekkjunauta sinna. Myndskeið eru dregin á langinn og kynfæri sýnd í nærmynd við kynmök og sjálfsfróun án þess að séð verði að það þjóni neinu augljósu markmiði en því að sýna kynlífsathafnir. Listræn eða bókmenntaleg tjáning ástar var ekki sýnileg í þeim myndskeiðum, sem skoðuð voru. Hvorki í myndskeiðum þeim, sem skoðuð voru, né í lýsingu lögreglu á meginmyndefni umræddra kvikmynda er þó að finna klám af grófasta tagi; barna- eða dýraklám eða klám tengt grófu ofbeldi. Að mati dómsins er augljóst að framleiðsla myndanna í máli þessu hefur ekki listrænan eða fagurfræðilegan tilgang, heldur eru þær einungis gerðar í hagnaðarskyni. Telur dómurinn að í öllum myndunum sé klám, sem falli undir ákvæði 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Um 1. og 2. lið I. kafla ákæru.
Svo sem að framan greinir bar ákærði um það hjá lögreglu 30. júní og 1. október 1999 að myndefnið, sem haldlagt var í tolli í maí og júní 1999, hefði einungis verið ætlað til einkanota, en hvorki til dreifingar eða sölu. Kvaðst hann hafa pantað myndefnið ásamt nokkrum kunningjum sínum, sem hann vildi ekki nafngreina. Hann hefði greitt kaupverðið með greiðslukorti sínu og félagar hans ætlað að greiða honum til baka þegar þeir fengju myndefnið í hendur. Í þinghaldi 5. júní sl. var upplýst af hálfu ákærða að umræddir félagar hans væru þeir Stefán Karl Lúðvíksson, Lúðvík Sindri Lúðvíksson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Hallgrímur Þorláksson, Unnar Þór Gunnarsson og Björgvin Schram. Komið hefur fram að þeir Stefán Karl og Lúðvík Sindri eru bræður ákærða, en Páll Óskar, Hallgrímur, Unnar Þór og Björgvin vinir hans. Ákærði bar á sömu lund hér fyrir dómi og hjá lögreglu, þ.e. að hann hefði pantað umrætt myndefni fyrir sig og vini sína til einkanota. Ástæða þess að myndirnar hefðu verið pantaðar í hans nafni hefði verið sú, að hann hefði getað fengið myndirnar á hagstæðu verði. Hann hefði ekki gefið upp nöfn vina sinna í fyrstu vegna þess að hann hefði ekki viljað blanda þeim í málið án þess að ræða við þá.
Svo sem rakið hefur verið komu fyrrgreindir bræður og vinir ákærða allir fyrir dóminn og gáfu skýrslu. Minni vitna þessara um fjölda og heiti þeirra mynda, sem þeir óskuðu eftir að ákærði pantaði fyrir þau, var harla óljóst.
Vitnið, Björgvin Schram kvaðst ekki muna hvaða myndir hann bað ákærða um að panta eða hvað þær voru margar. Vitnið, Hallgrímur Ingi, kvaðst heldur ekki muna hvaða myndir hann valdi, en kvaðst hafa beðið ákærða um að panta 15 til 20 myndir. Vitnið, Lúðvík Sindri, nefndi heiti tveggja mynda, en kvaðst hafa beðið ákærða um að panta fyrir sig 30 til 40 myndir. Vitnið Unnar Þór nefndi heiti einnar kvikmyndar og nöfn tveggja leikara, en kvaðst hafa ætlað að fá um það bil 15 myndir. Vitnin, Stefán Karl og Unnar Þór, kváðust hafa látið ákærða um að velja myndir fyrir sig. Þá kvaðst Stefán Karl, hafa verið í Danmörku á þessum tíma, þ.e. vorið 1999, og ætlað að koma heim í lok sumars. Vitnið, Páll Óskar, kvaðst hafa beðið ákærða um að panta fyrir sig um það bil 10 myndir, sem hefðu að geyma sjónrænar fantasíur fyrir samkynhneigða karlmenn, eins og vitnið orðaði það. Hann kvaðst hins vegar ekki muna heiti þeirra. Samkvæmt skýrslu lögreglu á skjali nr. I/4.2 á dskj. nr. 5 og skali nr. 7.2 á dskj. nr. 4, sem hefur að geyma lýsingu á meginmyndefni þeirra kvikmynda, sem haldlagðar voru í tolli í maí og júní 1999, eru aðeins þrjár kvikmyndir, sem sýna kynlífsathafnir á milli karlmanna, þ.e. myndirnar Link 2 Link og French connection 1 og 2, en vitnið, Páll Óskar, bar einnig að hann hefði lánað ákærða í lok mars 1999 myndir úr einkasafni sínu með heitinu French connection 1 og 2. Myndir þessar virðast því þegar hafa verið í eigu vitnisins. Einnig kvaðst Páll Óskar hafa pantað myndefni af kynferðislegum toga áður án aðstoðar ákærða.
Vitnin, Lúðvík Sindri og Páll Óskar, kváðu enga sérstaka ástæðu fyrir því að ákærði pantaði myndefnið fyrir þá og neitaði Páll Óskar því að hagstæðara hefði verið að láta ákærða panta myndirnar. Vitnið, Björgvin Schram, sagði að þeir félagar hefðu verið að spara flutningskostnað með því að panta saman og sér hefði skilist að ákærði gæti fengið myndefnið ódýrt og jafnvel í heildsölu. Vitnið, Unnar Þór, sagði að ástæða þess að hann bað ákærða um að panta efnið hefði verið sú að hugsanlega hefði ákærði átt greiðari aðgang að því en vitnið. Samkvæmt framansögðu er framburður framangreindra vitna ekki í fullu samræmi við þann framburð ákærða, að ástæða þess að hann pantaði myndefnið hefði verið sú, að hann hefði notið hagstæðra kjara við kaupin. Þá þykir skýring ákærða á því af hverju hann gaf ekki upp nöfn fyrrgreindra félaga sinna fyrr en á síðari stigum málsins ótrúverðug í ljósi þess að um bræður hans og nána vini er að ræða.
Með vísan til alls ofangreinds og með tilliti til þess að tvö framangreindra vitna eru bræður ákærða og önnur vitni vinir hans, mörg hver til margra ára, þykir framburður þeirra afar ótrúverðugur og verður hann ekki lagður til grundvallar í máli þessu.
Samkvæmt munaskrá lögreglu á skjali nr. 6.1 á dskj. nr. 4 voru haldlögð 10 eintök af myndinni, Flashpoint, en auk þess voru haldlögð fleiri en eitt eintak af nokkrum myndanna. Lagt hefur verið fram í málinu ljósrit af auglýsingu úr tímaritinu, Bleiku og bláu, 4. tbl. 11. árg. 1999, sem samkvæmt skýrslu lögreglu kom í verslanir í byrjun júní 1999. Auglýsing þessi er frá verslun ákærða, Taboo, Skúlagötu 40a, Reykjavík. Í auglýsingunni eru boðnir til sölu á fimmta hundrað titlar af erótískum vídeómyndum og á þriðja hundrað DVD-diskar, auk hjálpartækja ástarlífsins. Í auglýsingunni getur að líta DVD-diskinn, Flashpoint. Fram hefur komið að ákærði rak á þeim tíma, sem hér um ræðir fyrrgreinda verslun og hefur hann viðurkennt að hafa haft þar til sölu myndefni af kynferðislegum toga. Er ákærði var yfirheyrður vegna ofangreinds máls hafði lögregla tvívegis gert húsleit í fyrirtæki hans og lagt þar hald á fjölda kvikmynda af kynferðislegum toga og var ákærði undir grun um dreifingu á klámi. Skoða verður framburð hans hjá lögreglu í því ljósi. Skráður innflytjandi umrædds myndefnis var ákærði og hann hefur borið fyrir lögreglu og hér fyrir dómi að hafa greitt kaupverð þess með greiðslukorti sínu. Með vísan til alls ofangreinds og þess magns af myndum, sem haldlagt var, þykir sannað að ákærði hafi í maí og júní flutt inn í útbreiðsluskyni frá Kaliforníu, Bandaríkjunum, klámmyndir þær, sem um ræðir í 1. og 2. lið I. kafla ákæru. Ákærði hefur borið að hann hafi áður flutt inn myndefni af kynferðislegum toga frá fyrirtækinu Game Link. Þá hefur hann borið um það að hafa kynnt sér umrætt myndefni á netinu áður en hann pantaði það. Með hliðsjón af ofangreindu verður að telja að ákærða hafi ekki getað dulist að myndirnar innihéldu klám.
Um 1. og 2. lið II. kafla ákæru.
Með vísan til framburðar ákærða fyrir lögreglu og hér fyrir dómi, þykir sannað að ákærði hafði hinar haldlögðu klámmyndir til sölu í verslun sinni Taboo við Aðalstræti 7 í Reykjavík frá ársbyrjun til 20. nóvember 1998 og í verslun sinni Vídeósölunni að Skúlagötu 40a í Reykjavík fyrri hluta árs 1999. Framburður vitnisins, Arnaldar Schram, fyrir lögreglu og hér fyrir dómi, fyrrgreind auglýsing úr tímaritinu Bleiku og bláu og ljósmyndir, sem lögregla tók á vettvangi, styðja þá niðurstöðu. Með vísan til framangreinds þykir framburður ákærða um að verslun hans hafi þróast út í skiptimarkað vina og kunningja ótrúverðugur. Er þá einnig litið til þess hversu seint þessi framburður ákærða kom fram, svo og þess mikla magns myndefnis, sem lagt var hald á hjá ákærða.
Svo sem að framan greinir var við húsleit í verslun ákærða við Aðalstræti 7 lagt hald á tölvubúnað og ellefu myndbandstæki. Rannsókn tæknideildar lögreglu leiddi í ljós að í tölvunni var forrit, sem aftengdi afritunarvörn á DVD-geisladiskum. Niðurstaða tæknideildarinnar var sú að hægt hefði verið að nota DVD-geisladrif tölvunnar til að fjölfalda myndefni af DVD-geisladiskum yfir á myndbandsspólur. Einnig var lagt hald á fjölda myndbandsspóla með myndefni, sem bersýnilega hafði verið afritað af DVD-diskum frá fyrirtækinu Vivid, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa keypt af Tæknivali hf. Ennfremur var lagt hald á fjölda myndbandsspóla með myndefni, sem hafði greinilega verið afritað og kápa frumeintaksins litljósrituð. Í versluninni að Skúlagötu 40a var litljósritunarvél.
Vitnið, Arnaldur Schram, bar fyrir lögreglu 15. apríl 1999, eftir að hafa rætt einslega við verjanda sinn í síma, að í fyrirtæki ákærða hefði farið fram fjölföldun á myndefni. Í bakherbergi hefðu verið 10 myndbandstæki, sem öll hefðu verið samtengd. Myndbandstækin hefðu jafnframt öll verið tengd tölvu, sem í hefði verið forrit, sem gerði kleift að spila af DVD-diskum. Hægt hefði verið að afrita fimm myndbandsspólur í einu og af einum DVD-disk yfir á 10 myndbandsspólur í einu. Kvaðst vitnið hafa afritað “hommamyndefni” af DVD-diskum yfir á myndbandsspólur að beiðni ákærða á meðan hann var erlendis, en almennt hefði ákærði séð um alla fjölföldun sjálfur. Þá hefðu verið í fyrirtækinu staflar af kápum utan um klámmyndböndin.
Hér fyrir dómi dró vitnið framburð sinn hjá lögreglu um fjölföldun á klámefni til baka. Skýringar vitnisins á breyttum framburði sínum þykja afar ótrúverðugar, sérstaklega með hliðsjón af tölvupósti þeim, sem fór á milli vitnisins og ákærða í september 1998.
Framburður ákærða um hinar fjölfölduðu myndbandsspólur, sem lagt var hald á í verslunum hans, hefur verið hvarflandi. Í fyrstu kvaðst ákærði hafa fjölfaldað erótískt myndefni á myndbandsspólum frá fyrirtækinu Game Link og selt það. Kvaðst ákærði hafa leyfi fyrirtækisins til þess. Síðar kvaðst ákærði hafa verið með myndbandsspólur í umboðssölu fyrir ýmsa aðila, sem hann vildi ekki nafngreina, en myndbandsspólur þessar hefðu oft verið með kápum, sem merkar hefðu verið eins og um DVD-myndir væri að ræða. Hann kvaðst hins vegar aldrei hafa fjölfaldað slíkar kápur sjálfur. Enn síðar kvað hann umbjóðendur sína heita Guðmund og Reyni, en kvaðst engin frekari deili vita á þeim. Margar myndbandsspólanna frá Guðmundi og Reyni hefðu verið kápulausar og því hefði hann þurft að útbúa kápur utan um þær. Hér fyrir dómi bar ákærði að hann hefði fjölfaldað einkamyndbönd fyrir viðskiptavini sína, en um fjölföldun á hinum erótísku myndum, sem hann hefði haft til sölu, hefði ekki verið að ræða.
Vitnið, Arnaldur Schram, sem starfaði í verslun ákærða við Aðalstræti haustið 1998, kannaðist ekki við það hér fyrir dómi að ákærði hefði verið með myndir í umboðssölu í verslun sinni. Hann kvað ákærða hins vegar hafa fengið myndefni lánað hjá öðru fólki á myndbandsspólum, fjölfaldað það og selt í versluninni.
Ákærði hefur enga grein getað gert fyrir þeim aðilum, sem fólu honum að selja myndbandsspólur í umboðssölu. Virðist ákærði þó hafa haft umtalsverð viðskipti við menn þessa af fjölda myndbandsspólanna að dæma. Þykir framburður ákærða í þessum efnum ótrúverðugur.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu þykir sannað að ákærði hafi fjölfaldað klámmyndir og haft til sölu í verslun sinni, Taboo, við Aðalstræti 7 í Reykjavík.
Niðurstaða málsins er því sú að sannað þykir að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem greinir í ákæru málsins, að teknu tilliti til þeirra breytinga, sem sækjandi gerði á efni hennar við aðalmeðferð málsins.
Háttsemi ákærða er rétt færð til refsiákvæðis í ákæru.
IV.
Viðurlög, upptaka eigna og sakarkostnaður.
Samkvæmt sakavottorði 10. mars 2000 var ákærði hinn 12. júlí 1991 dæmdur í 40 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Þá gekkst ákærði hinn 19. maí 1989 undir sektargreiðslu fyrir umferðarlagabrot. Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun viðurlaga í máli þessu.
Við ákvörðun viðurlaga er litið til þess gífurlega mikla magns af klámefni, sem lagt var hald á hjá ákærða. Einnig er litið til þess að klámefni þetta hafði hann til sölu í verslun sinni og að ætla má að hann hafi hagnast á sölu þess. Þá er og litið til þess að ákærði hefur haldið uppteknum hætti eftir að brot hans komust upp svo sem útprentun af heimasíðu fyrirtækis hans, Taboo, ber glöggt vitni um.
Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 550.000 króna sekt í ríkissjóð, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, ella sæti ákærði fangelsi í 52 daga.
Ákæruvaldið krefst upptöku á alls 2478 myndböndum, en þá hefur verið tekið tillit til þeirra 74 eintaka, sem áður eru upptalin og sækjandi felldi niður saksókn vegna dreifingar á við aðalmeðferð málsins. Ennfremur er krafist upptöku á 31 geisladiski, 83 stafrænum myndadiskum, 10 Tensai myndbandstækjum, Samsung myndbandstæki, CMC tölvu, Samsung tölvuskjá, lyklaborði, tölvumús og 3 tölvuköplum, sem lagt var hald á við húsleit hjá ákærða, allt samkvæmt heimild í 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga. Í því ákvæði er að finna heimild til að gera upptæka með dómi hluti, sem hafðir hafa verið til að drýgja brot með, nema þeir séu eign manns, sem ekkert er við brotið riðið.
Vitnið, Páll Óskar Hjálmtýsson, kvaðst hér fyrir dómi eiga nokkur hinna haldlögðu myndbanda. Framvísaði hann í réttinum dagbók sinni, en ljósrit úr henni var lagt fram við aðalmeðferð málsins, þar sem fram koma meðal annars eftirtaldir titlar við nafnið Siggi Stallone, en vitnið kvaðst kalla ákærða þessu nafni: The bite 2, Sailor in the wild, Big guns, Mike Henson, Manrammer, John Davenport og Cruising 3. Jafnframt benti vitnið á að hluti myndbandsspólanna kæmi fram á ljósmynd í ljósmyndamöppu lögreglu frá 9. apríl 1999. Öll framangreind myndbönd voru haldlögð við húsleit hjá ákærða að Skúlagötu 40a hinn 9. apríl 1999, en vitnið kvaðst hafa lánað ákærða myndbönd þessi í lok mars sama ár. Um er að ræða frumeintök allra þessara myndbanda og eitt eintak af hverri mynd. Myndir þessar sýna allar kynlífsathafnir milli karlmanna, en fram kom að slíkt myndefni væri vitninu hugleikið. Á fyrrgreindu ljósriti úr dagbók vitnisins koma einnig fram titlarnir, Cat man do og Ranger in the wild, en myndir með þessu heiti voru haldlagðar í nokkrum eintökum hjá ákærða, sem bersýnilega voru afrituð.
Með vísan til framangreinds þykir nægilega fram komið að myndirnar, The bite 2, Sailor in the wild, Big guns, Mike Henson, Manrammer, John Davenport og Cruising 3, sem lagt var hald á við húsleit hjá ákærða 9. apríl 1999, eru í eigu fyrrgreinds vitnis. Verður því ekki fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á þeim myndum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Vitnið, Hallgrímur Ingi Þorláksson, kvaðst hafa átt um það bil 10 myndir hjá ákærða, sem haldlagðar hefðu verið. Ekki kvaðst hann muna heiti þeirra. Þá sagði sagðist vitnið hafa afhent ákærða myndirnar á heimili ákærða. Hann kvaðst ekki vita til þess að myndir þessar hefðu verið til sölu í verslun hans. Með vísan framangreinds þykir ósannað að vitnið, Hallgrímur Ingi, eigi hluta af hinum haldlögðu myndbandsspólum.
Með vísan til rökstuðnings fyrir sakfellingu ákærða þykir sannað að munir þeir, sem krafist er upptöku á, voru hafðir til að drýgja brot með og voru í eigu ákærða. Verður ákærði því dæmdur til að þola upptöku á 2471 myndbandi, 31 geisladiski, 83 stafrænum myndadiskum, 10 Tensai myndbandstækjum, Samsung myndbandstæki, CMC tölvu, Samsung tölvuskjá, lyklaborði, tölvumús og 3 tölvuköplum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna embættisanna dómarans.
Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður John Lúðvíksson, greiði 550.000 króna sekt í ríkissjóð, en sæti ella fangelsi í 52 daga greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.
Upptækir skulu vera eftirfarandi munir í eigu ákærða:
2471 myndband, 31 geisladiskur, 83 stafrænir myndadiskar, 10 Tensai myndbandstæki, Samsung myndbandstæki, CMC tölva, Samsung tölvuskjár, lyklaborð, tölvumús og 3 tölvukaplar.
Kröfu ákæruvalds um upptöku á myndbandsspólunum, The bite 2, Sailor in the wild, Big guns, Mike Henson, Manrammer, John Davenport og Cruising 3, er hafnað.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., að fjárhæð 150.000 krónur.