Hæstiréttur íslands

Mál nr. 527/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Fjárnám
  • Aðfararheimild


Föstudaginn 30. ágúst 2013.

Nr. 527/2013.

Íslandsbanki hf.

(Ágúst Stefánsson hdl.)

gegn

Láru J. Haraldsdóttur

(enginn)

Kærumál. Aðför. Fjárnám. Aðfararheimild.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Í hf. um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um að synja um framgang aðfarar á hendur L. F ehf. hafði gefið út tryggingabréf til G hf., forvera Í hf., vegna skulda félagsins við bankann og ritaði L í tveimur tilvikum undir slík bréf fyrir hönd félagsins. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. af þeim orðum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 að aðför megi krefjast hjá þeim sem „skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar“ leiddi að skuldbinding eiganda veðs þyrfti að koma fram á skuldabréfinu sem leitað var fullnustu á. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. júlí 2013 þar sem kröfu sóknaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um að synja um framgang aðfarar á hendur varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Sóknaraðili krefst þess að aðförin nái fram að ganga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 má gera fjárnám fyrir skuldabréfi ef það hefur að geyma þá skilmála sem þar koma fram og er vottað með tilgreindum hætti. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segir að aðfarar megi krefjast hjá þeim sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar, en það nær einnig til þeirra sem eiga verðmæti, sem standa að veði til tryggingar kröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna, ef áskilnaði þess ákvæðis gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart eiganda veðsins. Af þeim orðum 1. mgr. 3. gr. laganna að „skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar“ leiðir að skuldbinding eiganda veðs þarf að koma fram í sjálfu skuldabréfinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. apríl 2013 í máli nr. 268/2013. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðs­dóms Suður­lands föstudaginn 5. júlí 2013.

Sóknaraðili er Íslandsbanki hf., kt. [...], Kirkjusandi 2, Reykjavík en varnaraðili er Lára J. Haraldsdóttir, kt. [...], Hraunbæ 18, Hveragerði.

Sóknaraðili, hér eftir gerðarbeiðandi, krefst þess að hrundið verði ákvörðun sýslumannsins á Selfossi, dagsett 6. mars 2013, um að endursenda aðfararbeiðni gerðarbeiðanda og þannig synja um framgang aðfarargerðarinnar á hendur varnaraðila, hér eftir gerðarþola, og að sýslumanni verði gert að framkvæma umbeðna aðför, í aðfararmálinu nr. 033-2013-00194.  Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola, að viðbættum virðisaukaskatti.

Gerðarþoli hefur ekki látið málið til sín taka.

Mál þetta, sem barst dóminum þann 20. mars sl., var þingfest 16. apríl sl.  Var þá málinu frestað til greinargerðaskila og var aftur tekið fyrir 30. apríl sl. og lagði þá gerðarbeiðandi fram greinargerð og var málið í beinu framhaldi tekið til úrskurðar að kröfu gerðarbeiðanda, en aldrei var sótt þing af hálfu gerðarþola.  Ekki voru lagðar fram athugasemdir af hálfu sýslumanns.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að gerðarbeiðandi lánaði Fylki.is ferðaskrifstofu ehf. kr. 1.750.000 til 96 mánaða.  Gaf félagið út skuldabréf nr. 964093 fyrir fjárhæðinni ásamt vöxtum, þann 30. desember 2010, og ritaði gerðarþoli undir bréfið f.h. félagsins.

Í téðu skuldabréfi er kveðið á um það í 6. tl. að þegar skuldin sé fallin í gjalddaga eftir gjaldfellingu vegna vanskila megi gera aðför henni til fullnustu án undangengins dóms eða sáttar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

Þann 4. nóvember 1997 gaf Fylkir Ágústsson út tryggingarbréf til gerðarbeiðanda, sem þá hét Íslandsbanki hf., en síðar Glitnir hf. og síðar aftur Íslandsbanki hf., til tryggingar skuld upphaflega að fjárhæð kr. 1.500.000 með neysluverðsvísitölu 181,9 stig og var fasteignin Fjarðarstræti 15 á Ísafirði sett að veði með 8. veðrétti og uppfærslurétti. Þann 28. maí 2008 var tryggingarbréfið flutt af Fjarðarstræti 15 á Hraunbæ 18 í Hveragerði. Bréfið sjálft er áritað um veðbandslausnina á Fjarðarstræti 15 þann 11. júní 2008 og þann 10. júní 2008 er dagsett samþykki gerðarbeiðanda um að leysa Fjarðarstræti 15 úr veðböndum og að tryggingarbréfið hvíli áfram á Hraunbæ 18. Þann 30. mars 2009 var skilmálum bréfsins breytt þannig að framvegis tryggði það allar skuldir Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf. við gerðarbeiðanda, en ekki skuldir Fylkis Ágústssonar. Undir það skrifaði gerðarþoli fyrir hönd Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf. og sem þinglýstur eigandi að veðinu Hraunbær 18 í Hveragerði.

Gerðarbeiðandi kveður framangreint skuldabréf vera í vanskilum frá 1. mars 2012. Þann 29. nóvember 2012 hafi gerðarþola verið send greiðsluáskorun þar sem skorað hafi verið á hana að greiða skuldina en ella yrði tekið fjárnám í fasteign hennar á grundvelli áhvílandi tryggingarbréfs með stoð í 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Var greiðsluáskorunin birt á lögheimili gerðarþola 8. janúar 2013. 

Í framhaldi síðastgreinds sendi gerðarbeiðandi aðfararbeiðni til sýslumannsins á Selfossi, dags. 18. febrúar 2013. Í aðfararbeiðni er heimildarskjal tiltekið framangreint skuldabréf, dagsett 30. desember 2010, með Fylki.is ferðaskrifstofu ehf. sem aðalskuldara og gerðarþoli tilgreind sem forsvarsmaður og veðsali.  Þá segir að gerðarbeiðandi styðji heimild sína til að krefjast aðfarar hjá gerðarþola við framangreint heimildarskjal, þ.e. skuldabréfið frá 30. desember 2010, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, án þess að vísað sé í tölulið í ákvæðinu.  Þá segir í aðfararbeiðninni, sem send var sýslumanni, „Við aðför verður þess krafist að fjárnám verði tekið í fasteign yðar, vegna áhvílandi tryggingarbréfs með stoð í 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.“ Er téðu tryggingarbréfi ekki lýst nánar en þó kemur fram númer bréfsins handskrifað eftir á.

Sýslumaður endursendi téða aðfararbeiðni þann 6. mars 2013 með vísun til 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/1989 og þeim rökum að skuldabréfið, sem vísað er til í beiðninni, nr. 964093, hefði ekki að geyma aðfararheimild á hendur gerðarþola.

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda.

Gerðarbeiðandi kveðst byggja á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989, gerðarþoli hafi tekið ábyrgð á efndum Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf. með því að setja fasteign sína að veði fyrir skuldum félagsins við gerðarbeiðanda.  Í athugasemdum með 3. gr. frumvarps til aðfararlaga sé tekið fram sérstaklega að krefjast megi aðfarar hjá eiganda verðmætis sem sett hafi verið til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfi, sama hvort veðsetningin hafi átt sér stað með skuldabréfi eða tryggingarbréfi, án þess að nauðungarsöluheimild sé í bréfinu sjálfu. Til að öðlast rétt til nauðungarsölu á veðinu við þessar aðstæður verði kröfueigandi að gera fjárnám í veðinu.  Séu þessar aðstæður uppi í málinu.  Fylkir.is ferðaskrifstofa ehf. hafi gefið út skuldabréf til gerðarbeiðanda, skuldabréfið sé tryggt með veði í fasteign gerðarþola og gerðarbeiðanda nauðsynlegt að fá fjárnám í fasteign gerðarþola til að geta farið fram á nauðungarsölu á eigninni.  Gerðarþola hafi verið birt greiðsluáskorun þar sem skorað hafi verið á hana að greiða skuld félagsins vegna tryggingarbréfs útgefnu af félaginu áhvílandi á fasteign gerðarþola. Gerðarþoli hafi ekki orðið við þessari áskorun og hafi því aðfararbeiðni verið send sýslumanni þar sem krafist hafi verið fjárnáms hjá gerðarþola sem veðsala vegna skulda Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf.

Kveðst gerðarbeiðandi telja að sú ákvörðun sýslumanns, að synja um gerðina á þeim grundvelli að framlagt skuldabréf hafi ekki að geyma aðfararheimild á hendur gerðarþola, sé röng. Frumrit skuldabréfsins sé hjá sýslumanni vegna aðfarargerðar á hendur félaginu, afrit tryggingarbréfs hafi verið lagt fram hjá sýslumanni, aðfarar sé krafist hjá gerðarþola sem veðsala og telji gerðarbeiðandi öll skilyrði uppfyllt.

Jafnframt kveðst gerðarbeiðandi telja að sýslumaður hafi ekki heimild til að synja um framgang gerðarinnar af sjálfsdáðum. Uppfyllt séu lagaskilyrði 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, skuldabréfið sé lögmætt bæði að efni og formi.  Í skuldabréfinu viðurkenni skuldari að skulda ákveðna peningafjárhæð, bréfið sé undirritað af skuldara og vottað af tveimur vitundarvottum. Búið sé að birta greiðsluáskorun í samræmi við 7. gr. laga nr. 90/1989 og séu því uppfyllt öll forskilyrði laga nr. 90/1989. Þá hafi fylgt skilríki fyrir aðfararheimildinni með beiðninni, utan þess að frumrit skuldabréfsins sé nú þegar hjá sýslumanni vegna aðfararbeiðni á hendur Fylki.is ferðaskrifstofu ehf. og hafi því gerðarbeiðanda verið ómögulegt að láta frumrit bréfsins fylgja með aðfararbeiðninni. Aðfararbeiðnin sé lögð fram hjá sýslumanninum á Selfossi, gerðarþoli hafi lögheimili í Hveragerði og beiðnin sé þ.a.l. lögð fram á réttu varnarþingi sbr. 16. gr. laga nr. 90/1989.  Í 17. gr. laga nr. 90/1989 sé mælt fyrir um frumkönnun sýslumanns á aðfararbeiðni.  Þar komi skýrt fram að ef beiðni og aðfararheimild sé í lögmætu formi, í réttu umdæmi, synji sýslumaður ekki af sjálfsdáðum um aðför, nema aðfararheimild verði ekki fullnægt samkvæmt efni sínu. 

Kveðst því gerðarbeiðandi telja að sýslumanni hafi verið óheimilt að endursenda aðfararbeiðnina.

Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989 varðandi heimild til að krefjast úrlausnar. Þá kveður gerðarbeiðandi að krafa hans um að heimilað verði að tekið verði fjárnám í fasteign gerðarþola byggi á 1. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989.  Um málskostnað vísar gerðarbeiðandi til 129.-131. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 en gerðarbeiðandi tekur fram að hann sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá „dóm“ fyrir skattinum úr hendi gerðarþola.  

Niðurstaða.

Í 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segir að aðför megi gera til fullnustu kröfum samkvæmt tilteknum heimildum og er getið í 7. tl. ákvæðisins um skuldabréf „fyrir ákveðinni peningaupphæð, hvort sem veðréttindi hafa verið veitt fyrir skuldinni eða ekki, þar sem undirskrift skuldara er vottuð af lögbókanda, hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni, löggiltum fasteignasala eða tveimur vitundarvottum, ef berum orðum er tekið fram í ákvæðum skuldabréfsins að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar. Verður að ætla að þetta sé það ákvæði sem gerðarbeiðandi hefur í huga er hann vísar til 1. mgr. 1. gr. laganna.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 segir að aðfarar megi krefjast hjá þeim, sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar.  Síðan segir:  Nær þetta einnig til þeirra, sem hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldbindingar skv. 7. eða 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., og þeirra, sem eiga verðmæti, sem standa að veði til tryggingar kröfu skv. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr., ef áskilnaði þessara ákvæða gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart þeim.

Í skuldabréfi því sem gerðarbeiðandi vísar til sem heimildarskjals kemur fram að skuldari er Fylkir.is ferðaskrifstofa ehf. og er í bréfinu sagt að gera megi aðför vegna vanskila samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, en ekkert segir þar um ábyrgð annarra en skuldara sjálfs og er ábyrgðaraðila ekki getið í bréfinu. Er bréfið undirritað af gerðarþola, en ekki er unnt að líta á það sem persónulega ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð gerðarþola, heldur aðeins undirritun fyrirsvarsmanns skuldarans sem er Fylkir.is ferðaskrifstofa ehf. 

Í tryggingarbréfi dags. 4. nóvember 1997 kemur hvergi fram að gera megi aðför til fullnustu skuldum sem því er ætlað að tryggja, skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Þegar tryggingarbréfinu var breytt, þann 30. mars 2009, þannig að bréfið stæði til tryggingar skuldum Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf., og undirritað af gerðarþola f.h. Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf. og sem þinglýstur eigandi, var einskis getið um heimildir til aðfarar á grundvelli 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.  Þegar tryggingarbréfinu var breytt þann 28. maí 2008 þannig að veðréttur samkvæmt bréfinu flyttist af Fjarðarstræti 15 á Ísafirði yfir á Hraunbæ 18 í Hveragerði var heldur einskis getið um heimildir til aðfarar á grundvelli 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.

Ljóst er að í skuldabréfinu sjálfu, sem gerðarbeiðandi vísar til sem heimildarskjals er ekki að finna neina heimild til aðfarar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 hjá gerðarþola, heldur aðeins hjá skuldaranum sjálfum sem er Fylkir.is ferðaskrifstofa ehf.

Í tryggingabréfinu frá 4. nóvember 1997 og síðari breytingum á því, sem eru undirritaðar af gerðarþola sem þinglýstur eigandi og fyrirsvarsmaður Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf., er hvergi getið um heimildir til aðfarar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, hvorki hvað varðar eignir gerðarþola né aðrar. Verður ekki litið svo á að þau skjöl og tryggingarbréfið séu þannig úr garði gerð að jafna megi til þess að um eitt og sama skjal sé að ræða og breytir þá engu að gerðarbeiðandi eigi veðrétt í þinglýstri eign gerðarþola til tryggingar skuldum og skuldbindingum Fylkis.is ferðaskrifstofu ehf.  Er þannig hvorki fullnægt áskilnaði 7. tl. 1. mgr. 1. gr. né heldur 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 til að gera megi aðför í umræddri fasteign gerðarþola að svo komnu máli og ber að synja kröfu sóknaraðila.

Ofangreindu til viðbótar er svo þess að geta, að eftir áliti dómsins er aðfararbeiðni gerðarbeiðanda ekki svo skýr sem skyldi. Í aðfararbeiðni er aðeins vísað til skuldabréfsins frá 30. desember 2010 sem heimildarskjals og vísað til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, eins og áður segir án tilgreiningar á tölulið, en hins vegar er bert á málatilbúnaði gerðarbeiðanda að hann horfir til 1. mgr. 3. gr. laganna, en tryggingarbréfinu og eftirfarandi skjölum er þó ekki lýst á nokkurn handa máta í aðfararbeiðni.

Ber því að hafna kröfum gerðarbeiðanda.

Af hálfu gerðarþola hafa hvorki verið gerðar kröfur um málskostnað né annað og verður því ekki úrskurðað um hann.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfum gerðarbeiðanda, Íslandsbanka hf., um að hrundið verði ákvörðun sýslumannsins á Selfossi, dagsett 6. mars 2013, um að endursenda aðfararbeiðni gerðarbeiðanda og þannig synja um framgang aðfarargerðarinnar á hendur gerðarþola, Láru J. Haraldsdóttur, og að sýslumanni verði gert að framkvæma umbeðna aðför, í aðfararmálinu nr. 033-2013-00194, er hafnað.