Hæstiréttur íslands
Mál nr. 662/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 15. desember 2008. |
|
Nr. 662/2008. |
A(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn B (Eva B. Helgadóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í fimmtán mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2008, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í fimmtán mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að þóknun skipaðs verjanda síns verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, svo og að þóknun skipaðs talsmanns hennar greiðist úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008.
Með beiðni, dagsettri 12. þ.m. hefur Eva B. Helgadóttir hrl. fyrir hönd B, kt. [...], [...], Reykjavík, farið þess á leit að sonur hennar, A, kt. 0104[...], til lögheimilis á sama stað en nú dveljandi á geðdeild Landspítalans, verði sviptur sjálfræði í 18 mánuði vegna geðveiki og vímufíknar. Um aðild er vísað til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Beiðninni er mótmælt en til vara er þess krafist að sjálfræðissviptingin verði höfð styttri. Meðal gagna málsins er staðfest vottorð Elínar Hrefnu Garðarsdóttur geðlæknis. Þar kemur fram að varnaraðili er illa haldinn af aðsóknargeðklofa og kvíða, auk þess að vera fíkniefnaneytandi. Sé nauðsyn á því að hann fái meðferð á deild 15 á Kleppsspítala en hana fái hann ekki nema hann verði sviptur sjálfræði. Leggur læknirinn það til að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið, í 12 18 mánuði.
Dómarinn telur ljóst af því sem rakið hefur verið að brýn nauðsyn sé til þess að svipta varnaraðila sjálfræði til þess að tryggt sé að hann fái viðunandi meðferð á sjúkrahúsi. Ber því að taka til greina kröfu sóknaraðila og ákveða að varnaraðili skuli vera sviptur sjálfræði. Skal sviptingin vara í 15 mánuði.
Málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanna aðilanna, hæstaréttarlögmannanna Evu B. Helgadóttur, 130.000 krónur, og Hilmars Ingimundarsonar, 100.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...] [...] Reykjavík er sviptur sjálfræði í 15 mánuði.
Kostnaður af málinu, þar með talin þóknun til skipaðra talsmanna aðila, Evu B Helgadóttur hrl., 130.000 krónur, og Hilmars Ingimundarsonar hrl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.