Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 23

 

Þriðjudaginn 23. maí 2000.

Nr. 204/2000.

Sýslumaðurinn á Húsavík

(Hrefna Gísladóttir fulltrúi)

gegn

X

(Ólafur Birgir Árnason hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991

Talið var að fram væri kominn rökstuddur grunur um að X hefði brotið gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað gæti hann þyngri refsingu en 10 ára fangelsi, og var brotið talið þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. maí 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. júní nk. kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði breytt þannig að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. júní 2000.

Varnaraðili er borinn sökum um að hafa orðið föður sínum að bana með því að hleypa þremur skotum úr riffli í höfuð hans á heimili þeirra aðfaranótt 18. mars sl. Hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi vegna þessa frá 22. sama mánaðar. Við lögreglurannsókn hefur hann borið að hann hafi haldið á vopninu þegar fyrsta skotið hafi hlaupið úr því og hæft föður hans í höfuðið, en hann hafi síðan skotið föður sinn tveimur skotum að auki.

Eftir því, sem fram er komið í málinu, mun varnaraðili ekki lengur sæta einangrun í gæsluvarðhaldsvist. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er rannsókn lögreglu á lokastigi, en ókomnar séu þó niðurstöður geðrannsóknar, sem vænst sé innan skamms. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að læknir, sem hafi geðrannsóknina með hendi, hafi lokið viðtölum við hann af því tilefni. Þessu hefur sóknaraðili ekki andmælt. Að þessu virtu hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að girða fyrir að varnaraðili torveldi rannsókn málsins. Er því ekki fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi.

Eins og málið liggur fyrir er uppi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með fyrrnefndri háttsemi gerst sekur um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotið getur varðað þyngri refsingu en tíu ára fangelsi og er þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því skilyrði til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Sóknaraðili kærði ekki fyrir sitt leyti úrskurð héraðsdómara til að fá breytt ákvörðun hans um lengd gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Verður því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. maí 2000.

Mál þetta barst dóminum í dag með bréfi sýslumannsins á Húsavík, dags. í dag, og var þegar tekið til úrskurðar að lokinni yfirheyrslu yfir kærða. 

Krefst sýslumaðurinn þess að kærði, X, [...], verði úrskurðaður í 45 daga gæsluvarðhald. 

[...]

Í málinu hefur verið lögð fram viðbótarlögregluskýrsla ásamt vottorði læknis. 

Með úrskurði dómsins þann 22. mars s.l. var kærði úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.  Með úrskurði dómsins þann 22. apríl s.l. var gæsluvarðhald kærða framlengt um 3 vikur til viðbótar á grundvelli sömu lagagreinar.  Þá var enn hinn 3. maí s.l. gæsluvarðhaldsvist kærða framlengd um 2 vikur með úrskurði dómsins á grundvelli sömu lagagreinar. 

Rannsókn málsins er nú að mestu lokið, en þó liggja ekki fyrir niðurstöður geðrannsóknar, en fallast verður á að nauðsynlegt sé að kærði sitji í gæsluvarðhaldi þar til þær niðurstöður liggja fyrir og þykir því rétt að úrskurða kærða enn í gæsluvarðhald í 3 vikur á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 eða til miðvikudagsins 7. júní n.k. kl. 15:00. 

Eins og stöðu rannsóknar málsins er háttað þykja eigi efni til að taka afstöðu til kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991. 

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

Á l y k t a r o r ð :

Kærði, X, [...], sæti gæsluvarðhaldi í allt að 3 vikur til miðvikudagsins 7. júní 2000 kl. 15:00.