Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2007

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald hrl.)
gegn
A (Kristinn Hallgrímsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Innborgun
  • Fyrirvari
  • Vextir
  • Fyrning
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur

Reifun

A lenti í umferðarslysi í mars 1995 og varð fyrir varanlegu líkamstjóni. Óumdeilt var tryggingafélagið S hf. bæri að bæta honum tjónið úr slysatryggingu ökumanns en aðilar höfðu deilt um fjárhæð bótanna. S hf. greiddi inn á kröfuna og gerði síðan upp við A 14. febrúar 2002 samkvæmt yfirmatsgerð sem þá lá fyrir. A höfðaði mál 14. mars 2005 og krafðist hærri bóta. Héraðsdómur féllst á það og dæmdi S hf. til að greiða A eftirstöðvar bótanna með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 24. apríl 1997 til 24. maí 2001 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. S hf. greiddi A fjárhæðina ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 14. mars 2001 til 14. mars 2005 en áfrýjaði svo málinu. Taldi félagið að vextir fyrir þann tíma væru fyrndir og að miða ætti upphafstíma dráttarvaxta við annað tímamark en samkvæmt héraðsdómi. Talið var að A hefði við uppgjörið 14. febrúar 2002 þurft að gera fyrirvara ef hann vildi viðhalda rétti til að ráðstafa eldri innborgunum inna á elstu áfallna vexti af þeim hluta kröfunnar sem hann þá taldi ógreiddan. Vextir sem fallið höfðu á kröfuna fyrir 14. mars 2001 voru taldir fyrndir samkvæmt 2. tl. 3. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Í ljósi þess að meira en þrjú ár liðu frá uppgjörinu 14. febrúar 2002 og þar til málið var höfðað þótti rétt að beita heimild í niðurlagi 9. gr. laga nr. 38/2001 og hafna kröfu A um dráttarvexti fyrir þetta tímabil. Hins vegar var ekki fallist á að tafir á meðferð málsins í héraði vegna álitsumleitunar til læknaráðs ættu að hafa áhrif á upphafstíma dráttarvaxtakröfunnar. Samkvæmt þessu var S hf. var gert að greiða A dráttarvexti af þegar greiddum eftirstöðvum bótanna frá því að málið var höfðað og til greiðsludags.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2007. Hann krefst lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 18. september 2007. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að upphafstími vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verði ákveðinn 19. mars 1995 og að málskostnaður í héraði skuli vera 2.555.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir réttinum.

I.

Í héraðsdómi var krafa gagnáfrýjanda tekin til greina „með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993“ fyrir tímabil fram að 24. maí 2001 í samræmi við það orðalag sem gagnáfrýjandi hafði á kröfugerð sinni í stefnu. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er heimildin til að dæma vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu, miðuð við að vaxta sé krafist með tilvísun til tilgreindra ákvæða þeirra sömu laga. Gagnáfrýjandi varð fyrir slysi sínu 19. mars 1995. Um vexti af kröfu hans gilti því 16. gr. skaðabótalaga, eins og greinin var orðuð fyrir gildistöku breytingar með 12. gr. laga nr. 37/1999, sbr. 15. gr. sömu laga. Í 16. gr. var þá kveðið svo á að vextirnir skyldu nema 2% á ári. Með því að hundraðshluti vaxtanna var þannig nefndur í lagaákvæðinu verður talið að gagnáfrýjanda hafi verið heimilt að haga kröfu sinni um vexti á þann hátt sem raunin var og héraðsdómur hafi mátt fella á hana dóm.

Aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda 9.380.053 krónur 6. júlí 2007. Stóð fjárhæðin saman af þeim höfuðstól, sem héraðsdómur dæmdi gagnáfrýjanda, 8.665.249 krónum, og 2% ársvöxtum af þeirri fjárhæð tímabilið 14. mars 2001 til 14. mars 2005, 714.804 krónum. Er ágreiningslaust að þessir vextir séu í sjálfum sér rétt reiknaðir. Þrátt fyrir að gagnáfrýjandi nefni ekki þessa greiðslu í kröfugerð sinni liggur fyrir að hann fellst á að fjárhæðin dragist frá kröfunni miðað við greiðsludaginn.

II.

Fyrir Hæstarétti deila málsaðilar um vexti af kröfu gagnáfrýjanda og fjárhæð málskostnaðar í héraði. Stefna til héraðsdóms var birt 14. mars 2005. Aðaláfrýjandi byggir á því að vextir fyrir 14. mars 2001 séu fyrndir samkvæmt 2. tölulið 3. gr. og 11. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Þá mótmælir hann upphafsdegi dráttarvaxta í hinum áfrýjaða dómi og telur aðallega að hann eigi að miðast við uppsögu héraðsdóms og í öllu falli ekki við fyrri dag en þingfestingardag í héraði. Byggir hann þetta annars vegar á því að 14. febrúar 2002 hafi hann gert upp við gagnáfrýjanda bætur, sem miðaðar hafi verið við yfirmatsgerð 20. desember 2001. Gagnáfrýjandi hafi ekki höfðað málið fyrr en með stefnu birtri 14. mars 2005, eða meira en þremur árum eftir uppgjörið. Þá hafi rekstur málsins í héraði tafist vegna ákvörðunar héraðsdóms 11. nóvember 2005 um að leita álits læknaráðs. Það hafi ekki legið fyrir fyrr en 8. nóvember 2006. Telur aðaláfrýjandi ósanngjarnt að honum verði gert að greiða dráttarvexti af kröfu gagnáfrýjanda allan þennan tíma og vísar aðaláfrýjandi til lokaákvæðis 9. gr. laga nr. 38/2001 til stuðnings kröfum sínum um upphafsdag dráttarvaxta. Loks mótmælir aðaláfrýjandi málskostnaðarákvörðun héraðsdóms. Kostnaðurinn hafi verið dæmdur eftir málskostnaðarreikningi gagnáfrýjanda. Sé dæmdur málskostnaður hvorki í samræmi við vinnu vegna málsins né hagsmuni þá sem um sé deilt auk þess sem ekki sé tekið tillit til þóknunar að fjárhæð 314.501 króna sem gagnáfrýjandi hafi fengið greidda með uppgjörinu í febrúar 2002. Telur hann að ákveða beri gagnáfrýjanda málskostnað eftir vinnuskýrslum eða miða hann við höfuðstól dæmdra bóta án vaxta. Þá sé vaxtaútreikningur í málskostnaðarreikningnum rangur.

Gagnáfrýjandi telur að dæma eigi vexti samkvæmt fyrrnefndri 16. gr. skaðabótalaga allt frá slysdegi 19. mars 1995 en ekki 24. apríl 1997 svo sem gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi. Að öðru leyti beri að staðfesta dóminn. Þá byggir gagnáfrýjandi á því fyrir Hæstarétti að aðaláfrýjandi hafi greitt sér samtals 1.190.000 krónur inn á tjónið í fjögur skipti, þrjú á árinu 1997 og eitt á árinu 2001, án þess að tiltaka við greiðslurnar að verið væri að greiða tiltekna liði í kröfu hans. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar hafi sér því verið heimilt að ráðstafa þessum greiðslum inn á elstu áfallna vexti á innborgunardögunum. Þeir vextir séu samkvæmt þessu greiddir að þessu marki og komi sjónarmið aðaláfrýjanda um fyrningu þeirra því ekki til álita í málinu. Aðaláfrýjandi mótmælir þessari málsástæðu sem of seint fram kominni auk þess sem henni er mótmælt efnislega. Þessi málsástæða felur í sér andsvör gagnáfrýjanda við fyrningarvörn aðaláfrýjanda í héraði. Verður að skilja málflutning gagnáfrýjanda um þetta svo, að hann telji fyrirvarann sem hann gerði við móttöku greiðslunnar 14. febrúar 2002 og getið er hér á eftir, hafa tekið til áskilnaðar um að hafa uppi kröfu um vexti af þeim hluta kröfu sinnar sem ekki var þá greidd. Er ekki ágreiningur um að hann hafi strax og tilefni gafst haft uppi málflutning um efnislegt gildi nefnds fyrirvara. Verður því leyst úr þessari málsástæðu gagnáfrýjanda.

III.

Á kvittun fyrir móttöku greiðslu aðaláfrýjanda 14. febrúar 2002 var af hálfu gagnáfrýjanda ritaður svofelldur fyrirvari: „Gerður fyrirvari um miska og örorkustig við uppgjör þetta og ekki viðurkennt af tjónþola.“ Á sundurliðunarblaði sem aðaláfrýjandi útbjó og uppgjörið byggðist á kemur fram að frá kröfu gagnáfrýjanda séu  dregnar þær greiðslur sem aðaláfrýjandi hafði áður innt af hendi, samtals að fjárhæð 2.451.641 krónur. Aðilar deila ekki um að fyrrgreindar innborganir að fjárhæð 1.190.000 krónur voru hluti þessarar fjárhæðar. Það lá því ljóst fyrir við greiðsluna 14. febrúar 2002 hvernig aðaláfrýjandi taldi að þessum innborgunum yrði ráðstafað inn á kröfu gagnáfrýjanda. Gera verður þá kröfu til gagnáfrýjanda að hann léti þess getið með skýrum hætti er hann tók við greiðslunni ef hann vildi ekki una þessari ráðstöfun hennar. Verður ekki talið að fyrirvarinn sem hann gerði hafi tekið til þess að viðhalda rétti hans til að ráðstafa fyrrnefndum fjórum greiðslum inn á vexti af þeim hluta kröfu hans, sem ógreidd var eftir þetta uppgjör og héraðsdómur féllst á, en samkvæmt fordæmum Hæstaréttar nýtur kröfuhafi réttar til að ráðstafa óskilgreindum innborgunum inn á áfallna vexti, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 59/2004, sem birtur er í dómasafni réttarins á blaðsíðu 3274 það ár.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu sem birt var 14. mars 2005. Með vísan til 2. tl. 3. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905 voru þá fyrndir vextir sem fallið höfðu á kröfu hans fram til 14. mars 2001. Uppgjör aðaláfrýjanda 14. febrúar 2002 var byggt á yfirmatsgerð 20. desember 2001, en þar voru afleiðingar slyssins metnar að mun minni en gert hafði verið í undirmatsgerð 10. apríl 2001. Ágreiningur aðila laut að því hvora matsgerðina ætti að leggja til grundvallar. Skilja verður fyrirvara gagnáfrýjanda svo að hann hafi ekki viljað una yfirmatsgerðinni. Hann reisti síðar málssókn sína á undirmatsgerðinni. Meira en þrjú ár liðu frá uppgjörinu til málssóknar gagnáfrýjanda. Verður fallist á með aðaláfrýjanda að við þessar aðstæður beri að beita heimild í niðurlagsákvæði 9. gr. laga nr. 38/2001 og hafna kröfu gagnáfrýjanda um dráttarvexti þann tíma sem leið frá uppgjörinu til málssóknar hans. Hins vegar eru ekki efni til að láta tafir á meðferð málsins í héraði vegna álitsumleitunar til læknaráðs hafa áhrif á upphafstíma dráttarvaxtakröfu hans. Samkvæmt þessu verður niðurstaðan sú að krafa gagnáfrýjanda beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. mars 2005 til greiðsludags. Fram að þeim tíma bar hún 2% ársvexti og er ágreiningslaust að aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda þá um leið og hann greiddi höfuðstólinn samkvæmt dómsorði héraðsdóms hinn 6. júlí 2007.

IV.

Krafa gagnáfrýjanda um málskostnað í héraði er miðuð við gjaldskrá lögmanns hans þar sem málflutningsþóknun er miðuð við fjárhæð dómkröfu. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er lögmanni heimilt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín, þar á meðal hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Með hliðsjón af þessum reglum, gjaldskrá lögmanns gagnáfrýjanda og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður og gjafsóknarkostnaður í héraði ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða hluta þess kostnaðar í ríkissjóð.

Það athugast að nokkuð skortir á að rökstuðningur hins áfrýjaða dóms fyrir niðurstöðu hans um vexti og málskostnað sé fullnægjandi.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, A, dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.665.249 krónum frá 14. mars 2005 til greiðsludags. Við útreikning dráttarvaxtanna verði tekið tillit til þess, að höfuðstóllinn var greiddur 6. júlí 2007.

Aðaláfrýjandi greiði 1.300.000 krónur í málskostnað í héraði, sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.265.000 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. júní 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 14. mars 2005.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.665.249 kr. með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 19. mars 1995 til 24. maí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1987 um vexti frá þeim degi til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verið dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.

Helstu málavextir eru að stefnandi lenti í umferðarslysi við […] í Reykjavík 19. mars 1995.  Slysið bar að með þeim hætti að stefnandi var í bifreið sinni á leið út af bifreiðastæði er bifreið kom akandi eftir […] og rakst inn í vinstri hlið bifreiðar stefnanda.  Báðar bifreiðarnar skemmdust mikið við áreksturinn og varð stefnandi fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu.  Stefnandi var tryggður slysatryggingu ökumanns er slysið varð og ekki deilt um greiðsluskyldu stefnda vegna þess.

Í bréfi heimilislæknis stefnanda til lögmanns stefnanda frá 17. október 1996 segir m.a.:

A kom á stofu til undirritaðs 210395 og kvaðst hafa fengið slink á bak í umferðaróhappi 2 dögum fyrr.  Hann hafði ekki fundið mikið til fyrr en nóttina á eftir en síðan fundið til vaxandi einkenna í mjóbaki sem leiddu niður í rasskinnar.  Fann mest fyrir útafliggjandi, skánaði við heit böð.  Við skoðun þá voru veruleg eymsli á mótum lenda- og spjaldliða, bæði á vöðvum en einnig á hryggtindum.  Engin merki voru um taugarótarþrýsting en hreyfingar í mjóbaki stirðar og sárar, aðallega framsveigja og aftursveigja.  Honum var ráðlagt að hafa hægt um sig næstu daga, stunda heit böð og fékk að auki bólgueyðandi lyf.

280395 kom A aftur á stofu, hafði lítið sofið vegna þrálátra og erfiðra verkja, ritað var fjarvistarvottorð til vinnuveitanda, hann fékk verkjalyf og var sendur til sjúkraþjálfunar að […].

040495 kom A næst á stofu og höfðu einkenni lítið breyst, var slæmur af verkjum í lendum og lagði þá niður báðar fætur, við skoðun voru mikil eymsli á vöðvafestum, aðallega á mjaðmakömbum en einnig yfir spjaldliðum.  Hann fékk enn ráðleggingar um að reyna að stunda sund og skipt var um bólgueyðandi lyf.

180495 kom A á stofu og var versnandi, leiddi verki nú niður í fætur og einnig fram í kvið.  Skoðun var óbreytt.  Var þá sendur í rtg.myndir af hrygg sem sýndu vægar slitbreytingar og upprétta sveigju í hrygg.  Ritað var frumvottorð til tryggingafélags.

250495 höfðu einkenni ekkert lagast, A hafði lítið sem ekkert sofið og gerðu lyfin honum greinilega ekkert gagn.  Við skoðun var hreyfing í mjóbaki nánast upphafin, mikil eymsli á tindum lendahryggjarbola en ekki teikn um rótarþrýsting.  Honum var nú ráðlagt að hætta í sjúkraþjálfun, var talinn þurfa hvíld.  Sendur var hann til skoðunar og meðferðar hjá C bæklunarlækni.

Eftir þetta hefur undirritaður engin afskipti af A utan til að ávísa verkjalyfjum og að auki var endurýjað vottorð til tryggingafélags 050695.  140895 var rætt við móður A í síma og kom þá fram að hann væri kominn í meðferð til D taugaskurðlæknis og einnig hafði hann verið til skoðunar og meðferðar hjá E að undirlagi móður.

110196 barst beiðni um vottorð frá Tryggingafélaginu […] og gat undirritaður þá litlar upplýsingar gefið þar sem hann hafði ekkert séð A í 6 mánuði.

180196 kemur A svo á stofu, ástand er þá að mestu leyti óbreytt, e.t.v. þó versnun vegna þess að verkir eru einnig komnir upp í brjósthrygg.  Hann hafði þá verið í meðferð hjá E og D og stóð til að hann færi á Reykjalund.  Hann var dapur og leiður yfir ástandinu, hafði lítið sofið, hætt sjúkraþjálfun 11/95.  Engin lyf hafði hann tekið undanfarið, verkjalyf hætt að gera gagn.  Við skoðun sást að hann var illa þjáður, gekk við staf en ekki var að sjá rýrnanir né skekkjur í hrygg.  Hann var aumur á nánast öllum vöðvafestum og vöðvum meðfram hryggjarsúlu, hreyfing í mjóbaki var nánast upphafin en ekki voru frekar en fyrr teikn um taugarótarþrýsting.  Hann gat ekki gengið á tám né hælum vegna verkja.  Undirrituðum sýndist ljóst að helst væri að fá einhverja niðurstöðu í málið að Reykjalundi en jafnframt að huga þyrfti að þunglyndismeðferð.  Þess ber að geta að ekki var talið líklegt að þunglyndið ætti sem slíkt hlut að einkennum A, heldur hitt að langvarandi verkir og vanlíðan hefði valdið honum vonleysi og þ.a.l. þunglyndi.

240196 kom A aftur á stofu og höfðu þá gögn borist frá umræddum læknum sem og niðurstöður ýmissa rannsókna sem hann hafði undirgengist.  Undirritaður ræddi áframhaldið við E og sendi hann beiðni um vistun að Reykjalundi.  Þar sem unnusta A vænti fæðingar fljótlega var farið fram á að A fengi að vera dagsjúklingur.  Hann var settur á þunglyndislyf til að taka að kvöldinu.

120296 kom A enn og var að bíða innlagnar á Reykjalundi.  Hann var þá mjög slæmur af verkjum á milli herðablaða og upp í háls.  Við skoðun voru mikil eymsli á hryggjartindum og allar hreyfingar í hrygg stirðar og sárar sem fyrr.  Hann hafði notað lágt mjóbaksbelti og ráðlagt að fá sér belti er næði hærra upp á bakið.

Næst kom A 020496 og hafði þá verið á Reykjalundi í 3 vikur og taldi sig heldur hafa versnað.  Hann átti í erfiðleikum með gang, fékk slæma verki og var gangur mjög sérkennilegur að sjá, slettist áfram með innsnúna fætur.  A og foreldrar voru miður sín þar eð læknir á Reykjalundi hafði tjáð honum þann dag að hann yrði bráðlega útskrifaður og að tæplega væri mikið að honum.  Undirritaður taldi að hugsanlega væri um að ræða einhvern hrörnunarsjúkdóm í hrygg eða mænu og ráðlagði A að leit til taugasérfræðings.

Næstu mánuði var einungis haft samband við undirritaðan til að fá ávísað verkjalyfjum.

A kemur næst á stofu 050796, kveðst vera heldur skárri í fótum en er verri af verkjum í hálsi, baki, og handleggjum.  Hann á auðveldara með gang en getur tæpast synt og alls ekki haldið á fjögurra mánaða dóttur sinni.  Teknar voru blóðprufur til að útiloka hryggikt og kom ekkert athugavert þar í ljós.

Undirritaður er svo fjarverandi í 2 mánuði en næst er haft samband er A kemur á stofu 160996.  Ekki er þá að sjá annað en að ástand sé alveg óbreytt, A er duglegur að fara í göngutúra, getur ekkert unnið en reynir þó að annast litla dóttur sína, sem hann þó tæpast getur.  Skoðun er óbreytt, hreyfingar upphafnar nánast í öllum hrygg, mjög sárar og mikil vöðvaeymsli.  Ritað er sjúkradagpeningavottorð, vottorð til skattstjóra auk beiðni um örorkumat til TR.  Fengnar eru nýjar tölvusneiðmyndir af mjóbaki þann 141096.  Kemur þar í ljós að mestu óbreytt ástand nema hvað brjósklos í liðbili SL-S1 er talið „aðeins meira áberandi en við fyrri rannsókn“.

Af framansögðu má sjá að A hefur verið sárþjáður lengst af síðan hann lenti í slysi fyrir hálfu öðru ári.  Tölvusneiðmynd sýnir brjósklos sem heldur hefur aukist á þessum tíma.  Telja verður líklegt að umrætt umferðarslys sé orsök þessa brjóskloss.  Engan veginn er þó sannað að þetta brjósklos sé aðalorsök allra vandræða A, stirðleika og eymslum í baki annars vegar og hins vegar fremur litlu er finnst við skoðun og rannsóknir að frátöldu margnefndu brjósklosi. ...

 

Í greinargerð F taugalæknis, dags. 25. október 1997, um afleiðingar umferðarslyssins 19. mars 1995 fyrir stefnanda, segir undir fyrirsögninni Niðurstaða:

Grunnástæða einkenna er að mati undirritaðs mjóbakstognun af völdum umferðarslyssins og einnig talið líklegt að brjósklosið (L5 – S1) sé af völdum þess.  Andlegir þættir virðast síðan smán saman hafa komið til, þegar ekkert lát varð á króniskum verkjum og óvinnufærni af þeirra völdum, og bætt við og magnað einkenni meðal annars með skynbrenglun, truflun á hreyfingum og vöðvastyrk.  Einkenni slasaða eru að nokkru leyti eins og gerist eftir vægan höfuðáverka, en mun flóknari og umfangsmeiri að mati undirritaðs en venja er við þær kringumstæður.  Því er talið mjög ólíklegt að um vefrænan heilaskaða sé að ræða en frekar að ástæða vitrænna (og líklega geðrænna) einkenna sé af svipuðum toga og nefnt er hér að ofan, afleiðing þjáninga og óöryggis hjá einstaklingi sem hugsanlega er að upplagi eða vegna kringumstæðna viðkvæmur fyrir slíku álagi og þannig um óbeina afleiðingu slyssins að ræða frekar en beinar (enda ekki saga um höfuðáverka í slysinu).  Við þessa niðurstöðu er að mati undirritaðs samræmi milli almennrar skoðunar, skoðunar taugakerfis, taugasálfræðilegra prófa og niðurstöðu starfrænna og myndrænna rannsókna af miðtaugakerfi.

Nú, þegar 32 mánuðir hafa liðið frá slysinu, virðist yfirgnæfandi líkur á að hér sé um varanlegt ástand að ræða.  Að mati undirritaðs mun frekar endurhæfing ekki skila árangri nema rannsókn og meðferð geðlæknis skili árangri.

 

Í læknisvottorði G, sérfræðings í geðlækningum, dags. 17. september 1998, varðandi stefnanda, segir í lokaorðum:

Ljóst er að A er með víðtæk einkenni um lokaðan heilaáverka.  Þannig eru einkenni um lamanir og skynrænar truflanir jafnframt mikil vitræn skerðing og geðrænar truflanir til staðar sem afleiðingar af höfuðáverka.  Þær persónuleikabreytingar sem orðið hafa á A benda til þess að hann hafi fengið víðtækan heilaskaða.  Sem afleiðing af framheilaskaða þá er hann stöðugt sljór og daufur, með hugsanatruflanir, á þó til að fá reiðiköst sem kemur heim og saman við slíkan skaða.  Jafnframt mikill sljóleiki og vitræn skerðing.  Ljóst er að hann mun áfram hafa máttleysi í útlimum, miklar skyntruflanir og miklar tilfinningatruflanir.  Þá er hin vitræna skerðing það mikil að hann myndi í dag flokkast með alvarlega þroskaheftum eða heilabiluðum.  Þannig er um að ræða merki um víðtækan lokaðan heilaskaða með miklum alvarlegum einkennum, sem ekki verður séð að ganga til baka.  Hann er með miklar hreyfitruflanir og skyntruflanir.  Jafnframt hefur orðið mikil vitræn skerðing og hann er með miklar geðrænar truflanir og persónuleikabreytingar.  Einkenni hafa haldið áfram að versna frá því hann varð fyrir slysinu og enginn bati hefur orðið við meðferð og ljóst að endurhæfing úr þessu mun engum árangri skila.  A er í dag ósjálfbjarga einstaklingur, hann þarf hjálp við athafnir daglegs lífs og ekki verður annað séð að svo verði áfram um ókomin ár.  Að mínu mati er ljóst að vegna ofangreindra einkenna verður hann alla ævi 100% öryrki.

 

Í álitsgerð örorkunefndar varðandi stefnanda, dags. 18. janúar 2000, segir í lokaorðum:

Af gögnum málsins verður ekki séð að tjónþoli hafi hlotið höfuðáverka við áreksturinn 19. mars 1995, en hann er talinn hafa hlotið háls- og baktognun.  Geðrænar truflanir tjónþola verða að áliti örorkunefndar ekki raktar til árekstursins 19. mars 1995.  Hins vegar telur nefndin að afleiðingar slyssins hafi orðið honum erfiðari en ella vegna geðrænna einkenna.

Örorkunefnd telur að eftir 1. apríl 1996 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum umferðarslyssins 19. mars 1995.  Að öllum gögnum virtum telur nefndin varanlegan miska tjónþola vegna afleiðinga slyssins hæfilega metinn 10% - tíu af hundraði - .

Tjónþoli var á slysdegi […] að aldri og starfaði hjá iðnfyrirtæki.  Hann hefur ekki farið til vinnu aftur eftir slysið.  Örorkunefnd telur eins og áður segir að óvinnufærni tjónþola verði ekki að öllu leyti rakin til afleiðinga umrædds umferðarslyss, en það hefur þó vissulega dregið úr getu hans til öflunar vinnutekna í framtíðinni.  Er varanleg örorka hans vegna afleiðing slyssins metin 25% - tuttugu og fimm af hundraði - .

 

Með beiðni 12. janúar 2001 fór stefnandi fram á dómkvaðningu matsmanna til að gefa skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:

  1. Hvort einkenni þau er matsbeiðandi hefur í dag, megi rekja til slyssins þann 19. mars 1995?  Ef einkenni má rekja til slyssins:
  2. Hvert tímabil tímabundins atvinnutjóns er, sbr. 2. gr. l. nr. 50/1993?
  3. Hvert tímabil þjáningabóta er, annars vegar þar sem matsbeiðandi var rúmliggjandi og hins vegar veikur án þess að vera rúmliggjandi, sbr. 3. gr. l. nr. 50/1993?
  4. Hver er varanlegur miski, sbr. 4. gr. l. nr. 50/1993?
  5. Hver er varanleg örorka, sbr. 5. gr. l. nr. 50/1993?

 

Hinn 2. febrúar 2001 voru þeir H bæklunarlæknir og I prófessor kvaddir til að meta afleiðingar slyssins og luku þeir matsgerðinni 10. apríl 2001.

Í kafla V, lið 1. í matsgerðinni er þeirri spurningu svarað hvaða einkenni A í dag megi rekja til slyssins 19. mars 1995.  Þar segir að telja megi m.a. af framlögðum gögnum að A hafi við slysið hlotið annars vegar áverka á mjóbak og lítið brjósklos milli 5. mjóhryggjarliðbolar og spjaldhryggjar og hins vegar veruleg einkenni um sköddun á heila, sem var vanþroska fyrir.  Talið er að A hafi fyrir slysið haft þroskatruflað miðtaugakerfi sem hafi brugðist óvanalega mikið við stöðugum verkjum í kjölfar mjóbaksáverka og brjóskloss og óvinnufærni af þess völdum.  Talið er að mjóbaksáverkarnir séu frumorsök þess að viðkvæmt miðtaugakerfi bilaði.  Tekið er fram að engar vísbendingar séu um að A hafi hlotið höfuðáverka í slysinu og því sé ekki unnt að miða við að svo hafi verið.  Heildarafleiðing af umræddu líkamstjóni væri að A hefði breyst úr virkum einstaklingi í óvirkan.  Hann þurfi umtalsvert eftirlit og aðstoð í daglegu lífi og geti ekki séð um sig sjálfur að öllu leyti.

Undir kaflaheitinu Niðurstaða í stuttu máli segir:

Í kafla V lið 1. er þeirri spurningu svarað hvaða einkenni A í dag megi rekja til slyssins 19. mars 1995.

Varanlegur miski A, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, sem afleiðing slyssins 19. mars 1995, telst hæfilega ákveðinn 50%.

Varanleg örorka A, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, sem afleiðing slyssins 19. mars 1995, telst hæfilega ákveðinn 80%.

Tímabundið atvinnutjón A er 100% frá slysdegi 19. mars 1995 til 19. maí 1996

Þjáningabætur til handa A vegna afleiðinga slyssins 19. mars 1995 teljast hæfilega metnar frá 19. mars 1995 til 19. maí 1996, þar af rúmliggjandi frá 10. mars 1996 til 19. maí 1996.

 

Með beiðni 7. júní 2001 fór stefndi fram á dómkvaðningu þriggja óvilhallra og hæfra sérfræðinga, tveggja lækna og eins lögfræðings, til að framkvæma yfirmat á matsgerð H bæklunarlæknis og I lagaprófessors.

Matsbeiðandi óskaði þess að dómkvaddir matsmenn veittu svör við eftirtöldum spurningum:

1.           Hversu lengi tjónþoli var óvinnufær vegna afleiðinga slyssins eða hvenær hann gat fyrst hafði störf að nýju í kjölfar þess.

2.           Hversu lengi tjónþoli var veikur í kjölfar slyssins í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

3.           Hvenær heilsufar tjónþola var orðið stöðugt og ekki að vænta frekari bata vegna afleiðinga slyssins.

4.           Hver telst varanlegur miski tjónþola vegna slyssins, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

5.           Hver telst varanleg örorka tjónþola vegna slyssins, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 

Á dómþingi 22. júní 2001 voru þeir J geðlæknir, K bæklunarlæknir og L, prófessor í lögfræði, kvaddir til að framkvæma yfirmatið.  Yfirmatsgerðin er dagsett 20. desember 2001.  Í lokakafla matgerðarinnar á bl. 23-25 segir:

 

Samantekið:

Tognun í baki:  Skýrist af umferðaslysi.

Conversion-disorder (F44.7), þ.e.a.s. „skyntruflanir og máttminnkun í útlimum“ skýrist af slysi.

Organic personality disorder (F07.0) vs. geðklofi með brottfallseinkennum einvörðungu (F20.6) hefur ekki orsakast af umferðarslysinu.

 

2.            Svör við spurningum í matsbeiðni

a.            Hversu lengi var matsþoli óvinnufær vegna afleiðinga slyssins eða hvenær hann gat fyrst hafði störf að nýju í kjölfar þess?

Matsmenn telja, að matsþoli hafi verið óvinnufær frá slysdegi 19. mars 1995 til 19. maí 1996, er hann útskrifast frá Reykjalundi, en fyrr gat hann ekki hafið störf að nýju.

b.            Hversu lengi var matsþoli veikur í kjölfar slyssins í skilningi 3. gr. skaðabótalaga?

Frá slysdegi 19. mars 1995 til 19. maí 1996.  Rúmliggjandi var matsþoli frá 10. mars 1996 til 19. maí 1996.

c.          Hvenær heilsufar matsþola orðið stöðugt og ekki að vænta frekari bata vegna afleiðinga slyssins?

Matsmenn telja rétt að miða þar við 19. maí 1996.

d.            Hver var varanlegur miski matsþola vegna slyssins, sbr. 4. gr. skaðabótalaga?

Samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er varanlegur miski metinn út frá læknisfræðilegu sjónarmiði og til þess litið hversu miklum erfiðleikum tiltekið tjón veldur í lífi tjónþola.  Miða á við heilsufar tjónþola þegar það er orðið stöðugt.

Um er að ræða almennt mat í þeim skilningi að sambærileg meiðsl eigi almennt að leiða til sama miskastigs hjá tveimur eða fleiri einstaklingum, enda þótt svigrúm sé til frávika þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Hefur Örorkunefnd samið töflur, þar sem miskastig vegna ýmiss konar líkamstjóns er metið með almennum hætti.  Hafa töflur þessar verulegt gildi til leiðbeiningar við mat á varanlegum miska einstakra tónþola, þótt ekki séu þær bindandi.  Er byggt á töflum þessum að því marki sem unnt er, en ella reynt að draga af þeim ályktanir.  Sé það ekki hægt er leitast við að haga mati þannig, að samræmi sé í því og miskastigum samkvæmt töflunum.  Að auki getur þurft að taka tillit til þess, til hækkunar, ef líkamstjón veldur „sérstökum erfiðleikum í lífi tjónþola“, svo sem heimilt er samkvæmt orðum 4. gr. skaðabótalaga.  Hefur framkvæmdin verið sú, að „sérstakir erfiðleikar“ eru látnir hafa í för með sér hækkun matsins, þ.e. að því leyti sem erfiðleikar þessir hafa ekki í för með sér fjárhagslegar afleiðingar, sem taka ber tillit til við mat á varanlegri örorku samkvæmt 5. gr. sömu laga.

Með hliðsjón af því, sem nú hefur verið rakið, læknisfræðilegum gögnum málsins, viðtali okkar við matsþola og læknisskoðun teljum við að matsþoli hafi hlotið varanlegt heilsutjón í umræddum árekstri og teljum helstu afleiðingarnar vera þessar:

a.          Baktognun og skerta hreyfigetu þess vegna.

b.          Skyntruflanir á starfsrænum grunni (conversion disorder) með skertu skyni í útlimum og á köflum minnkuðum mætti.

Varanlegur miski af þessum sökum er metinn 15%

e.            Hver er varanleg örorka matsþola vegna slyssins, sbr. 5. gr. skaðabótalaga ?

 

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku sökum líkamstjóns, eftir að heilsufar hans er orðið stöðugt, valdi tjónið varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna.

Við mat á tjóni vegna þeirrar örorku skal líta til þeirra kosta, er tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.  Um er að ræða svokallað fjárhagslegt örorkumat en ekki læknisfræðilegt mat og er þetta örorkumat að öllu leyti einstaklingsbundið.  Niðurstöður læknisfræðilegra athugana og ályktana skipta þó engu að síður verulegu máli í þessu efni.  Matið snýst um það að áætla, á grundvelli fyrirliggjandi gagna og rökstuddrar spár um framtíð tjónþolans, hver sé hin varanlega skerðing á getu hans til að afla launatekna í framtíðinni vegna hlutaðeigandi líkamstjóns – eða, að öðrum kosti, að staðreyna að ekki sé um þess háttar skerðingu að ræða.  Sú spá, sem hér um ræðir, snýr annars vegar að því að áætla, hver orðið hefði framvinda í lífi tjónþolans, ef líkamstjónið hefði ekki orðið, og hins vegar ályktun um hvernig líklegt sé að framtíð hans verði að þeirri staðreynd gefinni að hann varð fyrir líkamstjóninu.  Við þetta mat ber m.a. að taka hæfilegt tillit til félagslegrar stöðu tjónþolans, aldurs hans, og atvinnu- og tekjusögu, andlegs og líkamlegs atgervis, menntunar, heilsufars, eðlis líkamstjónsins og hinna varanlegu áhrifa þess.  Þá skulu metnir kostir, sem tjónþola bjóðast eða kunna hugsanlega að standa til boða varðandi það að halda fyrra starfi sínu eða finna sér nýtt starf við sitt hæfi.  Jafnframt ber að gæta þess, að samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar hvílir á tjónþola skylda til að takmarka tjón sitt eins og unnt er að ætlast til af honum miðað við aðstæður.

Í ljósi allra þessara viðmiðunaratriða verður, eftir því sem við getur átt, að leggja mat á það, hvort matsþoli í máli þessu hafi beðið varanlega örorku í kjölfar þess slyss, sem hann varð fyrir 19. mars 1995, og ef svo er, hversu mikil sú örorka sé í stigum talið samkvæmt skaðabótalögum.  Matsþoli varð vissulega fyrir varanlegum miska vegna slyssins, eins og fyrr hefur verið rakið, en undir þessum lið matsgerðarinnar er einungis til úrlausnar, hvort telja megi að skaðlegar afleiðingar slyssins séu til þess fallnar að skerða aflahæfi [hans] til frambúðar og þá í hve miklum mæli.

Ljóst er að A er óvinnufær í dag vegna veikinda sinna og hefur af þeim sökum mjög takmarkað aflahæfi.  Ekki er þó nema hluta þeirrar skerðingar að rekja til slyssins, eins og framan greinir, og er varanleg örorka hans metin 25%.

Stefnandi sætti sig ekki við að uppgjör færi fram á grundvelli yfirmatsins og sendi lögmaður stefnanda því kröfu til stefnda grundvallaða á mati matsgerð H bæklunarlæknis og I lagaprófessors.

Stefndi greiddi stefnanda hins vegar skaðbætur á grundvelli yfirmatsgerðarinnar hinn 7. febrúar 2002.  Lögmaður stefnanda tók við greiðslunni með fyrirvara um miska og örorkustig, sem ekki væri viðurkennt af hálfu stefnanda að miða ætti við í uppgjöri á fullum skaðbótum vegna slyssins.

Stefna var birt eins og áður sagði 14. mars 2005.  Á dómþingi 11. nóvember sama ár ákvað dómarinn að leita álits læknaráðs eins og þar segir í formi úrskurðar:

Með vísun til 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um læknaráð nr. 14/1942 er rétt að leita umsagnar læknaráðs um eftirfarandi atriði:

Er læknaráð sammála matsgerð H bæklunarlæknis og I prófessors að varnalegur miski A vegna umferðarslyss sem A varð fyrir 19. mars 1995 sé 50% og varanleg örorka hans 80%?

Er læknaráð sammála matsgerð J geð- og embættislæknis, K bæklunarlæknis og L prófessors að varnalegur miski A vegna umferðarslyss sem A varð fyrir 19. mars 1995 sé 15% og varanleg örorka hans 25%?

Ef fallist er á hvorugt matið, hvað telur læknaráð varanlegan miska og varanlega örorku A vera vegna slyssins 19. mars 1995?

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Læknaráð láti í té rökstudda álitsgerð samkvæmt framansögðu.

 

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2006, barst dómaranum svar læknaráðs.  Þar segir að málinu hefði verið vísað til meðferðar í réttarmáladeild ráðsins og að M geðlæknir hefði verið réttarmáladeildinni til ráðgjafar við umfjöllun málsins hjá deildinni.  Niðurstöður réttarmáladeildar hefðu borist og hafi læknaráð fjallað um þær á fundi sínum 6. nóvember 2006.

Greint er frá því að fundinn hafi setið N, landlæknir og forseti læknaráðs, prófessorarnir O, P, R, S, T og U, auk V, formanns Læknafélag Íslands, og Y staðgengils tryggingaryfirlæknis.  Þá segir orðrétt:  Að loknum umræðum var það samdóma niðurstaða læknaráðs að fallast á matsgerð H og I í mál þessu með þeim rökstuðningi sem henni fylgir.  Læknaráð tekur ekki afstöðu til fjárhagslegrar örorku A.

Stefnandi byggir á því að miða eigi uppgjör bóta eftir umferðarslysið hinn 19. mars 1995 við mat dómkvaddra matsmanna, dags. 10. apríl 2001.  Niðurstaða matsmanna, H bæklunarlæknis og I prófessors, væri að stefnandi hafi við slysið hlotið 50% varanlegan miska og 80% varanlega örorku, sbr. dskj. nr. 28.  Matið gefi rétta mynd af því hvaða afleiðingar slysið hafi haft fyrir stefnanda og getu hans til tekjuöflunar og hafi að geyma viðhlítandi sönnun á tjóni stefnanda eftir umferðarslysið.  Beri stefnda að greiða stefnanda í samræmi við matið og ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi byggir á því að bein orsakatengsl séu á milli slyssins og geðsjúkdóms hans svo sem H og I hafi ályktað og G læknir hafi tekið undir í vottorði sínu, dags. 5. janúar 2004, sbr. dskj. nr. 43.  Stefnandi telur niðurstöðu yfirmatsmanna og álitsgerð örorkunefndar, sbr. dskj. nr. 25 og 38, á engan hátt gefa raunsanna mynd af þeim afleiðingum sem slysið hafi haft á líf stefnanda.  Í örorkumati yfirmatsmanna sem og í mati örorkunefndar væri á engan hátt tekið nægilegt tillit til líkamlegra áverka og alvarlegs skaða á geðsmunum sem slysið olli og rekja megi til lokaðs heilaáverka, bæði vitrænna og geðrænna einkenna.

Þá er byggt á því að örorkumat yfirmatsmanna sé ekki nægilega rökstudd.  Niðurstaða matsins væri í engu samræmi við heildarafleiðingar slyssins fyrir stefnanda.  Niðurstaða í mati yfirmatsmanna væri sú að geðsjúkdómur stefnanda verði ekki rakinn til slyssins, þ.e. að umferðarslysið hefði ekki valdið honum, heldur þjáist hann af geðklofa, sem einkennist af brottfallseinkennum, þ.e. schizophrenia simplix.  Stefnandi hafi orðið óvinnufær vegna veikinda sinna og af þeim sökum hafi aflahæfi hans takmarkaðst.  Ekki megi þó rekja nema hluta þeirrar skerðingar til slyssins út af framangreindum veikleika stefnda.  Stefnandi hafni þessu með vísun til vottorðs G læknis og matsgerðar H og I

Vísað er til þess að niðurstaða yfirmatsins sé ótraust.  Yfirmatsmenn hafi með furðu eindregnum hætti útilokað að slysið hefði valdið þeim mikla skaða á geðheilsu sem stefnandi hlaut við slysið.  Á hinn bóginn beri að túlka allan vafa stefnanda í hag.  Stefnandi hafi verið við góða heilsu fyrir slysið og því einsætt að slysið hefði valdið geðrænni vanheilsu hans.

Stefnandi byggir jafnframt á því að mat dómkvaddra matsmanna sé mun betur rökstutt en mat dómkvaddra yfirmatsmanna.  Vísað er til þess að H og I álykti að stefnandi hafi haft þroskatruflað miðtaugakerfi fyrir slysið, sem brugðist hefði harkalega við stöðugum verkjum og óvinnufærni af völdum mjóbaksáverka og brjóskloss sem stefnandi hlaut við slysið.  Mjóbaksáverkarnir væru frumorsök þess að viðkvæmt miðtaugakerfi bilaði.  Engar vísbendingar væru um að stefnandi hafi hlotið höfuðáverka í slysinu og því væri ekki miðað við að svo hefði verið.  Slysið hefði breytt stefnanda úr virkum manni í óvirkan, í mann, er ekki geti séð um sig sjálfur, nema að takmörkuð leyti, og þurfi umtalsvert eftirlit og aðstoð í daglegu lífi.

Tölulega sundurliðar stefnandi dómkröfu sína á eftirfarandi hátt:

Bætur vegna varanlegs miska:

Krafa stefnanda 4.909.000 * 50%                                                =         2.454.500.-

Þegar greitt af stefnda 5.282.000 * 15%                                    =  -        792.300.-

Mismunur vegna varanlegs miska =                                         =         1.662.200.-

 

Bætur vegna varanlegrar örorku:

Byggt er á meðallaunum verkamanna á 1. ársfjórðungi 1995 en ekki er ágreiningur um launaviðmið.  Meðallaunin voru þá 1.488.240.-

Krafa stefnanda:

1.765.122 (laun m. vísitöluhækkun til 24.4.2001) * 80 * 7,5  =      10.590.731.-

Þegar greitt af stefnda

1.913.682 (laun m. vísitöluhækkun til 7.2.2002) * 25% * 7,5 =  -     3.587.682.-

Mismunur vegna varanlegrar örorku                                     =         7.003.049.-

 

Dómkrafa = 7.003.049 + 1.662.200                                           =         8.665.249.-

 

Stefnandi byggir aðalkröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að fallinn sé niður fyrir tómlæti fyrirvari, sem lögmaður stefnanda gerði við miska- og örorkustig í bótauppgjöri milli stefnanda og stefnda hinn 7. febrúar 2002.  Stefnandi hafi fyrst hafið málsókn til greiðslu þess sem fyrirvarinn laut að rúmum þremur árum eftir að fyrirvarinn var gerður.  Uppgjörið 7. febrúar 2002 væri því fullnaðaruppgjör milli aðila og verði því skilyrði 11. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993 að vera uppfyllt til endurupptöku málsins.  Skilyrði 11. gr. væru ekki fyrir hendi.  Engar breytingar hafi orðið á heilsu stefnda frá 7. febrúar 2002, hvorki fyrirsjáanlegar né ófyrirsjáanlegar, sem valdi því að miskastig og/eða örorkustig sé  verulega hærra en þá var talið.

Í öðru lagi er aðalkrafan byggð á því að tjón stefnanda hafi verið að fullu bætt í bótauppgjörinu milli aðila hinn 7. febrúar 2002.  Uppgjörið hafi verið reist á niðurstöðu yfirmatsgerðar um miska- og örorkustig, dags. 20. desember 2001.  Sönnunargildi yfirmatsgerðar, sem í öllum meginatriðum staðfesti niðurstöðu örorkunefndar, væri mun ríkara en sönnunargildi niðurstöðu undirmatsmanna.  Að niðurstöðu yfirmats og örorkunefndar hafi staðið 6 menn, tveir lögfræðingar og fjórir læknar, þar af einn geðlæknir.  Að niðurstöðu undirmats hafi hins vegar staðið tveir menn, einn lögfræðingur og einn læknir, sem ekki var geðlæknir heldur bæklunarlæknir.  Niðurstaða yfirmatsmanna gefi raunsanna mynd af varanlegum afleiðingum umferðarslyssins hinn 19. mars 1995 á heilsu stefnanda.  Ályktun þeirra um að stefnandi hafi ekki hlotið lokaðan heilaáverka í slysinu, heldur bæri mein af geðklofa, sem ekki tengdist slysinu, væri vel ígrunduð og rökstudd.

Fullyrðingar stefnanda í þá veru að yfirmatsmenn hafi ekki tekið nægilegt tillit til líkamlegra áverka stefnanda væru ekki rökstuddar.  Rangt væri að yfirmatsmönnum hafi borið að túlka allan vafa stefnanda í hag við mat á varanlegu líkamstjóni hans.  Hlutverk yfirmatsmanna væri að komast að niðurstöðu um umfang líkamstjóns stefnanda sem rekja megi til slyssins, byggðri á bestu þekkingu og vitneskju er þeir hefðu yfir að ráða.  Ekkert bendi til annars en að yfirmatsmenn hafi sinnt því hlutverki af trúmennsku.

Vísað er til þess að einn yfirmatsmanna, J, er geðlæknir.  Gefi það yfirmatinu aukna vigt andspænis undirmatinu, en læknir, sem að því stóð væri bæklunarlæknir.  Bent er á að ályktun geðlæknis sem yfirmatsmanns, er dómkvaddur var skv. 64. gr. laga nr. 91/1991, hafi meira gildi en vottorð G geðlæknis, sem liggur fyrir í málinu.  Vottorðið hafi, einhliða og að fumkvæði stefnanda, verið aflað án aðkomu stefnda á nokkurn hátt.

Áréttað er að stefnanda beri, í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttarins, að sýna og sanna að umræddar breytingar á geðheilsu hans verði raktar til umferðarslyssins hinn 19. mars 1995.  Og jafnframt er vísað til þess að lagalega sé rétt að leggja yfirmatsgerð til grundvallar niðurstöðu um líkamstjón, þar sem yfirmatsmenn eru fleiri en matsmenn, dómkvaddir á grundvelli 61. gr. laga nr. 91/1991, og yfirmatsmönnum beri að endurmeta þau atriði sem áður voru metin.

Verði ekki fallist á sýknukröfur stefnda er varakrafa gerð um lækkun bóta.  Byggir stefndi á því að vextir, sem féllu á höfuðstól kröfu stefnanda fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu hinn 14. mars 2001 eða fyrr, séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. og 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.  Þá er byggt á því að tómlæti stefnanda, að hafa ekki uppi skaðabótakröfu þá er hér um ræðir fyrr en um 37 mánuðum eftir að honum var það unnt, leiði til þess að upphafstími dráttarvaxta á dómkröfu stefnanda skuli ekki miðast við fyrra tímamark en dómsuppsögudag.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Þá komu fyrir dóminn dómkvaddir matsmenn þeir H bæklunarlæknir og I prófessor.  Þeir staðfestu að hafa unnið matsgerð, dags. 10. apríl 2001, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 28, og svöruðu spurningum lögmanna aðila og dómarar varðandi matsgerðina.  Þá kom fyrir dóminn J, geðlæknir og embættislæknir, en hann er einn þriggja manna, sem dómkvaddir voru til að meta yfirmati afleiðingar umferðarslyssins 19. mars 1995 fyrir stefnanda.  Hann staðfesti að hafa unnið yfirmatsgerðina, dags. 20. desember 2001, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 38, ásamt þeim L prófessor og K bæklunarlækni.  J svaraði spurningum lögmanna aðila og dómarar varðandi matsgerðina.  Þá kom fyrir dóminn M geðlæknir, en hann var réttarmáladeild læknaráðs til ráðgjafar við umfjöllun málsins hjá deildinni.  Hann gerði grein fyrir rannsókn sinni á málinu og forsendum niðurstöðu réttarmáladeildar læknaráðs.

 

Ályktunarorð:  Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að fyrirvari, sem lögmaður stefnandi gerði við miska- og örorkustig í bótauppgjöri hinn 7. febrúar 2002, sé fallinn niður fyrir tómlæti, en stefna í málinu hafi fyrst verið gefin út hinn 14. mars 2005.  Á þetta verður ekki fallist.  Eftir að yfirmatsgerðin lá fyrir er ljóst að af hálfu stefnanda varð að skoða og meta, hvort taka ætti þá áhættu að fylgja bótakröfu eftir með málsókn á grundvelli matsgerðar H og I, og að það tæki sinn tíma.  Leita þurfti frekari gagna og skoða málið upp á nýtt.  Samdóma niðurstaða læknaráðs, þeirrar að fallast á matsgerð H I með þeim rökstuðningi sem henni fylgir, sýnir, að það var ekki að ófyrirsynju.

Í öðru lagi byggir stefndi aðalkröfu sína um sýknu á því að tjón stefnanda hafi að fullu verið bætt með greiðslu bóta til stefnda hinn 7. febrúar 2002, sbr. dskj. nr. 41.  Verður nú vikið að því.

Í yfirmatsgerð prófessors L og læknanna J og K, segir í samantekt, að stefnandi hafi hlotið tognun í baki, sem skýrist af umferðarslysi, en þar að auki hafi hann hlotið „Conversion-disorder (F44.7), þ.e.a.s. „skyntruflanir og máttminnkun í útlimum“ skýrist af slysi og „Organic personality disorder (F07.0) vs. geðklofi með brottfallseinkennum einvörðungu (F20.6) hefur ekki orsakast af umferðarslysinu.“  Þannig er ályktað að stefnandi sé haldinn sjaldgæfu formi geðklofa, sem alfarið hafi komið í ljós eftir slysið.

Af hálfu sérfróðra meðdómenda er talið að samband milli langvinnra verkja og geðrænna breytinga sé vel þekkt innan læknisfræðinnar.  Mikið hafi verið skrifað um þessi áhrif verkja á geðheilsu viðkomandi, t.d. í yfirlitsriti SBU „Ont i ryggen“.

Vísað er til þess að í gögnum málsins er skýrt frá verkjahegðun stefnanda.  Fyrst í dskj. nr. 19, vottorði heimilislæknis stefnanda Þ.  Þar segir m.a.: „Við skoðun sást að hann var illa þjáður, gekk við staf en ekki var að sjá rýrnanir né skekkjur í hrygg.  Hann var aumur á nánast öllum vöðvafestum og vöðvum meðfram hryggsúlu, hreyfing í mjóbaki nánast upphafin en ekki voru frekar en fyrr teikn um taugarótarþrýsting. Hann gat ekki gengið á tám né hælum vegna verkja.“  Í dskj. nr. 17, vottorði Æ endurhæfingarlæknis segir m.a. um skoðun við komu stefnanda að Reykjalundi: „SLR virðist í fyrstu jákvætt, en virðist þó taka mest í hamstrings, situr síðan auðveldlega flötum beinum á skoðunarbekk og beygir sig fram, sem þýðir neikvætt taugaþanspróf.“  Í dskj. nr. 15, vottorði Ö, sérfræðings í orku- og endurhæfingar-lækningum, stendur í samantek: „Talsverðs ósamræmis gætir milli huglægrar lýsingar A og þeirrar niðurstöðu sem fram koma við skoðun.  Erfiðleikum er bundið að skoða A vegna mikillar viðkvæmni. Ekki koma fram merki um þrýsting á taugavef og óþægindi A eru mjög dreifð.” Síðan segir m.a.: „Að mati undirritaðs er um nokkra verkjahegðun að ræða ...“  Ofangreindar athuganir læknanna gefa vísbendingar um að hegðun stefnanda vegna verkja er lítið tengd greinanlegum áverkum á stefnanda vegna slyssins.  Hins vegar er verkjahegðun, eins og lýst var af Þ, Æ og Ö, vel þekkt meðal bakverkjasjúklinga.

Á síðustu áratugum hefur fjöldi rannsókna leitt í ljós að í flestum tilvikum hverfa merki um væga heilaáverka út af slysi með tímanum.  Dæmi eru þó um varanlegan heilaskaða út af slysi þar sem meðfæddur, en áður dulinn veikleiki hins slasaða, vaknar við líkamlegan áverka vegna slyssins samfara streitu og álagi er fylgir í kjölfarið.

Sérfróðum meðdómendum þykir að H og I hafi farið hefðbundna og vísindalega leið að niðurstöðu sinni.  Slysið hafi með tilteknum hætti leitt til geðröskunar hjá stefnanda.  Í matsgerð þeirra segir m.a.:  „[A]ð A hafi við slysið 19. mars 1995 hlotið annars vegar áverka á mjóbak og lítið brjósklos milli 5. mjóhryggjarliðbolar og spjaldhryggjar og hins vegar veruleg einkenni um sköddun á heila, sem var vanþroskaður fyrir.  Matsmenn telja að fyrir slysið hafi A haft þroskatruflað miðtaugakerfi, sem brugðist hafi óvanalega mikið við stöðugum verkjum í kjölfar mjóbaksáverka og óvinnufærni að þess völdum.  Matsmenn telja að mjóbaksverkirnir séu frumorsök þess að viðkvæmt miðtaugakerfi bilaði.“

Enginn ágreiningur er um orsök bakverkja stefnanda, þ.e. að slysið hinn 19. mars 1995 valdi þeim.  Hins vegar er ágreiningur um, hvort geðsýki stefnanda og óvinnufærni hans vegna þess megi rekja til slyssins.  Fyrir rétti kom fram hjá J geðlækni, að hann gæti ekki fortakslaust útilokað aðrar hugsanlegar sjúkdómsgreiningar en schizophrenia simplex.  Í framburði M geðlæknis, sem var ráðgjafi læknaráðs, kom fram að hann teldi greininguna schizophrenia simplex fráleita, enda væri þessi greining víðast hvar ekki notuð og ætti ekki við stefnanda.

Að öllu samanlögðu telur dómurinn yfirmatsgerðina í fyrsta lagi ekki byggða á viðurkenndri þekkingu um langvinn einkenni bakverkja og afleiðingar þeirra.  Í öðru lagi standist sjúkdómsgreiningin schizophrenia simplex ekki faglega gagnrýni.  Matsgerð H og I er að mati dómsins mun nærri lagi og er þá einnig litið til niðurstöðu læknaráðs.

Tölulegur ágreiningur er ekki um kröfufjárhæð stefnanda, en deilt er um vexti með tilteknum hætti.  Verður stefndi samkvæmt framansögðu dæmdur til að greiða umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði, allt eins og í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari ásamt Brynjólfi Y. Jónssyni bæklunarlækni og Grétari Sigurbergssyni geðlækni kveða upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, A, 8.665.249 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 24. apríl 1997 til 24. maí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1987 um vexti frá þeim degi til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði 2.633.140 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda 2.598.140 krónur.