Hæstiréttur íslands

Mál nr. 192/2014


Lykilorð

  • Staðgreiðsla opinberra gjalda


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015.

Nr. 192/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Jóni Garðari Ögmundssyni

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

Staðgreiðsla opinberra gjalda.

J var sakfelldur fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri L ehf., ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna nánar tilgreindra greiðslutímabila. Var refsing J ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en fullnustu hennar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi J almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var J dæmdur til að greiða 45.130.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi 12 mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist sakfellingar samkvæmt ákæru og að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins.  

Hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jón Garðar Ögmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 468.405 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 434.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2014

                Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dagsettri 2. september 2013, á hendur:

   ,,Jóni Garðari Ögmundssyni, kt. 070263-4599,

Miðbraut 38, Seltjarnarnesi

fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum

með því að hafa, sem stjórnarmaður og framkvæmdarstjóri einkahlutafélagsins Lystar ehf. (þrotabú), kt. 520293-2569, ekki staðið skil á skilagrein einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna apríl 2010 og með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna apríl, nóvember og desember 2009 og janúar til og með maí 2010, samtals að fjárhæð kr.  22.560.713 kr., sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2009            

apríl                       2.590.419 kr.                         

nóvember             3.937.834 kr.

desember              2.814.660 kr.

                                9.342.913 kr.

Árið 2010

janúar                    2.443.396 kr.                         

febrúar                  2.393.138 kr.

mars                       2.305.612 kr.

apríl                       3.579.453 kr.

maí                        2.496.201 kr.

                                13.217.800 kr.

Samtals                 22.560.713 kr.                      

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða krefst sýknu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.

Hinn 21. janúar 2011 kærði Skattrannsóknastjóri ríkisins til lögreglu ætluð brot sem í ákæru greinir. Sætti málið eftir það rannsókn lögreglu.

Ákærði neitar sök. Hann kvað málavexti rétta í ákærunni og staða hans hjá Lyst ehf. hafi verið eins og lýst er og hann hafi vitað hverjar skyldur hans voru vegna stöðu hans hjá félaginu en hann kvaðst hafa verið í rekstri lengi. Hann kvað fjárhæðir sem í ákæru greinir réttar. Hann kvaðst ekki kunna að skýra frá því hvers vegna ekki hafi verið staðin skil á skilagrein vegna staðgreiðslu fyrir aprílmánuð 2010. Hann kvaðst telja að einhver tæknifeill hafi valdið þessu en skilagreininni hafi verið skilað daginn eftir tilskilinn tíma. Bókari félagsins hafi ávallt sent inn skilagreinar og það hafi aldrei brugðist utan þetta eina skipti er eins dags töf varð á skilum.

Ákærði kvaðst hafa borið ábyrgð á skattskilum félagsins en vanskil hafi orðið við hrun krónunnar eins og rakið verður. Spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað eins og lög áskilja, tímabilin sem í ákæru greinir, skýrði ákærði það svo að félagið Lyst ehf. hefði tekið 60 milljón króna erlent lán á árinu 2007. Hann lýsti því að lánið hefði stökkbreyst og hækkað mjög við hrun krónunnar á þessum tíma. Greiddir hafi verið tugir milljóna króna inn á lánið. Bankinn, sem veitti lánið, hafi óskað eftir frekari ábyrgðum til að framlengja lánið. Ákærði lýsti því hvernig brugðist var við þessu. Afleiðing þessa hafi orðið sú, að sögn ákærða, að viðskiptabanki félagsins hafi tekið til sín hærri fjárhæðir úr rekstrinum en áður og ákærði hafi þannig ekki haft alla veltu félagsins til ráðstöfunar og því hafi honum verið ókleift að standa skil á afdreginni staðgreiðslu. Spurður kvað hann ekki hafa verið gerðan samning við bankann um að bankinn annaðist skil á afdreginni staðgreiðslu á þeim tíma sem ákæran tekur til. Ákærði kvað neitun sína þannig byggjast á því að ómögulegt hafi verið fyrir sig að greiða vegna erfiðleikanna og samskiptanna við bankann sem lýst var. Hann lýsti að öðru leyti erfiðleikum á rekstrinum á þessum tíma vegna hruns krónunnar og ástandsins í samfélaginu á þessum tíma og tilraunum sínum til að bregðast við þessu. Þá lýsti hann samskiptum við tollstjóra, samkomulagi sem gert var vegna vanskila og tilraunum sínum til að greiða úr málinu. Sumt hafi gengið upp, annað ekki en hann hafi upplýst tollstjóra um stöðuna og ætlun sína að greiða skuldina. Það hafi ekki tekist. Hann kvaðst hafa lagt allt sitt í félagið og reynt að bjarga störfum 70 til 90 manna sem þar störfuðu. Hann kvað peningana fyrir afdreginni staðgreiðslu vera til en þá sé að finna í viðskiptabanka félagsins vegna ofgreiðslu lánsins sem vísað var til að ofan. Á þessum tíma kvaðst hann ekki hafa vitað af ólögmæti gengistryggðra lána sem ofangreint lán væri að hans sögn.

Vitnið A var starfsmaður hjá Lyst ehf. á þessum tíma. Hún annaðist bókhald félagsins og launagreiðslur. Hún kvað ákærða hafa ákveðið hvað greitt skyldi hjá félaginu hverju sinni en hún myndi ekki mánuðina sem vanskil urðu á skilum afdreginnar staðgreiðslu. Spurð um vanskil skilagreina fyrir apríl 2010 kvaðst hún ekki muna þetta. Þetta kunni að hafa gleymst eða verið frídagur eða hún verið veik. Hún myndi ekki eftir þessu en skilagreinum hafi ávallt verið skilað.

Vitnið B endurskoðandi greindi frá því að hann hefði unnið yfirlit vegna 60 milljóna króna lánsins frá árinu 2007 sem vikið var að að ofan. Lánið er bundið erlendu gengisviðmiði. Hann skýrði útreikninga sína og að félagið hefði ofgreitt 23,7 milljónir króna vegna þessa. Hann skýrði forsendurnar sem útreikningurinn byggist á en stuðst hafi verið við bókhald félagsins.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök á forsendum sem hann rakti og varða erfiðleika sem upp komu í rekstri félagsins vegna falls krónunnar og hækkunar á láni félagsins sem bundið var erlendri mynt og ákærði taldi ólöglegt gengistryggt lán en það hafi hann ekki vitað á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvaðst hafa ofgreitt af láninu fjárhæð sem nemi hærri fjárhæð en vanskilum sem í ákæru greinir og þeir fjármunir séu í bankanum sem veitti hið ólögmæta lán og innheimti.

Ákærði var á þeim tíma sem í ákæru greinir framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Lystar ehf. Samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög bar honum að tryggja að afdreginni staðgreiðslu félagsins, tímabilin sem í ákæru greinir, væri skilað eins og lög áskilja. Erfiðleikar í rekstri félagsins sem ákærði lýsti, samskipti við bankann eða aðra, breyta ekki þeirri skyldu ákærða en ekki var gert samkomulag um viðskiptabanka félagsins um að hann annaðist skil afdreginnar staðgreiðslu. Ákærði bar því ábyrgð á skilunum vegna stöðu sinnar hjá félaginu.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi framið háttsemina sem í ákæru greinir. Með vanskilunum, eins og þeim er lýst í ákæru, hefur ákærði gerst sekur um brot gegn lagaákvæðunum sem í ákæru greinir að því er varðar skil á afdreginni staðgreiðslu.

Ákærði taldi líklegast að bilun hefði valdið því að skilagrein var ekki skilað vegna aprílmánaðar 2010 en skilgreinum hafi ávallt verið skilað og þessari daginn eftir eindaga. Vitnisburður A er á sama veg um þetta, þ.e. að eitthvað sérstakt hafi valdið dagstöf á skilagreininni þennan mánuð en skilagreinum var ávallt skilað að hennar sögn. Að þessu virtu er það mat dómsins að vanskil skilagreinar fyrir aprílmánuð 2010 hafi hvorki verið unnin af ásetningi né stórkostlegu hirðuleysi, sbr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Eru því ekki uppfyllt saknæmisskilyrði og ber að sýkna ákærða af þeim hluta ákærunnar.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsiákvörðun. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir. Auk refsivistar ber að dæma ákærða til greiðslu sektar að lágmarki tvöföldu brotaandlagi, sbr. tilvitnuð lagaákvæði í ákæru. Samkvæmt þessu er ákærða gert að greiða 45.130.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 12 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Tryggva Agnarssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun verjandans er fyrir vinnu hans undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.

Rakel Ásgeirsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

                Dómsorð:

Ákærði, Jón Garðar Ögmundsson, sæti fangelsi í 5 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 45.130.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 12 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

                Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Tryggva Agnarssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.