Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Meðdómsmaður
- Dráttur á máli
|
|
Fimmtudaginn 21. október 2004. |
|
Nr. 88/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Davíð Braga Konráðssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Líkamsárás. Meðdómendur. Dráttur á rannsókn máls.
D var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa veist að Y og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið svo hann féll í götuna og sparkað í höfuð hans þar sem hann lá í götunni með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði og sprungur komu í þrjár tennur. Talið var sannað að D hafi með árás orðið þess valdandi að Y féll í götuna. Hins vegar þótti ekki óyggjandi að það högg sem D játaði að hafa veitt Y hafi valdið fallinu, eða högg með krepptum hnefa í andlit. Þá var talið sannað að sparkað hafi verið í höfuðið á Y þar sem hann var fallinn í götuna. Var brot hans heimfært undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing D ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 2 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvalds og bótakröfu vísað frá héraðsdómi.
Ákærði krefst ómerkingar héraðsdóms á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum, þar sem niðurstaða málsins ráðist af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ákvæði þetta felur í sér heimild en ekki skyldu fyrir héraðsdómara til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi með sér og ræðst nauðsyn þess af aðstæðum hverju sinni. Við rannsókn málsins var fjöldi vitna yfirheyrður, en meðal þeirra voru þrjú sem hvorki þekktu ákærða né kæranda. Eins og hér stendur á er ekki ástæða til að ómerkja þá ákvörðun héraðsdómara að sitja einn í dómi. Er þessari kröfu ákærða því hafnað.
Ákæruvaldið hefur ekki gert kröfu um þyngingu refsingar ákærða í málinu. Að því athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás 4. ágúst 2001. Lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærða 16. október sama árs. Var ákærði fyrst yfirheyrður 13. september 2002, en yfirheyrslur vitna hófust 6. nóvember og stóðu fram í desember sama ár. Í janúar 2003 felldi lögreglustjórinn í Reykjavík málið niður, en ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun úr gildi 10. mars sama árs og lagði fyrir lögreglustjóra að halda rannsókninni áfram. Voru þá teknar síðla sama mánaðar tvær skýrslur af vitnum. Ákæra var svo gefin út 15. apríl 2003. Þessi dráttur á rannsókn málsins er vítaverður og hefur ekki verið skýrður. Brýtur hann í bága við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 og er í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. desember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 15. apríl 2003 á hendur Davíð Braga Konráðssyni, [kt.], Hátúni 20, Keflavík, fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 4. ágúst 2001 í Lækjargötu í Reykjavík, veist að Y, [ ], og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið svo hann féll í götuna og sparkað í höfuð hans þar sem hann lá á götunni með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði og sprungur komu í þrjár tennur.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá krefst Y skaðabóta að fjárhæð 1.683.237 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. ágúst 2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að vextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn hinn 4. ágúst 2002. Loks er gerð krafa um þóknun við réttargæslu samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.
Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa, að skaðabótakröfu verið vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð verulega.
Málsatvik og málsástæður.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dagsettri 4. ágúst 2001 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar á Lækjartorgi kl. 04.39 þá nótt. Er lögregla kom á vettvang lá brotaþoli, Y, í götunni og var nokkuð vankaður. Er hann var spurður hvað hefði komið fyrir var hann ekki viss og var framburður hans nokkuð ruglingslegur. Y var blóðugur um munninn og var neðri vör hans nokkuð bólgin. Sjúkrabifreið flutti hann á slysadeild. Lögreglumenn ræddu á vettvangi við ákærða, Davíð Braga. Hann kvaðst ekki hafa sparkað í andlit Y heldur í fætur hans þar sem hann hefði verið að “bögga” sig. Lögreglumenn ræddu einnig við félaga ákærða, vitnið, A, sem kvað ekki rétt, sem vitni höfðu sagt lögreglu, að hann hefði sparkað í Y þar sem hann lá. Lögregla hefur eftir vitninu, B, að þau Y hafi, ásamt nokkrum vinum, verið að koma frá Húsi málarans við Bankastræti og ætlað að ganga niður í bæ. Er þau hafi verið komin niður að Lækjargötu hafi komið maður, sem hún síðar staðfesti að væri ákærði, Davíð Bragi. Hafi hann rifið í Y og sagt hann hafa rekist utan í sig. Síðan hafi hann sparkað í andlit Y. Sagði hún Y þá hafa dottið í götuna og hefði ákærði þá sparkað nokkrum sinnum í hann þar sem hann lá. Einnig hafi annar maður komið, sem hún benti á, og reyndist vera vitnið, A. Hefði hann einnig sparkað í Y þar sem hann lá. Vitnið, C, kvaðst einnig hafa séð allt og staðfesti það sem B hafði sagt. Þá gaf sig fram við lögreglu D og kvað sér hafa blöskrað hvernig maður, sem hann staðfesti að væri ákærði, Davíð Bragi, hefði komið og sparkað í andlit Y án nokkurrar viðvörunar. Vitnið, E, gaf sig fram og staðfesti að lögregla hefði tekið réttan mann, en ákærði hafði þá verið tekinn út úr hópnum. Einnig gáfu sig fram F og vitnið, G, og sögðu ákærða og A hafa lamið og sparkað í Y þar sem hann lá í götunni.
Sönnunargögn.
Við aðalmeðferð máls þessa gaf ákærði skýrslu fyrir dómi og vitnin, Y, A, H, I, C, B, E, G og Sveinn Ægir Árnason lögreglumaður.
Ákærði, Davíð Bragi Konráðsson, kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum Húsi málarans, hefðu þeir Y rekist saman og síðan rætt saman þar fyrir utan. Hann sagði að þeir hefðu rekist hvor utan í annan fyrir utan skemmtistaðinn. Sagði hann að einhver pirringur hefði verið milli sín og Y út af þessu atviki. Þeir hefðu gengið niður Bankastræti. Ákærði kvaðst hafa veitt Y andlitshögg, en var ekki viss hvort hann hefði verið með krepptan hnefa. Hann sagði höggið ekki hafa verið þungt og að Y hefði ekki fallið í götuna við höggið. Þetta hefði gerst þegar þeir gengu niður Laugaveginn og þeir voru komnir að gatnamótunum. Ákærði sagði Y hafa þá kýlt sig til baka í ennið og snúið sér við og hlaupið af stað og dottið, og hafi hann lent með andlitið á gangstéttarbrún. Ákærði kvaðst ekki hafa sparkað í Y þar sem hann lá á götunni. Hann kvaðst ekki muna nú eftir að hafa sparkað í fætur Y, eins og haft er eftir honum í frumskýrslu, og hann kannaðist ekki við að hafa sagt við lögregluna að Y hefði verið að „bögga“ hann. Hann kvaðst hafa staðið stjarfur þar sem Y hreyfði sig ekki. Sagði hann aðra stúlkuna, sem var með Y, hafa tekið af sér skóinn og ráðist á sig og ætlað að lemja sig með honum en hún hafi ekki hitt hann. Sagði hann lögreglu hafa tekið sig inn í bíl vegna þess að bent hefði verið á hann. Ákærði sagði H, vin sinn, hafa verið með sér en sagði A, vin hans, hafa komið að og ætlað að róa niður lætin og hann hafi rætt við Y. Spurður um vitnið I kvaðst ákærði hafa hitt I í desember 2002, þremur mánuðum eftir að hann var kallaður fyrir hjá lögreglu. Það hafi verið 13 mánuðum eftir atvikið. Hefði I þá sagt honum að hann hefði séð þetta allt. Ákærði sagði að Y hefði hrint A frá sér þegar A hafi ætlað að róa hann niður. Kvaðst hann þá hafa slegið til Y, en þetta hafi verið ósjálfráð viðbrögð. Hann hafi ekki slegið fast. Y hafi slegið til baka í andlitið á sér og snúið sér við og hlaupið af stað og dottið á gangstéttarbrúnina. Ákærði kvað Y hafa hlaupið beint frá sér í átt að Stjórnarráðshúsinu, tvo til þrjá metra. Hann sagðist hafa séð Y detta fram fyrir sig og beint á gangstéttarbrúnina með andlitið. Hann kvaðst ekki hafa hlaupið á eftir Y. Ef til vill hefði hann hreyft sig eitthvað. Aðspurður kvaðst hann aðeins muna eftir tveimur stelpum með Y. Ákærði kvaðst aðspurður hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi verið fullur, en kvaðst muna mjög vel eftir atvikinu.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 12. september 2002. Hann kvaðst hafa reiðst og slegið Y eitt högg í höfuðið og hafa verið sleginn strax til baka. Síðan hefði Y hlaupið frá sér og fallið beint fram fyrir sig eftir þrjá til fjóra metra. Hann kvaðst ekki hafa slegið hann annað högg og ekki hafa sparkað í hann. Hann hefði ekki slegið með krepptum hnefa, hann hefði ekki haft tíma til að undirbúa höggið. Lögreglan hefði tekið hann inn í lögreglubifreið og talað við hann. Hann kvað A ekki hafa komið við Y. Honum var kynnt bótakrafa.
Vitnið, Y, kvaðst hafa komið út af veitingastaðnum Húsi málarans. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt ákærða þegar hann kom út en þegar hann hafi verið kominn neðar á Laugaveginum hafi myndast hópur í kringum sig. Hann kvaðst ekki muna mikið eftir þessu en mundi eftir að hafa verið spurður hvort hann væri að „dissa“ Keflavík. Hann kvaðst bara hafa brosað en það hefði greinilega pirrað þá. Síðan hafi hann sagt „nei“. Þegar hann rankaði við sér og fór að hugsa út í atburðarrásina fannst honum hann hafa verið sleginn niður aftan frá og rotaður. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa í lent í átökum við ákærða. Hann kvaðst ekki muna vel eftir því sem skeði og taldi það stafa af höfuðhöggi. Hann sagðist hafa verið þarna með tveimur stúlkum, B og C. Vitnið kvaðst hafa kjálkabrotnað og fjórar tennur hefðu brotnað. Hann hafi verið á fljótandi fæði eftir þetta í fimm vikur og lést mikið. Hann sagðist hafa þurft að hætta í fótbolta þetta sumar. Hann kvaðst vera með járnplötu í kjálkanum. Hann kvað vera erfitt að ná sér eftir þetta bæði líkamlega og andlega. Spurður um sýnilega áverka kvaðst hann hafa verið með sprungnar varir og bólginn, skinn hafi skrapast af. Hann kvað bit vera í lagi, en ein tönn hafi verið rótfyllt og fjórar kynnu að þurfa viðgerð. Vitnið taldi sig myndu muna eftir því ef hann hefði hlaupið í burtu frá ákærða. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa slegið neinn og kvaðst ekki muna eftir ákærða.
Í kæruskýrslu 16. október 2001 kvaðst brotaþoli minnast áreitis og telja sig muna að ráðist hafi verið á sig, en annað mundi hann ekki.
Vitnið, A, kvaðst hafa verið í för með ákærða og H þessa nótt. Hann sagðist fyrst hafa átt samskipti við Y inni á skemmtistaðnum Húsi málarans. Hann sagði Y og ákærða hafa rifist í stiganum þar en Y hafi gengið utan í hann. Sagði hann það ekki hafa verið mikið mál. Sagði hann þá báða hafa verið pirraða yfir þessu. Vitnið sagði þá hafa talað eitthvað við Y fyrir utan staðinn. Sagðist hann hafa sagt við Y að hann kannaðist við hann úr fótboltanum. Svo hafi hann ætlað að ganga frá honum þegar Y ýtti honum frá sér en þá hafi allt byrjað. Þá hafi þeim tveimur, ákærða og Y, lent saman en hann kvaðst ekki hafa séð það greinilega. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð ákærða slá Y hnefahögg í andlitið. Hann sagði þetta frekar hafa verið ýtingar. Þeir hafi ráðist hvor á annan. Hann sagðist aðspurður hafa séð þegar Y féll í götuna en það hafi gerst eftir að Y ætlaði að hlaupa í burtu. Hann hafi dottið á kant og greinilega steinrotast. Þeir hafi verið Stjórnarráðsmegin í Bankastrætinu, en Y hafi ætlað að fara yfir götuna í áttina að MR. Hann hafi þá misst jafnvægið og dottið á kantinn, þannig hafi honum sýnst það. Vitnið sagði þá hafa hlaupið að Y. Þeir hafi alveg séð að hann hreyfði sig ekki, og þeir hafi ekkert gert meira. Hann sagði aðspurður að ákærði hefði ekki sparkað í andlitið á Y. Hann kvaðst hafa fylgst með allan tímann. Vitnið sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis, hann hafi verið léttur. Hann var spurður hvort einhver hefði sagt að Y væri að „dissa“ Keflavík, eða hvort einhver orð hefðu fallið sem hefðu verið til þess fallin að æsa menn upp. Vitnið sagði hann hafa verið að skamma Keflvíkinga, þeir hefðu verið reiðir yfir því, en ekki brjálaðir. Hann sagði þetta ekki hafa verið tilefni þess sem gerðist heldur það að Y ýtti honum frá sér. Hann kvaðst hafa séð I þarna á staðnum eftir að þetta gerðist. Spurður hvort Y hefði verið að flýja þá, kvað hann það ekki vera. Hann kvaðst hafa séð Y detta, hann hafi skollið með höfuðið á brúnina. Hann sagðist aðspurður ekki hafa sparkað í Y þar sem hann lá, né hafa komið við hann með fætinum. Ef til vill hefði það virst þannig, því þeir hafi farið alveg að Y. Þeir hafi farið á eftir honum en ekki hlaupið. Hann sagðist aðspurður ekki hafa séð ákærða sparka í hann.
Lögregla tók skýrslu af vitninu 13. september 2002. Hann kvað þar ákærða og Y hafa skipst á höggum. Síðan hefði Y hlaupið frá þeim og fallið á andlitið eftir þrjá til fjóra metra. Eitthvert fólk hefði komið að og sagt að þeir færu ekki neitt. Hefðu þeir beðið rólegir. Hann kvað aldrei hafa verið sparkað í strákinn hvorki fyrir né eftir að hann féll.
Ákærði, Davíð Bragi Konráðsson, óskaði eftir að gera athugasemdir. Hann kvað þetta hafa gerst við gatnamót Bankastrætis og Lækjargötu, aðeins ofar þar sem Bankastræti skiptist með umferðareyju, við hliðina á Stjórnarráðinu. Aðspurður af hverju hann hefði skýrt öðruvísi frá þessu áður sagðist hann hafa átt við þetta allan tímann.
Vitnið, H, kvaðst hafa verið í för með ákærða og A þessa nótt. Sagði hann samskipti hafa átt sér stað milli ákærða og Y. Sagði hann samskiptin hafa hafist fyrir utan Hús málarans. Y hefði hellt bjór eða einhverju á ákærða og hafi ekki viljað biðjast afsökunar á því og þeir hafi því lent í rifrildi. Hann kvaðst aðspurður hafa séð ákærða slá Y. Eftir að Y ýtti við A hafi hann slegið alla vega í áttina að honum. Hann hafi ekki séð nákvæmlega hvort hann hitti, en hann hafi slegið í áttina að höfðinu á honum. Hann sagði þetta líklega hafa verið hnefahögg en var ekki viss. Þetta hafi gerst snöggt. Hann sagði Y ekki hafa fallið í jörðina við þetta. Hann hafi kýlt ákærða aftur til baka. Eftir það hafi Y snúið sér og hlaupið niður Laugaveginn. Örfáum sekúndum seinna þegar hann kom að umferðareyjunum hafi hann fallið á götuna, beint á andlitið og steinrotast. Spurður hvað hafi valdið, taldi hann ástæðuna líklega þá að hann hefði verið blindfullur og hlaupandi eins og brjálæðingur. Eftir að Y féll í götuna hafi ákærði ýtt við honum með fætinum en hann hafi ekki hreyft sig. Sekúndum eftir það hafi hann sjálfur komið að ákærða og sagt honum að fara frá honum. Nánar spurður sagði hann ákærða hafa potað í Y með fætinum aftan á lærið eða rassinn. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis en hann myndi þetta vel. Hann sagðist hafa verið 15 til 20 metrum fyrir aftan þegar Y féll í götuna. Hann kvaðst hafa séð I þarna, hann hefði verið að koma úr vinnu. Sagði hann höggin og pústrana hafa átt sér stað svolítið fyrir ofan þar sem umferðareyjurnar séu rétt fyrir ofan gatnamót Lækjargötu og Bankastrætis að hann telji, þar sem MacDonalds hafi verið, aðeins ofar en Stjórnarráðshúsið í brekkunni. Aðspurður sagði hann Y hafa dottið fimm metrum frá Davíð. Hann kvað Y hafa verið fúlan og ekki hafa viljað biðjast afsökunar. Sagði hann Y hafa hlaupið niður brekkuna. Spurður hvers vegna Y hefði hlaupið, taldi hann líklegt að hann hefði verið hræddur, en hann vissi það ekki. Sagði hann ákærða hafa hlaupið á eftir Y og þeir A hefðu skokkað á eftir þeim og kallað á eftir þeim. Aðspurður sagðist hann geta fullyrt að rangt væri að ákærði hefði kýlt hann niður og sparkað í hann.
Tekin var lögregluskýrsla af vitninu 9. desember 2002. Þar kvað hann ákærða og Y hafa slegið hvor annan. Síðan hafi Y hlaupið niður Bankastrætið og ákærði á eftir, og þeir A á eftir þeim. Y hafi dottið fram fyrir sig í götuna og legið hreyfingarlaus. Þegar þeir A komu að hafi hann séð ákærða pota með fætinum í Y. Hafi þeir A strax tekið ákærða frá.
Vitnið, I, kvaðst hafa séð þetta atvik er hann hafi verið að koma úr vinnunni klukkan fimm til hálf sex á [...]. Hann hafi verið að ganga niður Hafnarstræti þegar hann sá nokkra stráka, ákærða, H, A og K. Hann kvaðst ekkert hafa þekkt strákana þá en þeir hafi verið með honum í Holtaskóla í Keflavík. Hann kvaðst hafa heilsað þeim en þeir hafi flestir verið á nokkurri ferð, en hann hafi talað við H. Þeir hafi litið við en þá hafi verið einhverjar ryskingar á milli ákærða og annars manns, eitthvert rifrildi. Sagði hann það hafa verið hálf-líkamlegt þar sem þeir hafi verið farnir að ýta við hvor öðrum og stúlka hafi líka verið í þessu rifrildi. Þeir hafi verið að rífast á gangstéttinni Stjórnarráðsmegin en hann hafi sjálfur staðið úti á götu aðeins ofar. Sagði hann strákinn hafa slegið til ákærða, en hann viti ekki hvort ákærði hafi slegið hann áður. Sagði hann ákærða hafa slegið á móti. Hann kvaðst muna vel eftir höggunum, þau hafi verið tiltölulega lítil en ákærði hafi slegið með innri úlnlið. Þeir hafi slegið hvor annan einhverjum höggum, en ekki borið neinn skaða. Sagði hann stúlku hafa haft hátt og sagt stráknum sem ákærði reifst við að koma og hafa dregið hann með sér. Strákurinn hafi þá snúið sér við og hlaupið til og dottið og lent með andlitið á kanti eða gangstéttarbrún á umferðareyju. Sagði hann blóð hafa verið út um allt og að strákurinn hafi verið lemstraður í andliti. Sagði hann lögreglu hafa komið stuttu síðar og tekið strákinn og stúlkuna upp í lögreglubifreiðina. Sagðist hann þá hafa gengið heim. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða sparka í strákinn. Sagðist hann hafa staðið ofar í Hafnarstrætinu þegar ryskingarnar urðu, en þegar þeir slógu til hvors annars hafi þeir fært sig neðar og hann líka til að fylgjast betur með. Sagðist hann hafa staðið 3-5 metrum frá því þar sem strákurinn datt. Kvaðst hann ekki hafa séð ástæðu til að gefa sig fram við lögreglu vegna slyss. Vitnið kvaðst þekkja ákærða betur í dag. Þegar komið hafi í ljós að hann átti að vera vitni hafi hann hitt hann hjá lögfræðingi. Þeir hafi hist og farið á kaffihús. Sagði hann að haft hefði verið samband við sig að frumkvæði ákærða. Nánar spurður kvað hann manninn ekki hafa hlaupið langt, tvö til þrjú löng skref. Þá hafi hann dottið, því stúlkan hafi hrifsað í hann og hann þá snúið sér hratt við og dottið vegna þess að hann var mjög ölvaður. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða slá eða sparka til mannsins áður en hann hljóp.
Vitnið, C, kvaðst hafa verið í för með Y og B þessa nótt. Sagði hún strákahóp hafa verið að áreita þau fyrir utan Hús málarans vegna einhvers sem hafði gerst. Sagðist hún hafa séð mann slá Y í andlitið og höggið hafi verið þungt. Sagði hún Y hafa fallið við höggið. Sagði hún mann hafa þá sparkað í hann. Sagði hún aðspurð Y ekki hafa dottið á andlitið á gangstéttarbrún og meiðst þannig. Sagði hún að sig minnti að sparkað hafi verið í höfuðið á Y. Sagði hún sparkið hafa verið kröftugt. Sagði hún árásina hafa verið tilefnislausa. Þetta hafi gerst rétt fyrir ofan gatnamótin neðst á Laugaveginum. Hún kvað frekar margt fólk hafa verið þarna. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis en ekki ölvuð. Sagði hún Y ekki hafa slegið til piltsins. Enginn aðdragandi hafi verið að því þegar Y var sleginn. Sagði hún að sig minnti að Y hefði dottið út á götuna, sennilega vegna höggsins. Sagðist hún hafa verið við hlið hans. Ítrekað spurð treysti hún sér ekki til að fortaka það að hann hefði getað rekið höfuðið í gangstéttarbrún. Kvaðst hún telja að sami maður hefði sparkað í Y og sá sem sló hann. Vitnið sagði lögreglu hafa tekið þessa stráka í bílinn. Hún sagðist hafa bent lögreglu á þessa menn.
Lögregla yfirheyrði vitnið 6. nóvember 2002. Þar sagði hún að strákur hefði kýlt Y með krepptum hnefa í andlitið og hefði hann þá fallið í götuna. Taldi hún Y hafa rotast við þetta. Þessi sami strákur hafi síðan sparkað af afli í andlitið á Y þar sem hann lá. Lögregla tók símaskýrslu af vitninu 28. nóvember 2002. Hún kvað einn árásarmannanna fyrst hafa slegið Y í andlitið og síðan sparkað í hann liggjandi. Kvað hún lögreglu hafa talað við árásarmanninn á vettvangi eftir að hún benti á hann.
Vitnið, B, kvaðst hafa verið þarna með Y og C. Sagði hún þau hafa gengið út frá Sólon og verið að ganga niður að ljósunum við Lækjartorg. Hún kvaðst ekki vita hvort eitthvað hafði komið upp á inni á staðnum. Sagði hún stráka sem voru fyrir aftan þau hafa byrjað að kalla eftir þeim þegar þau voru rétt komin út frá Sólon. Hún sagði að sig rámaði í að það hafi eitthvað snúist um Keflavík en var ekki viss. Áður en hún vissi af hafi þeir verið búnir að kýla Y niður í jörðina og þar sem hann hafi legið hafi hún séð sparkað í hann. Hún sagði aðspurð að þau hafi þá verið að nálgast ljósin, verið mitt á milli ljósanna og Sólon. Hún sagðist ekki muna hver hafi verið að kýla og sparka. Hún kvaðst muna eftir tveimur strákum, öðrum ljóshærðum en hinum dökkhærðum. Sagðist hún halda að þeir hétu Daði og A. Hún kvaðst hafa séð Y sleginn andlitshöggi og minnti hana það hafa verið með hrepptum hnefa. Sagði hún þetta hafa komið aftan frá og upp úr þurru. Sagði hún Y hafa fallið í jörðina eftir höggið. Hafi henni fyrst fundist að hann hefði verið sparkaður niður, en telji eftir umhugsun að þetta hafi verið högg. Hún kvaðst hafa séð sparkað í hann þar sem hann lá. Sagðist hún ekki vita hvort sami maður sló hann og sparkaði í hann. Hún staðfesti og mundi eftir að hafa bent lögreglumönnum á manninn sem hafði ráðist á Y. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa farið inn í lögreglubifreiðina, en hafa sest í gættina. Y hefði farið í sjúkrabifreið, en lögreglumenn hefðu reist hann við. Hún sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis en ekki ölvuð. Nánar spurð um höggið kvað hún Y hafa verið kýldan frá hlið og hún hafi séð hann falla í jörðina, hann hafi eins og dottið út frá þeim, hálfur út á götu. Eftir að Y hefði verið kominn í jörðina, hefði verið kýlt og sparkað í hann. Hún kvað hann ekki hafa hlaupið út á götuna og ekki hafa dottið sjálfan. Hún kvaðst ekki telja að hann hefði rekið höfuðið í umferðareyju, en kvað rétt að þau hefðu verið við umferðareyju þegar hann féll. Spurð hvort verið geti að Y hafi rekið andlitið í þessa umferðareyju í fallinu, kvaðst hún ekki vera viss, en taldi það ekki hafa verið svo.
Lögregla yfirheyrði vitnið 8. nóvember 2002. Þá kvaðst hún muna vel eftir atvikinu. Kvað hún ákærða skyndilega hafa ráðist á Y, hefði hann hoppað upp og sparkað með fætinum í Y þannig að hann féll í götuna. Lögregla tók símaskýrslu af vitninu 28. nóvember 2002. Hún kvað lögreglu hafa talað við árásarmanninn á vettvangi eftir að þær C hefðu bent á hann. Hún kvað Y hafa verið sparkaðan niður.
Vitnið, E, kvaðst hafa gefið sig fram við lögreglu vegna atviks, sem hann varð vitni að í Bankastræti. Hann kvaðst ekki muna þetta eins vel nú og þegar hann gaf skýrslu um málið. Þarna hafi verið slagsmál og maður hafi verið hlaupinn uppi og hann laminn í götuna og síðan, það sem mest hafi farið fyrir brjóstið á sér, hafi verið hvernig gengið var í skrokk á honum þar sem hann var í götunni hreyfingarlaus og bjargarlaus. Það hafi verið einn aðalárásarmaður, en hann hafi fengið hjálp. Hann kvaðst hafa bent lögreglunni á aðalárásarmanninn og staðfest síðan að réttur maður var í vörslum lögreglu. Hann kvaðst hafa staðið á gangstéttinni við Núllið og maðurinn legið þar nálægt eins og á miðri götunni. Hann kvað það geta verið að þarna hefði verið umferðareyja. Spurður hvort hann myndi eftir því að hafa séð manninn sem ráðist var á sleginn í andlitið með hnefahöggi, kvaðst vitnið ekki treysta sér til að fara út í smáatriði en honum væri mjög minnisstætt að gengið var mjög hart að manninum eftir að hann lá eftir hreyfingarlaus á götunni, aðallega með spörkum. Hann staðfesti að hann hefði bent lögreglunni á þann mann sem hafði sig mest í frammi. Hann kvaðst ekki treysta sér til að þekkja hann aftur í réttinum. Hann kvaðst ekki hafa þekkt neinn af þessum aðilum sem þarna komu við sögu. Hann kvaðst ekki hafa séð aðdragandann, en hafa orðið var við einhver hlaup og taldi hann að fórnarlambið hefði verið hlaupið uppi og lamið í götuna. Hann kvaðst hafa séð þetta vel, en ekki treysta sé til þess að lýsa tilteknum spörkum. Spurður um ölvunarástand sitt, kvaðst hann ekki hafa verið ölvaður, og ekki muna hvort hann hafði drukkið þar sem svo langt væri síðan, en gera ráð fyrir að hann hefði verið búinn að drekka eitthvað miðað við hvenær þetta átti sér stað. Spurður hvort fleira fólk hefði verið þarna, kvaðst hann telja að fleira fólk hefði verið á gangstéttinni hinu megin götunnar. Hann telji að maðurinn hafi verið laminn niður og aðalárásarmaðurinn hafi fengið einhverja óverulega aðstoð frá einum aðila, sem hann hefði einnig bent lögreglu á, en það hefði ekki verið þáttur aðstoðarmannsins sem honum hefði blöskrað. Spurður hvað hefði orðið til þess að maðurinn datt í götuna, kvað hann það bara hafa verið árás. Hann kvaðst ekki geta sagt hvort hann var strax meðvitundarlaus eftir að hann datt, en vera alveg viss um að það hefði verið sparkað í manninn eftir að hann lá hreyfingarlaus. Hann kvaðst ekki treysta sér til að tjá sig um hvort maðurinn kunni að hafa dottið á gangstéttarbrún. Ítrekað spurður um hvað hann sá, kvað hann hafa orðið uppþot. Hann hefði gætt að hvort hann þekkti eitthvað þá sem þarna áttu hlut að máli. Gengið hafi verið mjög hart að fórnarlambinu þannig að honum hafi blöskrað, og eigi hann þar við árásina í heild. Hann kvaðst ekki í annan tíma hafa gefið sig fram sem vitni vegna slíkra atvika. Hann kvaðst ekki treysta sér til að segja hvar höggin og spörkin lentu.
Lögregla tók símaskýrslu af vitninu 12. september 2002. Hann kvaðst hafa séð tvo menn sem voru að sparka í einn liggjandi í götunni, hafi hann bent lögreglu á aðalárásaraðilann á vettvangi. Lögregluskýrsla var tekin af vitninu 26. mars 2003. Kvaðst hann hafa séð tvo menn ganga í skrokk á einum sem lá í götunni, en annar hafi aðallega haft sig í frammi.
Vitnið, J, kvaðst hafa verið að ganga niður Bankastrætið þegar hann hafi séð einhver læti hægra megin sem hafi borist út á götuna. Einhver hafi hrint manninum í götuna og sparkað í höfuðið á honum. Hann kvaðst muna mest eftir að sparkað var upp undir höfuðið á honum. Aðspurður kvað hann það ekki hafa verið pot með fæti, maðurinn hafi legið eftir. Hann kvaðst ekki hafa séð andlitshögg. Hann kvaðst hafa séð manninum hrint. Mest hafi athygli hans beinst að því þegar sparkað var í höfuð mannsins og hann lá eftir. Aðspurður kvað hann þetta hafa verið spark í andlit. Hann kvaðst hafa séð þetta eina spark. Spurður um staðsetningu kvaðst hann hafa verið að koma niður Bankastrætið, verið rétt fyrir neðan Kodak. Atburðurinn hafi verið við gatnamótin á Lækjargötu við umferðareyju. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða aftur og myndu ekki þekkja fórnarlambið. Hann treysti sér ekki til að lýsa hvernig maðurinn féll, en kvaðst hafa séð þegar hann fékk spark þar sem hann lá, það hafi verið upp undir hökuna. Spurður hvort hann kunni að hafa rotast þegar hann féll í götuna, kvað hann sér hafa virst hann vera að reyna að standa upp þegar sparkið kom, en eftir það hafi hann legið. Hann kvaðst hafa gefið sig fram við lögreglu, sem hafi komið fljótlega. Hann hefði talað við lögregluna á staðnum, en taldi sig ekki hafa vísað á þann sem sparkaði. Aðspurður kvaðst hann hafa verið undir áfengisáhrifum. Ítrekað spurður kvaðst hann ekki hafa kannast við þetta fólk.
Lögregla tók símaskýrslu af vitninu 12. september 2002. Kvaðst hann þá hafa séð tvo menn sem voru að sparka í einn sem var liggjandi í götunni. Vitnið var yfirheyrt hjá lögreglu 27. mars 2003. Þá sagði hann manninn hafa fallið við í stympingum við þá sem hefðu elt hann, og hafi hann verið að standa upp aftur, þegar einn mannanna hafi sparkað með miklu afli upp undir andlitið á honum, og hafi hann legið eins og meðvitundarlaus á eftir.
Vitnið, Sveinn Ægir Árnason lögreglumaður, kvaðst ekkert muna eftir þessu atviki, en staðfesti skýrslu sína um málið, frumskýrslu lögreglu.
Að gefnu tilefni frá verjanda var málið endurupptekið og nokkur vitni kölluð fyrir að nýju.
Vitnið, B, var spurð hverjir L og M væru sem hún nefni í lögregluskýrslu og segi að hafi verið í samfloti með henni, Y, C og D þegar málsatvik urðu. Hún kvað L og M vera félaga úr Árbænum, hún kvaðst ekki muna föðurnöfn þeirra, þeir væru báðir á sínum aldri, 22-23 ára, L ljóshærður, meðalstór og í fótbolta, M hávaxinn, dökkhærður, líklega í smíði, ekki með gleraugu. Hún kvaðst hafa talað við þá inni á Málaranum umrætt kvöld, en ekki minnast þess núna að þeir hafi gengið með þeim úti.
Vitninu, G, var kynnt tilefni þess að hann var aftur kallaður fyrir dóminn. Hann kvaðst ekki kannast við vitnið, B, og ekki kannast við brotaþola, Y.
Vitnið, E, sinnti ekki kvaðningu af sama tilefni. Í ljósi framburðar vitnisins, B, og þeirrar staðreyndar að hann er fæddur árið 1971 þótti ekki tilefni til að ítreka kvaðningu.
Á vettvangi gáfu sig fram tveir menn til viðbótar. Annar kvaðst ekkert muna lengur þegar lögregla hafði samband við hann. Eftir hinum, D, er bókað í frumskýrslu að hann hafi sagt, að sér hafi blöskrað hvernig maðurinn sem lögregla hafði tekið afsíðis, ákærði, hefði komið og sparkað í andlit brotaþola án nokkurrar viðvörunar. Hann var yfirheyrður hjá lögreglu 10. desember 2002. Þar kvaðst hann hafa staðið í 10 til 12 metra fjarlægð en ekkert hafi skyggt á sjónlínu sína. Hann hafi séð ungan mann hlaupa niður Bankastrætið í átt að Lækjargötu, falla við en ná að bera fyrir sig hendurnar í fallinu. Í sama mund hafi annar komið hlaupandi á eftir og sparkað með miklu afli upp undir andlitið á þessum sem hafði fallið í götuna. Hafi hann legið eins og rotaður á eftir. Þrátt fyrir ítrekaðar boðanir hefur þetta vitni ekki komið fyrir dóminn.
Meiðsli brotaþola, eins og þeim er lýst í ákæru, hafa verið staðfest með tveimur vottorðum Guðmundar Ásgeirs Björnssonar munn- og kjálkaskurðlæknis háls-, nef- og eyrnadeildar Landspítala Fossvogi, dagsett 20. ágúst og 5. október 2001 og tveimur vottorðum Elfu Guðmundsdóttur tannlæknis, dagsett 10. maí og 26. júní 2002.
Niðurstaða.
Atvik þau sem mál þetta er sprottið af áttu sér stað í Bankastræti í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins 4. ágúst 2001. Lögregla kom á vettvang og ræddi við og tók niður nöfn ákærða og vitna. Annars vegar var um að ræða ákærða og tvo vini hans og hins vegar brotaþola, sem fluttur var á slysadeild, og tvær vinkonur hans. Einnig gáfu sig fram við lögreglu fjögur vitni, vegfarendur sem kváðust hafa séð árás á brotaþola og bentu á ákærða sem aðalgeranda. Þá kom fyrir dóminn, að frumkvæði ákærða, vitnið, I, sem kvaðst hafa séð atburðinn er hann var að koma úr vinnu umrædda nótt og kannaðist við ákærða. Nafn hans kom fyrst fram við þingfestingu málsins.
Upplýst er að ákærði og brotaþoli og vinir þeirra voru öll í Húsi Málarans þessa nótt og fóru þaðan á sama tíma áleiðis niður Bankastræti. Bera sum vitni að brotaþoli og ákærði hafi rekist eitthvað saman innan dyra, en ljóst er að einhver orðaskipti og pirringur verður utan dyra og á leiðinni niður Bankastræti.
Ákærði og vinir hans bera að þeir hafi rifist og skipst á höggum neðst í Bankastræti. Ákærði játar að hafa slegið brotaþola í andlitið, en segir það hafa verið létt högg og ekki hafa valdið skaða eða fellt brotaþola. Vitnið, H, bar að ákærði hefði barið í átt að höfði brotaþola líklega hnefahögg, en hann hefði ekki dottið við það og hefði kýlt til baka. Vitnið, A, sagði ákærða ekki hafa barið brotaþola, þeir hefðu verið að ýtast. Allir þrír sögðu þetta hafa byrjað af því að brotaþoli hefði ýtt við A. Vitnið, I, kvaðst hafa orðið var við rifrildi og séð brotaþola slá ákærða og ákærða þá slá til baka lítið högg með innri úlnlið. Ákærði, A og I báru að brotaþoli hefði þá snúið sér, hlaupið burt og dottið. H kvað hann hafa hlaupið burt og dottið.
Brotaþoli man lítið eftir atvikinu. Hann man orðaskipti sem lýsa áreiti frá ákærða og félögum hans, hann man ekki eftir að hafa lent í átökum eða hafa slegið neinn og honum finnst hann hafa verið sleginn niður aftan frá. Hann man ekki eftir að hafa hlaupið í burtu. Vitnið, C, segir strákahóp hafa verið að áreita þau og að brotaþoli hafi verið sleginn þungt högg í andlitið og fallið við það. Hún segist hafa verið við hlið hans þegar þetta átti sér stað. Vitnið, B, sagði stráka hafa verið að kalla á eftir þeim og upp úr þurru hefði brotaþoli verið sleginn hnefahögg í andlitið aftan frá og hefði hann dottið við það. Hún sagði hann ekki hafa hlaupið og ekki dottið sjálfan.
Nokkrir vegfarendur gáfu sig fram vegna málsins. Vitnið, E, sagði brotaþola hafa verið hlaupinn uppi og sleginn í götuna. Hann sagði árásina hafa valdið því að brotaþoli datt. Vitnið, G, sagist hafa orðið var við einhver læti sem hafi borist út á götuna og hafi brotaþola verið hrint í götuna. Þriðji vegfarandinn, D, sem yfirheyrður var hjá lögreglu, kom ekki fyrir dóminn, en haft er eftir honum að hann hafi séð brotaþola hlaupandi niður Bankastræti og detta, en náð að bera fyrir sig hendurnar. Fjórði vegfarandinn sem gaf sig fram á vettvangi kvaðst ekkert muna þegar lögregla talaði við hann síðar.
Framburður ákærða og vitna um það hvort ákærði sparkaði í brotaþola eftir að hann féll í jörðina er einnig ólíkur. Ákærði kveðst hafa staðið kyrr í sömu sporum þegar brotaþoli hljóp og datt, hann hafi ekki farið á eftir honum og ekki sparkað í hann liggjandi. Vitnið, A, kvað þá hafa farið á eftir brotaþola, en ekkert gert meira þegar hann datt og kvað hvorki sig né ákærða hafa sparkað í hann þar sem hann lá. Vitnið, H, kvað ákærða hafa potað í brotaþola með fætinum eftir að hann féll, í bakhlutann eða lærið, sjálfur hafi hann komið að rétt á eftir og sagt ákærða að fara frá brotaþola. Vitnið, I, sagðist ekki hafa séð ákærða sparka í brotaþola.
Brotaþoli man ekkert eftir að hann fellur. Vitnið, C, sagði að sparkað hefði verið í brotaþola eftir að hann féll, hefði það verið kröftugt spark og að hún taldi í höfuðið. Hjá lögreglu kvað hún sama aðila og hafði slegið brotaþola hafa sparkað af afli í andlitið á honum þar sem hann lá. Vitnið B bar að sparkað hefði verið í brotaþola þar sem hann lá.
Vitnið, E, sem var vegfarandi, kvað hafa verið gengið hart að brotaþola eftir að hann datt og lá hreyfingarlaus, aðallega með spörkum og hafi honum blöskrað árásin. Hafi verið einn aðalárásarmaður. Vitnið, G, kvað sér vera minnisstæðast að sparkað var upp undir höfuðið á brotaþola og hann legið eftir, virtist honum hann vera að reyna standa upp þegar sparkið kom. Vegfarandinn, D, sagðist hjá lögreglu hafa séð mann koma hlaupandi á eftir þeim sem féll og sparka með miklu afli upp undir andlitið á honum og hafi hann þá legið eins og rotaður á eftir.
Upplýst er í máli þessu að einhver pirringur var á milli ákærða og vina hans og brotaþola. Mikið ber á milli í frásögn vitna af atburðarásinni. Við mat á vætti vitna verður að hafa í huga að annars vegar er um að ræða framburð vina ákærða og hins vegar vina brotaþola. En einnig er til staðar til fyllingar frásögn hlutlausra vegfarenda. Almennt er samræmi á milli framburða vitna hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá verður að líta til þess að mjög langur tími er liðinn frá því að atburðurinn átti sér stað. Er því eðlilegt að minni vitnanna sé farið að daprast rúmum tveimur árum síðar. Þykir það auka trúverðugleika vitna að geta þess. Á það við um vitnin, B og C, E og G.
Það er athyglisvert í máli þessu að fjögur vitni gefa sig fram við lögreglu á vettvangi samkvæmt frumskýrslu lögreglu og tekið er fram að ástæða þess sé að þeim hafi blöskrað aðfarirnar. Tvö þessara vitna, E og G, hafa komið fyrir dóminn og staðfest þetta. Þykir eðlilegt að gefa framburði þessara vitna talsvert vægi, enda eiga þeir engra hagsmuna að gæta og tengjast ekki málsaðilum.
Á vettvangi var bent á ákærða sem aðalárásarmanninn og þykir ekki varhugavert að byggja á því, þó vitnin hafi ekki treyst sér til að þekkja hann í réttinum. Ekkert hefur komið fram um að annar hafi verið að verki utan að hann hafi fengið einhverja aðstoð frá kunningja. Ákærði játar að hafa slegið brotaþola og lent í átökum við hann. Vitnin, H og I, staðfesta högg, en A ýtingar. Allir bera þeir þó að brotaþoli hafi ekki fallið við þetta. Brotaþoli og vitnin, C, B, E, segja brotaþola hafa verið sleginn niður og G segir honum hafa verið hrint í götuna. Þegar þetta er metið verður að telja sannað að ákærði hafi með árás orðið þess valdandi að brotaþoli féll í götuna og er hann sakfelldur fyrir það. Hins vegar þykir ekki óyggjandi að það högg sem hann játar að hafa veitt brotaþola hafi valdið fallinu, eða högg með krepptum hnefa í andlit, eins og í ákæru segir.
Að því er varðar það ákæruatriði að ákærði hafi sparkað í brotaþola liggjandi, hefur ákærði orðið tvísaga, en í frumskýrslu lögreglu er haft eftir honum að hann hafi sparkað í fætur brotaþola. Fyrir dóminum bar hann að hann hefði ekki hreyft sig úr sporunum eftir að brotaþoli hljóp frá honum, er þetta ekki í fullu samræmi við framburð A sem segir þá hafa farið á eftir brotaþola, og H sem segir ákærða hafa potað með fætinum í brotaþola og hafi hann tekið ákærða frá. Þykir framburður ákærða, A, H og I ekki trúverðugur um þetta atriði. Framburður I var í heild frekar óskýr. Ekki var á það minnst á vettvangi að brotaþoli hefði dottið og slasast þannig, en vitni gáfu sig fram vegna þess að þeim blöskraði árás sú sem hann hafði orðið fyrir. C, B, E og G bera að sparkað hafi verið í brotaþola þar sem hann lá. Af lýsingum þessara vitna að dæma, sérstaklega hinna óháðu vitna, var hér um hrottafengna árás að ræða. Telja verður sannað með vætti framangreindra aðila, og þrátt fyrir neitun ákærða og fullyrðingu hans og vitnanna, A, H og I, um að brotaþoli hafi fallið með andlitið á gangstéttarbrún, að sparkað hafi verið í höfuðið á brotaþola þar sem hann var fallinn í götuna. Er þar ekki öðrum til að dreifa en ákærða samkvæmt framburði vitna sem bentu á hann á vettvangi og er hann fundinn sekur um þennan verknað. Þegar atburðarásin er metin í heild þykir ekki varhugavert að telja sannað að afleiðingar árásar ákærða hafi orðið þær sem í ákæru er lýst.
Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
Refsiákvörðun.
Ákærði er fæddur árið 1981. Hann er fundinn sekur um líkamsárás sem var tilefnislaus og fólskuleg og hafði alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Við ákvörðun refsingar skal hins vegar litið til þess að hann var 19 ára gamall þegar atvikið átti sér stað og að hann hefur ekki gerst brotlegur í annan tíma. Einnig þykir rétt að líta til þess hversu langt er liðið síðan atvikið átti sér stað. Þegar þetta er virt þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Skaðabótakrafa.
Brotaþoli, Y krefst skaðabóta að fjárhæð 1.683.237 krónur auk dráttarvaxta. Bótakrafan sundurliðast þannig:
Áfallinn tannlæknakostnaður kr. 17.515
Fyrirsjáanlegur kostnaður vegna tannar 21 kr. 125.000
Launatap kr. 27.956
Útlagður kostnaður samkvæmt nótum kr. 12.766
Miskabætur kr. 1.500.000
Brotaþoli gekkst í svæfingu undir aðgerð vegna kjálkabrots 13. ágúst 2001 og var hann í eftirliti háls, nef- og eyrnadeildar Landspítala Fossvogi til 12. september sama ár. Þá höfðu sár gróið vel og bit var stabílt og voru vírar á tönnum fjarlægðir. Þetta er samkvæmt vottorði Guðmundar Ásgeirs Björnssonar, munn- og kjálkaskurðlæknis, dagsettu 5. október 2001. Þar kemur einnig fram að brotaþoli hafi einnig leitað til Elvu Guðmundsdóttur tannlæknis sem hafi lagfært lausa fyllingu og tekið eftir þversprungu í framtönn neðri kjálka, og verði hann áfram í eftirliti hjá henni. Loks kemur fram í vottorðinu að mögulegt sé að brotaþoli þurfi síðar meir að láta fjarlægja títanplötu sem beinbrotið var skorðað með, fari hún að valda óþægindum eða opnist inn á hana inn í munnhol.
Lögð eru fram tvö vottorð Elfu Guðmundsdóttur tannlæknis, dagsett 10. maí og 26. júní 2002. Hið síðarnefnda, þar sem fram kemur útlagður kostnaður vegna tannviðgerða hjá vottorðsgefanda og öðrum tannlækni, er aðeins í ljósriti og engir reikningar fylgja. Þykja þessi gögn ekki fullnægjandi til þess að dómur verði lagður á kröfulið vegna tannlæknakostnaðar og er þessum þætti skaðabótakröfu því vísað frá dómi.
Launatap þykir staðreynt á fullnægjandi hátt með vottorði vinnuveitanda og læknis og er tekið til greina svo sem krafist er með 27.956 krónum.
Útlagður kostnaður samkvæmt framlögðum reikningum er tekinn til greina samtals 12.766 krónur.
Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999 og dómvenju 200.000 krónur.
Sakarkostnaður
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, eru ákveðin 150.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Daða Kristjánssyni fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Davíð Bragi Konráðsson, skal sæta fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár og falli hún niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði skal greiða Y, [kt.], 240.722 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. október 2002 til greiðsludags og 60.000 krónur vegna lögfræðiaðstoðar. Skaðabótakröfu vegna tannviðgerða er vísað frá dómi.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.