Hæstiréttur íslands

Mál nr. 501/1999


Lykilorð

  • Skattur
  • Jöfnunargjald
  • Endurgreiðsla
  • Fyrning
  • Framsal
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. maí 2000.

Nr. 501/1999.

Gnípa ehf.

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

             

Skattar. Jöfnunargjald. Endurgreiðsla. Fyrning. Framsal. Sératkvæði.

Gnípa ehf. krafðist endurgreiðslu úr ríkissjóði á gjöldum greiddum á árunum 1988 til 1995 vegna innflutnings á frystum forsteiktum kartöflum. Var um að ræða greiðslur vegna álagningar 190%, 120% og 90% jöfnunargjalds af kartöflum og vörum unnum úr þeim, sem lagt var á samkvæmt heimild í reglugerð. Í fyrstu annaðist Gnípa  innflutninginn, en bar þá nafnið Garri hf. Í ágúst 1992 stofnuðu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri og meðstjórnandi Garra hf. annað félag sem fékk nafnið Garri, en nafni áfrýjanda var samtímis breytt í Gnípu. Tók nýja félagið við innflutningnum og annaðist hann að öllu leyti frá september 1992. Með bréfi í maí 1999 var því lýst yfir að Gnípa hefði fengið kröfu Garra ehf. um endurgreiðslu framselda á árinu 1995. Í lok árs 1996 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að álagning umrædds 190% og 120% jöfnunargjalds hefði verið ólögmæt og í mars 2000 komst rétturinn að sömu niðurstöðu varðandi álagningu 90% jöfnunargjalds. Á grundvelli þess var talið að álagning jöfnunargjalds á innflutning Gnípu og Garra ehf. hefði verið ólögmæt. Með vísan til dóms Hæstaréttar frá árslokum 1998 var talið að fyrningarfrestur kröfu Gnípu væri fjögur ár, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og að hann hæfist við hverja greiðslu. Gnípa höfðaði mál til endurgreiðslu jöfnunargjaldanna í júlí 1997, en málið var fellt niður í febrúar 1998. Mál þetta var síðan höfðað í júní 1998. Talið var að um sama sakarefni væri að ræða í málunum og ætti að miða upphafstíma fyrningarfrests við höfðun fyrra málsins. Talið var að framsal kröfu Garra ehf. til Gnípu hefði verið óvenjuleg og mikilsháttar ráðstöfun miðað við stöðu félaganna, sem rétt hefði verið að fjalla um með stjórnarsamþykkt innan félaganna, sem bókuð hefði verið í gerðabók, sbr. 68. gr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 44. gr. og 3. mgr. 46. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Með vísan til þess að í málinu lágu frammi mjög ófullkomin gögn um framsalið var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ríkið af kröfum G vegna aðildarskorts.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 23. desember 1999. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða sér ofgreidd gjöld, aðallega að fjárhæð 72.726.074 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. maí 1995 til greiðsludags, en til vara 63.905.173 krónur með dráttarvöxtum frá sama tíma. Jafnframt gerir hann þá kröfu, að viðurkennt verði, að sér sé heimilt að reikna dráttarvexti frá gjalddaga hverrar aðflutningsskýrslu, sem endurgreiðsla nái til, á tímabilinu frá 3. ágúst 1988 til 17. maí 1995. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn niður falla.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Í málinu krefst áfrýjandi endurgreiðslu úr ríkissjóði á gjöldum vegna innflutnings á frystum forsteiktum kartöflum frá Hollandi, sem greidd voru á tímabilinu frá 3. ágúst 1988 til 17. maí 1995 samkvæmt aðflutningsskýrslum. Er krafan til komin vegna jöfnunargjalds, sem lagt var á þessa vöru samkvæmt reglugerðum um sérstakt jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim, er landbúnaðarráðherra hafði gefið út á grundvelli heimildar í 2. tl. e-liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. 1. gr. laga nr. 25/1986, og síðar í 2. tl. d-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 99/1993 um sama efni.

Við upphaf tímabilsins var það reglugerð nr. 223/1987, með áorðnum breytingum samkvæmt reglugerð nr. 109/1988, sem kvað á um hæð gjaldsins, og nam það þá 190% af vöruverðinu. Í júnímánuði 1989 lækkaði gjaldið í 120% við frekari breytingu með reglugerð nr. 335/1989, en með nýrri reglugerð nr. 468/1993 var það ákveðið 90% frá 22. nóvember 1993. Hélst gjaldið síðan óbreytt út tímabilið og þar til það féll niður hinn 30. júní 1995, þegar d-liður 1. mgr. 30. gr. laga nr. 99/1993 var felldur úr gildi.

Framan af fyrrgreindu tímabili var það áfrýjandi sjálfur, sem annaðist þennan innflutning, en hann bar þá nafnið Garri hf. Stjórnarformaður félagsins og framkvæmdastjóri var Magnús R. Jónsson, en sonur hans, Magnús R. Magnússon, var annar tveggja meðstjórnenda. Í ágústmánuði 1992 stofnuðu þeir feðgar hins vegar annað hlutafélag, er fékk nafnið Garri, en nafni áfrýjanda var samtímis breytt í Gnípu hf. Sat Magnús R. Jónsson einn í stjórn félagsins og var jafnframt framkvæmdastjóri þess, en sonur hans skipaði varastjórn og hafði prókúru fyrir félagið við hlið föðurins. Tók þetta nýja félag við innflutningnum og annaðist hann að öllu leyti frá og með septembermánuði 1992. Félögin eru nú bæði einkahlutafélög, og var  þeim breytt í það horf við árslok 1995. Skipar Magnús R. Jónsson einn stjórn beggja félaganna og Magnús R. Magnússon varastjórn. Jafnframt skipa þeir nú báðir framkvæmdastjórn áfrýjanda, og hinn síðarnefndi er skráður framkvæmdastjóri Garra ehf., en hinn fyrrnefndi hefur einnig prókúru fyrir félagið. Starfar Garri ehf. enn að sama innflutningi, en ekki liggur fyrir, hvaða starfsemi áfrýjandi hafi nú með höndum.

Að sögn áfrýjanda var hið nýja félag stofnað af því tilefni, að tollyfirvöld höfðu á árinu 1992 hafist handa um rannsókn á innflutningi hans og borið brigður á það tollverð, sem hann hefði tilgreint í aðflutningsskýrslum. Umrædd rannsókn leiddi til þess, að gjöld af innflutningi áfrýjanda á tímabilinu 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992 voru endurákvörðuð eftir nýju tollverði, sem reiknað var frá grunni, eins og um getur í héraðsdómi. Jafnframt var tollverð samkvæmt síðari aðflutningsskýrslum áfrýjanda og Garra hf. endurákvarðað hverju sinni með hliðsjón af því, sem rannsóknin leiddi í ljós, og fór því fram allt til 8. júní 1993, þegar leyst var úr málinu með úrskurði tollstjórans í Reykjavík.

Krafan um endurgreiðslu nær til alls jöfnunargjalds, sem áfrýjandi og Garri ehf. greiddu við innflutning á greindu tímabili, og einnig til þess hluta virðisaukaskatts af vörunni, sem við bættist vegna jöfnunargjaldsins. Kveðst áfrýjandi hafa fengið kröfu Garra ehf. um endurgreiðslu vegna innflutnings á tímabilinu frá september 1992 til maí 1995 framselda til sín á árinu 1995. Frá útreikningi krafnanna og öðrum atvikum málsins er nánar greint í héraðsdómi.

II.

Með dómi Hæstaréttar 19. desember 1996 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, H.1996.4260, var komist að þeirri niðurstöðu, að álagning 190% og 120% jöfnunargjalds, sem ákveðið var í reglugerð nr. 223/1987, eins og henni var breytt með reglugerðum nr. 109/1988 og nr. 335/1989, hefði verið ólögmæt.

Í máli þessu reynir ennfremur á álagningu 90% jöfnunargjalds á sömu vörur samkvæmt reglugerð nr. 468/1993, sem byggð var á fyrrgreindu ákvæði laga nr. 99/1993. Um hana var fjallað í tveimur dómum Hæstaréttar 16. mars 2000, annars vegar í máli nr. 329/1999, Ástríður Hauksdóttir o.fl. gegn íslenska ríkinu og gagnsök, og hins vegar í máli nr. 359/1999, Dreifing ehf. gegn íslenska ríkinu. Varð niðurstaðan þar einnig á þann veg, að sú álagning hefði verið ólögmæt.

Með vísan til þessara dóma verður litið svo á, að sú álagning jöfnunargjalds á innflutning áfrýjanda og Garra ehf., sem endurgreiðslukröfur áfrýjanda lúta nú að, hafi verið ólögmæt.

III.

Mál þetta var höfðað til endurgreiðslu ofgreidds fjár. Í dómi Hæstaréttar 10. desember 1998 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, H.1998.4180, var því slegið föstu, að fyrningarfrestur kröfu sem þeirrar, sem hér er til meðferðar, væri fjögur ár, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og hæfist hann við hverja greiðslu. Sætir sú niðurstaða ekki ágreiningi í máli þessu. Áfrýjandi höfðaði mál til endurheimtu þeirra gjalda, sem hér eru til umfjöllunar, hinn 15. júlí 1997, en það var fellt niður 4. febrúar 1998 að ósk hans. Mál þetta var síðan höfðað 29. júní 1998.

 Stefndi byggir á því að allar kröfur áfrýjanda um endurheimtu gjalda fyrir 29. júní 1994 séu fallnar niður fyrir fyrningu, en til vara kröfur fyrir 15. júlí 1993, sé miðað við rof fyrningar við málshöfðun 15. júlí 1997. Áfrýjandi heldur því aftur á móti fram að fyrning hafi verið rofin með málum, sem hann höfðaði til ógildingar á álagningu jöfnunargjaldsins í júní 1995 og apríl 1996, sem lauk endanlega með dómi 11. júní 1997, þar sem álagningin var lýst ólögmæt. Ekki verður á þetta fallist með áfrýjanda, sbr. rök þau sem fram komu í dómi Hæstaréttar 10. desember 1998. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/1905 á kröfueigandi hins vegar rétt til, þótt fyrningarfrestur sé liðinn, að höfða nýtt mál gegn sama aðila innan 6 mánaða frá því að málið var fellt niður. Ber á það að fallast að um sama sakarefni hafi verið að ræða í  máli, sem höfðað var 15. júlí 1997, og því sem hér er til meðferðar. Kröfur áfrýjanda fyrir 15. júlí 1993 eru því fyrndar.

IV.

Stefndi krefst sýknu vegna aðildarskorts af kröfu áfrýjanda að þeim hluta, sem eftir stendur, þ.e. vegna aðflutningsgjalda á tímabilinu frá 15. júlí 1993 til 17. maí 1995. Byggist sýknukrafan á því að, ósannað sé, að áfrýjandi hafi fengið kröfuna réttilega framselda frá þeim aðila, er innti gjöldin af hendi. Frammi liggur yfirlýsing 31. maí 1999 um að Garri ehf. hafi á árinu 1995 framselt áfrýjanda kröfu sína, svo sem frá greinir í héraðsdómi. Stefndi andmælir þessari yfirlýsingu og vísar meðal annars til þess, að hvorki hann né tollyfirvöld hafi fengið neina tilkynningu frá kröfueigandanum þess efnis, að framsal hefði átt sér stað, fyrr en hún kom til skjalanna á lokastigi málsmeðferðar í héraði. Í henni séu atvik að framsali kröfunnar ekki skýrð, og áfrýjandi hafi ekki gert grein fyrir þeim undir rekstri málsins.

Umrædd yfirlýsing er undirrituð af Magnúsi R. Magnússyni fyrir hönd Garra ehf. og Magnúsi R. Jónssyni fyrir hönd áfrýjanda, án sérstakrar tilgreiningar á stöðu þeirra hjá hvoru félagi um sig, en að henni er hér áður vikið. Taka þeir fram, að hinnar framseldu kröfu á hendur íslenska ríkinu hafi ekki verið getið í reikningum félagsins, þar sem krafan hafi verið talin óviss og ekki rétt að láta slíka kröfu hafa áhrif á efnahag félaganna. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn því til skýringar, hvenær ársins 1995 eða hvernig framsalið hafi átt sér stað og hvort það hafi gerst í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög eða einkahlutafélög. Telja verður, að hér hafi verið um mikilvægan gerning að ræða, þannig að rétt hefði verið að fjalla um hann með stjórnarsamþykkt innan félaganna, sem bókuð hefði verið í gerðabók með tilhlýðilegum hætti,  sbr. 68. gr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 44. gr. og 3. mgr. 46. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hafi ráðstöfunin hlotið að teljast bæði óvenjuleg og mikils háttar miðað við stöðu félaganna, svo sem um ræðir í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Með vísan til þessa og hinna ófullkomnu gagna, sem fyrir liggja um framsalið, ber að fallast á það með héraðsdómara, að sýkna vegna aðildarskorts eigi hér við.

V.

Samkvæmt því sem að framan greinir ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 


                          Sératkvæði

                          Hjartar Torfasonar

Ég er að öllu leyti samþykkur I. og II. kafla í atkvæði annarra dómenda, en ósammála niðurstöðum í III. og IV. kafla.

Áfrýjandi höfðaði fyrst mál til endurgreiðslu sérstaks jöfnunargjalds á frystar forsteiktar kartöflur með stefnu á hendur landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra 2. mars 1994, þar sem hann vefengdi einnig lögmæti gjaldsins með þeirri kröfu, að úrskurður ríkistollanefndar 28. maí 1993 um aðflutningsgjöld af vörunni yrði felldur úr gildi. Lagði hann fyrir héraðsdóm skýr sjónarmið um lagalegan grundvöll gjaldsins, sem að miklu leyti voru samhljóða þeim, er síðar reyndi á í viðurkenningarmáli S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, sem lauk með dómi Hæstaréttar 19. desember 1996. Kröfugerð áfrýjanda í málinu sætti harðsnúnum andmælum af hálfu íslenska ríkisins, sem taldi forsendur fjárkrafna hans og viðurkenningarkröfunnar lítt samrýmanlegar og gagnrýndi einnig fjárkröfurnar fyrir það, að framsetning þeirra og gagna um þær væri illskiljanleg. Kom sú gagnrýni þó úr hörðustu átt, þar sem ljóst má telja, að sá þáttur málsins hafi ekki síður verið skiljanlegur tollyfirvöldum en áfrýjanda sjálfum, og gat það raunar átt við um málið í heild. Eftir á að hyggja verður þeirri ályktun ekki varist, að málinu hafi fyrst og fremst verið vísað frá dómi vegna hinna eindregnu mótmæla á allar hliðar, sem gagnaðilinn bar fram. Hvað sem því líður var það sýnilega vegna þessara mótmæla, sem áfrýjandi kaus að gera einungis viðurkenningarkröfur í þeim dómsmálum, sem næst fylgdu í kjölfar frávísunarinnar, en áskilja sér rétt til síðari kröfugerðar um endurgreiðslu hins umdeilda gjalds.

Með vísan til þessa og til 11. gr. laga nr. 14/1905 verður á það að fallast með héraðsdómara, að áfrýjandi hafi slitið fyrningu á kröfum sínum um endurgreiðslu jöfnunargjalds með málshöfðun sinni 2. mars 1994 og samfelldri röð síðari dómsmála gegn stefnda, þar sem sakarefnið hafi í raun verið hið sama og nú og markmið áfrýjanda verið stefnda ljós. Kröfur hans um endurgreiðslu gjalda af eigin innflutningi, sem tollafgreiddur var á tímabilinu frá 2. mars 1990 til 26. ágúst 1992, eru því ófyrndar. Umrædd fyrningarslit ná hins vegar ekki til gjalda af innflutningi á vegum þess félags, sem nú ber nafnið Garri ehf., en um greiðslu þeirra var fyrst fjallað í því máli, er áfrýjandi höfðaði 15. júlí 1997. Kröfur um endurgreiðslu jöfnunargjalds, er félag þetta greiddi samkvæmt aðflutningsskýrslum á tímanum frá 11. september 1992 fram að 17. júlí 1993, eru þannig fyrndar.

Félagið Garri ehf. var stofnað í ágústmánuði 1992 í tilefni af því, að tollyfirvöld höfðu þá tekið innflutning áfrýjanda til rannsóknar, svo sem um getur í I. kafla atkvæðis annarra dómenda. Var það aðalhluthafi áfrýjanda, sem stóð að þeirri stofnun ásamt syni sínum, en þeir feðgar voru og eru einu hluthafarnir í félaginu og starfa báðir að rekstri þess. Virðast þeir hafa talið heppilegt, að nýr aðili tæki við þeirri starfsemi, sem orðið hafði að rannsóknarefni. Að sögn áfrýjanda fóru þau umskipti fram án leyndar, þannig að tollyfirvöldum og fjármálaráðuneyti var gerð grein fyrir þeim og því endurgjaldi, sem renna myndi til áfrýjanda frá hinu nýja félagi vegna yfirtöku þess á starfseminni. Hefur stefndi og ekki reynt að sýna fram á, að umskiptin hafi verið ætluð til að skjóta áfrýjanda undan eðlilegri ábyrgð á þeim fjárkröfum, er síðar komu til við endurákvörðun gjalda af innflutningi hans.

Fyrir liggur, að áfrýjandi og Garri ehf. hafa kosið að reka kröfur sínar um endurgreiðslu jöfnunargjalds úr ríkissjóði í einu máli í nafni áfrýjanda, þar sem á því er byggt, að kröfur yngra félagsins hafi verið framseldar honum. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á, að þessu fylgi óhagræði fyrir hann, og verður ekki séð, að framsalið skipti hann nokkru til eða frá, að því er mál þetta varðar, þar eð byrði áfrýjanda um að afla viðurkenningar á hinum framseldu kröfum er í engu léttari en sú, sem hvílt hefði á hinu félaginu. Um form á framsalinu verður að líta til þess, að stjórnendur beggja félaganna eru hinir sömu, og eigendur þeirra einnig að heita má. Ennfremur verður að líta til hinna ítarlegu og ítrekuðu samskipta, sem stjórnendur félaganna áttu við tollyfirvöld og fjármálaráðuneyti vegna jöfnunargjaldsins á þeim tíma, er kröfurnar ná til. Framsalið var í raun tilkynnt þessum aðilum með þeirri héraðsdómsstefnu, sem áfrýjandi afhenti fjármálaráðherra 15. júlí 1997. Er erfitt að skilja þá staðhæfingu stefnda, að sú tilkynning hafi komið á óvart. Að öllu þessu virtu verður að fallast á það með áfrýjanda, að framsalið hafi verið lögmætt og feli í sér viðhlítandi grundvöll að dómkröfum hans.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að áfrýjandi eigi rétt til endurgreiðslu jöfnunargjalds af þeim innflutningi hvors félags um sig, sem ófyrndar kröfur hans taka til. Eftir úrslitum málsins eru þó ekki efni til að ákvarða fjárhæð greiðslunnar til hlítar, en um hana verður að fara að álitum og eftir þeim sjónarmiðum, sem lýst er í dómum Hæstaréttar 16. mars 2000 í málum nr. 329/1999 og 359/1999. Um leið verður að taka tillit til þess, að tollverð hinnar innfluttu vöru var ekki réttilega tilgreint í aðflutningsskýrslum áfrýjanda á tímabilinu frá mars 1990 til júlí 1992, þannig að það er einvörðungu varakrafa hans, sem til álita getur komið. Auk þeirrar endurgreiðslu, sem þannig yrði fundin, ber að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 1999.

Mál þetta er höfðað fyrir Héraðs­dómi Reykja­víkur af  Gnípu ehf., kt. 540373-0199, Skútu­vogi 12G, Reykja­vík, gegn ís­lenska ríkinu með stefnu áritaðri um móttöku 29. júní 1998.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

I. Að­al­lega að stefndi verði dæmdur til að endur­greiða stefnanda of­greidd að­flutn­ings­gjöld að fjár­hæð 72.726.074 krónur ás­amt dráttar­vöxtum sam­kvæmt III. kafla vax­ta­l­aga frá 17. maí 1995.

Til vara að stefndi verði dæmdur til að endur­greiða stefnanda of­greidd gjöld að fjár­hæð 63.905.173 krónur ás­amt dráttar­vöxtum sam­kvæmt III. kafla vax­ta­l­aga frá 17. maí 1995.

II. Að viðurkennt verði, að stefnanda sé heimilt að reikna dráttar­vexti á endur­greiðslur frá gjald­daga hverrar að­flutnings­skýrslu, í fyrsta sinn 3. ágúst 1988 til 17. maí 1995.

III. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda máls­kostnað samkvæmt máls­kostnaðar­reikningi.

Dráttarvaxta­krafa innan tíma­bilsins frá 3. ágúst 1988 til 17. maí 1995 er ekki út­færð, þ.e. höfuð­s­tóls­breytingar eru ekki til­greindar innan tíma­bilsins, en slíkar breyt­ingar yrðu vel á þriðja hundrað sam­tals í að­al- og vara­kröfu og næðu því yfir margar blað­síður. Gert er ráð fyrir að stefndi fallist sér­stak­lega á, með hlið­s­jón af hag­ræði, að má­lið verði rekið með þessum hætti og að sam­komu­lag verði um út­reikn­ing dráttar­vaxtakröfu að fengnum dómi um kröfu stefnanda um upp­haf­s­tíma drátt­ar­vaxta á höfuð­s­tól eins og hann er á hverjum tíma. Gerður er fyrir­vari um að breyta vaxtakröfunni á síðari stigum, ef nauðsyn krefur.

Dómkröfur stefnda eru þessar:

Að­al­lega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefn­anda verði gert að greiða stefnda máls­kostnað sam­kvæmt mati dómsins.

Til vara að kröfur stefnanda verði stór­lega lækkaðar og að máls­kostnaður verði í því til­viki látinn niður falla.

Mál þetta var te­kið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 14. október sl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en dómur var kveð­inn upp. 
Með úrskurði uppkveðnum 5. maí sl. var kröfum stefnanda í framhaldssök vísað frá dómi.

 

I

Málsatvik

Stefnandi er inn­flutnings­fyrir­tæki í Reykja­vík og hefur um ára­bil flutt inn til lands­ins frosnar og for­steiktar franskar kar­töflur, upp­haf­lega undir nafninu Garri hf. þar til í ágúst 1992, er nafni fé­lagsins var breytt í Gnípu hf.  Frá september 1992 hefur nýtt fé­lag, einnig að nafni Garri hf.(nú ehf.), staðið að inn­flutningnum og byggir stefnandi á því að hann hafi fengið kröfur þess fé­lags á hendur ríkinu fram­seldar.

Með reglu­gerð nr. 223/1987 var lagt á 40% jöfnunar­gjald af ýmsum flokkum kart­aflna sam­kvæmt heimild í lögum nr. 25/1986 um breytingu á lögum nr. 45/1985 um fram­leiðslu, verð­lagningu og sölu á bú­vörum, svonefndum bú­vöru­lögum.

Hinn 26. febrúar 1988 gaf land­búnaðar­ráð­herra út breytingu á reglu­gerð nr. 223/1987, með reglu­gerð nr. 109/1988, þar sem jöfnunar­gjald af kar­töflum var ýmist hækk­að í 50% eða 100%, nema jöfnunar­gjald á franskar kar­töflur, sem var hækkað í 190%. Síðast­greint gjald á franskar kar­töflur var lækkað í 120% af toll­verði vöru með reglu­­gerð nr. 335/1989 og í 90% með reglu­gerð nr. 468/1993 hinn 22. nóvember 1993.

Á fyrri hluta árs 1992 sætti framan­greindur inn­flutningur stefnanda rannsókn af hálfu toll­yfir­valda.  Ágreiningur var milli stefnanda og toll­yfir­valda um við­skipta­verð hinnar inn­fluttu vöru.  Toll­gæslu­stjóri taldi verðið, sem stefnandi til­greindi á að­flutn­ings­­skýrslum, of lágt, það væri mála­mynda­verð, en ekki raun­veru­legt við­skipta­verð.

Af hálfu ríkis­toll­stjóra voru að­flutnings­gjöld endur­á­kvörðuð 4. mars 1993 af 92 vöru­­sendingum af frönskum kar­töflum, sem stefnandi flutti inn og voru toll­af­greiddar frá 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992. Toll­verð þeirra var hækkað frá því sem til­greint var í að­flutnings­skýrslum stefnanda.  Endur­á­kvörðunin fór þannig fram, að að­flutnings­gjöld voru reiknuð frá grunni á nýtt toll­verð hverrar sendingar og áður greidd að­flutn­ings­­gjöld dregin frá sem inn­borgun á hin endur­á­kvörðuðu gjöld. Heildar­upp­hæð van­g­reiddra að­flutnings­gjalda var 47.357.007 krónur, þar af virðis­auka­skattur 10.052.257 krónur.

Stefnandi kærði endur­á­kvörðunina til ríkis­tolla­nefndar.  Þann 28. maí 1993 kvað ríkis­­toll­a­nefnd upp úr­skurð þar sem endur­á­kvörðun ríkis­toll­stjóra frá 4. mars 1993 var stað­­fest að öðru leyti en því, að kröfur vegna álagðra gjalda á vöru­sendingar fyrir 4. mars 1989 voru taldar fyrndar, en þar var um að ræða sendingar nr. 1-16.  Enn fremur var gerð sú breyting að lagt skyldi til grund­vallar lægra toll­verð á sendingum merktum 76-92 en ríkis­toll­stjóri hafði lagt til grund­vallar.  Engar fjár­hæðir voru til­greindar í nið­­ur­stöðum úr­skurðarins. Í bréfi toll­gæslu­stjóra, dags. 9. júní 1993, til toll­stjórans í Reykja­vík kom fram að að­flutnings­gjöld hefðu verið reiknuð út að nýju í sam­ræmi við nið­ur­stöðu ríkis­tolla­nefndar. Heildar­upp­hæð næmi sam­tals 41.100.948 krónum þar af tollur 3.453.130 krónur, jöfnunar­gjald 27.963.218 krónur og virðis­auka­skattur 9.691.719 krónur.  Fjár­nám var gert hjá stefnanda 8. nóvember 1993 til tryggingar greiðslu á þessum gjöldum.

Stefnandi undi eigi úr­skurði ríkis­tolla­nefndar og krafðist ógildingar hans ásamt end­ur­greiðslu á greiddum að­flutnings­gjöldum með stefnu á hendur stefnda, út­gefinni 2. mars 1994. Héraðs­dómur vísaði má­linu frá með úr­skurði upp­kveðnum 22. febrúar 1995, stað­festum í Hæsta­rétti með dómi upp­kveðnum 7. apríl 1995.  Stefnandi þing­festi nýtt mál 1. júní 1995, þar sem einungis var krafist ógildingar á úr­skurði ríkis­tolla­nefndar án endurgreiðslukrafna, en því máli lauk einnig með frá­vísunar­úr­skurði Hér­aðs­­dóms Reykja­víkur 20. mars 1996, sem eigi sætti kæru til Hæsta­réttar. Hinni þriðju mál­­sókn stefnanda, vegna, hinnar um­deildu álagningar og úr­skurðar ríkis­tolla­nefndar, sbr. stefna birt 11. apríl 1996, lauk með dómi Héraðs­dóms Reykjavíkur, upp­kveðnum 11. júní 1997, þar sem álagning hins um­deilda jöfnunar­gjalds var lýst ólög­mæt og úr­skurður ríkis­tolla­nefndar, dags. 28. maí 1993, felldur úr gildi.

Eftir framan­greinda rannsókn á inn­flutningi stefnanda á tíma­bilinu ágúst 1988 til júní 1992, var stefnanda meinað í lok júní 1992 að fá frekari toll­af­greiðslu á inn­flutn­ingi á hans vegum, nema sam­kvæmt vöru­reikningum er gæfu til kynna vöru­verð, sem toll­­yfir­völd teldu "eðli­legt" við­skipta­verð.  Með hlið­s­jón af þessu, og til þess að stöðva ekki inn­flutning fyrir­tækisins, flutti stefnandi frá og með 8. júlí 1992 inn frosnar franskar kar­töflur sam­kvæmt toll­skýrslum með fyrir­vara um greiðslu­skyldu, þar sem sölu­verð var til­greint innan verð­marka toll­yfir­valda, allt fram að úr­skurði Toll­­stjórans í Reykja­vík hinn 8. júní 1993, að fallist var á að leggja sölu­verð sam­kvæmt vöru­reikningi til grund­vallar út­reikningi toll­verðs.

Með málshöfðun 15. júlí 1997 krafðist stefnandi endurgreiðslu greiddra að­flutn­ings­gjalda, en það mál var fellt niður 4. febrúar 1998.  Með stefnu áritaðri um móttöku 29. júní 1998 höfðaði stefnandi mál þetta.

II

Máls­á­st­æður og lagarök stefnanda

Stefnandi krefst endur­greiðslu á 190% jöfnunar­gjaldi sam­kvæmt reglu­gerð nr. 109/1988, 120% jöfnunargjaldi sam­kvæmt reglu­gerð nr. 335/1989 og 90% jöfnunar­gjaldi sam­kvæmt reglu­gerð nr. 468/1993, sem stefnandi greiddi af inn­fluttum frönsk­um kar­töflum frá febrúar 1988 til ársins 1995, þ.m.t. af 92 nánar til­greindum vöru­send­ingum á tíma­bilinu 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992, er sættu sér­stakri rannsókn toll­­yfir­valda.  Í öllum til­vikum byggist fjár­hæð endurkröfunnar á raun­veru­lega greiddu jöfn­unar­gjaldi, gjald auð­kennt "U3", sam­kvæmt tölvu­prentuðum að­flutnings­skýrslum ríkis­­toll­stjóra­embættisins á tíma­bilinu 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992.  Fjár­hæð end­ur­kröf­unnar á tíma­bilinu 8. júlí 1992 til 17. maí 1995 sé sam­kvæmt yfir­liti stefnanda yfir greitt jöfnunar­gjald á tíma­bilinu, sem sé í sam­ræmi við yfir­lit ríkis­toll­stjóra­em­bætt­is­ins yfir greitt jöfnunargjald.

Toll­verð ás­amt tolli og jöfnunar­gjaldi myndaði skatt­verð til álagningar virðis­auka­­skatts og er krafist endur­greiðslu greidds virðis­auka­skatts, sem lagður var ofan á fjár­­hæð, sem nam hinu ólög­mæta jöfnunar­gjaldi eftir að virðis­auka­skattur kom til sög­unn­ar, þ.e. sendingar 44-92 á framan­greindu tíma­bili 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992.  Í fram­lögðum skjölum ( nr. 98 og 99) séu sundur­liðaðar fjár­hæðir annars vegar jöfn­un­ar­­gjalds og hins vegar virðis­auka­skatts vegna um­ræddra sendinga, hið fyrra í aðal­kröfu, en hið síðara í vara­kröfu.

Þess er getið, að stefnu­kröfurnar taki ekki til greidds jöfnunar­gjalds á fyrsta tíma­bil­inu, þ.e. frá 26. febrúar 1988 til 3. ágúst s.á., þar sem gögn um fjár­hæð gjaldanna á þeim tíma lágu ekki fyrir við út­gáfu stefnu þessarar, en gerður er áskilnaður um að auka við kröfurnar að þessu leyti síðar með fram­halds­stefnu, verði ekki sam­komu­lag milli aðila um þá kröfu­aukningu.

Stefnandi byggir á því að álagning 190% og síðar 120% jöfnunar­gjalds sam­kvæmt reglu­gerðum nr. 109/1988 og 335/1989 hafi skort laga­stoð og því verið ólög­mæt og þannig brotið gegn 40. og 77. gr. stjórnar­skrárinnar.  Byggir stefnandi á því að land­­búnaðar­ráð­herra hafi við ákvörðun jöfnunar­gjaldsins brotið gegn ákvæði e-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985 með því að fara út fyrir þær heimildir og tak­markanir, sem þar séu settar.  Byggir stefnandi á því að ólög­mæti jöfnunargjaldsins sam­kvæmt til­­vitnuðum reglu­gerðum hafi verið stað­fest í fyrsta lagi með dómi Hæsta­réttar frá 19. desember 1996 í máli nr. 427/1995:  Þrota­bú S. Ós­kars­sonar & co. hf. gegn ís­lenska ríkinu og í öðru lagi, að því er varðar mál stefnanda beinlínis, með dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur upp­kveðnum 11. júní 1997 í máli nr. E-1921/1996: Gnípa hf. gegn ís­lenska ríkinu.

Endur­kröfu sína á hendur stefnda byggir stefnandi á al­mennum reglum kröfu­réttar um endur­greiðslu of­greidds fjár (condictio indebiti). Það sé al­menn regla ís­lensks réttar að stefnda beri að endur­greiða gjald­endum ólög­mæt gjöld, sem inn­heimt hafi verið.

Fyrir liggi sam­kvæmt síðast­nefndum dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur, sem fyrir sitt leyti styðjist við for­dæmi Hæsta­réttar í fylli­lega sam­bæri­legu máli, sbr. til­vitnaður hæsta­­réttardómur í máli nr. 427/1995, að hið álagða jöfnunar­gjald sé ólög­mætt.  Beri því sam­kvæmt til­vitnaðri megin­reglu ís­lensks réttar að dæma stefnda til að greiða stefn­anda hina um­stefndu fjár­hæð.

Sundur­liðun kröfugerðar stefnanda:

Hin um­stefnda fjár­hæð greinist í þrjú að­skilin tíma­bil:

1.         26. febrúar 1988 til 3. ágúst 1988, þ.e. álagning frá setningu reglu­gerðar nr. 109/1988 til upp­hafs þess tíma­bils, er inn­flutningur stefnanda sætti end­ur­á­kvörðun toll­yfir­valda.

2.         3. ágúst 1988 til 16. júní 1992, þ.e. álögð gjöld á því tíma­bili, er inn­flutn­ingur stefnanda sætti endur­á­kvörðun toll­yfir­valda, 92 vöru­sendingar, en engin álagning sé nú fyrir hendi fyrir það tíma­bil.  Endur­krafan á þessu tíma­bili grein­ist í annars vegar ólög­mætt jöfnunar­gjald og hins vegar reiknaðan og of­greidd­an virðis­auka­skatt af hinu ólög­mæta jöfnunar­gjaldi.

3.         8. júlí 1992 til 17. maí 1995, álagning á vöru­sendingar toll­af­greiddar eftir endur­á­kvörðun.

Milli þessara þriggja tíma­bila sundur­liðast stefnu­kröfur þannig:

Að­al­krafa:

1. 26. febrúar 1988 til 3. ágúst 1988:

(Gögn ekki fyrir­­liggjandi, áskilnaður um að auka við kröfur með fram­halds­stefnu)           

 

2. 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992:

Kr.

a. Jöfnunar­gjald greitt við inn­flutning af Garra hf. (eldra), nú Gnípu hf., sendingar 1-92, sbr. dskj. 97         

36.571.837

b. Virðis­auka­skattur af a lið, sendingar 44-92, sbr. sundur­liðun á dskj. 98                                               

5.744.580

 

3. 8. júlí 1992 til 17. maí 1995:

Kr.

a. Jöfnunar­gjöld greidd af Garra hf. (eldra), 8.7.'92-26.8,'92, sbr. dskj. 103                                          

3.907.864

­b. Jöfnunar­gjöld greidd af Garra hf. (nýja)

11.9.'92-17.5.'95, sbr. dskj. 103                                        

26.501.793

Samtals

kr.    72.726.074­

 

Vara­krafa:

1.26. febrúar 1988 til 3. ágúst 1988:

(Gögn ekki fyrir­­liggjandi, áskilnaður um að auka við kröfur  með fram­halds­stefnu)                                                     

 

2. 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992:

Kr.

a. Jöfnunar­gjald greitt við inn­flutning af Garra hf. (eldra), nú Gnípu hf., sendingar 1-92, sbr: dskj. 100-102                                                                         

32.418.923

b. Virðis­auka­skattur af a lið, sendingar 44-92,

sbr. sundur­liðun á dskj. 99                                             

1.076.593

 

 

3. 8. júlí 1992 til 17. maí 1995:

Kr.

a.  Jöfnunar­gjöld greidd af Garra hf. (eldra),

8.7.'92-26.8,'92 , sbr. dskj. 103                                      

3.907.864

b. Jöfnunar­gjöld greidd af Garra hf. (nýja)

11.9:'92-17.5.'95,  sbr. dskj. 103                                     

26.501.793

­Samtals kr.               

63.905.173­

 

Aðalkrafa miðast við að viðskiptaverð hinnar innfluttu vöru á tímabili 2 sé það verð, sem fram kemur á framlögðum aðflutningsskýrslum stefnanda, sbr. dskj. 5-96.

 Eftir að úrskurður ríkistollanefndar var ógiltur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 1997, sé ekki fyrir hendi nein álagning vegna tímabilsins 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992.  Einu gagnanna, sem njóti við í málinu og hönd sé á festandi um verð hinna innfluttu frönsku kartaflna, séu aðflutningsskýrslur stefnanda.  Beri því að miða við það verð, svo sem gert sé í aðalkröfu.  Þá sé það ekki á valdi dómstólsins að ákveða annað verð; né heldur að ákveða annað hlutfall jöfnunargjalds í stað þeirra ákvörðunar, sem var ógilt.  Beri því að taka aðalkröfu stefnanda til greina.

 Varakrafan miðist við viðskiptaverð það, sem tollayfirvöld ákvörðuðu fyrir hinar innfluttu vörur.  Útreikningur miðað við það verð, en án jöfnunargjalds, komi fram á dskj. 100 og dskj. 101, sem varði sérstaklega sendingu nr. 76, sem vantar í dskj. 100, þar sem beitt sé sömu aðferð við útreikning og á útreikningsblöðum ríkistollstjóraembættisins á dskj. 5-96. Samtala útreikningsblaða á dskj. 100 og 101 sé tekin saman á dskj. 102, dálki lengst til vinstri, eða kr. 33.514.293.  Inni í þeirri fjárhæð sé virðisaukaskattur af jöfnunargjaldi vegna sendinga 44-92, samtals að fjárhæð kr. 1.076.593, en sundurliðun jöfnunargjalds og virðisaukaskatts í varakröfu vegna þessara sendinga komi fram á dskj. 99.

 Ekki eigi að vera tölulegur ágreiningur um fjárhæð greidds jöfnunargjalds, hvorki á tímabili 2 né 3.  Að því er varðar tímabil 2, styðjist endurgreiðslukrafan við greitt jöfnunargjald samkvæmt framlögðum aðflutningsskýrslum á dskj. 5-96.  Þær fjárhæðir séu raktar í dskj. 97 og séu þær sömu og fram komi í yfirliti stefnanda á dskj. 98 yfir ofgreitt jöfnunargjald og virðisaukaskatt af því vegna sendinga nr. 44-92, en frá og með 44. sendingu lagðist virðisaukaskattur á í tolli.  Þá mun yfirlit stefnanda yfir fjárhæð greidds jöfnunargjalds á tímabili 3, sbr. dskj. 103, vera í samræmi við móttekið jöfnunargjald tollstjóra, en yfirlitið hafi verið fært til samræmis við athugasemdir, sem stefndi hafi gert á fyrri stigum máls þessa.

 Ekki sé í stefnu þessari gerð sérstök krafa um endurgreiðslu virðisaukaskatts af ólögmætu jöfnunargjaldi á tímabili 3, né krafa um endurgreiðslu þess aukna jöfnunargjalds sem leiddi af mismun á vöruverði samkvæmt vörureikningum, sem stefnandi óskaði að byggja á, og því hækkaða vöruverði, sem tollstjóri gerði að skilyrði, að lagt yrði til grundvallar útreikningi tollverðs fram að úrskurði sínum 8. júní 1993, er hann féllst á að leggja söluverð samkvæmt vörureikningi til grundvallar útreikningi tollverðs.  Gerður er sérstakur áskilnaður um að krefja um þann oftekna virðisaukaskatt og jöfnunargjald í sérstöku dómsmáli.

 Stefnandi máls þessa sé Gnípa hf., sem fram til 26. ágúst 1992 hét Garri hf. og fór vöruinnflutningur á tímabilum 1, 2 og 3a fram í nafni Garra hf. (eldra). Nýtt félag stóð að vöruinnflutningi frá 11. september 1992, tímabil 3b, og heitir það einnig Garri hf. (nýi). Endurgreiðslukrafa hins nýja félags, Garra hf., hafi verið framseld Gnípu hf. og sé mál þetta því höfðað af Gnípu hf. einni.

Það jöfnunargjald, sem við endurákvörðun ríkistollstjóra bættist við áður greidd jöfnunargjöld á tímabili 2, hafi ekki verið greidd af stefnanda, heldur hafi hann mótmælt  endurákvörðuninni og fékk því tollstjóri gert fjárnám hjá stefnanda til tryggingar greiðslu hinna endurákvörðuðu gjalda.  Hinn 9. september 1997 var umrætt fjárnám fellt niður, en stefnandi hafði beðist endurupptöku þess í ljósi áðurefnds dóms um ólögmæti jöfnunargjaldsins.

 Aðfararhæfs dóms sé krafist fyrir dráttarvöxtum á höfuðstól frá 17. maí 1995, en viðurkenningar á að heimild til að reikna dráttarvexti á stighækkandi höfuðstól eins og hann sé á hverjum tíma frá gjalddaga hverrar aðflutningsskýrslu, í fyrsta sinn 3. ágúst 1988, til 17. maí 1995.  Hér sé um að ræða ýtrustu vaxtakröfu stefnanda, þar sem ljóst sé að frá dagsetningu hverrar aðflutningsskýrslu hafi stefndi haldið fyrir stefnanda sem nemur fjárhæð hins ólögmæta gjalds. Ljóst sé að stefnda beri að gjalda stefnanda vexti af því fé. Þessi upphafstími vaxta sé alveg óháður upphafstíma fyrningar endurgreiðslukröfunnar.

Stefnandi vekur nú þegar á því athygli að endurgreiðslukrafa hans sé eigi fyrnd.  Fleira en eitt tímamark kunni að koma til greina sem upphafstími fyrningarfrests, en krafa stefnanda sé í öllum tilvikum ófyrnd.  Stefnandi leggur á það ríka áherslu að það sé andstætt meginreglum laga að marka fyrningu endurgreiðslukröfu hans upphafstíma þannig að endurkrafan verði með því móti ógjörleg eða illmöguleg.

 Stefnandi telur eðlilegast upphaf fyrningarfrests vera við uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæti hins álagða jöfnunargjalds á vöruinnflutning stefnanda, eða 11. júní 1997.  Fyrr en þá hafði stefnandi hvorki tilefni né lögvarðan rétt til að krefja um endurgreiðslu og fyrst þá hafi verið eytt réttaróvissu um lögmæti gjaldsins og þar með rétt stefnanda til endurgreiðslu.

Til vara mætti horfa til uppkvaðningar dóms í hæstaréttarmálinu nr. 427/1995, Þrotabú S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, er bindandi dómur gekk um ólögmæti gjaldsins og tilefni vaknaði hugsanlega fyrir því að krefja um endurgreiðslu þess.

 Jafnvel þótt upphaf fyrningarfrests sé miðað við endurákvörðun hinna elstu gjalda með úrskurði níkistollanefndar hinn 28. maí 1993, þar sem greiðslum stefnanda á jöfnunargjaldi var ráðstafað sem innborgun á endurákvörðuð gjöld, sé endurgreiðslukrafan samt sem áður ófyrnd, þar sem fyrning hafi verið rofin með höfðun máls hinn 2. mars 1994, og málsókninni haldið áfram óslitið alla tíð síðan fram að efnisdómi 11. júní 1997 og mál höfðað þegar í kjölfar efnisdóms og á ný innan 6 mánaða frá niðurfellingu upphaflegrar málshöfðunar til endurgreiðslu hinna ofgreiddu jöfnunargjalda.

 

Til­vísun til helstu lagaákvæða og réttarreglna:

Stefnandi vísar til ákvæðis e-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985 og túlkunar dóm­s­tóla á þeim heim­ildum og takmörkunum, sem ráð­herra eru þar settar, og til reglu­gerða nr. 109/1988, 335/1989 og 468/1993, sem skortir laga­stoð sam­kvæmt áður til­vitn­uðum dómi Hæsta­réttar og Héraðs­dóms Reykjavíkur.

Þá styðst stefnandi við ósk­ráða megin­reglu ís­lensks kröfu­réttar um endur­greiðslu of­­greidds fjár.

Um dráttar­vexti vísast til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.

Til stuðnings máls­kostnaðar­kröfu sinni vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, einkum 130. gr. laganna.

Sér­stakur áskilnaður og fyrirvarar:

Áskilnaður er gerður um framhaldsstefnu sér­stak­lega fyrir endur­kröfu á greiddu jöfn­unar­gjaldi á tíma­bilinu 26. febrúar 1988 til 3. ágúst s.á.  Þá er gerður sér­stakur áskiln­aður um að krefja síðar í sér­stöku dóms­máli um virðis­auka­skatt af ólög­mætu jöfn­unar­gjaldi á tíma­bili 3, þ.e. 8. júlí 1992 til 17. maí 1995, sem og endur­greiðslu þess aukna jöfnunar­gjalds sem leiddi af mis­mun á vöru­verði samkvæmt vöru­reikn­ing­um, sem stefnandi óskaði að byggja á, og því hækkaða vöru­verði, sem toll­stjóri gerði að skil­yrði að lagt yrði til grund­vallar út­reikningi toll­verðs fram að úr­skurði sínum 8. júní 1993.

 

III

Máls­á­st­æður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að þótt talið verði að álagning hins umdeilda jöfn­un­argjalds hafi verið ólögmæt, sé ekki fyrir hendi réttur til endurgreiðslu.  Ljóst sé að vara sú sem sætti álagningu jöfnunargjalds hafi verið flutt inn og leyst út úr tolli eftir því hvenær stefnandi og Garri ehf. töldu það hyggilegt.  Hafi jöfnunargjaldið verið lagt á vöruna sjálfa.  Augljóst sé að þegar svo margar sendingar hafi verið fluttar inn og í svo miklu magni og á löngum tíma hljóti eftirspurnin að hafa verið mikil.  Að stærstum hluta hafi stefnandi samið um annað og mun lægra tollverð en nam hinu raun­verulega viðskiptaverði vörunnar.  Í öllum tilvikum hafi stefnandi og Garri hf. getað selt vöruna án þess að álagning jöfnunargjalds hefði nokkur áhrif á arð af þeim við­skiptum nema ef vera skyldi til hækkunar.  Hvort sem stefnandi eða Garri hf. hafi selt vöruna í heildsölu eða smásölu hafi álagningu verið bætt ofan á verð vörunnar sem þegar innihélt jöfnunargjaldið.  Þannig séu löglíkur fyrir því að stefnandi og Garri hf. hafi velt jöfnunargjaldinu yfir í verðlagið og látið viðskiptamenn sína greiða það að fullu og þar með fengið gjaldið endurheimt úr þeirra hendi.  Stefnandi og Garri hf. hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna álagningarinnar og hafi ekki verið sýnt fram á að álagn­ingin hafi haft áhrif á samkeppnisstöðu félaganna gagnvart íslenskri framleiðslu. Þegar þetta sé virt telur stefndi að ekki sé fyrir hendi réttmæt krafa til endurgreiðslu greidds jöfnunargjalds, enda auðgist stefnandi og Garri hf. með ósanngjörnum hætti á kostnað stefnda og þar með skattborgara ef á endurkröfuna verði fallist að hluta til eða í heild. Er einnig á því byggt í þessu sambandi að í raun sé um aðildarskort að ræða þar sem viðskiptamenn stefnanda og Garra ehf. hafi í raun staðið skil á jöfn­un­ar­gjald­inu. Telur stefndi framangreindar málsástæður í heild leiða til sýknu af kröfum stefn­anda.  Engin rök væru til að heimila endurgreiðslu nema að því marki sem samsvara myndi tjóni stefnda af álagningu gjaldsins.  Engin slík sönnun hafi hins vegar komið fram.  Enn fremur telur stefndi að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af end­ur­greiðslu, enda sýnist félagið löngu hætt starfsemi.

Í málinu sé skorað á stefnanda að leggja fram alla sölureikninga úr bókhaldi eða önnur gögn sem sýni hvernig verðmyndun á vörunni var háttað til viðskiptamanna stefn­anda og Garra ehf. og hvort jöfnunargjaldið hafi verið inni í vöruverði til þeirra við­skiptamanna.  Tekur áskorunin til þeirra gagna sem varða innflutning og sölu þeirra vara sem jöfnunargjald var greitt af og endurkrafið sé um í máli þessu.  Er byggt á bókhaldslögum í þessu sambandi og um skyldu stefnanda til varðveislu á bók­haldi, sbr. einnig 67. - 68. gr. laga nr. 91/1991.

Þegar enn fremur sé virt að um var að ræða torskýrða lagareglu sem sætti túlkun í dómi Hæstaréttar þann 19. desember 1996, að gjöld voru innt af hendi án fyrirvara um end­urheimtu og að stefnandi hefur sýnt tómlæti um innheimtu ofgreiddra gjalda, telur stefndi að sýkna beri af öllum kröfum í málinu.

Stefndi byggir á því að kröfur um endurgreiðslu ofgreidds fjár, þ.á m. skatta og að­flutningsgjalda lúti fjögurra ára fyrningartíma.  Vísast um það til 5. töluliðs 3. gr., sbr. 1. gr., 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og ann­arra kröfuréttinda.  Telur stefndi þann fyrningartíma eiga við um allar kröfur í mál­inu.  Upphafstími fyrningar á endurgreiðslukröfunum hafi verið greiðsludagur þeirra og marki hann þannig upphaf fyrningartíma.  Hafi verið unnt að krefjast end­ur­greiðslu, eftir atvikum með málsókn, strax og greiðslurnar höfðu verið inntar af hendi.  Jöfn­unargjaldið hafi verið greitt athugasemdalaust og án fyrirvara og bersýnilega í þeirri trú að stefnandi væri skuldbundinn til þess.  Til frekari áréttingar er á því byggt að ákvæði 5. töluliðar 3. gr. fyrningarlaga hafi ætíð verið talið eiga við um endur­kröfur vegna skatta og tolla, uns sérákvæði var lögfest um þær tegundir krafna, sbr. 4. gr. laga nr. 29/1995.  Ekkert sé komið fram um annað en að jöfnunargjald það sem kraf­ist sé endurgreiðslu á hafi stefnandi eða Garri ehf. greitt í þeirri trú að svo væri skylt.  Verði ekki á það fallist að nefnt ákvæði eigi við er einnig vísað til 1. töluliðs 3. gr. sömu laga.

Mál þetta höfðaði stefnandi þann 29. júní 1998.  Áður hafði stefnandi höfðað mál til endurgreiðslu jöfnunargjalds, en fjárhæðir í því máli hafi ekki verið sundurgreindar og lítt unnt að taka afstöðu til þeirra, enda hafi þeim engin gögn fylgt. Þar sem kröfur stefn­anda voru svo óljósar að örðugt var að taka afstöðu til þeirra verði að miða við höfðun þessa máls þann 29. júní 1998 þannig að kröfur um endurheimtu vegna allra greiðslna fyrir 29. júní 1994 séu fallnar niður fyrir fyrningu.

Verði miðað við að fyrning hafi verið rofin með máli því sem höfðað var þann 15. júlí 1997 í ljósi niðurlagsákvæða 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda teljist umrædd gjöld sem innt voru af hendi fyrir 15. júlí 1993 fallin niður vegna fyrningar, þar með talin þau jöfnunargjöld sem greidd voru á tímabilinu frá 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992.  Sama sé að segja um þær greiðsl­ur að fjárhæð 3.907.864 kr. sem stefnandi kveður Garra eldri (síðar stefnanda) hafa greitt á tímabilinu frá 8. júlí til 26. ágúst 1992.  Séu þær kröfur fallnar niður fyrir fyrn­ingu og vísast til 5. töluliðs 3. gr. fyrningarlaga, enda greidd fyrir 15. júlí 1993.

Stefnandi hefur krafist greiðslu á virðisaukaskatti að fjárhæð 5.744.580 kr. miðað við aðalkröfu, en 1.076.539 kr. miðað við varakröfu.  Hér virðist vera átt við þann virð­isaukaskatt sem greiddur var á grundvelli 34. gr. laga nr. 50/1988 um virð­is­auka­skatt.  Stefndi mótmælir því sem röngu að virðisaukaskattur þessi hafi verið ólög­mæt­ur.  Hafi skatturinn átt sér stað í lögum nr. 50/1988.  Engin efni eru til að hreyfa við virð­isaukaskattskilum stefnanda í þessu máli, en virðisaukaskatti um þetta hafi ekki verið skotið til yfirskattanefndar. Í raun hafi stefnandi fyrir löngu fengið þennan virð­is­aukaskatt endurgreiddan, ekki aðeins frá viðskiptamönnum sínum heldur einnig frá stefnda, enda verður að telja löglíkur fyrir því að hann hafi verið notaður og færður til inn­skatts í viðskiptum stefnanda með hina seldu vöru, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, svo sem framlögð skjöl af hálfu stefnda benda til.  Stefnandi hafi því enga hags­muni af endurgreiðslu þessa virðisaukaskatts, enda sé virðisaukaskattkerfið byggt á hlutleysi skattsins gagnvart sölustigum og komi í veg fyrir fjárbindingu innflytjenda vara.  Skorað sé á stefnanda að leggja fram allar innskattsskýrslur vegna þessa og hvort og að hve miklu leyti stefnandi hafi notað þennan greidda virðisaukaskatt til inn­skatts. Verði ekki á ofangreint fallist er þess krafist að sýknað verði af þessum lið kröfu stefnanda enda réttur til endurheimtu löngu fallinn niður fyrir fyrningu, skv. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Stefnandi hefur ekki krafið stefnda um greiðslu þessa skatts fyrr með rökstuddum hætti.  Varðandi þennan kröfulið er einnig vísað til annarra máls­ástæðna stefnda gegn kröfum stefnanda til endurgreiðslu jöfnunargjalds.

Stefnandi rökstyðji ekki að álagning 90% jöfnunargjalds á vörur í tollflokki nr. 2004.1000 hafi verið ólögmæt eða ómálefnaleg þannig að í bága færi við fyrrgreint ákvæði laga nr. 46/1985.  Ber því sérstaklega að sýkna af þeim lið krafna stefnanda enda enginn ágreiningur um álagningu samkvæmt reglugerð nr. 468/1993, sem gildi tók þann 22. nóvember 1993.  Séu málsástæður og lagarök stefnanda skýrt afmörkuð við gjöld sem greidd hafi verið samkvæmt reglugerðum nr. 109/1988 og 335/1989 en að litlu leyti sé rökstutt af hvaða ástæðum reglugerð nr. 468/1993 hafi ekki staðist lög. Hafi gjaldið verið ákveðið 90% með reglugerð nr. 468/1993 með hliðsjón af Hinu al­menna samkomulagi um tolla og viðskipti (GATT), sem samið hafði verið um af Íslands hálfu, þótt samkomulag það væri ekki orðið skuldbindandi fyrir Ísland á þeim tíma, en jöfnunargjald af tollflokki 2004.1000 var þar ákveðið 90%.  Með því að miða gjaldið við 90% á þeim forsendum hafi í raun verið miðað við heimsmarkaðsverð- og viðskipti og ekki unnt að komast nær þeim sjónarmiðum sem Hæstiréttur taldi að leggja hefði átt til grundvallar álagningu jöfnunargjalds samkvæmt heimild í bú­vöru­lög­um í dómi sínum frá 19. desember 1996. 

Byggt er á því að Garri ehf. (kt. 670892-2129), sem stefnandi nefnir Garra nýja, sé ekki aðili að máli þessu og engin skilyrði til að taka til greina kröfur vegna inn­flutn­ings­gjalda þess félags vegna aðildarskorts þar sem ekkert framsal liggi fyrir. Verði á það fallist að endurheimturétti þess félags verði ráðið til lykta í þessu máli virðist vera um að ræða kröfur um endurgreiðslu jöfnunargjalds frá 11. september 1992 til 17. maí 1995 svo sem rakið sé í stefnu, samtals að fjárhæð 26.487.017 kr., en kröfur inntar af hendi eftir 15. júlí 1993 og síðar virðast samtals hafa numið 17.548.161 kr.  Kröfur um endurheimtu fjár sem inntar voru af hendi fyrir þann tíma séu fallnar niður fyrir fyrn­ingu.

Greiðslur jöfnunargjalds eftir þann tíma og sem áttu sér stað frá 9. desember 1993 voru á grundvelli reglugerðar nr. 468/1993 sem ekki sé ágreiningur um í málinu og ber því að draga þær allar frá endurgreiðslukröfu stefnanda til lækkunar.  Svo sem reikn­að hafi verið út og stutt sé við athugun ríkistollstjóra nam greitt jöfnunargjald á tíma­bilinu frá 19. júlí til 17. nóvember 1993 og ófyrnt kynni að vera 4.757.025 kr.  Af því leiðir að ekki séu skilyrði til að taka til greina aðrar kröfur stefnanda en sem nema því gjaldi sem innt var af hendi á því tímabili.

Greiddar voru 1.075.110 kr. í jöfnunargjald þann 15. júlí 1993.  Stefndi telur að þar sem upphafstíma fyrningar beri að telja frá greiðsludegi hafi endurheimturéttur vegna þeirrar greiðslu verið fallinn niður fyrir fyrningu þann 15. júlí 1997 er málið var höfðað, enda væri að öðrum kosti bætt heilum degi við fyrningartíma.  Verði ekki á það fallist telur stefndi að ófyrndar kröfur stefnanda geti aðeins numið 4.742.249 kr. að viðbættri greiðslunni frá 15. júlí 1993 eða samtals 5.817.359 kr.  Tekið er fram að kröfur sem stefnandi kveður Garra ehf. hafa greitt og lagðar voru á samkvæmt reglu­gerð nr. 468/1993 (frá 9. desember 1993 til 17. maí 1995) virðast hafa numið 11.094.559 kr.

Stefndi mótmælir því að upphaf fyrningarfrests megi telja vera þann 11. júní 1997 við uppkvaðningu dóms í máli stefnanda gegn stefnda.  Mál það varðar annað sak­arefni en hér sé til úrlausnar.  Varðar dómur sá í engu endurgreiðslukröfur stefn­anda í þessu máli.  Engin rök séu til þess að tilviljun um það hvenær dómur var kveðinn upp í máli sem varðaði ógildingu á úrskurði ríkistollanefndar megi hafa áhrif á það hvern upphafstíma fyrningar sé rétt að leggja til grundvallar í máli þessu. Verði það ráðið af fyrningarlögum svo sem að framan sé haldið fram.  Stefnandi skírskoti einnig til 19. desember 1996 sem upphafstíma fyrningar, en þá var dómur Hæstaréttar kveðinn upp í máli Þrotabús S. Óskarssonar & Co hf.  Sakarefni þess máls eða kröfur áfrýjanda þar séu með öllu óviðkomandi skilum þess jöfnunargjalds sem stefnandi krefst endurgreiðslu á í máli þessu.  Stefnandi hafi ekki bent á neinar ástæður þess að ekki var látið reyna á endurkröfurétt innan tímamarka þeirra sem fyrningarlög ákveða.  Er því mótmælt að stefnandi hafi ekki haft tilefni né lögvarðan rétt til að halda uppi end­urgreiðslukröfu fyrr en raun ber vitni og ráðast verði af fyrningarlögum.  Upp­hafs­tími fyrningar verði ekki ákvarðaður miðað við það hvað eðlilegt megi teljast andstætt skýrum ákvæðum laga.  Út frá réttarreglum um fyrningarfrest hafi verið unnt að láta reyna á endurkröfurétt eftir atvikum með málsókn strax og gjöldin höfðu verið innt af hendi og gat þá reynt á hvort álagningar jöfnunargjalds samkvæmt reglugerðum ættu við lög að styðjast.  Engar ástæður séu komnar fram um af hverju stefnandi eða Garri ehf. héldu slíkum kröfum ekki uppi innan þeirra tímamarka sem fyrningarlög ráðgera og er því mótmælt að á einhverjum stigum hafi verið ógerlegt að halda uppi end­ur­greiðslu­kröfu.  Engin rök séu til að miða upphaf fyrningartíma við úrskurð ríkistolla­nefnd­ar þann 28. maí 1993.  Ekki verði séð að þá hafi innborgunum verið ráðstafað og stand­ist sú fullyrðing stefnanda ekki miðað við greiðsludaga sem málið er annars grund­vallað á.

Stefndi mótmælir því að fyrning hafi verið rofin með höfðun máls hinn 2. mars 1994 og að málsókninni hafi síðan verið haldið áfram óslitið alla tíð síðan.  Ætla megi að stefnandi eigi hér við mál sem höfðað var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr­greindan dag og lauk með frávísunardómi Hæstaréttar þann 7. apríl 1995 í málinu nr. 96/1995.  Í því máli var að einhverju leyti krafist greiðslu fjár, en ófært var að skilja á hvaða grundvelli fjárkröfur í því máli voru reistar svo sem lýst sé í dóminum. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/1905 hafi kröfueigandi rétt til að höfða nýtt mál innan sex mánaða frá því að máli um sömu kröfu var frávísað að liðnum fyrningarfresti, enda hafi hann rofið fyrningarfrest í hinu fyrra máli samkvæmt upphafsákvæði grein­ar­innar.  Stefnandi hafi ekki höfðað nýtt mál til endurgreiðslu ofgreidds jöfnunargjalds inn­an sex mánaða frá 7. apríl 1995.  Sé því rangt sem fram komi í stefnu að málsókn þeirri sem hafin var í mars 1994 hafi verið haldið áfram óslitið. Heimild stefnanda til að rjúfa aftur fyrningu með nýrri málsókn um kröfuna innan sex mánaða frá því að máli var vísað frá hafi því ekki verið nýtt.  Ekki hafi verið höfðað mál til endur­greiðslu á jöfnunargjaldi fyrr en þann 15. júlí 1997.

Stefndi krefst til vara stórfelldrar lækkunar á kröfum stefnanda verði ekki fallist á kröfu um sýknu og vísar til allra framangreindra málsástæðna.  Er í fyrsta lagi á það bent að ekkert framsal liggi til grundvallar kröfum um endurheimtu á gjöldum sem Garri ehf., kt. 670892-2129, hafi innt af hendi og beri að lækka kröfur sem því nemur. Í öðru lagi sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda að 90% jöfnunargjald af vörunni sem ákveðið var með reglugerð nr. 468/1993 hafi verið ólögmætt, enda hafi stefnandi ekk­ert slíkt gjald greitt.  Stefndi telur það gjald hafa verið löglega á lagt sem fyrr segir.  Stefndi mótmælir einnig kröfum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti og kröfu til end­ur­greiðslu að fjárhæð 3.907.864 kr. með vísan til þess sem að framan greinir.

Stefndi byggir einnig á því til stuðnings lækkunarkröfu að einungis sé unnt að fall­ast á þær kröfur sem ekki séu fallnar niður fyrir fyrningu og greiddar voru eftir 15. júlí 1993 verði ekki á aðrar framangreindar málsástæður fallist.  Verði talið að stefn­andi sé réttur aðili málsins og að skilyrði séu til endurgreiðslu þess jöfnunargjalds sem greitt var á grundvelli reglugerðar nr. 468/1993 kæmu einungis til endurgreiðslu þau jöfn­unargjöld sem innt voru af hendi eftir 15. júlí 1993 og fyrr er vikið að.

Verði fallist á málsástæðu stefnanda um fyrningarrof 2. mars 1994, þrátt fyrir ský­laust ákvæði 11. gr. fyrningarlaga, séu ekki skilyrði til að fallast á kröfur nema vegna þess jöfnunargjalds sem varðaði þann hluta hinna 92 sendinga á tímabilinu 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992 sem greitt var eftir 2. mars 1990.

Stefndi mótmælir öllum dráttarvaxtakröfum stefnanda, en í málinu hafi stefnandi gert kröfur til greiðslu dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. maí 1995 af aðal- og varakröfu.  Stefndi telur ekki lagastoð fyrir kröfum um drátt­ar­vexti af endurgreiðslukröfum stefnanda og mótmælir þeim.   Stefnandi hafi greitt jöfn­un­argjöld og dráttarvexti af þeim athugasemdalaust og án fyrir­vara.  Hafi stefndi ekki með skiljanlegum eða rökstuddum hætti verið krafinn um endurgreiðslu á ofgreiddu jöfn­unargjaldi.  Krafa stefnanda styðjist hvorki við umsamdan né lög­ákveð­inn gjald­daga.  Af þessu leiði að hafna beri í öllum tilvikum kröfu stefnanda til dráttarvaxta sam­kvæmt III. kafla þeirra laga.  Stefndi telur allan rétt stefnanda til dráttarvaxta niður fallinn sökum tómlætis Garra hf. og síðar stefnanda um endurheimtu jöfnunargjalds.  Hinn langi tími sem liðinn sé frá því að hin umþrættu jöfnunargjöld voru greidd uns stefndi var krafinn um endurgreiðslu þeirra er ekki vegna athafna stefnda.  Þá sé stefnda ekki um að kenna að endurgreiðslurétti hafi ekki verið haldið uppi innan þeirra tíma­marka sem fyrningarlög ákveða.  Stefndi mótmælir sérstaklega upphafstíma drátt­ar­vaxta og telur aðeins skilyrði til að dæma dráttarvexti frá dómsuppsögu eða í fyrsta lagi frá þingfestingardegi máls þess að telja eða málshöfðun.  Í allra fyrsta lagi beri að reikna dráttarvexti frá 15. júlí 1997.

Komi til þess að stefnda verði gert að endurgreiða stefnda jöfnunargjald telur stefndi einungis unnt að taka til greina dráttarvaxtakröfu af þeim fjárhæðum og miðað við það hvernig Garri hf. eða stefnandi hafi haldið endurheimturétti sínum uppi gagn­vart stefnda varðandi þær fjárhæðir sérstaklega.  Stefndi hafi ekki fyrr en með mál­sókn þessari krafið stefnda um greiðslu á því jöfnunargjaldi sem ófyrnt og ólögmætt kynni að vera og greitt var þann 15. júlí 1993 eða síðar.  Af þeim endurgreiðslum mót­mælir stefndi að réttur stefnda til greiðslu dráttarvaxta sé fyrir hendi nema frá dóms­upp­kvaðningu eða þingfestingardegi, en engin rökstudd krafa hafi verið höfð uppi við stefnda um endurheimtur þeirra gjalda fyrr en með málsókn þessari.

Stefnandi hefur gert viðurkenningarkröfu til greiðslu dráttarvaxta þess efnis að reikna skuli þá frá gjalddaga hverrar aðflutningsskýrslu, í fyrsta sinn frá 3. ágúst 1988 til 17. maí 1995.  Stefndi mótmælir kröfu þessari sem vanreifaðri þannig að frávísun varði sérstaklega, en alls sé óljóst um kröfur stefnanda frá 3. ágúst 1988.  Stefndi ítrek­ar ofangreind mótmæli og málsástæður gegn dráttarvaxtakröfu þessari með sömu rök­um og að framan eru rakin og vísar sérstaklega til tómlætis stefnanda um endur­heimtu ætlaðs ofgreidds jöfnunargjalds og er krafist sýknu af viðurkenningarkröfunni þessa efnis.  Viðurkenningu á upphafstíma dráttarvaxta telur stefndi ekki koma til álita nema frá dómsuppsögu eða þingfestingardegi.  Fellst stefndi ekki á að málið verði rekið með samkomulagi um dráttarvexti hvorki undir rekstri málsins né að fengnum dómi.

Um upphafstíma dráttarvaxta vísar stefndi almennt til meginreglu 4. mgr. 9. gr. vaxta­laga.  Stefndi byggir einnig á því varðandi viðurkenningarkröfu stefnanda um drátt­arvexti, verði hún talin dómhæf, að vaxtakröfur fyrir 15. júlí 1993 séu fyrndar sam­kvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfum öllum svo og málskostnaðarkröfum stefn­anda sérstaklega með tilliti til þess að fjárhæðir þær sem krafið er um séu að litlu leyti í samræmi við það gjald sem greitt hafi verið við innflutning og hafi fremur komið í hlut stefnda að leggja fram gögn og gera grein fyrir greiðsludögum og fjárhæðum til að forða réttarspjöllum ef málið teldist að einhverju leyti tækt til efnisdóms.

Til stuðnings kröfum stefnda varðandi málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Um atriði sem varða kynnu frávísun málsins ex officio telur stefndi rétt að benda á eftirfarandi.  Í málinu er krafist dóms um mjög yfirgripsmikið sakarefni og eigi end­ur­greiðslukrafa stefnanda rætur í fjölmörgum greiðslum á löngu tímabili.  Ætla megi að hin ýmsu tilbrigði við nöfn þeirra hlutafélaga, sem sagt sé að hafi greitt þau gjöld sem stefnandi endurkrefur um í máli þessu breyti því ekki að um hlutafélög sé að ræða og bókhaldsskyld hafi verið að lögum.  Ætla mætti einnig að rökstuðningur fyrir kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár þurfi í ljósi e og g liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91 / 1991, um meðferð einkamála, ekki að vera flóknari en svo að fram komi með skýrum hætti hvenær tiltekin fjárhæð var greidd og að styðja megi slíkar fullyrðingar gögnum úr bókhaldi þeirra félaga sem inntu gjöldin af hendi. Í nokkrum atriðum fái fjárhæðir ekki staðist.  Stefndi bendir á að aðal- og varakröfur stefnanda séu mismunandi um grund­völl þess jöfnunargjalds sem endurkröfuréttur sé byggður á vegna tímabilsins 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992, en tímamark þetta virðist miða við þær 92 sendingar sem teknar hafi verið til endurákvörðunar af hálfu ríkistollstjóra sem síðar var skotið til rík­is­tollanefndar og vikið er að í stefnu.  Að öðru leyti sé ekki munur á aðal- ­og vara­kröfu.  Eins og fram komi í málinu hafi tollskýrslum verið skilað við innflutning þar sem gefið hafi verið upp mun lægra tollverð en sem nam raunverulegu viðskiptaverði, í þeim tilgangi að greiða lægra jöfnunargjald, en mismuninn færði félagið á vörur sem ekki báru jöfnunargjald, í samráði við hollenskt fyrirtæki sem kartöflur voru keyptar af.  Stefnandi kveður aðalkröfu sína miðast við viðskiptaverð hinnar innfluttu vöru á fram­angreindu tímabili sem finna megi á aðflutningsskýrslum stefnanda, en vara­kraf­an miðist við viðskiptaverð það sem tollyfirvöld hafi ákveðið fyrir hinar innfluttu vörur.  Þau tollverð sem gefin voru upp á aðflutningsskýrslum voru umtalsvert lægri en ríkistollstjóri og síðar ríkistollanefnd ákvað.  Stefnandi greiddi ekki þær við­bót­ar­álagn­ingar sem kveðið var á um með úrskurði ríkistollanefndar, en úrskurður sá hefur nú verið ógiltur með dómi.  Endurkröfur stefnanda geta því ekki verið byggðar á öðr­um grundvelli en þeim fjárhæðum sem inntar voru af hendi á þeim tímabilum sem til álita koma í máli þessu og ágreiningur er um.  Samkvæmt framangreindu er mála­til­bún­aður vanreifaður auk þess sem sú rökvilla er gegnumgangandi í málatilbúnaði stefn­anda að aðalkrafa sé hærri en varakrafa af þeirri ástæðu að þar sé miðað við toll­verð sem fram komi á aðflutningsskýrslum.  Vandséð sé hvernig endurkrafa jöfn­un­ar­gjalds sem greitt hafi verið af lægra tollverði geti verið hærri en endurkrafa gjalds sem reikna hefði átt af hærra tollverði eða öfugt.  Sé í raun ófært að skilja rökstuðning vara­kröfu.  Stefndi telur kröfu stefnanda, um að ákveðinn verði dráttarvaxtareikningur á endurgreiðslur frá gjalddaga, ódómhæfa.  Þá sé aðild málsins vanreifuð.  Að þessu virtu telur stefndi málatilbúnað stefnanda svo óljósan og ómarkvissan að vísa beri mál­inu frá ex officio, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.

 

IV

Niðurstaða

Þær innfluttu vörur sem kröfur stefnanda eru sprottnar af voru háðar greiðslu jöfn­unargjalds af tollverði samkvæmt reglugerðum land­búnaðarráðherra og var gjaldið inn­heimt við innflutning.  Svo sem fram er komið var gjaldið ákveðið á grundvelli reglu­gerðar nr. 223/1987, en með reglugerð nr. 109/1988 hækkaði jöfnunargjaldið af hinum innfluttu vörum úr 40% í 190%.  Með reglugerð nr. 335/1989 var sérstakt jöfn­un­argjald á kartöflur og vörur unnar úr þeim miðað við tollflokkinn 2004.1000 lækkað úr 190% í 120% og tók breytingin gildi 10. júlí 1989.  Með reglugerð nr. 468/1993 var gjaldið lækkað í 90% og tók sú breyting gildi við birtingu þeirrar reglugerðar þann 22. nóvember 1993.  Jöfnunargjaldið var þannig ákveðið með reglugerðum samkvæmt heimild í 2. tölulið e-liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verð­lagningu og sölu á búvörum, sbr. l. gr. laga nr. 25/1986 og síðar lögum nr. 99/1993 um sama efni. 

Með dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996 í máli nr. 427/1995 var 190% og 120% jöfnunargjald af þeirri vöru sem hér um ræðir dæmt ólögmætt og byggir stefn­andi á því fordæmi í máli þessu.

Krafa stefnanda byggir á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu þess jöfn­un­ar­gjalds sem  stefnandi og Garrri hf. greiddu af innfluttum frönskum kartöflum á tíma­bil­inu 3. ágúst 1988 til 17. maí 1995.  Þá er að hluta til krafist endurgreiðslu á virð­is­auka­skatti.

Mál þetta er höfðað 29. júní 1998.  Byggir stefndi á því að allar kröfur stefnanda um endurheimtu gjalda fyrir 29. júní 1994 séu fallnar niður fyrir fyrningu, en til vara allar kröfur fyrir 15. júlí 1993, ef miðað yrði við rof fyrningar með málshöfðun 15. júlí 1997.  Verður fyrst að fyrningunni vikið.

Óumdeilt er, að fjögurra ára fyrningarfrestur skv. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 gildi um þær endurgreiðslukröfur sem mál þetta snýst um.  Sömuleiðis er ágrein­ings­laust að upphaf fyrningarfrest skuli miða við greiðsludag gjaldanna hverju sinni. 

Stefnandi höfðaði mál til ógildingar á úr­skurði ríkis­tolla­nefndar frá 28. maí 1993 og til endur­greiðslu á greiddum að­flutnings­gjöldum með stefnu á hendur stefnda, út­gefinni 2. mars 1994.  Héraðs­dómur vísaði má­linu frá með úr­skurði upp­kveðnum 22. febrúar 1995, stað­festum í Hæsta­rétti með dómi upp­kveðnum 7. apríl 1995.  Stefnandi þing­­festi nýtt mál 1. júní 1995, þar sem einungis var krafist ógildingar á úr­skurði ríkis­tolla­­nefndar án endurgreiðslukrafna, en því máli lauk einnig með frá­vísunar­úr­skurði Hér­aðs­dóms Reykja­víkur 20. mars 1996, sem eigi sætti kæru til Hæsta­réttar.  Hin þriðja mál­sókn stefnanda vegna hinnar um­deildu álagningar og úr­skurðar ríkis­tolla­nefndar var höfuð með stefnu birtri 11. apríl 1996, og lauk með dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur, upp­kveðnum 11. júní 1997, þar sem álagning hins um­deilda jöfnunar­gjalds var lýst ólög­mæt og úr­skurður ríkis­tolla­nefndar dags. 28. maí 1993 var felldur úr gildi. Með málshöfðun 15. júlí 1997 krafðist stefnandi endurgreiðslu greiddra að­flutn­ingsgjalda, en það mál var fellt niður 4. febrúar 1998.  Með stefnu áritaðri um mót­töku 29. júní 1998 höfðaði stefnandi svo mál þetta.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/1905 hefur kröfueigandi rétt til, þótt fyrn­ing­ar­frestur sé liðinn, að höfða nýtt mál gegn sama aðila innan 6 mánaða frá því að málinu var frávísað.  Þótt stefnandi hafi ekki haft uppi fjárkröfur á hendur stefnda í málum þeim sem hann höfðaði á hendur honum í júní 1995 og apríl 1996 þá var í raun um sama sakarefni að ræða, þar sem krafa hans um endurgreiðslu valt á því hver nið­ur­stað­an yrði um álagningu jöfnunargjaldsins. Ber því að miða upphafstíma fyrn­ing­ar­frests í máli þessu við málshöfðun stefnanda hinn 2. mars 1994.  Samkvæmt því eru kröfur stefnanda allt til 2. mars 1990 fallnar niður fyrir fyrningu.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda til endurgreiðslu á jöfnunargjöldum sem innt voru af hendi af Garra hf., síðar ehf., á tímabilinu 11. september 1992 til 17. maí 1995 að fjárhæð 26.501.793 kr.  Er sú krafa m.a. byggð á aðildarskorti, þar sem ósann­að sé að sú krafa hafi verið framseld stefnanda.  Fyrir liggur í málinu yfirlýsing dags. 31. maí 1999 um það að Garri ehf. hafi framselt Gnípu ehf. á árinu 1995 kröfu sína á hendur íslenska ríkinu til endurgreiðslu ólögmæts jöfnunargjalds, sem lagt var á frosnar og forsteiktar kartöflur, sem Garri ehf. flutti til landsins á greindu tímabili.  Yfir­lýsingu þessari hefur verið andmælt af hálfu stefnda og ekki liggur fyrir með hvaða hætti framsal þetta átti sér stað eða hvort um það var fjallað af hálfu greindra hluta­félaga í samræmi við lög og samþykktir þeirra. Er því ekki unnt, gegn andmælum stefnda, að leggja yfirlýsingu þessa til grundvallar því að slíkt framsal hafi átt sér stað.  Er því fallist á sýknukröfu stefnda að þessu leyti vegna aðildarskorts. 

Stefnandi byggir á því að álagning 190% og síðar 120% jöfnunar­gjalds sam­kvæmt reglu­gerðum nr. 109/1988 og 335/1989 hafi skort laga­stoð og því verið ólög­mæt og þannig brotið gegn 40. og 77. gr. stjórnar­skrárinnar.  Byggir stefnandi á því að land­búnaðar­ráð­herra hafi við ákvörðun jöfnunar­gjaldsins brotið gegn ákvæði e-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985 með því að fara út fyrir þær heimildir og tak­markanir, sem þar séu settar.  Þá krefst stefnandi einnig endurgreiðslu á 90% jöfnunargjaldi sem lagt var á samkvæmt reglugerð nr. 468/1993.

Með dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996 í máli nr. 427/1995 var 190% og 120% jöfnunargjald af þeirri vöru sem hér um ræðir dæmt ólögmætt og var sú nið­ur­staða áréttuð í dómi Hæstaréttar frá 22. maí 1998 í málinu nr. 389/1997.   Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um endurgreiðslu á 90% jöfnunargjaldi en málatilbúnaður hans og rök um ólögmæti þeirrar álagningar er ekki nægilega skýr. Jöfnunargjald þetta var lagt á með reglugerð nr. 468/1993 og sett með heimild í d-lið 1. mgr. 30. gr. bú­vöru­laga nr. 99/1993.  Ekki verður talið að ála­gning 90% jöfnunargjalds á grundvelli reglu­­gerðar nr. 468/1993 sé ólögmæt af sömu ástæðum og jöfnunargjöld á grundvelli fyrri reglu­gerða nr. 109/1988 og 335/1989, þegar litið er til þess að 90% gjaldið nemur því hámarki, sem við er talið eiga samkvæmt svonefndu GATT-samkomulagi.  Stefn­andi þykir og ekki heldur hafa sýnt fram á að álagning þess gjalds hafi að öðru leyti brotið í bága við lagaheimildir eða málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta skyldi.  Er því ekki fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu vegna þeirrar álagn­ingar.

Af hálfu stefnda er á því byggt að þótt talið verði að álagning hins umdeilda jöfn­un­argjalds hafi verið ólögmæt, sé ekki fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Ljóst sé að vara sú sem sætti álagningu jöfnunargjalds hafi verið flutt inn og leyst úr tolli eftir því hvenær stefnandi taldi það hyggilegt.  Hafi jöfnunargjaldið verið lagt á vöruna sjálfa og álagningu bætt þar ofan á.  Þannig séu löglíkur fyrir því að stefnandi hafi velt jöfn­un­argjaldinu yfir í verðlagið og látið viðskiptamenn sína greiða það að fullu og þar með fengið gjaldið endurheimt úr þeirra hendi.  Stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna álagningarinnar og hafi ekki verið sýnt fram á að álagningin hafi haft áhrif á sam­keppnisstöðu félaganna gagnvart íslenskri framleiðslu.  Sé því ekki fyrir hendi rétt­mæt krafa til endurgreiðslu greidds jöfnunargjalds, enda myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti á kostnað stefnda og þar með skattborgara ef á endurkröfuna yrði fallist að hluta til eða í heild.  Þá séu engin rök til að heimila endurgreiðslu nema að því marki sem  samsvara myndi tjóni stefnda af álagningu gjaldsins.

Í máli þessu er ekki á því byggt af hálfu stefnanda að hann eigi rétt til skaðabóta vegna þess að hann hafi beðið tjón af álagningu jöfnunargjaldsins, heldur er  málið höfðað til endurgreiðslu ofgreiddra opinberra gjalda.  Engu að síður skiptir máli hvernig verðmyndun á vöru þeirri, er hér um ræðir, var háttað til viðskiptamanna stefn­anda og hvort jöfnunargjaldið hafi verið inni í vöruverði til  viðskiptamanna hans.  Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn þar um þrátt fyrir áskoranir af hálfu stefnda og ber að skýra honum það í óhag með vísan til 3. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.  Ber því að líta svo á að líkur séu fyrir því að stefnandi hafi velt jöfnunargjaldinu yfir í verðlagið og fengið það endurheimt úr hendi viðskiptamanna sinna.  Fallist er því á það með stefnda að um ólögmæta auðgun yrði að ræða, ef endurgreiðslukrafa stefnanda yrði tekin til greina.  Sömu sjónarmið geta einnig átt við að því er varðar kröfur stefnanda um endurgreiðslu virðisaukaskatts, auk þess sem óupplýst er að hvaða marki virð­is­auka­skattur þessi var nýttur sem innskattur af stefnanda, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í mál­inu, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Gnípu ehf, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.