Hæstiréttur íslands

Mál nr. 713/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Aðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 4. mars 2011.

Nr. 713/2010.

Húsaviðhald og viðgerðir ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Pharma ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Aðild. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu H ehf. var vísað frá dómi  í máli sem félagið hafði höfðað gegn P hf. Í málinu krafðist H. ehf. þess að kröfum sem P hf. hafði lýst í þrotabú K ehf. yrði hafnað. Fyrirsvarsmaður H ehf., B, var annar eigenda K ehf. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til niðurstöðu í máli nr. 712/2010, sem kveðinn var upp sama dag, staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans þar sem talið var að H ehf. hefði ekki lengur lögvarinn rétt til að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefði gert af þeirri ástæðu að hann væri ekki lengur kröfuhafi í þrotabú K ehf., sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Frekari gögn bárust réttinum eftir það. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2010, þar sem kröfu sóknaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málsmeðferð héraðsdóms ómerkt frá og með þinghaldi þann 17. september 2010, en til vara krefst hann að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 712/2010, sem kveðinn var upp fyrr í dag,  var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila í þessu máli í þrotabú KBK. ehf., en ágreiningur málsaðila hér stendur um kröfu varnaraðila á hendur þrotabúinu. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., greiði varnaraðila, Pharma ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2010.

Þetta mál barst dóminum með bréfi skiptastjóra í þrotabúi KBK ehf. mótteknu 22. júní 2010. Málið var þingfest 17. september og tekið til úrskurðar 11. nóvember 2010.

 Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf. kt. 530203-2550, Lyngrima 22, Reykjavík, krefst þess að hafnað verði þeim kröfuliðum í kröfulýsingu varnaraðila, nr. 15 í kröfuskrá skiptastjóra, sem rekja megi til skuldbindinga sem stofnað hafi verið til í hinu gjaldþrota félagi frá og með 1. september 2009.

 Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

 Varnaraðili, Pharma ehf., kt. 520907-0410, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að krafa varnaraðila að fjárhæð 3.825.922 krónur nr. 15 í kröfuskrá, verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, í þrotabú KBK ehf.

 Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Með bréfi er barst dóminum 3. mars sl., óskaði stjórn KBK ehf. eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fallist var á kröfuna með úrskurði 5. sama mánaðar og skiptastjóri skipaður. Með kröfulýsingu, dagsettri 14. maí, lýsti varnar­aðili almennri kröfu í búið, á þeim grunni að hann hefði veitt hinu gjaldþrota félagi lán með greiðslu rekstrarkostnaðar fyrir hönd félagsins. Með bréfi dagsettu 22. júní vísaði skiptastjóri í þrotabúinu þessu máli til dómsins á grundvelli 171. gr. laga um gjald­þrotaskipti nr. 21/1991. Í bréfi skiptastjóra kemur fram að hann hafi samþykkt kröfu varnaraðila með breytingum en ágreiningur málsaðila varði fjárhæð kröfunnar. Varnaraðili telji sig hafa veitt hinu gjaldþrota félagi rekstrarlán en sóknaraðili telji að aðeins hluti fjármunanna hafi verið lagður til félagsins og því beri að hafna stórum hluta kröfunnar. Sóknaraðili skilgreinir fjárhæðir ekki nánar en varnaraðili telji mótmæli sóknaraðila úr lausu lofti gripin. Ekki hafi tekist að jafna ágreininginn og sé hann því sendur héraðsdómi.

Málavextir

 Hinn 6. september 2007 stofnuðu Bragi Gunnarsson, fyrirsvarsmaður og eigandi sóknaraðila og húsasmíðameistari, og Jón Grétar Ingvason, lyfjafræðingur, félagið KBK ehf. til kaupa á fasteignum á Kirkjubæjarklaustri. Félagið var í eigu þeirra beggja að jöfnu og sátu þeir báðir í þriggja manna stjórn félagsins auk Braga Björnssonar hdl., sem var formaður stjórnar. Félagskjörinn endurskoðandi var Gunnar Þór Ásgeirsson, löggiltur endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers, og sat hann flesta stjórnarfundi.

 Hinn 18. september 2007 keypti félagið fasteignir að Klausturvegi 1, þar sem áður var sláturhús, og Klausturvegi 3-5, þar sem áður voru verslanir Kaupfélags Vestur-Skaftfellinga, í þeim tilgangi að breyta húsnæðinu í aðstöðu fyrir ferðaþjónustu (gistingu, veitingarekstur, afþreyingu o.fl.). Kaupverðið nam 26 milljónum króna. Verkið var í fyrstu fjármagnað með láni í erlendum myntum að jafnvirði 16.000.000 króna með veði í heimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila og með láni frá Jóni Grétari að fjárhæð 16.000.000 króna.

 Ráðast þurfti í gagngerar endurbætur á húsnæðinu. Að sögn sóknaraðila gekk, við framkvæmdir á fasteignunum eðlilega á þá fjármuni sem upphaflega hafi verið lagðir inn í félagið. Í lok árs 2008 hafi þeir fjármunir sem teknir hefðu verið að láni til framkvæmdanna verið uppurnir. Hafi hluthafar í félaginu þá haldið fund um hvert framhaldið skyldi verða. Hafi Jón Grétar boðist til að sjá um áframhaldandi fjár­mögnun framkvæmdanna og hafi Bragi samþykkt það enda þá legið fyrir að staða hans væri orðin mjög erfið. Árið 2009 hafi framkvæmdum verið haldið áfram og þá komið í ljós að ekki næðist að ljúka við 1. áfanga framkvæmdarinnar og opna fyrir mesta ferðamannatímann. Hluthafarnir hafi þá rætt um möguleika á að kaupa vinnubúðir og nýta í fasteignunum. Það hafi ekki orðið niðurstaðan en þess í stað hafi verið keyptar 13 húseiningar af Impregilo. Eftir þetta hafi komið á daginn að teknar hafi verið ákvarðanir og fjárfest í nafni félagsins án samráðs við Braga Gunnarsson, sem hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í félaginu. Einnig hafi orðið ljóst að félagið væri ekki rekið á bankareikningi félagsins heldur utan hans. Á tímabilinu frá 1. september 2009 til loka febrúarmánaðar 2010 hafi félagið skuldsett sig mikið, án samþykkis stjórnar og án vitundar framkvæmdastjóra félagsins. Jafnskjótt og fyrirsvarsmanni sóknaraðila hafi orðið kunnugt um hvernig staðið hefði verið að rekstri félagsins undir það síðasta hafi hann mótmælt þeim ráðstöfunum á stjórnarfundi í félaginu og bent á ólögmæti þeirra.

 Að sögn varnaraðila var það vegna dráttar á afgreiðslu nauðsynlegra skipulags­breytinga á svæðinu að þær tafir hafi orðið á framkvæmdum sem hafi valdið því að ekki hafi verið hægt að hefja rekstur á tilætluðum tíma. Vegna þessa hafi gengið mjög á fjármagn félagsins og nauðsynlegt hafi reynst að leggja því til aukið fé. Varnaraðili hafi gert það eftir því sem þurfti, eftir atvikum með millifærslum á reikninga félagsins eða greiðslu kostnaðar fyrir þess hönd.

 Haustið 2009 hafi komið upp ósætti milli hluthafanna. Því hafi lokið þannig að Bragi Gunnarsson hafi yfirgefið verkið. Til að bjarga hagsmunum og halda félaginu gangandi hafi varnaraðili lagt félaginu, eftir sem áður, til ákveðna fjármuni með svipuðum hætti og áður. Eftir að ljóst varð að félaginu yrði ekki bjargað frá gjaldþroti og úrskurð þar um, hafi varnaraðili lýst kröfum í bú KBK ehf. vegna þessarar fjármögnunar enda hafi hann talið framlag sitt venjulegt viðskipta- eða hluthafalán sem félaginu eða þrotabúi þess bæri að endurgreiða eftir almennum reglum. Skiptastjóri hafi fallist á kröfuna með smávægilegum breytingum vegna kröfu um kostnað. Skiptastjóri hafi að öðru leyti fallist á efni kröfunnar og réttarstöðu hennar sem almennrar kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Vegna andmæla sóknaraðila sé þessi ágreiningur til meðferðar fyrir dómi.

Málsástæður sóknaraðila

 Sóknaraðili kveðst ekki mótmæla því að varnaraðili, sem sé í eigu Jóns Grétars, hafi lagt fjármuni inn í félagið. Hins vegar hafi einungis hluti af þeim fjár­munum farið inn á reikninga félagsins á þeim tíma þegar fyrirsvarsmaður sóknaraðila átti þátt í ákvarðanatöku sem stjórnarmaður í félaginu og sinnti daglegum rekstri sem framkvæmdastjóri félagins og prókúruhafi, í samræmi við samþykktir félagsins og lög um einkahlutafélög nr. 38/1994.

 Sóknaraðili byggir á því að ekki sé lögmætt að samþykkja við skiptin aðrar kröfur en þær sem stofnað hafi verið til fyrir 1. september 2009 en á því tímamarki hafi verið hætt að reka félagið í samræmi við samþykktir þess og lög um einkahluta­félög. Skuldir í nafni KBK ehf. við varnaraðila, félag í eigu Jóns Grétars, sem stofnað hafi verið til eftir framangreint tímamark án vitundar og samráðs við stjórn félagsins á lögmætum stjórnarfundum þess, framkvæmdastjóra og prókúruhafa, geti ekki komið undir skiptin eins og aðrar kröfur á hendur félaginu sem stofnað hafi verið til með lögmætum hætti.

Með vísan til alls framangreinds telur sóknaraðili ljóst að hafna beri þeim kröfuliðum í kröfulýsingu varnaraðila, nr. 15 í kröfuskrá skiptastjóra, sem rekja megi til skuldbindinga sem stofnað hafi verið til í hinu gjaldþrota félagi frá og með 1. september 2009 og gera varnaraðila að greiða honum málskostnað.

 Sóknaraðili vísar til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum IX. og X. kafla laganna, og almennra reglna kröfuréttar. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður varnaraðila

 Varnaraðili tekur fram að fjárhæð kröfunnar sem lýst sé í 1. tölulið í kröfu­lýsingu sé byggð á lánveitingum varnaraðila til KBK ehf. sem hafi verið ætlað að standa undir daglegum kostnaði félagsins eins og fram komi í málavaxtalýsingu. Kostnaðurinn komi fram í hreyfingalista sem hafi fylgt kröfulýsingunni. Vaxtareikn­ingur byggi á útgefnum innlánsvöxtum Seðlabanka Íslands enda um að ræða hefð­bundin lán á viðskiptareikningi.

 Andmæli sóknaraðila við kröfu varnaraðila og afstöðu skiptastjóra til hennar virðist byggja á því að lánveitingarnar brjóti að einhverju leyti í bága við reglur laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Því sé hins vegar ekki mótmælt að varnaraðili hafi lagt KBK ehf. til það fé sem krafist hafi verið endurgreiðslu á með kröfulýsingunni. Sóknar­aðili virðist á hinn bóginn telja að einhver hluti þess framlags sé ólögmætur. Kröfu­gerð sóknaraðila um það hvaða hluta þessa framlags sé sérstaklega andmælt sé hins vegar svo óljós að varnaraðili geti ekki tekið fulla afstöðu til kröfunnar. Ekki séu nefndar neinar fjárhæðir í þessu sambandi heldur einungis vísað til dagsetninga án frekari skýringa. Þannig komi til að mynda engar skýringar fram um það hvers vegna miðað sé við dagsetninguna 1. september í stað 1. ágúst eða 1. október eða einhverjar aðrar dagsetningar. Sóknaraðili fullyrði að þetta sé það tímamark sem hætt hafi verið að reka félagið í samræmi við samþykktir og lög um einkahluta­félög. Hann hvorki skýri þessa fullyrðingu sína nánar né færi nokkur gögn eða sannanir fyrir henni. Þessari fullyrðingu sé af þeim sökum hafnað sem rangri og ósannaðri. Sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að sundurgreina þetta allt og skýra betur enda fyrirsvarsmaður sóknaraðila, fyrrverandi stjórnarmaður og prókúru­hafi KBK ehf., sem hafi haft fullan aðgang að og eftirlit með bókhaldi félagsins. Varnaraðili telur að vísa verði málinu frá vegna þessa óskýrleika í kröfugerð og málatilbúnaði sóknaraðila enda sé ekki hægt að taka hana til úrskurðar.

 Varakröfu sína styður varnaraðili við meginreglur kröfuréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga. Óumdeilt sé og viðurkennt af hálfu sóknaraðila að varnaraðili hafi lagt KBK ehf. til fjármuni til daglegs rekstrar. Þessar fjárhæðir séu tilgreindar í hreyfingalista sem hafi fylgt kröfulýsingu og hafi verið útbúinn og yfirfarinn af endur­skoðanda félagsins. Þetta séu fjármunir sem hafi runnið til félagsins og verið færðir til skuldar hjá félaginu jafnóðum. Þetta hafi verið í samræmi við fyrri framkvæmd á fjár­mögnun félagsins um langt skeið en eins og fram komi í málavaxtalýsingu í greinar­gerð sóknaraðila hafi sóknar- og varnaraðilar orðið ásáttir um það á árinu 2008 að sóknaraðili sæi um áframhaldandi fjármögnun framkvæmdanna enda hafi fjárhagsleg staða sóknaraðila ekki verið mjög sterk. Óumdeilt sé að fjármunirnir hafi nýst í rekstri félagsins, aukið eignir þess og gengið til greiðslu skuldbindinga sem á því hvíldu t.d. varðandi laun og efniskostnað.

 Varnaraðili hafnar því að félagið hafi verið rekið án vitundar og samráðs við stjórn félagsins. Allar lántökur samkvæmt framansögðu hafi farið fram með samþykki tveggja stjórnarmanna sem rita firma félagsins.

 Varnaraðili byggir á að á sóknaraðila hvíli sönnunarbyrði vegna fullyrðinga hans um ólögmætar lánveitingar. Þar sem þær séu órökstuddar sé ekki annað hægt en að fallast á kröfu varnaraðila um að krafa hans að fjárhæð 3.825.922 krónur verði samþykkt sem almenn krafa í þrotbú KBK ehf. eins og skiptastjóri hafi samþykkt.

Öllum málsástæðum og röksemdum sóknaraðila sé hafnað sem röngum og ósönnuðum auk þess sem ítrekað er að kröfugerð og málatilbúnaður sóknaraðila sé svo óskýr að tæplega er hægt að taka málið til úrskurðar að óbreyttu.

 Kröfum sínum til stuðnings vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl. og til meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar og kröfuréttar. Þá vísar hann til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar sem það á við, og til stuðnings máls­kostn­aðarkröfu sérstaklega til XXI. kafla, allt með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Niðurstaða

 Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., lýsti einni kröfu í þrotabú KBK ehf. Skiptastjóri hafnaði kröfu hans og var afstaða skiptastjóra staðfest með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum í dag í máli nr. X-269/2010. Þar sem sóknaraðili er af þeim sökum ekki lengur kröfuhafi í þrotabú KBK ehf., sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 þykir hann ekki lengur hafa lögvarinn rétt til að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viður­kenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert. Af þeirri ástæðu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 486/2002 verður kröfu hans vísað frá dómi.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 120.000 krónur.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 Kröfu sóknaraðila, Húsaviðhalds og viðgerða ehf., er vísað frá dómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Pharma ehf., 120.000 krónur í málskostnað.