Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Þinghald
|
|
Miðvikudaginn 27. júní 2012. |
|
Nr. 447/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) |
Kærumál. Vitni. Þinghöld.
X var gert að víkja úr
þinghaldi á meðan tvö vitni gæfu skýrslu þar sem talið var að nærvera hans við
við skýrslugjöfina gæti bæði orðið þeim sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á
framburð þeirra.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Garðar Gíslason hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu um að ákærði víki úr þinghaldi meðan brotaþolar gefa skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að ákærða verði vikið úr þingsal meðan brotaþolar gefa skýrslu við aðalmeðferð, enda verði séð til þess að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni um leið og að dómari leggi fyrir vitnin spurningar óski ákærði þess, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008.
Brotaþolar, A og B, kærðu einnig úrskurðinn fyrir sitt leyti 22. júní 2012 og gera sömu kröfu og sóknaraðili.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Af vottorðum sálfræðinga um andlega hagi brotaþola verður ráðið að nærvera ákærða við skýrslugjöf geti bæði orðið brotaþolum sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð þeirra. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Þess skal gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunum um leið og þær fara fram, og að lagðar verði fyrir vitnin þær spurningar sem ákærði óskar, sbr. 3. mgr. áðurnefndrar lagagreinar.
Dómsorð:
Víkja ber ákærða, X, úr þinghaldi þegar vitnin A og B, gefa skýrslu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012.
Ákærða
eru gefin að sök kynferðisbrot gagnvart tveimur brotaþolum. Gagnvart stúlku sem
nú er 25 ára og pilti sem nú er 19 ára. Brotin gagnvart stúlkunni eru talin
hafa verið framin þegar hún var 12 til 15 ára, en gagnvart piltinum frá því
hann var 5 til 7 ára og þar til hann varð 18 ára. Brotaþolar hafa krafist þess
að ákærða verði vikið úr þingsal meðan þeir gefa skýrslu við aðalmeðferð
málsins og hefur sækjandinn tekið undir þá kröfu. Ákærði hefur hafnað því að
víkja úr þingsal meðan tekin verður skýrsla af brotaþolum. Hann kvaðst ekki
sætta sig við að fylgjast með skýrslugjöf þeirra úr hliðarherbergi. Var krafan
tekin til úrskurðar 19. júní síðastliðinn eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig
um hana.
Brotaþolar
byggja kröfu sína á 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 og benda á að það yrði
þeim afar þungbært ef þau þyrftu að gefa skýrslu að ákærða viðstöddum. Málið
hefði tekið mikið á þau og vísa þeir til vottorða sálfræðinga því til
stuðnings.
Ákærði
vísar til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr.
97/1995 og til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, einkum d liðar 3. mgr., máli
sínu til stuðnings, sbr. lög nr. 62/1994.
Samkvæmt
1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 er ákærða rétt og skylt að koma fyrir dóm til
skýrslugjafar og samkvæmt 1. mgr. 166. gr. sömu laga á hann rétt á að vera við
aðalmeðferð máls. Í 1. mgr. 123. gr. sömu laga er heimild fyrir dómara til að
víkja ákærða úr þinghaldi meðan vitni gefur skýrslu, telji dómari að nærvera
ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð
þess. Komi til þess að ákærða verði vikið úr þingsal skal hann fá að fylgjast
með skýrslutökunni og einnig á hann rétt á að fá að leggja spurningar fyrir
vitnið.
Með
vísun til framangreindra ákvæða stjórnarskrár, mannréttindasáttmála og laga um
meðferð sakamála má draga þá ályktun að það sé ein af meginreglum íslensks
sakamálaréttarfars að ákærður maður eigi þess kost að vera viðstaddur þinghöld,
þar með talda aðalmeðferð, í máli sem hefur verið höfðað gegn honum. Það þurfa
því að vera ríkar ástæður til þess að víkja frá þessari meginreglu, eða eins og
segir í lagagreininni að næravera ákærða þarf að vera vitni „sérstaklega til
íþyngingar“. Í þessu máli er ákærði borinn mjög þungum og alvarlegum sökum af
brotaþolum. Þeir telja að það yrði þeim mjög íþyngjandi að þurfa að gefa
skýrslu að ákærða viðstöddum. Þessar röksemdir eiga við í nánast öllum
kynferðisbrotamálum og í mjög mörgum líkamsárásarmálum. Það er mjög vel
skiljanlegt að brotaþolum sé erfitt að gefa skýrslu að viðstöddum þeim sem þeir
hafa sakað um alvarlegar misgerðir gagnvart sér. Af hálfu ákæruvaldsins hafa
verið lagðar fram skýrslur sálfræðinga um líðan brotaþola og ástand þeirra nú.
Af þeim má draga þá ályktun að brotaþolar og sálfræðingarnir telji að það sem
miður hafi farið í lífi brotaþola sé að rekja til þess sem ákærði er sakaður
um. Skýrslurnar bera þó ekki með sér að líðan brotaþola og ástand sé verra en
gengur og gerist með brotaþola í kynferðisbrotamálum. Á hinn bóginn er einnig
skiljanlegt að ákærði, sem hefur neitað sök, vilji vera viðstaddur þegar
brotaþolar bera á hann sakir og geta hagað vörn sinni með tilliti til þess sem
þeir bera og hvernig þeir bera um sakargiftirnar.
Að
öllu þessu virtu er það niðurstaða dómsins að hagsmunir ákærða af því að vera
viðstaddur skýrslugjöf brotaþola vegi þyngra en hagsmunir brotaþola af því að
geta gefið skýrslu sína án nærveru hans. Er ekki fallist á það með brotaþolum
og sækjandanum að sýnt hafi verið fram á að nærvera ákærða yrði brotaþolum
sérstaklega til íþyngingar eins og framangreint ákvæði áskilur, þótt vissulega
sé hún íþyngjandi fyrir þá.
Arngrímur
Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Hafnað
er kröfu um að ákærði víki úr þinghaldi meðan brotaþolar gefa skýrslu.