Hæstiréttur íslands

Mál nr. 605/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 14. september 2015.

Nr. 605/2015.

Lögreglustjórinn á Austurlandi

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 9. september 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. september 2015 klukkan 16 og einangrun á meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hún sæti farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og varnaraðila ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 9. september 2015.

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur með beiðni, dagsettri 9. september 2015, krafist þess, með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en til vara til 2. mgr. sömu lagagreinar, að X, kt. [...], [...] ríkisborgara, hér eftir nefnd kærða, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 4 vikur, eða þar til dómur gangi í máli nr. 217-2015-[...], en ákæra verður gefin út í því eins fljótt og mögulegt verður. Þess er jafnframt krafist að kærða verði úrskurðuð til að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.

Af hálfu kærðu er þess aðallega krafist að kröfu lögreglustjórans verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að hafnað verði kröfu um að kærða verði látin sæta einangrunarvist.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærða sé grunuð um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sem teljist varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa að morgni 8. september 2015, flutt til landsins c.a. 80 kg af MDMA, falið í bifreiðinni [...], sem komið hafi til [...] með [...].

Kl. 09:00 að morgni 8. september sl., hafi komið til hafnar á [...], [...]. Kl. 10:00 hafi bifreiðinni [...], tegund [...], verið ekið frá borði og að grænu tollhliði. [...], kt. [...], sem einnig sé kærður í þessu máli, hafi ekið bifreiðinni en kærða X setið í farþegasæti. Tollgæslan hafi ákveðið að taka bifreiðina og kærðu í úrtaksleit. Við leit í bifreiðinni hafi fundist 14 niðursuðudósir, sem kærði [...] segi að innihaldi fíkniefni. Við grófa rannsókn lögreglu innihaldi hver dós um 800 grömm af óþynntu MDMA, eða samtals 11,2 kíló. Auk þess liggi fyrir að í varadekki bifreiðarinnar og í tveimur gaskútum sé eitthvað falið og segi kærði [...] að það séu líka fíkniefni. Miðað við þyngd varadekksins og gaskútanna, megi áætla að í þeim geti verið falin u.þ.b. 70 kíló af ætluðum fíkniefnum. Eins og áður segi hafi kærði [...] játað að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna, en eiginkona hans, kærða X, hafi neitað að hafa vitað um efnin. [...] staðhæfi að X hafi ekki vitað um tilvist efnanna.

Þegar grunur hafi vaknað um að í bifreiðinni kynnu að vera fíkniefni, hafi kærða X verið handtekin, kl. 13:25 þann 8. september sl., en kærði [...] hafi verið handtekinn kl. 13:30 sama dag. Nákvæmari leit hafi farið fram í bifreiðinni.

Krafa um gæsluvarðhald byggi á a-lið 1. mgr. 95. gr.  laga 88/2008, um meðferð sakamála, en til vara við b-lið sömu lagagreinar.

Um sé að ræða rökstuddan grun um stórfellt fíkniefnabrot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi og kærða sé eldri en 15 ára.

Aðallega sé á því byggt  að a-liður nefndrar 95. gr. eigi við, þ.e. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins ef honum verði sleppt úr haldi, þ.e. rannsóknarhagsmunir lögreglu, en miklu máli skipti fyrir lögregluna að reyna að finna upplýsingar um þá aðila sem tengjast málinu, bæði á Íslandi og erlendis. Einnig sé byggt á b-lið 95. gr., en ætla megi að kærða muni reyna að komast úr landi, enda um erlendan ríkisborgara að ræða.

Til vara sé byggt á því að 2. mgr. 95. gr. sömu laga eigi við, þ.e. að um sé að ræða sterkan grun um að kærða hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna. Ákæruvaldið telji að vegna hins mikla magns af fíkniefnum og að því er virðist, hins mikla styrkleika þeirra, krefjist almannahagsmunir þess að kærða verði vistuð í varðhaldi.

Gerð sé krafa um einangrun kærðu í varðhaldi í samræmi við b-lið 1. mgr. 99. gr. laga 88/2008, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Krafa þessi sé sett fram vegna rannsóknarhagsmuna, af augljósum ástæðum, svo kærða geti ekki spillt fyrir rannsókn málsins.

Krafa um að gæsluvarðhald verði úrskurðað í 4 vikur byggi á því að í málinu sé farin af stað talsvert viðamikil rannsókn, sem óhjákvæmilega taki tíma og telji lögreglan að ekki veiti af 4 vikum til þess að klára þær tæknirannsóknir og aðrar rannsóknaraðgerðir sem nauðsynlega þurfi að framkvæma. Einnig krefjist sjónarmið um almannahagsmuni þess að gæsluvarðhaldi verði afmarkaður langur tími, þ.e. sjónarmið um að nauðsynlegt sé að hafa menn sem grunaðir eru um svo stórfelld og alvarleg brot í varðhaldi þar til dómur gangi í máli þeirra.

Niðurstaða:

                Samkvæmt því sem að framan greinir er til rannsóknar hjá lögreglu ætlað brot kærðu á 2. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sem varðað getur allt að 6 ára fangelsi. Með hliðsjón af því magni ætlaðra fíkniefna sem haldlagt hefur verið gæti hið ætlaða brot fallið undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á þeirri lagagrein varðar allt að 12 ára fangelsi.

Fallist er á það með lögreglustjóra, með vísan til röksemda hans og þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins, að rökstuddur grunur leiki á um að kærða kunni að eiga aðild að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu. Ljóst er að rannsókn málsins er enn á frumstigi. Er fallist á það með lögreglustjóra að nauðsynlegt sé, með vísan til rannsóknarhagsmuna, að kærða sæti gæsluvarðhaldi, enda gæti hún ella hugsanlega torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á hugsanleg vitni eða e.t.v. samseka eða skjóta undan sönnunargögnum. Jafnframt er á það fallist að ætla megi að kærða myndi reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn, verði henni ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt til að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður fallist á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en þó þykja ekki efni til þess að marka gæsluvarðhaldi lengri tíma en nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er með sömu röksemdum, og með vísan til þeirra ástæðna sem greinir í a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, fallist á það með lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að kærða sæti einangrun í gæsluvarðhaldsvistinni. Eru ekki efni til að marka þeirri tilhögun skemmri tíma en gæsluvarðhaldsvistinni sjálfri, en lögreglu ber að aflétta einangrun gefi rannsóknarhagsmunir ekki lengur tilefni til þeirrar tilhögunar, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008.

 Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. september nk. kl. 16.00. Heimilt er að láta kærðu sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, enda krefjist rannsóknarhagsmunir þess.