Hæstiréttur íslands
Mál nr. 344/2001
Lykilorð
- Vörumerki
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 344/2001. |
Valur Benjamín Bragason(Brynjar Níelsson hrl.) gegn Hf. Eimskipafélagi Íslands (Gunnar Sturluson hrl.) |
Vörumerki.
Notkun orðsins eimskip í tölvupóstfangi V þótti brjóta gegn rétti E hf. samkvæmt meginreglu 2. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Að kröfu E hf. var viðurkennt að V væri þessi notkun orðsins óheimil, auk þess sem staðfest var lögbann sem sýslumaður hafði lagt við notkun umrædds tölvupóstfangs.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Fallast verður á með stefnda að sú meginregla, sem fram kemur í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, veiti honum vernd gegn því að áfrýjandi megi nota það tölvunetfang, sem um ræðir í málinu. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Valur Benjamín Bragason, greiði stefnda, Hf. Eimskipafélagi Íslands, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2001
Mál þetta, sem dómtekið var 22. febrúar s.l., er höfðað með stefnu birtri 4. september s.l.
Stefnandi er Eimskipafélag Íslands hf., kt. 510169-1829, Pósthússtræti 2, Reykjavík.
Stefndi er Valur Benjamín Bragason, kt. 171255-3769, Krummahólum 19, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 6. júlí 2000 við notkun stefnda á netfanginu eimskip@vortex.is. Í öðru lagi hefur stefnandi við aðalmeðferð málsins komið að þeirri kröfu á hendur stefnda að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið og sé óheimilt að nota vörumerki stefnanda í netfangi sínu. Stefndi hefur samþykkt að þessi krafa fái komist að í málinu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. Í stefnu var að auki krafist skaðabóta en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að fellt verði niður ofangreint lögbann sýslumannsins í Reykjavík og jafnframt að hafnað verði þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið og sé óheimilt að nota vörumerki stefnanda í netfangi sínu. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að stefndi stundar rekstur í eigin nafni og felst hann í almennri garðvinnu. Mun stefndi hafa óskað eftir því við við Hringiðuna ehf. í lok síðasta árs að skráð yrði netfangið eimskip@vortex.is. Var orðið við því og mun stefndi nota netfangið sem póstfang og er það prentað þannig á nafnspjöld hans. Stefnandi hefur ekki veitt samþykki sitt fyrir þessari notkun stefnda á netfanginu, en samkvæmt útskrift úr vörumerkjaskrá er vörumerkið EIMSKIP skráð á stefnanda. Með bréfum til Hringiðunnar ehf. og stefnanda í maímánuði síðastliðnum var þess krafist að netfangið yrði afskráð. Þar sem þessari kröfu stefnanda var ekki sinnt fór stefnandi þess á leit við embætti sýslumannsins í Reykjavík að lögbann yrði lagt á notkun stefnda á netfanginu. Var fallist á þessa kröfu stefnanda 6. júlí s.l. og lögbann lagt við notkun stefnda á netfanginu.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 hafi verið uppfyllt til að lögbann næði fram að ganga og hvorki 1. né 2. töluliður 3. mgr. 24. gr. laganna eigi við um lögbannið.
Stefnandi byggir á því að vörumerkið EIMSKIP njóti mjög víðtækrar verndar hér á landi á grundvelli laga nr. 45/1997 um vörumerki. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna felist í vörumerkjarétti að aðrir en eigandi vörumerkisins megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans ef ruglingshætta er fyrir hendi. Þá njóti vel þekkt vörumerki ríkari verndar, en sú regla sé nefnd Kodakreglan. Vörumerkið EIMSKIP falli án efa undir 2. mgr. 4. gr. laganna, enda sé merkið eitt elsta og þekktasta firmanafn og vörumerki landsins. Þekkt sé um allan heim að vörumerki séu skráð sem netföng af aðilum sem ekki hafi nein tengsl við viðkomandi vörumerki. Hafi fjöldamargir dómar fallið um þetta erlendis og hafi slík skráning á þekktu vörumerki ávallt verið talin brjóta á vörumerkjarétti viðkomandi aðila.
Stefnandi byggir á því að réttur hans til notkunar vörumerkisins njóti einnig verndar 20. gr. og 25. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Samkvæmt 20. gr. laganna sé óheimilt að hafast nokkuð það að sem brjóti í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi og samkvæmt 25. gr. sé óheimilt að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því líkt sem sá hefur ekki rétt til er notar eða rekur atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda.
Stefnandi reisir málskostnaðarkröfu á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir kröfur sínar á því að um skráningu á netfangi gildi meginreglan um „prior tempori potior jure“ eða fyrstur kemur fyrstur fær. Sé almennt talið að reglan gildi nema í undantekningartilvikum og þá því aðeins þegar ruglingshætta sé fyrir hendi.
Stefndi telur reglur vörumerkjaréttar ekki eiga við í máli þessu. Í fyrsta lagi séu það almenn skilyrði brots gegn vörumerkjarétti að vörumerki vísi til svipaðrar vöru eða þjónustu, en því sé ekki til að dreifa í þessu máli. Í öðru lagi sé talið að netföng uppfylli ekki skilyrði vörumerkjalaga um að vera sérkenni eða sýnileg tákn sem til þess séu fallin að aðgreina vöru eða þjónustu. Í þriðja lagi sé það viðurkennt í vörumerkjarétti að venjulegir stafir séu ekki nægilega auðkennandi til þess að njóta vörumerkjaverndar.
Stefndi telur því stefnanda ekki njóta verndar vörumerkjaréttar á orðinu eimskip sem hluta af póstfangi eins og það sé samsett hjá stefnda. Orðið sé notað í almennri merkingu þess og þá geti það ekki valdið ruglingi, en það sé skilyrði þess að reglur vörumerkjaréttar eigi við, en um óskylda þjónustu sé að ræða.
Þá telur stefndi að meginsjónarmið auðkennaréttar eigi ekki við þar sem stefndi sé ekki í samkeppni við stefnanda. Ákvæði 25. gr. samkeppnislaga sé almenn samkeppnisregla um vernd auðkenna. Þar sem málsaðilar séu í samkeppnisrekstri eigi ákvæði greinarinnar ekki við.
Þá byggir stefndi á því að verði litið svo á að meginreglur auðkennaréttar eigi við í máli þessu sé það skilyrði að netfangið feli í sér ruglingshættu. Ekki verði séð að um ruglingshættu sé að ræða þar sem um alls óskyldan rekstur sé að ræða. Þá noti stefndi orðið eimskip ekki sem svæðisnetfang og sé því útilokað að stefndi fái póst ætlaðan stefnanda. Verði því ekki séð hvaða hagsmunir stefnanda séu í hættu með notkun stefnda á orðinu eimskip í netfanginu.
Stefndi byggir á því að ákvæðum 20. gr. samkeppnislaga sá ætlað að vernda annar vegar samkeppnisaðila og hins vegar neytendur gegn óréttmætum viðskiptaháttum. Aðilar málsins séu ekki í samkeppnisrekstri og snúist ágreiningur þeirra um það hvort víkja eigi til hliðar meginreglunni um prior tempori á grundvelli vörumerkja- og/eða auðkennaréttar. Að mati stefnda sé því vafasamt að ákvæði 20. gr. laganna eigi við enda verði ekki séð að notkun póstfangsins skaði hagsmuni stefnanda. Þá byggir stefndi á því að hagsmunir neytenda séu ekki í hættu af augljósum ástæðum. Þeir hafi ekki ástæðu til að ætla að stefnandi standi fyrir rekstri stefnda eða taki ábyrgð á honum. Á nafnspjaldi stefnda komi fram að um einkarekstur stefnda sé að ræða og jafnframt komi fram um hvers konar rekstur sé að ræða.
Þá byggir stefndi á því að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, en samkvæmt 4. mgr. 24. gr. laganna verði lögbann ekki lagt á ef hagsmunir gerðarþola eru miklu meiri en gerðarbeiðanda. Stefndi hafi talsverða hagsmuni af því að geta nýtt sér póstfang sitt, en samskipti stefnda við viðskiptavini sína fari að mestu leyti fram með þeim hætti.
Stefndi vísar um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða.
Samkvæmt gögnum málsins fékk stefnandi orðið EIMSKIP skráð í vörumerkjaskrá árið 1980 í flokkum nr. 38 og 39. Stefnandi er eitt elsta og þekktasta fyrirtæki landsins og hefur um áratugaskeið verið þekkt hér á landi og erlendis undir vörumerkinu EIMSKIP. Má sem dæmi nefna að í símaskrá er fyrirtækið skráð undir heitinu EIMSKIP og þar kemur fram að netfang stefnda er www.eimskip.is og póstfangið er info@eimskip.is.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 45/1997 getur vörumerki verið hvers konar sýnileg tákn sem eru til þess fallin að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra, svo sem orð eða orðasambönd. Samkvæmt 3. gr. laganna getur vörumerkjaréttur stofnast með skráningu vörumerkis fyrir vöru eða þjónustu í samræmi við ákvæði laganna eða notkun vörumerkis sem er og hefur verið notað hér á landi fyrir vöru eða þjónustu. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna felst í vörumerkjarétti að aðrir en eigandi vörumerkis mega ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans ef notkunin tekur til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjarétturinn nær til og hætt er við ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur eigandi vörumerkis, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. um eins eða svipaða vöru eða þjónustu, einnig bannað notkun þess fyrir annars konar vöru eða þjónustu ef vörumerkið er vel þekkt hér á landi og notkunin hefur í för með sér misnotkun eða rýrir aðgreiningareiginleika eða orðspor hins þekkta merkis.
Upplýst hefur verið að stefndi hefur notað orðið eimskip í póstfangi sínu án þess að séð verði hvernig orðið tengist atvinnurekstri hans, Samkvæmt nafnspjaldi stefnda kemur orðið eimskip fyrir í netfangi hans og þar er tekið fram að hann taki að sér almenna garðvinnu, garðaúðun með Permasect, trjáklippingar og fl. Ekki er ágreiningur um að stefnandi og stefndi standa ekki í samkeppnisrekstri. Stefndi heldur því fram að hann noti orðið eimskip í almennri merkingu en ekki verður betur séð en að með þessari notkun orðsins sé stefndi að gefa í skyn tengsl við stefnanda.
Að mati dómsins er vörumerkið EIMSKIP tvímælalaust til þess fallið að greina vörur stefnanda frá vörum annarra. Var því fullnægt ákvæðum 13. gr. laga nr. 45/1997 um skráningu vörumerkisins.
Samkvæmt framansögðu verður því að telja að vörumerkið EIMSKIP hafi náð slíkri markaðsfestu hér á landi að það njóti verndar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997 og er stefnanda því brýnt að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að vernda orðspor merkisins. Ber því þegar af þessari ástæðu að fallast á þá kröfu stefnanda að stefnda hafi verið og sé óheimilt að nota netfangið eimskip@vortex.is. Ekki verður fallist á að það skipti máli að stefndi notaði orðið eimskip einungis sem póstfang. Ljóst er að netfangið var prentað á nafnspjald hans, en ætla verður að með þeim hætti hafi stefndi komið atvinnustarfsemi sinni á framfæri.
Með vísan til þeirra raka er að framan greinir er ljóst að stefnandi hefur ríka hagsmuni af vernd vörumerkjaréttar síns. Var því fullnægt þeim skilyrðum sem sett eru í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir því að lögbann yrði sett við umræddri notkun stefnda á netfanginu. Verður lögbannsgerðin því staðfest.
Með vísan til þess að í upphaflegum málatilbúnaði stefnanda var gert ráð fyrir ótilgreindri skaðabótakröfu á hendur stefnda, en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins, þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Viðurkennt er að stefnda, Val Benjamín Bragasyni, hafi verið og sé óheimilt að nota vörumerki stefnanda, Eimskipafélags Íslands hf. í netfangi sínu eimskip@vortex.is.
Staðfest er lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 6. júlí 2000 í máli nr. L-38/2000 við notkun stefnda á netfanginu eimskip@vortex.is.
Málskostnaður fellur niður.