Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-65

B (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)
gegn
A (Halldór Kr. Þorsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Krafa
  • Lán
  • Fasteign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 10. apríl 2025 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. mars sama ár í máli nr. 18/2024: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili höfðaði mál gegn leyfisbeiðanda og krafðist endurgreiðslu á 8.500.000 krónum sem hann kvaðst hafa lánað henni með fjórum millifærslum í tengslum við kaup hennar á íbúð að […] í Reykjavík.

4. Með héraðsdómi var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu. Í dóminum kom meðal annars fram að í kvittun með þremur millifærslum hefði verið ritað „vegna […]” en á hinni fjórðu væri nafn leyfisbeiðanda ritað til skýringar. Talið var að þær skýringar gæfu sterka vísbendingu um að greiðslurnar hefðu verið inntar af hendi í tengslum við kaup leyfisbeiðanda á fasteigninni. Styddi það jafnframt framburð gagnaðila um að leyfisbeiðandi hefði leitað til hans um aðstoð við fjármögnunina. Þá fengi framburður gagnaðila jafnframt nokkurn stuðning í aðilaskýrslu leyfisbeiðanda og reikningsyfirlitum sem hún lagði fyrir Landsrétt. Þá yrði ekki fram hjá því litið að málatilbúnaður hennar um fjármögnun íbúðarkaupanna hefði að nokkru leyti verið misvísandi. Var fallist á kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi greiddi honum 8.500.000 krónur ásamt vöxtum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi. Brýnt sé að fá úr því skorið hvort og þá hvaða þýðingu skýringar hafi við millifærslu fjármuna og jafnframt um þýðingu þess að skýringar berist til viðtakanda greiðslu. Með sama hætti hafi málið verulegt almennt gildi um beitingu sönnunarreglna í sambærilegum málum. Fái dómur Landsréttar að standa óbreyttur beri að skilja það sem svo að þegar takmörkuð samtímagögn liggi fyrir hafi framburður vitna takmarkað sönnunargildi. Þá varði málið verulega hagsmuni leyfisbeiðanda. Um sé að ræða umtalsvert háa fjárhæð. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hún vísar til þess að með öllu sé horft fram hjá framburði um að skuld hennar við tiltekið vitni sé ógreidd og einnig að 6.000.000 króna af þeim 8.500.000 krónum sem málið hverfist um hafi verið endurgreiðsla á skuld gagnaðila eða skuld sem gagnaðili bar ábyrgð á við það vitni.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.