Hæstiréttur íslands
Mál nr. 335/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 26. júlí 2005. |
|
Nr. 335/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili, sem kveðst vera X, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hún verði látin sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kona sem kveðst heita X, [kt.], með ríkisfang í Líberíu, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík þann 5. þ.m. hafi kærða verið ákærð fyrir brot gegn útlendingalögum og fyrir skjalafals. Þá hafi hún jafnframt verið ákærð fyrir að hafa í félagi við mann sem kvaðst heita Y framið stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Dómur hafi gengið í málinu 15. þ.m. og hafi ákærða verið sakfelld fyrir brot gegn útlendingalögum og fyrir skjalafals með því að hafa framvísað við komu til landsins þann 22. maí sl. vegabréfi bresks ríkisborgara, sem kærða vissi að var falsað þar sem mynd af kærðu var í vegabréfinu. Hafi kærðu verið gert að sæta fangelsi í 30 daga fyrir að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi en sýknuð af auðgunarbrotum og skjalafalsi að öðru leyti. Nefndur Y hafi verið sakfelldur fyrir skjalafals og auðgunarbrot og dæmdur til að sæta fangelsi í 15 mánuði.
Eftir að framangreint mál hafi verið dómtekið í héraðsdómi hafi Frjálsi fjárfestingarbankinn lagt fram kæru á hendur kærðu fyrir ætluð brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940. Sé kærðu gefið að sök að hafa þann 1. júní sl. framselt erlendan tékka frá Founders Federal Credit Union að fjárhæð 8.500 USD, andvirði 546.146 kr., í útibúi SPRON, Ármúla 13a, Reykjavík, og þann 8. júní sl. framselt í sama útibúi erlendan tékka frá Chase að fjárhæð 6.500 USD, andvirði 411.193 kr. Í ljós hafi komið við framsal SPRON á tékkunum til American Express Bank þann 24. júní sl. að ekki hafi verið innistæða fyrir tékkunum og þeir endursendir með áritun um að þeir væru falsaðir. Kærða hafi neitað sök. Hún hafi viðurkennt að hafa framselt umrædda tékka en kveðist ekki hafa haft neina vitneskju um að þessir tékkar hafi verið falsaðir og neitar að hafa átt þátt í að falsa þá. Kærða hafi viðurkennt að hafa ritað á bakhlið annars tékkans nafnið [...].
Rannsókn þessara nýju sakarefna sé langt komin og mun embættið svo fljótt sem verða megi gefa út ákæru á hendur kærðu og nefndum Y fyrir ætluð brot þeirra sem nú séu til rannsóknar. Ríkissaksóknari hafi tekið ákvörðun um að áfrýja framangreindum dómi til Hæstaréttar og verði áfrýjunarstefna gefin út svo fljótt sem auðið sé.
Lögregla telur brýna nauðsyn á að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan á málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Hæstarétti stendur enda megi ætla að kærða muni reyna að komast úr landi eða leynast í því skyni að komast undan málsókn og fullnustu refsingar. Hæstiréttur hafi í fjórgang fallist á að kærða sæti gæsluvarðhaldi vegna þessara mála. Þá hafi Hæstiréttur fallist á að farbann þyki ekki fullnægjandi til að tryggja nærveru hennar meðan mál hennar séu til meðferðar hér á landi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 296/2005 þann 4. júlí sl. Þá beri að hafa í huga að kærða sé vegalaus útlendingur sem hafi gefið misvísandi upplýsingar um það hver hún sé og hafi verið sakfelld fyrir að nota falsað vegabréf í því skyni að villa á sér heimildir. Nefndur Y hafi viðurkennt að hafa komið hingað til lands á vegabréfi annars manns. Hann beri nú að hann sé með nígerískt ríkisfang og heiti [...]. Hann hafi einnig tjáð lögreglu að kærða sé einnig frá Nígeríu og heiti [...]. Rannsókn á því hver kærða sé í raun og veru verður haldið áfram. Með hliðsjón af framangreindu telji lögregla að fullnægt sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 er þess krafist að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.
Kærða neitar sakargiftum. Eins og fram er komið hófst að nýju rannsókn á ætluðum brotum kærðu gegn 247. gr. alm. hegningarlaga eftir að dómtekið hafði verið refsimál á hendur kærðu, sem dæmt var 15. þ.m. Þeirri rannsókn er ólokið og ákæru á hendur kærðu að vænta. Þá liggur fyrir að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1050.05 verði áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Kærða er erlendur ríkisborgari af óvissum uppruna og má ætla að hún myndi reyna að komast úr landi og koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar fari hún frjáls ferða sinna. Verður ekki talið að farbann sé fullnægjandi úrræði til að tryggja nærveru hennar. Fullnægt er því skilyrði b- liðar 1. mgr. 103. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1991 um gæsluvarðhald. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, fædd [...] í Líberíu, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16.00.