Hæstiréttur íslands

Mál nr. 110/2010


Lykilorð

  • Rangar sakargiftir


Fimmtudaginn 11. nóvember 2010.

Nr. 110/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur

vararíkissaksóknari)

gegn

Sophiu Guðrúnu Hansen

(Kristján Stefánsson hrl.)

Rangar sakargiftir.

S var sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa komið því til leiðar að rannsókn hófst gegn tilgreindum manni hjá lögreglu. Var refsing S ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 12 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en þyngingar á refsingu.

Ákærða krefst sýknu.

Málavöxtum og framburði ákærðu og vitna er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í niðurstöðu dómsins er þess getið að ákærða hafi „kannast við“ að hafa látið lögmann sinn kæra fölsun á þremur viðskiptabréfum. Þá er í ákæru greint frá þremur viðskiptabréfum, samtals að fjárhæð 42.069.051 krónur. Á hinn bóginn var um að ræða eitt viðskiptabréf, eða veðskuldabréf að fjárhæð 3.000.000 krónur, síðan ritaða yfirlýsingu um viðurkenningu á skuld að fjárhæð 20.000.000 krónur og loks tryggingarbréf gefið út til tryggingar fyrir sömu fjárhæð. Ákærða hefur við meðferð málsins ætíð afdráttarlaust lýst því að hún hafi fengið lögmann sinn til að leggja fram umrædda kæru. Í héraðsdómi er lýst þeirri rithandarrannsókn sem fram fór vegna málsins. Ekki verður dregin afdráttarlausari ályktun af niðurstöðu þeirrar rannsóknar einnar og sér en fram kemur í skýrslu um hana, sem staðfest var fyrir dómi. Þar segir að „niðurstöðurnar benda eindregið til þess“ að ákærða hafi ritað nafn sitt á umrædd skjöl, þannig að „taldar eru mjög litlar líkur á því að aðrar tilgátur, sem koma til greina, séu réttar.“

Í framangreindri kæru lögmanns ákærðu er ekki tilgreindur maður kærður heldur verknaðurinn einn og sér. Á hinn bóginn lýsti ákærða því aðspurð hjá lögreglu 26. nóvember 2007 að hana grunaði tilgreindan mann um verknaðinn eða einhvern á hans vegum. Í kjölfar þessarar yfirlýsingar ákærðu benti lögreglumaður henni á að refsivert væri að leggja fram ranga kæru. Kvaðst ákærða þá vilja „standa við hana.“ Með þessu kom ákærða því til leiðar að rannsókn hófst gegn umræddum manni hjá lögreglu, en málið var síðar fellt niður án þess að til ákæru kæmi.

Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður niðurstaða hans staðfest um að ákærða hafi með háttsemi sinni gerst sek um brot gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða hefur unnið sér til refsingar. Samkvæmt ákvæðinu skal við þá ákvörðun hafa hliðsjón af því hversu þung hegning er lögð við broti því sem sagt er eða gefið til kynna að viðkomandi hafi drýgt. Refsing ákærðu verður ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en þar sem hún hefur ekki áður gerst sek um refsivert brot þykir mega binda refsinguna skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Þá verður ákærða dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Sophia Guðrún Hansen, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 268.365 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

                                                                      

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2010.

I

Málið, sem dómtekið var 2. febrúar síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara,  útgefinni 22. júní 2009 á hendur „Sophiu Guðrúnu Hansen, kennitala 110359-3579, fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa falið lögmanni að kæra fyrir sína hönd, með kærubréfi til lögreglu, dagsettu 20. júlí 2007, fölsun á nafni sínu á þremur viðskiptabréfum, samtals að fjárhæð krónur 42.069.051, og í vitnaskýrslu hjá lögreglu þann 27. nóvember 2007, lýst því yfir að hana grunaði A, kt. [...], eða einhvern á hans vegum um að hafa falsað undirskriftir sínar og þannig komið því til leiðar að A var ranglega sakaður um skjalafals.  

Telst þetta varða við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærða neitar sök og krefst sýknu, en til vara vægustu refsingar.  Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

II

                Með bréfi til lögreglunnar í Reykjavík 20. júlí 2007 kærði lögmaður ákærðu fölsun á nafni hennar á þrjú viðskiptabréf.  Ákærða hafði með bréfi 29. júní sama ár falið lögmanninum að kæra fölsun á nafni hennar á þessi bréf.  Bréfin eru í fyrsta lagi tryggingabréf að fjárhæð 20.000.000 króna, sagt útgefið í Istanbul 28. janúar 2005.  Það er vottað af framangreindum A og B, dóttur ákærðu.  Í kærubréfinu kemur fram að ákærða segi að nafn B sé nær örugglega falsað.  Í öðru lagi er um að ræða veðskuldabréf að fjárhæð 3.000.000 króna, sagt útgefið í Istanbul 11. júlí 2005.  Það er einnig vottað af þeim A og B.  Í kærubréfinu kemur fram að ákærða segi að nafn B sé nær örugglega falsað.  Í þriðja lagi er skuldaviðurkenning að fjárhæð 19.069.051 króna, sögð útgefin í Reykjavík 4. júní 2007.  Hún er vottuð af framangreindum A og C.  Í kærubréfinu segir enn fremur að ákærðu hafi fyrst orðið kunnugt um tilvist þessara skjala þegar uppboð fór fram á fasteign hennar að Túngötu 32, en tvö fyrstnefndu bréfin voru tryggð með veði í henni.

                Ákærða var fyrst yfirheyrð, sem vitni, af lögreglu 26. nóvember 2007 og kvað hún þá undirskrift sína vera falsaða á þessi þrjú skjöl.  Hún var spurð hvort hún grunaði einhvern um að hafa falsað undirskrift hennar og svaraði hún því til að hún grunaði framangreindan A, eða einhvern á hans vegum, um að hafa falsað undirskrift sína á skjölin.  Ákærða var yfirheyrð sem kærð 14. apríl 2008 og þá kynnt niðurstaða rithandarrannsóknar sem gerð verður grein fyrir hér á eftir.  Ákærða neitaði sem fyrr að hafa ritað nafn sitt undir skjölin.

                A var yfirheyrður hjá lögreglu sem sakborningur 9. janúar 2008.  Hann kvað ákærðu hafa undirritað framangreind skjöl og hefði hann og hinir vottarnir vottað undirskrift hennar.  Hann hefði verið viðstaddur þegar hinir vottarnir vottuðu undirskrift hennar á veðskuldabréfið og skuldaviðurkenninguna, en ákærða hefði farið með tryggingabréfið til dóttur sinnar til vottunar. 

                Lögreglan hafði samband við B símleiðis og sendi henni í tölvupósti skjölin, sem hún átti að hafa vottað.  B skoðaði skjölin og kvaðst ekki hafa ritað nafn sitt á þau.

                Lögreglan sendi viðskiptabréfin ásamt beinum og óbeinum rithandarsýnum ákærðu og beinum rithandarsýnum A til Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping til rannsóknar.  Óskað var eftir því að kannað yrði hvort sami maður hefði ritað nafn ákærðu á viðskiptabréfin og einnig hvort ákærða hefði gert það.  Þá var og beðið um að rannsakað yrði hvort A hefði ritað nafn ákærðu á bréfin.

                Niðurstaða rannsóknarinnar benti eindregið til þess að vefengdu undirskriftirnar, það er á viðskiptabréfunum, séu gerðar af einum og sama einstaklingi og að þær séu eftir ákærðu.  Þá bentu niðurstöðurnar til þess að vefengdu undirritanirnar væru ekki gerðar af A.

III

                Við aðalmeðferð kvaðst ákærða hvorki kannast við framangreind viðskiptabréf né að hafa skrifað undir þau.  Hún kvaðst heldur ekki vita hver hafi ritað undir þau.  Hún kannaðist hins vegar við að hafa fengið lögmann til að kæra fölsun á undirritun sinni.  Hún staðfesti einnig að hafa borið hjá lögreglu að sig grunaði að A, eða einhver á hans vegum, hefði falsað nafnritun sína á bréfin.  Hún kvaðst hafa byggt grun sinn á því að hann hefði haft þessi bréf undir höndum og eins hefði hann höfðað mál á hendur sér og byggt á þeim.  Ákærða kvað undirskriftirnar líkjast sinni skrift en hún hefði ekki ritað nafn sitt undir bréfin.  Hún kvað hvorki niðurstöðu rithandarrannsóknar né framburð vitna breyta þessum framburði sínum.  Þá kvað hún útilokað að dóttir hennar hefði getað vottað bréfin, enda skildi hún ekki íslensku, talaði hana hvorki né læsi.  Þá kvað hún nefndan A ekki hafa verið í sambandi við dóttur sína.  Ákærða kvaðst ekki hafa rætt við Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmann um gerð tryggingabréfsins. 

                A bar að hann hefði vottað undirritun ákærðu á framangreind viðskiptabréf.  Hann kvað ákærðu hafa ritað nafn sitt undir framangreint veðskuldabréf 11. júlí 2005 í tilteknu hótelherbergi í Istanbul.  B, dóttir ákærðu, hefði verið viðstödd og hefði hún einnig ritað nafn sitt undir bréfið í sinni viðurvist.  Kvað A B hafa velt fyrir sér hvort hún ætti að rita undir tyrkneskt nafn sitt eða íslenskt og hafi hann ráðlagt henni að skrifa nafnið eins og það væri skrifað í íslenska vegabréfinu sem þá var í gildi.  Hann kvað ákærðu einnig hafa ritað nafn sitt undir framangreint tryggingabréf á sama hótelherbergi í Istanbul 28. janúar 2005.  A kvaðst hins vegar ekki hafa séð dóttur ákærðu rita nafn sitt á bréfið, heldur hefði ákærða farið með bréfið til dóttur sinnar sem hefði vottað undirritun ákærðu.  Ákærða hefði svo komið með bréfið til baka til sín.  A bar að ákærða hefði ritað nafn sitt undir skuldaviðurkenninguna í eldhúsinu að Túngötu 32 að sér og C viðstöddum.  A kvað skuldaviðurkenninguna hafa verið undirritaða 5. júní 2007, en hún hefði verið samin 4. júní og þess vegna væri sú dagsetning á henni.  A var spurður allítarlega um samskipti hans við ákærðu, bæði fjárhagsleg og önnur, en ekki eru efni til að rekja þann framburð.

                Dóttir ákærðu, B, gaf skýrslu í gegnum síma, en hún er búsett í Tyrklandi.  Hún var spurð um það hvort hún hefði vottað framangreind skjöl og kvaðst hún ekki hafa gert það.  Hún kannaðist við að lögreglan hefði sent henni skjölin í tölvupósti eins og rakið var.  B ítrekaði að hún hefði ekki ritað nafn sitt á skjölin.  B kvaðst ekki hafa hitt A í Istanbul 2005.

                C bar að hafa vottað skuldaviðurkenninguna og hafi ákærða ritað undir hana í sinni viðurvist.  Þetta hafi gerst að Túngötu 32 og hafi A einnig verið viðstaddur og vottað undirritun ákærðu undir skjalið.  Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta var en það hafi verið sumarið 2007. 

                Ulla-Britt Åberg sérfræðingur við Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping rannsakaði framangreind viðskiptabréf og bar ætlaðar undirritanir ákærðu saman við rithandarsýnishorn frá henni og A.  Enn fremur hafði hún undir höndum önnur skjöl sem ætlað var að ákærða hefði undirritað.  Hún staðfesti framangreinda niðurstöðu sína og útskýrði hvernig hún vann rannsóknina.  Hún kvaðst hvorki hafa orðið vör við óöryggi né  breytingar í undirskriftunum á viðskiptabréfunum.  Þær virtust vera vel gerðar.  Hún kvaðst og hafa athugað sýnishorn frá ákærðu og A og virtust þau einnig hiklaust gerð og nokkuð einsleit.  Hún kvað það benda til þess að sýnishornin gæfu rétta mynd af því hvernig þau rituðu nafnið.  Þá var og rannsakað hvort sami aðili hefði undirritað öll skjölin og hafi hún fundið svo mikið innra samræmi í þeim að allt benti til þess að sami aðili hefði gert það.  Hún kvaðst einnig hafa borið undirritanirnar undir skjölin saman við nafnritun ákærðu og kvaðst hún hafa fundið margar samsvaranir þar á milli, bæði varðandi stílinn almennt sem og form einstakra bókstafa.  Þessar samsvaranir voru það miklar að allt benti til þess að ákærða hefði sjálf undirritað skjölin.  Hún kvaðst einnig hafa borið undirritanirnar undir skjölin saman við sýnishorn frá A og þá bara fundið hversdagslegan svip og þá aðeins við gerð stafsins e í eftirnafninu.  Að öðru leyti var um frávik að ræða og þau bentu eindregið til þess að hann hefði ekki ritað undir skjölin.  Hún kvað annan sérfræðing hafa farið yfir niðurstöðu sína og hann hafi staðfest hana.  

                Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður staðfesti að hafa samið tryggingabréfið sem um ræðir í málinu, það er skrifað meginmálið og sent það frá sér í tölvupósti til A, en hann var þá í Istanbul.  Ragnar kvaðst hafa fengið það staðfest frá ákærðu að henni væri kunnugt um að A hefði leitað til hans um gerð tryggingabréfsins og hún væri samþykk því að láta honum trygginguna í té.  Hann kvaðst hafa haft áritun fyrir vottana bæði á ensku og íslensku, enda gat hann ekki vitað hverjir vottarnir yrðu og hvort þeir skildu íslensku. 

                Eiríkur Gunnsteinsson héraðsdómslögmaður staðfesti að hann hefði samið skuldaviðurkenninguna.  Hann hefði haft upplýsingar um fjárhæðina frá A. 

                D, faðir A, staðfesti að hann hefði samið framangreint veðskuldabréf með aðstoð A.  Hann kvað ákærðu hafa skuldað sér og A peninga.  D kvaðst hafa rætt við ákærðu um skuldina þar sem hún var í Tyrklandi.  Það varð úr að hann lánaði henni þessa fjárhæð.  A hafi fengið hluta til að greiða reikninga fyrir ákærðu, en hluta hafi hann sjálfur notað til að greiða skuldir ákærðu.  

IV

Ákærða neitar sök og hún neitar einnig að hafa undirritað þau þrjú viðskiptabréf sem um ræðir í málinu.  Hún hefur hins vegar kannast við að hafa látið lögmann sinn kæra fölsun á nafni sínu á bréfunum til lögreglu.  Hér að framan var gerð grein fyrir niðurstöðu rithandarrannsóknar, en samkvæmt henni undirritaði ákærða þessi þrjú skjöl.  Þá hafa vottarnir að skuldaviðurkenningunni borið að hafa verið viðstaddir þegar ákærða undirritaði hana.  A vottaði undirritun ákærðu á hin bréfin ásamt dóttur hennar og bar hann að hún hefði undirritað þau í sinni viðurvist.  Dóttir ákærðu bar á annan veg, eins og rakið var, en vegna tengsla hennar við ákærðu verður ekki á því byggt.  Með vísun til þessa telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærðu, að hún hafi sjálf ritað nafn sitt á þau þrjú viðskiptabréf sem fjallað hefur verið um.  Þrátt fyrir þetta lét ákærða lögmann sinn kæra fölsun á nafni sínu til lögreglu og lýsti því síðan í lögregluskýrslu 27. nóvember 2007 að hún grunaði A, eða einhvern á hans vegum, um fölsunina.  Með þessu kom ákærða því til leiðar að hann var ranglega sakaður um skjalafals.  Samkvæmt framansögðu verður ákærða sakfelld fyrir það sem henni er gefið að sök í ákærunni og er brot hennar þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærða hefur ekki áður gerst sek um lögbrot og er refsing hennar hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og segir í dómsorði.

                               Ákærða verður dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns eins og nánar greinir í dómsorði.

                                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Sophia Guðrún Hansen, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærðu, haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærða greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.