Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 31. ágúst 2005. |
|
Nr. 377/2005. |
Hagsmunafélag húseigenda og íbúa við Melateig á Akureyri (Sigmundur Guðmundsson hdl.) gegn Akureyrarbæ (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
H krafðist fyrir dómi ógildingar á deiliskipulagi tiltekins reits á Eyrarlandsholti á Akureyri og lóðarleigusamnings um tiltekna lóð við Melateig á Akureyri, auk greiðslu skaðabóta. Talið var, að kröfur H um ógildingu deiliskipulags og lóðarsamnings væru alltof víðtækar, sem myndi leiða til þess, yrðu þær teknar til greina, að raskað yrði hagsmunum sem engin deila stæði um. Þegar af þeirri ástæðu yrði að vísa þeim kröfum H frá dómi. Þá var talið óhjákvæmilegt, eins og málum væri háttað, að réttarstaða sérhvers eiganda, sem stóð að H, kæmi sjálfstætt til skoðunar í tengslum við mögulegan bótarétt. Þótti kröfugerð H ekki uppfylla skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála að þessu leyti, og var þeirri kröfu einnig vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 10. ágúst 2005, sem barst réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júlí 2005 þar sem vísað var frá dómi kröfum sóknaraðila varðandi ógildingu deiliskipulags reits nr. 3 á Eyrarlandsholti á Akureyri og lóðarleigusamnings um lóð nr. 1 41 við Melateig á Akureyri 22. desember 1999 auk greiðslu skaðabóta að fjárhæð 24.893.221 krónu ásamt málskostnaði. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Fallist verður á með varnaraðila að kröfur sóknaraðila í fyrsta og öðrum lið kröfugerðar hans séu alltof víðtækar, sem myndi leiða til þess, yrðu þær teknar til greina, að raskað yrði hagsmunum sem engin deila stendur um. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um þriðja lið kröfugerðarinnar verður niðurstaða hans staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Úrskurður héraðsdóms er staðfestur.
Sóknaraðili, Hagsmunafélag húseigenda og íbúa við Melateig á Akureyri, greiði varnaraðila, Akureyrarbæ, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júlí 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu stefnda eftir munnlegan málflutning þann 14. júlí sl., hefur Hagsmunafélag húseigenda og íbúa við Melateig á Akureyri, kt. 671101-2430, Melateigi 1, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi með stefnu birtri 22. júní 2004, á hendur Kristjáni Þór Júlíussyni f.h. Akureyrarbæjar, kt. 150757-2669, Geislagötu 9, Akureyri.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:
Að ógilt verði með dómi deiliskipulag skipulagsreits nr. 3 á Eyrarlandsholti á Akureyri, er samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akureyrar, þann 7. september 1999 og gildi tók með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 21. febrúar 2000.
Að ógiltur verði með dómi lóðarleigusamningur um lóð við Melateig nr. 1-41 á Akureyri er gerður var milli stefnda og Byggingarfélagsins Hyrnu ehf. þann 22. desember 1999.
Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 24.893.221.- ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 696.529.- frá stefnubirtingardegi til greiðsludags og af kr. 24.196.692.-, frá 13. febrúar 2005 til greiðsludags.
Að stefndi verði í öllum tilfellum dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.
Aðalkrafa stefnda er að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi.
Til vara krefst stefndi þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Til þrautarvara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Stefndi krefst þess að honum verði tildæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda, samkvæmt mati dómsins.
Málavextir.
Þann 1. september 1998 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Eyrarlandsholti á Akureyri. Í byggingar-, skipulags- og úthlutunarskilmálum, dags. 11. nóvember 1998, kemur fram að deiliskipulagið taki til svæðis sem sé samtals 9.2 hektarar að stærð og að þar sé gert ráð fyrir sex skipulagsreitum. Við gerð deiliskipulags fyrir Teigahverfi á Eyrarlandsholti var m.a. áformað af hálfu stefnda, Akureyrarbæjar að úthluta byggingarreitum I, II, og III til byggingarfélaga.
Fyrir liggur, að þann 29. september 1998 hafi stefndi sent Skipulagsstofnun deiliskipulagið til yfirferðar, en með bréfi til stefnda dags. 8. október s.á., hafi stofnunin samþykkt að stefndi auglýsti deiliskipulag fyrir skipulagsreiti nr. IV, V og VI. Í bréfi Skipulagsstofnunar til stefnda, dags. 27. október 1998, komi hins vegar fram að margar skipulagsákvarðanir hafi ekki verið teknar varðandi skipulagsreiti nr. I, II og III og varðað gætu hagsmuni ýmissa, þ.á.m. framtíðaríbúa þeirra hverfa er þar yrðu byggð. Kemur fram að stofnunin hafi bent á að ekki væri í skipulagi gerð grein fyrir húsagötum, lóðum, byggingarreitum o.fl. og hafi hún því hafnað því að stefndi auglýsti deiliskipulag á umræddum reitum. Hafi stofnunin gert kröfu um að deiliskipulagstillögur vegna umræddra skipulagsreita yrðu auglýstar eins og um sérstakt deiliskipulag væri að ræða og hafi stefndi því auglýst þann 13. nóvember 1998 í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulags vegna íbúðarsvæðis á Eyrarlandsholti að undanskildum skipulagsreitum I, II og III, sem skyldu deili-skipulagðir sérstaklega.
Haustið 1998 auglýsti stefndi byggingarreiti í Teigahverfi lausa til umsóknar og sótti Byggingarfélagið Hyrna ehf. m.a. um reit III eða Melateig og fékk hann úthlutaðan, en félagið öðlaðist byggingarleyfi á lóðinni í nóvember og desember árið 1999. Þann 22. desember 1999 var gerður lóðaleigusamningur milli stefnda og Hyrnu ehf., þar sem félaginu var seld á leigu lóð nr. 1-41 við Melateig. Í samningi komi fram að lóðin sé 20.026 fermetrar og að um hana gildi ákvæði deiliskipulags um íbúðabyggð á Eyrarlandsholti sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Akureyrar þann 1. september 1998 og af Skipulagsstofnun þann 29. október s.á.
Þann 1. júní 1999 barst stefnda skýringaruppdráttur frá Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf., f.h. byggingarfélagsins, þar sem lagður var til hringakstur og húsagerð, þ.m.t. þrjú raðhús, fjögur parhús og fimm fjölbýlishús, en sá skýringaruppdráttur varð síðan að deiliskipulagi stefnda. Stefndi auglýsti deiliskipulag á skipulagsreit nr. 3 við Melateig í dagblöðum þann 23. júní 1999 og var það samþykkt í bæjarstjórn í september s.á. án þess að athugasemdir hafi verið gerðar. Samkvæmt deiliskipulaginu hafi verið gert ráð fyrir alls 20 íbúðum í rað- og parhúsum og 20 íbúðum í fimm 2ja hæða fjölbýlishúsum. Skipulagið hafi gert ráð fyrir að húsin stæðu á einni sameiginlegri lóð, en hverri íbúð í rað- og parhúsum hafi fylgt afmarkaður lóðarhluti til einkaafnota og íbúðum á jarðhæðum fjölbýlishúsa fylgdi lóðarhluti til sérnota. Samkvæmt deiliskipulaginu og úthlutunar- og skipulagsskilmálum hafi verið gert ráð fyrir að lóð undir götumannvirki og opið leiksvæði væru í sameign eigenda fasteigna við Melateig.
Þann 28. september 1999 sendi stefndi Skipulagsstofnun deiliskipulag þetta til yfirferðar. Við meðferð þess hjá Skipulagsstofnun haust og fyrri hluta vetrar 1999 komu fram athugasemdir af hálfu stofnunarinnar þess efnis, að mikilvægt væri að í skipulagi væri gerð grein fyrir þeim kvöðum sem íbúar tækju á sig vegna sameiginlegrar lóðar. Stefndi kveðst hafa brugðist við athugasemdum stofnunarinnar um að breyta skipulagsuppdrætti, sbr. bréf stefnda til stofnunarinnar dags. 5. janúar 2000, en með bréfi dags. 21. s.m. féllst stofnunin á að stefndi auglýsti um gildistöku deiliskipulagsins og var það birt í B-deild stjórnatíðinda þann 21. febrúar 2000 og öðlaðist gildi frá og með þeim degi.
Byggingarfélagið Hyrna ehf. hafi síðan hagað uppbyggingu á reitnum samkvæmt eftirspurn og greiddi gatnagerðargjald til stefnda skv. lögum, reglum og samningi. Mikil eftirspurn hafi verið eftir íbúðum og hafi þær selst upp á skömmum tíma. Í ákvæði 2.6 í lóðaleigusamningi milli stefnda og byggingarfélagsins Hyrnu ehf. komi fram, að um lóðina gildi ákvæði deiliskipulags um íbúðarbyggð á Eyrarlandsholti og að lóðarhafi hafi fengið í hendur byggingar- og skipulagsskilmála lóðarinnar og hafi kynnt sér þá og sé samþykkur að hlíta þeim í hvívetna. Þá komi fram að við sölu eigna á lóðinni skuli lóðarhafi greina kaupendum frá ákvæðum skilmálanna og kvöðum á lóðinni.
Í framhaldi af þessu upphófst ágreiningur sá milli málsaðila sem mál þetta snýst um og stefnandi lýsir svo, að stefndi telji sig ekki vera eiganda að tilteknum götumannvirkjum og opnu leiksvæði á lóðinni og telji sig ekki bera skyldu til þess að annast viðhald og rekstur þeirra svæða, heldur teldi það á forræði íbúa sem skyldu enn fremur bera af því kostnað. Með bréfi dags. 23. nóvember 2001 fóru félagsmenn stefnanda fram á að stefndi endurgreiddi þeim gatnagerðargjald og endurskoðaði skipulag fyrir Melateig, en því hafi verið hafnað af stefnda.
Þann 24. maí 2002 beindi stefnandi stjórnsýslukæru til félagsmála-ráðuneytisins og fór fram á endurgreiðslu gatnagerðargjalds og endurskoðun á skipulagi við Melateig. Með úrskurði 28. ágúst 2002 ákvað ráðuneytið að láta málið til sín taka á grundvelli 102. gr. sveitastjórnarlaga og lá álit þess fyrir þann 22. apríl 2003. Komi þar m.a. efnislega fram, að stefnda hafi verið heimilt að fela lóðarhafa við Melteig gatnagerð á lóðinni, enda hafi stefndi gert skýran fyrirvara um slíkt í lóðarskilmálum, en hins vegar væri stefnda ekki heimilt að fela félagsmönnum stefnanda eignarhald á götunni. Af því leiði að stefnda beri að annast viðhald og umhirðu götunnar Melateigs og götumannvirkja við hana, þ.m.t. við opin svæði fyrir utan lóðir fasteignaeigenda, leikvalla, o.fl. Hafi það verið mat ráðuneytisins að það fyrirkomulag skipulags að byggja götu á einni óskiptri lóð eins og við Melateig hafi í för með sér margvíslega ókosti fyrir íbúa. Væri eðlilegra að afmarka lóðir fyrir hvert fjölbýlishús og afmarka sérstaklega svæði undir götur, gangstéttir bílastæði og opin svæði auk annarra skilgreindra svæða sem geti verið fyrir hendi í slíkum hverfum. Slíkt fyrirkomulag væri heppilegra og í betra samræmi við markmiðsákvæði skipulags- og byggingarlaga.
Í kjölfar álitsins var stefnanda tilkynnt að stefndi myndi vinna að tillögum til lausnar málsins, en við þá tillögugerð hafi stefndi haft til hliðsjónar nýja kröfugerð stefnanda, sbr. bréf dags. 8. ágúst 2003, þar sem stefnandi hafi ekki lengur gert kröfu um endurgreiðslu gatnagerðargjalds, heldur kröfu til endurgreiðslu kostnaðar við gerð götumannvirkja, breytingar á skipulagi o.fl. Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 7. október 2003 hafi verið samþykkt eftirfarandi bókun bæjarráðs frá 23. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi við Melteig.
"Bæjarráð samþykkir að Akureyrarbær taki að sér rekstur og viðhald götumannvirkis og opinna svæða í Melteigi, þ.m.t. götulýsingu og holræsakerfi að lóðarmörkum. Um er að ræða þann hluta götunnar þar sem hringakstur fer fram en undanskilin væri akstursleið fyrir framan hús nr. 39 og 41. Þá lýsir bæjarráð sig reiðubúið til að breyta skipulagi innan svæðisins í Melateigi með eftirfarandi hætti: Hús við Melateig nr. 1-3, 5-7, 9-11, 13-15, 2-8, 17-21 og 23-31 fái hvert sína lóð. Hús við Melateig nr. 33-37 verði á einni lóð svo og hús við Melateig nr. 39-41. Auk þess sem Melateigur 33-41 fái lóð undir bílageymslu, sbr. 22. gr. fjöleignahúsalaga nr. 26/1994 og leiksvæði sbr. 65. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998. Komist aðilar að samkomulagi um nýtt fyrirkomulag mun Akureyrabær gera breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Þá samþykkir bæjarráð, að Akureyrarbær mun gegn afhendingu sundurliðunar kostnaðar taka afstöðu til þátttöku í lögfræðikostnaði íbúa við Melateig sem fallið hefur til vegna öflunar álits félagsmálaráðuneytisins dags. 22 apríl 2003. Öðrum kröfum íbúa við Melateig er hafnað."
Í bréfi dags. 18. október 2003, var því lýst af hálfu stefnanda, að ekki yrði fallist á bókun bæjarstjórnar Akureyrar frá 7. október sem lausn á málinu til samræmis við þær leiðbeiningar sem fram komi í áliti félagsmálaráðuneytisins. Á fundi aðila þann 23. október náðist ekki samkomulag og var félagsmálaráðuneytinu send tilkynning um það þann 24. s.m. Hafa aðilar ekki náð saman síðar og leiddi til þess að stefnandi afréði að hefja málssókn þessa.
Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda sem sóknaraðila.
Stefndi byggi frávísunarkröfu í málinu, í fyrsta lagi á því að stefnandi höfði málið á grundvelli ólögmæts málssóknarumboðs, í öðru lagi á því að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni varðandi þá kröfugerð sem hann hafi uppi, en í þriðja lagi á því að kröfugerð stefnanda sé svo vanreifuð að vísa beri henni frá dómi.
Í fyrsta lagi sé það, að stefnandi höfði málið á grundvelli ólögmæts málssóknarumboðs og sé að rekja til þess að stefnandi geti ekki að réttum lögum rekið dómsmál þetta í eigin nafni og séu fyrir því ástæður sem varði bæði málsóknarumboð og heimildarskjöl.
Er á því byggt af hálfu stefnda, að stefnandi og þeir hagsmunir sem hann æski dóms um í máli þessu falli ekki að hugtaksskilyrðum 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ekki standist áskilnað þess ákvæðis að stofna félag sérstaklega í þeim tilgangi að efna til málareksturs sem þessa. Upplýst sé að hluti af félagsmönnum stefnanda sem stóðu að samþykkt um málshöfðun þessa séu ekki fasteignaeigendur að Melateig heldur búseturétthafar og eigi því ekki lögvarða hagsmuni á dómi í máli þessu. Jafnframt liggi fyrir að stærsti einstaki eigandi húsnæðis að Melateigi, Búmenn hsf. eigi ekki aðild að stefnanda og sé þegar af þeirri ástæðu um að ræða ólögmætt málsóknarumboð sem leiði til frávísunar málsins.
Kröfugerð stefnanda lúti m.a. að fjárkröfum sem einstakir eigendur fasteigna að Melateig leiði af eignarétti sínum. Slíkir fjárhagslegir hagsmunir falli ekki undir þá hagsmuni sem unnt sé að sækja sameiginlega í skilningi 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem þeir eigi ólíkan uppruna í einstökum heimildarskjölum fasteignareigenda.
Grundvöllur krafna eigenda við Melateig sé mismunandi enda séu heimildaskjöl þeirra ólík að efni og inntaki. Sumir eigenda hafi keypt af byggingarfélaginu án þess að getið hafi verið um kvaðir á lóð, en í skjölum annarra komi slíkir fyrirvarar fram. Enn aðrir hafi keypt af upphaflegum eigendum sem keypt hafi af byggingarfélaginu Hyrnu ehf. án þess að upplýst hafi verið um meinta ágalla á lóð fasteignanna að Melateig í þeim viðskiptum.
Það sé afdráttarlaust grundvallaratriði fyrir bótaskyldu stefnda, að einstakir eigendur hafi verið grandlausir um meint ólögmætt athæfi stefnda. Eins og greina megi af gögnum máls virðist þessu atriði geta verið mjög mismunandi farið í tilviki einstakra eiganda. Eigendur Melateigs geti ekki komist undan hugsanlegri grandsemi sinni og réttarfarslegum afleiðingum hennar með því einu að tefla stefnanda fram sem sækjanda málsins í eigin nafni. Vilji eigendur Melateigs halda málssókn sem þessari til dóms sé óhjákvæmilegt að réttarstaða hvers og eins komi til skoðunar og úrlausnar. Á slíku hafi stefnandi ekki forræði né sé honum það unnt og því verði ekki leyst úr þessu máli á grundvelli málssóknarumboðs stefnanda.
Í öðru lagi sé um að ræða skort á lögvörðum hagsmunum stefnanda af því að fá deiliskipulag Melateigs fellt úr gildi. Sú kröfugerð leiði ekki til lausnar á réttarágreiningi aðila og sé ekki á forræði stefnanda eða einstakra eigenda Melateigs. Kröfugerð stefnanda sé allt of víðtæk þannig að raskað yrði hagsmunum sem engin deila standi um auk þess sem hún sé algerlega óafmörkuð. Feli slík kröfugerð í raun í sér lögspurningu án þess að leyst yrði úr réttarágreiningi og sé slíkt í andstöðu við lög um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 25. gr. Krafa um ógildingu lóðaleigusamnings um lóðina Melateig 1-41 sé einnig sama marki brennd.
Skaðabótakrafa stefnanda sé þannig að hann hafi á engan hátt sannað eða gert sennilegt að hann fari með alla þá fjárhagslegu hagsmuni sem hann krefjist dóms fyrir í máli þessu. Almennt orðað framsal án afmörkunar á því hvað verið sé að framselja marki engan slíkan grundvöll og skorti því á lögvarða hagsmuni stefnanda í þessum efnum sem öðrum.
Í þriðja lagi sé um að ræða vanreifun kröfugerðar af hálfu stefnanda, einkum varðandi fjárkröfu hans. Fjárkrafan sé svo vanreifuð að ómögulegt sé fyrri stefnda að átta sig á henni. Virðist kröfugerðin vera í miklu innbyrðis ósamræmi, þannig að bæði virðist höfð uppi krafa um endurgjald fyrir gatnaframkvæmdir og endurkrafa vegna lóðaréttinda, en ekkert mat liggi fyrir vegna þess þáttar. Um ógildingarkröfur stefnanda gildi ámóta rök um vanreifun og þau sem rakin hafi verið um lögvarða hagsmuni. Stefnandi hafi á engan hátt skýrt til hvers krafa hans eigi að leiða eða úr hvaða réttarágreiningi yrði leyst með dómi skv. kröfu stefnanda.
Virðist mega draga þá ályktun af kröfu stefnanda, að hann vilji bæði fá greiðslu vegna allra lóðaframkvæmda og gatnaframkvæmda, án þess að nokkur sönnun liggi fyrir um að hann hafi nokkurn tíma greitt þann kostnað. Þá fari hann fram á verðmæti lóðaréttinda sem séu í eigu stefnda. Óháð sönnunarskorti á meintu tjóni stefnanda sé algerlega óútskýrt af hans hálfu á hvern hátt þessar fjárkröfur séu samþýðanlegar eða samrættar, skv. 1. mgr. 27. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en algerlega sé ósundurliðað af hálfu stefnanda hve há fjárhæð hvor kröfuliður sé. Hafi þá ekki verið minnst á kröfur fyrir garðslátt og snjómokstur sem ekki verði á nokkurn hátt séð hvernig samþýða megi nefndum kröfuliðum. Þá sé vanreifað á hvern hátt stefndi hafi bakað sér bótaskyldu vegna þess hluta lóðarinnar sem íbúarnir hafi kosið að nýta sem sameiginlegt leiksvæði barna sinna og hvers vegna stefndi eigi að endurgreiða viðkomandi lóðaréttindi, sbr. 65. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Hvað sem líði mögulegri skaðabótaskyldu, geti greiðsla vegna framkvæmdakostnaðar, lóðarleigu eða lóðarréttinda sem byggingarfélagið Hyrna ehf. sem þriðji maður greiddi í samræmi við lóðaleigusamning, aldrei fallið undir það að teljast skaðabótakrafa sem njóti 10 ára fyrningarfrests skv. fyrningarlögum nr. 14/1905. Slík krafa myndi að mati stefnda lúta reglum um leigugreiðslur eða reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár, en slíkar kröfur fyrnist á fjórum árum, skv. 3. gr. laga nr. 15/1905. Eðli kröfu stefnanda sé með vísan til þessa svo óljóst að dómur verði ekki á hana lagður. Óskýrleiki kröfugerðar stefnanda sé í mikilvægum efnum slíkur að ekki liggi fyrir hvaða fjárhæð tilheyri hverju og verði að telja það fara í bága við 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ætti að leiða frávísunar, sbr. 100. gr. sömu laga. Stefndi byggi m.a. frávísunarkröfu sína á lögum um meðferð einkamála í héraði, nr. 91/1991, einkum 1. og 3. mgr. 25. gr.., 1. mgr. 27. gr., 80. gr., 100. gr., og XXI. kafla.
Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda sem varnaraðila.
Kröfugerð stefnanda byggi á því, að stefndi hafi tekið ólögmæta ákvörðun um deiliskipulag og útgáfu lóðaleigusamnings á skipulagsreit nr. III á Eyrarlandsholti við Melateig, þar sem eigendum fasteigna þar sé gert að eiga lóðaréttindi á sameiginlegri lóð undir götumannvirki og opið leiksvæði og að sjá um viðhald og rekstur þeirra svæða. Með ákvörðun sinni hafi stefndi enn fremur valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri ábyrgð á.
Af hálfu stefnanda er gerð krafa um að framkominni frávísunarkröfu stefnda verði hafnað, með vísan til eftirfarandi:
Stefnandi telji að málatilbúnaður stefnda sé ekki í samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað, sbr. e og f-liðir 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Telji stefnandi að málsástæður stefnda séu óskýrar og frásögn stefnda af öðrum atvikum sé ekki í tengslum við þær og beri því að taka til greina kröfu stefnanda um höfnun frávísunar.
Staðhæfingu stefnda um að málsóknarumboð stefnanda stríði gegn 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé hafnað. Að málssókn sé studd við þá lagaheimild þýði ekki að hún sé í skjóli málsóknarumboðs. Málsóknarumboð geti stuðst við ákvæði settra laga eða viljayfirlýsingu þess sem eigi hina lögvörðu hagsmuni og séu ekki almennar takmarkanir á því hverjum það verði veitt. Málsókn í skilningi 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé hins vegar málsóknarréttur félaga eða samtaka til að höfða mál í eigin nafni til viðurkenningar á tilteknum réttindum eða til lausnar undan skyldu, ótiltekinna félagsmanna. Aðild félags sé þá ekki heimil nema teljist samrýmanleg tilgangi félagsins, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 277/2001. Beri því að hafna þeirri málsástæðu stefnda að stefnandi geti ekki rekið mál þetta í eigin nafni með vísan til ófullnægjandi málsóknarumboðs. Framsetning málsástæðna stefnda sé óskýr og blandi hann saman umfjöllun um ólík heimildarskjöl þeirra er standi að stefnanda og umfjöllun um málssóknarumboð. Stefndi virðist í tengslum við umfjöllun um heimildarskjöl fjalla um skilyrði fyrir bótaskyldu sem varði efnisatriði máls en ekki formhlið þess. Sama gildi um umfjöllum stefnda sem snerti það hvernig aðild stefnanda sé háttað.
Varðandi þá málsástæðu að kröfugerð stefnanda sé vanreifuð, þá skorti algerlega að stefndi útskýri það frekar og varði athugasemdir hans einkum efnishlið máls. Sú staðahæfing stefnda, að stefnandi hafi ekki fært fram rök fyrir tilgangi kröfu um ógildingu deiliskipulags sé ekki útskýrð af hálfu stefnda. Umfjöllun um eðli kröfu stefnanda og mögulega fyrningu hennar eigi enn fremur undir efnismeðferð máls en ekki umfjöllun um formhlið þess.
Stefnandi sæki umboð sitt til málssóknar til almenns fundar frá 20. júní 2004, en á þeim fundi hafi allir eigendur fasteigna við Melateig samþykkt málshöfðun þessa, auk þess sem eigendur fasteigna hafi einnig framselt kröfur sínar til stefnanda. Sé á því byggt að stefnandi sé húsfélag eða eftir atvikum lóðafélag og starfi skv. lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, en félagsmenn stefnanda séu eigendur fasteigna og búseturéttar við Melateig. Þátttaka fasteignaeigenda í slíku húsfélagi sé skyldubundinn og geti slíkt félag átt aðild að dómsmálum, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 64/2004. Samkvæmt 57. gr. laga nr. 26/1994 sé valdsvið húsfélaga bundið við sameign og sameiginlega hagsmuni eigenda fasteignar en málsókn þessi lúti einmitt að þeim þáttum. Stefnandi mótmæli því að félagið hafi verið sérstaklega stofnað í þeim tilgangi að efna til þessa málareksturs og hafi stefndi ekki borið brigður á að stefnandi kæmi fram f.h. fasteignaeigenda á fyrri stigum málsins.
Verði litið svo á að stefnandi komi fram í skjóli málssóknarumboðs, þá séu engar almennar takmarkanir á því hverjum það verði veitt og að svigrúm til þess sé háð sakarefni. Ekki hafi verið nauðsynlegt fyrir Búmenn hsf. að veita stefnanda málssóknarumboð vegna þessa máls. Hafi það þó verið heimilt engu að síður og verði yfirlýsing Búmanna hsf. ekki skilin öðruvísi en svo að félagið samþykki málsókn þessa. Teljist Búmenn hsf. lögum samkvæmt vera aðilar að stefnanda þótt það hafi aldrei gengið sérstaklega í félagið.
Einu gildi þótt að stefnanda standi auk eigenda búseturéttarhafar sem stefndi telji ekki eiga lögvarða hagsmuni af málsókn, en af hálfu stefnda hafi þó ekki verið byggt á því að málssókn stefnanda væri ótæk af þeirri einu ástæðu að búseturétthafar hafi greitt atkvæði um hana. Mótmælt sé að búseturéttarhafar eigi ekki lögvarða hagsmuni af málsókn, en þeir beri skyldur og kostnað tengt viðhaldi sameignar sem séu þyngri en almennt gerist um skyldur búseturétthafa og stafi af umdeildu deiliskipulagi og lóðasamningi af hálfu stefnda. Varhugavert sé að fullyrða að búseturétthafar geti ekki átt aðild að húsfélögum, en það skipti þó ekki máli hér þar sem allir eigendur fasteigna við Melateig hafi samþykkt málssóknina.
Verði ekki fallist á að stefnandi komi fram sem húsfélag, telji stefnandi að eigi að síður hafi verið lögmætt að stofna til félagsins til að halda utan um sameiginlega hagsmuni íbúa við Melateig svo sem hér sé gert. Því sé mótmælt að ekki standist áskilnað 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að stofna félag til að annast málarekstur sem þennan, en skilyrði slíkrar hagsmunagæslu sé þau að hún samrýmist lögmætum tilgangi félags. Beri í því sambandi að líta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 116/1984.
Stefnandi hafni því að félagið geti ekki rekið mál þetta sökum þess að grundvöllur krafna er búi að baki heildarkröfu stefnanda sé mismunandi. Þótt sumir fasteignaeigenda við Melateig hafi keypt fasteignir af upphaflegum eigendum, hafi langflestir þeirra keypt af Hyrnu ehf., en það skipti þó ekki máli varðandi kröfugerð stefnanda. Sé því og hafnað að stefnandi geti ekki rekið málið þar sem heimildarskjöl séu ólík að efni og inntaki. Krafa stefnanda varði aðeins sameignarréttindi, þ.e. lóð undir götumannvirki og opin svæði. Þá liggi fyrir að aðilar að húsfélagi sem öðlast hafi eignarréttindi með ólíkum samningum þurfi ekki að framselja kröfur sínar til húsfélagsins svo það geti höfðað mál um efni varðandi sameignina, en það sé hins vegar mál einstakra íbúðareigenda hvernig þeir geri upp sín í milli, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 378/1994. Stefndi haldi því í raun fram að stefnandi geti ekki átt aðild að málinu eins og því sé háttað, en spursmál um aðildarskort lúti ekki að formhlið máls sem hér sé til umfjöllunar.
Stefnandi hafni þeirri málsástæðu stefnda, að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um að deiliskipulag Melateigs verði fellt úr gildi. Stefnandi telji miklu varða fyrir sig og félagsmenn sína að fá slíkan dóm, en það sé stefnda að sýna fram á að dómur um efnið hafi ekkert gildi fyrir stefnanda, sem hann hafi ekki gert.
Stefndi hafi hafnað því að taka að sér rekstur götumannvirkis fyrir framan húseignir við Melateig nr. 39 og 41, en samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri sveitarfélög ábyrgð á og annist gerð deiliskipulaga. Yrði orðið við kröfu stefnanda um ógildingu deiliskipulags, kæmi upp sú staða að stefnda yrði gert að gera nýtt deiliskipulag og gætu stefnandi og félagsmenn hans þá komið að athugasemdum í tengslum við gerð þess. Sé krafa stefnanda hliðstæð því að gerð sé krafa um ógildingu málsmeðferðar við gerð deiliskipulags. Stefnanda sé nauðugur sá kostur að krefjast ógildingardóms þar sem stefndi hafi skirrast við að fara eftir leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins. Stefnandi mótmæli því að krafa um ógildingu raski hagsmunum sem engar deilur standi um, en líta beri til þess að stefndi hafi ekki verið til viðræðna um lausn málsins.
Því sé mótmælt að kröfugerð um ógildingu deiliskipulags sé ekki á forræði stefnanda, en allir eigendur fasteigna við Melateig auk búseturétthafa teljist standa að stefnanda. Sé og hafnað þeirri staðhæfingu stefnda, að krafa stefnanda um ógildingu deiliskipulags feli í sér lögspurningu án þess að leyst yrði úr réttarágreiningi aðila. Kröfugerð stefnanda lúti að lögmæti tiltekinna ákvarðanna stjórnvalds við gerð deiliskipulags og við útgáfu lóðaleigusamnings. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um þessar kröfur sínar í málinu.
Stefnandi telji kröfu sína um skaðabætur vera skýra og varði einungis skaðabætur vegna sameignar. Stefnandi mótmæli þeirri staðhæfingu stefnda, að kröfugerð stefnanda teljist vanreifuð. Stefnandi hafi í stefnu gert ítarlega grein fyrir málsgrundvelli og hvað varði skaðabótakröfur stefnanda sérstaklega, þá sé byggt á því að eigendur fasteigna við Melateig hafi orðið fyrir fjártjóni vegna ákvarðanna stefnda um deiliskipulag og lóðaleigusamning. Stefndi beri ábyrgð á því fjártjóni og beri honum að bæta það skv. reglum skaðabótaréttar. Deiliskipulagið og lóðaleigusamningur séu ólögmæt þar sem hvoru tveggja stríði gegn settum lögum og sjónarmiðum um jafnræði. Séu einstakir kröfuliðir nægilega sundurliðaðir og rökstuddir þrátt fyrir breytta kröfugerð stefnanda til lækkunar. Krafa stefnanda sé skaðabótakrafa vegna tjóns og afleidds kostnaðar sem stefndi beri ábyrgð á.
Stefndi haldi því fram að óútskýrt sé að hvaða marki kröfur stefnanda séu samrættar eða samþýðanlegar í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi mótmæli því en telji það hins vegar hlutverk stefnda að sýna fram á að svo sé, sbr. og dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 252/1996.
Mótmæli stefnandi því sérstaklega að vanreifað sé á hvern hátt stefndi hafi bakað sér bótaskyldu vegna þess hluta lóðar sem íbúar hafi kosið að nýta sem sameiginlegt leiksvæði fyrir börn, en í deiliskipulagi sé sérstaklega gert ráð fyrir að umrætt svæði sé leiksvæði. Mótmælt sé sérstaklega þeirri staðhæfingu stefnda að leigjendur standi einnig að stefnanda, en aðeins fasteignaeigendur og búseturétthafa eigi aðild að félaginu. Fallist dómur á að vísa frá dómi kröfum stefnanda um ógildingu deiliskipulags og lóðaleigusamnings, telji stefnandi sig engu að síður eiga hagsmuni af því að fá dóm um skaðabótakröfu sína í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 68/2005
Um aðild stefnanda vísist til 2. mgr. 71. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Krafa um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Niðurstaða.
Fallist er á með stefnanda, að álitaefni varðandi fyrningu krafna og mögulegan aðildarskort stefnanda varði ekki formhlið máls og kemur því ekki til skoðunar á þessu stigi málsins.
Stefndi byggir einkum frávísunarkröfu sína á því að stefnanda skorti gilt málsóknarumboð til að geta rekið mál þetta í skilningi 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Í 2. mgr. gr. 3. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 segir:
Í ljósi ofangreinds ákvæðis verður að leggja til grundvallar að þau húsfélög sem standa að stefnanda geti talist hæf til að koma sameiginlega fram í dómsmáli sem varði sameiginlega hagsmuni á borð við sameign í skjóli 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda hefur komið fram að ákvörðun um málssókn þessa hafi verið réttilega tekin á löglegum fundi allra núverandi fasteignaeigenda við Melateig þann 22. nóvember 2001, en af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að sú ákvörðun þeirra er standa að húsfélögunum gangi í berhög við áskilnað laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Í kröfulið I og II gerir stefnandi kröfu um að ógilt verði með dómi deiliskipulag skipulagsreits nr. 3 á Eyrarlandsholti á Akureyri sem gildi tók 21. febrúar 2000, sem og um að ógiltur verði með dómi lóðarleigusamningur um lóð við Melateig nr. 1-41 á Akureyri, sem gerður var milli stefnda og Byggingarfélagsins Hyrnu ehf. þann 22. desember 1999.
Við mat á þessum kröfuliðum ber að líta til þess að deiliskipulag fyrir íbúðarhverfi felur í sér almenna stjórnvaldsákvörðun sem ekki er beint sérstaklega að stefnanda og kann að snerta hagsmuni fleiri aðila. Er fallist á það með stefnda, að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega fram á að hann hafi tiltekna lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um ógildingu framangreindra stjórnvaldsathafna í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa ofangreindum kröfum stefnanda frá dómi.
Í kröfulið nr. III í stefnu gerir stefnandi enn fremur kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna ætlaðs fjártjóns sem hann telur stefnda bera ábyrgð á, en undir rekstri málsins hefur stefnandi breytt kröfugeð sinni til lækkunar.
Verður við mat á framsetningu kröfugerðar stefnanda um skaðabætur að líta til þess að hagsmunir þeirra aðila er standa að stefnanda virðast eiga sér uppruna í mismunandi heimildarskjölum einstakra fasteignaeigenda við Melateig. Liggur fyrir að í nokkrum tilvikum hefur ekki verið getið um kvaðir tengt sameiginlegri lóð í kaupsamningum á milli Hyrnu ehf. og síðari kaupenda, en því virðist í reynd afar mismunandi farið. Virðist óhjákvæmilegt við þessar aðstæður að réttarstaða sérhvers eiganda komi sjálfstætt til skoðunar og úrlausnar í tengslum við mögulegan bótarétt, en kröfugerð stefnanda er ekki skýrlega framsett með tilliti til þess. Verður að telja þá annmarka á málatilbúnaði stefnanda slíka, að ekki sé unnt að leggja dóm á bótakröfur hans við svo búið, sbr. d-liður 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og ber því að vísa þeirri kröfu hans í málinu frá dómi einnig.
Samkvæmt framansögðu er það því niðurstaða dómsins að fallast verði á framkomna frávísunarkröfu stefnda, með vísan til 2. mgr. 25. gr., og d-liðar 1. mgr. 80. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til framangreindra lykta eru ekki efni til þess að fjalla sérstaklega um aðrar þær málsástæður fyrir frávísun sem stefndi hefur hér uppi.
Með hliðsjón af lyktum málsins þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður falli niður.
Úrskurðinn kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.