Hæstiréttur íslands

Mál nr. 728/2013


Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Tilboð
  • Kaupsamningur


                                     

Miðvikudaginn 28. maí 2014.

Nr. 728/2013.

Vogabúið ehf.

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

gegn

Pétri Gíslasyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

og gagnsök

Einkahlutafélag. Tilboð. Samþykki. Kaupsamningur.

V ehf. átti fund með P um kaup á öllu hlutafé í L ehf., en P hafði látið gera skriflegt tilboð um þau kaup sem hann hafði afhent V ehf. Greindi aðila á um það hvort komist hefði á munnlegur samningur um kaupin á fundi þeirra. Degi síðar greiddi V ehf. 10.000.000 krónur til P, en í skriflega tilboðinu hafði ekki verið gert ráð fyrir slíkri greiðslu. P tilkynnti V ehf. nokkru síðar að kauptilboðinu yrði ekki tekið og seldi hann L ehf. til þriðja aðila. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að ekki yrði annað séð en að útkljáð hefði verið eftir fundinn til hvers kaupin ættu að taka, hvert kaupverð yrði, hvernig það mætti greiða og hvaða fyrirvarar væru gerðir. Þá var jafnframt lagt til grundvallar að með greiðslu V ehf. hefðu í verki verið tekin af tvímæli um að kominn væri á samningur milli aðila um kaupin með þeim skilmálum sem í kauptilboðinu greindi. Breytti þar engu að ekki hefði verið lokið endanlegum frágangi á öllum atriðum tengdum kaupunum auk þess sem allir fyrirvarar samkvæmt kauptilboðinu hefðu gengið eftir. Í ljósi meginreglunnar um að gerða samninga beri að halda féllst Hæstiréttur á með V ehf. að í gildi væri munnlegur samningur um kaup V ehf. á öllu hlutafé P í L ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að í gildi sé munnlegur samningur milli sín og gagnáfrýjanda um kaup aðaláfrýjanda á allri hlutafjáreign gagnáfrýjanda í Lake View ehf., að nafnvirði 500.000 krónur, gegn greiðslu kaupverðs að fjárhæð 95.000.000 krónur. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. febrúar 2014. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og ráðið verður af framangreindri dómkröfu aðaláfrýjanda og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi deila aðilarnir um hvort komist hafi á samningur 28. febrúar 2012 um kaup aðaláfrýjanda á öllum hlutum í Lake View ehf. af gagnáfrýjanda, en félagið átti og hafði á hendi rekstur Hótels Reykjahlíðar við Mývatn. Aðaláfrýjandi kveður samkomulag um kaupin hafa tekist þann dag á fundi, sem þrír nafngreindir forsvarsmenn hans hafi átt með gagnáfrýjanda og eiginkonu hans, og hafi það verið reist á skriflegu kauptilboði, sem hafi verið samið á vegum gagnáfrýjanda. Til staðfestingar á kaupunum hafi aðaláfrýjandi að auki greitt næsta dag 10.000.000 krónur inn á bankareikning, sem gagnáfrýjandi hafi vísað á, enda hafi hann vantað „lausafé til að ganga frá ókláruðum málum hjá sér“, svo sem segir í héraðsdómsstefnu.

Kauptilboðið, sem aðaláfrýjandi vísar til samkvæmt áðursögðu, bar dagsetninguna 22. febrúar 2012 og var ráðgert í texta þess að það yrði undirritað af báðum málsaðilum. Í því sagði að tilboðið væri gert í allt hlutafé í Lake View ehf. að nafnverði 500.000 krónur og væri það í eigu gagnáfrýjanda. Kaupverðið yrði 95.000.000 krónur og tæki mið af því að eignir félagsins væru „seldar skuldlausar“, en aðaláfrýjandi gæti þó óskað eftir að taka yfir veðskuldir þess samkvæmt tveimur nánar tilgreindum skuldabréfum og myndi þá kaupverðið lækka sem næmi stöðu þeirra á afhendingardegi. Kaupverðið yrði annars greitt á þann hátt að 35.000.000 krónur yrðu inntar af hendi við „undirritun kauptilboðs“ að því uppfylltu að fyrir lægi ársreikningur félagsins fyrir 2011 og árshlutauppgjör, sem miðað yrði við þann dag sem kaupsamningur yrði undirritaður. Við þá undirritun yrðu síðan greiddar eftirstöðvar kaupverðsins, 60.000.000 krónur. Í tilboðinu voru taldir upp fyrirvarar í ellefu liðum, þar sem meðal annars kom fram að gagnáfrýjandi ábyrgðist að réttilega yrði greint á sérstökum lista frá tækjum og öðrum lausafjármunum félagsins, sem engar skuldir myndu hvíla á og teldust að andvirði 8.000.000 krónur að meðtalinni viðskiptavild og staðfestum gistibókunum. Þá yrði að liggja frammi veðbókarvottorð „fyrir einu eign félagsins“ að frátöldu framangreindu, en hún væri fasteignin Reykjahlíð 2 og ábyrgðist gagnáfrýjandi að engir leigusamningar myndu hvíla á henni. Áreiðanleikakönnun færi fram „á bókhaldi og fylgiskjölum félagsins“ áður en greiðsla yrði innt af hendi við undirritun kaupsamnings og myndi gagnáfrýjandi afla yfirlýsinga til staðfestingar á því að félagið væri skuldlaust vegna opinberra gjalda, iðgjalda til lífeyrissjóða og annarra launatengdra gjalda. Þá skyldu liggja fyrir samþykkt kauptilboð félagsins til tveggja nafngreindra manna um eignarhluta þeirra í fasteigninni Reykjahlíð 2, en hvor þeirra ætti samkvæmt fyrirliggjandi veðbókarvottorði 13,725% af henni. Var tekið fram að greiðsla, sem fara ætti fram við „undirritun kauptilboðs“, yrði ekki innt af hendi fyrr en þessum skilmálum væri öllum fullnægt. Þess var og getið að aðaláfrýjandi hafi „gert ástandsskoðun á eignum félagsins“ og gerði engar athugasemdir við þær, en gagnáfrýjandi yrði fyrir undirritun kaupsamnings að leggja fram „fullnægjandi gögn“ til staðfestingar því að hann ætti alla hluti í félaginu. Gengið yrði „frá kaupsamningi svo fljótt sem auðið er eftir undirritun kauptilboðs þessa“, enda yrði framangreindum fyrirvörum fullnægt. Afhending hlutanna færi þá einnig fram samhliða endanlegri greiðslu kaupverðs.

Í héraðsdómi er greint nánar frá því, sem aðilarnir halda fram að gerst hafi á fyrrnefndum fundi 28. febrúar 2012, en óumdeilt er að hann hafi verið haldinn að frumkvæði gagnáfrýjanda. Á fundinum framvísaði hann meðal annars tveimur kauptilboðum, sem Lake View ehf. hafði gert sameigendum sínum að fasteigninni Reykjahlíð 2 í eignarhluta þeirra 27. sama mánaðar, og voru þau árituð um samþykki. Í tilboðunum var tekið fram að gerður væri sá fyrirvari að „fyrirætluð sala tilboðsgjafa á einkahlutafélaginu Lake View ehf. ... til Vogabús ehf. ... gangi eftir“, en gera ætti kaupsamninga og greiða kaupverð eignarhlutanna í fasteigninni „samhliða undirritun kauptilboðs Vogabús ehf. á öllu hlutafé Lake View ehf.“ Aðaláfrýjandi kveður niðurstöðu fundarins hafa orðið þá að kaupin hafi verið handsöluð, en tími hafi ekki unnist til að undirrita skjöl um þau, enda hafi hann jafnframt talið þörf á að láta kunnáttumann fara yfir texta kauptilboðsins. Ákveðið hafi verið að aðaláfrýjandi greiddi 10.000.000 krónur af kaupverðinu, sem gert var að morgni 29. febrúar 2012 með innborgun á bankareikning gagnáfrýjanda og fylgdi sú skýring til þess síðarnefnda á þeirri innborgun að hún væri „samkv. beiðni“. Aðaláfrýjandi vísar jafnframt til þess að legið hafi fyrir að þann dag hafi tveir af forsvarsmönnum hans ætlað að halda í orlofsferð og hafi staðið til að ljúka skjalagerð vegna kaupanna þegar þau yrðu komin til baka. Gagnáfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að á fundinum hafi legið fyrir kauptilboð, sem hafi beðið „undirritunar aðaláfrýjanda“ eins og segir í greinargerð hans fyrir Hæstarétti, en slík undirritun hafi ekki fengist „þrátt fyrir að á eftir því væri gengið.“ Á fundinum hafi verið rætt um kaup aðaláfrýjanda á hlutunum í Lake View ehf., en þar hafi ekki verið „gengið frá samkomulagi“.

Með tölvubréfi til aðaláfrýjanda 9. mars 2012 tilkynnti gagnáfrýjandi að hann hafi „ákveðið að ganga ekki að tilboði“ aðaláfrýjanda í hlutina í Lake View ehf. og óskaði hann eftir upplýsingum um hvert hann ætti að „skila peningum“ í vörslum sínum. Fyrir liggur að gagnáfrýjandi hafði 7. sama mánaðar undirritað kaupsamning við Reynihlíð hf. um sömu hluti, sem þar voru seldir fyrir 103.000.000 krónur með samsvarandi skilmálum og fram komu í áðurgreindu kauptilboði. Gagnáfrýjandi lagði 10.000.000 krónur á bankareikning 20. mars 2012 með geymslugreiðslu og tilgreindi í því sambandi að kröfuhafi væri aðaláfrýjandi. Aðaláfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 21. maí sama ár.

II

Það er meginregla íslensks réttar að munnlegur samningur er jafngildur skriflegum. Sá, sem heldur því fram að samningur hafi komist á munnlega, ber á hinn bóginn sönnunarbyrði fyrir því. Kaupin, sem aðaláfrýjandi heldur fram að komist hafi á milli sín og gagnáfrýjanda 28. febrúar 2012, tóku til hluta í einkahlutafélagi, en hvorki leiðir af ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög né öðrum réttarreglum að gildi samnings um slík kaup sé háð því að hann sé skriflegur.

Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki annað séð en að það hafi verið orðið útkljáð eftir fund aðilanna áðurnefndan dag til hvers kaup þeirra ættu að taka, hvert kaupverð yrði, hvernig það mætti greiða og hvaða fyrirvara þeir gerðu. Að virtum atvikum málsins eins og þau eru rakin hér að framan verður jafnframt að leggja til grundvallar að með greiðslu á þeim 10.000.000 krónum, sem aðaláfrýjandi innti af hendi til gagnáfrýjanda 29. febrúar 2012, hafi í verki verið tekin af tvímæli um að kominn væri á samningur um kaup aðaláfrýjanda á öllum hlutum gagnáfrýjanda í Lake View ehf. með þeim skilmálum, sem í kauptilboðinu greindi. Breytir engu í þessu sambandi að ekki hafi verið lokið endanlegum frágangi á öllum atriðum, sem tengdust kaupunum. Er einnig til þess að líta að þeir fyrirvarar, sem fram komu í kauptilboðinu, beindust í flestum atriðum að skyldum gagnáfrýjanda, en allir gengu þessir fyrirvarar eftir. Í ljósi meginreglu um að gerða samninga beri að halda verður samkvæmt þessu fallist á með aðaláfrýjanda að komist hafi á og í gildi sé munnlegur samningur um framangreind kaup, sem eftirfarandi sala gagnáfrýjanda á sömu hlutum til Reynihlíðar hf. fær ekki samrýmst.

Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennt er að í gildi sé samningur milli aðaláfrýjanda, Vogabúsins ehf., og gagnáfrýjanda, Péturs Gíslasonar, um kaup aðaláfrýjanda á allri hlutafjáreign gagnáfrýjanda í Lake View ehf., að nafnverði 500.000 krónur, fyrir 95.000.000 krónur.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. október 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 28. maí sl., en endurupptekið 25. september sl. og dómtekið á ný, var höfðað 20. maí 2012.  Stefnandi er Vogabú ehf., Vogum I, Skútustaðahreppi. Stefndi er Pétur Gíslason, Ásvegi 16, Akureyri. 

Í öndverðu var einnig stefnt Reynihlíð hf., Skútustaðahreppi, en dómkröfum stefnanda á hendur þeim stefnda var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 11. apríl sl.  Með þeim úrskurði var einnig frávísað hluta krafna stefnanda á hendur stefnda Pétri.  Er hér efnislega til umfjöllunar krafa stefnanda um að dæmt verði að samningur sé í gildi milli stefnanda og stefnda Péturs um kaup stefnanda á öllu hlutafé Lake View ehf. kt. [...], samtals að fjárhæð 500.000 krónur að nafnvirði. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefndi átti og rak Lake View ehf., sem átti og rak Hótel Reykjahlíð í Mývatns­sveit.  Stefndi mun hafa viljað selja reksturinn og stefnandi haft hug á að kaupa.  Í málinu liggur frammi uppkast að kauptilboði, dagsett 22. febrúar 2012.  Hljóðar það um allt hlutafé í Lake View ehf. að nafnvirði 500.000 krónur. Átti kaupverðið að vera 95 milljónir króna, miðað við að félagið ætti nánar greindar eignir og að þær yrðu seldar skuldlausar.  Í tilboðinu er að finna fyrirvara í 11 liðum um skilmála og gögn.

Þann 28. febrúar 2012 héldu fulltrúar aðila fund um þetta málefni í Hraunborg í Skútustaðahreppi. Sóttu hann af hálfu stefnanda Ólöf Hallgrímsdóttir, fram­kvæmdastjóri, Jón Reynir Sigurjónsson og Leifur Hallgrímsson stjórnarformaður, en hins vegar stefndi og eiginkona hans, Maria Christel Hannie.  Er staðhæft af hálfu stefnanda að á þessum fundi hafi komist á bindandi samningur um kaup á hlutafénu í samræmi við tilboðið, með þeirri breytingu að daginn eftir skyldi stefnandi greiða 10 milljónir króna.  Gerði stefnandi svo. Stefndi lét lögmann senda Leifi Hallgrímssyni tölvupóst þann 9. mars 2012, þar sem sagt var að seljandi hefði ákveðið að ganga ekki að tilboði í hlutina í Lake View ehf. og bað um að gefið yrði upp reikningsnúmer vegna endurgreiðslu á framangreindum 10 milljónum króna.  Komst stefnandi síðan að því að stefndi hefði selt hlutina til Reynihlíðar ehf. með samningi 7. mars 2012.  Gekk stefnandi árangurslaust eftir því við stefnda að hann gengi frá sölu hlutafjárins til sín. Stefndi geymslugreiddi 10 milljónir króna þann 20. mars 2012, þar sem tekið var fram að stefnandi væri rétthafi greiðslu.

II.

Framkvæmdastjóri stefnanda, Ólöf Hallgrímsdóttir, skýrði svo frá fyrir dómi að stefndi hafi haft frumkvæði að því að bjóða Hótel Reykjahlíð til sölu, um miðjan febrúar 2012.  Hann hafi síðan hringt og sagst vera að koma austur í sveit og spurt hvort væri hægt að koma á fundi.  Á þeim fundi hafi legið fyrir að sameigendur Lake View ehf. að fasteigninni Reykjahlíð 2 hefðu samþykkt að selja Lake View ehf. hluta sína í fasteigninni og stefndi sýnt skrifleg og samþykkt kauptilboð þess efnis, þar sem gerður var fyrirvari um að fyrirætluð sala á hlutafé í Lake View ehf. til stefnanda gengi eftir. Skyldi gera kaupsamning og greiða kaupverð samhliða undirritun kauptilboðs stefnanda í allt hlutafé Lake View ehf.  Þessi tilboð liggja frammi í málinu. Segir Ólöf að niðurstaðan hafi orðið sú að handsala samkomulag um kaup á hlutafénu, sem gengið yrði formlega frá um miðjan mars þegar hún kæmi úr utanlandsferð, sem byrjaði daginn eftir.  Hafi verið talað um að um þetta væri heiðursmannasamkomulag.  Stefndi hafi sagst þurfa peninga til að ganga frá lausum endum og stjórnendur stefnanda viljað að ekki væru óreiðuskuldir hjá félaginu.  Hafi verið samið um að greiddar yrðu 10 milljónir inn á reikning sem stefndi gaf upp.  Daginn eftir, síðdegis, hafi hann hringt og sagt að greiðslan væri komin, óskað góðrar ferðar og talað um að gengið yrði frá sölunni um miðjan mars.  Síðan hafi hann ekki svarað henni í síma.  Ólöf kvað uppkast að tilboði stefnanda í hlutafé í Lake View ehf. ekki hafa legið fyrir á þessum fundi.

Stefndi lýsti því að nefnt uppkast að tilboði hafi verið til staðar á fundinum.  Hann hafi viljað að það yrði undirritað þar og þá, en stjórnendur stefnanda hafi viljað láta lögmann skoða það.  Það hefði í raun verið vilji þeirra að kaupa fasteign félagsins, en hann hefði viljað selja félagið sjálft.  Hafi verið haft samband í síma vegna þessa við endurskoðanda félagsins, Gunnlaug Kristinsson.

Stefndi kveðst hafa talið niðurstöðuna þá að þetta væri komið í ferli, en ekki hafi verið gengið frá sölu.  Síðan hafi hann ítrekað haft samband við lögmann, sem stefnandi hafi vísað til, en árangurslaust.  Fyrirsvarsmaður Hótels Reynihlíðar ehf. hafi haft samband og spurt hvort búið væri að selja. Stefndi hafi neitað því og hafi orðið úr að hann hafi selt hlutaféð, enda búinn að gefast upp á að ýta á um að gengið yrði frá kaupunum.  Hann hafi síðan skilað 10 milljóna greiðslunni. Stefndi hefur ekki orðið við áskorun stefnanda um að upplýsa hvort hann hafi notfært sér hana að einhverju leyti í millitíðinni.

Stefndi skýrði frá því að talað hafi um að ljúka þessu ferli innan fárra daga.  Hann hafi lagt að fyrirsvarsmanni stefnanda um að framkvæmdastjórinn gengi frá umboði, til að utanlandsför hennar tefði ekki söluna.  Hann hafi trúað því að gengið yrði frá þessu innan fárra daga en það ekki gengið eftir.

Stjórnarformaður stefnanda, Leifur Hallgrímsson, ber að einu skjölin sem hafi legið frammi á fundinum hafi verið samningarnir sem stefndi hafi gert við meðeigendur Lake View ehf.  Samkomulag aðila um kaup stefnanda á öllum hlutum í því félagi hafi verið handsalað og samið um að staðfesta það með greiðslu 10 milljóna króna til stefnda.  Leifur kvaðst ekki hafa viljað undirrita nein plögg, nema löggiltur fasteignasali hefði farið yfir þau.  Eingöngu hafi verið leikmenn á þessum fundi, en enginn vafi hafi leikið á því að það hafi verið sameiginlegur skilningur að samningur væri kominn á.  Spurður hvort hafi verið talað um að hann fengi umboð til að ljúka sölunni sagði hann að það hafi verið rætt, en niðurstaðan verið að þar sem um frændur og vini væri að ræða væri það ástæðulaust og óhætt að bíða uns Ólöf kæmi úr leyfi.

Maria Christel Hannie, eiginkona stefnda, var á fundinum og ber að talað hafi verið um kauptilboð í hlutafélagið Lake View ehf. og tilboðsuppkast verið til staðar.  Niðurstaðan hafi verið að aðilar, sem hafi verið tímabundnir, hafi ætlað að skoða þetta. Hún kvaðst ekki muna eftir umræðum um 10 milljón króna greiðslu. 

Vitnið Fannar Geir Ásgeirsson kveðst starfa hjá tilteknum birgi, sem hafi skipt við við Hótel Reykjahlíð, þ.e. Lake View ehf. Stefndi hafi haft samband þann 29. febrúar 2012 og sagst vera búinn að selja Ólöfu og ,,þeim í Vogafjósi“ hótelið og sagst sjá um rekstur uns hún kæmi frá útlöndum.

Gunnlaugur Óðinn Sigmundsson, sem starfar hjá Hraðhreinsun Austurlands, ber að í janúar hafi hann verið að rukka stefnda sem hafi þá sagst vera að fá peninga.  Væri hann að hætta rekstri því hann væri búinn að selja Ólöfu hótelið.  Síðan hafi vitnið séð frétt á netinu um að Pétur í Reynihlíð væri búinn að kaupa Hótel Reykjahlíð.  Þá hafi hann hringt í Ólöfu, sem  hafi komið þetta mjög á óvart.  Þann 29. febrúar hafi Lake View ehf. greitt skuldina sem vitnið hafi verið að innheimta.

Gunnlaugur Kristinsson endurskoðandi kveðst hafa séð um ársuppgjör Lake View ehf. í nokkur ár. Hann hafi unnið plögg, m.a. samninga sem hafi tengst því að kaupa hlut sameigenda í húsnæði og kauptilboð í því samhengi.  Hann hafi útbúið drög að kauptilboði sem stefndi hafi farið með til stefnanda.  Hringt hafi verið til sín af fundinum og sér skilist að stefnandi vildi gera tilboð í fasteignina, en stefndi hafi alltaf ætlað að selja félagið.  Hann hafi rætt við fyrirsvarsmenn stefnanda um að þetta væri sinn hvor gerningurinn, með mismunandi skattalegum afleiðingum.  Hann hafi skilið þetta helst þannig að það ætti að kanna þetta betur og hann hafi ekki getað séð að þarna lægi alveg fyrir hvort ætti að gera tilboð í fasteign eða félag.

Einnig var tekin skýrsla af Sigurði Jónasi Þorbergssyni sem var annar sameigenda Lake View ehf. að fasteign í Reykjahlíð II. Þarf ekki að rekja skýrsluna sérstaklega hér.

III.

Stefnandi kveðst byggja á því að bindandi kaupsamningur hafi komist á milli aðila þar sem stefnandi hafi lofað að kaupa og stefndi hafi lofað að selja allt hlutafé í Lake View ehf. að gættum nánar tilgreindum fyrirvörum, sem hafi komið fram í óundirrituðum drögum að kauptilboði, sem hafi verið útbúið á vegum stefnda.  Byggir stefnandi á því að stefndi hafi samþykkt munnlega og með handsali kauptilboð stefn­anda í hlutaféð og áréttað það í símtali við framkvæmdastjóra stefnanda 1. mars 2012.  Þá byggir stefnandi á því að með því að taka við 10 milljóna króna greiðslu hafi stefndi staðfest í verki að samningur hafi verið kominn á milli aðila.  Byggir stefnandi á meginreglu samningaréttar um að munnlegur samningar séu jafngildir og skriflegir og að loforð skuli efna og samningar standa.  Þá kveðst stefnandi byggja á kauptilboði Lake View ehf. í eignarhluta dánarbús Þuríðar Sigurðardóttur og Sigurðar Jónasar Þorbergssonar í fasteigninni Reykjahlíð II, Mývatnssveit, sem hafi verið samþykkt 27. febrúar 2012 og háð þeim fyrirvara að fyrirætluð sala á hlutafé Lake View ehf. gengi eftir.  Hafi þessi tilboð staðið til 15. mars kl. 12:00.  Renni hvort tveggja stoðum undir að stefndi hafi samþykkt kauptilboð stefnanda í hlutafé sitt í Lake View ehf. og ekki hafi sérstaklega verið gert ráð fyrir því að skriflegt kauptilboð lægi fyrir þegar 27. febrúar 2012.

Kauptilboð stefnanda í hlutafé stefnda í Lake View ehf. hafi verið háð fyrirvörum um að þar tilgreind atriði þyrftu að ganga eftir.  Atvik sem fyrirvararnir hafi verið bundnir við hafi gengið eftir, eins og stefnandi hafi komið formlega á framfæri við stefnda í bréfi 22. mars 2012 og sé því samningurinn bindandi fyrir báða aðila.  Í bréfinu hafi verið skorað á stefnda að efna samninginn fyrir sitt leyti og hlutast til um að hlutaféð yrði afhent.  Þá hafi hann boðið fram umsamda greiðslu af sinni hálfu gegn efndum stefnda.  Hafi stefnandi því í einu og öllu aðhafst það sem með sanngirni megi ætlast til af honum að gera og innan þeirra tímamarka sem samið hafi verið um.  Stefnandi kveðst byggja á meginreglu samninga- og kröfuréttar, einkum um gildi munnlegra, jafnt sem skriflegra, samninga um að loforð skuli efna og samningar standa.  Þá sé byggt á 41. gr. laga nr. 50, 2000 um lausafjárkaup, löggjafar­sjónarmiðum að baki 46. gr. laga nr. 18, 2002 um fasteignakaup og almennum reglum samninga- og kröfuréttar um réttaráhrif vanheimildar.

IV.

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að enginn samningur hafi verið gerður milli aðila.  Stefnandi hafi ekki fengist til að skila inn skriflegu kauptilboði í hlutaféð þótt eftir því væri gengið.  Enginn munnlegur samningur hafi verið gerður, heldur hafi aðilar rætt saman.  Það hafi verið í verkahring stefnanda að leggja fram kauptilboð ef áhugi væri á því að ganga til samninga.  Því sé mótmælt að á fundinum 28. febrúar hafi aðilar náð endanlegu samkomulagi um kaup og sölu á hlutafénu, enda hefði stefnanda borið að staðfesta það með undirrituðu tilboði.  Hafi stefnandi haft nægan tíma til að ganga frá slíku tilboði ef hann á annað borð hafi haft hug á að gera samning við stefnda.  Greiðsla 10 milljóna króna, þ.e. innborgun upp á 10%, geti ekki komið í staðinn fyrir undirritun á tilboð og það hafi legið fyrir frá upphafi að stefndi hafi gert kröfu um að fá í hendur staðfest kauptilboð.  Geti þessi innborgun ekki hamlað athafnafrelsi eiganda og hafi honum verið frjálst að semja við þann sem hann kysi.  Hafi umræddum peningum verið skilað með geymslugreiðslu og sé stefnandi einn rétthafi hennar.  Forsvarsmaður stefnanda hafi áður neitað viðtöku hennar.  Í hinu óundirritaða kauptilboði segi að miða skuli við að gengið verði frá kaupsamningi svo fljótt sem auðið verði eftir undirritun á kauptilboðinu.  Það hafi því legið ljóst fyrir að undirritun á kauptilboðið hafi verið forsenda fyrir gerð kaupsamnings.  Stefnandi hafi kosið að skrifa ekki undir kauptilboð.  Samkvæmt því hefði stefndi þurft að uppfylla ákveðna fyrirvara, sem komu fram á tilboði og án þess að fyrir lægi undirritun á kauptilboði hafi ekki verið forsenda fyrir því að fara í þá vinnu sem fyrirvarar tilboðs hafi gert ráð fyrir.  Hefði stefndi gengið frá kaupum við meðeigendur Lake View ehf., að fasteigninni Reykjahlíð II, án þess að fyrir lægi undirritað og bindandi tilboð frá stefnanda, hefði hann enga tryggingu haft fyrir því að stefnandi myndi ekki á síðari stigum draga sig út úr viðræðum við stefnda.  Stefndi hefði þá setið uppi með eign, sem hann hefði ekki haft ástæðu til að kaupa.  Sá sem haldi því fram að kaupsamningur hafi stofnast beri halla af öllum vafa sem uppi kunni að vera um atvik máls, og þá hvort samningur liggi fyrir og hvert efni hans sé.  Þó svo að almennt séu löggerningar ekki formbundnir að íslenskum rétti séu undantekningar frá því.  Geti þær orðið með lögum, samkomulagi aðila og venju. Lög um einkahlutafélög nr. 138, 1994 geri ráð fyrir að kaup og sala hlutafjár séu gerð skriflega. Vísar stefndi hér til 15. gr. laganna.  Þá vísar hann til 12. gr. samþykkta Lake View ehf., þar sem komi fram að eigendaskipti á hlutum í félaginu öðlist ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hafi verið tilkynnt um það skriflega.  Samkvæmt 13. gr. samþykktanna hafi stjórn félagsins forkaupsrétt fyrir hönd þess á fölum hlutum.  Venja sé að mikilvægir löggerningar eða samningar séu skriflegir og því hafi munnlegur samningur ekki komið til álita.  Gerð hafi verið skýr krafa um að tilboðsgjafi undirritaði tilboð, enda hafi ákvæði í óundirrituðu tilboði gert ráð fyrir því.  Þá segi þar að afhending á hinum seldu hlutum fari fram við undirritun kaupsamnings og greiðslu og hafi þannig verið forsenda að fyrir lægi undirritað kauptilboð.

V.

Ágreiningur aðila í þessu máli snýst um það hvort komist hafi á bindandi samningur um kaup stefnanda á hlutafé stefnda í Lake View ehf. á fundi 28. febrúar 2012.  Ljóst er af framburði fyrirsvarsmanna stefnanda og stefnda sjálfs, svo og ummælum sem vitni höfðu eftir stefnda um að hann væri búinn að selja, að báðir aðilar hugðu þá að slíkur samningur kæmist á og segist stefndi hafa gert ráð fyrir því að honum yrði lokið innan nokkurra daga. Af hálfu stefnanda voru greiddar 10 milljónir króna inn á væntanlegt kaupverð.  Það liggur hins vegar einnig fyrir, sbr. framburð stjórnarformanns stefnanda, að stefnandi vildi láta fara yfir skjöl svo sem kauptilboð, áður en það yrði undirritað, þótt aðila greini á um hvort drög að slíku tilboði hafi legið frammi á fundinum eða ekki.  Bendir þetta til þess að kaupin hafi ekki verið án fyrirvara af hálfu stefnanda. Engir óháðir vottar voru að handsali því sem stefnandi kveður hafa farið fram um kaupin. Að þessu athuguðu verður ekki talið nægilega sannað gegn neitun stefnda að bindandi munnlegur kaupsamningur hafi komist á á fundinum. Ber eftir því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um viður­kenningu á því að slíkur samningur sé í gildi.

Þegar litið er til þess að það virðist hafa verið sameiginlegur skilningur aðila að af kaupunum myndi verða, en stefndi seldi samt sem áður hlutaféð án þess að gera fyrirsvarsmönnum stefnanda aðvart áður, fyrir utan það að hann vísar til þess að hann hafi haft samband við lögmann, án þess að um það liggi fyrir nokkur gögn, þykir rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af rekstri málsins.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Pétur Gíslason, er sýkn af kröfu stefnanda, Vogabús ehf., í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.