Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2002
Lykilorð
- Lögreglumaður
- Kjarasamningur
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2002. |
|
Nr. 147/2002. |
Jón Stefánsson(Gylfi Thorlacius hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Lögreglumenn. Kjarasamningur.
J, lögreglumaður við embætti sýslumannsins á Húsavík og eini lögreglumaðurinn búsettur á Þórshöfn, krafðist þess að fá greiddar 280 gæsluvaktastundir á mánuði í stað þeirra 190 sem honum höfðu verið greiddar. Vísaði J til þess að hann hefði fengið greiddar 280 gæsluvaktastundir á mánuði þegar hann stóð einn allar vaktir í samræmi við þágildandi varðskrá á Þórshöfn en þegar annar lögreglumaður fluttist þangað hefði 380 stundum verið skipt á milli þeirra. Taldi hann sig því eiga rétt á greiðslu fleiri gæsluvaktastunda þar sem hann stæði aftur einn allar vaktir á Þórshöfn í samræmi við ákvæði kjarasamninga þar um. Talið var að eftir breytingar sem gerðar voru á varðskrá þeirra lögreglumanna sem höfðu aðalstarfssvæði á Raufarhöfn og Þórshöfn þar sem ein varðskrá kom í stað tveggja áður og lögreglumönnunum þannig gert kleift að skipta vöktunum á milli sín væri um að ræða fámennan stað þar sem tveir lögreglumenn störfuðu og því rétt að gæsluvaktastundafjöldinn væri 380 klst. á mánuði eða 190 klst. fyrir hvorn lögreglumann. Var Í því sýknað af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. mars 2002 og krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans „til greiðslu á 280 gæsluvaktastundum á mánuði frá janúar 1999, í samræmi við kjarasamning Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra“. Jafnframt krefst hann þess að stefndi greiði sér 1.032.815 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum frá 12. mars 1999 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Eins og í héraðsdómi greinir hefur áfrýjandi gegnt starfi lögreglumanns frá árinu 1986 við embætti sýslumannsins á Húsavík. Við embættið starfa níu lögreglumenn en í umdæminu eru þrjár lögreglustöðvar, á Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn.
Áfrýjandi er búsettur á Þórshöfn og hefur því haft starfsaðstöðu á lögreglustöðinni þar. Hann heldur því fram að hann hafi frá upphafi verið skipaður lögreglumaður með starfsstöð á Þórshöfn. Hann hafi verið eini lögreglumaðurinn á því svæði þar til 1. mars 1997 þegar annar lögreglumaður tók við starfi varðstjóra á Raufarhöfn, en sá hafi einnig verið búsettur á Þórshöfn. Fyrir 1. mars 1997 hafi áfrýjandi þannig fengið í samræmi við ákvæði kjarasamninga þar um greiddar 280 gæsluvaktastundir á mánuði en eftir það 190 stundir. Hinn lögreglumaðurinn hafi hætt störfum um áramótin 1998/1999 og sá sem við því starfi tók sé búsettur á Raufarhöfn. Áfrýjandi sé því eini starfandi lögreglumaðurinn á Þórshöfn en næsta lögreglustöð, á Raufarhöfn, sé í um 65 km fjarlægð. Með vísan til þessa telur áfrýjandi sig eiga rétt, samkvæmt ákvæði 2.7.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna frá 30. ágúst 1997, á 280 gæsluvaktastundum á mánuði í stað þeirra 190 sem honum hafi verið greiddar.
Stefndi heldur því meðal annars fram að framangreint ákvæði greinar 2.7 eigi ekki við í tilviki áfrýjanda þar sem skilyrði greinarinnar sé ekki fullnægt þar sem hugtakið „staður“ í ákvæðinu sé sömu merkingar og hugtakið „umdæmi“ í 2. mgr. 7. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, enda áfrýjandi skipaður varðstjóri í lögreglu ríkisins og starfssvæði hans allt lögsagnarumdæmi sýslumannsins á Húsavík. Telur stefndi að það feli ekki í sér viðurkenningu á því að ákvæðið eigi við um áfrýjanda þótt hliðsjón hafi verið höfð af ákvæðinu við útreikning launa hans.
II.
Í málinu liggur fyrir skipunarbréf áfrýjanda 2. janúar 1997. Eins og þar greinir var hann skipaður varðstjóri í lögreglu ríkisins til fimm ára frá 1. janúar 1997 að telja og falið að gegna störfum við embætti sýslumannsins á Húsavík. Þá liggur fyrir samkomulag frá því í maí 1997 milli annars vegar áfrýjanda og starfsbróður hans og hins vegar sýslumannsins á Húsavík undirritað af þessum aðilum um lausn á fæðismálum. Í þessu samkomulagi kemur fram að aðalstarfssvæði áfrýjanda hefur verið lögsagnarumdæmi sýslumannsins á Húsavík austan Tjörness. Enn fremur er tekið fram að umræddir lögreglumenn hafi búsetu á Þórshöfn en eigi jafnframt að ganga vaktir á lögreglustöðinni á Raufarhöfn auk þess að sinna almennri löggæslu annars staðar á starfssvæðinu. Gegn þeirri greiðslu, sem um getur í samkomulaginu, sjái þeir sér sjálfir fyrir fæði þær vaktir sem þeir sinna á sínu aðalstarfssvæði utan Þórshafnar.
Fram er komið að í kjölfar þessa samkomulags eða um mitt árið 1997 hafi verið gerð breyting, að frumkvæði lögreglumannanna sjálfra, á vaktafyrirkomulagi lögreglumanna hjá embætti sýslumannsins á Húsavík. Með breytingunni hafi meginhluti Norður-Þingeyjarsýslu orðið eitt þjónustusvæði og ein varðskrá, sem skipuleggur vinnutíma lögreglumanna þar með talið gæsluvaktir, sett fyrir lögreglustöðvarnar á Þórshöfn og Raufarhöfn og lögreglumennina, sem þar vinna, í stað tveggja áður. Eftir breytinguna hafi einungis annar þessara tveggja lögreglumanna verið á gæsluvakt í senn í stað þess að báðir væru samtímis og stöðugt á þessum vöktum. Þá ber einnig til þess að líta að í auglýsingu sem birt var í Lögbirtingablaði miðvikudaginn 2. desember 1998, þar sem auglýst var eftir aðstoðarvarðstjóra, var sérstaklega tekið fram að staðan væri í lögregluliði sýslumannsins á Húsavík með aðalstarfssvæði á Raufarhöfn og Þórshöfn.
Með vísan til þessa verður að telja að starfssvæði áfrýjanda sé umdæmi sýslumannsins á Húsavík en aðalstarfssvæði hans Norður-Þingeyjarsýsla sem tekur bæði til Raufarhafnar og Þórshafnar. Verður því ekki fallist á það með áfrýjanda að starfsstöð hans sé eingöngu á Þórshöfn.
III.
Ágreiningslaust er að áfrýjandi hefur frá því að hann hóf störf sem lögreglumaður við embætti sýslumannsins á Húsavík fengið greitt fyrir svokallaðar gæsluvaktir. Aðila greinir hins vegar á um það hvort áfrýjanda hafi borið að fá greiddar 280 gæsluvaktastundir í stað þeirra 190 sem hann fékk greiddar frá 1. janúar 1999, sbr. ákvæði greinar 2.7.2 í fyrrgreindum kjarasamningi.
Grein 2.7 lýtur að vinnu á fámennum stöðum. Samkvæmt grein 2.7.1 eru fámennir staðir þar sem þrír lögreglumenn eða færri starfa og sérstaklega skal samið um vinnutíma þeirra. Í grein 2.7.2 er fjallað um gæsluvaktastundafjölda á mánuði. Samkvæmt ákvæðinu skal hann vera 375 klst. á mánuði þar sem þrír lögreglumenn starfa, 380 klst. á mánuði þar sem tveir starfa en 280 klst. á mánuði þar sem einn lögreglumaður starfar.
Áfrýjandi hefur fengið greiddar gæsluvaktir samkvæmt ákvæði greinar 2.7.2. Þannig fékk hann greiddar 280 gæsluvaktastundir á mánuði þegar hann stóð einn allar vaktir í samræmi við þágildandi varðskrá á Þórshöfn en þegar annar lögreglumaður fluttist þangað var 380 stundum skipt á milli þeirra. Eftir breytingar þær sem gerðar voru á varðskrá þeirra lögreglumanna sem hafa aðalstarfssvæði á Raufarhöfn og Þórshöfn, þar sem ein varðskrá kom í stað tveggja áður og lögreglumönnunum þannig gert kleift að skipta vöktunum á milli sín, verður að telja að þetta svæði flokkist undir að vera fámennur staður þar sem tveir lögreglumenn starfa og því sé rétt að gæsluvaktastundafjöldinn sé 380 klst. á mánuði eða 190 klst. fyrir hvorn lögreglumann.
Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2002.
Mál þetta var höfðað 30. maí 2001 og dómtekið 30. f.m.
Stefnandi er Jón Stefánsson, kt. 140352-3819, Hálsvegi 2, Þórshöfn.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til greiðslu á 280 gæsluvaktastundum á mánuði frá janúar 1999 í samræmi við kjarasamning Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra og að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.032.815 krónur auk dráttarvaxta af 31.330 krónum frá 12. mars 1999 til 1. apríl 1999, af 69.274 krónum frá þeim degi til 1. maí 1999, af 100.604 krónum frá þeim degi til 1. júní 1999, af 128.453 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1999, af 159.782 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1999, af 191.112 krónum frá þeim degi til 1. september 1999, af 222.442 krónum frá þeim degi til 1. október 1999, af 283.013 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1999, af 314.343 krónum frá þeim degi til 1. desember 1999, af 345.673 krónum frá þeim degi til 22. desember 1999, af 377.003 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2000, af 411.897 krónum frá þeim degi til 1. mars 2000, af 479.746 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2000, af 514.640 krónum frá þeim degi til 1. maí 2000, af 546.045 krónum frá þeim degi til 1. júní 2000, af 580.939 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2000, af 611.955 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2000, af 658.481 krónu frá þeim degi til 1. september 2000, af 733.696 krónum frá þeim degi til 1. október 2000, af 761.224 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, af 796.118 krónum frá þeim degi til 1. desember 2000, af 823.645 krónum frá þeim degi til 21. desember 2000, af 858.539 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2001, af 893.433 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001, af 948.294 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2001, af 997.921 krónu frá þeim degi til 1. maí 2001 og af 1.032.815 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól í fyrsta skipti 12. mars 2000 í samræmi við ákvæði vaxtalaga nr. 25/1987 en vextirnir verði samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans en til vara krefst hann verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
I
Í stefnu greinir frá því að stefnandi hafi allt frá árinu 1986 gegnt starfi lögreglumanns við embætti sýslumannsins á Húsavík með starfsstöð á Þórshöfn á Langanesi. Stefnandi sé eini starfandi lögreglumaðurinn á Þórshöfn en næsta lögreglustöð sé á Raufarhöfn sem sé um 65 km akstursleið frá Þórshöfn. Þar sem stefnandi sé eini lögreglumaðurinn á staðnum þurfi hann eins og margir fleiri lögreglumenn, sem eins sé ástatt um, að vera reiðubúinn til starfa flesta daga ársins á öllum tímum sólarhringsins
Málsókn stefnanda er reist á því að hann hafi með ólögmætum hætti verið sviptur greiðslum fyrir gæsluvaktir sem um hafi verið samið í kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Þar er vísað til greinar 2.7.2. í kjarasamningi með gildistíma frá 1. ágúst 1997 31. október 2000 sem hljóðar svo:
“Þar sem þrír lögreglumenn starfa skal gæsluvaktastundafjöldi vera 275 klst. á mánuði.
Þar sem tveir lögreglumenn starfa skal gæsluvaktastundafjöldi vera 380 klst. á mánuði.
Þar sem einn lögreglumaður starfar skal gæsluvaktastundafjöldi vera 280 klst. á mánuði.”
Gildistími framangreinds samnings framlengdist til 13. júlí 2001 er gerður var nýr kjarasamningur en hann hefur ekki að geyma ákvæði samsvarandi hinu tilvitnaða.
Stefnandi kveðst hafa fengið greitt fyrir vinnu sína á Þórshöfn í samræmi við ákvæði 3. mgr. framangreinds ákvæðis, þ.e. 280 gæsluvaktastundir á mánuði, allt fram til 1. mars 1997 þegar Valur Magnússon hafi tekið við starfi varðstjóra á Raufarhöfn en haft búsetu á Þórshöfn. Stefnanda og Vali hafi þá verið tilkynnt að þar sem þeir væru báðir búsettir á sama stað færi um launagreiðslur til þeirra eftir ákvæði 2. mgr. og greiddar yrðu 380 gæsluvaktastundir vegna Þórshafnar, þ.e. 190 á mann. Um áramótin 1998-1999 hafi Valur látið af störfum og við starfi hans sem lögreglumaður á Raufarhöfn hafi tekið Jóhann Þórarinsson sem hafi verið búsettur þar. Stefnandi hafi óskað eftir því við yfirstjórn embættis sýslumannsins á Húsavík að launagreiðslur yrðu leiðréttar í samræmi við breyttar aðstæður þar sem hann væri á ný eini lögreglumaðurinn á Þórshöfn og ætti því að fá greiddar 280 gæsluvaktastundir á mánuði á samræmi við kjarasamninginn. Óskum hans hafi verið hafnað og ekki sögð vera forsenda til leiðréttingar á launagreiðslum til hans.
Stefnandi reisir kröfugerð sína á því að hann hafi allt frá upphafi starfs síns sem lögreglumaður verið skipaður með starfsstöð á Þórshöfn og engin breyting hafi verið gerð á skipun hans eða stöðu á þeim tíma sem hér um ræðir. Um tíma hafi annar lögreglumaður verið búsettur í bænum og þar sem þeir hafi þá getað skipt með sér vinnu, sem til hafi fallið utan vakta, hafi greiðslur fyrir gæsluvaktir verið minnkaðar úr 280 í 190 klst. á mánuði. Um leið og hinn lögreglumaðurinn hafi flutt úr plássinu hafi á ný verið komin upp sama staða og áður. Hann sé því eini lögreglumaðurinn á staðnum og því beri honum greiðsla fyrir 280 gæsluvaktastundir á mánuði.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að Þórshöfn sé “staður” í skilningi kjarasamnings Landssambands lögreglumanna og stefnda og verði stefndi að greiða lögreglumönnum á þeim stað í samræmi við það. Þórshöfn og Raufarhöfn geti í sameiningu ekki verið “staður” í skilningi kjarasamningsins enda séu um 65 km milli staðanna og um erfiðan veg að fara, sérstaklega á vetrum í erfiðum veðrum. Því sé stefnda óheimilt að greiða aðeins 190 gæsluvaktastundir á mánuði til stefnanda eins og gert hafi verið.
Fjárkrafa stefnanda er þannig fundin að af launayfirlitum hans fyrir árin 1999, 2000 og 2001, sem liggja frammi í málinu, sé ljóst að hann hafi á þeim tíma fengið að jafnaði greiddar um 190 gæsluvaktastundir á mánuði fyrir störf sín. Á árinu 1999 hafi hann fengið greiddar 348,11 krónur en á árunum 2000 og 2001 387,71 krónur fyrir hverja stund. Sett er upp tafla með sundurgreiningu eftir mánaðarlegum tímabilum allt frá janúar-febrúar 1999 til mars-apríl 2001, launataxta á hverju tímabili og fjölda greiddra gæsluvaktastunda sem er dreginn frá 280 stundum og þannig fundinn fjöldi ógreiddra gæsluvaktastunda. Ógreiddur stundafjöldi er síðan margfaldaður með tímakaupinu og þannig fengin niðurstaða um ógreiddar fjárhæðir. Loks er útborgunardagur tilgreindur en hann er í flestum tilvikum 1. næsta mánaðar eftir viðkomandi vaktatímabil. Dæmi: Tímabilið janúar-febrúar 1999. Taxti 348,11 kr. Greiddar gæsluvaktastundir 190. Stundir samkvæmt samningi 280. Ógreiddar gæsluvaktastundir 90. Ógreitt 31.330 krónur. Útborgunardagur 12.3.1999.
Af hálfu stefnda eru ekki gerðar aðrar athugasemdir við framsetningu kröfugerðar stefnanda eða útreikning en þær sem varakrafa hans er reist á og síðar verður frá greint.
Af hálfu stefnanda er vísað til almennra reglna kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og viðurkenndra meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og efndaskyldur samningsaðila, sbr. reglur samningalaga nr. 7/1936.
II
Af hálfu stefnda er haldið fram að sýkna beri hann með vísun til þess sem hér verður greint:
Hjá sýslumannsembættinu á Húsavík eru níu stöður lögreglumanna. Um er að ræða eitt lögreglulið sem lýtur yfirstjórn lögreglustjóra og yfirlögregluþjóns á Húsavík en samkvæmt 6. gr. 2. mgr. lögreglulaga nr. 90/1996 fara lögreglustjórar með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Með skipunarbréfi, dags. 2.1.997, hafi stefnandi verið skipaður varðstjóri í lögreglu ríkisins og starfssvæði hans allt lögsagnarumdæmi sýslumannsins á Húsavík, sbr. 7. gr. 2. mgr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hugtakið “staður” í grein 2.7. í kjarasamningi er það sama og “umdæmi” í 7. gr. 2. mgr. laga nr. 90/1996 en í umdæminu vinna fleiri en þrír lögreglumenn.
Á því er einnig byggt af hálfu stefnda að sýkna beri hann, þótt dómurinn telji að grein 2.7. í kjarasamningi eigi við í því tilviki sem hér er fjallað um, með eftirfarandi rökum:
Í því tilviki eigi ekki við regla 2.7.2, 3. mgr. í kjarasamningnum heldur grein 2.7.2., 2. mgr. Gerð hafi verið grundvallar kerfisbreyting á vaktafyrirkomulagi vorið 1997. Meginhluti Norður-Þingeyjarsýslu hafi orðið eitt þjónustusvæði með einni vaktskrá og báðum lögreglumönnum, stefnanda og Vali Magnússyni en síðar Jóhanni Þórarinssyni, gert skylt að hafa viðveru á báðum lögreglustöðvum (Þórshöfn og Raufarhöfn) reglulega og eftir þörfum. Helstu kostir þess fyrirkomulags séu að starfið verði ekki eins bindandi og þegar einn standi að baki varðskrá og sé á óskilgreindri gæsluvakt, með einmenningsvarðskrám sé nánast ókleift að framkvæma þær reglur sem gildi um vinnutíma og lágmarkshvíldartíma samkvæmt viðbótarsamningi við kjarasamning Landssambands lögreglumanna 18. 6.1999 og fyrirkomulagið stuðli að markvissari stjórnun, auki starfsöryggi lögreglumanna og bæti þjónustu. Lögreglumennirnir skipti gæsluvöktum á milli sín og símtöl séu flutt í farsíma þess lögreglumanns sem sé á gæsluvakt.
Varakrafa stefnda er studd þessum rökum:
Sjö mánuði af því tímabili, sem krafa stefnanda tekur til, fékk hann greiddar færri en 190 klst sem skýrist af því að á þeim tímabilum tók hann orlof. Sett er upp tafla þar sem reiknað er út hversu mikil frávik prósentulega eru frá 190 klst. á mánuði miðað við tekið orlof. Þeirri prósentu er beitt til útreiknings á fráviki frá 280 klst. til að finna sama hlutfall og er útkoman sett fram í krónum í síðasta dálki sem sýnir þá fjárhæð sem stefnandi ætti að fá greidda fyrir umrædd sjö tímabil þegar dregnar hafi verið frá greiðslur sem hann hafi fengið. Upphæðirnar eru þessar eftir tímabilum: 1) febr.-mars 1999 28.197 krónur. 2) ág.-sept. 1999 16.709 krónur. 3) jan.-febr. 2000 18.998 krónur. 4) júní-júlí 2000 29.156 krónur. 5) júlí-ág. 2000 15.508 krónur. 6) jan.-febr. 2001 24.465 krónur. 7) febr.-mars 2001 27.915 krónur.
Um lagarök vísar stefndi til lögreglulaga nr. 90/1996, aðallega 6. gr. 2. mgr. og 7. gr. 2. mgr., laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og almennra reglna samninga- og vinnuréttar.
III
Varðstofur lögreglunnar í umdæmi sýslumanns og lögreglustjóra á Húsavík eru á Húsavík, Þórshöfn, þar sem stefnandi á heima, og Raufarhöfn.
Megin ágreiningsefni aðila varðar það hvert verið hafi starfssvæði stefnanda, sbr. grein 2.7.2 í tilvitnuðum kjarasamningi: “þar sem . lögreglumenn starfa”. (Það athugast að í grein þessari er ekki getið um “stað”.)
Með framlögðu bréfi dómsmálaráðherrans, dags. 2. janúar 1997, er stefnandi skipaður til þess að vera varðstjóri í lögreglu ríkisins og er honum falið að gegna störfum við embætti sýslumannsins á Húsavík. Engin stoð verður fundin fyrir því, sem haldið er fram af stefnanda, að hann hafi allt frá upphafi starfs síns verið skipaður með starfsstöð á Þórshöfn.
Staða sú, sem Jóhann Þórarinsson, sem var búsettur á Raufarhöfn, var síðan settur og eftir það skipaður til að gegna, var auglýst til umsóknar í Lögbirtingablaðinu sem staða aðstoðarvarðstjóra í lögregluliði sýslumannsins á Húsavík með aðalstarfssvæði á Raufarhöfn og Þórshöfn.
Þá hefur stefndi lagt fram samkomulag um fæðismál, undirritað á Húsavík 5. maí 1997 af stefnanda, Vali Magnússyni, Halldóri Kristinssyni sýslumanni á Húsavík og Sigurði Brynjúlfssyni yfirlögregluþjóni, um lausn á fæðismálum lögreglumannanna á aðalstarfssvæði þeirra, þ.e. lögsagnarumdæmi sýslumannsins á Húsavík austan Tjörness. Þar er kveðið á um greiðslu fæðiskostnaðar “þar sem báðir lögreglumennirnir hafa búsetu á Þórshöfn en eiga jafnframt að ganga vaktir á lögreglustöðinni á Raufarhöfn auk þess að sinna almennri löggæslu annars staðar á starfssvæðinu . . .”
Halldór Kristinsson sýslumaður og Sigurður Brynjúlfsson báru vætti við aðalmeðferð málsins og staðfestu það, sem áður greinir (í II. kafla dómsins) um breytta skipan varðskrár frá vori 1997, þ.e. sameiginlega skrá fyrir Þórshöfn og Raufarhöfn og þar með þjónustusvæði Norður-Þingeyjarsýslu yfir vaktir og gæsluvaktir. Þetta hlýtur einnig stoð af framlögðum varðskrám fyrir tímabil eftir og fyrir umrædd tímamörk.
Eigi verður fallist á það með stefnda að líta beri á allt umdæmi sýslumanns og lögreglustjóra á Húsavík, þar sem starfa níu lögreglumenn, sem eitt starfssvæði í skilningi umrædds kjarasamningsákvæðis, þ.e. greinar 2.7.2., og þannig hefur framkvæmdin ekki verið þar sem stefnandi hefur fengið greitt fyrir gæsluvaktir samkvæmt 2. mgr. greinarinnar.
Fram er komið að stefnandi sinnir útköllum sem beint er til hans þótt hann sé hvorki á vakt né gæsluvakt ef henta þykir vegna búsetu hans og nálægðar við vettvang. Ekki er upplýst um skyldu stefnanda til að sinna þeim útköllum en hún styðst ekki við gæsluvaktir, sem um ræðir í málinu, og segir í grein 2.5.1. í tilvitnuðum kjarasamningi að með gæsluvakt sé átt við að lögreglumaður sé ekki við störf en reiðubúinn að sinna útkalli.
Eðlilegt er og rétt samkvæmt framangreindu að starfssvæði í skilningi greinar 2.7.2. í kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs verði skilgreint sem svæði sem ein varðskrá og sameiginleg skipan gæsluvakta tekur til. Stefnandi hefur ekki staðið einn ótilgreindar gæsluvaktir á því tímabili, sem kröfugerð hans lýtur að, og hefur hann fengið réttilega greitt fyrir gæsluvaktir á grundvelli 2. mgr. umrædds ákvæðis.
Niðurstaða málsins er samkvæmt þessu sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 100.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Stefánssonar.
Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.
Sigurður Hallur Stefánsson