Hæstiréttur íslands
Mál nr. 295/2003
Lykilorð
- Fjármál hjóna
- Lausafé
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 295/2003. |
Jóhann Þórisson og Þórný Kristmannsdóttir (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Kristínu Árnadóttur (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Fjármál hjóna. Lausafé.
J og K höfðu verið í hjúskap og leituðu skilnaðar. Ekki tókst samkomulag um fjárskipti og var úrskurður um opinber skipti til fjárslita milli þeirra kveðinn upp 10. september 2002. J var skráður eigandi bifreiðar, sem hann afsalaði Þ þann 9. ágúst 2002. K krafðist ógildingar afsalsins og hafði skiptastjóri ekki uppi athugasemdir við að hún hefði uppi kröfuna í eigin nafni. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið sýnt að umrædd bifreið hefði verið ætluð til persónulegra nota K og hefði J því verið framsalið óheimilt án samþykkis hennar samkvæmt 61. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Taldist Þ ekki hafa verið grandlaus um þessa aðstöðu í skilningi 65. gr. sömu laga og var fallist á ógildingu afsalsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 25. júlí 2003. Þau krefjast sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann.
Áfrýjendur greiði stefndu óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Jóhann Þórisson og Þórný Kristmannsdóttir, greiði óskipt stefndu, Kristínu Árnadóttur, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. apríl 2003.
Mál þetta sem tekið var til dóms 1. apríl sl., endurupptekið 29. apríl sl. og tekið til dóms á ný s.d., er höfðað 11. september 2002.
Stefnandi er Kristín Árnadóttir, Merkilandi 2b, Selfossi.
Stefndi er Jóhann Þórisson, Eyravegi 15, Selfossi og Þórný Kristmannsdóttir, Austurvegi 26, Selfossi.
Stefnandi krefst þess að ógiltur verði með dómi kaupsamningur/afsal milli stefndu Jóhanns og Þórnýjar um bifreiðina Toyota Yaris, fastanúmer MP-007, dags. 9. ágúst 2002 og að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndu krefjast þess að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmd til að greiða hvoru stefndu um sig málskostnað in solidum að skaðlausu að mati dómsins.
Málavextir.
Stefnandi og stefndi, Jóhann, gengu í hjónaband árið 1971. Í september 2002 slitnaði upp úr sambúð þeirra og stefnandi óskaði eftir skilnaði að borði og sæng hjá Sýslumanninum á Selfossi. Leyfi til skilnaðar hefur ekki enn verið veitt, þar sem samkomulag um fjárskipti aðila hefur ekki náðst. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 10. september 2002 var fallist á að opinber skipti til fjárslita færu fram milli stefnanda og stefnda, Jóhanns. Skiptastjóri var skipaður Bergsteinn Georgsson héraðsdómslögmaður. Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing hans um að búið eigi ekki aðild að máli þessu og ekki sé gerð athugasemd við að stefnandi höfði mál þetta í eigin nafni og á eigin kostnað.
Í málinu er deilt um bifreiðina MP-007, en stefndi, Jóhann, keypti bifreiðina 27. ágúst 1999 og var bifreiðin skráð á hans nafn. Í framlögðum tillögum um skipti milli hjónanna hefur verið við það miðað að bifreiðin sé hjúskapareign þeirra og falli því undir skiptin. Óumdeilt er að stefnandi hafði mikil afnot bifreiðarinnar, m.a. vegna veitingareksturs síns, en bifreiðin hefur einnig nokkrum sinnum verið leigð út sem bílaleigubifreið frá fyrirtæki stefnda og er talin til eigna þess samkvæmt fyrningarskýrslu.
Stefndi, Jóhann, seldi bifreiðina til stefndu, Þórnýjar, 9. ágúst 2002 og hefur krafist afhendingar á henni úr vörslum stefnanda, en stefnandi hefur hafnað þeirri kröfu. Fram er komið í málinu að stefndu náðu engu að síður vörslum bifreiðarinnar og hafa þær nú.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur aðilar málsins, auk vitnisins Davíðs Guðmundssonar.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveður að ágreiningslaust hafi verið með stefnanda og stefnda, Jóhanni, að bifreiðin MP-007 félli undir skiptin. Í tillögum mannsins til sátta hafi jafnframt verið við það miðað að greind bifreið yrði lögð út til stefnanda. Stefnandi kveður að nokkur vitni hafi verið að því þegar stefndi, Jóhann, hafi fært stefnanda bifreiðina að gjöf. Stefnandi hafi síðan haft bifreiðina til persónulegra nota. Það hafi því komið stefnanda verulega á óvart þegar lögmaður stefndu hafi tilkynnt lögmanni stefnanda að bifreiðin hafi verið seld 9. ágúst 2002 til stefndu, Þórnýjar, og krafðist afhendingar á henni. Stefnandi kveður sér kunnugt um að stefndi og stefnda, Þórný, eigi í nánu sambandi. Stefnandi hafnaði afhendingu bifreiðarinnar, enda um hjúskapareign að ræða, sem stefnda, Jóhanni, hafi verið óheimilt að ráðstafa með sölu án samþykkis stefnanda.
Í kjölfarið gerði stefnandi kröfu um að stefndu lýstu því yfir að kaupsamningur um bifreiðina væri ógildur. Lögmaður stefndu hafnaði þeirri kröfu og setti stefnda, Þórný, fram kröfu fyrir Héraðsdómi Suðurlands um innsetningu í bifreiðina.
Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu kaupsamnings á því að samkvæmt 61. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé öðru hjóna óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda eða veðsetja lausafé sem ætlað sé til persónulegra nota fyrir hinn makann.
Nokkur vitni hafi verið að því að stefndi, Jóhann, gaf stefnanda bifreiðina á sínum tíma. Stefnandi hefur haft bifreiðina til persónulegra nota síðan, m.a. annast sjálf um að greiða af henni allan rekstrarkostnað. Afstaða stefnda, Jóhanns, til afnota af bifreiðinni hafi einnig komið skýrlega fram í sáttatilraunum hans í tengslum við skilnað hjónanna. Hafi hann lýst því yfir að konan skyldi halda greindri bifreið við fjárslitin.
Samkvæmt 62. gr. hjúskaparlaga sé samþykki maka nauðsynlegt skilyrði fyrir sölu eigna sem falla eiga undir 61. gr., hvort sem um hjúskapareignir er að ræða eða séreignir. Varði þá engu að bifreiðin hafi verið skráð á nafn stefnda, Jóhanns.
Stefnandi telji augljóst að ráðstöfun bifreiðarinnar með þeim hætti sem að ofan greini, sé eingöngu til þess fallin að ná umráðum yfir bifreiðinni og klekkja þannig á stefnanda, vegna þess að ekki hafi tekist að ná samkomulagi um fjárskipti aðila. Þess beri að geta að aðrar hjúskapareignir búsins hafi að langmestu leyti verið í vörslum stefnda, Jóhanns.
Stefnandi byggir á því að skilyrði 65. gr. hjúskaparlaga um að unnt sé að ógilda samninginn með dómi séu fyrir hendi. Stefnandi vísar til þess að viðsemjanda stefnda, Jóhanns, stefndu, Þórnýju, hafi mátt vera fullkunnugt um að Jóhanni væri samningsgerðin óheimil. Stefndu hafi átt í nánu sambandi eftir að stefnandi og stefndi, Jóhann, hafi slitið samvistum. Samningsgerðin sé bersýnilega til málamynda og til þess eins fallin að valda stefnanda vandræðum, enda sé um að ræða eina farartæki hennar.
Stefnandi byggir kröfu sína á ákvæðum IX. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, aðallega 61. og 65. gr. Jafnframt vísar stefnandi til 62. gr. greindra laga.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndi, Jóhann, kveðst ekki hafa talið umrædda bifreið fram sem sína einkaeign á skattframtali og hafi það verið fyrir mistök að hún hafi verið persónulega skráð á nafn hans, en ekki bílaleigu sinnar.
Stefndi mótmælir því að um málamyndagerning hafi verið að ræða er hann seldi bifreiðina til stefndu, Þórnýjar.
Þá sé rangt að bifreiðin hafi verið ætluð stefnanda til persónulegra nota, hún hafi hins vegar fengið hana lánaða til nota við veitingarekstur sinn. Stefndi hafi því haft allar löglegar heimildir til að selja bifreiðina hverjum sem hann vildi. Bifreiðin hafi verið ein af mörgum bifreiðum fyrirtækis stefnda og leigð út til viðskiptavina bílaleigunnar.
Þá byggir sýknukrafa stefndu á því að stefnda, Þórný, hafi verið í góðri trú um heimildir stefnda, Jóhanns, til að selja bifreiðina, enda hafi hann verið í opinberum skráningargögnum skráður eigandi hennar án allra kvaða.
Um lagarök vísa stefndu til samninga- og kaupalaga. Einnig er vísað til IX. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega 58. gr. laganna.
Niðurstaða.
Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing Bergsteins Georgssonar hdl., sem skipaður var skiptastjóri við úrskurð um opinber skipti til fjárslita milli stefnanda og stefnda, Jóhanns. Samkvæmt yfirlýsingunni eru ekki gerðar athugasemdir við að stefnandi sæki mál þetta á sinn kostnað og sína ábyrgð.
Í málinu er fram komið að opinberum skiptum til fjárslita milli stefnanda, Kristínar, og stefnda, Jóhanns, er ekki enn lokið, þar sem ágreiningur hefur verið um hvaða verðmæti skuli koma í hvors hlut.
Samkvæmt 61. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er öðru hjóna óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda, veðsetja, eða leigja innbú á sameiginlegu heimili hjóna eða annað lausafé sem ætlað er til persónulegra nota fyrir hinn makann eða börn þeirra eða fyrir sameiginlegan atvinnurekstur þeirra.
Stefndi, Jóhann, upplýsti fyrir dómi að hann hafi gagngert keypt umdeilda bifreið fyrir stefnanda, svo að hún gæti haft not af henni fyrir veitingarekstur sinn, en einnig hafi hún nýtt hana í eigin þágu. Vitnið, Davíð Guðmundsson sem starfaði hjá stefnanda á þeim tíma er stefndi, Jóhann, keypti bifreiðina, bar fyrir dómi að stefndi hefði tjáð sér að hann hefði keypt bifreiðina fyrir stefnanda, til þess að hún hefði bifreið út af fyrir sig.
Þegar framangreint er virt er ljóst að bifreiðin MP-007 var ætluð til persónulegra nota fyrir stefnanda og nýtt í þágu stefnanda og veitingareksturs hennar. Breytir þar engu um þótt stefndi, Jóhann, hafi í örfá skipti fengið af henni afnot í þágu fyrirtækis síns.
Samkvæmt 65. gr. hjúskaparlaga 31/1993 er ekki unnt að fá samningi samkvæmt 61. gr. hjúskaparlaga hrundið með dómi, ef viðsemjandi sýnir fram á að honum hafi hvorki verið ljóst né átt að vera ljóst þegar samningurinn var gerður að makanum var samningsgerðin óheimil.
Fyrir dómi upplýstu stefndu að samband þeirra væri náið og kvað stefnda, Þórný að þau hefðu verið í ástarsambandi er stefndi afsalaði bifreiðinni til stefndu. Þá upplýsti stefndi að Þórnýju hefði verið ljóst að stefndi ,,stæði í skilnaði ” er hann afsalaði bifreiðinni til hennar. Stefnda, Þórný kvað stefnda, Jóhann, hafa skuldað sér fé og hafi afhending bifreiðarinnar til sín verið liður í uppgjöri þeirrar skuldar. Stefndu, Þórnýju, var samkvæmt framangreindu ljóst að stefndi, Jóhann, var enn í hjónabandi þegar hann afsalaði til hennar bifreið sem skráð var á hann persónulega og jafnframt hlaut henni að vera ljóst að skipti á eignum hjónanna höfðu þá ekki farið fram. Þegar litið er til þess nána sambands sem upplýst er að verið hafi milli stefndu þegar samningurinn var gerður, verður að telja að stefndu, Þórnýju hafi átt að vera ljóst að stefndi, Jóhann, hafði ekki heimild til þeirrar samningsgerðar er mál þetta tekur til, sbr. 61. gr., 3. mgr. 62. gr. og 2. ml. 65. gr. laga nr. 31/1993.
Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu stefnanda um ógildingu kaupsamings/afsals milli stefnda, Jóhanns og stefndu, Þórnýjar, um bifreiðina Toyota Yaris, MP-007, dags. 9. ágúst 2002.
Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefndu in solidum stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ógiltur er kaupsamningur/afsal milli stefndu, Jóhanns Þórissonar og Þórnýjar Kristmannsdóttur um bifreiðina Toyota Yaris, fastanúmer MP-007, dags. 9. ágúst 2002.
Stefndu greiði stefnanda in solidum 150.000 krónur í málskostnað.