Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 16. júní 2011.

Nr. 352/2011.

Landsbanki Íslands hf.

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

gegn

Halldóri Jóni Kristjánssyni

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

L kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur H var vísað frá dómi. L höfðaði málið til staðfestingar á riftun á greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í séreignarlífeyrissparnaðarsjóð H og til endurgreiðslu fjárhæðarinnar með dráttarvöxtum. Í þinghaldi 7. mars 2011 lagði L fram ýmis ný gögn þ.á.m. beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í úrskurði héraðsdóms var matsbeiðnin talin fela í sér viðleitni L til að bæta úr óljósum málatilbúnaði í stefnu með síðbúinni matsbeiðni og framlagningu gagna. Var þetta talið stangast á við meginreglu 95. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og raska grundvelli málsins. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að H hefði ekki getað gert sér grein fyrir því af lestri stefnunnar að á þeim atriðum sem matsbeiðnin tók til yrði byggt í málinu. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt fram kominni matsbeiðni. Verði málinu allt að einu vísað heim til efnislegrar úrlausnar um dómkvaðningu matsmanna krefst varnaraðili þess að greinargerð hans fái þá komist að í málinu. Hann krefst og kærumálskostnaðar.

Það athugast að ekki eru að lögum forsendur fyrir varakröfum varnaraðila þar sem hinn kærði úrskurður lýtur aðeins að vísun málsins frá dómi.

I

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta 23. ágúst 2010 til staðfestingar á riftun 14. maí sama ár á þeirri ráðstöfun Landsbanka Íslands hf. að greiða 100.000.000 krónur 19. september 2008 í séreignarlífeyrissparnaðarsjóð varnaraðila og til greiðslu sömu fjárhæðar með dráttarvöxtum úr hendi varnaraðila. Í greinargerð sinni til héraðsdóms krafðist varnaraðili aðallega sýknu en til vara sýknu að svo stöddu en ella lækkunar kröfunnar. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur óskaði lögmaður sóknaraðila eftir og fékk fresti til gagnaöflunar 12. janúar og 7. febrúar 2011 og lagði síðan 7. mars sama ár fram allmörg ný skjöl, þar á meðal beiðni þá um dómkvaðningu matsmanna, sem kærumál þetta er risið af. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði kemur fram í matsbeiðninni að hún sé lögð fram í þeim tilgangi að staðreyna að Landsbanki Íslands hf. hafi verið „ógjaldfær í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram“ og að umdeildar kaupréttarheimildir varnaraðila hafi af þeim sökum ekki haft nokkurt verðgildi. Spurningar til matsmanna eru orðrétt teknar upp í úrskurðinn. Varnaraðili mótmælti þegar beiðni um dómkvaðningu sem of seint fram kominni. Taldi hann að ný gögn sóknaraðila röskuðu grundvelli málsins og krafðist frávísunar þess af því tilefni. Málsatvikum, málsástæðum aðila og lagarökum er lýst í hinum kærða úrskurði.

Kæru sína styður sóknaraðili þeim rökum í fyrsta lagi að þær málsástæður sem héraðsdómur telji vanreifaðar og varði frávísun málsins í heild komi fram í stefnu, þar sem vísað hafi verið til 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 og hafi matinu verið ætlað að styðja frekar þessar málsástæður. Í öðru lagi skipti ekki máli að ekki hafi komið fram í stefnu hvort sóknaraðili hygðist sýna fram á ógjaldfærni bankans með matsbeiðni eða öðrum sönnunargögnum. Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að með vísan til málsforræðisreglunnar verði honum ekki meinað að leita eftir mati dómkvaddra manna undir rekstri máls og séu fyrir því mörg dómafordæmi. Í fjórða lagi sé matsbeiðnin ekki til þess fallin að raska grundvelli málsins þar sem hér sé eingöngu um frekari öflun sönnunargagna að ræða. Bendir sóknaraðili á að enda þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að þær málsástæður sem matsbeiðninni sé ætlað að styðja væru vanreifaðar og matsbeiðnin komist ekki að sé ekki ástæða til að vísa málinu í heild frá dómi. Matsbeiðnin varði einungis tvö lagaákvæði af mörgum sem sóknaraðili styðji málsástæður sínar við. Í fimmta lagi sé því mótmælt að matsbeiðnin sé of seint fram komin, enda hafi varnaraðili samþykkt fresti þá sem sóknaraðili hafi fengið til framlagningar gagna.

Varnaraðili bendir á að ágreiningur sé um málsatvik að því er varði gjaldfærni Landsbanka Íslands hf. áður en hann hætti starfsemi 6. október 2008 og telji varnaraðili að bankinn hafi verið gjaldfær allt til lokunar hans. Matsbeiðni sóknaraðila sé gríðarlega umfangsmikil og flókin og það orki tvímælis hvort matsspurningar lúti að matsatriðum eða hvort um sé að ræða atriði sem dómari eftir atvikum með sérfróðum meðdómendum skeri úr um. Í raun beinist matsbeiðnin að endurskoðun fyrirliggjandi reikningsskila bankans á grundvelli endurmats á einstökum þáttum árshlutareiknings, en það sé óframkvæmanlegt nema allur reikningurinn sé endurmetinn. Í beiðninni komi og fram að sóknaraðili telji sig hafa sannanir fyrir því að árshlutauppgjör bankans miðað stöðu hans 30. ágúst 2008 hafi verið misvísandi og ekki gefið rétta mynd af stöðu bankans á þeim tíma. Hvorki sé gerð grein fyrir því hverjar þessar sannanir séu né séu þær lagðar fram. Varnaraðili bendir á að þó að nýjar málsástæður og lagarök í matsbeiðninni varði fyrst og fremst hina almennu riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991, sem setji ógjaldfærni og huglæga afstöðu til hennar sem skilyrði riftunar, þá raski framlagning gagnanna grundvelli málsins í heild. Með framlagningu matsbeiðninnar hafi ekki aðeins jafnræði aðila verið raskað, þar sem varnaraðila hafi verið synjað um að koma að andsvörum með greinargerð, heldur leiði beiðnin óhjákvæmilega til mikilla tafa á málinu sem hann eigi ekki að þurfa að sætta sig við miðað við upphaflegan málatilbúnað sóknaraðila og meginreglur réttarfars um hraða málsmeðferð.

II

Í forsendum hins kærða úrskurðar er rakið hvernig sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn í stefnu. Þar er og gangur málsins í héraði rakinn allt til þess er sóknaraðili lagði fram hina umdeildu matsbeiðni ásamt fleiri gögnum 7. mars 2011. Er það mat héraðsdóms að með matsbeiðninni hyggist sóknaraðili í raun færa sönnur á að reikningsskil bankans á árinu 2008 hafi í veigamiklum atriðum verið röng og að svo virðist sem sóknaraðili telji stjórnendur bankans hafa á þeim tíma beitt ýmsum rangfærslum í reikningsskilum bankans til að halda uppi eiginfjárhlutfalli hans. Verður að fallast á með héraðsdómi að varnaraðili hafi ekki getað gert sér grein fyrir því af efni stefnunnar að á þessum atriðum yrði byggt í málinu. Að þessu athuguðu verður hinn kærði úrskurðar staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., greiði varnaraðila, Halldóri Jóni Kristjánssyni, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2011

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. apríl sl., er höfðað 23. ágúst 2010 af Landsbanka Íslands í slitameðferð, Austurstræti 16 í Reykjavík, gegn Halldóri Jóni Kristjánssyni, búsettum í Kanada.

Dómkröfur stefnanda í málinu eru eftirfarandi:

I. Riftunarkrafa

Stefnandi krefst þess að staðfest verði riftun dagsett 14. maí 2010 á ráðstöfun sem fólst í greiðslu Landsbanka Íslands hf. í séreignarlífeyrissparnaðarsjóð í þágu stefnda að fjárhæð kr. 100.000.000 sem fram fór á grundvelli minnisblaðs dagsetts 16. september 2008.

II. Fjárkrafa

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér kr. 100.000.000 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/2001 frá 14. júní 2010 til greiðsludags.

III. Málskostnaðarkrafa

Stefnandi [krefst] málskostnaðar úr hendi stefnda sér að skaðlausu.“

Í greinargerð stefnda er aðallega krafist sýknu, til vara að stefndi verði sýknaður að svo stöddu af fjárkröfu stefnanda en til þrautavara að fjárkrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Í þinghaldi 7. mars 2011 lagði stefnandi fram ýmis gögn, þar á meðal beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í matsbeiðninni kemur fram að hún sé lögð fram í þeim tilgangi að staðreyna að Landsbanki Íslands hf. hafi verið ógjaldfær í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram og að umdeildar kaupréttarheimildir stefnda hafi af þeim sökum ekki haft nokkurt verðgildi. Fyrirsagnir og matsspurningar voru eftirfarandi:

1) Eigin hlutir og eigið fé Landsbankans – CAD hlutfall

a) Almennt um skilning matsbeiðanda á eigin fé.

1. Geta matsmenn staðreynt hvort eigið fé bankans hafi verið komið niður fyrir lögboðið lágmark í lok júní 2008?

2. Geta matsmenn staðreynt hvort breyting hafi orðið á eigin fé bankans frá hálfsársuppgjöri þann 30. júní 2008 til 16. september 2008?

Við mat á framangreindu er óskað að tekið verði tillit til hvort árshlutauppgjör bankans hafi verið rétt með tilliti til eftirfarandi þátta:

b) Eignarhlutir aflandsfélaga.

1. Geta matsmenn staðreynt hvort aflandsfélögin ættu að vera hluti af reikningsskilum samstæðu bankans og hvort það hafi þau áhrif að draga ætti eigin hluti í eigu þeirra frá eigin fé bankans í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 32.33.

2. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að hlutir aflandsfélaganna ættu að koma til frádráttar eigin fé bankans er óskað eftir mati matsmanna á því hvaða áhrif það hefði á eiginfjárhlutfall bankans í hálfsársuppgjöri bankans 2008.

3. Eins er óskað eftir upplýsingum um það hvort eiginfjárhlutfallið hafi breyst að teknu tilliti til eigin hluta aflandsfélaganna frá hálfsársuppgjöri bankans og til 16. september 2008.

c) Lán til aðila með veði í eigin bréfum.

1. Geta matsmenn staðreynt hvort upplýsingar um veð í eigin bréfum sé að finna í árshlutareikningi 2008?

2. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að ekki séu tilgreind veð í eigin hlutum er óskað eftir mati matsmanna á því hvort þau ættu að koma til frádráttar eigin hlutum í þeirra eigu og því hvort sú háttsemi hafi áhrif á eiginfjárhlutfall bankans í hálfsársuppgjöri bankans 2008.

3. Eins er óskað eftir upplýsingum um það hvort eiginfjárhlutfallið hafi breyst að teknu tilliti til veða í eigin hlutum frá hálfsársuppgjöri bankans og til 16. september 2008.

d) Framvirkir samningar með eigin hluti bankans.

1. Geta matsmenn staðreynt að hlutir sem keyptir voru í þessu skyni [þ.e. til að mæta skuldbindingum bankans og takmarka áhættu hans af framvirkum samningum með eigin bréf] hafi verið í árshlutauppgjöri Landsbanka Íslands hf. í júní 2008?

2. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að þessir hlutir séu ekki tilgreindir sem eigin hlutir, þá er óskað eftir niðurstöðu matsmanna um hvort hlutir þessir hafi átt að teljast eigin hlutir í uppgjörinu og ef svo er hvaða áhrif það hefði haft á eiginfjárhlutfall bankans í árshlutauppgjöri bankans 2008.

3. Eins er óskað eftir upplýsingum um það hvort eiginfjárhlutfallið hafi breyst að teknu tilliti til hluta vegna framvirkra samninga frá árshlutauppgjöri bankans og til 16. september 2008.

2) Gæði útlána

1. Geta matsmenn staðreynt að virði ofangreindra lánahópa [þ.e. til 17 nánar tilgreindra samstæðna] hafi verið ofmeti[ð] í hálfsársuppgjöri Landsbanka Íslands hf. í júní 2008?

2. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að þeir hafi verið ofmetnir [svo] þá er óskað eftir mati á réttu verðmæti sem og áhrifum rangs mats á eiginfjárhlutfall bankans í hálfsársuppgjöri bankans 2008.

3. Eins er óskað eftir upplýsingum um það hvort eiginfjárhlutfallið hafi breyst að teknu tilliti til virðisrýrnunar þessara lána frá hálfsársuppgjöri bankans og til 16. september 2008.

Ef mat á ofangreindum atriðum felur í sér að eiginfjárstaða bankans hafi verið undir 8% þann 30. júní 2008, hvaða áhrif hefði það haft á lánasamninga bankans við lánardrottna og þar með á gjaldfærni bankans í nánustu framtíð, allt að 16. september 2008, að teknu sérstöku tilliti til gjaldfellingarákvæða samninganna?

Með tilliti til framangreinds og að öðru leyti en hér hefur verið reifað ef tekið er mið af fjárhagsstöðu bankans út frá reikningum hans er óskað eftir mati dómkvaddra matsmanan á því hvort bankinn var gjaldfær þann 16. og þann 19. september 2008, þegar hin riftanlega ráðstöfun var samþykkt og framkvæmd, með hliðsjón af þeim spurningum sem hér hafa verið settar fram sem og ytri aðstæðum á fjármálamörkuðum?

Komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að bankinn hafi verið ógjaldfær við árshlutauppgjör 2008 og/eða þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram er óskað eftir að matsmaður leggi mat á hvaða áhrif ógjaldfærni bankans hafi á verðmæti hlutabréfa og þar með kauprétt og kaupauka matsþola.

Við mat á ofangreindum atriðum verður að hafa í huga að Landsbanki Íslands hf. var fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og eiginfjárstaða skal metin á grundvelli þeirra laga sem og á grundvelli laga um hlutafélög nr. 2/1995.“

Í þinghaldinu 7. mars sl. mótmælti stefndi meðal annars dómkvaðningunni sem of seint fram kominni og krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi þar sem þessi gagnaframlagning raskaði grundvelli málsins eins og hann birtist í stefnu.

Munnlegur málflutningur fór fram um ágreiningsefni þessi 14. apríl sl. Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og stefnda dæmdur málskostnaður en til vara að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna. Til þrautavara er þess krafist af hálfu stefnda að við framkvæmd matsgerðar og við mat á þýðingu hennar verði horft til sjónarmiða stefnda í framlagðri greinargerð.

Í þinghaldinu 14. apríl sl. var framlagningu greinargerðar stefnda um matsbeiðnina mótmælt af hálfu stefnanda. Dómari tók þá ákvörðun í þinghaldinu að hafna framlagningu umræddrar greinargerðar þar sem ekki væri við það miðað í lögum nr. 91/1991 að skrifleg greinargerð væri lögð fram um ágreining er lyti að því hvort dómkveðja ætti matsmenn samkvæmt IX. kafla laganna.

Kröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að málið fái efnismeðferð sem og að matsbeiðni stefnanda nái fram að ganga.

II.

Málsatvik

Eins og rakið er í stefnu var Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008 en áður hafði bankanum verið skipuð sérstök skilanefnd á grundvelli 100. gr. a í lögum nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Frestdagur samkvæmt 2. gr. laga nr. 21/1991 vegna greiðslustöðvunar bankans var 15. nóvember 2008, sem er gildistökudagur laga nr. 129/2008, en þau breyttu fyrrgreindum lögum um fjármálafyrirtæki.

Með setningu laga nr. 44/2009, er tóku gildi 22. apríl 2009, hófst slitameðferð bankans og sérstök slitastjórn hans var skipuð 29. apríl 2009. Innköllun til kröfuhafa var birt í Lögbirtingablaði 30. apríl 2009 og sex mánaða kröfulýsingarfrestur rann út við lok dags. 30. október 2009. Fyrsti kröfuhafafundur var haldinn 23. nóvember 2009 en þar mun því hafa verið lýst yfir að sýnt þætti að bankinn gæti ekki efnt skuldbindingar sínar að fullu.

Stefndi mun hafa verið ráðinn í starf bankastjóra Landsbanka Íslands með ráðningarsamningi 27. janúar 1999. Í stefnu og greinargerð er gerð grein fyrir þróun umsaminna starfskjara stefnda, þ. á m. réttar hans til bónusgreiðslna, lífeyrisréttar og kaupréttar í bankanum.

Í málinu liggur fyrir minnisblað um fyrirhuguð starfslok stefnda í september 2007 þar sem meðal annars var vikið að ýmsum fjárhagslegum atriðum. Ekki varð af starfslokum stefnda í umrætt sinn.

Hinn 11. september 2008 var samþykkt sérstök bókun í kjaranefnd Landsbankans um lífeyrisrétt og breytingar á tilhögun kauprétta bankastjóra bankans. Í bókuninni er vísað til samkomulags frá miðju árinu 2007 um starfslok stefnda hjá bankanum. Kemur þar fram að óskað hafi verið eftir því að stefndi héldi áfram störfum í ljósi þeirra aðstæðna sem þá höfðu skapast á fjármálamörkuðum. Síðan segir orðrétt í bókuninni: „Í því samkomulagi sem gert hafði verið var m.a. gert ráð fyrir ákveðnum greiðslum sem tengdust fyrirhuguðum starfslokum, fyrirkomulagi vegna starfa sem ráðgert var að HJK tæki að sér fyrir bankann og samkomulagi vegna uppgjörs á samþykktum en óframkomnum kaupréttarheimildum og vissri jöfnun á kaupréttarheimildum yfirstjórnar bankans. Samkomulag hefur orðið um að fella niður þessa þætti en koma til móts við þá að hluta til með annars vegar greiðslu í séreignarlífeyrissjóð HJK og hins vegar með eingreiðslu. Formanni og varaformanni er falið að semja endanlega við HJK um fjárhæðir og fyrirkomulag þessa.“

Í málinu hefur verið lagt fram minnisblað, dags. 16. september  2008, sem er undirritað af Björgólfi Guðmundssyni, formanni bankaráðs Landsbankans, og Kjartani Gunnarssyni, varaformanni bankaráðsins, til Atla Atlasonar og Hauks Þórs Haraldssonar, sem báðir gegndu starfi framkvæmdastjóra hjá bankanum. Þar var óskað eftir því að 100 milljónir króna yrðu greiddar nú þegar samkvæmt ákvörðun bankaráðsins inn á séreignarsparnað stefnda hjá eignastýringasviði bankans sem og að honum yrði greidd launagreiðsla sem „samsvarar því að nettó greiðsla til ráðstöfunar verði 100 milljónir, þegar skattar, gjöld og annað hefur verið dregið af brúttó fjárhæð launagreiðslu“. Átti stefndi að fá sams konar eingreiðslu launa í byrjun janúar 2009. Tekið var fram að þessi ákvörðun kæmi í stað samkomulags við stefnda frá 23. mars 2007.

Fyrir liggur að 19. september 2008 voru lagðar 100.000.000 króna inn á AH-fjárvörslureikning nr. 0111-26-0570050 vegna séreignarlífeyrissparnaðarsjóðs stefnda á grundvelli framangreinds minnisblaðs. Sama dag voru lagðar 100.000.000 króna inn á bankareikning stefnda nr. 0101-26-150. Samkvæmt launaseðli 1. október 2008 var heildarupphæð umræddrar launagreiðslu 155.569.384 krónur, þ.e. 100.000.000 króna sem fyrirframgreiðsla en eftirstöðvarnar voru staðgreiðsla skatta vegna kaupaukagreiðslunnar. Hinn 6. október 2008 voru af hálfu bankans einnig lagðar 130.334.873 krónur inn á reikning stefnda.

Stefndi sagði upp störfum hjá Landsbanka Íslands hf. 8. október 2008 eftir að bankanum hafði verið skipuð sérstök skilanefnd. Hinn 13. nóvember 2008 endurgreiddi stefndi bankanum 100.000.000 króna. Samkvæmt ódagsettu minnisblaði stefnda til framangreindra framkvæmdastjóra hjá bankanum lýsti stefndi því yfir að hann vildi falla frá launaþætti samkomulagsins frá 16. september 2008 „um annað en lífeyrisþátt“. Í kjölfarið var gerð bakfærsla í bókhaldi bankans á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi af launafjárhæðinni. Þá voru fyrrgreindar 130.334.873 krónur einnig endurgreiddar bankanum 27. nóvember 2008.

Með yfirlýsingu, dags. 14. maí 2010, sem móttekin var af hálfu stefnda 17. sama mánaðar, tilkynnti stefnandi um riftun á þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu Landsbanka Íslands hf. í séreignarlífeyrissparnað á nafni stefnda að fjárhæð 100.000.000 króna og krafðist endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar auk vaxta. Með bréfi lögmanns stefnda 31. sama mánaðar var kröfunni mótmælt.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Ágreiningur málsins snýst um þær 100.000.000 króna sem greiddar voru inn á séreignarlífeyrissparnað stefnda 19. september 2008 samkvæmt fyrrgreindri bókun frá 11. september 2008 og fyrirmælum um greiðslu frá 16. sama mánaðar. Stefnandi reisir kröfur sínar aðallega á því að greiðslan hafi verið umfram skyldu og án gagngjalds og að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verði ekki fallist á það er á því byggt af hálfu stefnanda að skuldbindingar samkvæmt samkomulaginu frá 23. mars 2007 geti ekki hafa verið orðnar virkar fyrr en við starfslok. Því hafi verið greitt fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Að því frágengnu reisir stefnandi riftunarkröfuna á því að um hafi verið að ræða laun eða annað endurgjald sem hafi bersýnilega verið hærra en sanngjarnt hafi verið, sbr. 133. gr. laga nr. 21/1991. Að lokum er vísað til þess í stefnu að umþrætt ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg af hálfu bankans við þær aðstæður sem ríktu, stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa, og að þær séu því riftanlegar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi stefndi þá vitað eða mátt vita að bankinn væri ógjaldfær sem og um þær aðstæður er leiddu til þess að ráðstöfun þessi væri ótilhlýðileg. Fjárkröfuna styður stefnandi við 142. gr. sömu laga og vísar aðallega til þess að um tjónsbætur sé að ræða en til vara að umrædd fjárhæð hafi komið stefnda að notum og að það samsvari tjóni Landsbankans.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Í greinargerð stefnda er málatilbúnaði stefnanda í heild mótmælt. Vísað er til þess að greiðslan hafi verið samningsbundið endurgjald af hálfu bankans fyrir þá ákvörðun að stefnandi héldi áfram störfum og að ekki hafi verið um gjöf að ræða í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991. Hafi krafan verið liður í gagnkvæmu samkomulagi bankans og stefnanda og hafi gjalddagi þess sannanlega verið kominn. Því eigi 134. gr. laga nr. 21/1991 heldur ekki við. Þá geti 133. gr. sömu laga ekki tekið til greiðslunnar m.a. þar sem stefndi sé ekki nákominn stefnanda. Stefndi mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu stefnanda að miðað við fjárhagsstöðu bankans 15. september 2008 hafi greiðslan bersýnilega verið ósanngjörn. Á þeim tíma hafi legið fyrir óháð álit mats- og eftirlitsaðila þar sem því hafi verið haldið fram að fall Lehman Brothers myndi hafa óveruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfi og ólíklegt væri að það myndi hafa áhrif á bankakerfið hér á landi. Þá hafi greiningardeild Landsbanka Íslands hf. komist að sömu niðurstöðu. Þá mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að stefnandi hafi verið ógjaldfær er hann innti greiðsluna af hendi eða hafi orðið það vegna greiðslunnar. Að því frágengnu mótmælir hann því að hann hafi vitað eða mátt vita af ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að rástöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Því geti riftun ekki byggst á 141. gr. laga nr. 21/1991.

3. Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun málsins en ella að dómkvaðningu matsmanna verði hafnað.

Frávísunarkrafa stefnda er á því reist að grundvelli málsins hafi verið raskað með matsbeiðninni og gagnaframlagningu stefnanda í þinghaldinu 7. mars sl. og að matsbeiðnin sé of seint fram komin. Stefndi vísar í því sambandi meðal annars til þess að 102. gr. laga nr. 91/1991 veiti aðeins takmarkaða heimild til að fresta máli vegna gagnaöflunar af hálfu stefnanda auk þess að skírskota til meginreglu í réttarfari um hraða málsmeðferð og útilokunarreglunnar. Hafi stefnandi haft næg tækifæri til að krefjast dómkvaðningar á fyrri stigum en ljóst sé að vinna við umbeðið mat muni taka mjög langan tíma og valda verulegum töfum á meðferð málsins. Þá telur stefndi að í matsbeiðninni felist nýjar málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda. Stefndi vísar í þessu sambandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri að leggja grundvöll að máli í stefnu. Í henni hafi ekki með viðhlítandi hætti verið gerð grein fyrir þeirri málsástæðu að Landsbanki Íslands hf. hafi verið ógjaldfær á umræddu tímamarki. Þar sé í engu vikið að þeim þáttum sem óskað sé mats á, s.s. tengslum CAD-hlutfalls við gjaldfærni bankans og þau atriði sem tilgreind eru í matsbeiðninni sem áhrif hafi á það hlutfall eða ætluðu vanmati á gæðum útlána bankans. Ekki sé hægt að bæta úr þessum annmörkum á stefnu með síðbúinni matsbeiðni. Í stefnu hafi heldur ekki verið áskilinn réttur til að óska dómkvaðningar matsmanna. Þá hafi stefnandi lagt fram í þinghaldinu ýmis gögn sem þjóni engum tilgangi auk þess sem þau séu á ensku en ekki á íslensku. Matsbeiðnin feli enn fremur í sér skriflegan málflutning. Auk þess hafi jafnræði aðila verið raskað við meðferð málsins þar sem honum hafi ekki gefist kostur á að koma að skriflegri greinargerð sinni þar sem tekið sé á efnisatriðum matsbeiðninnar.

Til stuðnings kröfu um að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna vísar stefndi til þess sem að framan greinir um að matsbeiðnin sé of seint fram komin. Þá telur stefndi að skilyrðum IX. kafla laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt til að unnt sé að dómkveðja matsmenn til að meta þau atriði sem fram koma í matsbeiðninni. Tilgangur matsgerðarinnar og matsspurningar lúti að lagaatriðum sem eigi undir mat dómara en ekki matsmanna. Í þessu sambandi bendir stefndi m.a. á að bankinn hafi staðið við allar fjárhagsskuldbindingar sínar allt til 6. október 2008 og því verið gjaldfær í skilningi 64. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi verið í gildi skráð kaupgengi á hlutum í bankanum þegar greiðslan fór fram sem hafi borið að miða við. Endurskoðun á því sé því þýðingarlaus. Þá sé matsbeiðnin óskýr sem og einstakar matsspurningar. Jafnframt vísar stefndi til þess að matið beinist að endurskoðun á einstökum þáttum í árshlutauppgjöri Landsbankans en þyrfti í raun að taka á öllum þáttum í reikningsskilum bankans til að gefa raunsanna mynd af stöðu hans. Stefndi telur enn fremur að við endurskoðun af þessu tagi verði að horfa til aðstæðna þegar reikningsskilin fóru fram. Matið sé tilgangslaust eins og matsbeiðni sé lögð upp auk þess sem óljóst sé á hvaða grunni framkvæma eigi matið.

4. Málsástæður og lagarök stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi mótmælir því að í matsbeiðninni komi fram nýjar málsástæður. Í stefnunni sé m.a. byggt á fjárhagsstöðu Landsbanka Íslands hf. og talið að bankinn hafi verið ógjaldfær þegar stefndi fékk hina umdeildu greiðslu. Þessu hafi stefndi mótmælt í greinargerð og því sé stefnanda nauðsynlegt að nýta sér þær lögmæltu heimildir, sem fyrir hendi séu, til að freista þess að færa sönnur á ógjaldfærni bankans og að kaupréttur stefnda hafi í raun verið verðlaus. Því er mótmælt að matsbeiðnin sé komin fram of seint en ekki sé gerð krafa um það í lögum nr. 91/1991 að áskilnaður komi fram í stefnu um dómkvaðningu matsmanna. Gagnaöflun hafi ekki verið lýst lokið og á grundvelli málsforræðisreglu réttarfars sé ekki unnt að meina stefnanda að óska dómkvaðningarinnar. Ekki sé með matinu ætlunin að færa sönnur á atriði sem bersýnilegt sé að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þvert á móti telur stefnandi að árshlutauppgjörið hafi verið háð miklum annmörkum og eigið fé bankans, sem hafi verið helsta kennitala viðsemjenda hans og kaupenda á hlutum í honum, hafi verið undir lögbundnu lágmarki. Hafi stefndi, sem starfandi bankastjóri, vitað eða mátt vita að markaðurinn hafi ekki haft réttar upplýsingar um stöðu bankans. Með þetta í huga sé ljóst að það skipti stefnanda miklu að geta fært sönnur á þetta með hinu umbeðna mati. Stefnandi beri sönnunarbyrði um ógjaldfærni bankans á þeim tíma sem greiðslan fór fram og ef ekki verður fallist á dómkvaðninguna sé stefnanda ekki gert mögulegt að færa sönnur á það atriði.

Þá mótmælir stefnandi því að matsbeiðnin sé haldin annmörkum sem og að gagnaframlagning hans í þinghaldi 7. mars sl. hafi raskað grundvelli málsins. Umrædd gögn hafi öll þýðingu í málinu að mati stefnanda og ekki sé lagagrundvöllur til að vísa málinu frá þar sem þau hafi komið svona seint fram. Telji dómari þau ekki hafa þýðingu geti það ekki valdið því að vísa beri málinu frá heldur lítur hann þá fram hjá þeim við úrlausn málsins.

IV.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 eru gerðar ákveðnar kröfur til þess sem koma þarf fram í stefnu. Samkvæmt e-lið ákvæðisins verður meðal annars að gera þar grein fyrir þeim málsástæðum sem stefnandi byggir málsókn sína á, sem og öðrum málsatvikum, en jafnframt er tekið fram að sú lýsing verði að vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Þá ber í stefnu að geta helstu gagna sem stefnandi hefur til sönnunar málsástæðum sínum og greina frá þeim gögnum sem hann telur að enn þurfi að afla, sbr. g-lið ákvæðisins. Fyrirmæli þessi sem og ákvæði 95. gr. sömu laga miða að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi dómsmáls með hvaða röksemdum og í meginatriðum á hvaða gögnum stefnandi hyggst styðja kröfur sínar. Þannig á stefnda að vera ljóst af lestri stefnu og fylgigagna hvað sé umdeilt í málinu þannig að hann geti gert upp hug sinn hvort og þá með hvaða rökum hann grípi til varna.

Í stefnu kemur fram að stefnandi reisi málatilbúnað sinn meðal annars á því að réttindi stefnda samkvæmt samkomulaginu frá 23. mars 2007 hafi ekki haft verðgildi þegar hinar umdeildu ráðstafanir fóru fram haustið 2008. Er því teflt fram ásamt öðru sem rök fyrir því að hin umdeilda greiðsla hafi verið gjafagerningur í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Ekki er þó útskýrt á hvaða forsendum stefnandi telur að réttindin hafi ekki haft verðgildi, en óumdeilt er að skráð kaupgengi hluta í bankanum var þá í gildi. Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að greiðslan sé riftanleg samkvæmt 133. gr. sömu laga. Þar er í stefnu vísað til þess að greiðslan hafi bersýnilega verið ósanngjörn meðal annars í ljósi „fjárhagsstöðu Landsbanka Íslands hf.“ án þess að sú staða sé reifuð nánar. Í stefnu er kröfugerð stefnanda enn fremur rökstudd með því að hin umdeilda greiðsla sé riftanleg samkvæmt 141. gr. sömu laga. Í því sambandi telur stefnandi að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg „af hálfu bankans við framangreindar aðstæður sem ríktu þegar þær fóru fram“ og að stefndi „hafi vitað eða mátt vita að bankinn væri ógjaldfær og um þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstafanirnar væru ótilhlýðilegar“. Engin nánari grein er gerð fyrir því á hverju þessar staðhæfingar um fjárhagsstöðu bankans byggjast. Í stefnunni er ekki vikið að því að stefnandi telji þörf á að afla frekari skriflegra gagna, svo sem matsgerðar, undir rekstri málsins, sbr. skilyrði g-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þó áskildi hann sér rétt til að leggja fram frekari gögn og leiða aðila og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar eftir því sem tilefni yrði til.

Rétt er að taka fram að í bréfi lögmanns stefnda til stefnanda 31. maí 2010 var því hafnað að umrædd greiðsla væri riftanleg samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 21/1991 sem vísað hafði verið til í riftunaryfirlýsingu stefnanda 14. maí 2010, þ.e. 131. gr., 133. gr., 134. gr. og 141. gr. laganna. Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að málatilbúnaður stefnanda, að því leyti sem hann er reistur á því að bankinn hafi í raun verið orðinn ógjaldfær þegar hin umdeilda greiðsla var innt af hendi, hafi verið vanreifaður í stefnu, sbr. e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Greinargerð stefnda var lögð fram í þinghaldi 30. nóvember 2010. Þar er meðal annars á því byggt að Landsbanki Íslands hf. hafi verið gjaldfær á umræddu tímamarki eins og áður greinir. Málið var tekið tvívegis fyrir eftir að greinargerð stefnda lá fyrir. Stefnandi fékk þá í bæði skiptin frest til gagnaöflunar með samþykki stefnda, en af hans hálfu var upplýst í þinghöldunum að hann ætlaði að leggja fram í málinu skýrslu frá endurskoðunarfyrirtæki í íslenskri þýðingu sem tekin hefði verið saman vegna slitameðferðar Landsbankans hf. Í þinghaldinu 7. mars 2011 lagði stefnandi fram fyrrgreinda matsbeiðni ásamt ýmsum öðrum gögnum, en ekki framangreinda skýrslu.

Með matsbeiðninni hyggst stefnandi í raun færa sönnur á að reikningsskil bankans á árinu 2008 hafi í veigamiklum atriðum verið röng. Virðist stefnandi telja að stjórnendur bankans hafi á þeim tíma beitt ýmsum rangfærslum í reikningsskilum hans til halda uppi eiginfjárhlutfalli bankans. Hafi það með réttu átt að vera komið niður fyrir lögmælt lágmark þegar árshlutauppgjörið fór fram í júnílok 2008. Hefði það átt að leiða til gjaldfellingar á eftirstöðvum lána frá stærstu lánardrottnum bankans og að lokum til ógjaldfærni bankans mun fyrr en raun varð á.

Þetta eru forsendur sem gefa óljósum staðhæfingum í stefnu um fjárhagsstöðu bankans í september 2008 ákveðið inntak. Í ljósi e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sem vísað var til hér að framan, hefði þurft að gera grein fyrir þessum atriðum í stefnu ef ætlunin var að reisa málatilbúnað stefnanda á þeim. Gat stefndi með engu móti gert sér grein fyrir því af lestri hennar að á því yrði byggt í málinu að eiginfjárhlutfalli bankans hafi verið haldið uppi með rangfærslum í reikningsskilum hans.

Stefnandi virðist með matsbeiðninni, sem lögð var fram rúmum þremur mánuðum eftir að greinargerð stefnda lá fyrir, ætla að bæta úr þessum annmarka á málatilbúnaði sínum með því að freista þess að láta hina umbeðnu matsgerð snúast um framangreind atriði. Heimild IX. kafla laga nr. 91/1991 til að dómkveðja matsmenn undir rekstri dómsmáls kemur til móts við þörf beggja málsaðila til að afla gagna um sérfræðileg atriði sem í ljós kemur undir rekstri máls að færa þurfi sönnur á. Hún veitir stefnanda hins vegar ekki færi á að bæta úr því sem aflaga hefur farið í málatilbúnaði hans, sem eins og fyrr greinir þarf í öllum meginatriðum að liggja fyrir strax í upphafi máls. Viðleitni stefnanda til að bæta úr óljósum málatilbúnaði sínum í stefnu með síðbúinni matsbeiðni og framlagningu gagna stangast að mati dómsins á við meginreglu 95. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og raskar málsgrundvellinum sem lagður var í stefnu. Þegar jafnframt er litið til þess annmarka sem var að þessu leyti á reifun málsástæðna í stefnunni er að mati dómsins rétt að fallast á frávísunarkröfu stefnda.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað. Í ljósi umfangs málsins og reksturs þess fyrir dómi þykir hann hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. 

Af hálfu stefnda flutti málið Friðjón Örn Friðjónsson hrl.

Af hálfu stefnanda flutti málið Pétur Örn Sverrisson hrl. v. Herdísar Hallmarsdóttur hrl.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður um úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefnandi, Landsbanki Íslands hf. í slitameðferð, greiði stefnda, Halldóri Jóni Kristjánssyni, 800.000 krónur í málskostnað.