Hæstiréttur íslands
Mál nr. 676/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. september 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. október 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. september 2016
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur gert þá kröfu að kærði, X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. október 2016, klukkan 16:00, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Kærða var með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 652/2016, sem kveðinn var upp miðvikudaginn 21. september sl., gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 24. september 2016, klukkan 16:00, með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. R-[...], uppkveðnum [...]. september sl., var kærða gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi samkvæmt áðurgreindum dómi Hæstaréttar stæði, með vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. [...], uppkveðunum [...]. september sl., var kærða gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, til miðvikudagsins 28. september 2016, klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglu hafi borist tilkynning frá neyðarlínu klukkan 05:13 aðfaranótt 17. september sl., um slasaðan einstakling með áverka á höfði fyrir utan [...] í Vestmannaeyjum. Við komu lögreglu á vettvang hafi tilkynnandi, B, verið að hlúa að nakinni konu á götunni og hafi konan verið með mikla áverka í andliti og föt hennar legið þar hjá. Brotaþoli, A, kt. [...], hafi verið flutt með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum til aðhlynningar. Þá segir að veitingamaðurinn, C, á veitingastaðnum [...], hafi hringt til lögreglu klukkan 04:39 og tilkynnti að kærði og brotaþoli væru í átökum fyrir utan staðinn. Vegna anna hafi lögregla ekki getað sinnt tilkynningunni. Klukkan 05:45 hafi lögregla farið að heimili kærða og hitt fyrir sambýliskonu hans sem hafi greint lögreglu frá því að ekki væri langt síðan kærði hafi komið heim. Hafi kærði verið handtekinn klukkan 05:50. Kærði hafi blásið í áfengismæli lögreglu sem sýnt hafi 1.20. Kærði hafi kannast við að hafa átt í átökum við kvenmann fyrir utan [...] sem hafi ætlað að valda þar skemmdum og hann því tekið konuna niður.
Fram kemur að lögregla hafi fengið tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun um að búið væri að kalla út þyrlu vegna alvarlegra áverka brotaþola og að flytja ætti brotaþola á LSH til skoðunar. Hafi læknirinn einnig talið að sparkað hafi verið í höfuð brotaþola miðað við þá áverka í andliti. [...].
Þá er í greinargerð lögreglu gerð grein fyrir rannsókn málsins. Þar kemur fram að teknar hafi verið fjórar skýrslu af kærða. Í fyrstu skýrslutöku hafi kærði kannast við að hafa átt í ágreiningi við brotaþola fyrir utan [...] en neitaði frekari átökum. Í tveimur síðari skýrslutökum hafi kærði játað að hafa slegið til brotaþola fyrir utan [...] en neitaði að hafa beitt hana ofbeldi. Í skýrslutökum hafi kærði ekki getað gert grein fyrir þeim áverkum sem hann var með á ristum, vinstri hönd og andliti að öðru leyti en því að hann væri hrakfallabálkur. Þá hafi kærði átt erfitt með að gera grein fyrir ferðum sínum frá þeim tíma sem hann yfirgaf veitingastaðinn [...] þar til hann kom að heimili sínu þar sem hann var eins og áður segir handtekinn klukkan 05:50.
Í greinargerð lögreglu er gerð grein fyrir framburði íbúa að [...], þeirra B, sem fyrst kom að brotaþola, og D, sem lýsti samskiptum við grannan, dökkhærðan og svart skeggjaðan mann með hár greitt frá enninu um klukkan 05:00 þegar vitnið var á leið til vinnu. Taldi vitnið að maðurinn hafi verið í dökkri úlpu eða jakka, gráum eða brúnum að lit. Hafi maðurinn innt vitnið eftir hvort hann hafi séð stelpu og sagt, þegar hann hafi séð stúlku við húsið [...], „þarna er hún“ og farið á eftir stúlkunni.
Í framburði vitnisins B hafi komið fram að þegar vitnið kom út hafi hún séð mann ganga í burtu. Kvað vitnið manninn hafa verið dökkklæddan og verið að reykja. Hafi vitninu fundist mjög skrýtið að sjá mann ganga í burtu frá manneskju sem var augljóslega slösuð. Þá hafi D einnig komið á vettvang og greint frá því að hafa séð brotaþola fyrr um nóttina og þá hafi dökkklæddur maður verið á eftir henni.
Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að vitnin sem hafi séð kærða á vettvangi hafi ekki þekkt manninn. Því hafi þau, þ.e. D og B, auk brotaþola, verið boðuð í myndbendingu, en lögreglustjóra hafi ekki enn borist niðurstöður tæknideildar úr myndbendingunum.
Varðandi ætluð atvik við veitingastaðinn [...] er í greinargerð lögreglu gerð grein fyrir því sem komi fram á upptöku úr eftirlitsmyndavél við [...] gengt veitingastaðnum á sama hátt og í úrskurði dómsins í málinu nr. [...]. Þá kemur fram að aflað hafi verið myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél í anddyri [...]. Þar megi sjá í gegnum útidyrahurð veitingastaðarins að kærði og brotaþoli eiga í átökum fyrir utan staðinn og hvernig kærði hafi slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið með vinstri hendi og að brotaþoli hafi lent á steyptum öskubakka við útidyrahurðina. Einnig kemur fram, að staðfest sé með upptöku úr eftirlitsmyndavél veitingastaðarins, að umrædda nótt hafi kærði hafi verið klæddur í dökka úlpu með hettu, upprenndri, hvítri peysu með víðum kraga, svörtum buxum og grásvörtum strigaskóm.
Þá er í greinargerð lögreglu gerð grein fyrir framburði starfsmanna veitingastaðarins [...], þeirra E og F. Hafi vitnið E greint frá því að plötusnúður á [...], þ.e. F, hafi sagt vitninu að hann hafi séð mann slá konu fyrir utan staðinn. Kvaðst vitnið hafa farið út og séð hvar kærði hafi staðið yfir brotaþola, haldið annarri hönd hennar fyrir aftan bak og hafi brotaþoli verið með bringuna á brún steypts öskubakka sem sé til hliðar við innganginn. Hafi brotaþoli verið grátandi og hafnað sitjandi á jörðinni þegar kærði hafi sleppt henni. Brotaþoli hafi staðið upp og gengið austur [...]. Hafi vitnið lýst atvikum þannig að kærði hafi verið að kvelja brotaþola. Í greinargerð segir að í framburði F komi meðal annars fram að hann hafi heyrt hávaða og öskur frá brotaþola fyrir utan staðinn um klukkan 04:10 til 04:15 og því farið út á svalir til að kanna málið. Þá hafi hann séð brotaþola, G, og kærða fyrir utan staðinn og hafi brotaþoli öskrað á G og kærði verið að reyna að stía þeim í sundur. Hafi vitninu fundist eins og kærði hafi verið að leita að ástæðu til að lemja brotaþola og hafi hann hótað því ef brotaþoli léti G ekki í friði. Síðan hafi kærði beðið brotaþola að koma með sér niður tröppurnar að útidyrahurð staðarins en vitnið þá misst sjónar á þeim og farið aftur inn. Stuttu síðar hafi vitnið farið niður og á salernið í anddyri staðarins. Hafi vitnið séð kærða og brotaþola fyrir utan útidyrahurðina og fylgst með þeim. Þau hafi verið að kasta hvort öðru til og frá og hafi kærði haldið brotaþola. Hafi brotaþoli sagt kærða að hætta og að hún vildi ekki kyssa hann, en kærði svarað. „Hættu þessu“. Þá hafi brotaþoli byrjað að öskra. Kvaðst vitnið þá hafa greint dyravörðum staðarins frá þessu en þeir hafi ekki viljað skipta sér af þessu. Þá hafi vitnið greint frá því að hafa séð kærða slá brotaþola föstu höggi í andlitið þannig að brotaþoli hafi fallið í jörðina. Þá hafi kærði ýtt brotaþola með andlitið ofan í steyptan öskubakka við útidyrahurðina. Kvaðst vitnið þá hafa bankað fast í rúðuna í hurðinni og sagt brotaþola að hætta og dyraverðir staðarins komið að og rætt við kærða og brotaþola, sem hafi verið grátandi. Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að vitnið G muni ekki eftir atvikum umrædda nótt þar sem hann hafi verið mjög ölvaður.
Í greinargerð lögreglustjóra er gerð grein fyrir vottorðum lækna á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Landspítala sem lágu fyrir í báðum fyrri úrskurðum dómsins, þ.e. í málunum nr. [...] og [...]. Þá hafi brotaþoli gengist undir réttarlæknisfræðilega skoðun á neyðarmóttöku Landspítalans. [...].
Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að enn hafi lögreglu ekki tekist að fá greinargóðan framburð frá brotaþola vegna ástands hennar, sem sé í miklu andlegu ójafnvægi. Fram kemur að þegar brotaþoli hafi verið mynduð af lögreglu á sjúkrahúsi hafi hún verið spurð hvað hefði gerst og brotaþoli þá svaraði: „hann kýldi mig og kýldi“. Aðspurð um atburði næturinnar hafi brotaþoli svarað: „hann vildi mig“, en það orðfæri bendi, að mati lögreglustjóra, til þess að um kynferðisbrot hafi verið að ræða. Fram kemur að fatnaður kærða hafi verið sendur til tæknideildar LRH til rannsóknar og við bráðabirgðarannsókn á skóm kærða hafi fundist tveir blóðblettir á vinstri skó, en DNA greining hafi ekki farið fram.
Lögreglustjóri vísar til þess að sterkur grunur leiki á að kærði hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Að mati lögreglustjóra sé kominn fram sterkur grunur um að kærði hafi veist að brotaþola með ofbeldi og að atburðarásin hafi byrjað fyrir utan skemmtistaðinn [...] eftir lokun staðarins um klukkan 04.35 og lokið við [...] klukkan 05.13 aðfaranótt laugardagsins 17. september sl., en á síðargreinda tímanum hafi lögreglu borist tilkynning í gegnum neyðarlínu um allsbera, slasaða konu sem legið hafi á götunni fyrir utan [...], og kærði í framhaldinu handtekinn á heimili sínu klukkan 05:50 umrædda nótt. Telur lögreglustjóri að framangreindar tímasetningar komi heim og saman við að kærði hafi verið ný kominn heim þegar hann hafi verið handtekinn. Kærði hafi farið gangandi frá [...] klukkan 04:44 og vitnið D hafi séð mann sem svari til kærða við [...] fyrir klukkan 05:00, en frá [...] að [...] séu aðeins nokkrir tugir metrar. Þá hafi vitnið B sé mann sem svari til kærða standa yfir brotaþola við [...] um klukkan 05:13. Hafi maðurinn gengið austur að [...], en það komi það heim og saman við framburð kærða og sambýliskonu hans að hann hafi komið að heimili sínu milli klukkan 05:00 og 06:00 umræddan morgun.
Vísar lögreglustjóri til þess að kærði hafi með ofbeldi kýlt brotaþola í andlitið fyrir utan [...] þannig að hún lenti á steyptum öskubakka, haldið annarri hönd hennar fyrir aftan bak og ýtt henni með andlitið ofan í öskubakkann. Þá hafi kærði einnig veitt brotaþola eftirför að [...] og sparkað þar í andlit hennar og líkama, rifið hana úr öllum fötunum og skilið við brotaþola allsbera, liggjandi í sárum sínum úti á götu án bjargar. Auk þess hafi kærði viðhaft kynferðislega tilburði gagnvart brotaþola, gegn hennar vilja. Vísar lögreglustjóri í því sambandi til framburðar vitnis sem hafi heyrt brotaþola, fyrir utan [...], biðja kærða um að hætta og að hún vildi ekki kyssa kærða. Þá hafi brotaþoli verið nakinn út á götu þegar vitni komu að henni á [...]. Einnig hafi brotaþoli svarað þegar lögregla hafi spurt hana út í atburði næturinnar: „Hann vildi mig“. Með vísan til þess telur lögreglustjóri einnig sterkan grun fyrir því að kærði hafi brotið kynferðislega gegn brotaþola, eða eftir atvikum gert tilraun til þess. Þá vísar lögreglustjóri til þess að áverkar sem fram komi í vottorði frá lækni Landspítala, þ.e. að brotaþoli hafi verið með skrapsár yfir hnakka, roða og skrapsár yfir brjósthrygg og roða og eymsli ofarlega á vinstri rasskinn, bendi til þess að brotaþoli hafi legið á grófu og hörðu undirlagi eða staðið upp við grófan vegg og hreyfst fram og til baka. Tekin hafi verið stroksýni frá kynfærum brotaþola en niðurstöður rannsókna á þeim hafi ekki borist lögreglu. Þá hafi bráðabirgðarannsókn á lífsýnum sem fundist hafi í nærbuxum kærða gefið jákvæða svörun við sæðispróf.
Lögreglustjóri vísar einnig til þess að fyrir liggi að kærði hafi verið klæddur í úlpu með hettu, hvíta peysu með víðum kraga, svartar buxur og grásvarta strigaskó sem tveir blóðblettir hafi fundist á. Þá bendi áverkar þeir sem voru á kærða og brotaþola einnig til þess að kærði hafi veist að brotaþola á [...]. Þá hafi Hæstiréttur staðfest, með hliðsjón af framburði vitna og upptökum úr öryggismyndavélum, að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Lögreglustjóri vísar til þess að kærða sé gefið að sök stórfelld líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, vegna alvarlegra áverka brotaþola og hættulegrar aðferðar með því að hafa sparkað í höfuð brotaþola, en brot gegn 2. mgr. 218. gr. varði allt að 16 ára fangelsi. Kærða sé einnig gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa komið brotaþola í það ástand að hún hafi verið án bjargar og að hafa yfirgefið hana í slíku ástandi. Brot gegn 1. mgr. 220. gr. varði allt að 8 ára fangelsi. Þá sé kærða gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr., eða eftir atvikum, 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa haft samræði eða önnur kynferðismök við brotþola með því að beita ofbeldi, eða að brotaþoli hafi ef til vill ekki getað spornað við verknaðinum vegna ástand síns. Brot gegn 194. gr. varði allt frá eins árs til 16 ára fangelsi. Þá geti einnig verið um að ræða tilraun til nauðgunar, sbr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en fyrir tilraun til brots megi dæma lægri refsingu en mælt er um fullframin brot.
Þá telur lögreglustjóri, með vísan til þess sem að framan er rakið, nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagmuna. Telur lögreglustjórinn að kærði sé hættulegur maður og brot hans séu alvarleg, tilefnislaus og beinist gegn saklausu fólki sem verði á vegi hans. Brot ákærða aðfaranótt laugardagsins 17. september sl., séu mjög alvarleg og aðferðirnar hrottalegar. Svo virðist sem að brot kærða umrædda nótt hafi verið að tilefnislausu og að kærði hafi leitað eftir tilefni til að brjóta gegn brotaþola. Vísar lögreglustjóri í þessu sambandi til framburðar vitnisins F. Loks er að því vikið að lögreglan hafi til rannsóknar annað brot kærða, þ.e. rán aðfaranótt laugardagsins 18. mars sl. Það brot hafi einnig beinst gegn saklausum manni sem hafi orðið á vegi kærða á leiðinni heim af skemmtistaðnum [...]. Kærði hafi farið með manninn í hraðbanka til að taka út pening. Á myndbandi megi sjá kærða og manninn í anddyri [...] í Vestmannaeyjum þar sem þeir hafi dvalið í um 30 mínútur. Kærði hafi ekki hleypt manninum út og gengið hart að honum í að taka út pening sem maðurinn hafi ítrekað reynt en án árangurs. Þegar út úr bankanum var komið hafi kærði slegið manninn í hnakkann, maðurinn fallið í jörðina og kærði þá tekið seðlaveski mannsins sem í hafi verið 20-30.000 krónur, en maðurinn Brotaþoli hlaupið í burtu og falið sig í skurði enda mjög hræddur við kærða.
Niðurstaða
Krafa lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðahaldi er reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a-d- liðar 1. mgr. 95. gr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Kærði er sakaður um brot gegn 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 220. gr., 1. mgr. eða 2. mgr. 194. gr., til vara 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 653/2016 er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot gegn 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fangelsisrefsing er lögð við. Í áverkavottorði Landspítala Háskólasjúkrahúss kemur fram að brotaþoli hafi verið með roða og skrapsár yfir brjósthrygg, roða og eymsli ofarlega á vinstri rasskinn og roða og merki um álag á húð á báðum hnjám en ekki húðrof. Þá hafi verið mikil bólga yfir augum brotaþola, skurður yfir augabrún, sem saumaður hafi verið með fimm sporum, skrapsár yfir hnakka og brot í orbitabotni hægra megin, þ.e. í augnbotni. [...] Kærði neitar sök, en hefur viðurkennt að hafa tekið brotaþola niður fyrir fram inngang [...] og haldið henni, eins og kærði orðaði það.
Kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli almanna hagsmuna byggir lögreglustjóri á því að eftir að atlögu kærða gegn brotaþola fyrir utan veitingastaðinn [...] lauk, hafi kærði veitt brotaþola eftirför að [...] og sparkað þar í andlit hennar og líkama, rifið hana úr öllum fötunum og skilið við hana alsbera liggjandi í sárum sínum út á götu án bjargar, auk þess að hafa verið með kynferðislega tilburði við brotaþola við [...], gegn hennar vilja, samkvæmt framburði vitnis. Þá vísar lögreglustjóri til þess að kærði hafi haft samræði eða önnur kynferðismök við brotaþola með því að beita hana ofbeldi, sem brotaþoli hafi e.t.v. ekki getað spornað við vegna ástands síns. Vísar lögreglustjóri í þessu sambandi til eftirfarandi svars brotaþola, þegar lögregla hafi spurt hana út í atburði næturinnar, „hann vildi mig“. Telur lögreglustjóri að með framangreindri háttsemi hafi kærði gerst brotlegur gegn 2. mgr. 218. gr. , 1. mgr. 220. gr. og 1. mgr. eða 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, til vara 194. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.
Kærði er eins og áður greinir sakaður um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sem varðar fangelsi allt að sextán árum ef stórfellt líkams- eða heilsutjón hlýst af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ.á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu. Af gögnum málsins og dómafordæmum Hæstaréttar varðandi skil á milli 1. mgr. og 2. mgr. 218. gr. áðurnefnda laga, verður ekki ráðið að fullnægt sé því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Kærða er einnig gefið að sök hættu- og kynferðisbrot gegn brotaþola eftir að kærði og brotaþoli yfirgáfu veitingastaðinn [...]. Samkvæmt upplýsingum fulltrúa lögreglustjóra í þinghaldi í máli þessu liggja fyrir niðurstöður sakbendinga sem vitni og brotaþoli tóku þátt í, þ.e. svokallaðra myndbendinga, sem fram hafi farið 22. september sl. Samkvæmt þeim hafi brotaþoli ekki borið kennsl á kærða við myndbendingu. Þá hafi hvorki vitni, sem tilkynnti um brotaþola á [...] og lýsti því að hafa séð til manns yfirgefa vettvang, né vitni sem um klukkan 05:00 umrædda nótt ræddi við mann á [...], borið kennsl á kærða við myndbendingar. Engin vitni eru að hinni ætluðu atlögu kærða gegn brotaþola eftir að hún yfirgaf [...] og framburður brotaþola liggur ekki fyrir. Kærði var ekki handtekinn á ætluðum brotavettvangi á [...] heldur þrjátíu og sjömínútum eftir að tilkynning barst lögreglu í gegnum neyðarlínu. Ekkert nýtt hefur komið fram við rannsókn málsins frá því kærði var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald þann 24. september sl., en rannsókn málsins hefur nú staðið yfir í tólf daga. Eins og mál þetta liggur fyrir er hvorki fullnægt því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að sterkur grunur leiki á að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. eða 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en til vara gegn sömu lagagrein, sbr. 20. gr. laganna, né 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem brot gegn síðastnefnda lagaákvæðinu fullnægir ekki skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að sterkur grunur leiki á að framið hafi verið afbrot sem að lögum getur varðað tíu ára fangelsi. Því ber að hafna kröfu lögreglustjóra.
Ragnheiður Thorlacius settur dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hafnað er kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að kærði, X, skuli sæta gæsluvarðhaldi.