Hæstiréttur íslands
Mál nr. 466/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 3. ágúst 2010. |
|
Nr. 466/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Jón Sigfús Sigurjónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 25. ágúst 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 28. júlí 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, til að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 25. ágúst nk. kl. 16.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær kl. 16:04 hafi lögreglu borist tilkynning um yfirstandandi innbrot á [...]stræti [...] í Reykjavík. Búið hafi verið að brjóta rúðu í svalahurð sem sé í porti baka til. Grjót hafi verið þar fyrir innan sem notað hafi verið til að brjóta rúðuna. Úr íbúðinni hafi meðal annars verið stolið fartölvu og farsíma.
Í tilkynningunni hafi komið fram að vitni væri á staðnum og hefði auga með innbrotsaðilanum. Á leið lögreglu á staðinn hafi borist þær upplýsingar að maðurinn væri á [...]stíg. Þegar þangað hafi verið komið hafi lögregla hitt fyrir A, vitni og tilkynnanda, og hafi hann haldið á fartölvutösku. Hafi hann sagst hafa misst sjónar af manninum sem hafi horfið niður [...]stíg. Hafi A sagt að maðurinn hefði verið með umrædda tölvutösku sem í hafi verið fartölva. Hafi A náð fartölvutöskunni af manninum sem hlaupið hafi af vettvangi er A hafi sagt honum að lögreglan væri á leiðinni. Hafi A sagt manninn vera mjóleitan, rauðhærðan, í íþróttabuxum með hvítum röndum á hliðinni og um 180 cm á hæð.
Þessar upplýsingar hafi verið kynntar útivinnandi lögreglumönnum sem hafi svipast um í nágrenninu eftir manninum. Skömmu síðar hafi kærði verið handtekinn þar sem hann sat hulinn gróðri við [...]stíg [...]. Í hægri sokk hans hafi verið silfur-armbandsúr. Þá hafi verið mikið af smámynnt við fætur hans í moldinni og blátt glas skammt frá. Innan um smámyntina hafi verið sjómannadagsnæla. Húsráðandi að [...]stræti hafi móttekið ofangreinda muni sem hann hafi þekkt sem sína.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði játað að hafa brotist inn í húsnæðið við [...]stræti [...] í Reykjavík og stolið þaðan fartölvu og farsíma.
Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um aðild að eftirfarandi 10 auðgunarbrotum sem framin hafi verið í júní og júlí 2010:
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa mánudaginn 26. júlí brotist inn í íbúðarhús við [...] [...] í Reykjavík, með því að kasta gangstéttarhellu inn um rúðu á bakhurð, og stolið þaðan reiðufé og skartgripum. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök. Teljist þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um fjársvik, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 26. júlí fengið B, leigubifreiðastjóra, til þess að aka með sig um götur Reykjavíkur og að [...]höfða [...] í Reykjavík án þess að geta greitt ökugjaldið, 3.000 krónur. Við yfirheyrslu hafi kærði sagst hafa átt að fá pening á staðnum frá manni sem hann hafi ekki getað nafngreint. Teljist þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 22. júlí farið inn á skrifstofu Bókaútgáfunnar [...], [...][...] í Reykjavík, og stolið þaðan farsíma og veski sem innihélt m.a. greiðslukort. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað þjófnaðinum. Úr farsímanum hafi verið hringt fjórum sinnum fljótlega eftir þjófnaðinn og hafi móttakandi eins símtalsins borið hjá lögreglu og kærði hafi hringt í sig í umrætt sinn. Ennfremur hafi lögregla undir höndum myndir af kærða við hraðbankann við Hlemm þar sem eitt stolnu greiðslukortanna hafi verið notað. Teljist þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 22. júlí, stolið 40.000 krónum í reiðufé af bankareikningi í eigu C, með því að taka 20.000 krónur út úr hraðbönkum við Hlemm og Laugaveg í Reykjavík. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök. Í málinu liggi fyrir myndir af kærða við hraðbankann á Hlemmi. Teljist þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um fjársvik, með því að hafa fimmtudaginn 15. júlí, í afgreiðslu BYR við Borgartún 18 í Reykjavík, framvísað stolnu greiðslukorti og þannig blekkt gjaldkera til að afhenda sér 50.000 krónur sem kærði hafi tekið út af bankareikningi eiganda greiðslukortsins. Við yfirheyrslu hafi kærði borið við minnisleysi. Í málinu liggi fyrir myndir af kærða við verknaðinn. Teljist þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 29. júní brotist inn á heimili við [...] [...] í Hafnarfirði og stolið þaðan dömuúri og tveimur farsímum, og í framhaldi farið inn á starfsmannaaðstöðu veitingastaðs við [...]stíg [...] í Hafnarfirði og stolið þaðan kveikiláslyklum af bifreiðinni [...] sem hann hafi í kjölfarið farið inn í og rótað í þeim tilgangi að finna verðmæti. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök. Teljist þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa föstudaginn 25. júní farið inn á skrifstofu hússins [...] við [...]götu í Reykjavík og stolið þaðan gsm farsíma og 1.000 kr. í reiðufé af starfsmanni. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök. Teljist þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður húsbrot, með því að hafa fimmtudaginn 24. júní, í heimildarleysi, farið inn í íbúð við [...]hlíð [...] í Reykjavík. Hafi húsráðendur komið að kærða sem í kjölfarið hafi horfið á braut. Hafi húsráðandi gefið greinargóða lýsingu á gerandanum og lýst honum sem mjóleitum í framan, klæddur svörtum jogging buxum, dökkri yfirhöfn og með stutta klippingu. Er lögregla var á leiðinni á vettvang, hafi hún séð kærða á gatnamótum [...]hlíðar og [...]hlíðar þar sem hann hafi verið að stökkva yfir girðingu til að forðast að lögregla myndi verða hans vör. Lýsing húsráðanda á meintum geranda hafi komið heim og saman við kærða og hafi hann því verið handtekinn. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök. Teljist þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 15. júní, í félagi við D og E, í versluninni [...] í Kringlunni, Reykjavík, stolið úlpu og peysu, hvoru tveggja af gerðinni [...]. Öryggisvörður í Kringlunni hafi tjáð lögreglu að grunuðu hefðu gengið út með hvítan poka áður en lögregla hafi komið og handtekið þau. Hafi lögregla leitað pokans sem fundist hafi hjá húsnæði [...], en í honum hafi verið köflótt [...] úlpa og bleik hrörleg hettupeysa. Þá hafi verð leitað á grunuðu og í vasa kærða hafi fundist verðmiði merktur [...], en [...] selji [...], og hafi staðið á verðmiðanum kr. 15.990. Aðspurður hafi kærði ekki sagst muna hvernig verðmiðinn hefði komst í vörslur hans. Við leit á meðkærðu, D, hafi komið í ljós að hún væri klædd í nýlega [...] hettupeysu, sem hafi verð peysan sem saknað hafi verið úr verslun [...]. Teljist þetta varða 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
Mál nr. [...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 8. júní, í félagi við F, í verslun [...], Laugavegi [...] í Reykjavík, stolið sokkabuxum og ilmvatni. Við yfirheyrslu yfir meðkærðu hafi hún sagst hafa farið með kærða þangað inn til að draga athygli frá honum meðan hann væri að stela vörunum. Hún kvað kærða hafa beðið sig um þetta því honum vantaði pening fyrir Rídalíni. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök. Í málinu liggi fyrir myndbandsupptaka úr versluninni þar sem kærði sjáist setja vörur í tösku sem hann hafi haft meðferðis. Teljist þetta varða 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
Kemur fram í greinargerð lögreglustjóra að brotaferill kærða hafi verið samfelldur frá byrjun júní og fram til dagsins í gær en hann hafi verið handtekinn. Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu vímuefna. Við yfirheyrslu hafi kærði sagst vera án atvinnu en þiggja bætur. Virðist því sem kærði framfleyti sér með afbrotum.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum er kærði grunaður um aðild að ellefu auðgunarbrotum sem framin hafa verið á tímabilinu 8. júní s.l. til dagsins í gær er hann var handtekinn. Hefur hann í skýrslu hjá lögreglu viðurkennt aðild að tveim þeirra en nú neitað alfarið sök varðandi þessi brot. Verða gögn málsins metin svo að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá verður með vísan til rannsóknargagna fallist á það með lögreglu að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Þykja því skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Greta Baldursdóttir kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 25. ágúst nk. kl. 16.